Færsluflokkur: Dægurmál

Það er Frost í Helvíti.

 

rússnenska stafrófið.Ég hef sennilega þótt afar undarlegur unglingur.  Ég notaði hluta fermingarpeninganna minna til að kaupa Lingaphone-námskeið í Rússnensku og lá svo yfir því löngum stundum; æfði mig í að spyrja hvar salernið væri og hvar sporvagninn stoppaði.  Maður varð að láta sem maður væri frostbitinn og dofinn í vöngum, láta orðin myndast í hóstakirtlunum eða efst í brjóstinu, til að framburðurinn yrði sannfærandi.  Jablaka: Epli; Kníga: Bók; Morosnóe: Rjómaís.

Letrið virtist eins og rúnir við fyrstu sýn, en svo sá maður að í flestum tilfellum var aðeins búið að víxla táknum, þá var lítið mál að lesa.  P var R, X var H og C var S.  Esshljóðin voru þarna fyrirferðamest og áttu þau flest tákn fyrir misjöfn blæbrigði þessa hljóðs.  R í spegilskrift var Ja og N í spegilskrift var Í og H var N.  Svo var Grískum bókstöfum hrært þarna saman við eins og Lamda, Gamma og Pí.  Þetta var einskonar dulmál á að líta.  Ég hafði oft gert dulmál fyrir leynifélögin okkar strákanna.  Svarta Höndin átti sitt og Silfurkúpan annað, svo þetta var ekki algerlega framandi fyrir mér..

lærdómurÞetta var skemmtileg stúdía, en ég hef ekki hugmynd um hvers vegna þetta fangaði áhuga minn.  Líklegast var þó að Nágranni minn Helgi, hafi haft áhrif þar á.  Hann var mikill kommi og prófessor í fornslavneskum sögnum, giftur Rússneskri konu, Dínu og kenndi við menntaskólann.  Ég hafði fengið ævintýraplötuna Brémenskí Músikantí lánaða hjá honum og reyndi að ráða í hvað sagt var í söngvunum.  Gítarogí, Ibbítúk-voru greinilega gítar og hani.  Helgi og pabbi rifust stundum um kommúnismann yfir glasi og var oft fjör í því karpi, hnefar í borðum og hoppandi glös, þó sérstaklega ef Jón Baldvin var með.  Hann bjó jú í sama húsi og Helgi auk Guðjóns Friðrikssonar Reykjavíkursagnfræðings. Gáfur þessara manna heilluðu mig.  Heimsborgarabragurinn og leðurbættu flauelsjakkarnir, pípurnar og eiginleikar þeirra til að glíma við lífið í stærra samhengi en laut að veðri og fiskveiðum, fyllti mig löngun til að kanna andans víðfeðmu lendur. 

lagginnEkki hafði ég nokkurn grun um að þessi lærdómur myndi nýtast mér, hvað þá aðeins ári síðar. Þetta var eins og einhverskonar forvitrun.  Bárður frændi minn og Einar æskufélagi minn, sem voru árinu eldri, fóru í siglingu með Hofsjökli og sögðu mikil ævintýri af sér þegar heim kom.  Ég vildi reyna þetta líka og munstraði mig á Lagarfoss gamla, sem var miðbyggður kláfur með stórum strompi eins og skipin í Tinnabókunum.  Hann var orðinn gamall og úreltur; hnoðaður saman en ekki rafsoðinn.  Skip af sömu kynslóð og gamli Gullfoss.

Það vakti undarlegan fiðring í maganum að sjá Ísland sökkva í kjölsogið.  Eftirvænting, söknuður, óvissa.   Ég hafði aldrei út fyrir landsteinana komið.  Ekki lengra en að stikla út á steina í flæðarmálinu heima.  Fjölskyldan hafði jú farið til Mallorca, en ég kaus að vera heima og fann enga freistingu í því að upplifa það sama og allir aðrir höfðu upplifað. Grísaveisla, sangría, matareitrun og hellaferðir. Ó, nei, ekki hugsuðurinn ég.  Ég fyrirleit alla slíka hjarðhegðun og kúldraðist í forinni heima, hlúði að fyrstu spírum alkóhólismans og samdi ljóð um tilgangsleysi allra hluta.

múrmansk í dagÉg var smyrjari í vél ásamt Dodda nokkrum.  Við urðum bestu kunningjar og skottuðumst með koppafeiti um vélarúmið og smurðum á koppa eða bensínþrifum vélarhluti.  Það var mikilfenglegt þarna niðri.  Risastórir strokkar og sveifar sem bulluðu og sprautuðu olíu um allt.  Ég trúði varla stærðinni á þessu.  Við skautuðum fram og aftur um stálgólfin eins og skautahlauparar þegar veltingurinn var sem mestur og vorum alsælir með starfið.   Lagarfoss var stéttskipt skip með afbrigðum.  Við Doddi vorum með sér messagutta, sem þjónaði okkur tveim til borðs.  Svo var vélamessi fyrir vélstjóra, yfirmannamessi, hásetamessi, restrasjón og sér “Pláss” fyrir skipstjóra og fyrsta vélstjóra.  Það var ríkmannlegur salur, sem hefði getað rúmað alla áhöfnina.  Þar höfðu þeir þjónustustúlku og svo höfðu þeir þernu að auki, til að þrífa undan sér.  Lagginn var líka farþegaskip því þar voru nokkrir farþegaklefar, en aldrei man ég þó eftir farþega um borð.  Það var víst liðin tíð að spjátrungar, menntamenn og skáld sigldu með fragtskipum á milli landa.

Þeir sem lægst voru settir, sváfu aftur í “hundakofa”, sem var smályfting aftast á skipinu, með eins manns klefum, sem fullir voru af kakkalökkum, svo það snarkaði undan fótum manns ef maður gleymdi að kveikja ljósið áður en farið var úr koju.

höfnin í múrmanskFyrsti áfangastaðurinn var Múrmansk.  Nyrsta nárassgat, sem siglt var til.  Það var hálfgert sjokk að koma þangað.  Maður sá reykjarmökkinn yfir borginni löngu áður en hún kom í ljós.  Meðfram innsiglingunni voru sokkin skip og afvelta kafbátar frá heimstyrjöldinni eins og þarna hafi orðið stórorrusta.  Þetta var eins og að sigla inn í fordyri helvítis.  Gamlir kafbátar voru enn að dugga um höfnina og allar manneskjur voru dúðaðar í sömu langsaumuðu gráu vattflíkurnar, hnípnar og gleðisnauðar að sjá.  Ég minnist þess ekki að hafa séð nokkurn mann brosa í þessari borg.  Þarna var enga sögu að sjá, aðeins grængráar blokkir meðfram breiðstrætum, sem skáru borgina í einangruð hverfi, ekki ólíkt austurborg Reykjavíkur.  Enga aðra borg hef ég séð minna meira á Múrmansk, hvað skipulag varðar. 

illmennið LeninÞað voru þó fáir bílar þarna.  Aðalega risastórir trukkar með seglyfirbreiðslum og dapurlegir strætisvagnar með gormhlykk í miðju.  Einn og einn Rússajeppi skottaðist hjá eða Moskowitch með dularfullum mönnum í leðurhöttum.  Yfirleitt voru þeir fullsetnir eins og að glæpafjölskylda í gamanmynd væri í sunnudagsbíltúr.  Í allri þessari stóru borg sást nánast enginn fótgangandi. Flestir voru hermenn með kaskeiti, sem voru fáránlega stór og ýkjuleg eins og í farsa eftir Daríó Fó.  Frostið smeygði sínum köldu krumlum inn að beini og vonleysið fyllti lungu manns í hverjum andardrætti.  Þetta var hið sannkallaða helvíti.  Og það var frost í helvíti, það get ég borið.

Vænisýki kaldastríðsins var alsráðandi þarna og fólk fór undan í flæmingi ef maður yrti á það á ensku.  Þetta var höfuðborg óttans og niðurlægingarinnar.  Við skipuðum upp freðnum fiskblokkum . Ef kassi datt í sundur, þá hvarf hann á augabragði inn á kvið verkamannanna.  Við máttum ekki fara með myndavélar í land og hermenn tóku passann af okkur í skiptum fyrir sérstakan landgöngupassa.  Ekkert var hægt að fara nema á sjómannaheimilið og þar gátum við drukkið vestrænar veigar án þess að vera spurðir um aldur.  Þarna ægði saman rumpulýð af öllum þjóðernum.  “Jú from Æland? Me from Æland too, Christmas Æland. Captain Cook. Yes?”

usssÞarna var ég tekinn afsíðis af alvörugefnum manni, sem vildi fræða mig um Lenín og hina stórkostlegu byltingu.  Hann gaf mér fullt af bókum um hamingjulandið, en eitthvað tómahljóð var í sannfæringu hans.  Orð hans voru líka í hrópandi mótsögn við það sem fyrir augu bar.  Ég skildi ekki kommúnisma frekar en Krúsjoff, en í ævisögu sonar hans er sagt að Krússjoff hafi aldrei getað útskýrt þessa hugmyndafræði fyrir syni sínum og farið undan á flæmingi er hann var spurður.  Allt var vont í Rússlandi nema heitt brauðið, sem við fengum um borð.  Af því var sterkt gerbragð en það var gott svona heitt og ferskt.  Súkkulaðið var eins og kakó steypt í tólg, límonaðið smakkaðist eins og safi af niðursoðnum perum og sígaretturnar höfðu sæta angan sem minnti á blöndu af súrheyi, brunnu gúmmíi og táfýlu.  Allt Rússland bar þennan sætsúra, velgjukennda fnyk.

Utan við sjómannaheimilið voru “Bísarnir”.  Það voru svartamarkaðsbraskarar, sem vildu kaupa Ameríkanskí sígarettskí,  Tjúíng gömm og munað eins og gamlar gallabuxur, skó, varaliti.  Sumir voru svo djarfir að spyrja um vestræna tónlist með mikilli leynd. “Jú xeve Júría Xeep? Easy living, yes?”  Þetta voru miklir töffarar á sína landsvísu en Guð minn góður hvað okkur fannst þeir sorglega hallærislegir í allt of stuttum gallabuxum, slitnum bítlaskóm og leðurjökkum, sem stóðu þeim á beini.   Lögreglan sveimaði þarna í kring á gulum og bláum Rússajeppum en lét þessa verslun að mestu óáreitta.  Óttinn leyndi sér þó ekki hjá bísunum og stundum hurfu þeir sí svona eins og jörðin hafi gleypt þá.  Lögreglan reyndi stundum að leggja fyrir okkur snörur.  Eitt sinn stoppuðu þeir okkur og spurðu: “Pornógrafía?”  Við könnuðumst ekkert við slíkt.  Þá drógu þeir upp snjáða mynd af konu í sundbol með höndina eggjandi aftur fyrir hnakka.  Þetta var ekki ólíkt ilmspjöldunum, sem svo lengi voru hvimleið í leigubílum hér.  Við gátum ekki annað en brosað.  “No pornografía, sorry.”  Þetta spjald var sennilega opinber tálbeita, sem þeim var úthlutað frá flokkstjórninni til að stemma stigu við vestrænni úrkynjun í þessari háborg menningarinnar í norðri.

byltingin og börnin hennarÉg var feginn þegar Múrmansk hvarf aftur í mengunarmistrið og íshafið blasti við stafni.  Mér var ljóst í mínum unga huga að hér hafði verið framinn stórfenglegur glæpur.  Byltingin, sem raupsamir sparikommar uppi á Íslandi rómuðu í söngvum sínum, gaf engin fyrirheit um slíkar hörmungar.  “Sjá roðann í austri!”  Sungu þeir í blindri fáfræði. Það var augljóst á öllu að þeir höfðu annað hvort ekki komið til Sovétríkjanna, eða þá að þeir höfðu verið teknir í sightseeing að hætti flokkselítunnar og setið veislur Nómenkladíunnar, sem var viðurkennd forréttindastétt. 

rússabarnÞað að taka eignarétt af fólki varð til þess að drepa lífsvilja þess og áhuga til vaxtar.   Marx og Engels höfðu gert regin feil í hugmyndafræði sinni þar.  Það er með öllu óskiljanlegt hvernig þessi menntuðu gáfumenni gátu ímyndað sér að hægt væri að afnema einstaklingseðlið, persónufrelsið og steypa fólk í eitt allsherjarmót vélrænna þegna, með hugmyndafræðilegu pennastriki.  Það sást í dauðum augnaráðum fólksins í Múrmansk.  Þessir Gyðinglegu dekurdrengir frá þýskalandi, sem sáu fyrir sér nýja herleiðingu heimsins til hins fyrirheitna lands samneyslunnar, höfðu vogað sér í menntahroka sínum og sjálfhverfu að það væri vert að láta á slíkar hugmyndir reyna án tillits til fórnarkostnaðar samborgara sinna.  Þeir eiga alla mína fyrirlitningu skilið. 

Að vísu var kommúnisminn skrumskældur í Sovétríkjunum eins og allstaðar annarstaðar.  Það þýðir ekki, eins og margir segja,  að þetta sé góð hugsjón í raun,  væri henni fylgt í hörgul.  Það er aumkunarverð fáfræði.  Skrumskælingin átti sér stað vegna þess að það var ekki hægt að fylgja henni í hörgul.  Hugsjónin fól í sér grundvallar yfirsjón, sem er hið óútreiknanlega mannlega eðli.   Fyrir það létu 50 milljónir manna lífið í Sovétríkjunum einum og eru enn að deyja í dag. 

 

Framhald þessarar sögu birti ég svo síðar.


Mann-virkið.

mannvirki 2Ég hef verið að hugleiða streitu og áhrif hennar á okkur. Ég hef enga læknismenntun en apparatið maður er eitt af mínum mörgu áhugasviðum.  Til að draga saman skilning minn á streitu langar mig að segja litla dæmisögu.

Hugsum okkur miðaldarvirki með vígalegum virkisgarði, sem ætlað er að verja íbúana fyrir utanaðkomandi árásum.  Þetta virki er undir eðlilegum kringumstæðum vaktað af nokkrum vörðum, sem spígspora fram og aftur um vegginn og standa vörð við hliðið.  Þeir athuga gaumgæfilega þá, sem koma utan að og vilja inn, skjóta jafnvel á aðra, sem ekki sýnast friðsamlegir.  Á góðum degi eru verðirnir tiltölulega fáir og afslappaðir.  Sumir dotta jafnvel á verðinum.

varnirÍ miðju kastalans býr leiðtoginn við tiltölulega gott atlæti.  Aðbúnaður hans er betri og þurftafrekari en hjá öllum öðrum enda mikilvægt að hann sé í jafnvægi og líði vel.   Hann á sér nokkra dygga þjóna og ráðgjafa sem hann treystir.  Hann metur og vegur allt, sem honum berst og tekur ákvarðanir um hvernig bregðast skuli við.   Leiðtoginn vakir yfir öllu og reynir að stýra hjá misklíðum á skynsaman máta og stjórna samfélagi sínu af réttlæti.  Hann er vel liðinn og vitur og fólkið treystir honum þótt hann taki stundum afar hart á því, sem raskar jafnvægi samfélagsins.  Hann þjónar fólkinu og fólkið þjónar honum.

mannvirkiSamfélag fólksins er á milli virkisveggjar og kastala. Það virðist margþætt og flókið en er það í raun ekki.  Hver hefur sitt svið til lífsviðurværis og sinnir því af dyggð.  Menn rækta og halda dýr, vefa, smíða og hreinsa göturnar, svo eitthvað sé nefnt.  Hvert starf er einhverskonar gildi, þar sem börnum eru kennd störf foreldranna og taka við af þeim, eins og var á miðöldum.  Allir hafa nóg að bíta og brenna.  Vatn er sótt í á , sem rennur skammt frá og eldiviður fenginn í skógi rétt utan við virkið.  Án þessa og akurræktar, væri lífið allsendis ómögulegt.

Einn daginn, fóru leiðtoganum að berast fréttir um allskonar aðsteðjandi ógnir með sögumönnum utan úr heimi.  Óljósir höfðingjar sátu um að ráðast á virkið.  Hamfaravetri var spáð og stormum.  Menn sátu um að brenna skógana og akrana, menga eða stífla ánna og taka frá þeim lífsviðurværið.

Ekkert var þó að sjá utan virkisveggjanna, sem benti til þessarar utanaðkomandi árásar,  en ef menn sáu reyk eða jóreyk í fjarska, var því ávallt tekið sem hugsanlegu merki um að óvinurinn væri að draga sig að.  Leiðtoginn var undir þrýstingi ráðgjafanna um að gera eitthvað í málunum, svo hann setti alla vinnufæra menn í að styrkja virkisveggina og raðaði þeim öxl í öxl á virkismúrinn til að vakta óvininn.  Allir sem þurftu út fyrir múrinn til að afla nauðsynja höfðu með sér hóp varða til að gæta þeirra. 

montyverðirÞað varð stigvaxandi uppnám og innan múrsins, enda varð mikið rask á samfélaginu. Varðsveitirnar voru þurftafrekar og skiluðu engu til baka í samfélagið öðru en að gæta öryggis.  Vinnuálag jókst á konur og börn og þeir fáu, sem sáu um nauðþurftir voru störfum hlaðnir.  Fólk varð örmagna undan þessu álagi og sumir risu gegn ástandinu,  en voru bældir niður af hörku.  Virkið varð að verja hvað sem tautaði og raulaði og þjóðin þurfti að færa fórnir til þess.

Börnin komust illa á legg og sultur svarf að alþýðunni, því varðsveitirnar heimtuðu allt og liðu engar umkvartanir.  Leiðtoginn fór meira að segja að finna fyrir skorti.  Hirðusemi sat á hakanum og sorpið safnaðist upp til betri tíma.  Öflun nauðþurfta varð hægari og óskilvísari, enda var aðeins brot þjóðarinnar að sinna því og nánast að örmagnast.  Fólk veiktist og dó og margar iðnir sem sáu um innri uppbyggingu, lögðust nánast niður. Mikið efni og mannafl fór í að styrkja múrinn og það var frá fólkinu tekið án endurgjalds.

mannslíkaminnSkortur varð á eldivið og mat og fór fólkið að brenna húsmuni sér til hita og borða húsdýr sín, sem gáfu nauðsynlegar afurðir af sér áður.  Loks urðu uppreisnir og sundrung innan múrsins og varðliðarnir snerust gegn eigin samborgurum í því að reyna að stilla til friðar.   Fólkið hataðist við leiðtogann og stjórn hans liðaðist sundur í óeiningu.  Hann einangraði sig af ótta við tilræði og lifði á vatni og brauði, sem honum var fært af  þeim fáu, sem hann treysti.  Ekki leið á löngu, þar til ríki þetta leið undir lok.  Ógnirnar utanaðkomandi reyndust þó munnmæli ein í ljósi sögunnar.

Vörnum mannslíkamans er svipað háttað.  Við höfum tvískipt taugakerfi, (sjálfrátt og ósjálfrátt), sem stjórnast af heilanum eftir skynjun hans. Ósjálfráða kerfið skiptist Sympathetic og Para-sympathetic kerfi.   Para-Sympatíska kerfið ("Rest and Digest"), sér m.a. um að bera næringu til innri líffæra og verja líkamann sýkingum. Ónæmiskerfið er falið í þessu kerfi. Blóðrásinni er stýrt á áherslustaði og ber næringu til líffæranna og heilans þar sem  unnið er á bakteríum og góðkynja meinum, auk þess að vinna næringu úr fæðunni.  Sympatíska kerfið ("Fight or Flight") sér um varnirnar, stoðkerfið og vöðvana “fight or flight” eða bardaga, basl og flótta.  Við aðsteðjandi ógnir þá fer áhersla blóðrásarinnar út í þetta kerfi og tekur frá hinu kerfinu næringu og aðra virkni, svo við verðum varnarlausari fyrir sýkingum, vinnum verr úr næringunni og þroskumst hægar að innanverðu.  Í staðinn verðum við sterkari og sneggri.

æðahöfuðÞað er okkur eðlilegt að grípa til þessarar skiptingar til að bregðast við aðsteðjandi vanda og afla okkur viðurværis en vari þetta ástand lengi, þá hrynja innviðirnir eins og lýst er í dæmisögunni.  Að auki þá á sér stað svipuð breyting á áherslum í heilanum okkar.  Ennisblaðið, sem sér um hugsun og rökhyggju hættir að fá næringu en bakhluti heilans, sem sér um viðbrögðin er þess meir virkur.  Við venjulegar aðstæður, þá skynjum við með miðhluta heilans, metum og yfirvegum með framhluta hans og bregðumst við frá bakhlutanum.  Athafnir okkar eru því yfirvegaðar og réttar.  Við ógn, þá skynjum við aðeins og bregðumst svo strax við án yfirvegunnar.  Þess vegna sjáum við oft hve órökrænt fólk verður, þegar það reiðist eða verður stressað.  Það gengur bara á tveimur.  Einnig virðist tíminn líða hægar í slíku ástandi, því skynjunina vantar.  Það veldur oftar en ekki meiri streitu.  Við missum hugann á undan okkur í viðbragði við ókomnum ógnum og erum föst í framtíðaráhyggjum.  Heilsunni hrakar og við reynum að bæta hana á hlaupabrettum en gerum hlutina aðeins verri þegar til langs tíma er litið.  En eru ógnirnar raunhæfar?

Hvað nauðþurftir varðar, þá þurfum við æði lítið. Skjól og yl, einhver grömm af fæðu og 1-2 lítra af vökva á dag, auk súrefnis.  Ógnir samtímans ættu því ekki að vera af skorti.  Þær eru þó bundnar við áhyggjur af hugsanlegum skorti.

Sjónvarp og aðrir fjölmiðlar eru véfréttir okkar tíma.  Það heyrir til undantekninga að sjá og heyra eitthvað jákvætt þar.  Terroristar sitja um líf okkar og illar þjóðir hatast við okkur.  Jörðin er á vonarvöl og okkur bíða skelfileg gróðurhúsaáhrif, flóð og stormar, þurrkar og orkuþurrð.  Sjúkdómsfaraldrar spretta upp og eru efni í heimsfaraldra, sem geta lagt mannkynið að velli.  SARS, Fuglaflensa, Eyðni og hvað það nú heitir allt saman.  Hagkerfið er þanið og hrun er alltaf á næsta leyti.  Nú er uppgangur og því best að leggja allt til hliðar og vinna eins og hægt er á meðan góðærið varir.  Kreppan er handan við hornið.  Við skuldbindum okkur til framtíðar til að ná sem stærstum bita af kökunni og megum ekki missa úr dag í vinnu án þess að verða eftir með greiðslur og verðum því að leggja enn harðar að okkur ef við missum úr.  Annars hrynur spilaborgin og lánveitendur hirða allt, sem við höfum þrælað fyrir.  Við erum viti okkar fjær af ótta, í orðsins fyllstu merkingu.  Þessar aðsteðjandi ógnir eiga hug okkar allan svo við náum ekki að gefa okkur tíma til að hugleiða gang okkar og stöðu.

innri manneskjaEkkert af þessum ógnum eru þó í nánasta sjónmáli.  Þær eru allar “hugsanlegar” ógnir.  Við höfum hugann í framtíðinni og ógnum hennar og berjumst við skuldbindingar fortíðarinnar.  Við erum því ekki hér og nú, þar sem lífið á sér stað.  Ekki lengur viðstödd eigið líf.

Lífið á sér þó stað núna, með hverjum andardrætti sem við drögum.  Annað er ýmist farið eða ókomið.  Komi ógnir og óáran, þá koma þær og við bregðumst við við þeim þegar og þá.  Það er engin leið að gera það hér og nú.  

Eða eins og maður á sandölum sagði eitt sinn:” Þú bætir ekki spönn við æfi þína með áhyggjum.”


Bambusstangir og bræðravíg.

PrayKnightHaustmorgun einn árið 1208 kraup Kolbeinn Tumason goði og skáld á kné í döggvott grasið á Víðinesi.  Mistur var í lofti og kjá fugla í fjarska.  Vitund hans galopin og skýr.  Ilmur gróandans fyllti vitin og fjarlægur kliður vaknandi heims hvíslaði í eyrum.  Ofar öllum veraldarnið og hugarvíli  ríkti þó mikilfengleg kyrrðin, sem umlukið hafði jarðlífið frá upphafi vega. Kyrrð hins eilífa og almáttuga. Þennan dag skyldi  skáldið deyja í orrustu, sem ekki varð umflúin.  Innst inni hafði hann dýpri vitneskju um þau örlög.  Hann bað því Guð um  mildi og forsjá...”minnst mildingur mín”. Auðmýkt hans var djúp og sátt í hjarta yfir hverju sem koma vildi.  Hann myndi lúta vilja alvaldsins hvernig sem færi.  “ Ég er þrællinn þinn. Þú ert drottinn minn.”  

Trumbull%20Battle%20of%20Bunker's%20HillMáske sá hann villu sína á þessari stundu.  Að deilur um jarðnesk og hverful málefni höfðu komið honum á þennan stað.  Þvermóðska, græðgi, öfund og vantraust á forsjá og mildi alvaldsins hafi skapað honum þessi örlög. Kannski uppskar hann þarna það sem hann hafði sáð til. Kannski sótti  iðrun að hjartanu. Kannski var enn rökrænn möguleiki á að hverfa frá hildinni ef ekki væri fyrir duttlungafullar kennisetningar um heiður og skyldur sem mannleg gunnhyggni hafði bitið óskrifað í sig. Dauði hans var því óumflýjanleg niðurstaða af hugsunum hans og gjörðum en ekki ákvörðun einhvers mildings ofar öllu mannlegu. Hver er sinnar gæfu smiður.  Enginn himnasmiður. 

warboyMér finnst sem ég gæti sett mig í spor Kolbeins þegar ég hugsa til púkastríðanna svokölluðu á gullnum dögum æskuáranna.  Þannig upplifði ég orrustudag í aftureldingu.  Við ákváðum yfirleitt með dags fyrirvara að heyja stríð við krakka í nærliggjandi götum eða í öðrum bæjarhlutum.  Fjarðarstrætispúkar gegn Bakkapúkum; Efribæjarpúkar gegn Neðribæjarpúkum.  Ekkert sérstakt tilefni var gefið að þessum stríðum annað en landfræðilegur aðskilnaður og eining um óeiningu. 

battle_b_wStrax og stríð var handsalað og staður og stund ákveðin, byrjaði undirbúningur.  Sverð voru smíðuð, sem oft voru líkari lurkum en nokkru öðru.   Bambusstöngum var stolið, snærispottar útbúnir með hnút á enda og jafnvel ógnvekjandi keðjustubbar voru teknir til handargagns.  Allt voru þetta stórhættuleg tól og fallin til að meiða og limlesta.  Það var þó aldrei hinn æðsti tilgangur að meiða, heldur var markmiðið að vera eins ógnvekjandi og hægt var; að stökkva óvininum á flótta sem fyrst.  Hafa hátt, ögra og hræða. Upplifun stríðsins var meginatriðið, tilfinningin fyrir og eftir.  Eftirvæntingin, sigurvíman. Þessi ótruflaða athygli og árvekni, sem skapaðist.  Allt varð einhvern veginn ljósara og skarpara stundirnar áður en skarst í brýnu.  Hljóðin urðu skýrari, andrúmsloftið ferskara, heimurinn litauðugri, bragðskynið ríkara og kyrrðin yfir svo magnþrungin að hún fyllti brjóstið og yfirskyggði óttann.  Hugurinn var tendraður til hins ýtrasta en samt yfirvegaður.  Tíminn blekking ein. 

 

LordoftheflieslgLíklega var mér svipað innanbrjósts og skáldinu að morgni skaparadægurs síns .  Ég fann allavega samsömun í orðum hans. “Heyr himnasmiður, hve skáldið biður. Komi mjúk til mín, miskunnin þín.” 

Við söfnuðum grjóti í vasa, munduðum barefli og  vógum skildina á armi. Málmbragð í munni, þandir nasavængir, snörp orðskipti, suð í eyrum. Við stóðum reiðubúnir í eilífu andartaki eins og riddarar í álögum. Stundin var að renna upp.  Við enda götunnar birtist óvinaherinn með gunnfána og lensur á lofti. Úff...hvað þeir voru margir. Við settum í herðarnar,  bitum saman jöxlum og reyndum að breiða sem mest úr hópnum; börðum sverðum í skildi og yggldum brún.  Óttinn læddist inn. Veruleikinn.  Saklaus hugmynd var orðin dauðans alvara. 

Ég vildi ekki vera þarna.  Ég óttaðist þó síður að meiðast en að þurfa að meiða aðra.  Þetta voru jú allt vinir og skólafélagar.  Engum vildi ég illt og engan hataðist ég við.  Hugurinn hvarflaði til hentugra flóttaleiða.  Það gat þó enginn verið þekktur fyrir að láta hugfallast í miðri hólmgöngu.  Innbyggð skylda sagði manni að yfirgefa ekki vini sína á örlagastundu.  Þessi hugsun var líklegast sammerk með okkur öllum.  Við vildum ekki, en skyldum.  Stríðið varð sjálfstætt afl sem laut eigin lögmálum án tillits til  langana soldátans um sátt og frið.  Til að öðlast frið þarf blóð.

moviedaysÁrááás! Öskraði einhver og báðar fylkingar þustu mót hver annarri með samfelldu stríðsöskri. Hópunum laust saman og höggin dundu á skjöldum, bambusstangir kvistuðust í sundur og flísar flugu úr vopnum og verjum. Sumir hopuðu, aðrir ekki og hópurinn leystist upp í einangraða bardaga þar til óskráð sátt varð um að aðskilja fylkingar og safna liði að nýju.  Nú fóru menn að leggja á ráðin af meiri ákafa.  Óttinn efldi móð.  Margir voru hruflaðir á höndum og höfði og enn aðrir með blóðnasir.  Sjáöldur voru þanin til hins ýtrasta og horinn frussaðist úr nefi.  “Fyrst þykjumst við ætla að ráðast beint á þá en svo dreifir helmingurinn sér og kemst á bak við þá. Svo umkringjum við þá.”  sagði sjálfskipaður hershöfðingi hópsins, sem oftast var sá hugaðasti og ófyrirleitnasti – eða sá hræddasti.  

facecrushAftur var gert áhlaup á sama máta, en í þetta skipti birtist risastór strákur í hópi andstæðinganna.  Hann var illilegur og ógnarlega stórvaxinn eins og risaeðla í hópi maura. Hann veifaði lurki á stærð við símastaur að manni fannst og virtist geta mulið okkur alla undir sér.  Röddin var djúp og mikil svo stríðsöskur okkar urðu eins og hjáróma mjálm í samanburði. Óvinurinn margefldist við tilkomu þursans og æddi óttalaus gegn okkur.  Ég fann reiðina svella í brjósti við þetta óréttlæti og skálmaði fram gargandi eins og lungun þoldu.   

benÞegar ég leit sem snöggvast um öxl til samhæfingar við vopnabræður mína, sá ég aðeins undir hvítar iljarnar á gúmmískónum þeirra.  Þeir voru lagðir á flótta!  Ég var einn á móti öllum þessum ógnarher!  Ég þeytti skildinum og sverðinu í átt að væringjunum og tók til fótanna líka.  Það var því miður of seint.  Sá fljótasti í hópnum náði mér á tröppunum heima og barði mig bylmingshöggi í höfuðið með lurki. Ég fann skringilega kitlandi tilfinningu í nefinu og hávær sónn fyllti höfuð mitt eins og stillimynd sjónvarpsins væri komin þar inn. Ljósflekkir blossuðu fyrir augum og dimmrauður skuggi lagðist eins og þrumuský yfir vitundina. Ég rotaðist um stund, en rankaði aftur við mér þegar bölsót móður minnar þrengdi sér inn í vitundina.  Hún hélt mér að sér og steytti hnefana mót innrásarhernum sem tvístraðist eins og sáð fyrir vindi.  Blóðið rann niður ennið en ég fann ekki til.  Ég var feginn því að stríðið var búið.  Mig skipti minnstu að við höfðum tapað.

 00010266-LPP--69453Slíkt er þó eðli stríða að niðurlag er ekki ásættanlegur endir. Hefndum skyldi ná. Tap kallaði á betri undirbúning, meira miskunnleysi, betri vopn og betra skipulag.  Annað stríð var óumflýjanlegt og það yrði stærra og blóðugra en þetta.  Það stríð unnum við líka og höfðum þá einnig leynivopn í stórabróður einhvers, sem þó reyndist ekki nauðsynlegt.  Minningin um niðurlæginguna var innblástur okkar.  Endurheimt óræðs heiðurs réð för.  Við eltum óvininn uppi og tróðum þeim ofan í öskutunnur sem við börðum utan með sverðum. Einn tókum við fanga sem við drösluðum upp í fiskhjall og bundum við staur og niðurlægðum með orðum og pústrum. Svo héldum við niður í fjöru og kveiktum eld, skiptumst á hetjusögum rákum upp stríðsöskur.   Fanganum gleymdum við í sigurvímunni þar til síðla um daginn að áhyggjufullir foreldrar fóru að leita hans. Þá var honum sleppt með sparki í rassgatið og ýmsum munnlegum ónotum.   

standardSvona gengu stríðin á víxl eins og blóðhefndin fyrr á öldum og hættu ekki fyrr en skólinn og skyldurnar drógu hugann frá þeim.  Enginn erfði þó neitt og allir urðu vinir að nýju eða svo til. Fanginn okkar hann Flosi var svolítið lengi að taka okkur sátt, en þau sár greru um síðir.  

Stríð samtímans snúast enn um víxlverkandi lönguvitleysu blóðhefndarinnar.  Þó er helsti drifkrafturinn ótti þess sem hefur við að glata því sem hann hefur.  Ótti um skort og kapp um viðhald lífsgæða sem eru þó langt umfram þörf.  Þeir sem skortinn líða megna ekki stríð.  Þeir hafa heldur ekkert að verja nema skortinn sjálfan.  Það eru forréttindi hinna efnameiri að heyja stríð. Okkar stríð snerist ekki um skort, græðgi, völd né hégóma.  Okkar stríð kom okkur í nánd við alvaldið og fyllti okkur lífi.  Okkar stríð urðu okkur vakning um hverfulleikann,  kærleikann og auðmýktina eins og skáldinu forðum.  Okkar stríð kenndu okkur að meta frið og vináttu að verðleikum ef einhvern lærdóm var af þeim að draga.

 

Prisoner_Boy_Haunted_House_Costume_R12108Ég efa þó að þessi reynsla hafi komið okkur til góða þegar fram í sótti, nema ef vera skildi að fanginn Flosi hafi getað nýtt sér hana síðar á ævinni. Hann var handtekinn í Dubai áratug síðar, fyrir að reyna að koma riffli með sér í farangri sínum.  Vist hans þar var þó lengri og erfiðari þar en hjá okkur. Það krafðist milliríkjasamninga og mikils fjölmiðlafárs að losa hann úr þeirri prísund. Dubaifanginn Flosi var látinn laus fyrir sárbænir yfirvalda og ættingja. Því sjálfur Emírinn gat nú ekki verið minni maður en hugumstórir Bakkapúkar forðum.


Geimfarinn Ég.

fæðingÉg fæddist andvana.  Skaust í heiminn slímugur og blár.  Líktst einna helst ofvöxnum mjólkurgerli með mjúkum og fitugum fellingum.  Fjólublár væri nær lagi.  Augun voru undrandi og opin og forviða sálin skygndist út.  “Hjálp! Stjórnstöð! Það er eitthvað mikið að!”

Ljósin blinduðu, fjarlægar slitróttar raddir, skrölt og skellir, ærandi heimur. Klippt á lífæðina. “Eruð þið brjáluð! Sjáið þið ekki að ég er í vanda!” Þessi geimbúningur var ekki að virka. Öndunarvegurinn var stíflaður og næringardælan titraði og hökti og náði ekki upp takti.  Ekkert  súrefni, enginn bruni.

Ég varð að losa mig úr þessari prísund, nota neyðarútganginn; mjúka blettinn á kollinum.   Svífa mót alvitundinni að nýju og gera mig klárann fyrir aðra lendingu á öðrum stað í öðru heimshorni eða í öðrum heimi.   Verða kannski Arabastrákur eða Kínversk bóndadóttir, Klingon. Eitthvað allt annað en þetta!  

Ég var tekinn upp á fótunum og sleginn duglega í bakið hvað eftir annað.  Svo var mér dýft í fullan bala af köldu vatni; flengdur og hristur og slanga rekinn ofan í loftrásina.  Þá losnaði um stífluna.  Ég kúgaðist og kokaði, slímið gekk upp og ég dró með áfergju að mér ertandi loftið fullt af sótthreinsiefnum og mannaþef.  Brjóstið og kviðurinn þandist út og dælan hrökk í gang.  Súrefnið þaut út í æðarnar, fingurna og tærnar.  Ég hóstaði upp slímidreggjum og dró svo að mér loftið að nýju eins og fýsibelgur.  Gargaði af allri þeirri orku, sem ég gat dregið til. Herptist saman eins og ánamaðkur og gaf allt sem ég átti í öskrin.  Nötraði og skalf. 

fósturRisastórir hrammar héldu mér á lofti, skelfilegar stórar grímur glenntu sig og geifluðu, stórir sálargluggar, blóðsprungnir, óþefur, stingandi ljósnálar, ærandi kliður, nístandi kuldi.  Ég klemmdi aftur augun,  svo þessi skelfilega martröð hyrfi; þandi mig enn meir.  “Ég er hættur við! Sæki um afturköllun leiðangurs, núna!”

Ég flaug í gegnum loftið, var klappaður í bak og fyrir með grófri dulu.  Gargaði.  Hakan skalf. Loks sveif ég inn í vermandi áru sem umlék mig eins og ósýnilegur líknarbelgur.  Ég drakk í mig ylinn eins og svampur.  Sefandi straumur fór um mig allann; sláttur stórrar dælu, titrandi bringa. Aaaaææ.  Blíðleg rödd, gleði, hamingja.  Ó, hvað þetta var notalegt.  Þvílíkur léttir. Ég sefaðist og dró í mig ástina, reyndi að rýna út um bólgin augun.  Var líklegast eins og drykkfelldur boxari í framan.

Hmmm?  Sjá þessi fallegu hvolf.  Hvað var þetta svona glansandi og mjúkt?  Og þarna efst var safaríkt snuð sem ilmaði sætlega.  Matarbúr,  stútfullt af næringu og topurinn passaði akkúrat í munninn.  “Þú þangað.”- kallar stjórnstöð. Aaaaaaaah.  Glúgg, glúgg, glúgg. Mmmmm... ég var banhungraður eftir ferðina, ætlaði að drekka eins og ég gat.  Nóg til.  Varatankur klár ef þessi dygði ekki.  Heit mjólkin rann ljúflega niður með öllum þeim nauðsynlegu gerlum og næringarefnum, sem ég þurfti á þessu augnabliki.  Allt til að koma meltingarflórunni af stað í búningnum.  Sérhannað orkuskot fyrir mig.

geimbarnÉg var á áfangastað. “Örninn er sestur.” Kunnugleg sál á sömu tíðni og ég, rann saman við mína.  Sama sál og kallaði mig til sín fyrir níu mánuðum þegar ég var allt og ekkert í sömu mund, bara orka, tifandi orka.  Tíðnin hafði skyndilega farið að aukast og ég varð að litlum orkuhnút, tifaði hraðar og hraðar og var aðgreindur frá annari orku í hinu endalausa krafthafi.  Öðlaðist form, ósýnilegt en aðskilið öðru. Svo svisssj...

Ég þaut mót silfruðum og ljómandi hnetti.  Tíðni mín átti samsvörun þar.  Einhverstaðar þarna uppi við snæhvíta kollhúfu.  Helftin af mér dró mig til sín á margföldum ljóshraða.  Sama tíðni sækir að sömu tíðni.  Plús, mínus og sameindin ég.   Þannig virkar það.  Svo kom kyrrð, sæla, sátt, jafnvægi og friður.  Ég varð vitund, vaknaði og samlagaðist til að fullkomna þrenninguna sem myndar líf.  Hýsil.  Geimbúning fyrir mig.  Fruma, sem varð tvær frumur, fjórar, átta, sextán, þrjátíu og tvær, sextíu og fjórar...

Nú var ég orðinn heilt flykki, sem lá eins og kökkur á öðru ennþá stærra flykki; dró í mig næringu og líforku.  Bíddu nú við? Þarna var eitthvað.  Hrukkuð pylsa með litlum pylsum út úr endanum? Var þetta tengt mér? Já!  Þarna hreyfðist einn dindillinn á endanum og annar!  Var það ég sem gerði þetta?  Prófum aftur.  Einbeita sér. Upp með þennan minnsta.  Já!  Hann hreyfðist!  Og svo öll pulsan. Ja, sko til.  Þetta má nota.  Þrýsta á forðabúrið, aaaaah.  Meiri mjólk.  Ég gat stýrt búningnum!

spacewalkÚff, hvað maður var örmagna. Höfgin sveif yfir og ég leið inn í lítinn straumhnút í höfðinu og skynjaði ekkert fyrir utan; lét sjálvirkan búninginn sjá um rest.  Varla annað hægt en að kúpla sér frá eftir svona streð.  Fljúga um gömlu heimkynnin um stund. Hitta aðra orkubolta.  Fá góð ráð. Vinna úr reynslunni.

Ég gerði síðan lítið annað en að sofa í marga mánuði eftir þetta, svo örmagna var ég.  Vaknaði bara til að drekka í mjólkurbúinu og fá hleðslu frá móðursálinni.  Ef hún var ekki innan seilingar, þá var bara að beita sama bragði og leiddi mig að henni fyrst.  Öskra.  Það klikkaði ekki.  Segið svo að maður læri ekki neitt.

Þetta var betra meðan búningurinn var í frumhönnun. Þá var ég tengdur beint við móðurskipið og sveif um í vökva, sem hjálpaði til við mótunina.  Það þurfti mikla orku í þetta, svo það var ekki um annað að ræða að hafa hægt um sig; í mesta lagi að liðka einn og einn skanka.  Annars hafði ég það náðugt og hlustaði á hjartslátt aðaldælunnar og stillti litlu dæluna mína við hana.  Hlustaði á fjölbreyttann titring og blæbrigði hljóða, sem bárust gegnum vatnið. Heyrði ekkert, fann það bara og skemmti mér oft konunglega. 

geimgangaSvona búningur er vandasmíð og það eru skrilljónir frumna, sem koma til verks, hver með sitt sérstaka hlutverk.  Einstaklingar sem ræða sín á milli.  Samhæfing.  Frumur, gerlar, bakteríur, örverur.  Heilu herfylkin.  Búningurinn er í raun ekki ein heild, heldur risastórt samfélag, sem vinnur saman í fullkominni verkaskiptingu og það er brjálað að gera.  Melta þetta, losna við hitt, byggja, bæta, breyta, uppfæra.  Stöðugt samband við verkstjórn. Verkstjórn tekur leiðbeiningar frá stjórnstöð, kemur þeim til skila,  hagræðir, flytur, rekur áfram, gefur frí, heldur þrýstihópum í skefjum, hendir vitleysingum út, kallar á nauðsynleg byggingarefni frá móðurskipi.  Ótrúlegustu pantanir: Rjómaís, eldspýtnabrennisteinar, súkkulaði, sígarettuaska, sítrónur...

Ég hélt mig til hlés og lét meistarana um verkið.  Saug mest þumalinn og velti mér til að beiðni stjórnstöðvar.  Svo kom kallið.  Vökvinn tæmdist skyndilega út og ég klemmdist, nuddaðist og kúldraðist.  Þvílík glíma.  Svo kom þessi hryllingur, sem ég lýsti.  Ekki að furða þótt það tæki tímann sinn að jafna sig af áfallinu.  Ég hafði varla orku í annað en að melta mjólkina. Varð að hægja á allri annari starfsemi á meðan og sofa, sooofaaa....

stjörnuþokaKroppurinn var óttalegt slytti til að byrja með.  Ein hreyfing tók alla einbeitningu og orku.  Maður hélt ekki haus.  Hann lagðist bara til hliðana, aftur eða fram eins og hnoðdeig.  Útsýnið var þokukennt og takmarkað.  Í fjarska voru aðrar verur eins og reykjarslæður.  Raddirnar klingjandi eins og langt í fjarska. Nær sá ég jú hendurnar, athugaði hvernig þær brögðuðust ef ég var svo heppinn að hitta upp í munninn á mér.  Það var ekki auðvelt.  Ég remdist við að halda þeim inni í þröngu sjónsviðinu en þær hentust út úr því með skrikkjum, þar til maður náði að einbeita sér nægilega til að hafa þær í fókus.  Lyfta brúnum, setja stút á munninn, sprikla smá ooog...upp í túllann! 

undrunHendurnar voru til margs nýtilegar og mátti með lagni grípa í sængina og allskyns dót og færa þetta allt í munninn, slefa og smakka.  Flest var algerlega óætt.  Samt var sumt þægilega kalt og svalandi undir góm.  Sérstaklega það sem mömmusálin færði mér.  Það hringlaði og var níðþungt og oft sló maður sig duglega í hausinn með því þegar maður reyndi að koma því ginið óseðjandi.  Annað var utan seilingar og það gerði mann alveg rangeygðan af einbeitingu við að reyna að grípa.  Hvílan mín var til dæmis með fullt af fallega litum myndum, sem ég reyndi að ná í til að smakka; reygði mig og sveigði þar til einn daginn að Ég var allt í einu oltinn á kviðinn.  Þá var ég búinn að ná því.  Teygði út skankana og ruggaði á kviðnum. Spriklaði. Myndirnar náðust samt ekki úr tauinu sama hvað ég kroppaði.  Það var vonlaust að reyna að kjamsa á þeim.

Neðar á mér var annað par af höndum, virtist vera.  Þær voru svolítið klunnalegri og óþjálli.  Maður gat gripið í hitt og þetta og þeytt til,  en haldið var slæmt.  Ég boxaði því bara og hjólaði með þessu út í loftið.  Það var oft bara heljarinnar stuð.  Þarna niðri var ég líka settur í grófa og óþægilega dulu, sem ég skildi ekki meininguna með.  Svipað þægilegt og nærbuxur úr hessianstriga ef þið eruð að pæla í því. Fáránlegt átfitt.

skoðaMaður lak soldið hér og þar.  Ef ég var látinn fljúga upp að barmi móður minnar, rann stöðugur slefutaumur út um allt. Maður var jú oft svo stútfullur eftir matinn og ekki var sérstaklega varlega með mann farið.  Maður gleypti stundum loft í áfergjunni sem bólgnaði eins og bolti í bumbunni.  Þá var klappað létt á bakið og boltinn losnaði út um stútinn með ansi fyndnum hljóðum.  Stundum kom slatti af mjólkinni með og  þeir gátu sjálfum sér um kennt, sem ekki höfðu breitt á sig tusku áður.  Það var óskaplegur léttir að losna við þennan þrýsting.  Þá gat maður eiginlega fyrst látið líða almennilega úr sér eftir matinn. 

Verra var það sem kom út að neðan.  Stundum stóð glær bunan út í loftið og ef það var ekki þrifið fljótlega þá sveið manni í húðina, sem var jú afar viðkvæm og pen.  Verst var þó hitt.  Hnúturinn í mallanum, sem spennti mann allan svo upp og pirraði.  Eina ráðið til að losna við hann var að rembast þar til maður var orðinn eins og eldhnöttur í framan; draga armana að sér og hnykla brúnir, setja stút og munninn. Nötra smá. Þá skutlaðist þetta út, heitt og klístrað.  Og brælan maður!  Það var ólýsanlegur fnykur fyrir svona fínt fölende nebba og var bara um eitt að ræða til að losna undan honum.  Öskra.

Öskur var óbrigðult.  Maður vildi samt geta verið nákvæmari, þegar manni vantaði eitthvað. Það dugði oft að skæla smá eða æmta svona: íh,íh.  Þá fékk maður athygli, en var oftast miskilinn.  Maður var kannski að kafna úr hita og æmti og þá kom einhver og pakkaði manni bara fastar inn í sængina, svo maður gat sig hvergi hrært.  Þá var þó alltaf lausn að garga.  Það dugði til þess að maður væri tekinn upp úr svækjunni; hossað og klappað.  Hressandi tilbreyting líka.

barn og stjörnumerkiÞað var blendin tilfinning að fá heimsóknir.  Geiflaðir munnar, fettur og brettur með allskyns óhljóðum kúi og frussi.  Óþægilega nærgöngult á köflum.  Oft mjög óvænt og illa þegið en flestir voru samt óborganlega fyndnir þegar á reyndi og það ískraði inni í manni við að sjá þessar kúnstir.  Það var hægt að grípa nebba og þreifa á krumpuðu og hrjúfu skinni.  Klípa smá. Stinga sig á skeggi. Oft var lyktin ansi römm frá þessum sálum og úr sumum kom reykur, sem kitlaði mann í nefið.  Fyrsti smókurinn.  Aaaatsjú!  Ég varð ég algerlega forviða við fyrsta hnerrann.  Hentist til og herptist saman og sá sveimandi ljósflekki fyrir augum.  Svo var þetta BARA fyndið. 

Félagskapur var annars oftast vel þeginn.  Maður var mikið einn að pæla í puttunum, dinglumdaglinu fyrir ofan sig eða myndunum á sænginni.  Það var jú oftast nóg, en hitt var skemmtileg viðbót og það streymdi oftast hlýja frá þessum sálum.  Það var helst að manni brygði við þessar sem komu með tildur á nefinu og glerhlunka, sem gerðu augun allt, allt of stór.  Þá var lítið annað að gera en hrifsa eldsnöggt í þetta drasl og þeyta því í burtu.  Oftast var vel í slíkt tekið.

Ég lærði fljótt að apa hljóðin upp, sem sálirnar gáfu frá sér.  Aaaaaa.  Mmmmm. Úúúú.   Það var þægilegt að finna titringinn í brjóstinu og æfa sig.  Þetta fékk líka góðar undirtektir.  Móðursálin var með sérstaklega blíð hljóð.  Það var auðvelt að framkalla þau.  Fyrst hummaði maður með lokaðann munninn. “Mmmmm.”; svo opnaði maður. “Aaaaaa.” Það virkaði vel saman.   “Mmmmaaaaammmaaa....”  Sló raunar algerlega í gegn.  Maður lifði lengi á því númeri og fékk allt upp í hendurnar fyrir tilstilli þeirra töfrahljóða.  Mammaaa.

 


Þegar Ég fór Í Stríð Fyrir Ísland II. - Forlögin bregða á leik.

Við DjúpavogHér kemur framhald fyrri færslu minnar um reynslu mína í 200 mílna þorskastríðinu.

Ég var vakinn snemma morguninn eftir og mér færð brauðsneið og kaffisopi. Mér leið undarlega og fannst eins og að mig hafi dreymt allan þennan hildarleik.  Týr var kyrr og ljósavélarnar möluðu vinarlega. Mér fannst ég þurfa að fara á fætur, það væri ekki sanngjarnt gagnvart öðrum að ég lægi þarna í makindum og væri þjónað til sængur. En bakið var stíft og bólgið og ég gat mig hvergi hrært.

Kærnested kom inn spurði vinalega um líðan mína og sagði mér að ég yrði settur í land til að koma mér undir læknishendur. Þetta var í síðasta skipti, sem ég átti orðastað við hann og finnst mér það miður í dag að ég skyldi aldrei komast til þess að þakka honum fyrir. Skömmu síðar var ég aðstoðaður við að klæða mig og var studdur út. Ég náði ekki að tylla niður fótum, því þá blossaði logandi sársauki upp í mjóbakinu. Ég var því borinn í einskonar gullstól út á dekk. Það var eilítið mistur og morgunloft, sem jók á draumkennt ástand mitt. Menn voru þöglir og tíminn virtist hafa vikið sér frá um stund þarna í mynni Berufjarðar. Spegilsléttur sjór og fjarlægt kýf í mávum jók á þessa yfirveraldlegu tilfinningu.

Mín beið örlítil trilla með tveimur litlum drengjum, varla meira eða 10 eða 12 ára. Ég varð svolítið undrandi.  Vað var brugðið undir handakrikana á mér og ég var látinn síga niður í trilluna. Sársaukinn í skrokknum var yfirþyrmandi en ég sagði ekki orð.  Svo var duggað með mig í kyrrð inn á Djúpavog. Strákarnir mæltu ekki orð og voru ábúðafullir og niðurlútir eins og ferjumaðurinn á Styx.  Mín beið Landroverjeppi á bryggjunni og ekki var hræðu að sjá utan bílstjórans. Ég var hífður upp á bryggju og lagður aftur í skott á jeppanum. Mér fannst þetta allt svo óraunverulegt en fann til feginleika við að kúldrast þarna við söng gírkassans. Þetta var allt hálf skoplegt í raun.  Mér var dröslað inn á læknisbústað eða heilsugæslu, þar sem ég var lagður á bekk í eða við andyrið.  Þar fékk ég að vita að enginn læknir væri á staðnum en það væri þó bót í máli að augnlæknir var einmitt vísiterandi í þorpinu og hann veitti mér aðhlynningu og greiningu. Í ljós kom í samtali okkar að hann var frá sama bæ og ég og að hann var skólabróðir og uppeldisfélagi föður míns. Niðurstaða hans af greiningunni reyndist síðan alveg rétt síðar meir, þótt það tæki her lækna að staðfesta það á Borgarspítalanum síðar. Ég var ekki lamaður, bara bólginn og tognaður.

Ekki man ég hvað ég var þarna lengi en ég hlýt að hafa blundað þarna á bekknum, því ég var vakinn og mér sagt að sjúkraflugvél biði mín. Svo var hossast með mig á Landrovernum út á einhvern flugvöll, þar sem lítil rella beið mín.  Þetta var þriggja farþega smávél á vegum Morgunblaðsins, sem hafði komið þarna með blaðamann blaðsins og Ragnar Axelsson ljómyndara, sem var kornungur og efnilegur ljósmyndari. Ég fékk sem sagt að húkka far með þeim.

rellaMér var troðið í aftasta sæti vélarinnar og svo var flogið af stað. Blaðamaðurinn tók við mig stutt viðtal og Raxi tók mynd af mér, sem birtist í blaðinu daginn eftir, undir fyrirsögninni: “Hélt að Tý myndi hvolfa.” Þegar ég skoða þessa mynd, þá sé ég að ég var í rauninni bara saklaust og bláeygt barn, þrátt fyrir allar manndómsraunir mínar.

Á leiðinni fengu blaðamennirnir skilaboð um að keyrt hafi verið á Óðinn og brúarvængurnn tekinn af honum.  Stefnunni var breytt út á miðin og þar var farið í einskonar steypiflug yfir Óðinn og nálægar freygátur til að skrásetja atburðina. Ég gleymdist greinilega í þessum atgangi, því ég kuðlaðist niður á gólf og þurfti að vega mig upp í sætið með erfiðismunum eftir hverja dýfu. Þetta má segja að hafi verið einhverskonar óumbeðin sjúkraþjálfun, því þegar til borgarinnar kom, þá afþakkaði ég sjúkrabörur, sem biðu mín, og haltraði til sætis í sjúkrabílnum.

Á borgarspítalanum var ég í tæpa tvo daga og man ég hvað margir læknar og kandídatar voru í kringum mig.  Það var látið mikið með mig og ég vakti greinilega forvitni og athygli sem hetja hafsins og stríðsmaður í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.  Seinni daginn var ég orðinn nokkuð styrkur og fékk strætisvagnamiða í hendur, var bent á stoppistöðina úti, og sagt að ég ætti herbergi á Hjálpræðishernum. “Courtesy of the Icelandic Coast Guard.” Ég var allslaus fyrir utan eitthvað klink í vösum. Fermingarúrinu mínu hafði ég tapað og myndavélinni fyrir málstaðinn. Flestöll stráin stungu mig, stór og smá á jörðu.

Herbergið á Hjálpræðishernum var einskonar yfirstærð af fataskáp, sem náði faðmi að breidd og rúmri rúmlengd á hinn veginn. Þar var myglulykt og sængurfötin voru snjáð og blettótt. Ég var þó undarlega feginn þessu athvarfi og örmögnun helltist yfir mig, svo ég lagðist strax og sofnaði.

Það var komið fram yfir miðnætti, þegar ég vaknaði aftur. Mér var þungt fyrir brjósti og náði vart andanum. Skelfingarangist heltók mig og ég heyrði boðaföll sjávarins fyrir eyrum og raddir félaga minna á Tý. Herbergið tók að halla meira og meira og í örvæntingu minni skreið ég fram úr og út á gang. Þetta var svo raunverulegt. Allt hringsnerist fyrir höfði mér og ég skreið og skakklappaðist niður stigana og út úr hinu sökkvandi hóteli. Óljós rödd næturvarðarinns hljómaði á eftir mér: “Er ikke alt í orden? Er du full?

Úti hágét ég með ekkasogum og náði þó loks að draga andann í svölu næturloftinu. Enginn var á ferli. Ég var sem einn í heiminum og ég gat ekki og þorði ekki að standa kyrr.  Ég gekk því alla nóttina um borgina, upp að breiðholti og til baka aftur, fram og aftur, fram og aftur, eins og hrætt dýr. Ég róaðist undir morgun og veruleiki hversdagslífsins vaknaði í mér með borginni.  Ég fór inn á gamla Hlemm, sem þá leit út eins og potthlemmur í lausu lofti og hringdi vestur í föður minn úr tíkallasíma.  Ég hafði ekki heyrt í fólkinu mínu fyrr og sá gamli hafði bara fengið fréttir úr mogganum.  Hann var skekinn og áhyggjufullur og sagði mér að fara strax til bróður síns í Stangarholti og koma svo vestur eins fljótt og mér væri auðið.

Týr í denÉg fór svo niður í Gæslu til að ná mér í aur og mér er minnistætt hve ópersónulegt viðmótið var þar.  Mér var þó sagt að ég gæti mætt til vinnu um borð í Tý, sem yrði í slippnum, þegar ég treysti mér til.  Svo yrði athugað hvort annað pláss losnaði.  Ég var feginn að fá tækifæri til að dreifa huganum og vinna eitthvað og þáði þetta. Ég dvaldi svo einhverja daga hjá frænda mínum, sem veitti mér styrk og vináttu í nauð minni.

Týr tók ekki þátt í fleiri þorskastríðsbardögum. Hann trónaði þarna í slippnum með sundurtættan skrokk og úr honum runnu vatnstaumar líkt og honum blæddi. Ég mætti til vinnu og vaskaði upp, ryksugaði og þurrkaði af eins og mér bar.  Ég hafði þó ekki verið þarna lengi, þegar brytinn kom til mín fúllyndur og óvinveittur, reif af mér hnífapör, sem ég var að þurrka og sagði að ég hefði hvorki erindi né leyfi til að vera þarna. Hann víasaði mér frá borði og ég hef enn ekki skilið hvað honum gekk til.  Ég var aumur og meir eftir það sem á undan var gengið og andmælti engu, fann bara óskiljanlegt óréttlætið brenna mig í hjartastað. Þarna voru síðustu viðskipti mín við Landhelgisgæslu Íslands. Ég hef aldrei verið spurður um þessa atburði né verið dreginn til vitnis um neit,t sem að þeim laut. Jafnvel í bók Óttars Sveinssonar er nánast einvörðungu stuðst við gamlar blaðagreinar og talað við menn, sem sumir hverjir segja rangt frá eða eru uppfullir af einhverju óskiljanlegu kallagrobbi og hetjudýrkun.

Þegar ég hringdi í Óttar og innti hann eftir því af hverju hann hafi ekki talað við mig, þar sem minnst var á mig í bókinni, þá sagðist hann ekki hafa fundið mig. Það finnst mér hálfkæringsleg rannsóknarblaðamennska. Ein af rangfærslunum er sú að þyrluskýlið hafi verið lokað í seinni árekstrinum.  Ég var þarna á þyrludekkinu og fékk freygátuna nánast í fangið.  Þeir sem eftir lifa af þeim sem voru í skýlinu ættu að geta vitnað um það. Sjórinn í skýlinu var heldur ekki ímyndun ein. Kannski var það tryggingarmál að halda öðru fram, en nú finnst mér allt í lagi að leiðrétta það.

Ég var nokkra daga hjá bróður pabba til að ná styrk og stuðningur hans og hlýja voru mér ómetanleg á þessum erfiða tíma. Einn daginn þegar ég var á rölti þarna um Skipholtið, sá ég skilti úti á götu, sem sagði að þar færi fram inntökupróf í Myndlista og Handíðaskóla Íslands. Ég hafði alltaf verið listhneigður, svo ég fór þarna inn og spurði hvort ég mætti ekki taka þátt. Mér var sagt að ég gæti svosem skráð mig, þó seint væri, en ég skyldi ekki gera mér neinar grillur um að komast að. Yfir hundrað manns þreyttu þetta próf og aðeins um 15 til 20 kæmust í gegn. Ég sagði það aukaatriði, því ég hugsaði þetta aðeins sem tækifæri til að taka hugann af atburðum síðustu daga og sagði frá þorskastríðsþáttöku minni. Þetta var eingöngu hugsað sem sáluhjálparatriði.  Einskonar heimatilbúin áfallahjálp.

ÍsafjörðurÉg tók svo þetta próf og hlýt að hafa haft eitthvað til að bera, því ég komst inn í skólann og þar með urðu þessir atburðir allir til að kúvenda stefnunni í lífi mínu. Fyrir mér hafði ekkert annað legið en að verða sjómaður.  Pabbi gerði út rækjubát og ég hafði farið túra með honum frá 8-9 ára aldri. Ég hafði stundað sjóinn á smákoppum áður en ég fór í siglingar og líkaði aldrei vistin né það andrúmsloft hörku og karlmennskudýrkunnar, sem sjómennskunni fylgdi.

Að vísu fór ég túra eftir þetta á sumrin, en það var bara til að bjarga fjárhagnum og framfleyta sjálfum mér.

Ég hugsa stundum um hversu undaarlega forlögin höguðu ferð minni og hvaða áhrif þetta hafði á persónu mína og þroska síðar meir.  Skömmu fyrir þetta hafði ég verið lítill og áhyggjulaus drengur á gúmmískóm, sem naut hinna björtu sumardaga með vinum mínum á malargötum Ísafjarðar. Við sátum á björtum sumarkvöldum við spegilsléttann fjörðinn og fleyttum kerlingar við undirleik öldugjálfurs og kúandi æðarfugls. Það var friður í hjörtum okkar og lífið var himnaríki á jörðu.  Umskiptin frá æsku til ábyrgðar voru snögg og skyndilega var maður kominn mitt í iðu hinnar miskunnarlausu lífsbaráttu.

Fyrir vikið hef ég alltaf leitað aftur til þessarar kyrrðar og reynt að einfalda rök lífsins fyrir mér til samræmis því, sem ég upplifði í skjóli hinna bröttu fjalla. Afraksturinn er flókinn hugur og friðsæll maður, sem leitatst ávallt við að hreinsa hismið frá kjarnanum og upplifa augnablikið þar sem lífið á sér stað. Hér og nú. Framtíðin er ekki komin og á því ekki að vera áhyggjuefni. Fortíðin er farin og kemur ekki aftur nema í rósrauðum draumum æskuáranna.  Þetta ár var vendipunkturinn. Þetta var árið, sem ég breyttist úr barni í mann.


Þegar Ég Fór í Stríð Fyrir Ísland.

stríð á sjó

Þegar ég var á 16. ári ákvað ég að tylla mér á tær og kíkja á heiminn handan fjallanna, sem húktu báðum meginn fjarðarins og héldu sólarljósinu frá bænum mínum mestan hluta ársins. Þetta var fyrir tíma forsjárhyggju, ofvirkni, áfallahjálpar og kvóta. Þetta voru aflatímar, hetjutímar og uppgangstímar, þar sem enginn var maður með mönnum nema að hann ynni 16 tíma vinnudag, drykki eins og berserkur og væri sigldur með tattú og allt. Við ungmennin vorum ekkert undanskilin þessu. Þeir, sem samsömuðu sig ekki þessari skipan og voru á skjön, voru sendir á vandræðaheimili eða í sveit.  Það fylgdi dómsdagsþungi slíkum hótunum.

JonSteinar stríðÉg munstraði mig því á millilandaskip sem smyrjari.  Ég sigldi á Rússland með freðinn fisk og tók vörur upp í bakaleiðinni m.a. í Þýskalandi. Þar fékk ég mér burðugt tattú á framhandlegginn í melluhverfi borgarinnar, hjá manni í skuggalegri kjallaraholu. Hann leit út eins og Árni Bergmann. Ég drakk og slarkaði í höfnum og var sannur maður með mönnum.  Ég hafði verið handtekinn af KGB í Leníngrad og fluttur um borð í fylgd vopnaðra hersveita Bresnéfs, fengið bornkítis og tremma og klikkti svo út með að rota kokkinn, sem lenti á spítala í borg Leníns. Það var mér ekki fyrirgefið og var ég látinn taka pokann minn þegar heim var komið.

Einn og umkomulaus í borg óttans, þvældist ég um og drakk og gisti með versta óþjóðalýð borgarinnar. Ég reyndi að koma mér í pláss á öðru skipi og fór m.a. niður í Ríkiskip til að reyna að komast á strandferðaskipin Esju eða Heklu, því enginn vildi hafa svona vandræðamann með til lengri siglinga.

TýrEinn daginn var ég að rölta við Ægisgarð og var þá nýkominn úr áranguslausri ferð til Ríkisskipa. Þá vindur sér að mér ljósleitur maður í kokkagalla og klossum og spurði mig hvort ég hafi ekki verið að leita að plássi. Ég játti því undrandi á því að forsjónin skyldi elta mig uppi eftir allt mitt áranguslausa streð. Maðurinn kynnti sig og spurði hvort ég gæti ekki komið fyrirvaralaust í túr því skipið væri um það bil að losa enda. Ég leit á aumlegan útgang minn, útvíðar flauelsbuxurnar og þykkbotna blöðruskóna. Maðurinn sá þetta og sagði mér engar áhyggjur að hafa, ég fengi algalla um borð. Ég réði mig með handabandi og spurði hvar skipið væri. Kokkurinn benti á skip skammt frá og tók svo í hendina á mér og dró mig með sér. Fyrir framan okkur trónaði varskipið Týr.

Ísland var á hápunkti 200 mílna þorskastríðsins. Ég fékk matrósaföt með merki gæslunnar á barmi og var gerður að messagutta í yfirmannamessa.  Þar þjónaði ég engu minni manni til borðs en þjóðhetjunni Guðmundi Kærnested.

Þetta reyndust viðburðarríkir tímar. Við vorum skæðastir með klippurnar og vorum eltir af herskipum, sem voru minnst þrisvar sinnum stærri en við og dráttarbátum, sem voru sterkir og illvígir. Við klipptum trollin af togurum, sem voru með veiaðrfærin úti af dyggð við Drottningu breta, því ekki sá ég þá fiska nokkurt kóð. Togararnir reyndu að bakka á okkur og áhafnirnar sýndu á sér bera bossana, hentu sorpi að okkur og bölsótuðust. Sjóliðar Bretadrottningar voru ekkert skárri. Þeir silgdu að okkur og á okkur,  jusu yfir okkur sjó, helltu yfir okkur sorpi og létu eins og apakettir í búri. Kærnested uppálagði okkur að sýna þeim fyllstu virðingu þrátt fyrir þetta, standa teinréttir og gera "Honnör". Ég skildi það ekki þá en það fyllir mig stolti í dag.

Við lentum í nokkrum alvarlegum ákeyrslum, sem breyttu afturhluta Týs í brotajárnshaug. Viðvörunnarflauturnar gullu stöðugt í skipinu, svo varla var nokkra hvíld að fá. Það var jú hluti af taugastríði breta. Við þurftum nokkrum sinnum að fara inn á Seyðisfjörð til að láta lappa upp á okkur og þá var "ríkið", sem var í bárujárnshjalli við sjónn, opnað á hvaða tíma sólahrings sem var, til að sefa strekktar taugar. Þjóðin stóð með okkur. Við vorum hetjur.

Ég keypti mér Kodak Instamatic myndavél og byrjaði að taka myndir af hasarnum fyrir Tímann, sem var málgagn Framsóknaflokksins.  Þetta eru gleymdar myndir, sem mér fannst sumar hverjar einhverjar þær bestu, sem teknar voru í þessu stríði frá okkar sjónarhorni. Sumar sýndu, svo ekki var um villst,  hver var að sigla á hvern.

týr og tartarSvo kom stóri dagurinn. Ég man að það var spenna í loftinu. Nimrod þotur flugu lágflug yfir okkur með miklum gný og Freigáturnar voru hættulega nærgöngular. Þegar svo stóð á voru sem flestir af áhöfninni, beðnir um að vera í þyrluskýlinu, sem var haft opið í hálfa gátt. Um miðjan dag var keyrt á okkur. Freygáta skellti hnífskörpum afturenda utan í stefnið á okkur og gerði á okkur gat. Sjórinn flæddi um alla ganga og dýnur og spítnarusl var dregið saman til að stoppa í gatið. Kærnested lét það ekki á sig fá og setti klippurnar út, herskárri sem aldrei fyrr. Freygátan Falmouth fylgdi okkur fast á eftir og fleiri óvinaskip voru í nánd. Nú var greinilega eitthvað stórt í uppsiglingu.

Ég var niðri í skipi þegar fyrsti stóri áreksturinn varð. Ég hafði verið beðinn um að færa mönnum kaffi upp í brú og var á leið frameftir gangi þegar skellurinn kom.  Skipið kipptist til með miklum skruðningum. Ég heyrði brothljóð úr eldhúsinu en hélt áfram að sinna skyldu minni. Skipið hallaðist meira og meira og ég gekk í hægri kverk gangsins og hugsaði einvörðungu um að hella kaffinu ekki niður.  Þegar ég kom að þvergangi, sem leiddi að stiganum, áleiðis upp í brú, var ég nánast farinn að standa á gangveggnum. Ég stikaði á móti hallanum þvert á skipið og fékk vart staðið. Ég fór á hnén og skreið, en hafði ekki augun af kaffinu. Loks var ekki við hallann ráðið og ég rann niður aftur og skall á gangveggnum, svo kaffið skvettist um allt.

Hms FalmouthMér fannst þetta vara heila eilífð og tíminn hafði hægt undarlega á sér. Mér fannst eins og ég gengi í draumi, þegar ég skakklappaðist aftur með gangveggnum á leið inn í eldhús, til að fylla aftur á könnuna. Þegar að eldhúsinu kom var skipið farið að rétta sig af á ný. Ég fyllti á kaffið og hélt áfram erindi mínu. Það gullu hróp og köll úr þyrluskýlinu og mikið uppnám virtist vera, en ég fór upp í brú með kaffið eins og ekkert hefði í skorist. Þar var allt á öðrum endanum og menn mjög æstir eins og eðlilegt var. Menn höfðu hangið eins og tuskubrúður í rekkverkinu og horft á grængolandi sjóinn neðan við brúargluggana stjórnborðsmeginn.  Þetta var í eina skiptið, sem ég sá Kærnested skipta skapi. Hann var alltaf pollrólegur og traustvekjandi. Hann byrsti sig við mig og sagði mér að andskotast niður aftur, þarna væri enginn að hugsa um kaffi. Það var jú augljóst. Það þurfti enginn að fá neitt örvandi þarna. Öll skilningarvit voru þanin upp á gátt. Þeir voru líka á fullu við að stýra skipinu, enda héldu þeir áfram og kláruðu það sem þeir voru byrjaðir á, að klippa á togvíra. Það tókst þeim og það hefur líklega fyllt mælinn hjá bretum.

Ég fékk kökk í hálsin og volgnaði um augun yfir þessar hörku frá manni, sem ég leit svo upp til og fór auðmjúkur að þurrka kaffið upp af ganginum.  Þar var mér sagt að ég mætti ekki vera niðri þegar svona hættuástand væri, ég yrði að vera uppi í skýli.  Ég hafði jú ekki vitað að þarna stæði fyrir dyrum grófasta árás á Ísland frá seinna stríði og var sár yfir hve ég var misskilinn. Ég var jú bara að gera það sem mér var sagt.

Enn einu sinni var þyrludekkið eins og brotajárnshaugur og hnausþykkt stálið undið, skælt og rifið rétt eins og Týr væri pappírsbátur. Það var örlítið rórra og menn ræddu á milli sín atburðina, hvar þeir voru og hvað þeir sáu. Tveir voru á spilinu fyrir klippurnar, sem var undir þyrludekkinu, fóru á bólakaf  og héldu að þeir myndu drukkana. Menn voru skeknir en ótrúlega yfirvegaðir. 75 gráðu halli var sagt. Vélstjórarnir áætluðu það eftir pendúl í vélarrúminu. Freygátan Falmouth lónaði hjá eins og gremjulegt villidýr með stafninn rifinn og tættann líkt og væri hún með illvígt og hvasstennt gin. Hún var einatt kölluð Bigmouth eftir þetta.

Það húmaði að degi og ég man ekki hvað langur tími leið. Ég var löglega afsakaður frá skyldustörfum og hélt mig í og við þyrluskýlið.  Týr var særður en harkaði af sér og baráttan hélt áfram. Ég fór og náði í myndavélina mína til að reyna að ná mynd af freygátunni þótt skuggsýnt væri orðið. Hættumerki hafði verið gefið, en mennt töldu Falmouth ekki líklega til stórræða. Köld hafgolan lék um lubbann á mér, þar sem ég vappaði í lopapeysu með Kódakinn tilbúinn. Þarna kom hún bölvuð út úr rökkrinu rymjandi, öslandi nær og nær á óskaplegum hraða eins froðufellandi villidýr. Ég stífnaði upp og trúði ekki mínum eigin augum.  Án þess að hugsa smellti ég af mynd, svo flassið lýstigrimmúðlegt  ferlíkið upp. Svo skall hún á okkur. Ég missti fæturna og myndavélina og reyndi örvæntingarfullt að staulast á fætur og inn í skýlið. Hávaðin var ærandi og járnið glóði í myrkrinu. Týr hallaði hratt yfir á stjórnborða. Ég sá félaga mína stökkva upp í Zodiac báta, sem tjóðraðir voru bakborðsmeginn í skýlinu. Kokkurinn hrópaði á mig og rétti höndina í átt til mín. Ég teygði mig á móti og hraðaði mér til hans. Fingur okkar snertust naumast eins og hjá Adam og Almættinu í Sixtísku kapellunni, en það var of seint að ná gripi.

KærnestedTýr var nánast kominn upp á rönd og ég féll þvert yfir þyrluskýlið og skall á sjódælum, sem þar var raðað. Sjórinn flæddi inn og hálf fyllti skýlið. Falmouth keyrði okkur í kaf að aftan og sló ekki af. Ég svamlaði í sjónum og reyndi að krafla mig fram eftir skýlinu til að komast inn í skipið og undan sjónum. Hávaðin frá emjandi járninu var ærandi. Falmout sigldi með okkur í hring en rifnaði svo frá með látum. Týr fór að rétta sig af og ég er handviss um að okkur hefði hvolft, ef skipin hefðu ekki læst sig saman. Freygátan rifnaði eina 11 metra inn í bóginn, svo stefnið náði nánast þvert yrir þyrludekkið.

Ég staulaðist skelkaður á fætur og það fjaraði út úr skipinu. Lopapeysan var þung af sjó, mig sárverkjaði í bakið og fannst ég varla geta stigið í fæturna.  Ég fór úr peysunni og klofaði inn í skipið. Á hægri hönd við mig voru raðir af björgunarvestum á veggnum ósnert og ónotuð. Í sömu mund kom 1. stýrimaður sótrauður út úr klefanum sínum, sem var stjórnborðsmeginn. Hann náði ekki að komast út við áreksturinn og horfði bara á klefahurðina hjá sér eins og lofthlera fyrir ofan sig. Ég spurði hann stamandi hvort við ættum ekki að fara í björgunarvesti en hann svaraði hastur að það væru engar kerlingar hér um borð og rauk svo upp í brú. Allt tal um öryggismál var kveifarháttur á þessum tíma. Það var hinn karlmannlegi tíðarandi.

Kunnuglegur kökkur kom aftur í hálsinn á mér og mig langaði til að gráta. Loftskeytamaðurinn kom fram og sá útganginn á mér og spurði blíðlega hvort ekki væri allt í lagi. Ég kyngdi grátnum og sagði jú, mér væri bara svolítið illt í bakinu. Hann tók mig með sér inn í loftskeytaklefa og setti mig niður og snéri sér strax að tækjunum sínum. Ég minnist hans enn með hlýju. Hann var yfirvegaður og mjúkmáll og alger andstaða annara manna á þessari stundu. Hann sagði mér hvað væri að ske. Bölsót bretanna brakaði í hátölurum og uppnámið var greinilega miklu meira meðal þeirra en okkar.  Það var gefin skipun um að ganga frá okkur og dráttarbátarnir stefndu til okkar.  Menn komu inn í klefann og sögðu tíðindi. Önnur skrúfan var farinn og sat eftir í búk freigátunnar, svo mikill var hallinn.  Týr var beyglaður undir kjöl, hálft þyrludekkið af og gat á dekkinu bakborðsmeginn svo sjórinn flæddi inn í vélarrúm. Þetta hafði verið ísköld og útreiknuð morðtilraun á óvopnuðum mönnum.  Að vísu var lítil fallbyssa um borð, en hún var frá því um 1870 og var hættulegra að vera fyrir aftan hana en framan.

Týr hökti á hálfri ferð í átt að landi og dráttarbátarnir fylgdu fast eftir með skipun um að sigla okkur niður.  Vélstjórarnir börðust hetjulega við að auka afl vélarinnar, sem nothæf var. Ég staulaðist út úr Loftskeytaklefanum og var nú með nístandi sársauka í bakinu. Ég harkaði af mér og komst niður stiga og ætlaði mér í koju. Þá gat ég ekki meir.  Ég  hélt mér í handriði og lét fallast á hnén og fann að skelfing atburðanna var að vakna innra með mér.  Á sama augnabliki kom Guðmundur Kærnested skipherra og laut yfir mig blíðlega og strauk mér um kollinn. Hann spurði hvort ég fyndi til og notaði orðið vinur, sem snart mig djúpt. Ég kom ekki upp orði. Hann reisti mig við,  studdi mig inn í sjúkraklefa og hjálpaði mér að hátta upp í koju. Hann gaf mér pillu, sem hann sagði að myndi láta mér líða betur, flestir hafi í raun þurft eina slíka. Hann brosti blíðlega og hughreysti mig.  Við vorum að komast undan og bráðum kæmumst við í var inn á Berufjörð.

Ég gleymi aldrei styrkleika og persónutöfrum þessa manns. Hann var föðurlegur, blíður og traustur og engin pilla hefði styrkt mig meira en hann gerði þarna. Ég treysti honum fullkomlega fyrir lífi mínu. Hann gekk út og slökkti ljósin. Skömmu síðar var ég sofnaður.

Ég hef aldrei sagt þessa sögu áður á prenti og fannst það tilvalið að nota bloggið til að skrá hana.  Sagan endaði ekki þarna en segja má að stríðið hafi endaði þarna, því diplomatísk lausn var fundinn örskömmu síðar og útlenskir veiðiþjófar hafa haldið sig utan við fiskveiðilögsögu okkar að mestu frá því.  Þessi atburður varð öðru fremur valdur þess.

Ég segi svo framhaldið af þessu síðar, sem er ekki síður athyglisverð saga.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband