Færsluflokkur: Lífstíll

Fangavörðurinn

möbíus lífDauðinn er fjarri huga barnsins.  Ég man að ég náði bara ekki utan um þá hugsun að eitthvað væri endanlegt;  að fólk hyrfi bara og kæmi ekki aftur; væri bara ekki meir.  Þó var dauðinn allt um kring í litla bænum okkar.  Við drógum fram lífið á honum.  Ég fann aldrei til djúprar sorgar við fráfall fólks.  Þótti það jú leitt vegna þeirra, sem eftir lifðu, en aldrei syrgði ég djúpt eins og hinir fullorðnu.  Leið ekki þessa angist og kvöl.  Þó var ég frekar tilfinningaríkt barn að ég held.

Ég hafði heyrt að fólk færi á betri stað; að baslið og veikindin væru að baki og brosmildar sálir þeirra svifu eins og koddafiður um himingeiminn.  Ég jafnvel öfundaðist smá yfir þessu flugi og því að geta verið svona  laus undan helsi líkamans.   Upplifði þetta stundum í draumum mínum.  Ég þurfti aðeins að tylla niður tánum og þá losnuðu gúmmískórnir frá forugri götunni og ég flaug, hvert á land sem vildi með ljúfa golu í hárinu.

dauðinn sja´lfurDauðinn fyrir mér var meira eins og fangavörður, sem hélt okkur í ákveðinn refsitíma á jörðinni, en sleppti okkur síðan lausum að afplánun lokinni.  Ég óttaðist hann ekki og tengdi hann aldrei við mig.  Ég var eilífur. 

Pabbi var sjómaður á litlum bát og fór út í allskonar veðrum.  Ég fann þó aldrei fyrir kvíða og ótta um afdrif hans.  Jafnvel þó ekki spyrðist til hans í vondum veðrum.  Ég vonaði bara að hann yrði ekki blautur og kaldur og að hann hafi haft með sér nóg af brauði með osti og eplasneið, en hafði algert traust á því að hann kæmi heill heim.  Annað komst einfaldlega ekki að í mínum úfna kolli.

Það voru þó drengir í götunni, sem misstu pabba sinn í hafið og það lagði undarlegan skugga yfir húsið þeirra um stund.  Þeir urðu fjarlægir og gleðisnauðir en innan skamms þá rjátlaði það af.  Það hefði pabbi þeirra líka viljað.  Ekki vildi ég að fólk þjáðist vegna burtfarar minnar.  Flestir geta líklega tekið undir það.

Það komu líka skelfilegar fréttir af breskum togurum, sem sagðir voru hafa farist með manni og mús og allt sem ég sá fyrir mér var lítil mús að reyna að synda í land í köldum sjónum.

jarðaförStundum kom varðskip eða aðrir bátar í höfn með aflanga kassa sveipaða fánanum.  Menn voru niðurlútir og tíminn brá sér frá; allt var hégómi um stund og ekkert var meira viðeigandi en að segja alls ekki neitt.  Það var heldur ekkert hægt að segja neitt andspænist þessu ógnarafli, sem dauðinn var.  Tár léttu fólki þungann í höfði og brjósti, en breyttu annars engu.  Í minningunni var oftast þoka eða rigning á þessum dögum.  Svo varð allt hreint og nýtt.  Fólk hugleiddi gang sinn og sá að flani sínu og flumbri í daglegu amstri.  Það varð umburðarlyndara,  hægara og betra í alla staði við hvort annað.  Fegið því að hafa ekki glatað sínum.  Haldist var í hendur og  börnin fengu fleiri faðmlög en í meðalári.  Látleysið einkenndi þessar stundir og auðmýktin var djúp fyrir hinu óumflýjanlega.

Einu sinni varð ég þó vitni að serimóníum, sem ég skildi ekki.  Það kallaðist húskveðja.   Athöfnin var haldin í húsi hins látna. Það var rifinn gluggi úr húsinu með póstum og öllu krami svo stórsá á.  Kistunni var í lokin troðið þar út, þó svo að hún hafi verið sett inn um hurðina í upphafi.  Hún var svört eins og á myndum, sem maður sá frá Svarta Dauða í skólabókunum.  Ég skildi ekki að við gætum haft áhrif á handanvistina með slíku brölti, en ef fólki leið betur með þetta, þá var tilganginum sennilega náð.

Líkiktusmiðurinn hann Kristinn, bjó í húsinu við hliðina á mér.  Hann var hæglátur maður, sem átti góða og hlýlega konu og strák, sem var aðeins yngri en ég.  Þau áttu Trabant, sem vakti mann á hverjum morgni með miklum gauragangi, fretum og reykmekki svo miklum að  það dró fyrir sólu um hríð.  Maður var þakklátur snjóþungum vetrum, því þá fennti yfir þennan hrossabrest og við höfðum hann undir fótum okkar, þar sem við lékum okkur.  Almættið sá fyrir sínum.

Það tók þó ekki betra við, því Mummi sonur þeirra fór að læra á Valdhorn og prumpaði daginn út og inn, svo undir tók í húsinu.  Þetta voru skelfileg harmkvæli og við systkinin sátum eins og opinmynntar brúður á meðan þetta gekk yfir, því það var vart hægt að tala saman fyrir þessum ósköpum. 

kattardauðiÞetta var samt gott og hrekklaust fólk, sem lifði hófsömu og tilbreytingarlitlu lífi, nema hvað eitt sinn þá skruppu þau hjónin suður og fengu sér nýjar "tönnur."  Þau voru skælbrosandi upp frá því og fengu varla mælt framar, með allt þetta postulín upp í sér.  Þetta var eins og að sjá upp í bollaskáp með tólf manna mávastelli.  Þau sögðu annars ekki margt yfirleitt, svo það breytti litlu.  Þau lifðu af dauðanum og það þurfti ekki mikið að fjasa yfir því.

Ég man að ég reyndi að gera mér upp grát af skyldurækni þegar amma dó.  Ég gat bara ekki grátið.  Það var ekki af kaldlyndi heldur af ást til þessarar konu, sem var svo blíð við mig og góð. Hún kenndi mér faðirvorið; kallaði mig Jón minn Steinar, gaf mér kökubita og mjólk og ræddi heimspekileg málefni við spurulan pjakk.  Hún var engill alla tíð fyrir mér.  Ég vildi ekki einu sinni fara í jarðarförina hennar, því ég vildi hafa hana hjá mér eins og hún var.  Ég held að börn skilji ekki jarðarfarir og allt það umstang og skikk, sem þeim fylgir.  Hvað þá kistulagningar, sem mér finnst bölvaður ósiður að neyða börn í.   Þau gera ekki mikinn greinarmun á jarðneskum og andlegum líkama.  Amma er til dæmis hjá mér enn.

DauðinnEinu skiptin, sem ég fann til sorgar, var þegar kisurnar mínar dóu.  Kannski var það vegna þess að þær voru eins og börnin mín og ég bar einhverskonar ábyrgð á þeim. Þær elskuðu mann, kúrðu hjá manni og eltu mann jafnvel í skólann.  Einu sinni var ég sendur heim með kisuna mína af því hún stökk mjálmandi upp á skólastofugluggann og truflaði tímann.  Okkur tengdi einhver ósýnilegur strengur.  Það var djúpur söknuður og sár sviði við bringubeinið, þegar þessi kærleikstengur rofnaði.

Við jörðuðum kisurnar okkar í bakgarðinum.  Settum þær í skókassa með einhverju mjúku innan í og sungum Jesúbróðirbesti.  Svo var mokað yfir og settur lítill kross úr spýtnabreki við höfðagaflinn.  Við signdum okkur,  kross Gullfoss og svo ekki söguna meir.

fjöldagrafreiturEitt sinn fór slík jarðarför algerlega úr böndunum.  Eldri bróðir vinar míns, var dramatísk og væmin manneskja, sem lifði í einhverjum ótrúlega leikrænum heimi.  Hann tók að sér að undirbúa jarðarförina, óumbeðinn.  Hann stal forláta silkifóðruðum saumakassa frá móður sinni,  skipulagði söngdagskrá og pósessíu umhverfis hverfið með sálmasöng og krossburði.  Sjálfur var hann í skikkju í fararbroddi,  en ég og vinur minn bárum kistuna á öxlunum.  Þetta dró að mikinn krakkaskara og man ég ekki eftir annarri eins líkfylgd þarna í bænum.  Þetta var allt hið hégómlegasta og seimóníurnar settu að manni aulahroll, þótt maður gengist undir þetta af ótta við pyntingar prelátans, sem var gjarn á að snúa upp á útstæð eyrun á okkur.

fangavörðurÞessi drengur er mesta ljúfmenni í dag.  Kom að vísu út úr skápnum seinna á lífsleiðinni,  en ekki skal ég segja hvort þessi skrautsýning var fyrirboði um það.  Það varð allt vitlaust út af saumakassanum og við fengum ákúrur fyrir hræsnina, en svo gleymdist þetta.

Mummi sonur líkkistusmiðsins tók þetta ritúal hinsvegar á iðnaðarstigið.  Hann hóf að vera hjá föður sínum í vinnunni og fjöldaframleiddi litlar líkkistur, sem hann notaði til að jarða allt sem andanum hafði glatað.  Undrandi fiskar úr fjörunni, skógarþresti, mýs og hvað eina, sem varð á vegi hans.  Á stuttum tíma breyttist bakgarðurinn í einskonar fjöldagrafreit, sem átti sér varla hliðstæðu nema við orrustuvelli Somme.  Hundruð krossa þöktu margra fermetra svæði og óþefurinn af rotnandi líkamsleifum lá inn um allar gáttir á húsinu okkar.  Flugnaplága herjaði á hverfið og ófremdarástand myndaðist.  Þá risu loks hinir fullorðnu upp og sögðu stopp nú stýrimann! Hingað og ekki lengra!  Garðurinn var grafinn upp og plágunni eytt áður en hún eyddi okkur.  Mummi var tuktaður til fyrir þennan einlæga og fordómalausa kærleiksvott, sem hann sýndi samsálum sínum á jörðu og upp frá þessu lögðust jarðarfarirnar af.

faðir og sonurÍ dag græt ég hins vegar í jarðarförum, svo hor og tár flæða.   Veit ekki hvenær það breyttist.   Finn til þessarar sömu saknaðarkenndar og sviða, sem ég fann til kisanna minna forðum; kærleika og þakklætis fyrir samfylgd góðra manneskja og kannski líka til eilítils kvíða fyrir því að brátt komi að mér.  Innst inni er ég þó alveg rólegur fyrir þeirri staðreynd og þykist vita að utan múra lífsins muni kærleiksólin blinda mig um stund og frelsið faðma mig, þegar fangavörðurinn opnar fyrir mér og hleypir mér út.


Andi Vísar á Fjársjóð.

fjársjóður“Mamma! Mamma! Pabbi! Við erum rík! Við erum rík!“ Hrópaði Bergþóra litla með fangið fullt af glitrandi gulli sem hringaðist í ótal hlykkjum og flæktist í peysunni hennar.  Pabbi hennar sat svartur upp fyrir haus eftir erfiðan dag í smiðjunni og góflaði í sig kvöldmatnum með nasablæstri. Hann leit áhugalaus upp og á dóttur sína og síðan á okkur Einar vin minn sem stóðum undarlega kímnir og niðurlútir fyrir aftan hana og teiknuðum hringi með tánum í gólfið.

“Hvern andskotann hafið þið verið að gera núna!?” gelti pabbi Einars svo fiskur og kartöflur ultu út um fullan munninn.  Sjaldan hafa jafn miklar gleðifréttir vakið jafn litlar undirtektir. Það var raunar ástæða til.  Allstaðar, þar sem við vinirnir komum nálægt voru einhver lymskubrögð í tafli. Fólk var farið að ganga út frá því sem vísu.  Þetta var enn eitt dæmið um slíkt og endaði með löðrung á vangann, sem var ekkert smáræði, því sá gamli var gamall boxari og var enn að bæta sér upp niðurlægingu síðasta bardagans, sem lagt hafði hann í endanlega valinn.  Fyrir okkur fylgdi þessu þó undarleg fullnægja og stolt. Við vinirnir sátum eftir þetta á grindverki með logandi rauða vanga og suð fyrir eyrum og sögðum ekki orð. Brostum bara glaðir og horfðum á hvorn annan með djöfulleg klókindi í augum.  Við vorum ellefu ára og nokkuð ánægðir með lífið.

óþekktarormarVið höfðum unun af að skipuleggja hrekki og snúa á fólk.  Þetta var oft svo úthugsað og vísindalegt að mig undrar það enn í dag.  Svo var það þetta algera virðingarleysi okkar fyrir fullorðna fólkinu. Það var eins og okkur væri alveg sama um refsingarnar. Við bárum enga virðingu fyrir þeim sem framkvæmdu þær og tókum þær því ekki nærri okkur. Þess þyngri refsingar því minni virðing. Ánægjan af laumuspilinu bætti löðrunga og rassskelli margfalt upp.

Sennilegast var þetta virðingarleysi sprottið af því að okkur hafði lærst að það var lítið að marka fullorðið fólk. Það bramlaði allt og braut og jós úr sér svífiyrðingum undir áhrifum áfengis og lofaði síðan gulli og grænum skógum daginn eftir. Nýju hjóli, ferðalögum og fatnaði, en stóð svo aldrei við neitt af því.  Það bölvaði og ragnaði og sló mann svo á munninn eða lét mann bíta í sápu ef maður gerði slíkt hið sama. Pabbi var vanur að segja: “Hættu þessu andskotans bölvi drengur!”  Ég skil ekki hvaðan í helvítinu þið hafið þennan andskota?” Þegar stórt er spurt er jú jafnan fátt um svör.

Elsti bróðir Einars dýrkaði Hitler og heimtaði að við heilsuðum sér að Nasistasið í hvert sinn sem við mættum honum. “Heil Hitler!”

hitlesæskaÁ fylleríum spilaði hann grammafónplötur með ræðum Hitlers svo bárujárnið skrölti utan á húsinu. “Ænen Júden slagten svæne húnden únt sjæse idioten gassen brennen im der hulen!!” fannst okkur Hitler garga móðursýkislega. Hitler þagnaði síðan snöggt og örstutt þögn varð að undanskildu arinsnarki plötunnar. Svo ærðist lýðurinn af fögnuði og hljómaði eins og suð í risastórum klósettkassa. “Sieg Heil! Sieg Heil! Sieg Heil!!! Við þetta gengum við svo gæsaganginn fram og aftur um stofuna á eftir stóra bróður og sungum "Horst Wessel."  Okkur fannst þetta náttúrlega alger della.  Hvernig var hægt að bera virðingu fyrir fólki sem lét svona.

En aftur að fjársjóðnum. Þessi dramatíska fjársjóðssaga átti sér upphaf í tilviljanakenndum sálarrannsóknum. Einhver hafði fengið okkur með sér í andaglas en ég man ekki hvernig það kom til. Þetta var þó mögnuð reynsla.  Við blésum öll í kross yfir opið á glasinu og snérum því svo þrjá hringi réttsælis yfir höfðinu áður en það var lagt á handskrifað andaborðið. “Er andi í glasinu?” var spurt og glasið hreyfðist áreynslulaust undir fingrum okkar á orðið "JÁ.Allir þrættu fyrir að hreyfa glasið sem staf fyrir staf afhjúpaði okkur svör við huldum leyndardómum. “Verð ég rosalega ríkur?” “Dey ég einhverntíma?”  “Hvað heitirðu?” "Er einhver stelpa skotin í mér?" og svo framvegis.  Við fundum hárin rísa á burstaklipptum kollunum og Bergþóra kjökraði af hræðslu. Svo var þetta búið og við vorum engu nær um neitt.  Svörin voru, mildilega sagt, afar loðin.

AndiÞetta gaf okkur Einari hinsvegar stórsnjalla hugmynd.  Við byrjuðum undirbúa hana af mikilli nákvæmni daginn eftir. Ég bjó til fjársjóðskort með því að brenna brúnirnar á vélritunarblaði, krumpa það vel og lengi, maka á það sósulit og ryki og skrifa fornlegar leiðbeiningar með augnabrúnablýantinum hennar mömmu. Neðst var auðvitað fjársjóðskort. Þetta var algert meistarastykki, enda varð það að atvinnu minni síðar meir að gera nýja hluti gamla og lúna í leikmunagerðinni.  Við rúlluðum þessu plaggi upp og bundum borða af konfektkassa utan um það. Loks földum við það undir fúinni gólffjöl í skúr inni í Hallaporti, sem var lítill undirgangur í næsta húsi við mig.  Einar stal flóka af koparspæni undan rennibekknum í smiðju föður síns og vafði hann inn í skítuga strigalufsu. Þetta földum við svo undir fúnum drumb við hjall niður í dokkunni, sem var fornt bátalægi út við sjó.

Svo kom blekkingin. Við tældum Beggu í andaglas, þar sem óskaplega nákvæmar upplýsingar komu úr andheimum um fjársjóðinn mikla í dokkunni og kortið í Hallaportsskúrnum. Jú, andinn kallaði þetta sömu nöfnum og við og gerði sömu stafsetningarvillur og við, enda voru það við sem hreyfðum glasið. Begga var rauð af æsingi og gullæðisglampi var í augum hennar. Hún náði varla andanum í kappsamri leit sinni þegar út var komið.  Hún var hinsvegar svo hlandvitlaus að að okkar mati, að við þurftum næstum að benda henni á kortið fyrir rest.  Að lokum fann hún fjársjóðinn og hljóp gráti næst af gleði alla leið heim. “Við erum rík.” Við erum rík.”  Okkar fyrsti skipulagði glæpur var veruleiki.

andaglasAnnað launráð okkar uppgötvuðum við á fjörulalli þegar við fundum tvær netakúlur úr sinki.  Við höfðum heyrt að útgerðarfélagið keypti slíkar kúlur.  Við fórum því samkvæmt bendingum karlanna í beitingaskúrunum til Bjartar gamla, sem sá um lager félagsins.  Hann skrifaði fyrir okkur beiðni upp á svaka upphæð að okkur fannst, sem leysa mætti út á skrifstofunni. Hann bað okkur fyrst að fara fram á lager með kúlurnar því hann var svolítið fótalúinn.  Það hefði hann betur látið ógert.  Þegar við opnuðum lagerdyrnar blöstu við okkur fjársjóðir Salómons konungs í fjalli af sinkkúlum sem náði upp í rjáfur.  Augu okkar mættust í þessu lymskufulla bliki sem kom okkur svo oft í vandræði. Við lásum hugi hvers annars án þess að mæla orð.

Eftir þetta byrjuðum við á því að fara á lagerinn og náðum í knippi af kúlum. Síðan fórum við með þær til Bjartar, sem lét okkur hafa beiðni sem skrifstofan breytti í peninga.  Við urðum  ríkustu gæjarnir í götunni það sumarið.  Undarlegt nokk þá grunaði gamla manninn aldrei neitt og aldrei komst upp um glæpinn....fyrr en nú.

skriftirÉg finn til hálfgerðrar skammar í dag þegar ég hugsa um þetta. Það er ljótt að stela, en okkur fannst við aldrei vera að því vegna þess að við tókum aldrei peningana beint og fannst þetta sanngjarnt gjald fyrir snilld okkar. Víst markar þessi hugsun fleiri en unga drengi eins og skýrast sést á nútíma viðskiptaháttum. Við hugsuðum bara svolítið eins og bankar.

Bergþóru var þó ljótt að blekkja og fá hana eitt augnablik til að halda að hryllingur hins alkóhólíska veruleika væri að baki og bjartari tímar í augsýn.  Það er líka sagt að það leiði til óhamingju að hafa andaheima í flimtingum. Ég er ekki fjarri því að á tímabili hafi ég þurft að gjalda fyrir það.  Aumingja Bergþóra fór allavega ekki varhluta af þessum álögum. Hún sat lengi í fangelsi fyrir morð, sem ég held að hún hafi ekki framið. Alræmd gerð af miskunnarlausri slúðurpressunni þar til ginnungagap eiturlyfjanna tók hana frá okkur.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband