Stefnt á Ísfjallið.

   Ég er hér í Nuuk á Grænlandi. Stoppa hér í eina nótt áður en haldið er til Ilulissat með stuttri viðkomu í Kangerlussuaq. 

IMG_9278Ég hef aldrei verið hérna á vesturströnd Grænlands áður og hér er um margt öðruvísi en á austurströndinni, sem ég þekki ágætlega.  Nuuk er höfuðstaður landsins og verslun og þjónusta meira í líkingu við það sem við eigum að venjast heima. Ferskt grænmeti og ávextir á boðstólum og engin vara runnin út á tíma eins og reglan virðist vera í Kulusuk og Tasilaq. 

IMG_9273Þetta er ekki eins sjarmerandi hér og fyrir austan.  Vestræn menning hefur rutt sér til rúms og stórar og ófrýnilegar íbúðablokkir tróna hér um allt og bærinn minnir einna helst á risastórar vinnubúðir. Fólkið er líka ólíkt og flestir eru frekar ljósir á hörundu og blandaðir og unga kynslóðin er hávaxin og og teinrétt að sjá, ólíkt samanreknu vaxtarlagi frumbyggjanna. Fallegt fólk og yfirvegað eins og alltaf, hvernig sem þessari blöndun er annars háttað.

gr1Gamli bærinn niður við sjó er sá hluti, sem hefur mest aðdráttarafl fyrir minn smekk. Liltlu marglitu húsin og látleysið höfðar meira til mín en þessi endalausu „Æsufell“ sem virðist lenska að byggja hér. Kannski er það plássleysi, sem ræður því, en þó er bærinn ansi dreifður um stórt svæði, sem rúma miklu meira.  Þeir ættu allavega að hugleiða þessa byggingastefnu, ef þeir hafa hugsað til aukinar ferðamennsku, eins og greinilegt er. Hér er verið að byggja „Kringlur“ og háhýsi, rétt eins og enn sé 2007 og það ansi kaldranalegar byggingar og ómanneskjulegar, því miður.

gr6Ég bý á fínu hóteli, sem kennt er við Séra Hans Egede, sem var ein fyrstur vestrænna manna til að setjast hér að. Það kemur vel á vondann að ég skuli lenda á hóteli með hans nafni, jafn efins og ég er með trúarbrögðin.

  Það er greinilega lagt mikið upp úr minningu hans hér og gamla kirkjan er honum til heiðurs, auk þess sem stytta af honum trónir þar á hæð skammt frá.   Hann vann sér það þó til mektar að læra fyrstur tungu grænlendinga og færa í letur, sem sennilega hefur hjálpað mikið til við að viðhalda henni. Hér talar fólk þó Dönsku og Grænlensku jöfnum höndum og enskukunnáttan er nokkuð almenn miðað við málleysið á austurströndinni.

gr2Nú er heimsmeistarakeppni í fótbolta, þótt mér gæti ekki verið meira sama.  Þess sér þó greinilega merki hér og menn sitja inni á sportbörum og víðar og glápa með óhljóðum rétt eins og heima. Þeir yngri og sprækari taka þó innblástur af þessu og spila fótbolta í miðnætursólinni á leirkenndum fótboltavelli mitt í öllu grjótklungrinu, sem einkennir svo landslagið hér.

  Að öðru leyti er margt hér, sem mér finnst einkennandi. Kaupfélagið, sem er beint fyrir utan gluggann minn,  er staður mannafunda og markaða og þar prútta menn og selja og spjalla saman.  Hér er þó ekki verið að pranga með Tupilakka eða selskinn, heldur alskyns vestrænt glingur, notuð verkfæri og hóflega notaðar klámspólur á VHS.  Kunnugleg hljóð heyrði ég í dag, sem minntu á Tasilaq, en það var hundgáin. Það eru þó ekki sleðahundar sem góla hér og gelta heldur stuttfættir smáhundar og önnur tildurslegri afbrigði, eins og fólk dragnast með heima. Enga sleðahunda að sjá hér.

gr8Á morgun verður svo flogið á Ilulissat um Kangerlssuaq, eins og ég sagði, en sá bær er sá þriðji stærsti í landinu.  Nafn hans þýðir Ísfjallið og er það fæðingarstaður hins þekkta frumherja og landkönnuðar Knut Rassmussen.  Hann er 200km fyrir norðan heimskautsbaug, ekki langt frá Disco eyju og er þekktastur af ísfirðinum mikla og tignarlegum skriðjökli, sem brýst til sjávar í fjarðarbotninum. Staður sem margoft er sýnt frá í áróðursmyndum um hnatthlýnun. Þar verð ég í viku – 10 daga að undirbúa og mynda ísjaka fyrir auglýsiingaverkefni. Hégóminn einn ræður þessu flandri mínu sem einatt áður.  Ég segi ykkur frekar frá því þegar á hólminn er komið. 

 Ferðin er rétt að byrja.

Hér eru svo fleiri myndir:

gr9

 1. Ekki er sleðahundum fyrir að fara í Nuuk.

kau

 2. Mannlífið við kaupfélagið samt við sig.

vör

3.Vöruúrvalið kannski ekki það sem búast má við.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Verulega gaman að lesa þetta og skoða myndirnar. Blessaður haltu áfram að blogga um þetta ferðalag þitt og setja inn myndir. Gangi þér vel.

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 15.6.2010 kl. 03:56

2 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Þú ert eins og Eiríkur Rauði, þarna í bakgarðinum hjá Mozfeld! Skemmtileg færsla. Við heyrum allt of lítið frá bræðrum okkar í hvalnum.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 15.6.2010 kl. 07:45

3 identicon

Góða skemmtun :-)

Gréta (IP-tala skráð) 15.6.2010 kl. 08:47

4 Smámynd: Sigurbjörg Eiríksdóttir

Skemmtilegt blogg!! Flottar myndir..Ég hef einu sinni komið til Grænlands..árið 1990. Þá til Nassarsuak og í það nágrenni..

Hafðu það gott.

Kveðja,

Silla bloggvinur.

Sigurbjörg Eiríksdóttir, 15.6.2010 kl. 08:52

5 Smámynd: Ívar Pálsson

Gaman að þessu, Jón Steinar, takk fyrir. Lýsingar þínar eru alltaf skemmtilegar og myndirnar eru stækkanlegar upp í plaköt ef maður útir á þær aftur og aftur. Haltu áfram hégómanum, þó ekki væri nema fyrir okkur (og budduna?).

Ívar Pálsson, 15.6.2010 kl. 09:19

6 Smámynd: Jens Guð

  Þetta er skemmtileg ferðalýsing.  Ég hef tvívegis komið til Kangerlusuaq.  Sömuleiðis hef ég komið til Aasiaat og Narsasuaq.  En á alveg eftir að koma til Nuuk.

Jens Guð, 15.6.2010 kl. 11:28

7 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Takk fyrir innlitið vinir mínir. Ég þekki mig best til á austurströndinni, svo þetta eru nýjar lendur að kanna. Er ný lentur í Ilulissat í súlldardrullu og slæmu skyggni. Segi ykkur meira þegar ég hef kannað svæðið. Verð á sjó mestan hluta morgundagsins að skoða ísjaka, svo ég skelli einhverju inn annað kvöld.

Jón Steinar Ragnarsson, 15.6.2010 kl. 18:16

8 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

R´tt að nefna að netsamband er ekki gefins hérna, og þarf maður að borga 60Dkr fyrir klukkutímann, sem er ansi bratt fyrir gengisfelldan Íslending, svo maður skýtur sér inn hér í leyftursóknum annað slagið.

Jón Steinar Ragnarsson, 15.6.2010 kl. 18:18

9 Smámynd: Anna

Skemmtilegur pistill. Það er stundum á við ferðalag að lesa svona skrif.

Anna, 15.6.2010 kl. 20:30

10 Smámynd: Þór Ómar Jónsson

skemmtileg lesning og gaman að fá að fylgjast með. fallegar myndir! gangi ykkur vel.

Þór Ómar Jónsson, 15.6.2010 kl. 22:45

11 identicon

Sæll Jón Steinar.

Skemmtileg lesning.

Bíð eftir næsta pistli.

Gangi þér vel.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 16.6.2010 kl. 08:44

12 Smámynd: Hjóla-Hrönn

Færeyjar og Grænland eru þau lönd sem ég á örugglega eftir að heimsækja einhvern tíma á lífsleiðinni.  Samt skondið hve Grænland er ólíkt okkur, verandi svona nálægt.  Leiðinlegt hve vestræna menningin er að skemma samfélagið.  Ég var t.d. á Ítalíu nýlega og það er með eindæmum hversu vel þeim tekst að varðveita gamlar hefðir, bæði í menningu, matargerð og byggingarlist.

Hjóla-Hrönn, 16.6.2010 kl. 12:50

13 Smámynd: Heimir Tómasson

Sleðahundar vs pokarottur. Eitt svar. Þaðsem hoppar þegar það geltir er ekki hundur. Punktur.

Frábær póstur hjá þér að vanda. Takk.

Heimir Tómasson, 17.6.2010 kl. 22:51

14 Smámynd: Ívar Pálsson

Jón Steinar, ég sá Ikíngut ekki fyrr en áðan í sjónvarpinu. Við höfðum öll gaman af, takk fyrir góða skemmtun.

Ívar Pálsson, 18.6.2010 kl. 01:52

15 Smámynd: Jóhanna Ómarsdóttir

Skemmtilegt að rekast á þessa bloggsíðu, er mikill Grænlandsaðdáandi þó ég hafi aðeins komið 1 sinni á Suðurströndina, skemmtilegt að lesa um Nuuk þó mig langi ekkert gífurlega að fara á þær slóðir sjálf ...takk fyrir góða sögu, bíð spennt eftir framhaldi frá Kangerlusuaq.

kær kveðja jóhanna

Jóhanna Ómarsdóttir, 18.6.2010 kl. 14:18

16 Smámynd: Ómar Ingi

Skemmtileg lesning

Ómar Ingi, 19.6.2010 kl. 00:18

17 Smámynd: Óskar Arnórsson

Frábær færsla og bráðskemmtileg! Hef aldrei komið til Grænlands og það virðist að maður eigi virkilega skemmtilega hluti eftir í lífinu, Takk fyrir þetta!

Óskar Arnórsson, 19.6.2010 kl. 03:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband