Þegar Ég Fór í Stríð Fyrir Ísland.

stríð á sjó

Þegar ég var á 16. ári ákvað ég að tylla mér á tær og kíkja á heiminn handan fjallanna, sem húktu báðum meginn fjarðarins og héldu sólarljósinu frá bænum mínum mestan hluta ársins. Þetta var fyrir tíma forsjárhyggju, ofvirkni, áfallahjálpar og kvóta. Þetta voru aflatímar, hetjutímar og uppgangstímar, þar sem enginn var maður með mönnum nema að hann ynni 16 tíma vinnudag, drykki eins og berserkur og væri sigldur með tattú og allt. Við ungmennin vorum ekkert undanskilin þessu. Þeir, sem samsömuðu sig ekki þessari skipan og voru á skjön, voru sendir á vandræðaheimili eða í sveit.  Það fylgdi dómsdagsþungi slíkum hótunum.

JonSteinar stríðÉg munstraði mig því á millilandaskip sem smyrjari.  Ég sigldi á Rússland með freðinn fisk og tók vörur upp í bakaleiðinni m.a. í Þýskalandi. Þar fékk ég mér burðugt tattú á framhandlegginn í melluhverfi borgarinnar, hjá manni í skuggalegri kjallaraholu. Hann leit út eins og Árni Bergmann. Ég drakk og slarkaði í höfnum og var sannur maður með mönnum.  Ég hafði verið handtekinn af KGB í Leníngrad og fluttur um borð í fylgd vopnaðra hersveita Bresnéfs, fengið bornkítis og tremma og klikkti svo út með að rota kokkinn, sem lenti á spítala í borg Leníns. Það var mér ekki fyrirgefið og var ég látinn taka pokann minn þegar heim var komið.

Einn og umkomulaus í borg óttans, þvældist ég um og drakk og gisti með versta óþjóðalýð borgarinnar. Ég reyndi að koma mér í pláss á öðru skipi og fór m.a. niður í Ríkiskip til að reyna að komast á strandferðaskipin Esju eða Heklu, því enginn vildi hafa svona vandræðamann með til lengri siglinga.

TýrEinn daginn var ég að rölta við Ægisgarð og var þá nýkominn úr áranguslausri ferð til Ríkisskipa. Þá vindur sér að mér ljósleitur maður í kokkagalla og klossum og spurði mig hvort ég hafi ekki verið að leita að plássi. Ég játti því undrandi á því að forsjónin skyldi elta mig uppi eftir allt mitt áranguslausa streð. Maðurinn kynnti sig og spurði hvort ég gæti ekki komið fyrirvaralaust í túr því skipið væri um það bil að losa enda. Ég leit á aumlegan útgang minn, útvíðar flauelsbuxurnar og þykkbotna blöðruskóna. Maðurinn sá þetta og sagði mér engar áhyggjur að hafa, ég fengi algalla um borð. Ég réði mig með handabandi og spurði hvar skipið væri. Kokkurinn benti á skip skammt frá og tók svo í hendina á mér og dró mig með sér. Fyrir framan okkur trónaði varskipið Týr.

Ísland var á hápunkti 200 mílna þorskastríðsins. Ég fékk matrósaföt með merki gæslunnar á barmi og var gerður að messagutta í yfirmannamessa.  Þar þjónaði ég engu minni manni til borðs en þjóðhetjunni Guðmundi Kærnested.

Þetta reyndust viðburðarríkir tímar. Við vorum skæðastir með klippurnar og vorum eltir af herskipum, sem voru minnst þrisvar sinnum stærri en við og dráttarbátum, sem voru sterkir og illvígir. Við klipptum trollin af togurum, sem voru með veiaðrfærin úti af dyggð við Drottningu breta, því ekki sá ég þá fiska nokkurt kóð. Togararnir reyndu að bakka á okkur og áhafnirnar sýndu á sér bera bossana, hentu sorpi að okkur og bölsótuðust. Sjóliðar Bretadrottningar voru ekkert skárri. Þeir silgdu að okkur og á okkur,  jusu yfir okkur sjó, helltu yfir okkur sorpi og létu eins og apakettir í búri. Kærnested uppálagði okkur að sýna þeim fyllstu virðingu þrátt fyrir þetta, standa teinréttir og gera "Honnör". Ég skildi það ekki þá en það fyllir mig stolti í dag.

Við lentum í nokkrum alvarlegum ákeyrslum, sem breyttu afturhluta Týs í brotajárnshaug. Viðvörunnarflauturnar gullu stöðugt í skipinu, svo varla var nokkra hvíld að fá. Það var jú hluti af taugastríði breta. Við þurftum nokkrum sinnum að fara inn á Seyðisfjörð til að láta lappa upp á okkur og þá var "ríkið", sem var í bárujárnshjalli við sjónn, opnað á hvaða tíma sólahrings sem var, til að sefa strekktar taugar. Þjóðin stóð með okkur. Við vorum hetjur.

Ég keypti mér Kodak Instamatic myndavél og byrjaði að taka myndir af hasarnum fyrir Tímann, sem var málgagn Framsóknaflokksins.  Þetta eru gleymdar myndir, sem mér fannst sumar hverjar einhverjar þær bestu, sem teknar voru í þessu stríði frá okkar sjónarhorni. Sumar sýndu, svo ekki var um villst,  hver var að sigla á hvern.

týr og tartarSvo kom stóri dagurinn. Ég man að það var spenna í loftinu. Nimrod þotur flugu lágflug yfir okkur með miklum gný og Freigáturnar voru hættulega nærgöngular. Þegar svo stóð á voru sem flestir af áhöfninni, beðnir um að vera í þyrluskýlinu, sem var haft opið í hálfa gátt. Um miðjan dag var keyrt á okkur. Freygáta skellti hnífskörpum afturenda utan í stefnið á okkur og gerði á okkur gat. Sjórinn flæddi um alla ganga og dýnur og spítnarusl var dregið saman til að stoppa í gatið. Kærnested lét það ekki á sig fá og setti klippurnar út, herskárri sem aldrei fyrr. Freygátan Falmouth fylgdi okkur fast á eftir og fleiri óvinaskip voru í nánd. Nú var greinilega eitthvað stórt í uppsiglingu.

Ég var niðri í skipi þegar fyrsti stóri áreksturinn varð. Ég hafði verið beðinn um að færa mönnum kaffi upp í brú og var á leið frameftir gangi þegar skellurinn kom.  Skipið kipptist til með miklum skruðningum. Ég heyrði brothljóð úr eldhúsinu en hélt áfram að sinna skyldu minni. Skipið hallaðist meira og meira og ég gekk í hægri kverk gangsins og hugsaði einvörðungu um að hella kaffinu ekki niður.  Þegar ég kom að þvergangi, sem leiddi að stiganum, áleiðis upp í brú, var ég nánast farinn að standa á gangveggnum. Ég stikaði á móti hallanum þvert á skipið og fékk vart staðið. Ég fór á hnén og skreið, en hafði ekki augun af kaffinu. Loks var ekki við hallann ráðið og ég rann niður aftur og skall á gangveggnum, svo kaffið skvettist um allt.

Hms FalmouthMér fannst þetta vara heila eilífð og tíminn hafði hægt undarlega á sér. Mér fannst eins og ég gengi í draumi, þegar ég skakklappaðist aftur með gangveggnum á leið inn í eldhús, til að fylla aftur á könnuna. Þegar að eldhúsinu kom var skipið farið að rétta sig af á ný. Ég fyllti á kaffið og hélt áfram erindi mínu. Það gullu hróp og köll úr þyrluskýlinu og mikið uppnám virtist vera, en ég fór upp í brú með kaffið eins og ekkert hefði í skorist. Þar var allt á öðrum endanum og menn mjög æstir eins og eðlilegt var. Menn höfðu hangið eins og tuskubrúður í rekkverkinu og horft á grængolandi sjóinn neðan við brúargluggana stjórnborðsmeginn.  Þetta var í eina skiptið, sem ég sá Kærnested skipta skapi. Hann var alltaf pollrólegur og traustvekjandi. Hann byrsti sig við mig og sagði mér að andskotast niður aftur, þarna væri enginn að hugsa um kaffi. Það var jú augljóst. Það þurfti enginn að fá neitt örvandi þarna. Öll skilningarvit voru þanin upp á gátt. Þeir voru líka á fullu við að stýra skipinu, enda héldu þeir áfram og kláruðu það sem þeir voru byrjaðir á, að klippa á togvíra. Það tókst þeim og það hefur líklega fyllt mælinn hjá bretum.

Ég fékk kökk í hálsin og volgnaði um augun yfir þessar hörku frá manni, sem ég leit svo upp til og fór auðmjúkur að þurrka kaffið upp af ganginum.  Þar var mér sagt að ég mætti ekki vera niðri þegar svona hættuástand væri, ég yrði að vera uppi í skýli.  Ég hafði jú ekki vitað að þarna stæði fyrir dyrum grófasta árás á Ísland frá seinna stríði og var sár yfir hve ég var misskilinn. Ég var jú bara að gera það sem mér var sagt.

Enn einu sinni var þyrludekkið eins og brotajárnshaugur og hnausþykkt stálið undið, skælt og rifið rétt eins og Týr væri pappírsbátur. Það var örlítið rórra og menn ræddu á milli sín atburðina, hvar þeir voru og hvað þeir sáu. Tveir voru á spilinu fyrir klippurnar, sem var undir þyrludekkinu, fóru á bólakaf  og héldu að þeir myndu drukkana. Menn voru skeknir en ótrúlega yfirvegaðir. 75 gráðu halli var sagt. Vélstjórarnir áætluðu það eftir pendúl í vélarrúminu. Freygátan Falmouth lónaði hjá eins og gremjulegt villidýr með stafninn rifinn og tættann líkt og væri hún með illvígt og hvasstennt gin. Hún var einatt kölluð Bigmouth eftir þetta.

Það húmaði að degi og ég man ekki hvað langur tími leið. Ég var löglega afsakaður frá skyldustörfum og hélt mig í og við þyrluskýlið.  Týr var særður en harkaði af sér og baráttan hélt áfram. Ég fór og náði í myndavélina mína til að reyna að ná mynd af freygátunni þótt skuggsýnt væri orðið. Hættumerki hafði verið gefið, en mennt töldu Falmouth ekki líklega til stórræða. Köld hafgolan lék um lubbann á mér, þar sem ég vappaði í lopapeysu með Kódakinn tilbúinn. Þarna kom hún bölvuð út úr rökkrinu rymjandi, öslandi nær og nær á óskaplegum hraða eins froðufellandi villidýr. Ég stífnaði upp og trúði ekki mínum eigin augum.  Án þess að hugsa smellti ég af mynd, svo flassið lýstigrimmúðlegt  ferlíkið upp. Svo skall hún á okkur. Ég missti fæturna og myndavélina og reyndi örvæntingarfullt að staulast á fætur og inn í skýlið. Hávaðin var ærandi og járnið glóði í myrkrinu. Týr hallaði hratt yfir á stjórnborða. Ég sá félaga mína stökkva upp í Zodiac báta, sem tjóðraðir voru bakborðsmeginn í skýlinu. Kokkurinn hrópaði á mig og rétti höndina í átt til mín. Ég teygði mig á móti og hraðaði mér til hans. Fingur okkar snertust naumast eins og hjá Adam og Almættinu í Sixtísku kapellunni, en það var of seint að ná gripi.

KærnestedTýr var nánast kominn upp á rönd og ég féll þvert yfir þyrluskýlið og skall á sjódælum, sem þar var raðað. Sjórinn flæddi inn og hálf fyllti skýlið. Falmouth keyrði okkur í kaf að aftan og sló ekki af. Ég svamlaði í sjónum og reyndi að krafla mig fram eftir skýlinu til að komast inn í skipið og undan sjónum. Hávaðin frá emjandi járninu var ærandi. Falmout sigldi með okkur í hring en rifnaði svo frá með látum. Týr fór að rétta sig af og ég er handviss um að okkur hefði hvolft, ef skipin hefðu ekki læst sig saman. Freygátan rifnaði eina 11 metra inn í bóginn, svo stefnið náði nánast þvert yrir þyrludekkið.

Ég staulaðist skelkaður á fætur og það fjaraði út úr skipinu. Lopapeysan var þung af sjó, mig sárverkjaði í bakið og fannst ég varla geta stigið í fæturna.  Ég fór úr peysunni og klofaði inn í skipið. Á hægri hönd við mig voru raðir af björgunarvestum á veggnum ósnert og ónotuð. Í sömu mund kom 1. stýrimaður sótrauður út úr klefanum sínum, sem var stjórnborðsmeginn. Hann náði ekki að komast út við áreksturinn og horfði bara á klefahurðina hjá sér eins og lofthlera fyrir ofan sig. Ég spurði hann stamandi hvort við ættum ekki að fara í björgunarvesti en hann svaraði hastur að það væru engar kerlingar hér um borð og rauk svo upp í brú. Allt tal um öryggismál var kveifarháttur á þessum tíma. Það var hinn karlmannlegi tíðarandi.

Kunnuglegur kökkur kom aftur í hálsinn á mér og mig langaði til að gráta. Loftskeytamaðurinn kom fram og sá útganginn á mér og spurði blíðlega hvort ekki væri allt í lagi. Ég kyngdi grátnum og sagði jú, mér væri bara svolítið illt í bakinu. Hann tók mig með sér inn í loftskeytaklefa og setti mig niður og snéri sér strax að tækjunum sínum. Ég minnist hans enn með hlýju. Hann var yfirvegaður og mjúkmáll og alger andstaða annara manna á þessari stundu. Hann sagði mér hvað væri að ske. Bölsót bretanna brakaði í hátölurum og uppnámið var greinilega miklu meira meðal þeirra en okkar.  Það var gefin skipun um að ganga frá okkur og dráttarbátarnir stefndu til okkar.  Menn komu inn í klefann og sögðu tíðindi. Önnur skrúfan var farinn og sat eftir í búk freigátunnar, svo mikill var hallinn.  Týr var beyglaður undir kjöl, hálft þyrludekkið af og gat á dekkinu bakborðsmeginn svo sjórinn flæddi inn í vélarrúm. Þetta hafði verið ísköld og útreiknuð morðtilraun á óvopnuðum mönnum.  Að vísu var lítil fallbyssa um borð, en hún var frá því um 1870 og var hættulegra að vera fyrir aftan hana en framan.

Týr hökti á hálfri ferð í átt að landi og dráttarbátarnir fylgdu fast eftir með skipun um að sigla okkur niður.  Vélstjórarnir börðust hetjulega við að auka afl vélarinnar, sem nothæf var. Ég staulaðist út úr Loftskeytaklefanum og var nú með nístandi sársauka í bakinu. Ég harkaði af mér og komst niður stiga og ætlaði mér í koju. Þá gat ég ekki meir.  Ég  hélt mér í handriði og lét fallast á hnén og fann að skelfing atburðanna var að vakna innra með mér.  Á sama augnabliki kom Guðmundur Kærnested skipherra og laut yfir mig blíðlega og strauk mér um kollinn. Hann spurði hvort ég fyndi til og notaði orðið vinur, sem snart mig djúpt. Ég kom ekki upp orði. Hann reisti mig við,  studdi mig inn í sjúkraklefa og hjálpaði mér að hátta upp í koju. Hann gaf mér pillu, sem hann sagði að myndi láta mér líða betur, flestir hafi í raun þurft eina slíka. Hann brosti blíðlega og hughreysti mig.  Við vorum að komast undan og bráðum kæmumst við í var inn á Berufjörð.

Ég gleymi aldrei styrkleika og persónutöfrum þessa manns. Hann var föðurlegur, blíður og traustur og engin pilla hefði styrkt mig meira en hann gerði þarna. Ég treysti honum fullkomlega fyrir lífi mínu. Hann gekk út og slökkti ljósin. Skömmu síðar var ég sofnaður.

Ég hef aldrei sagt þessa sögu áður á prenti og fannst það tilvalið að nota bloggið til að skrá hana.  Sagan endaði ekki þarna en segja má að stríðið hafi endaði þarna, því diplomatísk lausn var fundinn örskömmu síðar og útlenskir veiðiþjófar hafa haldið sig utan við fiskveiðilögsögu okkar að mestu frá því.  Þessi atburður varð öðru fremur valdur þess.

Ég segi svo framhaldið af þessu síðar, sem er ekki síður athyglisverð saga.


Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jens Guð

Frábært uppátæki hjá þér að endurbirta "best of" af eldri bloggum.  Ég hygg að það eigi við um fleiri en mig að vera latur að fletta upp á eldri bloggum (nógur tími fer í að fylgjast með nýjustu færslum). 

Þó að sagan sé svakalega og sláandi þá stóð ég mig að því að skella uppúr, aleinn fyrir framan tölvuna,  við lesturinn á samviskusemi þinni varðandi að standa sig með kaffið.  Það fer að verða klisja, en samt ekki ofsögð, að þú hefur einstaklega næman frásagnarhæfileika.  Þökk sé blogginu að fá þessar ljóslifandi lýsingar til aflestrar.  Það er ekki að ástæðulausu sem ég fæ tilhlökkunartilfinningu þegar ég sé á stjórnborði mínu að komin er nýtt blogg frá þér.

Jens Guð, 17.3.2007 kl. 01:43

2 identicon

Takk fyrir þessa sögu. Mér sýnist þetta nú vera hinn fínasti efniviður í kvikmyndahandrit - allavega hélst athyglin mín alveg til enda þó að skrifin væru löng. Bíð spennt eftir framhaldinu.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 17.3.2007 kl. 01:47

3 Smámynd: Róbert Björnsson

Góð lesning....AFTUR! 

Róbert Björnsson, 17.3.2007 kl. 06:22

4 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

þú ert þjóðhetja!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 17.3.2007 kl. 09:37

5 identicon

VIRKILEGA LIFANDI OG SKEMMTILEG FRÁSÖGN, MINNIR SVOLÍTIÐ Á MEISTARA ÞÓRBERG .GAMAN AÐ FÁ SVONA FRÁSÖGN FRÁ SJÓNARVOTTI.

TAKK FYRIR

Hörður V. Sigmarsson (IP-tala skráð) 17.3.2007 kl. 12:39

6 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Góður pistill

Jenný Anna Baldursdóttir, 17.3.2007 kl. 15:37

7 Smámynd: Solla Guðjóns

Hæ! Þessi frásögn er ekki bara skemmtilega sögð heldur mjög fræðandi.Ég man vel eftir þessu en var unglingur sjálf og var svosem ekkert að spá of mikið í þessum hlutum og gerði mér ekki grein fyrr en núna fyrir alvarleika þessa 200.mílna stríðs.

Nú bíð ég spennt eftir áframhaldinu og skora á þig að gera kvikmynd um þetta og leikstíra henni sjálfur. Af skrifum þínum sem ég hef verið að lesa undanfarið tel ég að þú hafir alla burði til þess.

Solla Guðjóns, 17.3.2007 kl. 18:52

8 Smámynd: Sigríður Jósefsdóttir

Ja hérna, ýmislegt eigum við nú sameiginlegt, annað en að vera bæði frá Ísafirði.  Ég var nefnilega messagutti á Tý veturinn 1988 - 1989.  Þangað var ég munstruð af Ólafi nokkrum Ragnarssyni sem áður var bátsmaður á dallinum.  Skipherra var Ólafur Valur Sigurðsson, og Leifur nokkur Guðmundsson bryti.  Þar um borð voru einnig menn eins og Sigurður heitinn Bergmann háseti, og Ríkharð Laxdal smyrjari.  Veit ekki hvort þú manst eftir þeim, en samkvæmt frásögn Óttars Sveinssonar, þá voru þessir menn þar um borð í þessum tiltekna túr.  Ég hafði til umráða litla einsmannsklefann á hægri hönd fyrst þegar þú komst niður stigann niður í aftari gryfju.  Þær voru þó nokkrar ferðirnar sem maður tölti upp í brú með kaffikönnuna, extra sterkt handa skipherranum, þurfti jú hníf og gaffal í það.

Sigríður Jósefsdóttir, 17.3.2007 kl. 19:33

9 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þú getur þá gort af því að hafa legið í sömu sæng og ég. Eða öfugt...  Þeir voru kjú allir þessir herramenn þarna um borð.  Óla bát  kunni ég alltaf best við. Óli Valur var fyrsti...þessi með kommentið um kellingarnar.  Leifur var sá sem vísaði mér í land...það var óskiljanleg og sár reynsla.  Ég hef þó fyrirgefið honum það, blessuð sé minning hans, enda veit ég ekkert um hvað lá að baki. Margar kenjóttar skipanir komu jú frá Pétri forstjóra, sem ríkti eins og Afrískur þjóðhöfðingi yfir þessu öllu.

Ég get sagt um bók Óttars, að hún er afar óvandað rit og varla merkilegri en sögustíll menntskælings.  Margt það sem haft er eftir mönnum þarna er algerlega ósatt og munnræpa ein og karlagrobb.  En svona teygist og skrumskælist sagan í tímans rás. 

Jón Steinar Ragnarsson, 17.3.2007 kl. 20:07

10 identicon

Hér skrifar maður sem kann íslensku.....enda Vestfirðingur. Takk fyrir magnað innlit í fortíðina.

Einar Árnason (IP-tala skráð) 18.3.2007 kl. 13:16

11 Smámynd: Hrannar Baldursson

Mögnuð frásögn. Ég gat lifað mig inn í þá atburði sem þú lýsir og finn jafnvel til með þér í bakinu.

Hrannar Baldursson, 18.3.2007 kl. 16:52

12 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Vá! Segi ég nú bara. Þú ert frábær frásagnameistari.
Tek undir að þú ættir að gera kvikmynd um þetta stríð við helv... Bretana.
Ég fann svo til með þér þegar þér leið sem verst að ég táraðist.

Svava frá Strandbergi , 22.3.2007 kl. 19:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband