Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Meiking Off.

FilmCrew_5886Eitt kjánalegasta fyrirbærið  í annars smákjánalegum kvikmyndaiðnaðinum, eru myndirnar, sem gerðar eru um myndina og kallast “Á bak við tjöldin.” eða “Making of.”

Í þessum myndum er sjálfhverfa draumasmiðjunnar holdgerð svo um munar.  Í fyrsta lagi þá er sjónum neytenda beint að því hversu ofboðslega mikið mál það er að búa til bíómynd.  Hvað margir fagmenn koma að verki og hve mikil sérkunnátta er á ferð.  Hvað menn eru ógizzlega pró. 

Með þessu er áhorfandinn þó rændur því sem í raun er eða var upphaflegur tilgangur kvikmyndarinnar, það er að segja sögu. Hann fer að pæla í smáatriðunum eins og leikmyndum, lýsingu og brellum í stað þess að lifa sig inn í hremmingar sögupersónanna. Var regnið í senunni svolítið yfir strikið eins og oft vill brenna við?  Blakti veggurinn, þegar hurðinni var skellt?  Var þetta hljóðnemi sem læddist þarna inn í hægra horninu efst?   Skrímslið var svolítið stirðbusalegt að sjá og við ímyndum okkur víra, slöngur og menn með fjarstýringar.  "Djöfull var þetta nú “krömmý” digitaleffect."  Draumurinn og innlifunin í frásögnina er trufluð eða alveg eyðilögð með þessum inngripum rökhugsunarinnar.  Svo eru það viðtölin við snillingana. Þau eru alger kapítuli út af fyrir sig.

Fólk, sem vinnur við það að þykjast vera eitthvað annað en það er og segja það, sem þeim er sagt að segja,  er ekki mjög sannfærandi þar sem það situr afslappað og sjálfumglatt,  mærandi alla starfsmenn og samleikara í hástert.  Þeir vita líka að þeir eiga von á hinu sama frá þeim.   Lofið er yfirgengilegt og orðin snillingur og virtúós er notað oftar en almenn tengiorð.  Leikstjórinn hefur yfirnáttúrlegt innsæi og fangar sannleikann og augnablikin af meistaralegri næmni.  Leikararnir eru allir að gera eitt af sínum bestu verkum og sýna að sama skapi mikla snilld, innsæi og persónutöfra, svo ekki sé talað um fagmennsku. 

MOVIESTAR 2Þessi hópur virðist algerlega hnökralaus sem manneskjur og fagmenn.   Téð mynd er undantekningalítið saga, sem mun breyta sýn fólks á lífið og jafnvel heiminum, hvorki meira né minna.  Aldrei er sagt styggðaryrði um einn né neinn og engir mannlegir brestir virðast komast upp á yfirborðið á meðan á tökum stendur.  Það er eins og fólk nái að halda slíku í sér.  Þetta er hljómar hreinlega eins og á alsæluökrum himnaríkis.  Algerlega ójarðneskur vinnustaður.  Þvílík öfundsverð gæfa, sem þetta fólk nýtur.

Mín reynsla segir þó að þetta sé alls ekki algilt, svo varlega sé orðað.  Margir leikstjórar eru dintóttir og sjálfhverfir í meira lagi.  Þeir borða oft ekki sama mat og aðrir, missa þolinmæðina fljótar en flestir og hafa nánast ekkert samneyti við þá, sem eru neðar í goggunarröðinni.  Þeir fara í fýlur eins og börn og láta aðra um að gagnrýna starfsmennina fyrir sig.  Sumir eru svo viðkvæmir artistar að sólin þarf að setja sig á sporbaug um þá svo þeim líki.

Leikarar eru oft hinar verstu flækjur og eru alltaf að mæla sig við aðra leikara og tala illa um frammistöðu þeirra.  Þeir eru misskildir og þola illa kulda og átök.  Það þarf að stjana stöðugt í kring um þá, vefja þá teppum, gefa þeim heitt að drekka, sækja hitt eða þetta.  Þeir vilja ekki svona mat og hinsegin kaffi eða te, eru misskildir og þjáðir listamenn í sálarkreppu yfir því hvernig þeir eiga að túlka göngu sína inn um dyr í næstu senu.

film-crew_2Margir skipa fyrir til að skipa fyrir. Færa þetta hingað, lyfta þessu, sækja þetta, henda hinu.  Þetta er gert til að láta alla vita að menn eru á tánum og kallast busy doing nothing.Litlu mennirnir þeytast til og frá og eru oftast að gera það sem litlu máli skiptir, bara svo að stjörnunum líði betur. Þessir litlu menn eru þó rosalega pró, sem sjá má á því að þeir eru með alskyns dót hangandi utan á sér. Vasaljós, fjölnotahnífa, skrúfvélar, talstöðvar, síma og skrúflyklasett.  Flestir eru í North Face göllum upp á tugi þúsunda, þótt nokkrir séu í North Fish frá rúmfatalagernum á 999.  Merkin skipta máli og sumir þekkja sinn vitjunartíma og mæta ekki í flottari átfitti en brassið.

Leikmyndasmiðir færa, bera, skrúfa og líta á sig sem kvikmyndagerðarmenn.  Þó á þessi  vinna fátt skylt við það.  Eins er með ljósamenn og tæknilið.  Það eru burðarjálkar, sem bera rafmagnsspenna, sandpoka, níðþunga ljósastanda og kastara eftir skipunum kvikmyndatökumannsins.  Þeir titla sig líka kvikmyndagerðarmenn.  Það er sjaldnast mikla snilld að sjá í neinu.  Allavega ekki eins og lýst er í myndinni um myndina.  Þrældómur og tilgangslaust hangs á víxl og undirliggjandi ergelsi og þreyta.  Hlutfall stórreykingamanna í þessum hópi er svipað og meðal sjúklinga á Kleppi enda er slíkt sammerkt með hugsandi fólki.

Framleiðendur eru kenjóttir og frekir og láta sér fátt um allan þrældóm finnast.  Allt sem skiptir máli er að spara peninga og ef einhver kvartar, þá segja þeir þeim að finna sér eitthvað annað að gera.  Þeir reka fólk og ráða og reka áfram inn í lengri vinnudaga á forsendum listarinnar, en hafa þó ekki hundsvit á því hvað list er, frekar en ég.  Þeir bjóða kunnáttulausu fólki að vinna frítt til að byggja upp ferilskrá, sem enga þýðingu hefur í raun.  Þetta á ekkert skylt við myndina um myndina heldur. Svona hefur þetta allavega horft við mér svona innanfrá séð.  Kannski hef ég bara verið svona óheppinn með prójekt?

Hvers vegna skyldu aðrar greinar ekki taka þessa nálgun upp líka?  Rithöfundur getur vaðið á súðum um tákn og vísanir í bókinni, sem hann er að skrifa og rómað útgefandann. Útgefandinn getur rómað rithöfundinn og prentararnir geta tjáð sig um hve gefandi það er að prenta bækur fyrir viðkomandi og rómað þá líka.

fron_mjolkurkexKexverksmiðjan Frón gæti til dæmis gert svona mynd um kexbakstur, þar sem Jói á hrærivélinni getur rómað Bjössa á ofninum, Sigga á hnoðaranum og Sollu í pökkuninni.  Framkvæmdastjórinn getur svo rómað alla hina og fengið lof fyrir innsæi listfengi og persónutöfra frá þeim.  Jafnvel Lúlli á lyftaranum fengi sitt skjall.  Án hans hefði þetta ekki verið mögulegt.  Við fylgjum bökunarferlinu frá því að hveitipokanum er hellt í síló og þangað til kexpakkanum er pakkað.  Inn á milli er klippt í vitnisburði starfsfólksins um handtökin og færni viðkomandi í þeim.   Í búðum væru svo stór plaköt með þessu fólki í aksjón undir yfirskriftinni “Frón kynnir!  Úr smiðju þeirra sem færðu okkur Kremkexið!  Einhvert frábærasta Mjólkurkex allra tíma!  Nýjasta sköpun Júlla famkvæmdastjóra.  Hræra: Jói.  Hnoðun: Siggi.  Bökun: Bjössi Bakari og teymið frá Fróni!”

Ekki veit ég hvort það myndi eyðileggja nautnina af kexátinu í sama mæli og myndin um myndina skemmir fyrir okkur kvikmyndaupplifunina.  Það gæti þó jafnvel haft vafasöm áhrif, ef við fengjum að fylgjast pylsugerðarmönnum eða pizzubökurum vinna sín ódauðlegu listaverk. 

Hvað sem öðru líður, þá værum við sennilega jafn nær um gæði vörunnar og við erum nær um gæði myndanna eftir að hafa horft á Meikíng Off. 

Kannski er þetta ástæðan fyrir minnkandi aðsókn á bíó.  Minnugur þess hvað henti Narcissus greyið þegar hann dáleiddist af spegilmynd sinni og féll í vatnið og drukknaði, þá held ég að það sé ekki fjarri lagi.

 


Þegar Ég fór Í Stríð Fyrir Ísland II. - Forlögin bregða á leik.

Við DjúpavogHér kemur framhald fyrri færslu minnar um reynslu mína í 200 mílna þorskastríðinu.

Ég var vakinn snemma morguninn eftir og mér færð brauðsneið og kaffisopi. Mér leið undarlega og fannst eins og að mig hafi dreymt allan þennan hildarleik.  Týr var kyrr og ljósavélarnar möluðu vinarlega. Mér fannst ég þurfa að fara á fætur, það væri ekki sanngjarnt gagnvart öðrum að ég lægi þarna í makindum og væri þjónað til sængur. En bakið var stíft og bólgið og ég gat mig hvergi hrært.

Kærnested kom inn spurði vinalega um líðan mína og sagði mér að ég yrði settur í land til að koma mér undir læknishendur. Þetta var í síðasta skipti, sem ég átti orðastað við hann og finnst mér það miður í dag að ég skyldi aldrei komast til þess að þakka honum fyrir. Skömmu síðar var ég aðstoðaður við að klæða mig og var studdur út. Ég náði ekki að tylla niður fótum, því þá blossaði logandi sársauki upp í mjóbakinu. Ég var því borinn í einskonar gullstól út á dekk. Það var eilítið mistur og morgunloft, sem jók á draumkennt ástand mitt. Menn voru þöglir og tíminn virtist hafa vikið sér frá um stund þarna í mynni Berufjarðar. Spegilsléttur sjór og fjarlægt kýf í mávum jók á þessa yfirveraldlegu tilfinningu.

Mín beið örlítil trilla með tveimur litlum drengjum, varla meira eða 10 eða 12 ára. Ég varð svolítið undrandi.  Vað var brugðið undir handakrikana á mér og ég var látinn síga niður í trilluna. Sársaukinn í skrokknum var yfirþyrmandi en ég sagði ekki orð.  Svo var duggað með mig í kyrrð inn á Djúpavog. Strákarnir mæltu ekki orð og voru ábúðafullir og niðurlútir eins og ferjumaðurinn á Styx.  Mín beið Landroverjeppi á bryggjunni og ekki var hræðu að sjá utan bílstjórans. Ég var hífður upp á bryggju og lagður aftur í skott á jeppanum. Mér fannst þetta allt svo óraunverulegt en fann til feginleika við að kúldrast þarna við söng gírkassans. Þetta var allt hálf skoplegt í raun.  Mér var dröslað inn á læknisbústað eða heilsugæslu, þar sem ég var lagður á bekk í eða við andyrið.  Þar fékk ég að vita að enginn læknir væri á staðnum en það væri þó bót í máli að augnlæknir var einmitt vísiterandi í þorpinu og hann veitti mér aðhlynningu og greiningu. Í ljós kom í samtali okkar að hann var frá sama bæ og ég og að hann var skólabróðir og uppeldisfélagi föður míns. Niðurstaða hans af greiningunni reyndist síðan alveg rétt síðar meir, þótt það tæki her lækna að staðfesta það á Borgarspítalanum síðar. Ég var ekki lamaður, bara bólginn og tognaður.

Ekki man ég hvað ég var þarna lengi en ég hlýt að hafa blundað þarna á bekknum, því ég var vakinn og mér sagt að sjúkraflugvél biði mín. Svo var hossast með mig á Landrovernum út á einhvern flugvöll, þar sem lítil rella beið mín.  Þetta var þriggja farþega smávél á vegum Morgunblaðsins, sem hafði komið þarna með blaðamann blaðsins og Ragnar Axelsson ljómyndara, sem var kornungur og efnilegur ljósmyndari. Ég fékk sem sagt að húkka far með þeim.

rellaMér var troðið í aftasta sæti vélarinnar og svo var flogið af stað. Blaðamaðurinn tók við mig stutt viðtal og Raxi tók mynd af mér, sem birtist í blaðinu daginn eftir, undir fyrirsögninni: “Hélt að Tý myndi hvolfa.” Þegar ég skoða þessa mynd, þá sé ég að ég var í rauninni bara saklaust og bláeygt barn, þrátt fyrir allar manndómsraunir mínar.

Á leiðinni fengu blaðamennirnir skilaboð um að keyrt hafi verið á Óðinn og brúarvængurnn tekinn af honum.  Stefnunni var breytt út á miðin og þar var farið í einskonar steypiflug yfir Óðinn og nálægar freygátur til að skrásetja atburðina. Ég gleymdist greinilega í þessum atgangi, því ég kuðlaðist niður á gólf og þurfti að vega mig upp í sætið með erfiðismunum eftir hverja dýfu. Þetta má segja að hafi verið einhverskonar óumbeðin sjúkraþjálfun, því þegar til borgarinnar kom, þá afþakkaði ég sjúkrabörur, sem biðu mín, og haltraði til sætis í sjúkrabílnum.

Á borgarspítalanum var ég í tæpa tvo daga og man ég hvað margir læknar og kandídatar voru í kringum mig.  Það var látið mikið með mig og ég vakti greinilega forvitni og athygli sem hetja hafsins og stríðsmaður í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.  Seinni daginn var ég orðinn nokkuð styrkur og fékk strætisvagnamiða í hendur, var bent á stoppistöðina úti, og sagt að ég ætti herbergi á Hjálpræðishernum. “Courtesy of the Icelandic Coast Guard.” Ég var allslaus fyrir utan eitthvað klink í vösum. Fermingarúrinu mínu hafði ég tapað og myndavélinni fyrir málstaðinn. Flestöll stráin stungu mig, stór og smá á jörðu.

Herbergið á Hjálpræðishernum var einskonar yfirstærð af fataskáp, sem náði faðmi að breidd og rúmri rúmlengd á hinn veginn. Þar var myglulykt og sængurfötin voru snjáð og blettótt. Ég var þó undarlega feginn þessu athvarfi og örmögnun helltist yfir mig, svo ég lagðist strax og sofnaði.

Það var komið fram yfir miðnætti, þegar ég vaknaði aftur. Mér var þungt fyrir brjósti og náði vart andanum. Skelfingarangist heltók mig og ég heyrði boðaföll sjávarins fyrir eyrum og raddir félaga minna á Tý. Herbergið tók að halla meira og meira og í örvæntingu minni skreið ég fram úr og út á gang. Þetta var svo raunverulegt. Allt hringsnerist fyrir höfði mér og ég skreið og skakklappaðist niður stigana og út úr hinu sökkvandi hóteli. Óljós rödd næturvarðarinns hljómaði á eftir mér: “Er ikke alt í orden? Er du full?

Úti hágét ég með ekkasogum og náði þó loks að draga andann í svölu næturloftinu. Enginn var á ferli. Ég var sem einn í heiminum og ég gat ekki og þorði ekki að standa kyrr.  Ég gekk því alla nóttina um borgina, upp að breiðholti og til baka aftur, fram og aftur, fram og aftur, eins og hrætt dýr. Ég róaðist undir morgun og veruleiki hversdagslífsins vaknaði í mér með borginni.  Ég fór inn á gamla Hlemm, sem þá leit út eins og potthlemmur í lausu lofti og hringdi vestur í föður minn úr tíkallasíma.  Ég hafði ekki heyrt í fólkinu mínu fyrr og sá gamli hafði bara fengið fréttir úr mogganum.  Hann var skekinn og áhyggjufullur og sagði mér að fara strax til bróður síns í Stangarholti og koma svo vestur eins fljótt og mér væri auðið.

Týr í denÉg fór svo niður í Gæslu til að ná mér í aur og mér er minnistætt hve ópersónulegt viðmótið var þar.  Mér var þó sagt að ég gæti mætt til vinnu um borð í Tý, sem yrði í slippnum, þegar ég treysti mér til.  Svo yrði athugað hvort annað pláss losnaði.  Ég var feginn að fá tækifæri til að dreifa huganum og vinna eitthvað og þáði þetta. Ég dvaldi svo einhverja daga hjá frænda mínum, sem veitti mér styrk og vináttu í nauð minni.

Týr tók ekki þátt í fleiri þorskastríðsbardögum. Hann trónaði þarna í slippnum með sundurtættan skrokk og úr honum runnu vatnstaumar líkt og honum blæddi. Ég mætti til vinnu og vaskaði upp, ryksugaði og þurrkaði af eins og mér bar.  Ég hafði þó ekki verið þarna lengi, þegar brytinn kom til mín fúllyndur og óvinveittur, reif af mér hnífapör, sem ég var að þurrka og sagði að ég hefði hvorki erindi né leyfi til að vera þarna. Hann víasaði mér frá borði og ég hef enn ekki skilið hvað honum gekk til.  Ég var aumur og meir eftir það sem á undan var gengið og andmælti engu, fann bara óskiljanlegt óréttlætið brenna mig í hjartastað. Þarna voru síðustu viðskipti mín við Landhelgisgæslu Íslands. Ég hef aldrei verið spurður um þessa atburði né verið dreginn til vitnis um neit,t sem að þeim laut. Jafnvel í bók Óttars Sveinssonar er nánast einvörðungu stuðst við gamlar blaðagreinar og talað við menn, sem sumir hverjir segja rangt frá eða eru uppfullir af einhverju óskiljanlegu kallagrobbi og hetjudýrkun.

Þegar ég hringdi í Óttar og innti hann eftir því af hverju hann hafi ekki talað við mig, þar sem minnst var á mig í bókinni, þá sagðist hann ekki hafa fundið mig. Það finnst mér hálfkæringsleg rannsóknarblaðamennska. Ein af rangfærslunum er sú að þyrluskýlið hafi verið lokað í seinni árekstrinum.  Ég var þarna á þyrludekkinu og fékk freygátuna nánast í fangið.  Þeir sem eftir lifa af þeim sem voru í skýlinu ættu að geta vitnað um það. Sjórinn í skýlinu var heldur ekki ímyndun ein. Kannski var það tryggingarmál að halda öðru fram, en nú finnst mér allt í lagi að leiðrétta það.

Ég var nokkra daga hjá bróður pabba til að ná styrk og stuðningur hans og hlýja voru mér ómetanleg á þessum erfiða tíma. Einn daginn þegar ég var á rölti þarna um Skipholtið, sá ég skilti úti á götu, sem sagði að þar færi fram inntökupróf í Myndlista og Handíðaskóla Íslands. Ég hafði alltaf verið listhneigður, svo ég fór þarna inn og spurði hvort ég mætti ekki taka þátt. Mér var sagt að ég gæti svosem skráð mig, þó seint væri, en ég skyldi ekki gera mér neinar grillur um að komast að. Yfir hundrað manns þreyttu þetta próf og aðeins um 15 til 20 kæmust í gegn. Ég sagði það aukaatriði, því ég hugsaði þetta aðeins sem tækifæri til að taka hugann af atburðum síðustu daga og sagði frá þorskastríðsþáttöku minni. Þetta var eingöngu hugsað sem sáluhjálparatriði.  Einskonar heimatilbúin áfallahjálp.

ÍsafjörðurÉg tók svo þetta próf og hlýt að hafa haft eitthvað til að bera, því ég komst inn í skólann og þar með urðu þessir atburðir allir til að kúvenda stefnunni í lífi mínu. Fyrir mér hafði ekkert annað legið en að verða sjómaður.  Pabbi gerði út rækjubát og ég hafði farið túra með honum frá 8-9 ára aldri. Ég hafði stundað sjóinn á smákoppum áður en ég fór í siglingar og líkaði aldrei vistin né það andrúmsloft hörku og karlmennskudýrkunnar, sem sjómennskunni fylgdi.

Að vísu fór ég túra eftir þetta á sumrin, en það var bara til að bjarga fjárhagnum og framfleyta sjálfum mér.

Ég hugsa stundum um hversu undaarlega forlögin höguðu ferð minni og hvaða áhrif þetta hafði á persónu mína og þroska síðar meir.  Skömmu fyrir þetta hafði ég verið lítill og áhyggjulaus drengur á gúmmískóm, sem naut hinna björtu sumardaga með vinum mínum á malargötum Ísafjarðar. Við sátum á björtum sumarkvöldum við spegilsléttann fjörðinn og fleyttum kerlingar við undirleik öldugjálfurs og kúandi æðarfugls. Það var friður í hjörtum okkar og lífið var himnaríki á jörðu.  Umskiptin frá æsku til ábyrgðar voru snögg og skyndilega var maður kominn mitt í iðu hinnar miskunnarlausu lífsbaráttu.

Fyrir vikið hef ég alltaf leitað aftur til þessarar kyrrðar og reynt að einfalda rök lífsins fyrir mér til samræmis því, sem ég upplifði í skjóli hinna bröttu fjalla. Afraksturinn er flókinn hugur og friðsæll maður, sem leitatst ávallt við að hreinsa hismið frá kjarnanum og upplifa augnablikið þar sem lífið á sér stað. Hér og nú. Framtíðin er ekki komin og á því ekki að vera áhyggjuefni. Fortíðin er farin og kemur ekki aftur nema í rósrauðum draumum æskuáranna.  Þetta ár var vendipunkturinn. Þetta var árið, sem ég breyttist úr barni í mann.


Þegar Ég Fór í Stríð Fyrir Ísland.

stríð á sjó

Þegar ég var á 16. ári ákvað ég að tylla mér á tær og kíkja á heiminn handan fjallanna, sem húktu báðum meginn fjarðarins og héldu sólarljósinu frá bænum mínum mestan hluta ársins. Þetta var fyrir tíma forsjárhyggju, ofvirkni, áfallahjálpar og kvóta. Þetta voru aflatímar, hetjutímar og uppgangstímar, þar sem enginn var maður með mönnum nema að hann ynni 16 tíma vinnudag, drykki eins og berserkur og væri sigldur með tattú og allt. Við ungmennin vorum ekkert undanskilin þessu. Þeir, sem samsömuðu sig ekki þessari skipan og voru á skjön, voru sendir á vandræðaheimili eða í sveit.  Það fylgdi dómsdagsþungi slíkum hótunum.

JonSteinar stríðÉg munstraði mig því á millilandaskip sem smyrjari.  Ég sigldi á Rússland með freðinn fisk og tók vörur upp í bakaleiðinni m.a. í Þýskalandi. Þar fékk ég mér burðugt tattú á framhandlegginn í melluhverfi borgarinnar, hjá manni í skuggalegri kjallaraholu. Hann leit út eins og Árni Bergmann. Ég drakk og slarkaði í höfnum og var sannur maður með mönnum.  Ég hafði verið handtekinn af KGB í Leníngrad og fluttur um borð í fylgd vopnaðra hersveita Bresnéfs, fengið bornkítis og tremma og klikkti svo út með að rota kokkinn, sem lenti á spítala í borg Leníns. Það var mér ekki fyrirgefið og var ég látinn taka pokann minn þegar heim var komið.

Einn og umkomulaus í borg óttans, þvældist ég um og drakk og gisti með versta óþjóðalýð borgarinnar. Ég reyndi að koma mér í pláss á öðru skipi og fór m.a. niður í Ríkiskip til að reyna að komast á strandferðaskipin Esju eða Heklu, því enginn vildi hafa svona vandræðamann með til lengri siglinga.

TýrEinn daginn var ég að rölta við Ægisgarð og var þá nýkominn úr áranguslausri ferð til Ríkisskipa. Þá vindur sér að mér ljósleitur maður í kokkagalla og klossum og spurði mig hvort ég hafi ekki verið að leita að plássi. Ég játti því undrandi á því að forsjónin skyldi elta mig uppi eftir allt mitt áranguslausa streð. Maðurinn kynnti sig og spurði hvort ég gæti ekki komið fyrirvaralaust í túr því skipið væri um það bil að losa enda. Ég leit á aumlegan útgang minn, útvíðar flauelsbuxurnar og þykkbotna blöðruskóna. Maðurinn sá þetta og sagði mér engar áhyggjur að hafa, ég fengi algalla um borð. Ég réði mig með handabandi og spurði hvar skipið væri. Kokkurinn benti á skip skammt frá og tók svo í hendina á mér og dró mig með sér. Fyrir framan okkur trónaði varskipið Týr.

Ísland var á hápunkti 200 mílna þorskastríðsins. Ég fékk matrósaföt með merki gæslunnar á barmi og var gerður að messagutta í yfirmannamessa.  Þar þjónaði ég engu minni manni til borðs en þjóðhetjunni Guðmundi Kærnested.

Þetta reyndust viðburðarríkir tímar. Við vorum skæðastir með klippurnar og vorum eltir af herskipum, sem voru minnst þrisvar sinnum stærri en við og dráttarbátum, sem voru sterkir og illvígir. Við klipptum trollin af togurum, sem voru með veiaðrfærin úti af dyggð við Drottningu breta, því ekki sá ég þá fiska nokkurt kóð. Togararnir reyndu að bakka á okkur og áhafnirnar sýndu á sér bera bossana, hentu sorpi að okkur og bölsótuðust. Sjóliðar Bretadrottningar voru ekkert skárri. Þeir silgdu að okkur og á okkur,  jusu yfir okkur sjó, helltu yfir okkur sorpi og létu eins og apakettir í búri. Kærnested uppálagði okkur að sýna þeim fyllstu virðingu þrátt fyrir þetta, standa teinréttir og gera "Honnör". Ég skildi það ekki þá en það fyllir mig stolti í dag.

Við lentum í nokkrum alvarlegum ákeyrslum, sem breyttu afturhluta Týs í brotajárnshaug. Viðvörunnarflauturnar gullu stöðugt í skipinu, svo varla var nokkra hvíld að fá. Það var jú hluti af taugastríði breta. Við þurftum nokkrum sinnum að fara inn á Seyðisfjörð til að láta lappa upp á okkur og þá var "ríkið", sem var í bárujárnshjalli við sjónn, opnað á hvaða tíma sólahrings sem var, til að sefa strekktar taugar. Þjóðin stóð með okkur. Við vorum hetjur.

Ég keypti mér Kodak Instamatic myndavél og byrjaði að taka myndir af hasarnum fyrir Tímann, sem var málgagn Framsóknaflokksins.  Þetta eru gleymdar myndir, sem mér fannst sumar hverjar einhverjar þær bestu, sem teknar voru í þessu stríði frá okkar sjónarhorni. Sumar sýndu, svo ekki var um villst,  hver var að sigla á hvern.

týr og tartarSvo kom stóri dagurinn. Ég man að það var spenna í loftinu. Nimrod þotur flugu lágflug yfir okkur með miklum gný og Freigáturnar voru hættulega nærgöngular. Þegar svo stóð á voru sem flestir af áhöfninni, beðnir um að vera í þyrluskýlinu, sem var haft opið í hálfa gátt. Um miðjan dag var keyrt á okkur. Freygáta skellti hnífskörpum afturenda utan í stefnið á okkur og gerði á okkur gat. Sjórinn flæddi um alla ganga og dýnur og spítnarusl var dregið saman til að stoppa í gatið. Kærnested lét það ekki á sig fá og setti klippurnar út, herskárri sem aldrei fyrr. Freygátan Falmouth fylgdi okkur fast á eftir og fleiri óvinaskip voru í nánd. Nú var greinilega eitthvað stórt í uppsiglingu.

Ég var niðri í skipi þegar fyrsti stóri áreksturinn varð. Ég hafði verið beðinn um að færa mönnum kaffi upp í brú og var á leið frameftir gangi þegar skellurinn kom.  Skipið kipptist til með miklum skruðningum. Ég heyrði brothljóð úr eldhúsinu en hélt áfram að sinna skyldu minni. Skipið hallaðist meira og meira og ég gekk í hægri kverk gangsins og hugsaði einvörðungu um að hella kaffinu ekki niður.  Þegar ég kom að þvergangi, sem leiddi að stiganum, áleiðis upp í brú, var ég nánast farinn að standa á gangveggnum. Ég stikaði á móti hallanum þvert á skipið og fékk vart staðið. Ég fór á hnén og skreið, en hafði ekki augun af kaffinu. Loks var ekki við hallann ráðið og ég rann niður aftur og skall á gangveggnum, svo kaffið skvettist um allt.

Hms FalmouthMér fannst þetta vara heila eilífð og tíminn hafði hægt undarlega á sér. Mér fannst eins og ég gengi í draumi, þegar ég skakklappaðist aftur með gangveggnum á leið inn í eldhús, til að fylla aftur á könnuna. Þegar að eldhúsinu kom var skipið farið að rétta sig af á ný. Ég fyllti á kaffið og hélt áfram erindi mínu. Það gullu hróp og köll úr þyrluskýlinu og mikið uppnám virtist vera, en ég fór upp í brú með kaffið eins og ekkert hefði í skorist. Þar var allt á öðrum endanum og menn mjög æstir eins og eðlilegt var. Menn höfðu hangið eins og tuskubrúður í rekkverkinu og horft á grængolandi sjóinn neðan við brúargluggana stjórnborðsmeginn.  Þetta var í eina skiptið, sem ég sá Kærnested skipta skapi. Hann var alltaf pollrólegur og traustvekjandi. Hann byrsti sig við mig og sagði mér að andskotast niður aftur, þarna væri enginn að hugsa um kaffi. Það var jú augljóst. Það þurfti enginn að fá neitt örvandi þarna. Öll skilningarvit voru þanin upp á gátt. Þeir voru líka á fullu við að stýra skipinu, enda héldu þeir áfram og kláruðu það sem þeir voru byrjaðir á, að klippa á togvíra. Það tókst þeim og það hefur líklega fyllt mælinn hjá bretum.

Ég fékk kökk í hálsin og volgnaði um augun yfir þessar hörku frá manni, sem ég leit svo upp til og fór auðmjúkur að þurrka kaffið upp af ganginum.  Þar var mér sagt að ég mætti ekki vera niðri þegar svona hættuástand væri, ég yrði að vera uppi í skýli.  Ég hafði jú ekki vitað að þarna stæði fyrir dyrum grófasta árás á Ísland frá seinna stríði og var sár yfir hve ég var misskilinn. Ég var jú bara að gera það sem mér var sagt.

Enn einu sinni var þyrludekkið eins og brotajárnshaugur og hnausþykkt stálið undið, skælt og rifið rétt eins og Týr væri pappírsbátur. Það var örlítið rórra og menn ræddu á milli sín atburðina, hvar þeir voru og hvað þeir sáu. Tveir voru á spilinu fyrir klippurnar, sem var undir þyrludekkinu, fóru á bólakaf  og héldu að þeir myndu drukkana. Menn voru skeknir en ótrúlega yfirvegaðir. 75 gráðu halli var sagt. Vélstjórarnir áætluðu það eftir pendúl í vélarrúminu. Freygátan Falmouth lónaði hjá eins og gremjulegt villidýr með stafninn rifinn og tættann líkt og væri hún með illvígt og hvasstennt gin. Hún var einatt kölluð Bigmouth eftir þetta.

Það húmaði að degi og ég man ekki hvað langur tími leið. Ég var löglega afsakaður frá skyldustörfum og hélt mig í og við þyrluskýlið.  Týr var særður en harkaði af sér og baráttan hélt áfram. Ég fór og náði í myndavélina mína til að reyna að ná mynd af freygátunni þótt skuggsýnt væri orðið. Hættumerki hafði verið gefið, en mennt töldu Falmouth ekki líklega til stórræða. Köld hafgolan lék um lubbann á mér, þar sem ég vappaði í lopapeysu með Kódakinn tilbúinn. Þarna kom hún bölvuð út úr rökkrinu rymjandi, öslandi nær og nær á óskaplegum hraða eins froðufellandi villidýr. Ég stífnaði upp og trúði ekki mínum eigin augum.  Án þess að hugsa smellti ég af mynd, svo flassið lýstigrimmúðlegt  ferlíkið upp. Svo skall hún á okkur. Ég missti fæturna og myndavélina og reyndi örvæntingarfullt að staulast á fætur og inn í skýlið. Hávaðin var ærandi og járnið glóði í myrkrinu. Týr hallaði hratt yfir á stjórnborða. Ég sá félaga mína stökkva upp í Zodiac báta, sem tjóðraðir voru bakborðsmeginn í skýlinu. Kokkurinn hrópaði á mig og rétti höndina í átt til mín. Ég teygði mig á móti og hraðaði mér til hans. Fingur okkar snertust naumast eins og hjá Adam og Almættinu í Sixtísku kapellunni, en það var of seint að ná gripi.

KærnestedTýr var nánast kominn upp á rönd og ég féll þvert yfir þyrluskýlið og skall á sjódælum, sem þar var raðað. Sjórinn flæddi inn og hálf fyllti skýlið. Falmouth keyrði okkur í kaf að aftan og sló ekki af. Ég svamlaði í sjónum og reyndi að krafla mig fram eftir skýlinu til að komast inn í skipið og undan sjónum. Hávaðin frá emjandi járninu var ærandi. Falmout sigldi með okkur í hring en rifnaði svo frá með látum. Týr fór að rétta sig af og ég er handviss um að okkur hefði hvolft, ef skipin hefðu ekki læst sig saman. Freygátan rifnaði eina 11 metra inn í bóginn, svo stefnið náði nánast þvert yrir þyrludekkið.

Ég staulaðist skelkaður á fætur og það fjaraði út úr skipinu. Lopapeysan var þung af sjó, mig sárverkjaði í bakið og fannst ég varla geta stigið í fæturna.  Ég fór úr peysunni og klofaði inn í skipið. Á hægri hönd við mig voru raðir af björgunarvestum á veggnum ósnert og ónotuð. Í sömu mund kom 1. stýrimaður sótrauður út úr klefanum sínum, sem var stjórnborðsmeginn. Hann náði ekki að komast út við áreksturinn og horfði bara á klefahurðina hjá sér eins og lofthlera fyrir ofan sig. Ég spurði hann stamandi hvort við ættum ekki að fara í björgunarvesti en hann svaraði hastur að það væru engar kerlingar hér um borð og rauk svo upp í brú. Allt tal um öryggismál var kveifarháttur á þessum tíma. Það var hinn karlmannlegi tíðarandi.

Kunnuglegur kökkur kom aftur í hálsinn á mér og mig langaði til að gráta. Loftskeytamaðurinn kom fram og sá útganginn á mér og spurði blíðlega hvort ekki væri allt í lagi. Ég kyngdi grátnum og sagði jú, mér væri bara svolítið illt í bakinu. Hann tók mig með sér inn í loftskeytaklefa og setti mig niður og snéri sér strax að tækjunum sínum. Ég minnist hans enn með hlýju. Hann var yfirvegaður og mjúkmáll og alger andstaða annara manna á þessari stundu. Hann sagði mér hvað væri að ske. Bölsót bretanna brakaði í hátölurum og uppnámið var greinilega miklu meira meðal þeirra en okkar.  Það var gefin skipun um að ganga frá okkur og dráttarbátarnir stefndu til okkar.  Menn komu inn í klefann og sögðu tíðindi. Önnur skrúfan var farinn og sat eftir í búk freigátunnar, svo mikill var hallinn.  Týr var beyglaður undir kjöl, hálft þyrludekkið af og gat á dekkinu bakborðsmeginn svo sjórinn flæddi inn í vélarrúm. Þetta hafði verið ísköld og útreiknuð morðtilraun á óvopnuðum mönnum.  Að vísu var lítil fallbyssa um borð, en hún var frá því um 1870 og var hættulegra að vera fyrir aftan hana en framan.

Týr hökti á hálfri ferð í átt að landi og dráttarbátarnir fylgdu fast eftir með skipun um að sigla okkur niður.  Vélstjórarnir börðust hetjulega við að auka afl vélarinnar, sem nothæf var. Ég staulaðist út úr Loftskeytaklefanum og var nú með nístandi sársauka í bakinu. Ég harkaði af mér og komst niður stiga og ætlaði mér í koju. Þá gat ég ekki meir.  Ég  hélt mér í handriði og lét fallast á hnén og fann að skelfing atburðanna var að vakna innra með mér.  Á sama augnabliki kom Guðmundur Kærnested skipherra og laut yfir mig blíðlega og strauk mér um kollinn. Hann spurði hvort ég fyndi til og notaði orðið vinur, sem snart mig djúpt. Ég kom ekki upp orði. Hann reisti mig við,  studdi mig inn í sjúkraklefa og hjálpaði mér að hátta upp í koju. Hann gaf mér pillu, sem hann sagði að myndi láta mér líða betur, flestir hafi í raun þurft eina slíka. Hann brosti blíðlega og hughreysti mig.  Við vorum að komast undan og bráðum kæmumst við í var inn á Berufjörð.

Ég gleymi aldrei styrkleika og persónutöfrum þessa manns. Hann var föðurlegur, blíður og traustur og engin pilla hefði styrkt mig meira en hann gerði þarna. Ég treysti honum fullkomlega fyrir lífi mínu. Hann gekk út og slökkti ljósin. Skömmu síðar var ég sofnaður.

Ég hef aldrei sagt þessa sögu áður á prenti og fannst það tilvalið að nota bloggið til að skrá hana.  Sagan endaði ekki þarna en segja má að stríðið hafi endaði þarna, því diplomatísk lausn var fundinn örskömmu síðar og útlenskir veiðiþjófar hafa haldið sig utan við fiskveiðilögsögu okkar að mestu frá því.  Þessi atburður varð öðru fremur valdur þess.

Ég segi svo framhaldið af þessu síðar, sem er ekki síður athyglisverð saga.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband