Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Geimfarinn Ég.

fæðingÉg fæddist andvana.  Skaust í heiminn slímugur og blár.  Líktst einna helst ofvöxnum mjólkurgerli með mjúkum og fitugum fellingum.  Fjólublár væri nær lagi.  Augun voru undrandi og opin og forviða sálin skygndist út.  “Hjálp! Stjórnstöð! Það er eitthvað mikið að!”

Ljósin blinduðu, fjarlægar slitróttar raddir, skrölt og skellir, ærandi heimur. Klippt á lífæðina. “Eruð þið brjáluð! Sjáið þið ekki að ég er í vanda!” Þessi geimbúningur var ekki að virka. Öndunarvegurinn var stíflaður og næringardælan titraði og hökti og náði ekki upp takti.  Ekkert  súrefni, enginn bruni.

Ég varð að losa mig úr þessari prísund, nota neyðarútganginn; mjúka blettinn á kollinum.   Svífa mót alvitundinni að nýju og gera mig klárann fyrir aðra lendingu á öðrum stað í öðru heimshorni eða í öðrum heimi.   Verða kannski Arabastrákur eða Kínversk bóndadóttir, Klingon. Eitthvað allt annað en þetta!  

Ég var tekinn upp á fótunum og sleginn duglega í bakið hvað eftir annað.  Svo var mér dýft í fullan bala af köldu vatni; flengdur og hristur og slanga rekinn ofan í loftrásina.  Þá losnaði um stífluna.  Ég kúgaðist og kokaði, slímið gekk upp og ég dró með áfergju að mér ertandi loftið fullt af sótthreinsiefnum og mannaþef.  Brjóstið og kviðurinn þandist út og dælan hrökk í gang.  Súrefnið þaut út í æðarnar, fingurna og tærnar.  Ég hóstaði upp slímidreggjum og dró svo að mér loftið að nýju eins og fýsibelgur.  Gargaði af allri þeirri orku, sem ég gat dregið til. Herptist saman eins og ánamaðkur og gaf allt sem ég átti í öskrin.  Nötraði og skalf. 

fósturRisastórir hrammar héldu mér á lofti, skelfilegar stórar grímur glenntu sig og geifluðu, stórir sálargluggar, blóðsprungnir, óþefur, stingandi ljósnálar, ærandi kliður, nístandi kuldi.  Ég klemmdi aftur augun,  svo þessi skelfilega martröð hyrfi; þandi mig enn meir.  “Ég er hættur við! Sæki um afturköllun leiðangurs, núna!”

Ég flaug í gegnum loftið, var klappaður í bak og fyrir með grófri dulu.  Gargaði.  Hakan skalf. Loks sveif ég inn í vermandi áru sem umlék mig eins og ósýnilegur líknarbelgur.  Ég drakk í mig ylinn eins og svampur.  Sefandi straumur fór um mig allann; sláttur stórrar dælu, titrandi bringa. Aaaaææ.  Blíðleg rödd, gleði, hamingja.  Ó, hvað þetta var notalegt.  Þvílíkur léttir. Ég sefaðist og dró í mig ástina, reyndi að rýna út um bólgin augun.  Var líklegast eins og drykkfelldur boxari í framan.

Hmmm?  Sjá þessi fallegu hvolf.  Hvað var þetta svona glansandi og mjúkt?  Og þarna efst var safaríkt snuð sem ilmaði sætlega.  Matarbúr,  stútfullt af næringu og topurinn passaði akkúrat í munninn.  “Þú þangað.”- kallar stjórnstöð. Aaaaaaaah.  Glúgg, glúgg, glúgg. Mmmmm... ég var banhungraður eftir ferðina, ætlaði að drekka eins og ég gat.  Nóg til.  Varatankur klár ef þessi dygði ekki.  Heit mjólkin rann ljúflega niður með öllum þeim nauðsynlegu gerlum og næringarefnum, sem ég þurfti á þessu augnabliki.  Allt til að koma meltingarflórunni af stað í búningnum.  Sérhannað orkuskot fyrir mig.

geimbarnÉg var á áfangastað. “Örninn er sestur.” Kunnugleg sál á sömu tíðni og ég, rann saman við mína.  Sama sál og kallaði mig til sín fyrir níu mánuðum þegar ég var allt og ekkert í sömu mund, bara orka, tifandi orka.  Tíðnin hafði skyndilega farið að aukast og ég varð að litlum orkuhnút, tifaði hraðar og hraðar og var aðgreindur frá annari orku í hinu endalausa krafthafi.  Öðlaðist form, ósýnilegt en aðskilið öðru. Svo svisssj...

Ég þaut mót silfruðum og ljómandi hnetti.  Tíðni mín átti samsvörun þar.  Einhverstaðar þarna uppi við snæhvíta kollhúfu.  Helftin af mér dró mig til sín á margföldum ljóshraða.  Sama tíðni sækir að sömu tíðni.  Plús, mínus og sameindin ég.   Þannig virkar það.  Svo kom kyrrð, sæla, sátt, jafnvægi og friður.  Ég varð vitund, vaknaði og samlagaðist til að fullkomna þrenninguna sem myndar líf.  Hýsil.  Geimbúning fyrir mig.  Fruma, sem varð tvær frumur, fjórar, átta, sextán, þrjátíu og tvær, sextíu og fjórar...

Nú var ég orðinn heilt flykki, sem lá eins og kökkur á öðru ennþá stærra flykki; dró í mig næringu og líforku.  Bíddu nú við? Þarna var eitthvað.  Hrukkuð pylsa með litlum pylsum út úr endanum? Var þetta tengt mér? Já!  Þarna hreyfðist einn dindillinn á endanum og annar!  Var það ég sem gerði þetta?  Prófum aftur.  Einbeita sér. Upp með þennan minnsta.  Já!  Hann hreyfðist!  Og svo öll pulsan. Ja, sko til.  Þetta má nota.  Þrýsta á forðabúrið, aaaaah.  Meiri mjólk.  Ég gat stýrt búningnum!

spacewalkÚff, hvað maður var örmagna. Höfgin sveif yfir og ég leið inn í lítinn straumhnút í höfðinu og skynjaði ekkert fyrir utan; lét sjálvirkan búninginn sjá um rest.  Varla annað hægt en að kúpla sér frá eftir svona streð.  Fljúga um gömlu heimkynnin um stund. Hitta aðra orkubolta.  Fá góð ráð. Vinna úr reynslunni.

Ég gerði síðan lítið annað en að sofa í marga mánuði eftir þetta, svo örmagna var ég.  Vaknaði bara til að drekka í mjólkurbúinu og fá hleðslu frá móðursálinni.  Ef hún var ekki innan seilingar, þá var bara að beita sama bragði og leiddi mig að henni fyrst.  Öskra.  Það klikkaði ekki.  Segið svo að maður læri ekki neitt.

Þetta var betra meðan búningurinn var í frumhönnun. Þá var ég tengdur beint við móðurskipið og sveif um í vökva, sem hjálpaði til við mótunina.  Það þurfti mikla orku í þetta, svo það var ekki um annað að ræða að hafa hægt um sig; í mesta lagi að liðka einn og einn skanka.  Annars hafði ég það náðugt og hlustaði á hjartslátt aðaldælunnar og stillti litlu dæluna mína við hana.  Hlustaði á fjölbreyttann titring og blæbrigði hljóða, sem bárust gegnum vatnið. Heyrði ekkert, fann það bara og skemmti mér oft konunglega. 

geimgangaSvona búningur er vandasmíð og það eru skrilljónir frumna, sem koma til verks, hver með sitt sérstaka hlutverk.  Einstaklingar sem ræða sín á milli.  Samhæfing.  Frumur, gerlar, bakteríur, örverur.  Heilu herfylkin.  Búningurinn er í raun ekki ein heild, heldur risastórt samfélag, sem vinnur saman í fullkominni verkaskiptingu og það er brjálað að gera.  Melta þetta, losna við hitt, byggja, bæta, breyta, uppfæra.  Stöðugt samband við verkstjórn. Verkstjórn tekur leiðbeiningar frá stjórnstöð, kemur þeim til skila,  hagræðir, flytur, rekur áfram, gefur frí, heldur þrýstihópum í skefjum, hendir vitleysingum út, kallar á nauðsynleg byggingarefni frá móðurskipi.  Ótrúlegustu pantanir: Rjómaís, eldspýtnabrennisteinar, súkkulaði, sígarettuaska, sítrónur...

Ég hélt mig til hlés og lét meistarana um verkið.  Saug mest þumalinn og velti mér til að beiðni stjórnstöðvar.  Svo kom kallið.  Vökvinn tæmdist skyndilega út og ég klemmdist, nuddaðist og kúldraðist.  Þvílík glíma.  Svo kom þessi hryllingur, sem ég lýsti.  Ekki að furða þótt það tæki tímann sinn að jafna sig af áfallinu.  Ég hafði varla orku í annað en að melta mjólkina. Varð að hægja á allri annari starfsemi á meðan og sofa, sooofaaa....

stjörnuþokaKroppurinn var óttalegt slytti til að byrja með.  Ein hreyfing tók alla einbeitningu og orku.  Maður hélt ekki haus.  Hann lagðist bara til hliðana, aftur eða fram eins og hnoðdeig.  Útsýnið var þokukennt og takmarkað.  Í fjarska voru aðrar verur eins og reykjarslæður.  Raddirnar klingjandi eins og langt í fjarska. Nær sá ég jú hendurnar, athugaði hvernig þær brögðuðust ef ég var svo heppinn að hitta upp í munninn á mér.  Það var ekki auðvelt.  Ég remdist við að halda þeim inni í þröngu sjónsviðinu en þær hentust út úr því með skrikkjum, þar til maður náði að einbeita sér nægilega til að hafa þær í fókus.  Lyfta brúnum, setja stút á munninn, sprikla smá ooog...upp í túllann! 

undrunHendurnar voru til margs nýtilegar og mátti með lagni grípa í sængina og allskyns dót og færa þetta allt í munninn, slefa og smakka.  Flest var algerlega óætt.  Samt var sumt þægilega kalt og svalandi undir góm.  Sérstaklega það sem mömmusálin færði mér.  Það hringlaði og var níðþungt og oft sló maður sig duglega í hausinn með því þegar maður reyndi að koma því ginið óseðjandi.  Annað var utan seilingar og það gerði mann alveg rangeygðan af einbeitingu við að reyna að grípa.  Hvílan mín var til dæmis með fullt af fallega litum myndum, sem ég reyndi að ná í til að smakka; reygði mig og sveigði þar til einn daginn að Ég var allt í einu oltinn á kviðinn.  Þá var ég búinn að ná því.  Teygði út skankana og ruggaði á kviðnum. Spriklaði. Myndirnar náðust samt ekki úr tauinu sama hvað ég kroppaði.  Það var vonlaust að reyna að kjamsa á þeim.

Neðar á mér var annað par af höndum, virtist vera.  Þær voru svolítið klunnalegri og óþjálli.  Maður gat gripið í hitt og þetta og þeytt til,  en haldið var slæmt.  Ég boxaði því bara og hjólaði með þessu út í loftið.  Það var oft bara heljarinnar stuð.  Þarna niðri var ég líka settur í grófa og óþægilega dulu, sem ég skildi ekki meininguna með.  Svipað þægilegt og nærbuxur úr hessianstriga ef þið eruð að pæla í því. Fáránlegt átfitt.

skoðaMaður lak soldið hér og þar.  Ef ég var látinn fljúga upp að barmi móður minnar, rann stöðugur slefutaumur út um allt. Maður var jú oft svo stútfullur eftir matinn og ekki var sérstaklega varlega með mann farið.  Maður gleypti stundum loft í áfergjunni sem bólgnaði eins og bolti í bumbunni.  Þá var klappað létt á bakið og boltinn losnaði út um stútinn með ansi fyndnum hljóðum.  Stundum kom slatti af mjólkinni með og  þeir gátu sjálfum sér um kennt, sem ekki höfðu breitt á sig tusku áður.  Það var óskaplegur léttir að losna við þennan þrýsting.  Þá gat maður eiginlega fyrst látið líða almennilega úr sér eftir matinn. 

Verra var það sem kom út að neðan.  Stundum stóð glær bunan út í loftið og ef það var ekki þrifið fljótlega þá sveið manni í húðina, sem var jú afar viðkvæm og pen.  Verst var þó hitt.  Hnúturinn í mallanum, sem spennti mann allan svo upp og pirraði.  Eina ráðið til að losna við hann var að rembast þar til maður var orðinn eins og eldhnöttur í framan; draga armana að sér og hnykla brúnir, setja stút og munninn. Nötra smá. Þá skutlaðist þetta út, heitt og klístrað.  Og brælan maður!  Það var ólýsanlegur fnykur fyrir svona fínt fölende nebba og var bara um eitt að ræða til að losna undan honum.  Öskra.

Öskur var óbrigðult.  Maður vildi samt geta verið nákvæmari, þegar manni vantaði eitthvað. Það dugði oft að skæla smá eða æmta svona: íh,íh.  Þá fékk maður athygli, en var oftast miskilinn.  Maður var kannski að kafna úr hita og æmti og þá kom einhver og pakkaði manni bara fastar inn í sængina, svo maður gat sig hvergi hrært.  Þá var þó alltaf lausn að garga.  Það dugði til þess að maður væri tekinn upp úr svækjunni; hossað og klappað.  Hressandi tilbreyting líka.

barn og stjörnumerkiÞað var blendin tilfinning að fá heimsóknir.  Geiflaðir munnar, fettur og brettur með allskyns óhljóðum kúi og frussi.  Óþægilega nærgöngult á köflum.  Oft mjög óvænt og illa þegið en flestir voru samt óborganlega fyndnir þegar á reyndi og það ískraði inni í manni við að sjá þessar kúnstir.  Það var hægt að grípa nebba og þreifa á krumpuðu og hrjúfu skinni.  Klípa smá. Stinga sig á skeggi. Oft var lyktin ansi römm frá þessum sálum og úr sumum kom reykur, sem kitlaði mann í nefið.  Fyrsti smókurinn.  Aaaatsjú!  Ég varð ég algerlega forviða við fyrsta hnerrann.  Hentist til og herptist saman og sá sveimandi ljósflekki fyrir augum.  Svo var þetta BARA fyndið. 

Félagskapur var annars oftast vel þeginn.  Maður var mikið einn að pæla í puttunum, dinglumdaglinu fyrir ofan sig eða myndunum á sænginni.  Það var jú oftast nóg, en hitt var skemmtileg viðbót og það streymdi oftast hlýja frá þessum sálum.  Það var helst að manni brygði við þessar sem komu með tildur á nefinu og glerhlunka, sem gerðu augun allt, allt of stór.  Þá var lítið annað að gera en hrifsa eldsnöggt í þetta drasl og þeyta því í burtu.  Oftast var vel í slíkt tekið.

Ég lærði fljótt að apa hljóðin upp, sem sálirnar gáfu frá sér.  Aaaaaa.  Mmmmm. Úúúú.   Það var þægilegt að finna titringinn í brjóstinu og æfa sig.  Þetta fékk líka góðar undirtektir.  Móðursálin var með sérstaklega blíð hljóð.  Það var auðvelt að framkalla þau.  Fyrst hummaði maður með lokaðann munninn. “Mmmmm.”; svo opnaði maður. “Aaaaaa.” Það virkaði vel saman.   “Mmmmaaaaammmaaa....”  Sló raunar algerlega í gegn.  Maður lifði lengi á því númeri og fékk allt upp í hendurnar fyrir tilstilli þeirra töfrahljóða.  Mammaaa.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband