Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Andi Vísar á Fjársjóð.

fjársjóður“Mamma! Mamma! Pabbi! Við erum rík! Við erum rík!“ Hrópaði Bergþóra litla með fangið fullt af glitrandi gulli sem hringaðist í ótal hlykkjum og flæktist í peysunni hennar.  Pabbi hennar sat svartur upp fyrir haus eftir erfiðan dag í smiðjunni og góflaði í sig kvöldmatnum með nasablæstri. Hann leit áhugalaus upp og á dóttur sína og síðan á okkur Einar vin minn sem stóðum undarlega kímnir og niðurlútir fyrir aftan hana og teiknuðum hringi með tánum í gólfið.

“Hvern andskotann hafið þið verið að gera núna!?” gelti pabbi Einars svo fiskur og kartöflur ultu út um fullan munninn.  Sjaldan hafa jafn miklar gleðifréttir vakið jafn litlar undirtektir. Það var raunar ástæða til.  Allstaðar, þar sem við vinirnir komum nálægt voru einhver lymskubrögð í tafli. Fólk var farið að ganga út frá því sem vísu.  Þetta var enn eitt dæmið um slíkt og endaði með löðrung á vangann, sem var ekkert smáræði, því sá gamli var gamall boxari og var enn að bæta sér upp niðurlægingu síðasta bardagans, sem lagt hafði hann í endanlega valinn.  Fyrir okkur fylgdi þessu þó undarleg fullnægja og stolt. Við vinirnir sátum eftir þetta á grindverki með logandi rauða vanga og suð fyrir eyrum og sögðum ekki orð. Brostum bara glaðir og horfðum á hvorn annan með djöfulleg klókindi í augum.  Við vorum ellefu ára og nokkuð ánægðir með lífið.

óþekktarormarVið höfðum unun af að skipuleggja hrekki og snúa á fólk.  Þetta var oft svo úthugsað og vísindalegt að mig undrar það enn í dag.  Svo var það þetta algera virðingarleysi okkar fyrir fullorðna fólkinu. Það var eins og okkur væri alveg sama um refsingarnar. Við bárum enga virðingu fyrir þeim sem framkvæmdu þær og tókum þær því ekki nærri okkur. Þess þyngri refsingar því minni virðing. Ánægjan af laumuspilinu bætti löðrunga og rassskelli margfalt upp.

Sennilegast var þetta virðingarleysi sprottið af því að okkur hafði lærst að það var lítið að marka fullorðið fólk. Það bramlaði allt og braut og jós úr sér svífiyrðingum undir áhrifum áfengis og lofaði síðan gulli og grænum skógum daginn eftir. Nýju hjóli, ferðalögum og fatnaði, en stóð svo aldrei við neitt af því.  Það bölvaði og ragnaði og sló mann svo á munninn eða lét mann bíta í sápu ef maður gerði slíkt hið sama. Pabbi var vanur að segja: “Hættu þessu andskotans bölvi drengur!”  Ég skil ekki hvaðan í helvítinu þið hafið þennan andskota?” Þegar stórt er spurt er jú jafnan fátt um svör.

Elsti bróðir Einars dýrkaði Hitler og heimtaði að við heilsuðum sér að Nasistasið í hvert sinn sem við mættum honum. “Heil Hitler!”

hitlesæskaÁ fylleríum spilaði hann grammafónplötur með ræðum Hitlers svo bárujárnið skrölti utan á húsinu. “Ænen Júden slagten svæne húnden únt sjæse idioten gassen brennen im der hulen!!” fannst okkur Hitler garga móðursýkislega. Hitler þagnaði síðan snöggt og örstutt þögn varð að undanskildu arinsnarki plötunnar. Svo ærðist lýðurinn af fögnuði og hljómaði eins og suð í risastórum klósettkassa. “Sieg Heil! Sieg Heil! Sieg Heil!!! Við þetta gengum við svo gæsaganginn fram og aftur um stofuna á eftir stóra bróður og sungum "Horst Wessel."  Okkur fannst þetta náttúrlega alger della.  Hvernig var hægt að bera virðingu fyrir fólki sem lét svona.

En aftur að fjársjóðnum. Þessi dramatíska fjársjóðssaga átti sér upphaf í tilviljanakenndum sálarrannsóknum. Einhver hafði fengið okkur með sér í andaglas en ég man ekki hvernig það kom til. Þetta var þó mögnuð reynsla.  Við blésum öll í kross yfir opið á glasinu og snérum því svo þrjá hringi réttsælis yfir höfðinu áður en það var lagt á handskrifað andaborðið. “Er andi í glasinu?” var spurt og glasið hreyfðist áreynslulaust undir fingrum okkar á orðið "JÁ.Allir þrættu fyrir að hreyfa glasið sem staf fyrir staf afhjúpaði okkur svör við huldum leyndardómum. “Verð ég rosalega ríkur?” “Dey ég einhverntíma?”  “Hvað heitirðu?” "Er einhver stelpa skotin í mér?" og svo framvegis.  Við fundum hárin rísa á burstaklipptum kollunum og Bergþóra kjökraði af hræðslu. Svo var þetta búið og við vorum engu nær um neitt.  Svörin voru, mildilega sagt, afar loðin.

AndiÞetta gaf okkur Einari hinsvegar stórsnjalla hugmynd.  Við byrjuðum undirbúa hana af mikilli nákvæmni daginn eftir. Ég bjó til fjársjóðskort með því að brenna brúnirnar á vélritunarblaði, krumpa það vel og lengi, maka á það sósulit og ryki og skrifa fornlegar leiðbeiningar með augnabrúnablýantinum hennar mömmu. Neðst var auðvitað fjársjóðskort. Þetta var algert meistarastykki, enda varð það að atvinnu minni síðar meir að gera nýja hluti gamla og lúna í leikmunagerðinni.  Við rúlluðum þessu plaggi upp og bundum borða af konfektkassa utan um það. Loks földum við það undir fúinni gólffjöl í skúr inni í Hallaporti, sem var lítill undirgangur í næsta húsi við mig.  Einar stal flóka af koparspæni undan rennibekknum í smiðju föður síns og vafði hann inn í skítuga strigalufsu. Þetta földum við svo undir fúnum drumb við hjall niður í dokkunni, sem var fornt bátalægi út við sjó.

Svo kom blekkingin. Við tældum Beggu í andaglas, þar sem óskaplega nákvæmar upplýsingar komu úr andheimum um fjársjóðinn mikla í dokkunni og kortið í Hallaportsskúrnum. Jú, andinn kallaði þetta sömu nöfnum og við og gerði sömu stafsetningarvillur og við, enda voru það við sem hreyfðum glasið. Begga var rauð af æsingi og gullæðisglampi var í augum hennar. Hún náði varla andanum í kappsamri leit sinni þegar út var komið.  Hún var hinsvegar svo hlandvitlaus að að okkar mati, að við þurftum næstum að benda henni á kortið fyrir rest.  Að lokum fann hún fjársjóðinn og hljóp gráti næst af gleði alla leið heim. “Við erum rík.” Við erum rík.”  Okkar fyrsti skipulagði glæpur var veruleiki.

andaglasAnnað launráð okkar uppgötvuðum við á fjörulalli þegar við fundum tvær netakúlur úr sinki.  Við höfðum heyrt að útgerðarfélagið keypti slíkar kúlur.  Við fórum því samkvæmt bendingum karlanna í beitingaskúrunum til Bjartar gamla, sem sá um lager félagsins.  Hann skrifaði fyrir okkur beiðni upp á svaka upphæð að okkur fannst, sem leysa mætti út á skrifstofunni. Hann bað okkur fyrst að fara fram á lager með kúlurnar því hann var svolítið fótalúinn.  Það hefði hann betur látið ógert.  Þegar við opnuðum lagerdyrnar blöstu við okkur fjársjóðir Salómons konungs í fjalli af sinkkúlum sem náði upp í rjáfur.  Augu okkar mættust í þessu lymskufulla bliki sem kom okkur svo oft í vandræði. Við lásum hugi hvers annars án þess að mæla orð.

Eftir þetta byrjuðum við á því að fara á lagerinn og náðum í knippi af kúlum. Síðan fórum við með þær til Bjartar, sem lét okkur hafa beiðni sem skrifstofan breytti í peninga.  Við urðum  ríkustu gæjarnir í götunni það sumarið.  Undarlegt nokk þá grunaði gamla manninn aldrei neitt og aldrei komst upp um glæpinn....fyrr en nú.

skriftirÉg finn til hálfgerðrar skammar í dag þegar ég hugsa um þetta. Það er ljótt að stela, en okkur fannst við aldrei vera að því vegna þess að við tókum aldrei peningana beint og fannst þetta sanngjarnt gjald fyrir snilld okkar. Víst markar þessi hugsun fleiri en unga drengi eins og skýrast sést á nútíma viðskiptaháttum. Við hugsuðum bara svolítið eins og bankar.

Bergþóru var þó ljótt að blekkja og fá hana eitt augnablik til að halda að hryllingur hins alkóhólíska veruleika væri að baki og bjartari tímar í augsýn.  Það er líka sagt að það leiði til óhamingju að hafa andaheima í flimtingum. Ég er ekki fjarri því að á tímabili hafi ég þurft að gjalda fyrir það.  Aumingja Bergþóra fór allavega ekki varhluta af þessum álögum. Hún sat lengi í fangelsi fyrir morð, sem ég held að hún hafi ekki framið. Alræmd gerð af miskunnarlausri slúðurpressunni þar til ginnungagap eiturlyfjanna tók hana frá okkur.


Klámhvolpar, Sundbolir og Sverðshjöltu.

reykingastrákurÞegar ég var um 8-9 ára hvolpur, fóru hin flóknari rök tilverunnar að síast inn.  Skólakerfið var búið að kenna manni að kvíða morgundeginum og vera ósáttur við árekstra gærdagsins.  Núið var á undanhaldi og þar með andi barnssálarinnar.  Fram að þessu höfðum við vinir mínir lifað í fullkomnum anarkisma og notið þess sem lífið bauð um leið og það birtist.  Líf sem var án stórra væntinga og vonbrigða. 

dullupjakkurÉg átti þrennskonar vini.  Einn flokkurinn  var svona eins og hann Skari, sem hugsaði ekki stórt og gladdist við litlu.  Hann gat til dæmis fengið lag á heilann, sem mér fannst heimskulegt og verið uppveðraður yfir því svo dögum skipti. “Úh íh úh ah ah, ding dong,valla, valla bing bang.” gat hann gaulað út í eitt svo aulahrollurinn hríslaðist niður bakið á manni.  Við umbárum þetta þó, því hann átti heima í sama húsi og Oddur lögga og það hafði ýmsa kosti í för með sér fyrir uppátækjasama púka.  Svo átti hann bróður, sem var eins og tröll, stór og þykkur, opinmynntur trukkur, sem gott var að eiga á hliðarlínunni ef  til undanhalds horfði í púkastríðum okkar. Þá birtist hann í miðjum hópi eins og risaeðla með lurk í hendi, og stökkti óvininum á flótta eins og kakkalökkum undan ljósi.  “’Úh íh úh ah ah, ding dong valla, bing bang!” söng Skari og ég horfði á hann í blendingi undrunar og vorkunar. “Þarftu endilega að vera að syngja þetta?”  En Skari horfði bara á mann og var eins og glaður hundur í framan. “Þetta er svo flott.  Finnst þér þetta ekki flott? Þetta er frábært. Úh í úh ah ah...”  Honum var ekki við bjargandi, en maður þurfti stundum að sætta sig við meira en gott þótti til að njóta kostanna.

chocolate_cigarettesSvo var það vinur eins og Einar.  Hugir okkar störfuðu nákvæmlega eins og stundum gátum við skilið hvorn annan algerlega án þess að segja nokkurt orð. Búddískt augnaráð og hálfgildings bros eins og á Monu Lísu var nóg.  Við urðum líka ævivinir og enn tölum við saman í þögnum og augnaráðum þegar við hittumst á förnum vegi.  Réttlætiskenndin sauð í brjóstum okkar og við storkuðum öllu, sem okkur þótti bera í sér misrétti. Mætti segja að það hafi orðið okkur fjötur um fót í lífinu framar öðru.  Við reyktum eða þóttumst reykja súkkulaðisígarettur, sem ekki þótti óeðlilegt að selja börnum þá.  Allir strákar, með sjálfstæða hugsun voru með eina slíka í kjaftinum og töluðu út um annað munnvikið eins og hetjur hvíta tjaldsins. Við vorum ærlegir menn og formlegir fóstbræður, ég og Einar og hefðum gengið í dauðann hvenær sem var fyrir hvorn annan.  Eitt sinn bjargaði hann lífi mínu þegar ég datt í gegnum ís og fór undir hann.  Einar hætti ekki fyrr en hann hafði náð mér upp og þá var ég orðinn svo dofin að ég streittist á móti og vildi sofna. Hann er óreglumaður í dag og umgengst annan þjóðfélagshóp, en það veikir ekki þráðinn á milli okkar. Þvert á móti. Virðingin er gagnkvæm og órjúfanleg enn í dag. Hann er drengur með hjarta úr gulli.

tígulgosi 2Þriðji flokkurinn voru svo strákar eins og Jakob.  Maður vissi aldrei hvað hann hugsaði og kynntist aldrei hans innstu rökum.  Hann var óútreiknanlegur og aldrei hægt að vita hvort hann var með manni eða á móti.  Hann var dularfullur.  Okkur fannst gaman að stríða eldri bróður hans, sem var langur, mjór og slánalegur og minnti á gamlan ljósastaur. “Mummi Kalli langi með tittlinginn í gangi!” hrópuðum við úr tryggri fjarlægð og þá elti hann okkur þindarlaust um allan bæ.  Það virkaði alltaf.  Í hvert einasta skipti í mörg ár og veitti okkur ómælda skemmtun og holla hreyfingu.

Jakob átti leyndardóm heima hjá sér, sem við fengum að kíkja á.  Það var fullur kistill af Tígulgosanum.  Þetta var svona dónablað með svarthvítum myndum af konum í sundbolum, sem horfðu tælandi í augun á okkur.  Við lásum upp úr þessu valda kafla, þar sem talað var um að menn settu “seðlavöndulinn í budduna hennar” eða “ráku sverð sín upp að hjöltum í helgidóm hennar.” Ekkert var sagt berum orðum en við skildum algerlega hvað við var átt og urðum þurrir í munninum. Undarlega kitlandi tilfinning myndaðist í kviðarholinu, ósýnilegu kverkataki var brugðið um háls okkar og sprænillinn varð eins og trjákvistur.  Jakob útskýrði hlutina með undirfurðulegu glotti og við vissum að hér voru forboðnir hlutir á ferð.  Hættulegir hlutir.  Þó tengdum við þetta ekki beint við tilveruna.  Aðrar stelpur voru enn kjánalegar og leiðinlegar en konurnar á sundbolunum voru hlutir, farlæg og ópersónubundin brjóst og rassar og við hefðum sennilega hlaupið af hólmi ef þær hefðu birst þarna.  Allt sem maður hafði svo upp úr þessu var sársaukafullur hlandsprengur. 

Jakob sagði að þetta væri kallað að ríða og sýndi það með að stinga vísifingri annarrar handar í holu á milli vísifingurs og þumals á hinni.  Hann gekk þó of langt í eitt sinn, þegar hann sagði að mamma mín og pabbi hefðu gert það þrisvar. (Ég átti jú tvö systkini). Ég varð svartillur og gaf honum á kjaftinn. Þvílíkt ógeð!  Náttúran er nefnilega þeim undrum gædd að engin leið er að gera sér slíkt í hugarlund, hvorki hvað varðar foreldra né systkini.  Það voru bara einhverjir töffarar og píur, sem gerðu slíkt.  Eins er það með foreldra gagnvart börnum. Það setur að þeim hroll að hugsa um þau í þessu samhengi og það tabú varir nánast alla æfi.  Merkileg staðreynd, en svona setur náttúran okkur varnagla til að spilla ekki stofninum.

xrayad1Forvitnin óx með hverri heimsókn til Kobba. Í Popular Mechanics voru auglýst röntgen gleraugu, sem áttu að gera manni kleyft að sjá í gegnum föt.  Þetta undur vísindanna átti hug okkar allan á tímabili. Við sendum pöntun og pening til Ameríku til að eignast ein slík.  Við  vélrituðum meira að segja mjög fullorðinslegt bréf með, sem hófst á orðunum: “Dear sirs.”  En íslenska krónan hefur sennilega ekki verið tekin gild, svo okkur varð ekki af  óskum okkar.

Áhugi okkar á stelpum vaknaði svo upp úr þessu og við gátum legið heilu vetrarkvöldin undir vegg sundhallarinnar og gónt upp undir opna glugga, sem endurspegluðu himnaríki holdlegrar fegurðarúr kvennaklefanum.  Stundum var það Stína “Vá!” en stundum bara mamma hennar. “Ojbarasta!” En brjóst vöktu alltaf djúpstæða löngun, sem máski var saknaðartilfinning.  Söknuður hlýjunnar og kærleikans við móðurbarm, sem aldrei kæmi aftur.

Við góndum þarna, þar til við fengum hálsríg.  Útlimir og andlit dofnuðu af kulda svo við gátum varla mælt, en innst var þessi hlýja unaðsglóð.  Þegar á hólminn kom og maður var augliti il auglitis við dísir drauma sinna, þá lamdi maður þær með skólatöskunni, flissaði og lét eins og fáviti. Stelpurnar voru nákvæmlega eins. Enn einn öryggisventill náttúrunnar kom í veg fyrir ótímabæra viðbót við mannkynið.


Frægð Mín og Frami í Míkrókosmos.

leiklist.Það er fyrirhafnarlítið að verða stjarna í litlu sjávarplássi.  Maður þarf bara að ganga í leikfélagið og krækja sér í bitastætt hlutverk og þá getur maður gengið hnarreistur um götur undir aðdáunarbliki hins sauðsvarta almúga.  Þetta gerði ég á yngri árum.  Gekk um með kanslarahúfu, reykti pípu og safnaði skegglýjum, svo ég minnti einna helst á spíraða kartöflu í framan.  Intelektúal, sem gat leyft sér að drekka í miðri viku og ræða leikbókmenntir og túlkanir í varfærnum og upphöfnum tón.

Maður las aftan á kápur helstu bókmenntaverka og lét sem maður hefði lesið þau öll í trausti þess að andaktugir viðmælendur hefðu ekki gert það. Ég dró meira að segja seiminn eins og Nóbelsskáldið og flaug um óræðar lendur... öhm...hærri tilvistarplana

Í litla Leikklúbbnum tróð ég á svið sem Toggi frá Traðarkoti í leikritinu Leynimelur 13 og þurfti varla að skipta um föt áður en ég steig á svið. Fyllibyttan, skáldið og rómantíkerinn var algerlega í takt við sjálfan mig og það sem ég gekkst upp í að vera.  Þetta voru lærdómsríkir tímar, þar sem ekkert var manni óviðkomandi. Leikmynd og brellur voru á minni könnu og ég bætti jafnvel textann og endursamdi kafla í leikritunum í óþökk dauðra skálda.

to beMargar sýningar voru metnaðarfullar og yfirmáta listrænar. Við fórum á námskeið, hjá Kára Halldóri leiklistarkennara, sem var óumdeilanlegur snillingur.  Hann dró með sér strauma frá Finnlandi og Svíþjóð, spunann og krabbastellingarnar og æfingar sem fólust í því að ráfa stefnulaust um gólf með stunum og óhljóðum eins og andleg grænmeti.  Ég held að ég hafi nú bara haft gott af því.  Við lögðum land undir fót  með leikritið, sem var eftir Böðvar Guðmundsson og sýndum í Gamla Bíó á listahátíð og fórum svo á samnorræna kúltúrhátíð í Danmörku. Ég lék aumingja, sem varð leiksoppur og fórnarlamb misviturra og hrokafullra yfirvalda. Það var ekki erfitt. Undir niðri held ég að ég hafi talið mig falla undir það hlutskipti. 

leikfélagÉg skrifaði leikritið Hjálparsveitina, sem var paródía á þegnskyldugóðmennsku, gaf það út á bók og seldi hús úr húsi fyrir vestan, til að eiga fyrir bóheminu. Uppsetningin var barn síns tíma og ég get ekki rætt það frekar kinnroðalaust. Ég var meira að segja svo frægur, að ég var pantaður sem gestaleikari til Flateyrar og lék þar Mr. Clayton, morðingja og dusilmenni í leikritinu “Húsið á Klettinum”, sem varla telst til undirstöðubókmennta.  Ég lét líka í þá skoðun skína.  Ég var stjarna og bjó frítt og borðaði frítt í mötuneyti Einars Odds, slæptist um götur á daginn ofar öllum frystihússpöbul í þorpinu.

Einu sinni neitaði ég að leika fleiri sýningar ef ekki yrði skipt um byssuna, sem ég var skotinn með í restina.  Þetta var venjuleg hvelldettubyssa, sem virkaði ekki nema í fjórða hverju skoti. Það hvissaði og neistaði af henni og bleikur hvelldettuborðinn hringaðist upp í reykjarkófi án þess að nokkur hvellur kæmi.  Þetta var mér alls ekki samboðið, þar sem ég átti að vera á flótta.  Þess í stað þurfti ég að neyðast til að staldra við og bíða eftir almennilegu skoti, svo ég gæti fallið með pathos í duftið.

leikiðNý byssa var fengin án þess að láta mig vita og á þeirri sýningu dó ég eitt augnablik í alvöru. Pöntuð hafði verið startbyssa sem sendi frá sér blindandi, meters langan,  bláan loga og gaf frá sér ólýsanlega háan hvell.  Dauði minn var afar sannfærandi í þetta sinn. Það þurfti nánast að hnoða mig í gang fyrir uppklappið.  Ég varð svo til heyrnarlaus og sá tilveruna í syndandi, marglitum blettum á eftir. 

Tæknin var líka stundum að stríða okkur í þessari sýningu. Síminn átti að hringja á ákveðnu augnabliki en gerði það ekki, svo leikararnir stóðu þarna eins og prjónar, orðlausir í óendanlega rafmagnaðri kúnstpásu, fyrir gapandi áhorfendum.  Ég tók nokkrum sinnum af skarið og sagði: “Ég held svei mér að síminn hafi verið að hringja.”  Og þá hrökk sýningin í gang aftur.

Við brutumst með þetta listaverk um há-vetur til nágrannabyggðanna, með leikmyndina blauta á vörubílspalli og komum oft svo seint, vegna snjóþunga, að áhorfendur sátu í salnum og horfðu á okkur setja leikmyndina upp.  Allir voru þó sammála um að það hafi gefið sýningunni meira gildi og að það hafi verið fræðandi að sjá inn í leyndarheima leiklistartöfranna.  Svona einskonar "making of".   Á einum stað stóðum við í hné í vatni í kjallara samkomuhúss og sminkuðum okkur og klæddum.  Okkur varð svo kalt að við nötruðum á sviðinu. Það þótti sérstaklega áhrifaríkur performans.

núpurEftir þetta var ég ráðinn sem leiklistarkennari að héraðsskólanum á Núpi í Dýrafirði.  Þangað voru eftirhreytur pönkmenningarinnar sendar í skóla og voru þarna eins og skrattinn úr sauðaleggnum í nepjulegu vetrarlandslaginu, leðurklæddir með nælur og hanakamba.  Síðasti leiklistarkennari hafði verið brotinn niður andlega og send grátandi heim og ég því kallaður í skarðið.  Ég náði góðu sambandi við krakkana, leyfði þeim að reykja í óþökk skólastjórans og kenndi þeim listræna tjáningu. Leikritið var Grænjaxlar eftir Pétur Gunnarsson og fannst mér árangurinn frábær. Hæfileikar krakkanna voru stórkostlegir og sýningin áhrifarík í sinni einföldu umgjörð.

 Við brutumst með þessa sýningu til nágrannaþorpanna á Rússajeppanum hans Helga í Alviðru.  Veður voru válynd og oft tvísýnt um hvort við yrðum úti í glórulausum vetrarbyljum.  Krakkarnir voru hin bestu skinn en þó þurfti að veita þeim ofanígjöf annað slagið. Til dæmis, þegar þau rændu öllu sælgæti úr sjoppu eins félagsheimilisins fyrir sýningu, sem varð til þess að það átti að senda okkur heim aftur. Eftir stífar samningaviðræður og skil á nammi, gat þó sýningin fengið inni.

GnarrÞessi tími var ógleymanlegur og marga af nemendunum hef ég eignað mér og stært mig af, sem væru þau mín eigin sköpun.  Meðal aðalhlutverkanna voru til dæmis ekki ómerkara fólk en Birgitta Bergþórudóttir, skáldkona, Friðrik Weisshappel og Jón Gunnar nokkur, sem við þekkjum betur í dag, sem Jón Gnarr.  Ég er hreykinn að hafa leiðbeint þeim fyrstu skrefin á listabrautinni.  Ég les bækurnar hennar Birgittu, drakk mig til óbóta á Kaffibar Friðriks og vann svo með Jóni að fóstbræðraþáttunum.  Allar þær yndislegu manneskjur, sem ég hitti á þessari listabraut, búa í hjarta mér enn og væri ég fátækur maður án þeirra kynna.


Vetrarhljóð.

 

fiskibátur Fyrir fimm ára snáða, sem ekki vissi betur, hafði hver árstíð sinn ilm og sín hljóð.  Það var ekki laust við að fullorðna fólkið kímdi svolítið þegar hann talaði um vetrarhljóð eða morgunilm.  Kannski var það vegna þess að það hafði aldrei heyrt eða fundið neitt slíkt.  Kannski vegna þess að það hafði aldrei legið undir sænginni sinni á vetrarmorgni og hlustað og fundið.
En svona var þetta nú einu sinni.  Það vissi hann.

  Marr í mjöll undan syfjuðum stígvélum á leið í vinnuna.  Hóstakjöltrin í pabba og lykt af blautum lopavettlingum.  Það var veturinn.
  Vindurinn gnauðaði ámátlegar en á sumrin, næstum brjóstumkennanlega.  Jafnvel hljóðin frá bílunum voru dapurlegri.  Allt gekk hægar.  Fá bros.  Lítið talað.
  Já, veturinn var raunamæddur. Sumrið glatt og lifandi.  Þá hló allt og þaut hjá í gáska og gleði. 

  Það brakaði í gólfinu.  Nú var pabbi á leið á sjóinn.  Pissað.  Kveikt í sígarettu og aftur brakaði í gólfinu.  Stiginn kveinkaði sér undan þungum fótum.  Aumingja pabbi.  Nú var kalt að fara á sjóinn.
  Það glamraði í leirtauinu í eldhúsinu.  Nú var hann að reyna að veiða bolla upp úr hrúgunni í eldhúsvaskinum.  Hann hóstaði svona eins og til að reyna að kæfa hljóðið.  Smellur,  brothljóð, bölvað lágt og hóstað.  Það heyrðist aldrei meira í honum en þegar hann reyndi að fara hljóðlega.

  Mjúkir fætur læddu sér undan sænginni og tipluðu hljóðlaust eftir köldu gólfinu.  Stubbur ætlaði að kyssa hann bless.  Fyrst settist hann á stigaskörina og hlustaði.  Þefaði.

  Stiginn gein óendanlega langur við, þar sem hann rann í eitt saman við myrkrið niðri á ganginum.  Ilmur af nýju kaffi og sígarettureyk mætti honum.  Hann fikraði sig niður, þrep fyrir þrep.  Stiginn kvartaði eilítið yfir ónæðinu svona snemma dags en lét sér lynda að á honum væri troðið.  Eldhúshurðin var ekki eins þýðlynd. Æiii!, sagði hún, er snáðinn ýtti við henni.  Allt var svo tregt og sérhlífið á veturna.

faðir og sonur 2  “Nú ert það þú?” -sagði pabbi eins og hann byggist við draug.  “Já ég heyrði í þér.” Sagði snáðinn og lét sem hann væri nývaknaður.  “Ég ætlaði bara að kyssa þig bless.”
 Tvær hlemmstórar, sigggrónar hendur lyftu honum upp eins og hann væri þyngdarlaus og skeggbroddar stungu hann í vangann.  Hann lagði armana um háls pabba og neri vanga við vanga.  “Þú stingur.” -sagði hann lágt.

“Ég?” -sagði pabbi eins og ekkert væri fjær.  “Það hlýtur að vera þú, sem hefur gleymt að raka þig.”  Snáðinn strauk sér um vangann  og brosti. “Ég er að safna.” –sagði hann svo.  Pabbi hnussaði eilítið eins og hann hafi fengið kusk í nefið.  Þannig var hann vanur að hlæja.  Svo faðmaði hann litla drenginn sinn að sér, svo fast að hann kenndi til.  En það geði ekkert til, því snáðinn vissi hvað það þýddi.

  Pabbi setti hann niður á stól og sótti handa honum mjólk og brauðsneið.  Svo sátu þeir feðgar í heimspekilegri þögn, hvor á sínum stól og mauluðu bitann sinn.
  Pabbi sötraði kaffið sitt í löngum sogum og blés í bollann.  Eldhúsklukkan tifaði og hugir þeirra svifu út um gluggann, hátt yfir snarbröttum, vomandi fjöllum í glerkenndu morgunlofti vetrarins.

  Skyndilega tók pabbi kipp, stökk á fætur og kveikti á útvarpinu.  Veðurfréttir! Þá var nú eins gott að þegja eins og steinn.  “Suss!” –sagði hann án þess að nokkur segði nokkuð. Síðan hvolfdi hann sér yfir tækið eins og köttur sem bíður eftir að hremma bráð sína.  Það sem eftir fylgdi var eins og helgistund, nema hvað í kirkju heyrist þó alltaf einstaka hósti og stuna.
   Afar syfjuð rödd þuldi seiga og hljómbrigðalausa þulu:

faðir og sonur“Gert er ráð fyrir stormi á vestfjarðamiðum, norðurmiðum...” og happdrættismiðum og hvað þau nú hétu nú öll þessi mið.
  Fyrir snáðanum var þetta aðeins óhemju leiðinleg tugga, sem jafnvel þulurinn skildi ekki sjálfur.  En fyrir pabba var þetta eins og höfuðlausn.  Spurning um líf og dauða.  Og sennilega var það svo.  Pabbalausir vinir í götunni báru því vitni.
   Að lokum kom romsa um Færeyjar og Færeyjadjúp en þá slökkti pabbi á tækinu og sórst við andskotann.  Það gerði hann á hverjum morgni.
  Þessu næst snaraði hann sér í gömlu, skotheldu lopapeysuna, sem stóð honum öll á beini og angaði af slori og olíu.  Það virtist sama hverju spáði.  Alltaf var farið á sjó.

  Snáðinn rétti honum bitaboxið, svo hann gleymdi því ekki, eins og svo oft áður.  Skeggbroddar stungu hann í vangann og pabbi var horfinn.

  Snáðinn stóð einn á miðju gólfi og sígarettureykurinn hékk í loftinu eins og þunn slæða, blaktandi í trekknum, sem boðaði svo oft storma og stórsjói.

  Eldhúsklukkan tifaði eins og berfætt barn inn í eilífðina og vindurinn grét hið óorðna úti fyrir.

  Það voru vetrarhljóð og morgunilmur.


Klifurkötturinn og álög landnámsmannsins.

Súgandafjörður Fjallið Spillir fjær.Í febrúar 59 mætti ég berskjaldaður til lífsins hildar. Afkomandi víkinga og varmenna með krókóttann ættlegg til Haraldar konungs Hárfagra. Ég óx í ódælan dreng eins og af bláleitu víkingablóði má vænta.  Bakkapúki kallaður sem barðist við ræflana í efribæ með trésverði, tók menn til fanga og smáði, féll í orrustu á tröppunum heima en reis upp frá dauðum með blæðandi haus. Ég var ósigrandi landkönnuður sem leitaði ókunnra landa af óstöðvandi útþrá og áfergju.

Tanngisinn og smámæltur prakkari á fimmta ári var ég með foreldrum mínum á Suðureyri við Súgandafjörð.  Þar hafði tilvist mín sprottið af einum kærleiksneista þegar móðir mín, undirleit og feimin sextán ára yngismær, féll fyrir löngum og kímnum slána. Það gerðist þegar hún færði honum pottflösku af kaffi í ullarsokk niður á bryggju. Pabbi var sjómaður. Hann átti happafleyið Kveldúlf og lagði aflann upp á Suðureyri. Lífið var látlaust þá. Við áttum lítið en enginn kvartaði. Þannig var lífið og engin viðmið um betra hlutskipti voru til að glepja fólk. Ekkert sjónvarp né alnet og enginn glamúr sem lokkaði.

Mamma var varla meira en barn sjálf. Hún knúsaði mig og baðaði í þvottabala og naut þess að klæða mig upp og greiða hárstrýið mitt upp í kjöl til að hafa mig fínann eins og Elvis. Ég var litla lifandi brúðan hennar sem hún elskaði meira en nokkuð annað. Hún söng eins og engill og dansaði með mig um gólf í litla steinhúsinu okkar sem var með þykkum kastalaveggjum og öruggt skjól. Það var þó ekki stærra en svo að síðar meir var gaflinn sleginn úr því og því breytt í bílskúr sem naumlega rúmaði einn smábíl.

Suðureyri.Suðureyri var staður mikilla töfra fyrir stuttfættan heimspeking og spekúlant. Þarna var Steini Steins þessi stóri og þögli maður. Hann átti hrútinn Móra, illúðlegan og stórhyrndann, sem hann leiddi um í bandi eins og hund. Hreppstjórinn spókaði sig um fyrir framan Kaupfélagið með voldugan hatt og silfurbúinn staf eins og hann ætti plássið, enda trúði ég því og varaði mig á að styggja hann ekki.  Þar var líka Halli klapp, sem stóð allan daginn og klappaði saman höndum og sló sér á lær á víxl. Sævi ók um þorpið með miklum drunum og frussi. Hann átti þó ekki bíl heldur hélt hann á gömlu bílstýri sem hann hljóp með sleitulaust frá morgni til kvölds. Hann bakkaði og spólaði upp brekkur, snéri og bremsaði með öllum þeim hljóðum sem því fylgdu.  Einu sinni ók hann út af og niður í fjöru. Hann sat þar fastur og var naumlega hægt að bjarga honum áður en hann flæddi uppi.  Það þurfti að kalla til olíubílinn á staðnum til að draga hann upp. Engu tauti var komið við hann fyrr. Hann varð síðar dyravörður í Háskólabíói hjá Berta bróður sínum en er nú dáinn.

klifurkettirJói Gunnubetu var þarna líka með herðakistil og undarlegt glott á vör. Hann sagði fátt og okkur stóð stuggur af þessum dökkleita manni sem starði sínum svörtu augum og hæddist að heiminum.  Hann var þó hinn mesti öðlingur og vakti athygli síðar sem Jóhann Grínari.  Hann fór með eftirhermur í útvarpi sem allar hljómuðu eins. Einnig bjó til árlegt handgert dagatal sem slegið var upp dagblöðum hér eins og um stórfrétt væri að ræða.  Svo var hann líka leikari í Bíódögum Friðriks Þórs ásamt fleiri afrekum á því sviði. Hann dó einn og afskiptur og var miklu yngri en ég hafði haldið hann vera. Blessuð sé minning hans.

Hrefna og Ranka voru systur sem bjuggu í hálfgerðum torfæ í miðju þorpi sem var svo feyskinn að búast mætti við að hann hryndi ef einhver reskti sig of nærri. Þær voru eins og klipptar út úr 18. öld alltaf í peysufötum með skotthúfur. Það var eins og tíminn hefði gleymt þeim. Þær höfðu gát á mér sem kornabarni og tuggðu saman soðna ýsu og myglaðan mör með tannlausum gómum og mötuðu mig með fingrunum. Barnamatur fortíðar. 

Svo var það Guðmundur gamli Pálma sem kom á hverjum morgni frá Staðardal með mjólk í brúsum á fúinni hestakerru, dreginni af lúnum og horuðum klár. Hann var með pottlok á höfði, prýddur þykku gráu yfirskeggi eins og rostungur. Hann jós mjólkinni í brúsa þeirra sem kaupa vildu og hélt svo aftur heim eins vofa liðinna alda.  Það var heldur ekki fjarri sanni. Allt við hann var forneskjulegt. Hann var meira að segja í svart-hvítu eins og á gamalli ljósmynd. Ekki vottur af lit á kerru, hesti né klæðum.  

Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er sagt frá konu sem lagði hvítvoðung sinn um stund við réttarvegg á meðan hún gekk til verka. Þegar hún ætlaði að vitja barnsins þá var það horfið og fannst ekki hvað sem leitað var. Yfirkomin af sorg dreymdi hana síðar álfkonu sem kom til hennar og sagði barnið vera hjá sér við gott atlæti.  Daginn eftir fannst barnið á sama stað við réttarvegginn og amaði ekkert að því. Þetta barn var systir Guðmundar Pálmasonar mjólkurpósts og ku hafa dáið í skriðufalli þegar hún varð gjafvaxta.  Álfum var að sjálfsögðu kennt um það. Nær fornsögunum varð ekki komist.

víkingurPabbi hennar mömmu, hann Alli fiskimann, var líka mikið furðuverk í mínum augum. Fyrirmyndarafi fyrir æfintýraþyrstan púka. Hann var alltaf kátur og glaður í minningunni.  Hann ló dillandi hlátri, hjak, hjak, hjak og var svo glysgjarn að það stirndi á hann. Medalíur og silkiklútar prýddu hann í öllum regnbogans litum og spilaði hann á harmonikku og munnhörpu þegar hann fékk sér neðan í því. Hann var sköllóttur en bar alltaf kaskeiti að skipstjórasið.  Einn veturinn fékk hann sér það sem hann kallaði “hárhúfu” sem hann dásamaði fyrir hlýindi og praktík. Húfa og hár; tveir fyrir einn.  Mamma harðbannaði honum að bera hana og blygðaðist sín fyrir hann því það var algerlega tilviljunum háð hvort þessi hárkolla snéri rétt eða ekki.

Ég átti annan afa; Dóra, sem var seinni maður ömmu. Hann var stór og mikill svo engir skór pössuðu á hann nema gúmmískóhlífar sem okkur strákunum fannst nógu stórir til að geta róið á út á fjörðinn. Hann var ljúfur og þögull kall sem sötraði kaffið sitt í eldhúsinu með löngum sogum við tif eldhússklukkunnar.  Hann réri stöðugt í gráðið,  hummaði ókennilegan lagstúf í sífellu og borðaði allan sinn mat með sama vasahnífnum nema að sjálfsögðu súpuna.  Hann var af fátæku vinnufólki og hafði liðið mikið harðræði í bernsku. Sonur vinnuhjúa í vistarböndum sem var barinn eins og hundur og svaf í fjárhúsi við harðan kost.  


Innan um alla þessa kynlegu kvisti voru svo vinir manns.  Sívert var einn af þeim. Freknóttur grallari með óútreiknanlegan huga undir rauðum lubbanum. Það var yfirleitt ekki vel liðið að við legðum lag okkar saman því það endaði oftast með ósköpum. Skaðræðisgripir vorum við kallaðir.  Við lékum okkur til fjöru og fjalls í endalausum rannsóknarleiðöngrum. Klifruðum og veltum okkur niður hjallana ofan við þorpið þar til okkur var bannað það og sagt að við myndum fá garnaflækju af því og deyja. Þarna fékk ég uppnefnið Nonni prakkari og þarf enn að búa við að vera kallaður því þegar ég á leið vestur um firði.

Okkur Sívert lék hugur að vita hvað bjó að baki fjallanna sem umluktu þennan smáa heim. Sumir sögðu að þar væru útlönd og það vildum við kanna.  Þegar við vorum að ræða þetta okkar á milli vorum við varaðir við að klifra í fjöllunum því nóg hafði fólk séð af pústrum og skeinum í okkar daglega brölti. Okkur var sagt að í fjöllunum byggju álfar sem ekki væru kátir með að brölt væri á húsþökum þeirra. Því fylgdu álög og ógæfa.  Efst á fjallinu var okkur sagt að væri gröf Hallvarðar Súganda landnámsmanns sem barist hafði við forföður minn Harald Hárfagra.  Í haug hans var víst falinn mikill fjársjóður. Margir höfðu freistað þess að finna hann en það  endaði víst ávallt með miklum skakkaföllum eða dauða fyrir viðkomandi.  Ef hróflað væri við haugnum myndi kirkjan í Staðardal líka sjást standa í ljósum logum. Það var þó aðeins undanfari mikið fleiri hörmunga að sögn manna.

Ekki sló þetta á áhuga okkar þótt ætlun fólks með þessum hrollvekjum væri önnur. Við bjuggum okkur því nesti og héldum út með firði í fjársjóðleit.  Uppgöngustaðurinn var fjallið Spillir, sem er eitt óhugnanlegasta og brattasta fjall þar um slóðir. Við vorum ósigrandi og ódauðlegir. Litum á kirkjubruna sem hreinan bónus við auðæfin sem við ætluðum að færa heim. Eldur var eitthvað töfrandi og heillandi í brallarakollum okkar. Álög óttuðumst við ekki.

kumlVið klifum snarbratta og grýtta urðina og vorum heitir á skrokkinn. Ævintýraeldurinn logaði snarkandi innra með okkur þegar við ræddum hvað við myndum gera við auðæfin.  Kaupa leikföng, bát, hest, bíl og kannski kjól á mömmu. Kannski svona kveikjara eins og Frissi Rokk átti. Frissi var eini töffarinn í bænum og vitnisburður erlendrar ómenningar. Hann var með Brilljantín í hárinu meðuppbrettar gallabuxur og í támjóum bítlaskóm.  Maður sem var í guðatölu hjá okkur krökkunum.  Hann gat meðal annars búið til myndaramma úr tómum Camelpökkum og dregið túkalla út úr útstæðum eyrum okkar.

Fjallið var svo bratt að það var engu líkara en það ætlaði að hvolfast yfir okkur. Mávarnir hnituðu fyrir ofan okkur í von um blóð og þeim varð brátt að ósk sinni. Skyndilega losnaði steinn sem ég hafði gripið í til að vega mig upp og áður en ég vissi var ég í frjálsu falli. Ég endastakkst niður urðina eins og tuskubrúða. Hvassar nibbur stungust í skrokkinn á mér og ég nam ekki staðar fyrr en við bjargbrún ofan við veginn út að Stað.  Ég hafði rotast og man ekkert fyrr en ég rankaði við mér aftan á bögglabera á hjóli móður minnar, alblóðugur og rifinn. Ég var reyrður með tusku við mömmu sem hágrét og ákallaði Guð um hjálp. Hún hjólaði eins og hún ætti lífið að leysa heim í þorp. Sívert hafði hlaupið inn eftir og sagt henni óðamála að ég væri dauður. Það mátti líka engu muna. Ég fékk heilahristing og sjö göt á hausinn sem enn prýða hnúðótt höfuð mitt.  Hallvarður hafði lagt mig í valinn þótt ég risi upp til nýrrar orrustu eins og vargi sæmdi. Ég hafi aðeins lotið í duft í einum bardaga en stríðið langt frá því tapað.

Mér finnst gott að rifja upp farinn veg og minna mig á hvaðan ég kem. Minnast með þakklæti þess góða og fyrirgefa hið slæma. Þá er líklegra að maður rati rétta leið inn í framtíðina og nái að halda sátt við Guð og menn. Lífið er oft háskaför og stundum ljúfur leikur.  Það hefur sinn tíma að elska og það hefur sinn tíma að stríða.

Í dag er ég hættur að stríða að mestu þótt einstaka sinnum þurfi maður að bera fyrir sig hendur.  Margir eru fallnir sem börðust mér við hlið og landvættir, álfar og upprisnir landnámsmenn hrella mig ekki meir. Vopnabræðurna hitti ég síðar.  Álögin eltu þó Sívert alla tíð og nú er hann farinn til Valhallar. Ég hitti hann fyrr en síðar eins og Hjálmar á Bólu kvað svo listilega um.

Mínir vinir fara fjöld,
feigðin þessa heimtar köld,
ég kem eftir, kannski í kvöld,
með klofinn hjálm og rifinn skjöld,
brynju slitna, sundrað sverð og syndagjöld.

.


Kynngimögnuð Smásaga í Litum og Panavision.

par“Æ, ég er alveg að gefast upp á þessu.” Sagði Guðríður og lagði frá sér nýstrandað farþegaskipið.

Mjölnir leit upp og kláraði kartöfluuppskeruna um leið og hann réri yfir Kyrrahafið á sefbát. :”Hvað er að angra þig elskan? Spurði hann og framleiddi sjónvarpsþátt um hlaupfiska.

 Æ, ég veit það ekki.” Svaraði Guðrún og  jarðaði sendimenn byggingaeftirlitsins í kotru. “Það er bara eitthvað svo tilbreytingarlaust hér.”

Mjölnir umturnaði fjármálaheiminum hugsi.  “Hefur það eitthvað með mig að gera?  Ég játa að ég gæti vafalaust verið margbrotnari í samskiptum mínum við yður, elskan.”  Hann hlammaði sér vonsvikinn niður og gerði upp þotuhreyfilinn sem hann hafði unnið í glímu eftir að  hann hafði lokið við að flytja Andesfjöllin.

 

kona“Nei, nei,  ekki þú elskan. Þetta er bara einhver efnaskiptasjúkdómur í mér eða breytingaskeið.” Sagði Guðrún skellihlæjandi og virkjaði Víðidalsá.  “Þetta dettur svona yfir mig stundum.  Fyrirgefðu.”

 Mjölnir sýtti tannleysið og lagði fram breytingatillögu um skipan öryggisráðsins, svona til að dreifa athyglinni frá brennandi trésmíðaverkstæðinu.  “Ekkert að fyrirgefa elskan.  Ég verð sjálfur svona um hver tunglkvartil.” 

öðruvísiÞau brostu og eyddu miðunum umhverfis landið með eitruðum þörungum, ánægð með hve olíuboranir þeirra á heimskautaísnum virtust takast vel. Það gat stundum borgað sig að leggja fram byltingakenndar kenningar í kjarneðlisfræði.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband