Bloggfærslur mánaðarins, júní 2010

Fleiri augnablik frá Ilulissat

regn hundar húsÉg kveð Illulissat annað kvöld og held með kvöldflugi til Reykjavíkur, sem lendir kl 3 um nótt að okkar tíma.  Ég mun sakna þessa staðar mikið og hlakkar til að fra hingað aftur ef tækifæri gefst.

Klukkan er að verða eitt að nóttu hér og enn er albjart og þögnin djúp útifyrir. Þessi kyrrð, ljós og hreina loft hefur fyllt mann miklu æðruleysi og þakklætið er mikið fyrir að hafa kynnst þessu litla leyndarmáli á norðurhjara.

Í fyrramálið fer ég aftur út á ísfjörðinn og sigli milli borgarísjakanna, sem eru svo mikilfenglegir og óutreiknanlegir.  Ég hendi hér inn nokkum augnablikum ur þessu ævintýri og segi svo frá þessu öllu í meira samhengi síðar.  Mér finnst það skylda mín að deila þessu með ykkur, þó ekki væri nema til að láta sig dreyma og taka hugann frá þrasinu heima.

 

Grænlandsfar

Ég verð á siglingu um ísfjörðinn á þessu skipi eins og í fyrradag.

P6160026

Kvöldið er kyrrt og hundarnir hafa fengið sinn sel. Hér er eins og tíminn standi kyrr.

P6160033

Hér mætast tvennir tímar og tveir menningarheimar. Barnasleðinn bíður vetrar ásamt kunnuglegri skíðasleða.

P6160041

Elstu húsin eru við höfnina. Þetta pakkhús er frá 1734 og minnir óneitanlega á húsin í neðstakaupstað á hinum íslenska Ísafirði, enda frá svipuðum tíma.

P6160105

Það er þröng í höfninni og mikill ys og þys. Menn beita um borð í litlu bátunum sínum og leggja og draga lúðufærin á víxl frá morgni og fram á nætur.

P6170025

Hong Kong kaffi. Hér er talsvert um asíska matarmenningu og nokkuð af asíufólki í veitingageianum. Víða má fá sér takeaway á asíska vísu eða setjast inn í litla resturanta og njóta þessa skemmtilega menningarbræðings. Thailendingarnir falla líka vel inn í menninguna og ekki ósvipaðir í útliiti og Grænlendingar við fyrstu sýn. únurinn er þó talsverður.

P6170026

Aðallinn og alþýðan. Hér má sjá hefðbundinn torfkofa, eins og fólk bjó í allt undir 1950. Í bakgrunni er gamla prestsetrið, sem er fæðingarstaður Knut Rassmussen heimskautafara. Í dag er þar athyglisvert byggðasafn, sem segir skilmerkilega frá sögu og staðháttum.

P6170033

Við Júlíus gamli Lysholm á leið út í Breiðubugt að kíkja á ísinn. Hann er lúðufiskari, sem tók sér hlé frá lifibrauðinu til að elta duttlungana í okkur.

P6170040

Í kaupfélaginu er að sjálfsögðu hægt að fá skotvopn af öllum stærðum og gerðum.  Hér skjóta menn fugl og sel til eigin nota. Hundarnir fá líka sinn skerf af því og þurfa talsvert. Þeir eru helmingi fleiri en íbúarnir, eða 9000.

P6180024

Jarðaför frá Zíonskirkjunni. Gömlum lúðufiskimanni er ekið til grafar í lúnum líkbíl.

P6180025

Félagar hans fylgja á eftir í fánum prýddum pallbíl. Allir í hvítum anorökkum, sem er einskonar hatíðarbúningur karla.

P6180028

"Hvad laver du her?" Forvitnir stákar í sólinni við hótelið. Mamma og pabbi eru inni að vinna.

P6180033

Karlarnir beita fyrir næstu lögn. Ekkert stress í gangi hér enda dagurinn langur, svo það er allt í lagi að taka smá spjall í farsímann og njóta veðurblíðunnar.

P6180034

Nægur tími til að hvíla lúin bein og ræða fiskeríið. Hann er ekki að líta á klukkuna þessi í miðjunni, heldur er hann að dusta af sér moskítóflugu, sem nóg er af þarna og vert að hafa í huga fyrir gesti. Hún er þó helst skæð í logni og blíðu.

P6180035

Þessir yngri una sér þó ekki hvíldar, enda er togari úti í hafnarkjaftinum, sem kaupir af þeim aflann jafn óðum, svo þeir fiska sem róa íórðsins fyllstu merkingu.

P6190002

Hér róa menn enn á kajak, þótt mest sé það fyrir túristana. Óhugnanlega mjóslegin og völt fley, en margir algerir snillingar á þessu. Nú er málaður strigi hafður í stað selskinna, en grindin er sú sama og um aldir.

P6190008

Unglingsástin og vináttan blómstar hér í Ilulissat, sem og annarstaðar á geimskipinu jörð. Þessi sátu við sjóin í kvöldgolunni og vildu endilega fá af sér mynd.

P6190018

Mörg húsanna eru ekki með rennandi vatni, svo brunnar eru um allan bæ til að ná í vatn. Flest húsin eru þó búin með vatnstönkum sem fyllt er á með reglulegu millibili. Það er snúið að búa á svo harðbýlum stað.

P6190027

Hundarnir gera þó engar frekari kröur, en síðustu árþúsund, en þeir hafa það þó vafalaust betra en oft áður.

P6190035

Hér rakst ég á gróðurhús, hjá stórhuga frumkvöðli, sem ræktar blóm úr flóru landsins ásamt ávöxtum og grænmeti. Þetta gleður hana Ásthildi mína Cesil vafalaust að sjá.

P6190051

Úr gönguför til Sermermiut við ísfjörðinn. Þar stóð byggðin fyrst, áður en nýlenduherrarnir settist að og lagðist raunar ekki af fyrr en um 1850.

P6190141

Ljúkum þessu svo með dæmigerðri bæjarmynd. Litskrúðug smáhúsin standa þétt og veita manni notalega tilfinningu. Þetta er út um glugga á veitingastaðnum Marmarut, sem er mjög metnaðarfullur staður með góðum mat og fræábærri þjónustu.  Ágætt að enda þar eftir að hafa gengið til Sermermiut, og fá sér hressingu.


Í landi ísfólksins

P6190048

Nú hef ég verið í viku í Ilulissat og er vægast sagt heillaður af þessum stað.  Hér búa 4.500 manns og þetta er þriðji stæsti bær á Grænlandi, en samt er þetta eins og þorp. Marglit smáhúsin prýða hér hæðir og hóla, hundar spangóla og vappa um og hæglátt fólkið sinnir sínum störfum við fiskveiðar og verslun.

P6160050Ég kom hér í þoku og slyddu frá Nuuk í gegnum Kangerlusuaq og vissi svei mér ekki hverju ég mátti eiga von á.  Nuuk var mér vonbrigði, svo ég var viðbúinn öllu.  Eftir stuttan göngutúr, sá ég að þessi staður er engu líkur. 

Hér sest sólin ekki til viðar á þessum árstíma. Nú klukkan eitt að nóttu er glaða sólskin, þótt sólin sé lágt. Fólk er enn á ferli svo varla sér mun á degi og nóttu.  Ég bý á Hótel Hvide Falk og fyrir utan blasir Ísfjörðurinn mikli til suðurs og Disco eyja sést handan Disco flóans girt risastórum borgarísjökum, sem losna út úr Ísfirðinum.

P6160020Ég gæti sagt ykkur svo margt um þennan heillandi stað, en hef takmarkaðan tíma, þar sem ég fer út á sjó í fyrramálið og það verður langur dagur.  Ég fór í langan göngutút í gær, suður fyrir þorpið, þar sem ég sá ísfjörðinn í allri sinni dýrð. Ég gekk svo austur með ströndininni inn til Sermermiut þar sem byggðin var í upphafi. Þetta er kyrrlát og falleg vík, en við enda hennar blasir ísveggurinn með öllum sínum þungu brestum og dulúð. Orð fá ekki lýst þessu.  Í Sermermiut hafa fundist mannvistarleifar frá steinöld og fram eftir öllu með tveimur hléum.  Hér hafa búið menn í 4.500 ár, ef einhver skyldi efast um hverra land þetta er.  Fyrst var það Saqqaq fólkið eða og næst Dorset fólkið og loks Thule fólkið, sem nú byggir staðinn.

var hundasl. 2Sermermiut er staður ísfólksins, eins og nafnið bendir til, en byggðin lagðist þar af um 1850. Illulisat byggðist upp í kringum 1730, þegar Danir slógu eign sinni á svæðið og komu á einokun með verslun við Inuitana. Áður höfðu Hollendingar verslað hér og haft birgðastöð. Fyrstu húsin standa enn við höfnina og svipar merkilega til húsanna í neðstakaupstað á öðrum Ísafirði, langt í burtu og þó nokkrum breiddargráðum sunnar. Fæðingarbæ mínum.

Hér hefur byggst upp góð ferðaþjónusta með öllum nútíma þægindum. Stórmarkaðir, góð veitingahús og allt, sem til þarf.  Samt gengur líf fólksins sinn vana gang. Hér lifa menn af lúðuveiðum og rækju, en nú er lúðuvertíð. Hér fara tugir lítilla hraðbáta út allan sólahringinn og leggja fyrir lúðu hér rétt útaf. Svo er brunað í land, landað og beitt um borð. Þeir láta sér lítt um túrista finnast hér, enda er sá bransi einskonar aukaafurð.  Þetta frábæra jafnvægi grunnatvinnulífs og ferðamennsku er hin fullkomna blanda.  Túristarnir eru ekki merkilegri í augum sjóaranna en mýið, sem bítur þá daginn út og inn.

P6190012Nú á sumrin er beint flug frá Reykjavík til Ilulissat og hvet ég alla, sem geta að leyfa sér þessa mögnuðu upplifun að dvelja hér um stund.  Verðlagið er ekki ósvipað og heima í mestu, sumt ódýrara en annað eitthvað dýrara, svo hér þarf ekki að gefa hönd og fót fyrir ævintýrið.  Ég hef komið nokkrum sinnum til Grænlands og veit nokk hvað ég syng.  Hér er engin eymd. Enginn epidemískur alkoholismi eins og margtuggin þjóðsagan segir. Raunar má segja að lausaganga alkohólista, sé margfalt meira áberandi heima.  Ég hef séð einn fullan mann á rölti hér, á leið heim af balli. Sæll og glaður og sönglandi fyrir munni sér. Enda má hann vera sæll, búandi á paradís á jörðu. Ekkert vesen ekkert garg og flöskubrot eins og í hinni margrómuðu Reykjavík by night, sem við ættum raunar að skammast okkar ofan í rassgat fyrir.  Illullissat með öllum sínum sjarma, stórbrotnu náttúru, sögu og vingjarnlegu viðmóti, ber höfuð og herðar yfir okkur í einlægni sagt.

P6190097Á morgun er þjóðhátíðardagur Grænlands, en ég verð því miður út á sjó mest af deginum og missi því vafalaust af miklu, en ég vona að ég nái í endann á honum. Hér er boðað til vínlausra veisluhalda og skemmtana.  Þetta er stolt fólk með djúpa þjóðerniskennd, enda mega þau það eftir 4.500 ár.  Á sunnudögum flagga allir grænlenska fánanum og fólk fer prúðbúið til kirkjunnar á ströndinni, sem er um 300 ára gömul. Konurnar eru í sínum perlusaumuðu búningum og karlarnir í hvítum anorökkum og selskinnstígvélum.  Ungir sem aldnir gengu prúðbúnir út í daginn frá messu, með bros á vör, enda skein sólin í allan dag og gerir enn á heiðum himni.

P6200002Ég ætla að láta mér nægja í bili að raða hér inn nokkrum myndum með skýringum.  Ég skrifa svo ítarlegri ferðasögu, þegar ég kem heim.

ég og hvolpar

Þessa hvolpa hitti ég í slyddu og rokií útjaðri bæjarins. Sleðahundarnir hér eru öðruvísi en þeir á austur Grænlandi. Einhverskonar Huskie kyn, sem er miklu kubbaðra og kraftmeira en þessi mannígu illyrmmi í Kulusuk og Tasilaq.  Hér ganga þeir að mestu lausir nea á nóttinni og hafa náðuga daga í sumarfríinu.

hundastelpa

Þessi stelpa var mætt til að sinna þeim og gefa þeim að borða. 

hundar 2 

Hundarnir voru nánast við hvert hús veiðimannanna. Þeirra hlutverk er minna og minna að sinna veiðum, þar sem hannthlýnun hefur orðið til þess að Dicoflóann leggur ekki á vetrum.  Þess í stað eru afla þeir viðurværis með að draga þéttholda ferðamenn um hæðirnar í kring.

hús ofanjarðarleiðsla

Bærinn er byggður í hæðóttu landslagi, sem nánast er bara ein samfelld klöpp, svo varla verður stungið niður skóflu. Einkennandi eru raflínur, sem liggja ofanjarðar eins og rótarkefi um allan bæinn. Ein slík hér fremst á myndinni.

Grænland thai

Fjölmenningin er hér líka í skemmtilegum bræðing við hefðirnar.  Á hótelinu okkar "Hvide Falk" eru Thailenskir kokkar en eldhúsið byggt á franskri hefð að sögn. Í matsalnum ægir saman austurlenskum mublum og skrauti, ísbjarnarskinnum, kajökum og hundasleðum.  Í gær fékk ég þó ísbjarnar carpacchio úr reyktum ísbirni, sem á sér einhverjar aðrar rætur en það sem nefnt er. Hann smakkaðist eins og þurrkað hrefnukjöt, ef það er hægt að líkja honum við eitthvað. 

kajak og hús

Hér er Kajakaleigan, þar sem menn geta fengið námskeið í kajakróðri hjá föngulegri Grænlenskri snót. Ísinn aldrei langt undan og hér buldi slyddan á mér, svo myndavélin var orðin svolítið skýjuð.

kirkjan

Ævagömul Zíonskirkjan, sem séra Severin lét byggja. Hún nægir þessum bæ enn.

kort ilulissat

Kort af bænum, sem sýnir ísfjörðinn neðst til vinstri. Ljósi flekkurinn innaf botninum er freðmýri við Sermimiut, þar sem 4.500 ára mannvistarleyfar hafa fundist.

P6160011

Minnisvarði um þjóðhetjuna og landkönnuðinn Knut Rassmussen, sem gerði hvað mest til að skilgreina þessa þjóð og studdi sjálfstæði hennar. Hann er fæddur í prestsetrinu í Ilulissat, sem enn stendur og átti grænlenska ömmu.  Bækur hans og vinar hans Peter Frauchen voru vinsælt lesefni á Íslandi í mínu ungdæmi og þótti mörgum þær næstum ólíkindalegar í lýsingum á landi og þjóð. Ég held hinsvegar að hvert orð sé sannleikanum samkvæmt, svo langt sem það nær.

P6160016

Hundalíf er ekkert hundalíf hér á skammlífu sumri.

P6190028

Hér eru menn klárir í allar árstíðir.

P6160101

Gömlu eikarbátarnir þjóna bæði túristum og fiskimönnum. Þessir hafa sitt hvort hlutverkið.

P6180005

Sá gamli fær sér smók á leið út í ísfjörð. Grænland er mekka reykingamannsins. Hér er reykt á flestum börum, enda virðast allir reykja.  Meira að segja er ég í hótelherbergi, þar sem reykingar eru leyfðar.  Veit ekki hvað rétthugsunarhænsn á fróni segja um það.

P6200154

Úr einhverju verða samt menn að deyja. Hér í gamla kirkjugarðinum í Sermermiut eru ævagamlar grafir, sem enn er haldið við. Lyngið vex þar villt og menn geta fengið sér ber hér á haustin og notið ávaxta áanna til langrar framtíðar.


Stefnt á Ísfjallið.

   Ég er hér í Nuuk á Grænlandi. Stoppa hér í eina nótt áður en haldið er til Ilulissat með stuttri viðkomu í Kangerlussuaq. 

IMG_9278Ég hef aldrei verið hérna á vesturströnd Grænlands áður og hér er um margt öðruvísi en á austurströndinni, sem ég þekki ágætlega.  Nuuk er höfuðstaður landsins og verslun og þjónusta meira í líkingu við það sem við eigum að venjast heima. Ferskt grænmeti og ávextir á boðstólum og engin vara runnin út á tíma eins og reglan virðist vera í Kulusuk og Tasilaq. 

IMG_9273Þetta er ekki eins sjarmerandi hér og fyrir austan.  Vestræn menning hefur rutt sér til rúms og stórar og ófrýnilegar íbúðablokkir tróna hér um allt og bærinn minnir einna helst á risastórar vinnubúðir. Fólkið er líka ólíkt og flestir eru frekar ljósir á hörundu og blandaðir og unga kynslóðin er hávaxin og og teinrétt að sjá, ólíkt samanreknu vaxtarlagi frumbyggjanna. Fallegt fólk og yfirvegað eins og alltaf, hvernig sem þessari blöndun er annars háttað.

gr1Gamli bærinn niður við sjó er sá hluti, sem hefur mest aðdráttarafl fyrir minn smekk. Liltlu marglitu húsin og látleysið höfðar meira til mín en þessi endalausu „Æsufell“ sem virðist lenska að byggja hér. Kannski er það plássleysi, sem ræður því, en þó er bærinn ansi dreifður um stórt svæði, sem rúma miklu meira.  Þeir ættu allavega að hugleiða þessa byggingastefnu, ef þeir hafa hugsað til aukinar ferðamennsku, eins og greinilegt er. Hér er verið að byggja „Kringlur“ og háhýsi, rétt eins og enn sé 2007 og það ansi kaldranalegar byggingar og ómanneskjulegar, því miður.

gr6Ég bý á fínu hóteli, sem kennt er við Séra Hans Egede, sem var ein fyrstur vestrænna manna til að setjast hér að. Það kemur vel á vondann að ég skuli lenda á hóteli með hans nafni, jafn efins og ég er með trúarbrögðin.

  Það er greinilega lagt mikið upp úr minningu hans hér og gamla kirkjan er honum til heiðurs, auk þess sem stytta af honum trónir þar á hæð skammt frá.   Hann vann sér það þó til mektar að læra fyrstur tungu grænlendinga og færa í letur, sem sennilega hefur hjálpað mikið til við að viðhalda henni. Hér talar fólk þó Dönsku og Grænlensku jöfnum höndum og enskukunnáttan er nokkuð almenn miðað við málleysið á austurströndinni.

gr2Nú er heimsmeistarakeppni í fótbolta, þótt mér gæti ekki verið meira sama.  Þess sér þó greinilega merki hér og menn sitja inni á sportbörum og víðar og glápa með óhljóðum rétt eins og heima. Þeir yngri og sprækari taka þó innblástur af þessu og spila fótbolta í miðnætursólinni á leirkenndum fótboltavelli mitt í öllu grjótklungrinu, sem einkennir svo landslagið hér.

  Að öðru leyti er margt hér, sem mér finnst einkennandi. Kaupfélagið, sem er beint fyrir utan gluggann minn,  er staður mannafunda og markaða og þar prútta menn og selja og spjalla saman.  Hér er þó ekki verið að pranga með Tupilakka eða selskinn, heldur alskyns vestrænt glingur, notuð verkfæri og hóflega notaðar klámspólur á VHS.  Kunnugleg hljóð heyrði ég í dag, sem minntu á Tasilaq, en það var hundgáin. Það eru þó ekki sleðahundar sem góla hér og gelta heldur stuttfættir smáhundar og önnur tildurslegri afbrigði, eins og fólk dragnast með heima. Enga sleðahunda að sjá hér.

gr8Á morgun verður svo flogið á Ilulissat um Kangerlssuaq, eins og ég sagði, en sá bær er sá þriðji stærsti í landinu.  Nafn hans þýðir Ísfjallið og er það fæðingarstaður hins þekkta frumherja og landkönnuðar Knut Rassmussen.  Hann er 200km fyrir norðan heimskautsbaug, ekki langt frá Disco eyju og er þekktastur af ísfirðinum mikla og tignarlegum skriðjökli, sem brýst til sjávar í fjarðarbotninum. Staður sem margoft er sýnt frá í áróðursmyndum um hnatthlýnun. Þar verð ég í viku – 10 daga að undirbúa og mynda ísjaka fyrir auglýsiingaverkefni. Hégóminn einn ræður þessu flandri mínu sem einatt áður.  Ég segi ykkur frekar frá því þegar á hólminn er komið. 

 Ferðin er rétt að byrja.

Hér eru svo fleiri myndir:

gr9

 1. Ekki er sleðahundum fyrir að fara í Nuuk.

kau

 2. Mannlífið við kaupfélagið samt við sig.

vör

3.Vöruúrvalið kannski ekki það sem búast má við.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband