Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Berrassaður Strákur á Fjalli.

barn í alheimiSjö ára strákar vakna yfirleitt á undan sólinni norður undir heimskautsbaug.  Hún er sein á fætur í þröngum firði og maður var kominn út á forugt sundstrætið áður en hún gyllti eggjar Eyrarfjallsins.   Lágstemmdur kliður fugla og fjörubúa fyllti loftið og örlítið kul lagði inn fjörðinn þegar kalda loftið byrjaði hitna, leita upp og draga kulið inn úr djúpinu.  Það hét innlögn. 

Á svona hæglátum júnímorgni gaf ég mér góðan tíma til að vakna; sveigði fram ristarnar og glennti í sundur tærnar.  (Nokkuð, sem ég get ekki í dag án þess að fá heiftarlegan sinadrátt.) Ég teygði úlnliðina til lofts og rumdi sætlega.  Líktist meira kúinu í æðarfuglinum en í alvöru ljóni eins og nú.  Svo lá ég eilítið lengur og hlustaði á vélarhljóð bátanna sem sigldu til fiskjar.  Ég þekkti þá alla af hljóðunum.  Þarna fór Ásdísin og söng eins og bliki; Kveldúlfur hans pabba tónaði eins og munkur; Guðnýin svolítið stærri og dimmraddaðri; heldur ókvenleg.

Ég var farinn að fella tennur.  Stórar og vígalegar framtennur boðuðu komu sína þar sem litlu tönnsurnar höfðu áður setið.  Undir tungu kenndi maður þeirra eins og lítilla sagarblaða.  Barnatennurnar voru undir kodda.  Mér hafði verið ráðlagt að leggja þær þar og óska mér einhvers.  Þá óskaði maður oftast einhvers fyrir okkur öll, systkini mín, pabba og mömmu.   Að pabbi þyrfti ekki alltaf að vera á sjó.  Að við eignuðumst bíl; gætum farið í ferðalag saman.  Það rættist jú einhverjum árum seinna en ekki beint í þeirri röð. 

fiðrildastrákurÉg hafði ekki minnstu blygðun yfir tannleysinu og brosti eftir sem áður eins og sólargeisli; hló eins vellandi spói.  Þá kom hláturinn innanað svo ekkert hélt aftur af honum. Hann var bak við augun, undir þindinni, í handakrikunum, hálsakotinu og spékoppunum.  Þá hló maður allur þegar maður hló. Það eina, sem var meinlegt við þetta var að segja ess.  Það bögglaðist út með flauti og blístrum og einhvervegin þvældist þornið alltaf með.  Þegar ég leit út eftir götunni, sá ég að Össi og Sævar voru komnir út;  Öþþi og Þævað.  Ekki nógu gott.  Ég taldi betra að finna mér eitthvað annað til dundurs en að blístra nöfnin þeirra daginn út og inn.

Það hitnaði fljótt á milli fjallanna þegar innlögnin lét sig og sólin gægðist yfir brúnir Ernis.  Eimurinn steig upp af malargötunum og fiskilykt fyllti loftið.  Slíkt lofaði góðum degi. Allt kallaði á útilegu í slíku veðri.  Hefja sig til flugs og kúra ekki á sama steini.  Frjálsir barnsandar kröfðust þess.  Mamma smurði fyrir mig nesti.  Brauð með osti og eplasneið, sem hún setti í brúnan bréfpoka.  Skærgulur Assis brúsi með rauðu loki, sem nota mátti sem mál.  Assis var appelsínusafi frá Ísrael.  Í þá daga hét djúsinn Assis.  Ekki gott að bera það fram og ég þurfti þess ekki heldur.  Mamma las hugsanir og útbjó alltaf það sem mig langaði mest í.  Ég ætlaði í skógarferð inn í Tunguskóg á litla hjólinu mínu.  Tunguskógur var inni í fjarðarbotni. Hann stóð varla undir nafni á heimsvísu; gisið kjarrlendi og lyngbrekkur með einstaka útlensku grenitré og birkihríslu á stangli.

Mamma bleytti höndina undir vatni og reyndi að klappa niður úfinn kollinn á mér.  Ég var svolítið rafmagnaður á morgnanna,  með óstrýláta brúska úr tveimur hvirflum á hnakkanum.  Dralonpeysan mín magnaði þetta fram.  Þegar ég fór í hana þá gnast hún og gneistaði af stöðurafmagni.  Hún var fallega mynstruð og litfögur úr nýmóðins gerviefni, sem var svo rafmagnað að pappírsarkir loddu við mann; kisa varð eins og flöskubursti ef ég mundaðist við að klappa henni og eldglæringar hrukku af öllum snerlum, sem ég snerti.  Svo jafnaði þetta sig.  Ég fékk koss á ennið hjá mömmu, svo hjólaði ég af stað með nestið á bögglaberanum.

strákaskinnInni í skógi ríkti kappræða skógarþrastanna.  Gróðurilmurinn fyllti loftið, flugurnar suðuðu og lognið var algert.  Ég var heitur og þvalur á skrokkinn eftir hjólreiðatúrinn.  Loftið gældi hlýtt við vangana.  Ég lagði hjólið í kjarrið, batt peysuna mína um mittið og gekk að Tungudalsá, sem niðaði í fjarska.  Peysan dró náttúrlega til sín allt lauslegt úr umhverfinu og breyttist í hálfgert strápils á augabragði.  Hárið stóð aftur á endum.  Ég klofaði yfir gaddavírsgirðingar og kúldraðist í þurru grasinu.  Áin var kristaltær svo sjá mátti hvern stein og slýutaum á botninum.  Ég kraup niður og fékk mér svalandi sopa,  bleytti hausinn til að hemja hárið; gekk svo um bakkann og trampaði niður fæti til að fæla bleikjurnar fram.  Allt iðaði af lífi.  Ég var bergnuminn yfir þessari stórkostlegu skrautsýningu, sem átti sér svo fullkominn samhljóm í gleðisöng hjartans.  Allt fyrir mig.

tunguskógurÉg hafði í fyrstu hugsað mér að finna mér fallega laut til að borða nestið mitt í, en var of uppnuminn til að setjast niður.  Handan árinnar reis Hnífafjall.  Það var stórt og stöllótt fjall í augum stráks sem hafði loðna rassa, og þaðan af verra, í augnhæð þegar hann skrapp í sund.  Hvað skildi vera á toppnum?  Skyldi maður sjá til útlanda?  Ég fór úr skóm og sokkum og bretti upp skálmarnar.  Vatnið var kalt.  Nýfrelsaður snjór ofan af heiðum sem gusaðist upp mjónulega leggina. Steinarnir í árbotninum voru sleipir og slímugir en volgir viðkomu.  Á hinum bakkanum límdust strá og mosi við tásurnar, svo ég sleppti því að fara í sokkana aftur.  Hvíta og svarta strigaskóna hafði mamma nýverið gefið mér, svo ég tiplaði úr blautum mosanum á bakkanum áður en ég fór í þá aftur.  Ekki vildi ég særa hana með því að drulla þá út.

Hlíðin blasti við eins og hún vildi hvolfast yfir mig. Ég hélt fullhuga og glaður á brattann. Tjaldurinn tísti, spóinn vall graut og lóan og hrossagaukurinn sungu samsöng.  Flugur suðuðu, og mosinn fjaðraði eins og þykkt teppi undir fæti.  Ég söng með mér lag, sem ég hafði lært í skólasöng.  Það átti bara svo vel við þarna og kom áreynslulaust eins og andadrátturinn.

Vorvindar glaðir,
glettnir og hraðir,
geysast um lundinn rétt eins og börn.
Lækirnir skoppa,
hjala og hoppa,
hvíld er þeim nóg í sæ eða tjörn.
Hjartað mitt litla, hlustaðu á;
hóar nú smalinn brúninni frá.
Fossbúinn kveður,
kætir og gleður,
frjálst er í fjallasal.

sólbaðÉg þreyttist þó smátt og smátt á göngunni.  Í hvert sinn sem ég taldi mig vera að ná toppnum, þá tók nýr hjalli við.  Rétt eins og í lífinu sjálfu. Hvassgrýtt urð tók við af mosanum og gróðurinn varð gisnari.  Ég var svolítið fatlaður eftir slys í bernsku, með snúinn og mislangan fót,   fatt og hlykkjótt bak.  Þegar sársaukinn í lærum og mjóbaki varð slæmur þá stoppaði ég og kastaði mæðinni; leyfði honum að læðast upp hrygginn og í hnakkagrópina uns hann leið eins og reykur upp úr hvirflinum.  Það var þægileg tilfinning.  Ég einsetti mér að líta ekki til baka fyrr en ég næði tindinum og hafði augun varla af brúninni.  Mér fannst ég léttari og sælli, eftir því sem ofar dró.  Þetta var mín raun; minn sigur.

Loks var tindinum náð.  Svalur andvari kældi svitann við hársvörðinn.  Líkaminn var eins og miðstöðvarketill; heitur og rakur.  Roði í kinnum og hvörmum kitlaði eins og milljón litlar nálar og hjartað dansaði taktfast í brjóstinu.  Móðurinn svall í hverri æð. Ég fann fyrir mér öllum frá hvirfli niður í tær og fannst ég geta flogið; sigrað allt.  Þarna blasti fjörðurinn minn við.  Eyrarfjall og Ernir stóðu á haus í spegilsléttum sjónum og breiddu faðm sinn mót bláleitri Snæfjallaströnd.  Fegurðin var ólýsanleg.  Ég sá yfir allan heiminn og handan hans.  Heiðblár himinninn skartaði laufléttum skýjaslæðum;  léttar pensilstrokur, sem dregnar voru frá norðurskautinu og yfir höfuð mér.  Allt fyrir mig. 

Ég var alsæll og lagðist á bakið.  Hitinn streymdi frá brjóstinu og ég lygndi aftur augunum með bros á vör. Það var eins og rafmagnaður hjúpur umlykti mig.  Mér fannst sem ég sytraði út í lyngbreiðuna eins og vökvi þar til ég samlagaðist sverðinum.  Eins og tíbrá leið verund mín saman við loftið og ég fann ekki lengur fyrir líkamanum;  varð að agnarsmáum ljóspunkti milli augnanna og leystist svo algerlega upp; hætti að vera til um leið og ég varð að öllu sem var,  eins og súldardropi sem samlagast hafinu; missir form og lögun en verður hafið sjálft á sömu stundu.  Allt en samt ekki neitt.

jörðin okkarÞetta virtist vara í eilífð en samt eitt augnablik. Vitundin smeygði sér inn á eldingarhraða.  Ég hrökk upp og var brugðið í fyrstu.  Jú ég var þarna enn. Hendurnar, puttarnir, fæturnir.  Var ég lengi í burtu? Þetta var eins og draumur og ég fann mikla sælu blossa upp innan í mér.  Ég hafði uppgötvað einhvern leyndardóm, sem engin leið er að endursegja; vissi allt sem þurfti að vita.  Ég reis á fætur og fór úr bolnum.  Það var svo heitt.  Svo flugu buxurnar og skórnir og loks nærurnar. Þarna stóð ég kviknakinn og baðaði út örmunum; lét goluna leika um mig allan, bakið, magann, hálsinn, rassaling og tippaling.  Svo hljóp ég í hringi og steypti stömpum eins og kálfur að vori. “Júhúúúú!”

Ég brosti mínu tanngisna brosi, svo mig verkjaði í spékoppana.  Brosti með öllu sem ég var.  Og ég var allt.  Allt var ég.  Ef Kaífas æðstiprestur hefði staðið þarna í öllum sínum skrúðklæðum, hefði hann bliknað í samanburði við meistaraverkið mig og ef hann hefði spurt með vanþóknun hvort ég væri sonur Guðs, þá hefði ég hiklaust svarað já og horft í augu hans með höfugt bros þess sem höndlað hefur viskuna. 

sólarlagsstrákurÉg breiddi undir mig peysuna og settist við að borða nestið mitt.  Móðurást í hverjum bita.  Það kímdi í mér. Ef að mamma sæi mig núna.   Ég lagðist á magann og leyfði sólinni að kyssa mig á bakið og rassinn.  Tíminn hafði brugðið sér frá eitthvert sem hans var frekar þörf.  Hér hafði hann ekkert erindi.  Flugurnar suðuðu og ilmurinn af blóðbergi, lyngi, blágresi og rjúpnalaufi fyllti vit mín. Puntstráin kitluðu nebbann. 

Hér var eilífðin.  Hér var ég, berrassaður strákur á fjalli, sextíuogsex gráðum norður og tuttuguogtveim vestur, við fegursta fjörð í heimi á vogskorinni eyju langt í norðurhafi.  Eyju með glitrandi jöklum, djúpgrænum mosabreiðum og svörtum söndum.  Eyju á tærbláum hnetti með snjóhvítum skýhvirflum.  Blárri stjörnu sem sindraði á kvöldhimni hinum meginn í himingeimnum og speglaðist í augum dreymandi strákpjakks, sem kannski var líka berrassaður og sæll eins og ég.


Dagar Mínir í Undralandi,

ísóÞað er skrýtið, þegar maður fer að hugsa til bernskudaganna, hvað rifjast upp svona óforvarandis.  Maður seilist niður brunn minninganna eftir einhverju tilteknu og með botnfallinu þyrlast upp ýmis atvik, sem maður taldi sig hafa gleymt. Þetta eru stutt brot, ímyndir, ilmur, orð.  Ég man óljós brot frumbernskunnar. Litlir fingur að kroppa í bastvögguna, köfnunartilfinning við sængina yfir andlitinu, langir skuggar og raddir í kring. Ég man dúfurnar á bitanum fyrir framan kvistgluggann á bakaríinu, þar sem við bjuggum, kúið og kurrið og vinskap minn við þær. Ilmur af nýbökuðu brauði, sem fyllti loftið.

Ég var frekar búttaður og rólegur sem barn og nægjusamur með afbrigðum. Faðir minn var oftast á sjó og móðir mín vann úti.  Það var oft hægt að skilja mig eftir svo tímunum skipti með rúsínur á undirskál og ég undi mér við þær í rólegheitunum á milli þess sem ég talaði við dúfurnar.  Já, ég talaði dúfumál.  Það var fyrsta málið, sem ég lærði, segir móðir mín. Ég stóð á stól við gluggann og dúfurnar komu til að halda mér félagsskap. Kúúú, kúúú, krúúurú.

dúfurÞegar ég fékk að vera úti, þá var ég bundinn við snúrustaur og hafði um mig leðurbeisli með bláum og rauðum glerperlum.  Við hvern hring, sem ég gekk um þennan takmarkaða heim, þá minnkaði umfang hans.  Það nægði þó litlum stubb að kanna skrítna steina og skeljabrot, slíta upp fífla, moka holur og fylgjast með flugum í önnum dagsins, sem spannaði allt þeirra æviskeið. Heimurinn þeirra var siginn fiskur á staur og strá á stangli.

Það var því ekki að undra þótt ég fengi einskonar víðáttubrjálæði, þegar mér var sleppt lausum. Ég var landkönnuður nýkominn á framandi slóð.  Það var rannsóknarefni að stappa í pollum á forugum götunum. Götum sem önguðu af slorvatni, sem rann af fiskflutningabílunum á leið af bryggjunni og upp í frystihús með dána fiska, sem voru alltaf svo furðu lostnir í framan. Stundum fann maður bíla með svo glitrandi fína hjólkoppa að maður tók andköf.  Það vakti líka kátínu að sjá heiminn í spéspegli þeirra.

Þetta var tímalaus heimur. Fjöllin stóðu á haus í spegilsléttum firðinum; mávarnir hnituðu gargandi yfir og allar manneskjur sýndu fölskvalausa blíðu og klöppuðu manni á kollinn.  “Hver á þig vinur?”

strákur á polaSvo breyttist allt einn daginn.  Ég stóð og fylgdist með glaðlegum mönnum slægja þorska, sem voru á stærð við mig og gogga þeim til og frá í stíum inni í fiskverkunarhúsinu. Stóra rennihurðin var opin út á götu og fyrir mér varð slorugur spotti með hnút á endanum. Hann hékk þarna niður úr loftinu og bauð upp á það eitt að í hann yrði togað. Ég gerði það líka.  Miklir skruðningar fylgdu. Mennirnir litu upp frá vinnu sinni og um stund var sem allur heimurinn stæði kyrr.  Risastór stálrennihurðin kom öskrandi niður af himnum, svo hratt að lítill hugur nam það ekki. Hún skall á lærið á mér og kubbaði í sundur fótinn. Eitt skref til eða frá í aðdraganda þessa, skildi milli feigs og ófeigs.

strákur í gifsi.Ég man óljóst eins og í draumi handaganginn og suðið fyrir eyrunum, spurningar, klapp á vanga, fiskilykt.  Svo var ég borinn inn í bíl, sem var einn töffasti bíllinn í bænum, Simcan hans Bóa, hvít með rauðum toppi og glitrandi krómlistum. Rauð leðursæti, glitrandi handföng og snerlar.  Ég sagði ekki orð. Æmti ekki einu sinni.  Fann ekki til. Það var ekki fyrr en inni á spítala, þar sem buxurnar mínar voru klipptar í sundur og ég settur inn í ógnvekjandi rjómagula vél, sem kurraði og burraði, að ég kom til sjálfs míns. Fyrst þessi óforskammaða eyðileggingarnáttúra að skemma buxurnar mínar og svo mamma.  Hún kom grátandi og skekin í dyrnar á röntgenherberginu og þá komu tárin mín líka.

Ég var í tvo mánuði á spítalanum. Mest af tímanum með fótinn í strekk og beint upp í loftið eins og í skrípamyndunum. Ég greri vitlaust saman og Úlfur Gunnarsson læknir, sonur Gunnars Gunnarsonar skálds, skar mig upp og setti nagla og plötur í fótinn til að laga hann. Ég man eftir svæfingunni. Málmgrind með grisju, risastórt ljós, lykt af klórformi, sem minnti málm eða blóð eða bragð af brenni. Skurðurinn var langur og ljótur með mörgum litlum þverröndum og við kölluðum hann rennilásinn í daglegu tali. 

sjúkrahúsið.Ég get ekki kvartað yfir spítalavistinni því ég var allra yndi. Stína gamla, sem spjallaði við mig alla daga og leiddi mig svo, þegar ég lærði að ganga upp a nýtt. Gamla fólkið, sem fékk útrás fyrir ást sína, sem var orðin staðin eftir einveru margra ára. Það er nefnilega þannig að ef ástin fær ekki að flæða í gegn, þá staðnar hún og breytist í söknuð, sorg og biturð. Þess vegna þarf maður alltaf að leyfa henni að renna til annarra og endurnýja sig.  Hún er lífsvatnið, sem þarf sína hringrás til að haldast ferskt. Ég man eftir messu á ganginum með ósamhæfðum söng; heimsóknum mömmu með malt í flösku og brottfarardeginum. Ég var ekkert á því að fara þó svo að mér væri færð ný ullarúlpa með stórum tölum. Ég sagði mömmu að koma seinna. Ég kæmi kannski bráðum heim.

Ég var mjög rýr eftir leguna og þurfti að læra að ganga upp á nýtt. Ég studdist við veggi, ofna og borð og tinaði eins og gamalmenni.

gamall maðurEinn daginn var bankað á eldhúsdyrnar og þar var kominn hann Konni gamli í Konnavita. Konnaviti var lítil krambúð eða skúr, þar sem pabbi og kallarnir hittust í brælum og spjölluðu, reyktu, sjússuðu sig og keyptu nauðsynjar eins og tóbak og vettlinga.  Þarna voru glerkrukkur með marglitum brjóstsykri, bismark, haltu kjafti, kónga og pralín. Ég starði á þetta draumstolnum augum og mín hljóða bæn var alltaf heyrð af  Konna, sem  seildist með silfurtöng ofan í þessar krukkur og gaf mér nokkra mola í kramarhúsi.  Ég var einn af mönnunum og spáði og spekúleraði í lífinu með brjóstsykursgúl á kinn.

Nú var Konni enn kominn til að veita vini sínum af gæsku sinni . Hann hafði sagað neðan af gamla göngustafnum sínum og færði mér hann, svo ég gæti sleppt veggjum og gengið um eins og maður með fulla sjálfsvirðingu. Ég var svona eins og lítið gamalmenni með staf, sem ég staulaðist með, þar til ég hafði náð styrk á ný.

Konni gamli brann inni skömmu síðar. Hann var einbúi og hafði verið að drekka.  Ég hafði farið til hans með pabba og séð hann liggja veikan í rúminu með haug af bókum í kring og glóandi rafmagnsofn.  Þessi ofn varð honum víst að aldurtila.

Þetta voru breytingatímar.  Fallvaltleiki lífsins síaðist smátt og smátt inn og hin örugga, góðlega og tímalausa veröld hvarf sjónum í tímans rás.

President KennedyÞetta haust breyttist heimurinn líka. Fólkið, sem hafði tekið á ný gleði sína eftir hörmungar stríðáranna og notið veraldlegs vaxtar í kjölfar friðarins, var líka minnt á fallvaltleikann.  Einn daginn, þegar ég var um það bil að sleppa stafnum, kom vinur pabba í eldhúsgættina og var í framan eins og sært barn. Hann sagði hræðilegar fréttir: “Þeir voru að drepa hann Kennedy.”

Hver þessi Kennedy var vissi ég ekki en það var augljóst af öllu að hér var maður sem stóð fólki nær.  Það ríkti andrúmsloft vantrúar, vonbrigða og sorgar og augljóst að heimurinn yrði ekki samur á ný.  Ill og óútreiknanleg öfl voru á kreiki og hér eftir skyldi engin ganga út frá friði sem gefnum hlut.  Sú hefur líka orðið raunin á. Dagar mínir í undralandi, heyrðu sögunni til.


Klifurkötturinn og álög landnámsmannsins.

Súgandafjörður Fjallið Spillir fjær.Í febrúar 59 mætti ég berskjaldaður til lífsins hildar. Afkomandi víkinga og varmenna með krókóttann ættlegg til Haraldar konungs Hárfagra. Ég óx í ódælan dreng eins og af bláleitu víkingablóði má vænta.  Bakkapúki kallaður sem barðist við ræflana í efribæ með trésverði, tók menn til fanga og smáði, féll í orrustu á tröppunum heima en reis upp frá dauðum með blæðandi haus. Ég var ósigrandi landkönnuður sem leitaði ókunnra landa af óstöðvandi útþrá og áfergju.

Tanngisinn og smámæltur prakkari á fimmta ári var ég með foreldrum mínum á Suðureyri við Súgandafjörð.  Þar hafði tilvist mín sprottið af einum kærleiksneista þegar móðir mín, undirleit og feimin sextán ára yngismær, féll fyrir löngum og kímnum slána. Það gerðist þegar hún færði honum pottflösku af kaffi í ullarsokk niður á bryggju. Pabbi var sjómaður. Hann átti happafleyið Kveldúlf og lagði aflann upp á Suðureyri. Lífið var látlaust þá. Við áttum lítið en enginn kvartaði. Þannig var lífið og engin viðmið um betra hlutskipti voru til að glepja fólk. Ekkert sjónvarp né alnet og enginn glamúr sem lokkaði.

Mamma var varla meira en barn sjálf. Hún knúsaði mig og baðaði í þvottabala og naut þess að klæða mig upp og greiða hárstrýið mitt upp í kjöl til að hafa mig fínann eins og Elvis. Ég var litla lifandi brúðan hennar sem hún elskaði meira en nokkuð annað. Hún söng eins og engill og dansaði með mig um gólf í litla steinhúsinu okkar sem var með þykkum kastalaveggjum og öruggt skjól. Það var þó ekki stærra en svo að síðar meir var gaflinn sleginn úr því og því breytt í bílskúr sem naumlega rúmaði einn smábíl.

Suðureyri.Suðureyri var staður mikilla töfra fyrir stuttfættan heimspeking og spekúlant. Þarna var Steini Steins þessi stóri og þögli maður. Hann átti hrútinn Móra, illúðlegan og stórhyrndann, sem hann leiddi um í bandi eins og hund. Hreppstjórinn spókaði sig um fyrir framan Kaupfélagið með voldugan hatt og silfurbúinn staf eins og hann ætti plássið, enda trúði ég því og varaði mig á að styggja hann ekki.  Þar var líka Halli klapp, sem stóð allan daginn og klappaði saman höndum og sló sér á lær á víxl. Sævi ók um þorpið með miklum drunum og frussi. Hann átti þó ekki bíl heldur hélt hann á gömlu bílstýri sem hann hljóp með sleitulaust frá morgni til kvölds. Hann bakkaði og spólaði upp brekkur, snéri og bremsaði með öllum þeim hljóðum sem því fylgdu.  Einu sinni ók hann út af og niður í fjöru. Hann sat þar fastur og var naumlega hægt að bjarga honum áður en hann flæddi uppi.  Það þurfti að kalla til olíubílinn á staðnum til að draga hann upp. Engu tauti var komið við hann fyrr. Hann varð síðar dyravörður í Háskólabíói hjá Berta bróður sínum en er nú dáinn.

klifurkettirJói Gunnubetu var þarna líka með herðakistil og undarlegt glott á vör. Hann sagði fátt og okkur stóð stuggur af þessum dökkleita manni sem starði sínum svörtu augum og hæddist að heiminum.  Hann var þó hinn mesti öðlingur og vakti athygli síðar sem Jóhann Grínari.  Hann fór með eftirhermur í útvarpi sem allar hljómuðu eins. Einnig bjó til árlegt handgert dagatal sem slegið var upp dagblöðum hér eins og um stórfrétt væri að ræða.  Svo var hann líka leikari í Bíódögum Friðriks Þórs ásamt fleiri afrekum á því sviði. Hann dó einn og afskiptur og var miklu yngri en ég hafði haldið hann vera. Blessuð sé minning hans.

Hrefna og Ranka voru systur sem bjuggu í hálfgerðum torfæ í miðju þorpi sem var svo feyskinn að búast mætti við að hann hryndi ef einhver reskti sig of nærri. Þær voru eins og klipptar út úr 18. öld alltaf í peysufötum með skotthúfur. Það var eins og tíminn hefði gleymt þeim. Þær höfðu gát á mér sem kornabarni og tuggðu saman soðna ýsu og myglaðan mör með tannlausum gómum og mötuðu mig með fingrunum. Barnamatur fortíðar. 

Svo var það Guðmundur gamli Pálma sem kom á hverjum morgni frá Staðardal með mjólk í brúsum á fúinni hestakerru, dreginni af lúnum og horuðum klár. Hann var með pottlok á höfði, prýddur þykku gráu yfirskeggi eins og rostungur. Hann jós mjólkinni í brúsa þeirra sem kaupa vildu og hélt svo aftur heim eins vofa liðinna alda.  Það var heldur ekki fjarri sanni. Allt við hann var forneskjulegt. Hann var meira að segja í svart-hvítu eins og á gamalli ljósmynd. Ekki vottur af lit á kerru, hesti né klæðum.  

Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er sagt frá konu sem lagði hvítvoðung sinn um stund við réttarvegg á meðan hún gekk til verka. Þegar hún ætlaði að vitja barnsins þá var það horfið og fannst ekki hvað sem leitað var. Yfirkomin af sorg dreymdi hana síðar álfkonu sem kom til hennar og sagði barnið vera hjá sér við gott atlæti.  Daginn eftir fannst barnið á sama stað við réttarvegginn og amaði ekkert að því. Þetta barn var systir Guðmundar Pálmasonar mjólkurpósts og ku hafa dáið í skriðufalli þegar hún varð gjafvaxta.  Álfum var að sjálfsögðu kennt um það. Nær fornsögunum varð ekki komist.

víkingurPabbi hennar mömmu, hann Alli fiskimann, var líka mikið furðuverk í mínum augum. Fyrirmyndarafi fyrir æfintýraþyrstan púka. Hann var alltaf kátur og glaður í minningunni.  Hann ló dillandi hlátri, hjak, hjak, hjak og var svo glysgjarn að það stirndi á hann. Medalíur og silkiklútar prýddu hann í öllum regnbogans litum og spilaði hann á harmonikku og munnhörpu þegar hann fékk sér neðan í því. Hann var sköllóttur en bar alltaf kaskeiti að skipstjórasið.  Einn veturinn fékk hann sér það sem hann kallaði “hárhúfu” sem hann dásamaði fyrir hlýindi og praktík. Húfa og hár; tveir fyrir einn.  Mamma harðbannaði honum að bera hana og blygðaðist sín fyrir hann því það var algerlega tilviljunum háð hvort þessi hárkolla snéri rétt eða ekki.

Ég átti annan afa; Dóra, sem var seinni maður ömmu. Hann var stór og mikill svo engir skór pössuðu á hann nema gúmmískóhlífar sem okkur strákunum fannst nógu stórir til að geta róið á út á fjörðinn. Hann var ljúfur og þögull kall sem sötraði kaffið sitt í eldhúsinu með löngum sogum við tif eldhússklukkunnar.  Hann réri stöðugt í gráðið,  hummaði ókennilegan lagstúf í sífellu og borðaði allan sinn mat með sama vasahnífnum nema að sjálfsögðu súpuna.  Hann var af fátæku vinnufólki og hafði liðið mikið harðræði í bernsku. Sonur vinnuhjúa í vistarböndum sem var barinn eins og hundur og svaf í fjárhúsi við harðan kost.  


Innan um alla þessa kynlegu kvisti voru svo vinir manns.  Sívert var einn af þeim. Freknóttur grallari með óútreiknanlegan huga undir rauðum lubbanum. Það var yfirleitt ekki vel liðið að við legðum lag okkar saman því það endaði oftast með ósköpum. Skaðræðisgripir vorum við kallaðir.  Við lékum okkur til fjöru og fjalls í endalausum rannsóknarleiðöngrum. Klifruðum og veltum okkur niður hjallana ofan við þorpið þar til okkur var bannað það og sagt að við myndum fá garnaflækju af því og deyja. Þarna fékk ég uppnefnið Nonni prakkari og þarf enn að búa við að vera kallaður því þegar ég á leið vestur um firði.

Okkur Sívert lék hugur að vita hvað bjó að baki fjallanna sem umluktu þennan smáa heim. Sumir sögðu að þar væru útlönd og það vildum við kanna.  Þegar við vorum að ræða þetta okkar á milli vorum við varaðir við að klifra í fjöllunum því nóg hafði fólk séð af pústrum og skeinum í okkar daglega brölti. Okkur var sagt að í fjöllunum byggju álfar sem ekki væru kátir með að brölt væri á húsþökum þeirra. Því fylgdu álög og ógæfa.  Efst á fjallinu var okkur sagt að væri gröf Hallvarðar Súganda landnámsmanns sem barist hafði við forföður minn Harald Hárfagra.  Í haug hans var víst falinn mikill fjársjóður. Margir höfðu freistað þess að finna hann en það  endaði víst ávallt með miklum skakkaföllum eða dauða fyrir viðkomandi.  Ef hróflað væri við haugnum myndi kirkjan í Staðardal líka sjást standa í ljósum logum. Það var þó aðeins undanfari mikið fleiri hörmunga að sögn manna.

Ekki sló þetta á áhuga okkar þótt ætlun fólks með þessum hrollvekjum væri önnur. Við bjuggum okkur því nesti og héldum út með firði í fjársjóðleit.  Uppgöngustaðurinn var fjallið Spillir, sem er eitt óhugnanlegasta og brattasta fjall þar um slóðir. Við vorum ósigrandi og ódauðlegir. Litum á kirkjubruna sem hreinan bónus við auðæfin sem við ætluðum að færa heim. Eldur var eitthvað töfrandi og heillandi í brallarakollum okkar. Álög óttuðumst við ekki.

kumlVið klifum snarbratta og grýtta urðina og vorum heitir á skrokkinn. Ævintýraeldurinn logaði snarkandi innra með okkur þegar við ræddum hvað við myndum gera við auðæfin.  Kaupa leikföng, bát, hest, bíl og kannski kjól á mömmu. Kannski svona kveikjara eins og Frissi Rokk átti. Frissi var eini töffarinn í bænum og vitnisburður erlendrar ómenningar. Hann var með Brilljantín í hárinu meðuppbrettar gallabuxur og í támjóum bítlaskóm.  Maður sem var í guðatölu hjá okkur krökkunum.  Hann gat meðal annars búið til myndaramma úr tómum Camelpökkum og dregið túkalla út úr útstæðum eyrum okkar.

Fjallið var svo bratt að það var engu líkara en það ætlaði að hvolfast yfir okkur. Mávarnir hnituðu fyrir ofan okkur í von um blóð og þeim varð brátt að ósk sinni. Skyndilega losnaði steinn sem ég hafði gripið í til að vega mig upp og áður en ég vissi var ég í frjálsu falli. Ég endastakkst niður urðina eins og tuskubrúða. Hvassar nibbur stungust í skrokkinn á mér og ég nam ekki staðar fyrr en við bjargbrún ofan við veginn út að Stað.  Ég hafði rotast og man ekkert fyrr en ég rankaði við mér aftan á bögglabera á hjóli móður minnar, alblóðugur og rifinn. Ég var reyrður með tusku við mömmu sem hágrét og ákallaði Guð um hjálp. Hún hjólaði eins og hún ætti lífið að leysa heim í þorp. Sívert hafði hlaupið inn eftir og sagt henni óðamála að ég væri dauður. Það mátti líka engu muna. Ég fékk heilahristing og sjö göt á hausinn sem enn prýða hnúðótt höfuð mitt.  Hallvarður hafði lagt mig í valinn þótt ég risi upp til nýrrar orrustu eins og vargi sæmdi. Ég hafi aðeins lotið í duft í einum bardaga en stríðið langt frá því tapað.

Mér finnst gott að rifja upp farinn veg og minna mig á hvaðan ég kem. Minnast með þakklæti þess góða og fyrirgefa hið slæma. Þá er líklegra að maður rati rétta leið inn í framtíðina og nái að halda sátt við Guð og menn. Lífið er oft háskaför og stundum ljúfur leikur.  Það hefur sinn tíma að elska og það hefur sinn tíma að stríða.

Í dag er ég hættur að stríða að mestu þótt einstaka sinnum þurfi maður að bera fyrir sig hendur.  Margir eru fallnir sem börðust mér við hlið og landvættir, álfar og upprisnir landnámsmenn hrella mig ekki meir. Vopnabræðurna hitti ég síðar.  Álögin eltu þó Sívert alla tíð og nú er hann farinn til Valhallar. Ég hitti hann fyrr en síðar eins og Hjálmar á Bólu kvað svo listilega um.

Mínir vinir fara fjöld,
feigðin þessa heimtar köld,
ég kem eftir, kannski í kvöld,
með klofinn hjálm og rifinn skjöld,
brynju slitna, sundrað sverð og syndagjöld.

.


Kynngimögnuð Smásaga í Litum og Panavision.

par“Æ, ég er alveg að gefast upp á þessu.” Sagði Guðríður og lagði frá sér nýstrandað farþegaskipið.

Mjölnir leit upp og kláraði kartöfluuppskeruna um leið og hann réri yfir Kyrrahafið á sefbát. :”Hvað er að angra þig elskan? Spurði hann og framleiddi sjónvarpsþátt um hlaupfiska.

 Æ, ég veit það ekki.” Svaraði Guðrún og  jarðaði sendimenn byggingaeftirlitsins í kotru. “Það er bara eitthvað svo tilbreytingarlaust hér.”

Mjölnir umturnaði fjármálaheiminum hugsi.  “Hefur það eitthvað með mig að gera?  Ég játa að ég gæti vafalaust verið margbrotnari í samskiptum mínum við yður, elskan.”  Hann hlammaði sér vonsvikinn niður og gerði upp þotuhreyfilinn sem hann hafði unnið í glímu eftir að  hann hafði lokið við að flytja Andesfjöllin.

 

kona“Nei, nei,  ekki þú elskan. Þetta er bara einhver efnaskiptasjúkdómur í mér eða breytingaskeið.” Sagði Guðrún skellihlæjandi og virkjaði Víðidalsá.  “Þetta dettur svona yfir mig stundum.  Fyrirgefðu.”

 Mjölnir sýtti tannleysið og lagði fram breytingatillögu um skipan öryggisráðsins, svona til að dreifa athyglinni frá brennandi trésmíðaverkstæðinu.  “Ekkert að fyrirgefa elskan.  Ég verð sjálfur svona um hver tunglkvartil.” 

öðruvísiÞau brostu og eyddu miðunum umhverfis landið með eitruðum þörungum, ánægð með hve olíuboranir þeirra á heimskautaísnum virtust takast vel. Það gat stundum borgað sig að leggja fram byltingakenndar kenningar í kjarneðlisfræði.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband