Færsluflokkur: Kvikmyndir

Meiking Off.

FilmCrew_5886Eitt kjánalegasta fyrirbærið  í annars smákjánalegum kvikmyndaiðnaðinum, eru myndirnar, sem gerðar eru um myndina og kallast “Á bak við tjöldin.” eða “Making of.”

Í þessum myndum er sjálfhverfa draumasmiðjunnar holdgerð svo um munar.  Í fyrsta lagi þá er sjónum neytenda beint að því hversu ofboðslega mikið mál það er að búa til bíómynd.  Hvað margir fagmenn koma að verki og hve mikil sérkunnátta er á ferð.  Hvað menn eru ógizzlega pró. 

Með þessu er áhorfandinn þó rændur því sem í raun er eða var upphaflegur tilgangur kvikmyndarinnar, það er að segja sögu. Hann fer að pæla í smáatriðunum eins og leikmyndum, lýsingu og brellum í stað þess að lifa sig inn í hremmingar sögupersónanna. Var regnið í senunni svolítið yfir strikið eins og oft vill brenna við?  Blakti veggurinn, þegar hurðinni var skellt?  Var þetta hljóðnemi sem læddist þarna inn í hægra horninu efst?   Skrímslið var svolítið stirðbusalegt að sjá og við ímyndum okkur víra, slöngur og menn með fjarstýringar.  "Djöfull var þetta nú “krömmý” digitaleffect."  Draumurinn og innlifunin í frásögnina er trufluð eða alveg eyðilögð með þessum inngripum rökhugsunarinnar.  Svo eru það viðtölin við snillingana. Þau eru alger kapítuli út af fyrir sig.

Fólk, sem vinnur við það að þykjast vera eitthvað annað en það er og segja það, sem þeim er sagt að segja,  er ekki mjög sannfærandi þar sem það situr afslappað og sjálfumglatt,  mærandi alla starfsmenn og samleikara í hástert.  Þeir vita líka að þeir eiga von á hinu sama frá þeim.   Lofið er yfirgengilegt og orðin snillingur og virtúós er notað oftar en almenn tengiorð.  Leikstjórinn hefur yfirnáttúrlegt innsæi og fangar sannleikann og augnablikin af meistaralegri næmni.  Leikararnir eru allir að gera eitt af sínum bestu verkum og sýna að sama skapi mikla snilld, innsæi og persónutöfra, svo ekki sé talað um fagmennsku. 

MOVIESTAR 2Þessi hópur virðist algerlega hnökralaus sem manneskjur og fagmenn.   Téð mynd er undantekningalítið saga, sem mun breyta sýn fólks á lífið og jafnvel heiminum, hvorki meira né minna.  Aldrei er sagt styggðaryrði um einn né neinn og engir mannlegir brestir virðast komast upp á yfirborðið á meðan á tökum stendur.  Það er eins og fólk nái að halda slíku í sér.  Þetta er hljómar hreinlega eins og á alsæluökrum himnaríkis.  Algerlega ójarðneskur vinnustaður.  Þvílík öfundsverð gæfa, sem þetta fólk nýtur.

Mín reynsla segir þó að þetta sé alls ekki algilt, svo varlega sé orðað.  Margir leikstjórar eru dintóttir og sjálfhverfir í meira lagi.  Þeir borða oft ekki sama mat og aðrir, missa þolinmæðina fljótar en flestir og hafa nánast ekkert samneyti við þá, sem eru neðar í goggunarröðinni.  Þeir fara í fýlur eins og börn og láta aðra um að gagnrýna starfsmennina fyrir sig.  Sumir eru svo viðkvæmir artistar að sólin þarf að setja sig á sporbaug um þá svo þeim líki.

Leikarar eru oft hinar verstu flækjur og eru alltaf að mæla sig við aðra leikara og tala illa um frammistöðu þeirra.  Þeir eru misskildir og þola illa kulda og átök.  Það þarf að stjana stöðugt í kring um þá, vefja þá teppum, gefa þeim heitt að drekka, sækja hitt eða þetta.  Þeir vilja ekki svona mat og hinsegin kaffi eða te, eru misskildir og þjáðir listamenn í sálarkreppu yfir því hvernig þeir eiga að túlka göngu sína inn um dyr í næstu senu.

film-crew_2Margir skipa fyrir til að skipa fyrir. Færa þetta hingað, lyfta þessu, sækja þetta, henda hinu.  Þetta er gert til að láta alla vita að menn eru á tánum og kallast busy doing nothing.Litlu mennirnir þeytast til og frá og eru oftast að gera það sem litlu máli skiptir, bara svo að stjörnunum líði betur. Þessir litlu menn eru þó rosalega pró, sem sjá má á því að þeir eru með alskyns dót hangandi utan á sér. Vasaljós, fjölnotahnífa, skrúfvélar, talstöðvar, síma og skrúflyklasett.  Flestir eru í North Face göllum upp á tugi þúsunda, þótt nokkrir séu í North Fish frá rúmfatalagernum á 999.  Merkin skipta máli og sumir þekkja sinn vitjunartíma og mæta ekki í flottari átfitti en brassið.

Leikmyndasmiðir færa, bera, skrúfa og líta á sig sem kvikmyndagerðarmenn.  Þó á þessi  vinna fátt skylt við það.  Eins er með ljósamenn og tæknilið.  Það eru burðarjálkar, sem bera rafmagnsspenna, sandpoka, níðþunga ljósastanda og kastara eftir skipunum kvikmyndatökumannsins.  Þeir titla sig líka kvikmyndagerðarmenn.  Það er sjaldnast mikla snilld að sjá í neinu.  Allavega ekki eins og lýst er í myndinni um myndina.  Þrældómur og tilgangslaust hangs á víxl og undirliggjandi ergelsi og þreyta.  Hlutfall stórreykingamanna í þessum hópi er svipað og meðal sjúklinga á Kleppi enda er slíkt sammerkt með hugsandi fólki.

Framleiðendur eru kenjóttir og frekir og láta sér fátt um allan þrældóm finnast.  Allt sem skiptir máli er að spara peninga og ef einhver kvartar, þá segja þeir þeim að finna sér eitthvað annað að gera.  Þeir reka fólk og ráða og reka áfram inn í lengri vinnudaga á forsendum listarinnar, en hafa þó ekki hundsvit á því hvað list er, frekar en ég.  Þeir bjóða kunnáttulausu fólki að vinna frítt til að byggja upp ferilskrá, sem enga þýðingu hefur í raun.  Þetta á ekkert skylt við myndina um myndina heldur. Svona hefur þetta allavega horft við mér svona innanfrá séð.  Kannski hef ég bara verið svona óheppinn með prójekt?

Hvers vegna skyldu aðrar greinar ekki taka þessa nálgun upp líka?  Rithöfundur getur vaðið á súðum um tákn og vísanir í bókinni, sem hann er að skrifa og rómað útgefandann. Útgefandinn getur rómað rithöfundinn og prentararnir geta tjáð sig um hve gefandi það er að prenta bækur fyrir viðkomandi og rómað þá líka.

fron_mjolkurkexKexverksmiðjan Frón gæti til dæmis gert svona mynd um kexbakstur, þar sem Jói á hrærivélinni getur rómað Bjössa á ofninum, Sigga á hnoðaranum og Sollu í pökkuninni.  Framkvæmdastjórinn getur svo rómað alla hina og fengið lof fyrir innsæi listfengi og persónutöfra frá þeim.  Jafnvel Lúlli á lyftaranum fengi sitt skjall.  Án hans hefði þetta ekki verið mögulegt.  Við fylgjum bökunarferlinu frá því að hveitipokanum er hellt í síló og þangað til kexpakkanum er pakkað.  Inn á milli er klippt í vitnisburði starfsfólksins um handtökin og færni viðkomandi í þeim.   Í búðum væru svo stór plaköt með þessu fólki í aksjón undir yfirskriftinni “Frón kynnir!  Úr smiðju þeirra sem færðu okkur Kremkexið!  Einhvert frábærasta Mjólkurkex allra tíma!  Nýjasta sköpun Júlla famkvæmdastjóra.  Hræra: Jói.  Hnoðun: Siggi.  Bökun: Bjössi Bakari og teymið frá Fróni!”

Ekki veit ég hvort það myndi eyðileggja nautnina af kexátinu í sama mæli og myndin um myndina skemmir fyrir okkur kvikmyndaupplifunina.  Það gæti þó jafnvel haft vafasöm áhrif, ef við fengjum að fylgjast pylsugerðarmönnum eða pizzubökurum vinna sín ódauðlegu listaverk. 

Hvað sem öðru líður, þá værum við sennilega jafn nær um gæði vörunnar og við erum nær um gæði myndanna eftir að hafa horft á Meikíng Off. 

Kannski er þetta ástæðan fyrir minnkandi aðsókn á bíó.  Minnugur þess hvað henti Narcissus greyið þegar hann dáleiddist af spegilmynd sinni og féll í vatnið og drukknaði, þá held ég að það sé ekki fjarri lagi.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband