Klámhvolpar, Sundbolir og Sverðshjöltu.

reykingastrákurÞegar ég var um 8-9 ára hvolpur, fóru hin flóknari rök tilverunnar að síast inn.  Skólakerfið var búið að kenna manni að kvíða morgundeginum og vera ósáttur við árekstra gærdagsins.  Núið var á undanhaldi og þar með andi barnssálarinnar.  Fram að þessu höfðum við vinir mínir lifað í fullkomnum anarkisma og notið þess sem lífið bauð um leið og það birtist.  Líf sem var án stórra væntinga og vonbrigða. 

dullupjakkurÉg átti þrennskonar vini.  Einn flokkurinn  var svona eins og hann Skari, sem hugsaði ekki stórt og gladdist við litlu.  Hann gat til dæmis fengið lag á heilann, sem mér fannst heimskulegt og verið uppveðraður yfir því svo dögum skipti. “Úh íh úh ah ah, ding dong,valla, valla bing bang.” gat hann gaulað út í eitt svo aulahrollurinn hríslaðist niður bakið á manni.  Við umbárum þetta þó, því hann átti heima í sama húsi og Oddur lögga og það hafði ýmsa kosti í för með sér fyrir uppátækjasama púka.  Svo átti hann bróður, sem var eins og tröll, stór og þykkur, opinmynntur trukkur, sem gott var að eiga á hliðarlínunni ef  til undanhalds horfði í púkastríðum okkar. Þá birtist hann í miðjum hópi eins og risaeðla með lurk í hendi, og stökkti óvininum á flótta eins og kakkalökkum undan ljósi.  “’Úh íh úh ah ah, ding dong valla, bing bang!” söng Skari og ég horfði á hann í blendingi undrunar og vorkunar. “Þarftu endilega að vera að syngja þetta?”  En Skari horfði bara á mann og var eins og glaður hundur í framan. “Þetta er svo flott.  Finnst þér þetta ekki flott? Þetta er frábært. Úh í úh ah ah...”  Honum var ekki við bjargandi, en maður þurfti stundum að sætta sig við meira en gott þótti til að njóta kostanna.

chocolate_cigarettesSvo var það vinur eins og Einar.  Hugir okkar störfuðu nákvæmlega eins og stundum gátum við skilið hvorn annan algerlega án þess að segja nokkurt orð. Búddískt augnaráð og hálfgildings bros eins og á Monu Lísu var nóg.  Við urðum líka ævivinir og enn tölum við saman í þögnum og augnaráðum þegar við hittumst á förnum vegi.  Réttlætiskenndin sauð í brjóstum okkar og við storkuðum öllu, sem okkur þótti bera í sér misrétti. Mætti segja að það hafi orðið okkur fjötur um fót í lífinu framar öðru.  Við reyktum eða þóttumst reykja súkkulaðisígarettur, sem ekki þótti óeðlilegt að selja börnum þá.  Allir strákar, með sjálfstæða hugsun voru með eina slíka í kjaftinum og töluðu út um annað munnvikið eins og hetjur hvíta tjaldsins. Við vorum ærlegir menn og formlegir fóstbræður, ég og Einar og hefðum gengið í dauðann hvenær sem var fyrir hvorn annan.  Eitt sinn bjargaði hann lífi mínu þegar ég datt í gegnum ís og fór undir hann.  Einar hætti ekki fyrr en hann hafði náð mér upp og þá var ég orðinn svo dofin að ég streittist á móti og vildi sofna. Hann er óreglumaður í dag og umgengst annan þjóðfélagshóp, en það veikir ekki þráðinn á milli okkar. Þvert á móti. Virðingin er gagnkvæm og órjúfanleg enn í dag. Hann er drengur með hjarta úr gulli.

tígulgosi 2Þriðji flokkurinn voru svo strákar eins og Jakob.  Maður vissi aldrei hvað hann hugsaði og kynntist aldrei hans innstu rökum.  Hann var óútreiknanlegur og aldrei hægt að vita hvort hann var með manni eða á móti.  Hann var dularfullur.  Okkur fannst gaman að stríða eldri bróður hans, sem var langur, mjór og slánalegur og minnti á gamlan ljósastaur. “Mummi Kalli langi með tittlinginn í gangi!” hrópuðum við úr tryggri fjarlægð og þá elti hann okkur þindarlaust um allan bæ.  Það virkaði alltaf.  Í hvert einasta skipti í mörg ár og veitti okkur ómælda skemmtun og holla hreyfingu.

Jakob átti leyndardóm heima hjá sér, sem við fengum að kíkja á.  Það var fullur kistill af Tígulgosanum.  Þetta var svona dónablað með svarthvítum myndum af konum í sundbolum, sem horfðu tælandi í augun á okkur.  Við lásum upp úr þessu valda kafla, þar sem talað var um að menn settu “seðlavöndulinn í budduna hennar” eða “ráku sverð sín upp að hjöltum í helgidóm hennar.” Ekkert var sagt berum orðum en við skildum algerlega hvað við var átt og urðum þurrir í munninum. Undarlega kitlandi tilfinning myndaðist í kviðarholinu, ósýnilegu kverkataki var brugðið um háls okkar og sprænillinn varð eins og trjákvistur.  Jakob útskýrði hlutina með undirfurðulegu glotti og við vissum að hér voru forboðnir hlutir á ferð.  Hættulegir hlutir.  Þó tengdum við þetta ekki beint við tilveruna.  Aðrar stelpur voru enn kjánalegar og leiðinlegar en konurnar á sundbolunum voru hlutir, farlæg og ópersónubundin brjóst og rassar og við hefðum sennilega hlaupið af hólmi ef þær hefðu birst þarna.  Allt sem maður hafði svo upp úr þessu var sársaukafullur hlandsprengur. 

Jakob sagði að þetta væri kallað að ríða og sýndi það með að stinga vísifingri annarrar handar í holu á milli vísifingurs og þumals á hinni.  Hann gekk þó of langt í eitt sinn, þegar hann sagði að mamma mín og pabbi hefðu gert það þrisvar. (Ég átti jú tvö systkini). Ég varð svartillur og gaf honum á kjaftinn. Þvílíkt ógeð!  Náttúran er nefnilega þeim undrum gædd að engin leið er að gera sér slíkt í hugarlund, hvorki hvað varðar foreldra né systkini.  Það voru bara einhverjir töffarar og píur, sem gerðu slíkt.  Eins er það með foreldra gagnvart börnum. Það setur að þeim hroll að hugsa um þau í þessu samhengi og það tabú varir nánast alla æfi.  Merkileg staðreynd, en svona setur náttúran okkur varnagla til að spilla ekki stofninum.

xrayad1Forvitnin óx með hverri heimsókn til Kobba. Í Popular Mechanics voru auglýst röntgen gleraugu, sem áttu að gera manni kleyft að sjá í gegnum föt.  Þetta undur vísindanna átti hug okkar allan á tímabili. Við sendum pöntun og pening til Ameríku til að eignast ein slík.  Við  vélrituðum meira að segja mjög fullorðinslegt bréf með, sem hófst á orðunum: “Dear sirs.”  En íslenska krónan hefur sennilega ekki verið tekin gild, svo okkur varð ekki af  óskum okkar.

Áhugi okkar á stelpum vaknaði svo upp úr þessu og við gátum legið heilu vetrarkvöldin undir vegg sundhallarinnar og gónt upp undir opna glugga, sem endurspegluðu himnaríki holdlegrar fegurðarúr kvennaklefanum.  Stundum var það Stína “Vá!” en stundum bara mamma hennar. “Ojbarasta!” En brjóst vöktu alltaf djúpstæða löngun, sem máski var saknaðartilfinning.  Söknuður hlýjunnar og kærleikans við móðurbarm, sem aldrei kæmi aftur.

Við góndum þarna, þar til við fengum hálsríg.  Útlimir og andlit dofnuðu af kulda svo við gátum varla mælt, en innst var þessi hlýja unaðsglóð.  Þegar á hólminn kom og maður var augliti il auglitis við dísir drauma sinna, þá lamdi maður þær með skólatöskunni, flissaði og lét eins og fáviti. Stelpurnar voru nákvæmlega eins. Enn einn öryggisventill náttúrunnar kom í veg fyrir ótímabæra viðbót við mannkynið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Það sem þú skrifar er gargandi snilld...
Ég á ekki orð svo ég gef þér bara 

Gunnar Helgi Eysteinsson, 30.7.2007 kl. 10:31

2 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Ég tek heilshugar undir með Gunnari, GARGANDI SNILLD!!! Takk fyrir þessi skrif.....

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 30.7.2007 kl. 13:00

3 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Þetta er ALBESTA blogg sem ég hef lesið.  Þú átt að skrifa bækur Jón Steinar, ekki nokkur spurning.  Þú færð allar stjörnurnar mínar. 

Anna Einarsdóttir, 30.7.2007 kl. 19:54

4 Smámynd: Elín Arnar

Ég held þú verðir bara að setjast niður við skriftir og koma með eitt stykki bók þar næstu jól. Þú ert afbragðs penni.

Elín Arnar, 30.7.2007 kl. 23:17

5 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Þette er ekki eingöngu færni með orð..heldur líka ákveðin sýn og skynjun á hvað er hvað í kringum hann. Einhver tónn eða geisli sem við vitu öll að er þarna en heyrum misnjafnlega vel. Í skrifum Jóns Steinars...vá er ég ekki alveg eins og alvöru gagnrýnandi....víbrar þessi tónn og minnir okkur hin á eitthvað mikilvægt. Sem fer kannski framhjá okkur í látunum.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 31.7.2007 kl. 13:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband