Kassinn Hennar Pandóru

File0029Árið 1968 fékk máninn keppinaut á norðurhjara.   Við krakkarnir veltum okkur í dúnmjúkum snjónum á vetrarkvöldum með rauðar kinnar og hor í nefi; sugum snjóinn úr treflum og köggluðum vettlingum;  störðum draumstolnum augum mót sindrandi stjörnuhvelfingunni heilluð af dansi stjarnanna í andgufunni frá vitum okkar.   Við settum kertaljós í snjóhúsin okkar í einskonar hyllingu til þessa mikilfenglega líknarbelgs, sem verndaði  okkur og sló í takt við barnshjörtun.

  Máninn hallaði kankvís undir flatt með auga í pung og brosti hughreystandi til okkar eins og hann vildi segja:  “Ykkur er óhætt elskurnar.  Ég er hér og vaki yfir ykkur.” Hann hellti eilífum bláma sínum yfir landið, svo ljósið endurkastaðist af bröttum og snædrifnum fjöllunum, sem stóðu vörð um fjörðinn.  Þetta var heimurinn okkar og við vorum börn þessa heims. 

Fátt raskaði venjunni í þessu litla samfélagi, sem var svo langt frá heimsins vígaslóð.  Eitt kvöldið gerðist þó eitthvað óvenjulegt.  Við sáum rotinpúrulegan hóp norpa framan við búðarglugga, stappandi niður fótum og berjandi sér til hita.  Þessi hópur tuldraði reglubundið fyrir munni sér eins og munkar á bæn og starði fjarrænt mót flöktandi, bláköldu ljósi, sem gerði hann eins og sorgmæddar vofur með glitrandi sultardropa á nefbroddum. 

krakkasjónv.Þegar nær var komið sáum við hvað dró þetta fólk saman í svo nöprum aðstæðum.  Sjónvarp!  Aldrei höfðum við séð nokkuð slíkt í návígi áður.  Þessi kassi var eins og kristalteningur í tekkumgjörð með tærri og djúpri sýn inn í fjarlægan heim.  Heim sem togaði undarlega í hugi okkar eins og hann vildi tæla okkur inn í sig.  Þarna voru kúrekar á háleggjuðum hestum á harðahlaupum.  Þarna voru varnarlausar konur í vanda og dimmbrýndir skúrkar og svo þessir hugprúðu Bonanza feðgar, sem öllu björguðu.  Framvinduna mátti ráða af tinandi texta, sem fólkið las upphátt jafn harðan og hann birtist.  “Upp með hendur!”

Það var útskýrt fyrir okkur að þessar myndir kæmu til okkar hinum megin af landinu án þess að fara í gegnum snúrur eða slöngur.  Þær komu bara í loftinu og við gátum jafnvel verið að anda þeim að okkur án þess að taka eftir því. 

BónansaÞessi svarthvíti draumur var dáleiðandi og tók fram þöglu myndunum, sem Torfi Einars hafði sýnt okkur af  átta millimetra filmum á laki heima í stofu.  Abott og Costello, Gög og Gokke og Chaplin bjuggu í litlu kössunum hans.   Líka Múmían, Frankenstein og brúður hans en það var allt hægt að loka niðri í tösku.  Sjónvarpið var lifandi og nálægt og allt um kring. Litlir fætur kólnuðu fljótt þarna við gluggann á Pólnum, sem var raftækjaverslun bæjarins, svo við héldum áfram að kúldrast í snjónum eins og áður og gleymdum þessu brátt.  Ekki grunaði okkur að þetta apparat, ætti eftir að bylta tilverunni á borð við það sem síðar reyndist.

Í byrjun áttu fáir sjónvarp og stundum var okkur krökkunum boðið að koma í heimsókn til vina, sem nutu þessara forréttinda.  Það var samt ekki oft. 
Gamla gufan var það sem við höfðum þessa daga.  Þá sat fjölskyldan saman og hlustaði á útvarpsöguna eða útvarpsleikritið.  Dickie Dick Dickens var flutt og Góði Dátinn Sveik í lestri Gísla Halldórssonar naut svo mikilla vinsælda að göturnar tæmdust og hlátrasköllin hljómuðu úr hverju húsi í kvöldkyrrðinni.

Frankenstein_monster_Boris_KarloffAmma og afi voru ein þeirra fyrstu, sem eignuðust tæki en það var sparlega notað og ekki var mikið rennirí liðið á því settlega heimili, sem var af danska skólanum.  Ég man bara eftir að hafa horft á sjónvarpið þar einu sinni og þá var mér boðið sérstaklega af ömmu.  Það var meira að segja í sjónvarpsfrí þegar þetta kom upp, en sjónvarpið lokaði einn sumarmánuð á ári svo fólk kæmi sér út í sólina.  Þessi undantekning var söguleg að því leyti að þetta var fyrsta beina alheimsútsendingin, auk þess sem þarna stigu menn fyrst fæti sínum á tunglið að sögn. 

Skrítin upplifun man ég.  Það var bjartur sumardagur og nóg að gera í að ögra heiminum og rannsaka.  Ég steig inn í myrka stássstofuna og var vísað til sætis í sófann með útskornu örmunum, sem yfirleitt var bannsvæði fyrir kámuga fingur, sem hneigðust til að klína hor í allt sem fyrir varð.  Mér var færð mjólk og sandkökubiti.  Sjónvarpskápurinn var opnaður eins og helgiskrín.  Amma kveikti, gekk út og virtist engan áhuga hafa á þessu.  Þarna sat ég einn og horfði á tunglið í nærmynd.  Þetta var eins og helgistund.  Óskýrar myndir af hoppandi geimförum birtust og vélrænar raddir heyrðust, slitróttar og brakandi eins og þær bærust í gegnum flugeldaregn.  “One small step for man. One gigant leap for mankind.” Sagði Armstrong og hoppaði síðasta spölinn úr stiganum og ofan á á kallinn í tunglinu. 

tunglgangaÞetta var allt svo flöktandi, óskýrt og óraunverulegt. Llitli kollurinn á mér meðtók ekki fyllilega samhengið.

Fjölskyldan mín fékk sjónvarp fyrir jólin 1969.  Það var Cuba sjónvarp sem hlaut strax heiðursess í stofunni.  Fyrsta manneskjan, sem birtist þar út úr snjómuggunni var Markús Örn Antonsson.  Nánast allar jólamyndirnar frá þessum jólum eru af fjölskyldunni við undratækið, saman eða hvert í sínu lagi. (Eina myndin, sem ekki er þannig, er hér fyrir ofan.)  

Fyrsta þulan var Ása Finnsdóttir bróðurdóttir pabba.  Það þótti mikill virðingarauki að eiga frænku á skjánum.  Síðar sá séra Grímur Grímsson afabróðir minn stundum um Jólamessuna og það gerði okkur nánast að mektarbokkum í mannforinni.

ruvSjónvarpsdagskráin vakti takmarkaðan áhuga okkar krakkanna til að byrja með.  Litlausar fréttir voru fluttar með stofnanalegu tilbreytingarleysi.  Umræðuþættir voru eitt það allra leiðinlegasta, þar sem menn sátu í djúpum stólum og raupuðu og rifust.  Í þá daga voru bara óbreyttir símvirkjar, sem sáu um myndatökuna og sást það oft á pínlegri innrömmun, þar sem manni varð oft starsýnt á það í hvorri skálminni “slátrið” lá hjá þessum forkólfum í hægindunum.  Landsfeðurnir urðu eitthvað svo óviðeigandi “mannlegir” og ótrúverðugir í þessum stellingum.

Mikið af innlenda efninu átti freka heima í útvarpi en þó var reynt að efna til skemmtiþátta á laugardögum.  Þar var Ómar Ragnarson þegar mættur og enn er að gera út af við mann, hart nær fjörutíu árum síðar.  Sumt hefur ekkert breyst.  Raggi Bjarna tók lagið ásamt fleirum í geimaldar eða torfbæjarleikmyndum, eftir efninu.  Leikritum var hróflað upp, þar sem stórleikarar þjóðarinnar léku stórt með stóra förðun í andlitinu og töluðu í stórum pathos eins og væru þeir að fara með ættjarðarljóð í stað hversdagslegra samtala.  Það var róið í gráðið, stunið, jammað og jæjað í þjóðlegri kakófóníu af lopa, torfi og trosáti.  Vigdís Finnbogadóttir kenndi frönsku og bar ekki betur fram en svo að frakkneskir menn töldu hana segja: “Takk rassgat.” Þegar hún þakkaði Gerard vini sínum fyrir.  Fyrsta alvarlega aulahrollinn fékk ég yfir þýskri skíðakennslu, þar sem yfirborðskenndir Týrólar sungu, dönsuðu og dilluðu rassinum á skíðum.  Svo var gefið frí á fimmtudögum og brátt fluttist allt félagslíf þjóðarinnar á þann dag.  Sinnuleysi sjónvarpsglápsins réði brátt ríkjum aðra daga.  Fyrsta útsæðinu var plantað af sófakartöflum framtíðarinnar.  Fátt var um annað rætt en sjónvarpsefnið manna á milli en við krakkarnir ánetjuðumst þessu þó ekki í líku mæli og börn nútímans. Náttúran sjálf hafði,  enn sem komið var,  sterkari togkraft en þessi platheimur.

belphegorDýrlingurinn Simon Templar var það sem okkur krökkunum hugnaðist best að sjá og auðvitað Bonanza og  Belphégor.  Belphégor var samt algerlega bannaður börnum.  Við vorum rekin í háttinn með hörku og þrasi þegar hann var á dagskrá.  Þetta voru franskir hryllingsþættir um vofu, sem ráfaði um Louvre safnið og drap fólk í algeru tilgangsleysi. Við systkinin reyndum að liggja á gæjum, en vorum alltaf staðin að verki,  nema einn laugardaginn, þegar mamma og pabbi fóru á ball.  Þá horfðum við öll þrjú á einn þátt og hefðum betur látið það ógert.  Við urðum svo hrædd að við hnipruðum okkur saman um nóttina og kjökruðum af hræðslu við hvern traustabrest í húsinu.  Þessu fylgdu svo reglubundnar martraðir í margar vikur.  Ég svaf alltaf með tásurnar undir sænginni eftir þetta, svo Belphégor næði ekki í þær.  Sjónvarpið hafði sáð ótta í saklaus hjörtun.

sjónvarpsmaturMerkileg hliðarmenning spratt upp í kringum sjónvarpið.  Mamma, sem las Vikuna af mikilli áfergju, saumaði dragtir upp úr henni og greiddi hárið upp í gljáhvítan túrban eins og forsíðustelpurnar.  Þar sá hún líka uppskriftir af sérstökum sjónvarpsmat, sem oftast samanstóð af laukídýfu, Ritzkexi og gulrótarræmum.  Soldið spez en ekki gott, fannst okkur.  Hún prjónaði líka sérstaka sjónvarpssokka, sem voru svona lopamokkasínur, sem öll fjölskyldan hafði á fótum þegar horft var á sjónvarp.  Afar hentugt við fótkulda, sem sótti að í kyrrsetunni.  Svo voru líka sérstakir sjónvarpsbollar og meira að segja sjónvarpsteppi.   Ekkert heimili gat án þessa verið.  Tilveran mótaðist smátt og smátt utan um þennan kristaltening með svarthvítum skuggunum, svo jafna mátti því við átrúnað.  Bláminn flökti í hverju húsi og sló bjarmanum út á mannlausar göturnar. Máninn undraðist um afdrif barnanna sinna.   Jafnvel stórfenglegur slæðudans norðurljósanna dugði ekki lengur til að vekja undrun og andakt.  Það varð varanlegt messufall á himnum. 

varnarlausÍ dag er sjónvarpið jafn sjálfsagt og andrúmsloftið.  Það hefur fastann sess í tilveru okkar og ræður meiru um líf okkar og skynjun en við þorum að kannast við.  Það hefur slævt okkur frá  raunverulegri lífsnautn eins og ópíum.  Við sitjum þögul og þreytt framan við töfrakristalinn eða jafnvel hvort í sínu herbergi og horfum á kjördópið okkar.  Við höfum vanist því að taka stöðugt við mötun án þess að geta beitt gagnrýnni hugsun né miðlað á móti.  Nauðsynleg mannleg tengsl hafa dofnað eða slitnað frá því sem áður var.  Börnin  eru sett í gæslu kristalsins mikla frá því að þau geta setið.  Foreldrarnir eru of uppteknir við að eignast tálmyndir auglýsinganna til að hafa tíma fyrir það sem sálin þarfnast og andleg hungursneyð hefur lagst að.    

911-attackAthygli okkar beinist að uppdiktuðum persónum og fyrirmyndum, sem sameina öll lákúrlegustu gildi mannskepnunnar.   Ofbeldi, miskunnleysi, illmælgi, öfund, græðgi, flærð, losti og hvað það eina, sem Lúter kallinn vildi kalla dauðasyndir, er okkar daglega brauð.  Andstæður mannlegra dyggða.   Stríðum og óhugnaði heimsins er hellt eins og  gorugum blóðgraut inn á stofugólf á hverju kvöldi.  Við erum orðin dofin fyrir grimmdinni; stillum bara yfir á eitthvað fyndið og áreynslulaust.  Okkur er stöðugt uppálagt að treysta engu og óttast allt.  Glæpamenn, perrar, gróðurhúsaáhrif, fuglaflensa, hryðjuverkamenn og efnahagsójafnvægi.   Okkur er sagt að illir múslimir sitji um að gera okkur að Íslömskum þrælum ellegar meiða okkur af því að við erum svo frjáls og hamingjusöm.  Við gefum eftir persónurétt og lýðréttindi til að leggja þessari ógnvænlegu baráttu lið.  Óvinurinn er þó jafn raunverulegur og feiti og vitlausi kallinn í gamanþáttunum, sem á að fá húsmæður í Ameríku til að vera sáttari við bælingu sína í stofufangelsinu.  

Pat RobertsonÓttavæðingin er markviss, enda er óttinn sterkasta vopn valdsjúkra lénsherra til að gera okkur að viljalausu leiguþýi sínu.  Án óvina er byltingin tilgangslaus og því þarf að búa þá til, vildi stjórnvitringurinn Stalín meina.  Sjónvarpið gegnir lykilhlutverki í þessari þróun.  Við hlaupum óttaslegin áfram í hamsturshjóli efnishyggjunnar og höfum ekki tíma til að hvá.  Jafnvel þeir, sem tala í nafni trúar eru ötulir í þessari markaðssetningu skelfingarinnar, en lofa þó að taka málin í sínar hendur ef við sendum þeim pening.  Jafnvel óhrjálegust kjánar og siðblindir hræsnarar fá völd og áheyrn.  Fordómar,  flokkadrættir og bláköld lygi er trúboð þeirra .  Ég trúi persónulega engu, sem út úr þessum kassa kemur og tel heiminn betur hafa komist af án hans.

pandoraÉg líki þessum kassa við kassann hennar Pandóru, sem var fyrsta konan samkvæmt Grískri goðafræði. Seifur lét skapa hana sem lið í refsingu mannkyns fyrir þjófnað Prómþeusar á leyndarmáli eldsins.  Pandóra átti öskju, sem hún mátti alls ekki opna, en gerði það þó sökum sinnar kvenlegu forvitni og hleypti út græðginni, hégómanum, rógnum, öfundinni og  fleiru af  brestum mannlegs eðlis, en lokaði vonina niðri er hún skellti boxinu aftur.

Ég held þó enn í vonina um að við vöknum til lífsins að nýju og lærum að njóta þess eins og það kemur fyrir vit okkar í sinni náttúrlegustu mynd.  Von um að við getum litið á ný til stjörnuhvelfingarinnar og veitt karlinum í tunglinu selskap.  Til þess þurfum við bara að slökkva á kassanum og draga gluggatjöldin frá.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Takk fyrir mig. Frábær lesning.

Jóna Á. Gísladóttir, 6.8.2007 kl. 10:49

2 Smámynd: Bergur Thorberg

Ég kannast við ansi margt í þínum skrifum úr minni eigin bernsku. Enda alinn upp í fjörunni. Talandi um alþjóðavæðinguna í dag undir meingallaðri forystu  Bandaríkjamanna þá var einhver Skandinavismi í gangi í den. Lífið gekk mjög svipað fyrir sig úti í Skandinavíu og hér heima. Það hefur maður séð í heimilarmyndum og lesið sér til. Auðvitað héldum við einhverri sérstöðu hér. En málið er Jón minn að þú setur þetta allt í skemmtilegt samhengi og við trúum á frásögnina. Þú ert einn besti penni sem ég hef rekist á lengi. Áfram með smjörið.

Bergur Thorberg, 6.8.2007 kl. 12:53

3 Smámynd: Laufey B Waage

Yndislegar bernskuminningar. Stórkostlegar lýsingar.

Laufey B Waage, 7.8.2007 kl. 12:57

4 Smámynd: Ívar Pálsson

Þú hefur einstakt lag á því að kveikja myndir í kolli manns og opna heilt háaloft af minningum. Brennandi kortið í upphafi Bonansa þar sem feðgarnir riðu saman í gegn þótti mér snilld, en skondið í dag. 

Raunsæishyggjan sem við aðhyllumst, t.d. í heimsmálum nýtur ekki almennra vinsælda, frekar en rausið í Churchill á milli stríða. Flestum þykir þægilegt að dilla sér í yndælisró, í "den tid, den sorg"- hugsun í Betabylgjubaði sjónvarpsins, þar sem framleiddur dósahlátur á 8 sekúnda fresti lætur þá gleyma ómögulega yfirmanninum sínum eða heilsuleysinu af transfitu-, salt- og sykurátinu í öllum hreyfingarskortinum . En skrif þín er gott mótvægi við slíkt.

Ívar Pálsson, 8.8.2007 kl. 11:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband