Skrúfumaðurinn og Súpermódelin.

Á tískuklakanumEftir viskíauglýsinguna, sem ég talaði um í fyrri færslu, vorum við nokkra daga í að ferja dót yfir til Ammasalik frá Kulusuk og undirbúa næsta verkefni, sem var... ja...sérstakt. Frægur tískuljósmyndari, Peter Lindbergh kom ásamt súpermódelum og föruneyti til að taka tískuljósmyndir á öðrum borgarísjaka.  Þessi jaki var nokkru minni og landslagið hæðótt og abstrakt eins og hæfði. Sennilega var þetta jaki, sem ekki löngu áður hafði snúið sér.

Ég braggaðist fljótt þarna á heilsusamlegri hreyfingu og fersku lofti og naut óendanlegrar fegurðar þessa lands í botn.  Ekki var fólkið síðra.  Kulusuk er eyja og þorpið afar lítið og vinarlegt.  Húsin eru smá og dreifð um kletta, og klungur.  Þarna er ekki stingandi strá að finna og jarðvegur svo lítill að innfæddir grafa sína nánustu undir grjóthrúgum um holt og hæðir. Eina gröf, sá ég meira að segja við tröppurnar á einu húsinu.  Það glitti í kistufjalir milli steinanna.  Mannabein er víða að sjá og gekk Kristján einu sinni fram á börn, sem hann taldi vera í boltaleik. Þegar betur var að gáð þá var boltinn hauskúpa af manni. 

hotel-kulusukÞessi nálægð við dauðann er einkennandi þarna.  Þetta er þjóð mikilla harma og örlaga. Veiðimenn farast oft á ísnum og lenti ég einu sinni í leitarflugi með Tómasi flugmanni til að reyna að finna ungan pilt, sem ætlaði að fara gangandi til Ammasalikeyju. Hann hafði verið drukkinn, þegar hann fór af stað. Hann fannst ekki.  Áfengið setur því líka sín skörð í raðir þessa góða og jarðnæra fólks og leið varla sá dagur að maður læsi ekki um harmleiki og morð því tengdu.  Í Kulusuk var þetta þó ekki eins áberandi og víða annars staðar.  Þetta er veiðimannaþjóð, sem enn er ekki blönduð dönsku blóði og menningaráhrifum að ráði, þótt á undanhaldi sé í þeim efnum. Fólkið er hæglátt og brosmilt og á mikið af börnum, sem þau ala upp af alúð við þröngan kost í litlum húsum. Ekki er óalgengt að hjón eigi 6-10 börn, sem rúmast mega í kofa sem er aðeins um 25-30 fermetrar að gólffleti.  Það sló mig strax þessi nægjusemi og rólega fas. Engin yfirborðsmennska var til.  Ef við gáfum þeim eitthvað þá tóku þau við því án þess að þakka fjálglega og fjargviðrast að vestrænum sið. Bros var látið nægja og stundum lyfti það brúnum og sagði :”Íh.”, sem er afar krúttlegt já, sem bræðir öll hjörtu.  Morgundagurinn virtist mér algerlega óþekkt hugtak þarna.  Ef maður reyndi að ræða hann eða spá í veðrið þá horfðu menn í tómlegri undrun og ypptu svo öxlum.  “Maske.” Sögðu sumir. Morgundaginn varðar engan um, enda hefur enginn vald yfir honum á þessum mörkum byggilegs heims.  Þetta er menning, sem uppgötvaðist ekki fyrr en fyrir um 100 árum og náttúrutaugin því ekki slitin enn.

dauður björnEitt kvöldið kom veiðimaður með stóran ísbjörn af veiðum. Fólkið beið við verslunina og það hafði frést af komu hans, töluvert á undan.  Þegar hann kom með flikkið í hlað á sleðanum sínum varð mikill fögnuður og konurnar hentu smámyntum upp í loftið og jóðluðu og kyrjuðu ókennilegan söng.  Svo var birninum dröslað að húsi veiðimannsins og var þessu hálfa tonni hnoðað og velt inn á eldhúsgólf þar sem eldri konur tóku að flá með bogamynduðum hnífum, sem líktust litlum tóbaksjárnum. Þetta var gert af þvílíkri natni að hver einasta kjúka var beruð með nákvæmni nútíma skurðlækninga.  Börnin fengu sinn bita og brostu eins og þeim var einum lagið með blóðkleprana út á kinnar.  Við fengum með okkur bita af kjöti upp á hótel, sem var mauksoðinn fyrir okkur, því ísbjarnarkjöt ku innihalda hættulega orma. Þetta bragðaðist einna helst eins og lopavettlingur í kjötkrafti.

Næmni þessa fólks og tengsl við náttúruna var svo ótrúleg að mig skortir orð.  Eitt sinn, þegar ég var í hundasleðaferð þá pikkaði Inúítinn í mig og benti og pataði. Ég sá ekkert í þessu víðerni og skerandi birtu. Það var ekki fyrr en hann stoppaði og benti að ég sá örlítinn svartan díl, langt í burtu. Það var selur.  Það er engin leið að menn sjái svona á fullu við að stjórna hundum og á fleygi ferð.  Hann fann þetta bara á sér maðurinn.  Einhverskonar innbyggður selaradar.

lifandi björnEf maður fer til austur Grænlands, þá er eins gott að hafa allt með sér, sem maður getur ímyndað sér að maður hafi not fyrir.  Verslunin er afar frumstæð og miðast fyrst og fremst við grunnþarfir. Náttúran sér fyrir mestu.  Þarna svífur líka nýlenduandi hins maðkaða mjöls yfir vötnum.  Ég man ekki eftir að hafa séð neitt þarna, sem ekki var komið langt fram yfir dagsetningu. Sumt var jafnvel orðið 3ja eða 4ra ára gamalt í krambúðinni eins og mjölvara ofl.  Ég undraði mig á þessu.  Jafnvel kaffirjóminn á hótelinu var kominn vel yfrir árið og flaut í einum samhangandi kekk ofan í bollanum. Sumir sögðu þetta vera vegna þess að aðeins er flutt inn vara á sumrin, en mér fannst það ekki skýra þetta.  Heyrði ég að til væru lög, sem leyfðu innflutning á útrunninni vöru og fékk ég það staðfest sjálfur þegar ég sá kartöfluflögur frá Maarud, nýkomnar úr flugi. Þær voru þá þegar komnar 2 mánuði fram yfir fyrningardag.  Ég hugsaði með mér að illt væri að kenna gömlum dönskum hundi að sitja í þessum málum.  Gamla einokunin virðist enn í fullu fjöri þarna.  Í verslununum ægði öllu saman: Pottum, baunadósum, haglabyssum, bjór, nöglum, sykri, skotfærum og snæri.  Í Ammasalik eru meira að segja til haglaskot og riffilskot í bakaríinu og er þeim stillt út við hliðina á heitu vínarbrauði, sem mér fannst skemmtilega glæfralegt.

Kvikmyndagerðar menn á ferðEitt sinn vorum ég og Þorkell Harðarson að smíða samanbrjótanleg borð úti á Kulusukflugvelli, sem áttu að flytjast með þyrlunni út á jaka.  Skrúfurnar, sem við vorum með, voru of langar svo ég rölti niður í þorp til að athuga hvort krambúðin ætti betri skrúfur. Eftir að hafa rótað í skiplagslausri vöruhrúgunni fann ég aðeins gamlan pappasaum á milli Barbiebaðkars, veiðihnífa og brjóstsykurs. Ég reyndi því að bera mig undir innanbúðarfólk, sem benti mér á að það væri aðeins einn maður, sem hugsanlega gæti bjargað mér.  Þetta var slökkviliðsstjórinn.  Slökkvistöðin var í litlum kofa niður við sjó.  Ég skrölti þangað og fann skrúfumanninn, þar sem hann var að dytta að slökkvi-hundasleða.  Slökkvibíll staðarins var hundasleði með fornfálegri dælu ofan á. Maðurinn tók mér vel og dreif mig út á snjósleða, sem í raun eru sjaldgæfir þarna.  Ástæðan segja þeir að sé sú að þegar menn lenda í vondum veðrum, þá rati vélsleðarnir ekki heim eins og hundarnir.

PeterLindberghSlökkvistjórinn þeysti með mig á sleðanum upp um hæðirnar og að húsinu sínu, sem trónaði á stultum ofan við þorpið. Við gengum inn í býslagið eða anddyrið, þar sem hann dró fram majonesfötu, fulla af alskyns nöglum, skrúfum, gormum og splittum.  Þessu hellti hann á gólfið og bauð mér að finna það sem ég leitaði að.  Og viti menn, ég fann nægilega margar og akkúrat passandi skrúfur í hrúgunni.  Þetta bjargaði alveg deginum fyrir okkur, svo ég vildi borga honum en þar var engu tauti við hann  komið. Bara ánægjan ein.  Ég rölti svo þennan rúma kílómeter aftur til baka og okkur Kela tókst að klára ætlunarverkið áður en hin furðulega myndataka átti að byrja.

O'ConnorÉg hafði aldrei heyrt um þennan “heimsfræga” ljósmyndara né þessi “heimsfrægu” módel.  Fólk virtist hissa á því að ég kom ekki Kirsten Owen, Annie Morton og Erin O’Connor fyrir mig eins og þær hefðu verið húsgangar alheimsins frá upphafi.  Þær voru ekki mikið fyrir manneskjur að sjá, grindhoraðar og tinandi á pinnahælunum, brostið augnaráð og sviplaus andlit. Þær voru meira í ætt við geimverur í þessu stórbrotna umhverfi, með kinnfiskasogna rassa og brjóstalausar eins og unglingspiltar með átröskun.  Ekki var fylgdarliðið árennilegra. Förðunarmeistarinn var "screeming gay" með máluð augu og tiplaði um jakann með rassaköstum og sló allan stúlknahópinn út í kvenlegheitum. Við hinir, þessar heimskautahetjur með sprungnar varir, skeggjaðir og sólbrenndir vorum heldur langleitir yfir þessu öllu. Undarlegast fannst mér úthald þessara melstráa af manneskjum að vera.  Þær stóðu þarna í nælonslæðum einum fata, grafkyrrar og með dreymandi svip svo klukkustundum skipti án þess að kvarta. Kuldinn var mikill og við svo dúðaðir að aðeins sást í augun.  Það er þó merkilegt við kuldann þarna að hann er þægilegri en hér. Enginn vindur og núll raki í loftinu. Engu að síður þurftum við að smyrja spænsku blakmeistarana með ullarfeiti í fyrra verkefninu til að einangra frá þeim kuldann. Samt mjálmuðu þeir og kvörtuðu út í eitt.

Kirsten OwenÞarna réð hégóminn og yfirborðslistarembingurinn ríkjum.  Það var gaman að sjá leiðsögumanninn hans Kristjáns hann Ulrik Sanimuniaaq fylgjast með þessu.  Hann þessi samanknýtti reynslubolti og veiðimaður, sem var eins og leðurtaska í framan, sat þarna með hundinum sínum með spaklegt glott á vör og pípu í munni.  Það mátti næstum lesa hugsanir hans um hve gildismat hvíta mannsins var nú komið langt frá því sem máli skiptir í henni veröld.  Í þessari ísvíðáttu var auðvelt að játa vanmátt sinn fyrir náttúruöflunum, lúta í auðmýkt valdi þeirra og reyna að lifa með þeim í sátt.  Það kunnu Grænlendingar.

UlrikÉg sá síðar þessar ljósmyndir í tildurtímaritinu Vouge.  Þetta var myndþáttur fyrir tískuveldi Donnu Karan og ég er nokkuð viss um að engum datt í hug að þetta var tekið á staðnum, hvað þá á borgarísjaka úti á ballarhafi.  Svo óraunverulegar voru þær og absúrd að það hefði alveg eins verið hægt að mynda þetta með ljósmynd af landslaginu í bakgrunni. 

Eftir þetta var ég um tíma í Tasilaq, sem er bærinn á Ammasalikeyju eða Loðnueyju eins og það þýðir víst.  Þar hafði “menningin” náð traustari fótfestu.  Því segi ég frá síðar og kem meira inn á skuggahliðar þessa framandi samfélags, sem er ekki lengra í burtu en sem svarar flugi á Egilstaði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

 Alsæll vertu og ævinlega margblessadur bædi i bak og fyrir!

Komst loksins i tølvu med godu sambandi. Sit her a litilli eyju (Røst) i Lofoten. Buinn ad vera sambandslaus i 2 vikur. Hingad ættir thu ad koma og skrifa eitt af thinum fallegu bloggum:

Kvedja: asgeir

Ásgeir Rúnar Helgason, 9.8.2007 kl. 18:33

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Sæll kæri vin.  Það er gott að segja sig úr tæknivæðingunni annað slagið og ég vona að þú njótir þess til hins ýtrasta.  Sjálfur er ég á Sigló í góðu yfirlæti og er svo önnum kafinn að ég fæ lítinn tíma í bloggið. Þess í stað, hef ég verið að henda inn einskonar best of bloggum, svona svo síðan staðni ekki um leið og ég vil hafa ofan af fyrir nýrri bloggvinum.

Jón Steinar Ragnarsson, 9.8.2007 kl. 19:51

3 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Tók mig heila eilífð að vinna upp lesturinn á síðunni þinni Jón Steinar!! Prentaði dótið út skemmti mér vel. Færð alla uppsöfnuðu gullhamrana á einu bretti!!! 

Heiða B. Heiðars, 9.8.2007 kl. 20:07

4 identicon

"Þarna svífur líka nýlenduandi hins maðkaða mjöls yfir vötnum" Engu líkara en Þórbergur nokkur Þórðarson tali í gegnum þig.

dh (IP-tala skráð) 21.8.2007 kl. 06:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband