Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Sáðmaðurinn Blindi.

verkamenn

  Ég fór að velta upp gömlum síðgelgjuþönkum við Gunnar, vin vorn, Svíafara, sem fólu í sér vangaveltur um það að allar gjörðir okkar,  orð og athafnir hafi áhrif á lífið umhverfis okkur í lengra eða skemmra samhengi.  Við vitum það oftast ekki eða hugsum ekki út í það en allar hræringar hins síbreytilega heims hafa sín áhrif í stóru og smáu. Stundum strax...stundum eftir aldir. 

  Hugsanir okkar og gjörðir móta líf okkar. Viðhorf okkar til lífsins og samferðarmanna stjórna líðan okkar og viðkomu, en ekkert geistlegt afl, sem heldur registur um hræringar okkar og kemur svo með launaumslagið á efsta degi, fullt eða tómt.  Allt á sér eitt allsherjar orsakasamhengi.  Til þess að verða ekki of djúpur og tyrfinn hérna, langar mig að segja ykkur sanna sögu þessu til útskýringar.

  Þessa sögu heyrði ég gamlan mann segja, en hann er nú löngu dáinn sá öðlingur.  Sagan er að sjálfsögðu ekki orðrétt endursögn en er eitthvað á þessa leið:

   "Þegar ég var um tvítugt, þá var ég að vinna sem verkstjóri við eina af fyrstu stóru virkjununum hér.  Það voru mikil uppgrip fyrir mig svona ungan mann og mikil ábyrgð, sem á mér hvíldi.  Þetta var á árum hafta og miðstýringar og atvinnuástand bágborið víðast hvar, svo ég var einn hinna heppnu má segja.  Af þessum sökum var mikil ásókn í störf þarna en sjaldan, sem losnaði pláss nema fyrir einhverja ógæfu, slys eða veikindi.  Var því eins dauði oft annars brauð í því samhengi. 

Ég var stöðugt að vísa mönnum frá og leið illa yfir að þurfa að sýna slíka festu og virðast svo harðlyndur, því margir voru þeir sem voru á barmi örvæntingar og höfðu fyrir öðrum að sjá.  En þetta var engin góðgerðarstofnun því miður. Það var líka eitt viðkvæða minna.

sáðmaðurinnEinu sinni kom til mín ungur og prúður piltur og bað mig um vinnu.  Hann hafði fyrir veikri móður að sjá og systkinum,  en hafði verið atvinnulaus í marga mánuði og sást það á holdafari hans og klæðaburði.  Augun voru með votri slikju beiningarmannsins og hendur og haka skulfu.  Ég þekkti til hans í heimabæ mínum og vissi að hann var heiðvirður og góður og sinnti sínum framar sér, svo ég leið sálarkvöl fyrir að vísa honum á braut.  En svona var veruleikinn og lítið gat ég gert,  þótt hann væri svo aumur að ég þyrfti að lána honum fyrir rútunni heim.

  Síðla þessa dags var ég við störf og  pilturinn vék ekki úr huga mér.  Þá kom til mín einn af verkamönnunum og minnti mig á að hann væri að flytja erlendis og var að árétta að launin kæmu á réttum tíma, svo hann kæmist burt, viku seinna.  Ég hafði gleymt þessu og skyndilega fékk ég eina af mínum vitleysisflugum í höfuðið, sem oft hafa komið mér um koll á lífsleiðinni.  Ég hljóp niður á veg til að gá að horaða piltinum, því ég vildi að bjóða honum starfið.  Það var þó vika í að ég mætti það en ég vildi ráða hann strax í eitthvað smálegt og hugsaði mér að ég myndi greiða honum sjálfur þessa fyrstu viku ef ég lenti í vandræðum fyrir frumhlaupið. 

Afi og strákur  Þetta var vanhugsað og hefði getað kostað mig sjálfan vinnuna, en ég lét þó slag standa. Ég fann drenginn þar sem hann sat á steini og beið rútunnar, og réði hann.  Hann fór að gráta, svo hrærður var hann.  Að vísu þurfti ég að leita logandi ljósi að einhverju smálegu að gera fyrir hann, þar til staðan losnaði, en það blessaðist.  Ég sá eftir þessu í fyrstu og bölvaði mér fyrir veiklyndið, en það kom í ljós að þessi drengur var afbragðs verkamaður, útsjónasamur og duglegur og lynti vel við alla menn.

  Til að gera langa sögu stutta, þá felldu hann og ein af ungu matseljunum okkar saman hugi og var það dýpra en matarástin ein, því þau giftu sig þá um veturinn.   Hann vann svo hjá okkur næstu tvö ár eða svo og síðan missti ég sjónar af honum og gleymdi honum svo í tímans rás.

  Ég giftist fór að búa og eignaðist börn eins og gengur og gerist. Mörgum árum síðar kom dóttir mín til mín og var svolítið hikandi og taugaóstyrk.  Hún sagðist vera orðin ástfangin og komin með kærasta, sem hún vildi kynna fyrir mér.  Þetta var mér eilítið áfall því slíkt þýðir að barnið mitt hyrfi á braut innan tíðar.  Hún sem hafði fyrir leiftri einu kúrt við barm minn lítið barn. Nú var hún fullvaxta og sjálfstæð kona, stolt mitt og gleði.  Mér var því ekki sama hver þessi kauði var.

afi og strákur við sjóDrengurinn reyndist þó bæði prúður og gjörvilegur og kunni ég strax við hann því það var eins og ég þekkti eitthvað í honum.  Það voru augun og hollningin öll og ákveðnir taktar, sem ég þóttist þekkja en kom ekki fyrir mig.  Skýringin kom þó strax við fyrstu eftirgrennslan.  Þetta var sonur verkamannsins, sem ég hafði aumkað mig yfir og matseljunnar ungu í virkjuninni forðum.

Þau giftu sig síðar og eignuðust yndisleg börn, dóttir mín og hann og nú þegar ég sit úti í garði í ellinni og horfi á þau leika sér, eða þegar þau kúra við brjóst mér og ég fæ að segja þeim sögu,  þá fyllist ég þessari undarlegu gleði og þakklæti yfir undrum lífsins.  Þakklæti yfir þessari gjöf sem fyllir gráa daga mína ljósi og fölskvalausri elsku.

Við erum okkar eigin gæfu smiðir í stóru og smáu án þess að ætla það né vita.  Í lífinu uppskerum við eins og við sáum. Það eru gömul sannindi og ný.   Við erum þó líkari blindum sáðmanni og er það oft tilviljunum háð hvort uppskeran er góð eða ill.  Það er því vert að leiða hugann að hugsunum sínum og gjörðum hverja stund, því uppskeran kemur óhjákvæmilega.  Mín reyndist verðmætari en gull og gersemar."


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband