Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Kroppað í Rembrandt.

(Sjálfstætt framhald fyrri færslu)

stormurM.S. Lagarfoss var stéttskiptur heimur fólks sem mér fannst hafa sagt sig úr tengslum við mannlífið í landi.  Þar giltu sérstakar umgengnisvenjur og verkaskipting og skipstjórinn hafði þar allt vald. Hann hafði meira að segja skammbyssu í skúffu sinni, sem honum var frjálst að nota í neyð.  Hér öfluðum við tekna okkar og hér eyddum við þeim.  Við hefðum þess vegna getað verið í geimskipi á braut um jörðu. 

Reglubundin hægð ríkti í þessum veltandi og vaggandi heimi og ofviðri var nánast kærkomin tilbreyting frá lognmollu hversdagsins.  Þessi regla losnaði þó í reipum þegar nær dró landi.  Kokkurinn grét þegar við sigldum Eyrarsundið af því að þá minntist hann barnanna sinna og fyrrverandi konu, sem hann hafði ekki séð í fjölda ára.  Svo fór hann að drekka.  Það drukku raunar allir.  Aðgerðarleysið við að liggja á ytri höfninni við Leníngrad kallaði á það.  Enginn viss hvort eða hvenær við kæmumst að landi.  Duttlungar hafnaryfirvalda réðu því. 

fullur sjóariOft gekk þetta fyllerí alveg úr böndum og menn urðu ruglaðir af langvarandi drykkju.  Doddi félagi minn í vélinni, var kallaður var “deyjari”.  Það var stytting á titlinum “dagmaður í vél”.  Hann var einn af þessum óutreiknanlegu drykkjumönnum, sem missti alla stjórn, þótt hann væri bara um 17 ára.  Deyjaranafnið átti ekki síst við í því samhengi að einatt drakk hann sig dauðann, en áður en að því kom, fékk hann æðisköst. Hann  braut allt og bramlaði og það varð nánast að kefla hann, svo hann yrði ekki sér og öðrum að fjörtjóni.  Stundum sló hann til mín eða tók mig kverkataki.  Inni í honum kraumaði óskapleg reiði, sem ég kunni aldrei nein skil á.  Annars var hann hinn besti drengur, gamansamur og hjálpsamur þegar hann var edrú. 

vetrarhöllinLeníngrad var borg mikilla andstæðna.  Ríkmannlegar byggingar og breiðstræti vitnuðu um forna frægð.  Fallegar kirkjur með gylltum næputurnum blöstu hvarvetna við, en búið var að negla fyrir alla glugga á þeim.  Guði hafði verið úthýst í þessu landi og aðeins einn átrúnaður leyfður.  Hinn óskiljanlegi kommúnismi.  Mitt í þessum glitrandi heimi göfugrar byggingarlistar og auðlegðar, var fólkið jafn hnípið, óttaslegið og kuldalegt og það var í Múrmansk. Hér ríkti alræði öreiganna.  Eignarrétturinn hafði verið afnuminn og enginn átti né mátti eiga neitt. 

Áin Neva rann seigfljótandi og illa þefjandi milli flúraðra brúarstólpa og gulleitir froðuflákar flutu um hana eins og mygluskán.  Hér hafði einhveratíma verið líf og reisn, en ekki lengur.  Fámennt var á götum úti.  Mest voru það “offiserar” með þessi hjákátlega og stóru kaskeiti á höfði og líktust persónum í fáránleikhúsi Fo.   Ég undraðist oft hver tilgangur þessara manna í síðu borðalögðu ullarfrökkunum væri.  Allir voru þeir með skjalatösku, sem lýsti ábúðarmiklu valdi.   Leyniþjónustan? Herinn? Lögreglan?  Sennilega voru þeir eitthvað af þessu öllu, því hér var þeirri frumskyldu að eignast aldrei neitt, framfylgt með lögreglu og hervaldi.  Á freistingum gæt þín annars...

verðirEitt sinn sat ég í sporvagni, sem var úr timbri og líklega síðan um aldamót.  Þá settist einn slíkur “offiser” í sætið hinum megin við mig og opnaði skjalatöskuna sína.  Í henni var mjólkurflaska og brauðbiti.  Ekkert annað.  Hann maulaði bitann sinn og saup á mjólkinni með þetta brostna augnaráð tilgangsleysis og vonleysis, sem var svo sammerkt með því fólki, sem varð á vegi manns.

Vetrarhöllin eða Hermitage var ein glæsilegasta höll í heimi.  Hún stóð þarna við Nevubakka og menn bentu stoltir á kúlnagöt við innganginn, sem báru byltingunni vitni.  Verið var að reisa margra mannhæða hátt skilti af Lenín við gafl hennar.   Aðrir voru að skreyta allt með blóðrauðum fánum við torgið, þar sem Pétur mikli trónaði ofar öllu á súlu.  Það var byltingarafmæli í vændum,  Októberbyltingin, "frelsunin."  Mér sýndist þó eftirvæntingin fyrir þessum tímamótum vera fjarri í ásýnd verkamanna, sem unnu þetta verk.  Hér var fólk skuggar.  Einstaklingseðlið hafði verið afnumið með valdi.  Enginn stóð út úr.  Allir voru eins og forðuðust að draga að sér athygli. 

Tröppur í vetrarhöllVetrarhöllin var opin til háðungar auðvaldinu.  Þangað komu Rússar til að fussa og sveia yfir lystisemdum mannlegs hugvits og handverks.  Hér komum við til að sýna þessum sömu gildum lotningu.   Þarna gat að líta útskorna marmarastiga, tignarlegar styttur, gyllt laufskrúð og lamineruð gólf með ótrúlegu mynstri.  Risastór málverk voru á veggjum af fyrrum valdboðum þessa víðfeðma lands í gullslegnum römmum, sem nánast blinduðu augu orðlausra drengja frá bárujárnsmekkunni á norðurhjara. 

Allt, sem ég hafði áður séð féll í skuggann fyrir hinum minnsta grip, sem fyrir augu bar.  Herbergi eftir herbergi, salur við sal af gulli og gersemum.  Eitt herbergi hýsti bara klukkur, sem ekki er hægt að lýsa í orðum.  Annað hafði bara taflborð og taflmenn, sem gerðir voru af slíkum hagleik að ég hef aldrei síðar séð nokkurn samjöfnuð.  Svo voru  meistararnir sjálfir þarna. 

old-manMichaelangelo, Rafael, Rembrant og nánast allir af hinum stóru meisturum viðreisnarinnar og hágnæfunnar prýddu þessa sali.  Manni entist ekki tími til að skoða nema brotabrot af þessari dýrð;  rétt skyggnast inn fyrir anddyrið.   Gamlar “Babúskur” sátu dottandi eða sofandi á stólum og gættu auðæfanna.  Ég gat gengið upp að mynd af gömlum manni eftir Rembrandt og látið fingurna líða eftir pensildráttum meistarans... sem áður var stjórnað af lifandi taugum, eins og Jón Helgason orti í Árnasafni.   Ég var eins og utan líkamans í þessum töfraheimi.  Kroppaði í myndir eftir aldna meistara eins og mig væri að dreyma.  Meitilför Michaelangelos voru sýnileg í ókláraðri styttu af krjúpandi dreng og ég tengdist þessum eldhuga og snillingi í gegnum snertingu við þessi hrjúfu för. 

Þarna opnaðist fyrir mér nýr heimur.  Mér fannst ég skilja tilgang og eðli listarinnar.  Hann lá í handverkinu.  Hvort sem um ljóð, sögu, málverk, tónverk eða höggmynd var að ræða, þá var það handverkið, sem réð því hvernig til tókst að hlutgera stórkostlegar vitranir hugans.  Hugsýnir sem á hinn bóginn virtust eiga sér bústað ofan og utan við manneskjuna.  Leiftur frá alvitundinni.  Þessi tengsl hugar og handar voru nauðsynleg til að koma þessum auð til skila, svo aðrir gætu notið.  Fingur Chopin, slettur Pollocks, hárfínt ljósið hans Rembrands og geistlegur mikilfengleiki mannslíkamans í meitilförum Michaelangelos.  Þetta snerist allt um samband anda og efnis.  Virðingarleysi við þá staðreynd eða hálfkæringur, dæmdi sig sjálft undir meðalmennsku eða sjálfhverfa sýndarmennsku.  List verður ekki til fyrir hjárænulegt káf og blaður, sem snýst fyrst og fremst um persónu sjálfskipaðra listamanna.  List er ögun huga og handar til að þjóna einhverju æðra í fullri auðmýkt.  Það er skoðun sem ég mótaði mér þarna við hvíslandi kyrrðina í sölum Vetrarhallarinnar. 

michelangeloMikilfengleiki mannsandans var fjarri þegnum Leníngrad.  Þvert á móti var þessi dýrð tengd kúgun auðvaldsins í hugum þeirra og syndsamleg samkvæmt rétttrúnaði kommúnismans.  Þeir sáu háð en ég mætti alvitundinni sjálfri undir fjögur augu, ef svo má segja.   Lygin var hlutskipti þessarar þjóðar. Ánauð frelsi, fátækt auður, dauði líf . Í litlu ólíkt öðru trúarbragðadogma.

Byltingin var ekki bylting verkamanna.  Hún var uppþot valdgráðugra menntamanna.  Verkamenn voru ekki nema örfá prósent af íbúum þessa lands.  Hitt voru bændur, sem leystir voru frá eignum sínum og látnir þræla fyrir korngeymslur hinna nýju herra, sem síðan dreifðu uppskerunni að geðþótta um hið víðfeðma land - eða ekki -  eftir því hvernig dagsformið var. Sex milljónir bænda urðu hungursneyð að bráð fyrstu ár byltingarinnar.  Byltingarelítan steypt ekki einu sinni keisaranum. Keisarinn hafði sagt af sér vegna uppreisnar í hernum, löngu áður en hinir bitru menntamenn tóku við.  Landið var í sárum og stjórnlaust og þessir tækifærissinnar nýttu sér umkomuleysi bræðra sinna. 

sæluríkiðBolséviki þýðir einfaldlega meirihluti í Dúmunni, Mensévíkar þýddi minnihluti.  Bolsévismi er því ekki stefna eða hugsjón heldur einræði eftir geðþótta þessa meirihluta er stýrði hverju sinni.  Þeir sem settu sig upp á móti þessum meirihluta, voru einfaldlega drepnir eða sendir í fangabúðir og milljónir hugsandi manna voru þurrkaðar þannig út.  Ekki að undra þótt atkvæðagreiðslur væru samhljóða á þeim bæ. 

Málfrelsi og skoðanafrelsi var afnumið. Eignarréttur var afnuminn.  Trúarbrögð voru afnumin og allar eignir kirkjunnar þjóðnýttar.  Mótmæli voru bönnuð.  Ferðalög og búferlaflutningar voru bönnuð nema með leyfi yfirvalda.  Yfirvöld gátu líka heimtað að fólk flytti án fyrirvara á milli héraða og skildi allar sínar nytjar við sig.  Þetta var alræði öreiganna sem lagði samkvæmt orðanna hljóðan,  þá skyldu á þegna sína að vera öreigar.  Mannlegt frumkvæði var drepið niður.  Ef verksmiðjur uppfylltu kvóta sinn voru menn verðlaunaðir með hærri kröfu um framlegð.  Það varð til þess að menn hættu að leggja sig fram.  Mikill þrældómur þýddi meiri þrældóm.

NæpurRússland hrundi innanfrá og menn viðurkenndu loks að kommúnisminn var glapsýn.  Í landinu var fyrir forréttindastétt, sem kallaðist Nómenkladían.  Fólk, sem fékk allt frá ríkinu, sem hugurinn girntist.  Þetta fólk fékk ríkisfyrirtækin á silfurfati í hendur eftir hrunið og landinu var steypt í andstæðar öfgar auðhyggjunnar á einni nóttu.  Það er ekki síðri hörmung og þjáningar þessa góða fólks eru langt frá því á enda runnar.
 

Að tengja þetta verkalýðsbaráttu upp á Íslandi, eins og margir gerðu og gera enn,  eru mér óskiljanleg öfugmæli.   Hér var barátta um jafnari kjör og rétt til að eignast þak yfir höfuðið.  Rétt til að geta borið höfuðið hátt.  Rétt til mennta og heilsu.  Íslendingar voru í sömu sporum og Rússar nú eftir aldalanga kúgun.  Auðurinn, sem fylgdi því að öðlast sjálfstæði og njóta afrakstur fiskveiða okkar, varð til þess að í byrjun sótti auðlegðin á fáar hendur og forréttindastétt myndaðist.  Þetta voru eldhugar, sem í hagnaðarvon og bjartsýni leystu okkur úr fjötrum fátæktar.  Þeir kunnu sér þó ekki magamál eins og manninum er tamt og þurftu aðhald.  Vinstrimenn veittu þetta aðhald hér;  tókst að leiðrétta ójöfnuð og krefjast launa í samræmi við framlegð; sýna fram á að með betri viðkomu alþýðunnar, yrði vöxturinn meiri og að allir gætu hagnast.   Menn sáu loks tilgang með streðinu og var umbunað fyrir.  Í Rússlandi voru verkföll bönnuð og engum leyfðist að heimta meira en hann fékk.  Geðklofinn í þeirri túlkun að um skyldar hugsjónir væri að ræða er augljós. 

grósserVinstribaráttan er barátta um sanngirni frekar en algeran jöfnuð.  Barátta um að við fáum að njóta ávaxtanna í hlutfalli við uppgang efnahagsins.  Barátta um að geta gengið með reisn og séð sér og sínum farborða.  Að geta tekið sér hvíld og notið lífsins utan brauðstritsins.  Barátta um að geta hlúð að afkvæmum sínum og notið þess og gefið það sem andinn þarfnast.  Barátta um tjáningarfrelsi, sem var grundvöllur þessa alls.

Ekkert af þessu var raunin í veldi kommúnista.  Þeir sem viðurkenna að eitthvað hafi hlutirnir skolast til í Rússlandi,  en halda því samt fram að hugsjónaofstæki kommúnískrar hugmyndafræði eigi rétt á sér,  geta skoðað Kambódíu, sem reyndi að framkvæma þessa þjóðfélagsuppskrift samkvæmt bókinni.  Morðæðið þar gerir Pol Pot samt að kátlegum “wannabe” við hliðina á Lenín og Stalín.

verkamennVinstri jafnaðarstefnu er þörf í dag, stefnu sem byggir á jöfnum rétti manna til afkomu.  Slík stefna getur aldrei stjórnað því hvort menn eru duglegir eða latir eða jafn afkastamiklir eða greindir, jafn hógværir eða gráðugir.  Þar á jöfnuðurinn sér takmörk og er utan seilingar valdboðsins.  Hringamyndun og auðsöfnun fárra einstaklinga í dag, er aðkallandi aðhaldsefni okkar.  Viðvörunarbjöllurnar hringja allstaðar.  Ójöfnuðurinn eykst í réttu hlutfalli við vaxandi hagtölur.  Frumskógarlögmál frjálshyggjunnar ríkir þar sem lögin eru sveigð og beygð í gegndarlausu gróðaæði hinna fáu á kostnað hinna mörgu.   Lögin okkar ná ekki yfir samráðsglæpi og viðskiptasiðleysi.  Fyrirtæki eru einstaklingar með kennitölu og eiga að lúta sömu lögmálum og þegnarnir.  Fyrirtæki taka þó aldrei ábyrgð né verða þau sett í fangelsi.  Hér valsa fulltrúar auðhyggjunnar út og inn um þingið og breyta lögum, afnema verðlagseftirlit, lækka á sig skatta, rýmka viðskiptalög, selja sjálfum sér sameign þjóðarinnar og liða ríkisvaldið kerfisbundið í sundur.  Valdið, sem er okkar eina haldreipi um samtryggingu.  Enginn flokkur hefur lofað að sporna við þessu.  Vinstrimennska í dag er hjákátlegt framapot rómantískra náttúrudýrkenda.

Jafnaðarmennskan hefur verið skrumskæld í pólitískan réttrúnaðarfasisma, sem segir umburðarlyndi og virðingu fyrir öllu vera algilt. Gagnrýni er móðgandi og frelsi til hennar takmarkað. Ritskoðunarandi sovétríkjanna svifur þar yfir vötnum. Samfélagsumræðan er í gíslingu móðgana og heilagrar hneykslunnar. Ef krafan er að hommum, sé sýnd virðing, skal einnig sýna trúarbrögðum, þrýstihópum, skoðunum, stefnum og markmiðum virðingu og umburðarlyndi, sama hversu andfélagsleg umgjörðin er. Þrýstihópar ráða för. Markmið jafnaðar marg klofin í persónulegum kýtingum og tribalisma. 

Umburðarlyndi á sér takmörk og er ekki algilt og ekki er hægt að neyða neinn til þess frekar en að neyða einhvern til að vera glaðann við hvað sem er.  Móðganir á að blása á því tjáningafrelsi er ofar slíku. Móðgunin liggur alltaf í túlkun hins móðgaða og nú er slíkt notað að vopni til að drepa niður orðræðuna eftir hentugleikum. Raunar er móðgun vísasta merkið um að sá sem móðgar, hafi snert við sannleikanum. Kalli maður horaðann mann feitann, þá hlær hann en kalli maður feitan mann feitann, þá móðgast hann. Þannig virkar það.

kambodiaÞað er þrennt ólíkt, hugmyndafræðin, sem samfélag byggir á,  mennirnir sem túlka hana og framkvæma og svo fólkið, sem þarf að lúta henni.  Við sem lútum erum 90% þjóðarinnar.  Það er því ekki spurning um rétt okkar til að sporna gegn kúgun og spillingu, heldur vald okkar til að halda slíku í skefjum.  Það vald ætti að birtast í því, sem upp úr kjörkössunum kemur því hér ríkir lýðræði að nafninu til að minnsta kosti.

Ég hef ætíð reynt að mynda mér skoðanir út frá reynslunni.  Reynsla mín á unglingsárum af siglingum til Sovét sannfærði mig um að jöfnuður er mögulegur upp að vissu marki, sem takmarkast af misjöfnu upplagi og getu einstaklinga.  Jöfnuður þarfnast stöðugs og ákveðins aðhalds, annars eru sumir einstaklingar vísir með að ganga of langt, eins og reynslan sýnir.  Forsjá og ríkisafskipti eru ekki hnjóðsyrði, eins og skilja má af hægrimönnum.  Þau eru grunnur okkar samfélags.  Við erum ríkið.  Forsjáin og afskiptin eiga sér þó einnig takmörk.  Það felst í orðinu jöfnuður.  Agi á sín takmörk og frelsi á sín takmörk, jafnt í uppeldi barna sem í uppeldi þjóðar.  Engin pilla leysir það af hólmi.
 

hamingjusöm fjölskyldaÉg missti strax sjónar af félögum mínum á Lagarfossi;  fór í Þorskastríð eins og ég segi frá í fyrri færslum hér.  Ég heyrði þó af Dodda vini mínum "Deyjara".  Hann drap mann í ölæði á nýársnótt, nokkrum árum síðar, og var kallaður Doddi "Drepari" í okkar kaldhæðnu kreðsum eftir það.  Hann sat 10 ár í fangelsi en var ekki búinn að njóta frelsis nema í einn eða tvo daga úti þegar hann drap annan mann á fylleríi.  Nú er hann kallaður Doddi "Double" og býr enn á Litlahrauni.

Við erum misjöfn mennirnir og eigum ekki alltaf samleið.  Við erum gráðug af því við óttumst skort.  Við óttumst skort af því að við erum gráðug og höfum tamið okkur að hrifsa til okkar gæðin án tillits við samborgara okkar.  Þess vegna þurfum við að verða ásátt um kerfi, sem veitir okkur aðhald. 

eitt og samofiðÞað kerfi þarf að byggja á jafnvægi mannlífsöfganna.  Hinum gullna meðalvegi.  Það  útheimtir líka stöðuga vinnu.  Endanlegar patentlausnir eru ekki til.  Andstæður eru einu sinni þannig gerðar að þær geta ekki án hvorrar annarrar verið.  Ekki er hægt að útrýma annarri án þess að útrýma hinni.  Slíkt er einfaldlega ekki hægt.  Það sáu Karl Marx, Engels, Lenín, Stalín og Pol Pot ekki fyrir.  Þar skilur á milli raunverulegrar menntunnar og hugmyndafræðilegrar innrætingar.  Eitthvað sem lærist í lífsins skóla, en tæplega í rykfallinni akademíu.


Það er Frost í Helvíti.

 

rússnenska stafrófið.Ég hef sennilega þótt afar undarlegur unglingur.  Ég notaði hluta fermingarpeninganna minna til að kaupa Lingaphone-námskeið í Rússnensku og lá svo yfir því löngum stundum; æfði mig í að spyrja hvar salernið væri og hvar sporvagninn stoppaði.  Maður varð að láta sem maður væri frostbitinn og dofinn í vöngum, láta orðin myndast í hóstakirtlunum eða efst í brjóstinu, til að framburðurinn yrði sannfærandi.  Jablaka: Epli; Kníga: Bók; Morosnóe: Rjómaís.

Letrið virtist eins og rúnir við fyrstu sýn, en svo sá maður að í flestum tilfellum var aðeins búið að víxla táknum, þá var lítið mál að lesa.  P var R, X var H og C var S.  Esshljóðin voru þarna fyrirferðamest og áttu þau flest tákn fyrir misjöfn blæbrigði þessa hljóðs.  R í spegilskrift var Ja og N í spegilskrift var Í og H var N.  Svo var Grískum bókstöfum hrært þarna saman við eins og Lamda, Gamma og Pí.  Þetta var einskonar dulmál á að líta.  Ég hafði oft gert dulmál fyrir leynifélögin okkar strákanna.  Svarta Höndin átti sitt og Silfurkúpan annað, svo þetta var ekki algerlega framandi fyrir mér..

lærdómurÞetta var skemmtileg stúdía, en ég hef ekki hugmynd um hvers vegna þetta fangaði áhuga minn.  Líklegast var þó að Nágranni minn Helgi, hafi haft áhrif þar á.  Hann var mikill kommi og prófessor í fornslavneskum sögnum, giftur Rússneskri konu, Dínu og kenndi við menntaskólann.  Ég hafði fengið ævintýraplötuna Brémenskí Músikantí lánaða hjá honum og reyndi að ráða í hvað sagt var í söngvunum.  Gítarogí, Ibbítúk-voru greinilega gítar og hani.  Helgi og pabbi rifust stundum um kommúnismann yfir glasi og var oft fjör í því karpi, hnefar í borðum og hoppandi glös, þó sérstaklega ef Jón Baldvin var með.  Hann bjó jú í sama húsi og Helgi auk Guðjóns Friðrikssonar Reykjavíkursagnfræðings. Gáfur þessara manna heilluðu mig.  Heimsborgarabragurinn og leðurbættu flauelsjakkarnir, pípurnar og eiginleikar þeirra til að glíma við lífið í stærra samhengi en laut að veðri og fiskveiðum, fyllti mig löngun til að kanna andans víðfeðmu lendur. 

lagginnEkki hafði ég nokkurn grun um að þessi lærdómur myndi nýtast mér, hvað þá aðeins ári síðar. Þetta var eins og einhverskonar forvitrun.  Bárður frændi minn og Einar æskufélagi minn, sem voru árinu eldri, fóru í siglingu með Hofsjökli og sögðu mikil ævintýri af sér þegar heim kom.  Ég vildi reyna þetta líka og munstraði mig á Lagarfoss gamla, sem var miðbyggður kláfur með stórum strompi eins og skipin í Tinnabókunum.  Hann var orðinn gamall og úreltur; hnoðaður saman en ekki rafsoðinn.  Skip af sömu kynslóð og gamli Gullfoss.

Það vakti undarlegan fiðring í maganum að sjá Ísland sökkva í kjölsogið.  Eftirvænting, söknuður, óvissa.   Ég hafði aldrei út fyrir landsteinana komið.  Ekki lengra en að stikla út á steina í flæðarmálinu heima.  Fjölskyldan hafði jú farið til Mallorca, en ég kaus að vera heima og fann enga freistingu í því að upplifa það sama og allir aðrir höfðu upplifað. Grísaveisla, sangría, matareitrun og hellaferðir. Ó, nei, ekki hugsuðurinn ég.  Ég fyrirleit alla slíka hjarðhegðun og kúldraðist í forinni heima, hlúði að fyrstu spírum alkóhólismans og samdi ljóð um tilgangsleysi allra hluta.

múrmansk í dagÉg var smyrjari í vél ásamt Dodda nokkrum.  Við urðum bestu kunningjar og skottuðumst með koppafeiti um vélarúmið og smurðum á koppa eða bensínþrifum vélarhluti.  Það var mikilfenglegt þarna niðri.  Risastórir strokkar og sveifar sem bulluðu og sprautuðu olíu um allt.  Ég trúði varla stærðinni á þessu.  Við skautuðum fram og aftur um stálgólfin eins og skautahlauparar þegar veltingurinn var sem mestur og vorum alsælir með starfið.   Lagarfoss var stéttskipt skip með afbrigðum.  Við Doddi vorum með sér messagutta, sem þjónaði okkur tveim til borðs.  Svo var vélamessi fyrir vélstjóra, yfirmannamessi, hásetamessi, restrasjón og sér “Pláss” fyrir skipstjóra og fyrsta vélstjóra.  Það var ríkmannlegur salur, sem hefði getað rúmað alla áhöfnina.  Þar höfðu þeir þjónustustúlku og svo höfðu þeir þernu að auki, til að þrífa undan sér.  Lagginn var líka farþegaskip því þar voru nokkrir farþegaklefar, en aldrei man ég þó eftir farþega um borð.  Það var víst liðin tíð að spjátrungar, menntamenn og skáld sigldu með fragtskipum á milli landa.

Þeir sem lægst voru settir, sváfu aftur í “hundakofa”, sem var smályfting aftast á skipinu, með eins manns klefum, sem fullir voru af kakkalökkum, svo það snarkaði undan fótum manns ef maður gleymdi að kveikja ljósið áður en farið var úr koju.

höfnin í múrmanskFyrsti áfangastaðurinn var Múrmansk.  Nyrsta nárassgat, sem siglt var til.  Það var hálfgert sjokk að koma þangað.  Maður sá reykjarmökkinn yfir borginni löngu áður en hún kom í ljós.  Meðfram innsiglingunni voru sokkin skip og afvelta kafbátar frá heimstyrjöldinni eins og þarna hafi orðið stórorrusta.  Þetta var eins og að sigla inn í fordyri helvítis.  Gamlir kafbátar voru enn að dugga um höfnina og allar manneskjur voru dúðaðar í sömu langsaumuðu gráu vattflíkurnar, hnípnar og gleðisnauðar að sjá.  Ég minnist þess ekki að hafa séð nokkurn mann brosa í þessari borg.  Þarna var enga sögu að sjá, aðeins grængráar blokkir meðfram breiðstrætum, sem skáru borgina í einangruð hverfi, ekki ólíkt austurborg Reykjavíkur.  Enga aðra borg hef ég séð minna meira á Múrmansk, hvað skipulag varðar. 

illmennið LeninÞað voru þó fáir bílar þarna.  Aðalega risastórir trukkar með seglyfirbreiðslum og dapurlegir strætisvagnar með gormhlykk í miðju.  Einn og einn Rússajeppi skottaðist hjá eða Moskowitch með dularfullum mönnum í leðurhöttum.  Yfirleitt voru þeir fullsetnir eins og að glæpafjölskylda í gamanmynd væri í sunnudagsbíltúr.  Í allri þessari stóru borg sást nánast enginn fótgangandi. Flestir voru hermenn með kaskeiti, sem voru fáránlega stór og ýkjuleg eins og í farsa eftir Daríó Fó.  Frostið smeygði sínum köldu krumlum inn að beini og vonleysið fyllti lungu manns í hverjum andardrætti.  Þetta var hið sannkallaða helvíti.  Og það var frost í helvíti, það get ég borið.

Vænisýki kaldastríðsins var alsráðandi þarna og fólk fór undan í flæmingi ef maður yrti á það á ensku.  Þetta var höfuðborg óttans og niðurlægingarinnar.  Við skipuðum upp freðnum fiskblokkum . Ef kassi datt í sundur, þá hvarf hann á augabragði inn á kvið verkamannanna.  Við máttum ekki fara með myndavélar í land og hermenn tóku passann af okkur í skiptum fyrir sérstakan landgöngupassa.  Ekkert var hægt að fara nema á sjómannaheimilið og þar gátum við drukkið vestrænar veigar án þess að vera spurðir um aldur.  Þarna ægði saman rumpulýð af öllum þjóðernum.  “Jú from Æland? Me from Æland too, Christmas Æland. Captain Cook. Yes?”

usssÞarna var ég tekinn afsíðis af alvörugefnum manni, sem vildi fræða mig um Lenín og hina stórkostlegu byltingu.  Hann gaf mér fullt af bókum um hamingjulandið, en eitthvað tómahljóð var í sannfæringu hans.  Orð hans voru líka í hrópandi mótsögn við það sem fyrir augu bar.  Ég skildi ekki kommúnisma frekar en Krúsjoff, en í ævisögu sonar hans er sagt að Krússjoff hafi aldrei getað útskýrt þessa hugmyndafræði fyrir syni sínum og farið undan á flæmingi er hann var spurður.  Allt var vont í Rússlandi nema heitt brauðið, sem við fengum um borð.  Af því var sterkt gerbragð en það var gott svona heitt og ferskt.  Súkkulaðið var eins og kakó steypt í tólg, límonaðið smakkaðist eins og safi af niðursoðnum perum og sígaretturnar höfðu sæta angan sem minnti á blöndu af súrheyi, brunnu gúmmíi og táfýlu.  Allt Rússland bar þennan sætsúra, velgjukennda fnyk.

Utan við sjómannaheimilið voru “Bísarnir”.  Það voru svartamarkaðsbraskarar, sem vildu kaupa Ameríkanskí sígarettskí,  Tjúíng gömm og munað eins og gamlar gallabuxur, skó, varaliti.  Sumir voru svo djarfir að spyrja um vestræna tónlist með mikilli leynd. “Jú xeve Júría Xeep? Easy living, yes?”  Þetta voru miklir töffarar á sína landsvísu en Guð minn góður hvað okkur fannst þeir sorglega hallærislegir í allt of stuttum gallabuxum, slitnum bítlaskóm og leðurjökkum, sem stóðu þeim á beini.   Lögreglan sveimaði þarna í kring á gulum og bláum Rússajeppum en lét þessa verslun að mestu óáreitta.  Óttinn leyndi sér þó ekki hjá bísunum og stundum hurfu þeir sí svona eins og jörðin hafi gleypt þá.  Lögreglan reyndi stundum að leggja fyrir okkur snörur.  Eitt sinn stoppuðu þeir okkur og spurðu: “Pornógrafía?”  Við könnuðumst ekkert við slíkt.  Þá drógu þeir upp snjáða mynd af konu í sundbol með höndina eggjandi aftur fyrir hnakka.  Þetta var ekki ólíkt ilmspjöldunum, sem svo lengi voru hvimleið í leigubílum hér.  Við gátum ekki annað en brosað.  “No pornografía, sorry.”  Þetta spjald var sennilega opinber tálbeita, sem þeim var úthlutað frá flokkstjórninni til að stemma stigu við vestrænni úrkynjun í þessari háborg menningarinnar í norðri.

byltingin og börnin hennarÉg var feginn þegar Múrmansk hvarf aftur í mengunarmistrið og íshafið blasti við stafni.  Mér var ljóst í mínum unga huga að hér hafði verið framinn stórfenglegur glæpur.  Byltingin, sem raupsamir sparikommar uppi á Íslandi rómuðu í söngvum sínum, gaf engin fyrirheit um slíkar hörmungar.  “Sjá roðann í austri!”  Sungu þeir í blindri fáfræði. Það var augljóst á öllu að þeir höfðu annað hvort ekki komið til Sovétríkjanna, eða þá að þeir höfðu verið teknir í sightseeing að hætti flokkselítunnar og setið veislur Nómenkladíunnar, sem var viðurkennd forréttindastétt. 

rússabarnÞað að taka eignarétt af fólki varð til þess að drepa lífsvilja þess og áhuga til vaxtar.   Marx og Engels höfðu gert regin feil í hugmyndafræði sinni þar.  Það er með öllu óskiljanlegt hvernig þessi menntuðu gáfumenni gátu ímyndað sér að hægt væri að afnema einstaklingseðlið, persónufrelsið og steypa fólk í eitt allsherjarmót vélrænna þegna, með hugmyndafræðilegu pennastriki.  Það sást í dauðum augnaráðum fólksins í Múrmansk.  Þessir Gyðinglegu dekurdrengir frá þýskalandi, sem sáu fyrir sér nýja herleiðingu heimsins til hins fyrirheitna lands samneyslunnar, höfðu vogað sér í menntahroka sínum og sjálfhverfu að það væri vert að láta á slíkar hugmyndir reyna án tillits til fórnarkostnaðar samborgara sinna.  Þeir eiga alla mína fyrirlitningu skilið. 

Að vísu var kommúnisminn skrumskældur í Sovétríkjunum eins og allstaðar annarstaðar.  Það þýðir ekki, eins og margir segja,  að þetta sé góð hugsjón í raun,  væri henni fylgt í hörgul.  Það er aumkunarverð fáfræði.  Skrumskælingin átti sér stað vegna þess að það var ekki hægt að fylgja henni í hörgul.  Hugsjónin fól í sér grundvallar yfirsjón, sem er hið óútreiknanlega mannlega eðli.   Fyrir það létu 50 milljónir manna lífið í Sovétríkjunum einum og eru enn að deyja í dag. 

 

Framhald þessarar sögu birti ég svo síðar.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband