Færsluflokkur: Ferðalög

Klifurkötturinn og álög landnámsmannsins.

Súgandafjörður Fjallið Spillir fjær.Í febrúar 59 mætti ég berskjaldaður til lífsins hildar. Afkomandi víkinga og varmenna með krókóttann ættlegg til Haraldar konungs Hárfagra. Ég óx í ódælan dreng eins og af bláleitu víkingablóði má vænta.  Bakkapúki kallaður sem barðist við ræflana í efribæ með trésverði, tók menn til fanga og smáði, féll í orrustu á tröppunum heima en reis upp frá dauðum með blæðandi haus. Ég var ósigrandi landkönnuður sem leitaði ókunnra landa af óstöðvandi útþrá og áfergju.

Tanngisinn og smámæltur prakkari á fimmta ári var ég með foreldrum mínum á Suðureyri við Súgandafjörð.  Þar hafði tilvist mín sprottið af einum kærleiksneista þegar móðir mín, undirleit og feimin sextán ára yngismær, féll fyrir löngum og kímnum slána. Það gerðist þegar hún færði honum pottflösku af kaffi í ullarsokk niður á bryggju. Pabbi var sjómaður. Hann átti happafleyið Kveldúlf og lagði aflann upp á Suðureyri. Lífið var látlaust þá. Við áttum lítið en enginn kvartaði. Þannig var lífið og engin viðmið um betra hlutskipti voru til að glepja fólk. Ekkert sjónvarp né alnet og enginn glamúr sem lokkaði.

Mamma var varla meira en barn sjálf. Hún knúsaði mig og baðaði í þvottabala og naut þess að klæða mig upp og greiða hárstrýið mitt upp í kjöl til að hafa mig fínann eins og Elvis. Ég var litla lifandi brúðan hennar sem hún elskaði meira en nokkuð annað. Hún söng eins og engill og dansaði með mig um gólf í litla steinhúsinu okkar sem var með þykkum kastalaveggjum og öruggt skjól. Það var þó ekki stærra en svo að síðar meir var gaflinn sleginn úr því og því breytt í bílskúr sem naumlega rúmaði einn smábíl.

Suðureyri.Suðureyri var staður mikilla töfra fyrir stuttfættan heimspeking og spekúlant. Þarna var Steini Steins þessi stóri og þögli maður. Hann átti hrútinn Móra, illúðlegan og stórhyrndann, sem hann leiddi um í bandi eins og hund. Hreppstjórinn spókaði sig um fyrir framan Kaupfélagið með voldugan hatt og silfurbúinn staf eins og hann ætti plássið, enda trúði ég því og varaði mig á að styggja hann ekki.  Þar var líka Halli klapp, sem stóð allan daginn og klappaði saman höndum og sló sér á lær á víxl. Sævi ók um þorpið með miklum drunum og frussi. Hann átti þó ekki bíl heldur hélt hann á gömlu bílstýri sem hann hljóp með sleitulaust frá morgni til kvölds. Hann bakkaði og spólaði upp brekkur, snéri og bremsaði með öllum þeim hljóðum sem því fylgdu.  Einu sinni ók hann út af og niður í fjöru. Hann sat þar fastur og var naumlega hægt að bjarga honum áður en hann flæddi uppi.  Það þurfti að kalla til olíubílinn á staðnum til að draga hann upp. Engu tauti var komið við hann fyrr. Hann varð síðar dyravörður í Háskólabíói hjá Berta bróður sínum en er nú dáinn.

klifurkettirJói Gunnubetu var þarna líka með herðakistil og undarlegt glott á vör. Hann sagði fátt og okkur stóð stuggur af þessum dökkleita manni sem starði sínum svörtu augum og hæddist að heiminum.  Hann var þó hinn mesti öðlingur og vakti athygli síðar sem Jóhann Grínari.  Hann fór með eftirhermur í útvarpi sem allar hljómuðu eins. Einnig bjó til árlegt handgert dagatal sem slegið var upp dagblöðum hér eins og um stórfrétt væri að ræða.  Svo var hann líka leikari í Bíódögum Friðriks Þórs ásamt fleiri afrekum á því sviði. Hann dó einn og afskiptur og var miklu yngri en ég hafði haldið hann vera. Blessuð sé minning hans.

Hrefna og Ranka voru systur sem bjuggu í hálfgerðum torfæ í miðju þorpi sem var svo feyskinn að búast mætti við að hann hryndi ef einhver reskti sig of nærri. Þær voru eins og klipptar út úr 18. öld alltaf í peysufötum með skotthúfur. Það var eins og tíminn hefði gleymt þeim. Þær höfðu gát á mér sem kornabarni og tuggðu saman soðna ýsu og myglaðan mör með tannlausum gómum og mötuðu mig með fingrunum. Barnamatur fortíðar. 

Svo var það Guðmundur gamli Pálma sem kom á hverjum morgni frá Staðardal með mjólk í brúsum á fúinni hestakerru, dreginni af lúnum og horuðum klár. Hann var með pottlok á höfði, prýddur þykku gráu yfirskeggi eins og rostungur. Hann jós mjólkinni í brúsa þeirra sem kaupa vildu og hélt svo aftur heim eins vofa liðinna alda.  Það var heldur ekki fjarri sanni. Allt við hann var forneskjulegt. Hann var meira að segja í svart-hvítu eins og á gamalli ljósmynd. Ekki vottur af lit á kerru, hesti né klæðum.  

Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er sagt frá konu sem lagði hvítvoðung sinn um stund við réttarvegg á meðan hún gekk til verka. Þegar hún ætlaði að vitja barnsins þá var það horfið og fannst ekki hvað sem leitað var. Yfirkomin af sorg dreymdi hana síðar álfkonu sem kom til hennar og sagði barnið vera hjá sér við gott atlæti.  Daginn eftir fannst barnið á sama stað við réttarvegginn og amaði ekkert að því. Þetta barn var systir Guðmundar Pálmasonar mjólkurpósts og ku hafa dáið í skriðufalli þegar hún varð gjafvaxta.  Álfum var að sjálfsögðu kennt um það. Nær fornsögunum varð ekki komist.

víkingurPabbi hennar mömmu, hann Alli fiskimann, var líka mikið furðuverk í mínum augum. Fyrirmyndarafi fyrir æfintýraþyrstan púka. Hann var alltaf kátur og glaður í minningunni.  Hann ló dillandi hlátri, hjak, hjak, hjak og var svo glysgjarn að það stirndi á hann. Medalíur og silkiklútar prýddu hann í öllum regnbogans litum og spilaði hann á harmonikku og munnhörpu þegar hann fékk sér neðan í því. Hann var sköllóttur en bar alltaf kaskeiti að skipstjórasið.  Einn veturinn fékk hann sér það sem hann kallaði “hárhúfu” sem hann dásamaði fyrir hlýindi og praktík. Húfa og hár; tveir fyrir einn.  Mamma harðbannaði honum að bera hana og blygðaðist sín fyrir hann því það var algerlega tilviljunum háð hvort þessi hárkolla snéri rétt eða ekki.

Ég átti annan afa; Dóra, sem var seinni maður ömmu. Hann var stór og mikill svo engir skór pössuðu á hann nema gúmmískóhlífar sem okkur strákunum fannst nógu stórir til að geta róið á út á fjörðinn. Hann var ljúfur og þögull kall sem sötraði kaffið sitt í eldhúsinu með löngum sogum við tif eldhússklukkunnar.  Hann réri stöðugt í gráðið,  hummaði ókennilegan lagstúf í sífellu og borðaði allan sinn mat með sama vasahnífnum nema að sjálfsögðu súpuna.  Hann var af fátæku vinnufólki og hafði liðið mikið harðræði í bernsku. Sonur vinnuhjúa í vistarböndum sem var barinn eins og hundur og svaf í fjárhúsi við harðan kost.  


Innan um alla þessa kynlegu kvisti voru svo vinir manns.  Sívert var einn af þeim. Freknóttur grallari með óútreiknanlegan huga undir rauðum lubbanum. Það var yfirleitt ekki vel liðið að við legðum lag okkar saman því það endaði oftast með ósköpum. Skaðræðisgripir vorum við kallaðir.  Við lékum okkur til fjöru og fjalls í endalausum rannsóknarleiðöngrum. Klifruðum og veltum okkur niður hjallana ofan við þorpið þar til okkur var bannað það og sagt að við myndum fá garnaflækju af því og deyja. Þarna fékk ég uppnefnið Nonni prakkari og þarf enn að búa við að vera kallaður því þegar ég á leið vestur um firði.

Okkur Sívert lék hugur að vita hvað bjó að baki fjallanna sem umluktu þennan smáa heim. Sumir sögðu að þar væru útlönd og það vildum við kanna.  Þegar við vorum að ræða þetta okkar á milli vorum við varaðir við að klifra í fjöllunum því nóg hafði fólk séð af pústrum og skeinum í okkar daglega brölti. Okkur var sagt að í fjöllunum byggju álfar sem ekki væru kátir með að brölt væri á húsþökum þeirra. Því fylgdu álög og ógæfa.  Efst á fjallinu var okkur sagt að væri gröf Hallvarðar Súganda landnámsmanns sem barist hafði við forföður minn Harald Hárfagra.  Í haug hans var víst falinn mikill fjársjóður. Margir höfðu freistað þess að finna hann en það  endaði víst ávallt með miklum skakkaföllum eða dauða fyrir viðkomandi.  Ef hróflað væri við haugnum myndi kirkjan í Staðardal líka sjást standa í ljósum logum. Það var þó aðeins undanfari mikið fleiri hörmunga að sögn manna.

Ekki sló þetta á áhuga okkar þótt ætlun fólks með þessum hrollvekjum væri önnur. Við bjuggum okkur því nesti og héldum út með firði í fjársjóðleit.  Uppgöngustaðurinn var fjallið Spillir, sem er eitt óhugnanlegasta og brattasta fjall þar um slóðir. Við vorum ósigrandi og ódauðlegir. Litum á kirkjubruna sem hreinan bónus við auðæfin sem við ætluðum að færa heim. Eldur var eitthvað töfrandi og heillandi í brallarakollum okkar. Álög óttuðumst við ekki.

kumlVið klifum snarbratta og grýtta urðina og vorum heitir á skrokkinn. Ævintýraeldurinn logaði snarkandi innra með okkur þegar við ræddum hvað við myndum gera við auðæfin.  Kaupa leikföng, bát, hest, bíl og kannski kjól á mömmu. Kannski svona kveikjara eins og Frissi Rokk átti. Frissi var eini töffarinn í bænum og vitnisburður erlendrar ómenningar. Hann var með Brilljantín í hárinu meðuppbrettar gallabuxur og í támjóum bítlaskóm.  Maður sem var í guðatölu hjá okkur krökkunum.  Hann gat meðal annars búið til myndaramma úr tómum Camelpökkum og dregið túkalla út úr útstæðum eyrum okkar.

Fjallið var svo bratt að það var engu líkara en það ætlaði að hvolfast yfir okkur. Mávarnir hnituðu fyrir ofan okkur í von um blóð og þeim varð brátt að ósk sinni. Skyndilega losnaði steinn sem ég hafði gripið í til að vega mig upp og áður en ég vissi var ég í frjálsu falli. Ég endastakkst niður urðina eins og tuskubrúða. Hvassar nibbur stungust í skrokkinn á mér og ég nam ekki staðar fyrr en við bjargbrún ofan við veginn út að Stað.  Ég hafði rotast og man ekkert fyrr en ég rankaði við mér aftan á bögglabera á hjóli móður minnar, alblóðugur og rifinn. Ég var reyrður með tusku við mömmu sem hágrét og ákallaði Guð um hjálp. Hún hjólaði eins og hún ætti lífið að leysa heim í þorp. Sívert hafði hlaupið inn eftir og sagt henni óðamála að ég væri dauður. Það mátti líka engu muna. Ég fékk heilahristing og sjö göt á hausinn sem enn prýða hnúðótt höfuð mitt.  Hallvarður hafði lagt mig í valinn þótt ég risi upp til nýrrar orrustu eins og vargi sæmdi. Ég hafi aðeins lotið í duft í einum bardaga en stríðið langt frá því tapað.

Mér finnst gott að rifja upp farinn veg og minna mig á hvaðan ég kem. Minnast með þakklæti þess góða og fyrirgefa hið slæma. Þá er líklegra að maður rati rétta leið inn í framtíðina og nái að halda sátt við Guð og menn. Lífið er oft háskaför og stundum ljúfur leikur.  Það hefur sinn tíma að elska og það hefur sinn tíma að stríða.

Í dag er ég hættur að stríða að mestu þótt einstaka sinnum þurfi maður að bera fyrir sig hendur.  Margir eru fallnir sem börðust mér við hlið og landvættir, álfar og upprisnir landnámsmenn hrella mig ekki meir. Vopnabræðurna hitti ég síðar.  Álögin eltu þó Sívert alla tíð og nú er hann farinn til Valhallar. Ég hitti hann fyrr en síðar eins og Hjálmar á Bólu kvað svo listilega um.

Mínir vinir fara fjöld,
feigðin þessa heimtar köld,
ég kem eftir, kannski í kvöld,
með klofinn hjálm og rifinn skjöld,
brynju slitna, sundrað sverð og syndagjöld.

.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband