Í landi ísfólksins

P6190048

Nú hef ég verið í viku í Ilulissat og er vægast sagt heillaður af þessum stað.  Hér búa 4.500 manns og þetta er þriðji stæsti bær á Grænlandi, en samt er þetta eins og þorp. Marglit smáhúsin prýða hér hæðir og hóla, hundar spangóla og vappa um og hæglátt fólkið sinnir sínum störfum við fiskveiðar og verslun.

P6160050Ég kom hér í þoku og slyddu frá Nuuk í gegnum Kangerlusuaq og vissi svei mér ekki hverju ég mátti eiga von á.  Nuuk var mér vonbrigði, svo ég var viðbúinn öllu.  Eftir stuttan göngutúr, sá ég að þessi staður er engu líkur. 

Hér sest sólin ekki til viðar á þessum árstíma. Nú klukkan eitt að nóttu er glaða sólskin, þótt sólin sé lágt. Fólk er enn á ferli svo varla sér mun á degi og nóttu.  Ég bý á Hótel Hvide Falk og fyrir utan blasir Ísfjörðurinn mikli til suðurs og Disco eyja sést handan Disco flóans girt risastórum borgarísjökum, sem losna út úr Ísfirðinum.

P6160020Ég gæti sagt ykkur svo margt um þennan heillandi stað, en hef takmarkaðan tíma, þar sem ég fer út á sjó í fyrramálið og það verður langur dagur.  Ég fór í langan göngutút í gær, suður fyrir þorpið, þar sem ég sá ísfjörðinn í allri sinni dýrð. Ég gekk svo austur með ströndininni inn til Sermermiut þar sem byggðin var í upphafi. Þetta er kyrrlát og falleg vík, en við enda hennar blasir ísveggurinn með öllum sínum þungu brestum og dulúð. Orð fá ekki lýst þessu.  Í Sermermiut hafa fundist mannvistarleifar frá steinöld og fram eftir öllu með tveimur hléum.  Hér hafa búið menn í 4.500 ár, ef einhver skyldi efast um hverra land þetta er.  Fyrst var það Saqqaq fólkið eða og næst Dorset fólkið og loks Thule fólkið, sem nú byggir staðinn.

var hundasl. 2Sermermiut er staður ísfólksins, eins og nafnið bendir til, en byggðin lagðist þar af um 1850. Illulisat byggðist upp í kringum 1730, þegar Danir slógu eign sinni á svæðið og komu á einokun með verslun við Inuitana. Áður höfðu Hollendingar verslað hér og haft birgðastöð. Fyrstu húsin standa enn við höfnina og svipar merkilega til húsanna í neðstakaupstað á öðrum Ísafirði, langt í burtu og þó nokkrum breiddargráðum sunnar. Fæðingarbæ mínum.

Hér hefur byggst upp góð ferðaþjónusta með öllum nútíma þægindum. Stórmarkaðir, góð veitingahús og allt, sem til þarf.  Samt gengur líf fólksins sinn vana gang. Hér lifa menn af lúðuveiðum og rækju, en nú er lúðuvertíð. Hér fara tugir lítilla hraðbáta út allan sólahringinn og leggja fyrir lúðu hér rétt útaf. Svo er brunað í land, landað og beitt um borð. Þeir láta sér lítt um túrista finnast hér, enda er sá bransi einskonar aukaafurð.  Þetta frábæra jafnvægi grunnatvinnulífs og ferðamennsku er hin fullkomna blanda.  Túristarnir eru ekki merkilegri í augum sjóaranna en mýið, sem bítur þá daginn út og inn.

P6190012Nú á sumrin er beint flug frá Reykjavík til Ilulissat og hvet ég alla, sem geta að leyfa sér þessa mögnuðu upplifun að dvelja hér um stund.  Verðlagið er ekki ósvipað og heima í mestu, sumt ódýrara en annað eitthvað dýrara, svo hér þarf ekki að gefa hönd og fót fyrir ævintýrið.  Ég hef komið nokkrum sinnum til Grænlands og veit nokk hvað ég syng.  Hér er engin eymd. Enginn epidemískur alkoholismi eins og margtuggin þjóðsagan segir. Raunar má segja að lausaganga alkohólista, sé margfalt meira áberandi heima.  Ég hef séð einn fullan mann á rölti hér, á leið heim af balli. Sæll og glaður og sönglandi fyrir munni sér. Enda má hann vera sæll, búandi á paradís á jörðu. Ekkert vesen ekkert garg og flöskubrot eins og í hinni margrómuðu Reykjavík by night, sem við ættum raunar að skammast okkar ofan í rassgat fyrir.  Illullissat með öllum sínum sjarma, stórbrotnu náttúru, sögu og vingjarnlegu viðmóti, ber höfuð og herðar yfir okkur í einlægni sagt.

P6190097Á morgun er þjóðhátíðardagur Grænlands, en ég verð því miður út á sjó mest af deginum og missi því vafalaust af miklu, en ég vona að ég nái í endann á honum. Hér er boðað til vínlausra veisluhalda og skemmtana.  Þetta er stolt fólk með djúpa þjóðerniskennd, enda mega þau það eftir 4.500 ár.  Á sunnudögum flagga allir grænlenska fánanum og fólk fer prúðbúið til kirkjunnar á ströndinni, sem er um 300 ára gömul. Konurnar eru í sínum perlusaumuðu búningum og karlarnir í hvítum anorökkum og selskinnstígvélum.  Ungir sem aldnir gengu prúðbúnir út í daginn frá messu, með bros á vör, enda skein sólin í allan dag og gerir enn á heiðum himni.

P6200002Ég ætla að láta mér nægja í bili að raða hér inn nokkrum myndum með skýringum.  Ég skrifa svo ítarlegri ferðasögu, þegar ég kem heim.

ég og hvolpar

Þessa hvolpa hitti ég í slyddu og rokií útjaðri bæjarins. Sleðahundarnir hér eru öðruvísi en þeir á austur Grænlandi. Einhverskonar Huskie kyn, sem er miklu kubbaðra og kraftmeira en þessi mannígu illyrmmi í Kulusuk og Tasilaq.  Hér ganga þeir að mestu lausir nea á nóttinni og hafa náðuga daga í sumarfríinu.

hundastelpa

Þessi stelpa var mætt til að sinna þeim og gefa þeim að borða. 

hundar 2 

Hundarnir voru nánast við hvert hús veiðimannanna. Þeirra hlutverk er minna og minna að sinna veiðum, þar sem hannthlýnun hefur orðið til þess að Dicoflóann leggur ekki á vetrum.  Þess í stað eru afla þeir viðurværis með að draga þéttholda ferðamenn um hæðirnar í kring.

hús ofanjarðarleiðsla

Bærinn er byggður í hæðóttu landslagi, sem nánast er bara ein samfelld klöpp, svo varla verður stungið niður skóflu. Einkennandi eru raflínur, sem liggja ofanjarðar eins og rótarkefi um allan bæinn. Ein slík hér fremst á myndinni.

Grænland thai

Fjölmenningin er hér líka í skemmtilegum bræðing við hefðirnar.  Á hótelinu okkar "Hvide Falk" eru Thailenskir kokkar en eldhúsið byggt á franskri hefð að sögn. Í matsalnum ægir saman austurlenskum mublum og skrauti, ísbjarnarskinnum, kajökum og hundasleðum.  Í gær fékk ég þó ísbjarnar carpacchio úr reyktum ísbirni, sem á sér einhverjar aðrar rætur en það sem nefnt er. Hann smakkaðist eins og þurrkað hrefnukjöt, ef það er hægt að líkja honum við eitthvað. 

kajak og hús

Hér er Kajakaleigan, þar sem menn geta fengið námskeið í kajakróðri hjá föngulegri Grænlenskri snót. Ísinn aldrei langt undan og hér buldi slyddan á mér, svo myndavélin var orðin svolítið skýjuð.

kirkjan

Ævagömul Zíonskirkjan, sem séra Severin lét byggja. Hún nægir þessum bæ enn.

kort ilulissat

Kort af bænum, sem sýnir ísfjörðinn neðst til vinstri. Ljósi flekkurinn innaf botninum er freðmýri við Sermimiut, þar sem 4.500 ára mannvistarleyfar hafa fundist.

P6160011

Minnisvarði um þjóðhetjuna og landkönnuðinn Knut Rassmussen, sem gerði hvað mest til að skilgreina þessa þjóð og studdi sjálfstæði hennar. Hann er fæddur í prestsetrinu í Ilulissat, sem enn stendur og átti grænlenska ömmu.  Bækur hans og vinar hans Peter Frauchen voru vinsælt lesefni á Íslandi í mínu ungdæmi og þótti mörgum þær næstum ólíkindalegar í lýsingum á landi og þjóð. Ég held hinsvegar að hvert orð sé sannleikanum samkvæmt, svo langt sem það nær.

P6160016

Hundalíf er ekkert hundalíf hér á skammlífu sumri.

P6190028

Hér eru menn klárir í allar árstíðir.

P6160101

Gömlu eikarbátarnir þjóna bæði túristum og fiskimönnum. Þessir hafa sitt hvort hlutverkið.

P6180005

Sá gamli fær sér smók á leið út í ísfjörð. Grænland er mekka reykingamannsins. Hér er reykt á flestum börum, enda virðast allir reykja.  Meira að segja er ég í hótelherbergi, þar sem reykingar eru leyfðar.  Veit ekki hvað rétthugsunarhænsn á fróni segja um það.

P6200154

Úr einhverju verða samt menn að deyja. Hér í gamla kirkjugarðinum í Sermermiut eru ævagamlar grafir, sem enn er haldið við. Lyngið vex þar villt og menn geta fengið sér ber hér á haustin og notið ávaxta áanna til langrar framtíðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhanna Ómarsdóttir

Vá gæsahúð! er búin að skipta um skoðun þangað ætla ég að fara næst en ekki á austurströndina...takk kærlega fyrir frábært blogg :)

Jóhanna Ómarsdóttir, 21.6.2010 kl. 08:00

2 Smámynd: Sigurbjörg Eiríksdóttir

Þetta eru magnaðar myndir og frá sögn! Takk!

Sigurbjörg Eiríksdóttir, 21.6.2010 kl. 08:18

3 identicon

Afburða skemmtileg lýsing á þessar paradís..nú kíki ég í budduna..

njóttu vel.

Herta Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 21.6.2010 kl. 09:06

4 identicon

Innlitskvitt! Takk fyrir.

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 21.6.2010 kl. 11:25

5 Smámynd: Jens Guð

  Frábært að fá að fylgjast með.

Jens Guð, 21.6.2010 kl. 12:15

6 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Stemmtileg frásögn og gaman að hafa myndir með.

Guðmundur St Ragnarsson, 21.6.2010 kl. 13:56

7 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk, takk - þetta er eitthvað svo seiðmagnað.

Jóhanna Magnúsdóttir, 21.6.2010 kl. 19:56

8 identicon

Takk fyrir.

Ég vann á Grænlandi fyrin mörgum árum, eitt sumar. Síðan þá er ég þeirrar skoðunar að fegurra land fyrirfinnist ekki.

Ég hafði mjög sterkar skoðanir á meðferð Dana á Grænlendingum, en vonandi hafa hlutir breyst.

Ég bíð eftir þeim degi að geta komið aftur til þessa stórfenglega lands og ótrúlega vinsamlegra íbúa þess.

Takk fyrir færsluna :-)

kristin bergmann (IP-tala skráð) 21.6.2010 kl. 21:01

9 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Takk fyrir innlitið. Ég er svo tímabundinn að ég má ekki vera að því að svara í bili.  Kristinn Bergmann nefnir nýlenduandann.  Hér búa tvær þjóðir. Gestirnir og innfæddir.  Hér virðist þó vera gert betur við fólk en á austurströndinni, þótt ég geti ekki fullyrt um það. Umng móðir hér sagði skólakerfið ekki nógu gott en annars virðast börnin dafna vel hér. Nú ganga strákar um í hip hop átfitti með bling og stelpurnar eru vel til hafðar. Fólkið hér hugsar vel um börnin sín og er gaman að heyra hvernig þau tala lágmælt og vinarlega til þeirra og hampa á allan máta. Hér heyrist ekki nokkur maður hækka róminn. Allt er svo auðmjúkt og hæglátt að maður verðu ósjálfrátt allur slakari. Það verður seint sagt um Grænlendinga að þeir séu kjaftaskar, því það er heldur meira mál að toga upp úr þeim nokkur orð. Danirnir sjá um þá deild og sér ofan í maga á þeim í kjaftagleðinni.

Jón Steinar Ragnarsson, 21.6.2010 kl. 23:11

10 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Hvað olli þér vonbrigðumí Nuuk?

Sigurður Þór Guðjónsson, 23.6.2010 kl. 18:23

11 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þú getur lesið um það í færslunni á undan Sigurður. Það er aðallega óaðlaðand blokkaríbúðir, sem gera bæinn að einhverskonar risavöxnum vinnubúðum í mínum augum. Þar er þó fallegur gamall bæjarhluti, sem er hverfandi lítill. Grænlendingar eiga fæstir sínar íbúðir og leigja af ríkinu, en ríkið byggir eins praktískt og ljótt og hugsast getur. Ef þeir ætla að auka ferðamannastraum, þá verða þeir að endurhugsa þessa stefnu.   

Jón Steinar Ragnarsson, 24.6.2010 kl. 04:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband