Þegar Ég fór Í Stríð Fyrir Ísland II. - Forlögin bregða á leik.

Við DjúpavogHér kemur framhald fyrri færslu minnar um reynslu mína í 200 mílna þorskastríðinu.

Ég var vakinn snemma morguninn eftir og mér færð brauðsneið og kaffisopi. Mér leið undarlega og fannst eins og að mig hafi dreymt allan þennan hildarleik.  Týr var kyrr og ljósavélarnar möluðu vinarlega. Mér fannst ég þurfa að fara á fætur, það væri ekki sanngjarnt gagnvart öðrum að ég lægi þarna í makindum og væri þjónað til sængur. En bakið var stíft og bólgið og ég gat mig hvergi hrært.

Kærnested kom inn spurði vinalega um líðan mína og sagði mér að ég yrði settur í land til að koma mér undir læknishendur. Þetta var í síðasta skipti, sem ég átti orðastað við hann og finnst mér það miður í dag að ég skyldi aldrei komast til þess að þakka honum fyrir. Skömmu síðar var ég aðstoðaður við að klæða mig og var studdur út. Ég náði ekki að tylla niður fótum, því þá blossaði logandi sársauki upp í mjóbakinu. Ég var því borinn í einskonar gullstól út á dekk. Það var eilítið mistur og morgunloft, sem jók á draumkennt ástand mitt. Menn voru þöglir og tíminn virtist hafa vikið sér frá um stund þarna í mynni Berufjarðar. Spegilsléttur sjór og fjarlægt kýf í mávum jók á þessa yfirveraldlegu tilfinningu.

Mín beið örlítil trilla með tveimur litlum drengjum, varla meira eða 10 eða 12 ára. Ég varð svolítið undrandi.  Vað var brugðið undir handakrikana á mér og ég var látinn síga niður í trilluna. Sársaukinn í skrokknum var yfirþyrmandi en ég sagði ekki orð.  Svo var duggað með mig í kyrrð inn á Djúpavog. Strákarnir mæltu ekki orð og voru ábúðafullir og niðurlútir eins og ferjumaðurinn á Styx.  Mín beið Landroverjeppi á bryggjunni og ekki var hræðu að sjá utan bílstjórans. Ég var hífður upp á bryggju og lagður aftur í skott á jeppanum. Mér fannst þetta allt svo óraunverulegt en fann til feginleika við að kúldrast þarna við söng gírkassans. Þetta var allt hálf skoplegt í raun.  Mér var dröslað inn á læknisbústað eða heilsugæslu, þar sem ég var lagður á bekk í eða við andyrið.  Þar fékk ég að vita að enginn læknir væri á staðnum en það væri þó bót í máli að augnlæknir var einmitt vísiterandi í þorpinu og hann veitti mér aðhlynningu og greiningu. Í ljós kom í samtali okkar að hann var frá sama bæ og ég og að hann var skólabróðir og uppeldisfélagi föður míns. Niðurstaða hans af greiningunni reyndist síðan alveg rétt síðar meir, þótt það tæki her lækna að staðfesta það á Borgarspítalanum síðar. Ég var ekki lamaður, bara bólginn og tognaður.

Ekki man ég hvað ég var þarna lengi en ég hlýt að hafa blundað þarna á bekknum, því ég var vakinn og mér sagt að sjúkraflugvél biði mín. Svo var hossast með mig á Landrovernum út á einhvern flugvöll, þar sem lítil rella beið mín.  Þetta var þriggja farþega smávél á vegum Morgunblaðsins, sem hafði komið þarna með blaðamann blaðsins og Ragnar Axelsson ljómyndara, sem var kornungur og efnilegur ljósmyndari. Ég fékk sem sagt að húkka far með þeim.

rellaMér var troðið í aftasta sæti vélarinnar og svo var flogið af stað. Blaðamaðurinn tók við mig stutt viðtal og Raxi tók mynd af mér, sem birtist í blaðinu daginn eftir, undir fyrirsögninni: “Hélt að Tý myndi hvolfa.” Þegar ég skoða þessa mynd, þá sé ég að ég var í rauninni bara saklaust og bláeygt barn, þrátt fyrir allar manndómsraunir mínar.

Á leiðinni fengu blaðamennirnir skilaboð um að keyrt hafi verið á Óðinn og brúarvængurnn tekinn af honum.  Stefnunni var breytt út á miðin og þar var farið í einskonar steypiflug yfir Óðinn og nálægar freygátur til að skrásetja atburðina. Ég gleymdist greinilega í þessum atgangi, því ég kuðlaðist niður á gólf og þurfti að vega mig upp í sætið með erfiðismunum eftir hverja dýfu. Þetta má segja að hafi verið einhverskonar óumbeðin sjúkraþjálfun, því þegar til borgarinnar kom, þá afþakkaði ég sjúkrabörur, sem biðu mín, og haltraði til sætis í sjúkrabílnum.

Á borgarspítalanum var ég í tæpa tvo daga og man ég hvað margir læknar og kandídatar voru í kringum mig.  Það var látið mikið með mig og ég vakti greinilega forvitni og athygli sem hetja hafsins og stríðsmaður í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.  Seinni daginn var ég orðinn nokkuð styrkur og fékk strætisvagnamiða í hendur, var bent á stoppistöðina úti, og sagt að ég ætti herbergi á Hjálpræðishernum. “Courtesy of the Icelandic Coast Guard.” Ég var allslaus fyrir utan eitthvað klink í vösum. Fermingarúrinu mínu hafði ég tapað og myndavélinni fyrir málstaðinn. Flestöll stráin stungu mig, stór og smá á jörðu.

Herbergið á Hjálpræðishernum var einskonar yfirstærð af fataskáp, sem náði faðmi að breidd og rúmri rúmlengd á hinn veginn. Þar var myglulykt og sængurfötin voru snjáð og blettótt. Ég var þó undarlega feginn þessu athvarfi og örmögnun helltist yfir mig, svo ég lagðist strax og sofnaði.

Það var komið fram yfir miðnætti, þegar ég vaknaði aftur. Mér var þungt fyrir brjósti og náði vart andanum. Skelfingarangist heltók mig og ég heyrði boðaföll sjávarins fyrir eyrum og raddir félaga minna á Tý. Herbergið tók að halla meira og meira og í örvæntingu minni skreið ég fram úr og út á gang. Þetta var svo raunverulegt. Allt hringsnerist fyrir höfði mér og ég skreið og skakklappaðist niður stigana og út úr hinu sökkvandi hóteli. Óljós rödd næturvarðarinns hljómaði á eftir mér: “Er ikke alt í orden? Er du full?

Úti hágét ég með ekkasogum og náði þó loks að draga andann í svölu næturloftinu. Enginn var á ferli. Ég var sem einn í heiminum og ég gat ekki og þorði ekki að standa kyrr.  Ég gekk því alla nóttina um borgina, upp að breiðholti og til baka aftur, fram og aftur, fram og aftur, eins og hrætt dýr. Ég róaðist undir morgun og veruleiki hversdagslífsins vaknaði í mér með borginni.  Ég fór inn á gamla Hlemm, sem þá leit út eins og potthlemmur í lausu lofti og hringdi vestur í föður minn úr tíkallasíma.  Ég hafði ekki heyrt í fólkinu mínu fyrr og sá gamli hafði bara fengið fréttir úr mogganum.  Hann var skekinn og áhyggjufullur og sagði mér að fara strax til bróður síns í Stangarholti og koma svo vestur eins fljótt og mér væri auðið.

Týr í denÉg fór svo niður í Gæslu til að ná mér í aur og mér er minnistætt hve ópersónulegt viðmótið var þar.  Mér var þó sagt að ég gæti mætt til vinnu um borð í Tý, sem yrði í slippnum, þegar ég treysti mér til.  Svo yrði athugað hvort annað pláss losnaði.  Ég var feginn að fá tækifæri til að dreifa huganum og vinna eitthvað og þáði þetta. Ég dvaldi svo einhverja daga hjá frænda mínum, sem veitti mér styrk og vináttu í nauð minni.

Týr tók ekki þátt í fleiri þorskastríðsbardögum. Hann trónaði þarna í slippnum með sundurtættan skrokk og úr honum runnu vatnstaumar líkt og honum blæddi. Ég mætti til vinnu og vaskaði upp, ryksugaði og þurrkaði af eins og mér bar.  Ég hafði þó ekki verið þarna lengi, þegar brytinn kom til mín fúllyndur og óvinveittur, reif af mér hnífapör, sem ég var að þurrka og sagði að ég hefði hvorki erindi né leyfi til að vera þarna. Hann víasaði mér frá borði og ég hef enn ekki skilið hvað honum gekk til.  Ég var aumur og meir eftir það sem á undan var gengið og andmælti engu, fann bara óskiljanlegt óréttlætið brenna mig í hjartastað. Þarna voru síðustu viðskipti mín við Landhelgisgæslu Íslands. Ég hef aldrei verið spurður um þessa atburði né verið dreginn til vitnis um neit,t sem að þeim laut. Jafnvel í bók Óttars Sveinssonar er nánast einvörðungu stuðst við gamlar blaðagreinar og talað við menn, sem sumir hverjir segja rangt frá eða eru uppfullir af einhverju óskiljanlegu kallagrobbi og hetjudýrkun.

Þegar ég hringdi í Óttar og innti hann eftir því af hverju hann hafi ekki talað við mig, þar sem minnst var á mig í bókinni, þá sagðist hann ekki hafa fundið mig. Það finnst mér hálfkæringsleg rannsóknarblaðamennska. Ein af rangfærslunum er sú að þyrluskýlið hafi verið lokað í seinni árekstrinum.  Ég var þarna á þyrludekkinu og fékk freygátuna nánast í fangið.  Þeir sem eftir lifa af þeim sem voru í skýlinu ættu að geta vitnað um það. Sjórinn í skýlinu var heldur ekki ímyndun ein. Kannski var það tryggingarmál að halda öðru fram, en nú finnst mér allt í lagi að leiðrétta það.

Ég var nokkra daga hjá bróður pabba til að ná styrk og stuðningur hans og hlýja voru mér ómetanleg á þessum erfiða tíma. Einn daginn þegar ég var á rölti þarna um Skipholtið, sá ég skilti úti á götu, sem sagði að þar færi fram inntökupróf í Myndlista og Handíðaskóla Íslands. Ég hafði alltaf verið listhneigður, svo ég fór þarna inn og spurði hvort ég mætti ekki taka þátt. Mér var sagt að ég gæti svosem skráð mig, þó seint væri, en ég skyldi ekki gera mér neinar grillur um að komast að. Yfir hundrað manns þreyttu þetta próf og aðeins um 15 til 20 kæmust í gegn. Ég sagði það aukaatriði, því ég hugsaði þetta aðeins sem tækifæri til að taka hugann af atburðum síðustu daga og sagði frá þorskastríðsþáttöku minni. Þetta var eingöngu hugsað sem sáluhjálparatriði.  Einskonar heimatilbúin áfallahjálp.

ÍsafjörðurÉg tók svo þetta próf og hlýt að hafa haft eitthvað til að bera, því ég komst inn í skólann og þar með urðu þessir atburðir allir til að kúvenda stefnunni í lífi mínu. Fyrir mér hafði ekkert annað legið en að verða sjómaður.  Pabbi gerði út rækjubát og ég hafði farið túra með honum frá 8-9 ára aldri. Ég hafði stundað sjóinn á smákoppum áður en ég fór í siglingar og líkaði aldrei vistin né það andrúmsloft hörku og karlmennskudýrkunnar, sem sjómennskunni fylgdi.

Að vísu fór ég túra eftir þetta á sumrin, en það var bara til að bjarga fjárhagnum og framfleyta sjálfum mér.

Ég hugsa stundum um hversu undaarlega forlögin höguðu ferð minni og hvaða áhrif þetta hafði á persónu mína og þroska síðar meir.  Skömmu fyrir þetta hafði ég verið lítill og áhyggjulaus drengur á gúmmískóm, sem naut hinna björtu sumardaga með vinum mínum á malargötum Ísafjarðar. Við sátum á björtum sumarkvöldum við spegilsléttann fjörðinn og fleyttum kerlingar við undirleik öldugjálfurs og kúandi æðarfugls. Það var friður í hjörtum okkar og lífið var himnaríki á jörðu.  Umskiptin frá æsku til ábyrgðar voru snögg og skyndilega var maður kominn mitt í iðu hinnar miskunnarlausu lífsbaráttu.

Fyrir vikið hef ég alltaf leitað aftur til þessarar kyrrðar og reynt að einfalda rök lífsins fyrir mér til samræmis því, sem ég upplifði í skjóli hinna bröttu fjalla. Afraksturinn er flókinn hugur og friðsæll maður, sem leitatst ávallt við að hreinsa hismið frá kjarnanum og upplifa augnablikið þar sem lífið á sér stað. Hér og nú. Framtíðin er ekki komin og á því ekki að vera áhyggjuefni. Fortíðin er farin og kemur ekki aftur nema í rósrauðum draumum æskuáranna.  Þetta ár var vendipunkturinn. Þetta var árið, sem ég breyttist úr barni í mann.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jens Guð

  Ég var í þessu sama inntökuprófi í MHÍ og þú.  Mér var einmitt líka sagt að 130 manns væru í prófinu en 29 bestu kæmust inn.  Ég stóð í þeirri trú að ég væri besti teiknari/málari landsins, búinn að myndskreyta fyrir Morgunblaðið í 2 ár og taldi nánast formsatriði að taka inntökuprófið.  Svo fékk ég nett áfall þegar ég sá hvað margir í inntökuprófinu voru flinkir.  Sumir augljóslega betri teiknarar en ég,  svo sem Böðvar Leós.  En við, Jón, sluppum báðir inn.  Inntökuprófið var reyndar meira en bara teikningar.  Við þurftum að svara spurningalista yfir eitt og annað varðandi þekkingu á þjóðmálum.  Sem ég skil ekki enn í dag hvaða tilgangi þjónaði.  Ég var nýkominn úr 6 vikna dvöl í Bandaríkjunum og brá á það ráð að skrifa á blaðið að  vegna langrar fjarveru frá Íslandi það sumarið væri ég óhæfur til að svara þeim spurningum.  það var látið gott heita.  Hildur Hákonar,  skólastjóri,  sagði mér að fullt tillit hafi verið tekið til þess svars.    

Jens Guð, 18.3.2007 kl. 02:34

2 Smámynd: Jens Guð

  Annað:  Af hverju er á þinni heimasíðu ekki listi yfir bloggvini?

Jens Guð, 18.3.2007 kl. 02:34

3 Smámynd: Jens Guð

Það er svo þægilegt að fara inn á eina bloggsíðu og sörfa þaðan yfir á bloggvini.

Jens Guð, 18.3.2007 kl. 02:36

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Já þessi spurningalisti var sérkennilegur í meira lagi. Ég skrifaði náttúrlega eitthvað um þorskastríðið. Var eðlilega vel inni í því öllu enda fátt annað í umræðunni Maður var einskonar Forrest Gump í því tilliti. 

Ég veit ekki þetta með bloggvinalistann. Hef ekki veitt því athygli. Kannski er það bara stillingaratriði. Ég kíki á það. 

Jón Steinar Ragnarsson, 18.3.2007 kl. 10:51

5 identicon

Mjög góður lestur, takk fyrir að deila þessum minningum með okkur. Man eftir þessum atgangi sem polli, og ég man hvað manni sárnaði við að sjá Bretann ráðast svona á okkar menn...klárlega mun betur búnir, Davíð og Golíat.

Guðmundur K. var hetjan í þá daga og hefur greinilega unnið fyrir því orðspori....

Núna eigum við bara bankaplebba sem æða áfram í græðgi og fæstir sem eiga fiskinn koma nálægt sjómennsku.....spurning hvort að Guðmundur hefði viljað berjast fyrir þennan málstað í dag...

Takk aftur...kveðja,E.

eman (IP-tala skráð) 18.3.2007 kl. 11:18

6 identicon

ps.  Þetta væri ekki óvitlaust efni í kvikmynd...... :)

eman (IP-tala skráð) 18.3.2007 kl. 11:27

7 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Guðmundur vissi alltaf fyrir hverju og fyrir hverja hann var að berjast.  Það hefur vafalaust sært hann síðustu árin að sjá annarskonar veiðiþjófa gófla til sín auðnum.  Þar dugðu engin skip því vígi þeirra var á Alþingi Íslendinga.

Menn hefðu oft þurft minna tilefni til að nefna orðið föðurlandssvik á nafn hér á árum áður.  Hinn æðsti allra glæpa. 

Jón Steinar Ragnarsson, 18.3.2007 kl. 11:30

8 identicon

Þetta vermir augun og býr til kökk hjá fleirum en þeim sem skrifar.

Einar Árnason (IP-tala skráð) 18.3.2007 kl. 13:26

9 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Takk fyrir Dúa mín. Þú ert nú ekki sem verst sjálf.  Sumar sögur segja sig sjálfar eina sem maður þarf að gera er að hreyfa puttana á lyklaborðinu, eins og píanistinn, sem spilar eftir minni.

Jón Steinar Ragnarsson, 18.3.2007 kl. 14:12

10 identicon

Takk fyrir þennan seinni part - ekki síðri en hinn fyrri. Það sem mér fannst skemmtilegast að lesa var hvert ferðin þín vegna meiðslanna leiddi þig á endanum og breytti þar með lífi þínu. Eitt af því sem ég hef alltaf haft óbilandi trú á er að í öllum breytingum sem verði í lífi manns felist ný tækifæri, hversu sársaukafullar sem þessar breytingar hugsanlega séu meðan þær eru að ganga yfir. Mér sýnist það eiga skemmtilega við um söguna þína

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 18.3.2007 kl. 14:49

11 identicon

Það býr svo mikil hreinskilni, einlægni og fegurð í frásögnum þínum og þá virðist sama um hvað þú ert að skrifa.  Þú hefur svo skýra hugsun.  Ég þykist einmitt þetta augnablikið hafa sloppið fyrir horn úr hræðilegri flugferð og það var ýmislegt gagnlegt sem þaut í gegnum hugann á meðan á því stóð.  Já. Þó maður sannarlega velti sér ekki upp úr því sem liðið er þá hefur það áhrif á hvaða augum maður lítur það sem kemur.  Þakka þér fyrir að gefa mér  kost á að lesa þetta.

Unnur (IP-tala skráð) 18.3.2007 kl. 16:48

12 Smámynd: Hólmgeir Karlsson

Var búinn að treina mér að lesa þessa frásögn þína, en las þær núnar báðar í einu. Ég ætla bara að segja það sem mér kom fyrst í huga ,.. "þetta er snilldar frásögn" hjá þér. Mér var kalt, með sjóbragð í munninum og illt í mjóbakinu þegar lestri lauk. Já það er stundum skrítið hvernig forlögin haga ferðinni, en það er ég viss um að einhver hefur vakað yfir þér þegar þú rataðir inní listaskólann. Bestu kveðjur og takk fyrir að deila þessari lífsreynslu svo listilega með okkur.

Hólmgeir Karlsson, 18.3.2007 kl. 19:41

13 Smámynd: G.Helga Ingadóttir

Já - tek undir með hinum um hversu einlæg og góð þessi frásögn er. Takk fyrir, það gaf mér mikið að lesa hana.

Ég á tvo syni og átti líka bróður, sem að dó ungur, aðeins 23 ára. Ég hef oft hugleitt það hversu heimur sá sem karlmenn bjuggu / búa við, er harður og jafnvel yfirborðskenndur. Ekki sagt til að gera lítið úr karlmönnum, heldur bara spegúlasjón um gildi og það að þurfa að sanna sig.

Bróðir minn tók sitt eigið líf og var það mikið tabú fyrir fjöldskylduna. Viðhorf sem að er kanski mildara í dag, en alltaf erum við mennirnir samt tilbúnir að hafa skoðanir og dæma.

Hann vildi vera harður nagli, var hrjúfur og orðljótur á stundum, en var ofurviðkvæmur og mjög raungóður. Fjöldskylduhetja, sem að stóð sig í flestum greinum, en hafði ekki eiginleika til að bogna og reysa sig svo við aftur, heldur brotnaði, þegar áföllin dundu á honum.

Ég elskaði hann og hataði, við vorum á sitt hvoru árinu, og deilum saman herbergi fram á unglingsár. Ég sakna hans alltaf, það var eins og hluti af mér værir skorinn burt, þegar hann dó.

Ég vona að ég geti lagt gott til minna sona og að þeir leifi sér að vera manneskjur, þegar að þörf er á. Ég á líka litla dóttur og hún er yndisleg. Einhvern vegin er þetta einfaldar fyrir mig gagnvart henni, enn sem komið er og vonandi áfram.

Ég vildi að við mennirnir sýndum meiri aðgát í nærveru hvors annars og þarf ég oft að minna mig á það, þegar ég göslast áfram og lýsi skoðunum mínum á þann hátt, að fólki bregður. En svo lengi lærir sem lifir.  

Hann var karlmaður, sem trúði því að hann ætti að vera harður af sér og ekki sýna of miklar tilfynningar. Innræting og mótun, kanski einhvað í eðlinu líka, en karlmenn eru líka fólk.

G.Helga Ingadóttir, 18.3.2007 kl. 22:50

14 Smámynd: G.Helga Ingadóttir

Einhvað fór það sem kom síðast í athugasemdinni minni út úr textanum, það er að segja samhenginu, en ég held að þetta skili sér samt.

G.Helga Ingadóttir, 18.3.2007 kl. 22:53

15 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Sem og endranær, takk fyrir mig.

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 18.3.2007 kl. 22:59

16 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Takk G. Helga fyrir einlæg og gefandi tilskrif. Lífið sem við lifum er líf andstæðna, mýktar og harðneskju. Ef að er gáð leiðir hið illa oft gott af sér og hið góða illt þegar fram líða stundir.  Þannig er þessi víxlgangur og hvorugt þessara afla getur án hins verið.  Við upplifum þetta oft hvert á sinn máta án tillits til kyns eða uppruna.  Að við sættumst við að svo sé og krefjumst ekki annars, myndi okkur kannski líða betur.  Þetta er snúið að skilja fyrir okkur dauðlega menn. 

Guð blessi þig vina og vonandi fæ ég tækifæri til að kíkja í sopa til ykkar á leið um Hvolsvöll í fyllingu tímans. 

Jón Steinar Ragnarsson, 18.3.2007 kl. 23:59

17 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Sko....þú ert eitthvað meiriháttar flottur  Jón Steinar. Haltu áfram að kveikja þessi ljos hér og þar  og allsstaðar!!!!

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 19.3.2007 kl. 01:53

18 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Takk Katrín mín og dittó á þig.

Jón Steinar Ragnarsson, 19.3.2007 kl. 03:31

19 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Ætla að lesa þetta aftur í góðu tómi. Tek hádegið í það

Takk fyrir að endurbirta.

Hrönn Sigurðardóttir, 19.3.2007 kl. 08:14

20 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Gott að drengurinn í gúmmískónum slapp lifandi úr þessum hildarleik. Annars hefðum við farið á mis við sögurnar.

Takk

Hrönn Sigurðardóttir, 19.3.2007 kl. 13:41

21 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ekki spurning. Þú ert öflugur penni. Gott að vera bloggvinur þinn. Takk fyrir mig.

Hrannar Baldursson, 19.3.2007 kl. 22:23

22 Smámynd: Solla Guðjóns

á eftir að lesa ,hef ekki tíma sem stendur(nær stendur tíminn?) kíki í gó'u tómi.

Solla Guðjóns, 20.3.2007 kl. 09:13

23 Smámynd: G.Helga Ingadóttir

Ég hlakka til að fá þig í kaffi í sumar og Guð blessi þig  lika og alla þá sem kíkja inn á síðuna þína!

G.Helga Ingadóttir, 23.3.2007 kl. 08:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband