Meiking Off.

FilmCrew_5886Eitt kjánalegasta fyrirbærið  í annars smákjánalegum kvikmyndaiðnaðinum, eru myndirnar, sem gerðar eru um myndina og kallast “Á bak við tjöldin.” eða “Making of.”

Í þessum myndum er sjálfhverfa draumasmiðjunnar holdgerð svo um munar.  Í fyrsta lagi þá er sjónum neytenda beint að því hversu ofboðslega mikið mál það er að búa til bíómynd.  Hvað margir fagmenn koma að verki og hve mikil sérkunnátta er á ferð.  Hvað menn eru ógizzlega pró. 

Með þessu er áhorfandinn þó rændur því sem í raun er eða var upphaflegur tilgangur kvikmyndarinnar, það er að segja sögu. Hann fer að pæla í smáatriðunum eins og leikmyndum, lýsingu og brellum í stað þess að lifa sig inn í hremmingar sögupersónanna. Var regnið í senunni svolítið yfir strikið eins og oft vill brenna við?  Blakti veggurinn, þegar hurðinni var skellt?  Var þetta hljóðnemi sem læddist þarna inn í hægra horninu efst?   Skrímslið var svolítið stirðbusalegt að sjá og við ímyndum okkur víra, slöngur og menn með fjarstýringar.  "Djöfull var þetta nú “krömmý” digitaleffect."  Draumurinn og innlifunin í frásögnina er trufluð eða alveg eyðilögð með þessum inngripum rökhugsunarinnar.  Svo eru það viðtölin við snillingana. Þau eru alger kapítuli út af fyrir sig.

Fólk, sem vinnur við það að þykjast vera eitthvað annað en það er og segja það, sem þeim er sagt að segja,  er ekki mjög sannfærandi þar sem það situr afslappað og sjálfumglatt,  mærandi alla starfsmenn og samleikara í hástert.  Þeir vita líka að þeir eiga von á hinu sama frá þeim.   Lofið er yfirgengilegt og orðin snillingur og virtúós er notað oftar en almenn tengiorð.  Leikstjórinn hefur yfirnáttúrlegt innsæi og fangar sannleikann og augnablikin af meistaralegri næmni.  Leikararnir eru allir að gera eitt af sínum bestu verkum og sýna að sama skapi mikla snilld, innsæi og persónutöfra, svo ekki sé talað um fagmennsku. 

MOVIESTAR 2Þessi hópur virðist algerlega hnökralaus sem manneskjur og fagmenn.   Téð mynd er undantekningalítið saga, sem mun breyta sýn fólks á lífið og jafnvel heiminum, hvorki meira né minna.  Aldrei er sagt styggðaryrði um einn né neinn og engir mannlegir brestir virðast komast upp á yfirborðið á meðan á tökum stendur.  Það er eins og fólk nái að halda slíku í sér.  Þetta er hljómar hreinlega eins og á alsæluökrum himnaríkis.  Algerlega ójarðneskur vinnustaður.  Þvílík öfundsverð gæfa, sem þetta fólk nýtur.

Mín reynsla segir þó að þetta sé alls ekki algilt, svo varlega sé orðað.  Margir leikstjórar eru dintóttir og sjálfhverfir í meira lagi.  Þeir borða oft ekki sama mat og aðrir, missa þolinmæðina fljótar en flestir og hafa nánast ekkert samneyti við þá, sem eru neðar í goggunarröðinni.  Þeir fara í fýlur eins og börn og láta aðra um að gagnrýna starfsmennina fyrir sig.  Sumir eru svo viðkvæmir artistar að sólin þarf að setja sig á sporbaug um þá svo þeim líki.

Leikarar eru oft hinar verstu flækjur og eru alltaf að mæla sig við aðra leikara og tala illa um frammistöðu þeirra.  Þeir eru misskildir og þola illa kulda og átök.  Það þarf að stjana stöðugt í kring um þá, vefja þá teppum, gefa þeim heitt að drekka, sækja hitt eða þetta.  Þeir vilja ekki svona mat og hinsegin kaffi eða te, eru misskildir og þjáðir listamenn í sálarkreppu yfir því hvernig þeir eiga að túlka göngu sína inn um dyr í næstu senu.

film-crew_2Margir skipa fyrir til að skipa fyrir. Færa þetta hingað, lyfta þessu, sækja þetta, henda hinu.  Þetta er gert til að láta alla vita að menn eru á tánum og kallast busy doing nothing.Litlu mennirnir þeytast til og frá og eru oftast að gera það sem litlu máli skiptir, bara svo að stjörnunum líði betur. Þessir litlu menn eru þó rosalega pró, sem sjá má á því að þeir eru með alskyns dót hangandi utan á sér. Vasaljós, fjölnotahnífa, skrúfvélar, talstöðvar, síma og skrúflyklasett.  Flestir eru í North Face göllum upp á tugi þúsunda, þótt nokkrir séu í North Fish frá rúmfatalagernum á 999.  Merkin skipta máli og sumir þekkja sinn vitjunartíma og mæta ekki í flottari átfitti en brassið.

Leikmyndasmiðir færa, bera, skrúfa og líta á sig sem kvikmyndagerðarmenn.  Þó á þessi  vinna fátt skylt við það.  Eins er með ljósamenn og tæknilið.  Það eru burðarjálkar, sem bera rafmagnsspenna, sandpoka, níðþunga ljósastanda og kastara eftir skipunum kvikmyndatökumannsins.  Þeir titla sig líka kvikmyndagerðarmenn.  Það er sjaldnast mikla snilld að sjá í neinu.  Allavega ekki eins og lýst er í myndinni um myndina.  Þrældómur og tilgangslaust hangs á víxl og undirliggjandi ergelsi og þreyta.  Hlutfall stórreykingamanna í þessum hópi er svipað og meðal sjúklinga á Kleppi enda er slíkt sammerkt með hugsandi fólki.

Framleiðendur eru kenjóttir og frekir og láta sér fátt um allan þrældóm finnast.  Allt sem skiptir máli er að spara peninga og ef einhver kvartar, þá segja þeir þeim að finna sér eitthvað annað að gera.  Þeir reka fólk og ráða og reka áfram inn í lengri vinnudaga á forsendum listarinnar, en hafa þó ekki hundsvit á því hvað list er, frekar en ég.  Þeir bjóða kunnáttulausu fólki að vinna frítt til að byggja upp ferilskrá, sem enga þýðingu hefur í raun.  Þetta á ekkert skylt við myndina um myndina heldur. Svona hefur þetta allavega horft við mér svona innanfrá séð.  Kannski hef ég bara verið svona óheppinn með prójekt?

Hvers vegna skyldu aðrar greinar ekki taka þessa nálgun upp líka?  Rithöfundur getur vaðið á súðum um tákn og vísanir í bókinni, sem hann er að skrifa og rómað útgefandann. Útgefandinn getur rómað rithöfundinn og prentararnir geta tjáð sig um hve gefandi það er að prenta bækur fyrir viðkomandi og rómað þá líka.

fron_mjolkurkexKexverksmiðjan Frón gæti til dæmis gert svona mynd um kexbakstur, þar sem Jói á hrærivélinni getur rómað Bjössa á ofninum, Sigga á hnoðaranum og Sollu í pökkuninni.  Framkvæmdastjórinn getur svo rómað alla hina og fengið lof fyrir innsæi listfengi og persónutöfra frá þeim.  Jafnvel Lúlli á lyftaranum fengi sitt skjall.  Án hans hefði þetta ekki verið mögulegt.  Við fylgjum bökunarferlinu frá því að hveitipokanum er hellt í síló og þangað til kexpakkanum er pakkað.  Inn á milli er klippt í vitnisburði starfsfólksins um handtökin og færni viðkomandi í þeim.   Í búðum væru svo stór plaköt með þessu fólki í aksjón undir yfirskriftinni “Frón kynnir!  Úr smiðju þeirra sem færðu okkur Kremkexið!  Einhvert frábærasta Mjólkurkex allra tíma!  Nýjasta sköpun Júlla famkvæmdastjóra.  Hræra: Jói.  Hnoðun: Siggi.  Bökun: Bjössi Bakari og teymið frá Fróni!”

Ekki veit ég hvort það myndi eyðileggja nautnina af kexátinu í sama mæli og myndin um myndina skemmir fyrir okkur kvikmyndaupplifunina.  Það gæti þó jafnvel haft vafasöm áhrif, ef við fengjum að fylgjast pylsugerðarmönnum eða pizzubökurum vinna sín ódauðlegu listaverk. 

Hvað sem öðru líður, þá værum við sennilega jafn nær um gæði vörunnar og við erum nær um gæði myndanna eftir að hafa horft á Meikíng Off. 

Kannski er þetta ástæðan fyrir minnkandi aðsókn á bíó.  Minnugur þess hvað henti Narcissus greyið þegar hann dáleiddist af spegilmynd sinni og féll í vatnið og drukknaði, þá held ég að það sé ekki fjarri lagi.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Djöfull nærðu þessu vel. Nákvæmlega eins og ég hef alltaf séð þetta fyrir mér en ekki þorað að fjalla um það. Man sérstaklega eftir tveim myndum og einmitt lákúrulegu spjalli við snyllingana. Kaldaljós og Hafið.

Níels A. Ársælsson., 26.3.2007 kl. 02:37

2 Smámynd: Róbert Björnsson

Hahaha bráðsmellin háðsádeila    Svona er lífið og listin.  En mikið sakna ég mjólkurkexins frá Frón!     Eitt af því sem maður keypti sjaldan eða aldrei heima á Íslandi en fjarlægðin gerir fjöllin blá og maður fær vatn í munnin í hvert skipti sem maður sér mynd af einhverju svona séríslensku fyrirbæri.

Róbert Björnsson, 26.3.2007 kl. 03:35

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Hreint unaðslegur pistill.  Er alveg hjartanlega sammála þér um "bakviðtjöldinkvikmyndagerð" nema í einu tilliti.  Það var "dokumentasjón" um myndina Höstsonatan sem Bergman gerði. Sú var brilljant.

Annars má geta þess að Ingmar Bergman þurfti tam einkaklósett alls staðar sem hann vann.  Hann var (og er kannski enn) sjúklega upptekinn af kúknum úr sér, vildi vita lögun og lit og "niðursturtarinn" varð að vera  sérstakrar gerðar.  Ekki mátti tæta viðkomandi úrgang.  Fyrirgefið að ég skuli vera að skrifa um illalyktandi hluti en sem betur fer er bloggið enn lyktarlaust.

Takk aftur fyrir frábæran pistil.

Jenný Anna Baldursdóttir, 26.3.2007 kl. 08:33

4 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

...sat einu sinni og horfði á spólu með fólki sem ég þekkti.... þau gerðu ekki annað en benda á það sem betur hefði mátt fara.... ".....Þarna var nú aðeins yfirlýst...." "þarna sást hljóðneminn....." "var hún ekki í öðruvísi litri peysu áðan?" Aðeins of þetta og aðeins meira hitt....

Díj hvað ég var þreytt á þeim, þau eyðilögðu gersamlega fyrir mér myndina - og ég þarf varla að taka það fram að ég hef ekki horft á mynd með þeim síðan!

Góður pistill - takk

Hrönn Sigurðardóttir, 26.3.2007 kl. 08:35

5 Smámynd: Jónína Sólborg Þórisdóttir

Ok, þetta var BARA fyndin lesning  
Hef einu sinni prófað að vera svona "extra" (í Bjólfskviðu) og gat að mörgu leyti heimfært þá reynslu upp á þennan pistil. Það skal tekið fram að ég hitti mikið af stórskemmtilegur fólki þar samt, sem var síður en svo sjálfhverft  

Jónína Sólborg Þórisdóttir, 26.3.2007 kl. 09:36

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Mennirnir á bak við tjöldin eins og í Spaugstorunni hehehehe.... Alltaf jafn gaman að lesa það sem þér dettur í hug að setja niður á blað.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 26.3.2007 kl. 09:55

7 Smámynd: Hrannar Baldursson

Stórsnjöll grein og skemmtileg lesning. Reyndar vil ég benda á dæmi þar sem að fjallað er um kvikmyndagerð af hreinskilni, og báðar eru þær um Terry Gilliam myndir: Lost in La Mancha og  The Hamster Factor And Other Tales Of The Twelve Monkeys. Þekki ekkert til íslenskrar kvikmyndagerðar, en gaman að heyra frásögn þína.

Hrannar Baldursson, 26.3.2007 kl. 17:12

8 identicon

Annars eru þetta allt vinir þínir, er það ekki...  Annars sammála, en svo eru til myndir eins og Heart of Darkness, Lost in La Mancha, South Bank Show þátturinn um David Lean og fleiri. Einnig kemur fyrir að maður rekst á ágætis stöff á DVD diskum, nefni t.d. DVD-diskinn með rússnesku myndinni The Return, sem er mjög gott dæmi um hvernig gera á hógværar en upplýsandi "making of" myndir.  kk, Ási.

Ásgrímur Sverrisson (IP-tala skráð) 26.3.2007 kl. 17:17

9 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Jú Ási og Hrannar.  Til eru heiðarlegar undantekningar, sem einmitt sýna hvernig þetta er í raun.  Ég er að sjálfsögðu að tala um þessar mainstream myndir, sem allflestar eru með svona ótrúlega sjálfhverfum viðhengjum. Jú, Ási allt eru þetta elskulegir vinir.  En vinir eru líka þeir, sem til vamms segja.

Jón Steinar Ragnarsson, 26.3.2007 kl. 18:41

10 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Já, og raunar eru þær myndir, sem þið nefnið meira í anda heimildamynda en þessara svokölluðu making of ræpu.  Þær eru oft endurlit en ekki gerðar samhliða framleiðslunni. Þar finnst mér stór munur á nálgun.

Jón Steinar Ragnarsson, 26.3.2007 kl. 18:46

11 Smámynd: Hólmgeir Karlsson

Skemmtilegur pistill að vanda :)  þetta með myndina um myndina og að það geti spillt fyrir áhorfandanum! já get verið sammála því. Hver hefði t.d. viljað vita að "stórsjarmörinn" í Dirty dancing hefði þurft að standa uppá koll þegar hann var að kyssa sætu stelpurnar, he he..
Þegar ég las pistilinn rifjaðist líka upp fyrir mér hvað ég hataði myndir í bókum þegar ég var strákur. Maður var búinn að lifa sig inní söguna og svo birtist allt í einu mynd sem passaði ekkert við og var bara til að eyðileggja stemminguna. Þetta er kannski svipað þó svo ekki megi sleppa myndinni í myndinni, sem myndin um myndina fjallar um" :)

Hólmgeir Karlsson, 26.3.2007 kl. 18:53

12 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Leikstjórar eru margir stórbrotnar persónur. Ég kynntist nokkrum þegar ég var meðlimur í Skagaleikflokknum. Gísli Halldórsson sálugi leikari var eitt sinn leikstjóri hjá okkur og hann var mjög strangur. Ef einhver kom of seint á æfingu sagði hann ekki orð en leit á viðkomandi með augum sem sögðu allt sem segja þurfti og leit svo á armbandsúrið sitt. Það virkaði líka því  allir og jafnvel þeir sem alltaf höfðu komið of seint mættu á mínútunni hjá Gísla.

Svava frá Strandbergi , 26.3.2007 kl. 19:17

13 Smámynd: Ragnar Trausti Ragnarsson

Èg get nú ekki verid sammála thessu öllu. En einhver merkilegasta mynd um gerd kvikmyndar er gerd Fitzgeralldo thar sem Werne Herzog, leikstjórinn og Klaus Kinski rífast heiftarlega.

Ragnar Trausti Ragnarsson, 26.3.2007 kl. 20:46

14 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Endurtek, það sem ég segi hér að ofan. Það eru óháðar heimildamyndir, sem eru undantekningar frá þessu og einmitt frægar sem slíkar. 'Eg er að tala um mainstream Making Of, sem þú sérð í sjónvarpi í tengslum við kynningu mynda og eru einnig oft með á DVD diskum. Hinar, sem nefndar eru hef ég séð og eiga ekkert skylt við það sem ég er að tala um. Herzof bar heilt skip yfir fjall og var algert pain in the ass. Í dag, sér maður svona varla, enda eru þessar myndir markaðstæki.  Hinar gefa þvert á móti hina myrku hlið og bera þessum snillingum oft ekki vel söguna.

Þetta er annars bara mín meinfyndna hlið á málið. Kannski kemst það illa yfir.

Jón Steinar Ragnarsson, 26.3.2007 kl. 20:53

15 Smámynd: Hólmgeir Karlsson

Þessi skemmtilega pæling þín varð til þess að það rifjuðust upp fyrir mér skemmtileg augnablik úr menntaskóla (MA). Þar var öflugt leikfélag (LMA) sem setti upp á hverju ári myndarleg stykki. Eitt sinn tókum við okkur til nokkrir félagar og stofnuðum nýtt félag SÁLMA (samtök áhangenda leikfélags MA). Tilgangur félagsins var að kortleggja allt sem gerðist fram að frumsýningu. Við mættum því samviskusamlega allir á hverja einustu æfingu og fylgdumst með öllu sem gerðist, tókum myndir og viðtöl við leikstjóra og leikara allan tímann. Þetta var náttúrulega grín í upphafi en endaði þannig að við vorum ráðgjafa leikstjóra og leikmyndahönnuðar og lögðum til allt efni og myndir í svona "behind the scene story". Það sem aldrei kom fram var að við vorum allir skotnir í leikstjóranum, Steinunni, sem var ung og glæsileg kona, .... og fengum við að njóta nærveru hennar í tíma og ótíma :)

Hólmgeir Karlsson, 26.3.2007 kl. 21:47

16 Smámynd: Hólmgeir Karlsson

.... já og ég gleymdi að auðvitað gáfum við leikstjóranum Sálma-bók og fengum koss að launum :)

Hólmgeir Karlsson, 26.3.2007 kl. 21:51

17 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 26.3.2007 kl. 22:05

18 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Takk Hólmgeir fyrir skemmtilegt innleg. Já "drævið" á bak við margt á sér rætur í þessum sama kjöltubrunni.  Ég er annars hissa á hvað kollegum mínum hér er að sárna skrifin og reyna að draga úr þessu.  Þetta er óvænt orðið afar viðkvæmt, sem í raun er græskulaust grín.  Ég er ekki alveg að skilja málið.

Jón Steinar Ragnarsson, 27.3.2007 kl. 00:04

19 Smámynd: Anna Theodóra Rögnvaldsdóttir

Hér er sena sem var EKKI sett í 'making of' myndina!

http://www.youtube.com/watch?v=E4Qls1rAfYs&mode=related&search= 

Anna Theodóra Rögnvaldsdóttir, 27.3.2007 kl. 00:41

20 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Akkúrat! Takk Anna Set linkinn HÉR og annað HÉR fyrir fólk að hugleiða. Hehehe.

Jón Steinar Ragnarsson, 27.3.2007 kl. 01:07

21 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Greinilega ekki alltaf allt sem gengur upp, en menn komast yfir erfiðleikana í kvikmyndagerð sem og á öðrum vígstöðum.

Ester Sveinbjarnardóttir, 27.3.2007 kl. 05:48

22 Smámynd: Víðir Ragnarsson

Góður!

Víðir Ragnarsson, 27.3.2007 kl. 08:41

23 Smámynd: Steingrímur Helgason

Í zjálfhverfri fávizku minni um það að ég myndi vonandi fá frítt inn hjá þér, (fyrir vangreiddri zkuld nýverandi bloggvináttu okkar), þá legg ég til að þú fáir moggeríið í lið með þér & rukkir inn á þezzi znilldarzkrif hjá þér.

Orðzkrípið endurbökun ætti mázke við en þeir bakarameiztarar zem að ég þekki nú vel til tækju nú varla þátt í því að baka tvíbökur, hvað þá að bera á borð fyrir zína kúnna, einhvert dona '5mínútna zmakkerí' af zínum verkum.  & JF er náttla ekki frekar bakari en að ég er zjónvarpzkokkur. Já eða öfugt, eða þannig.

Þetta minnti mig á félaga zonar mínz zem að átti að zegja frá einhverjum þremur atriðum úr þekktum zögum í 'kviðunum' hanz Hómerz, en hafði bara zéð Brad Pitt í 'treilernum' af Troy.  Það hefði átt að duga zamt til að fá 1/3 af zwari.  En líklega horfði hann bara á "The making of the trailer of 'Troy' mázke", dona til þezz að þynna kíninwatnið í gininu dáldið meira.

Það tók mig reyndar bara 2 mínútur að útzkýra fyrir þeim félögum að 'trjóuheztar' þyrftu ekki endilega að vera víruzar, en þeir ennþá hafna öllum víruzavörnum, því að þær eyðileggja 'ping-rate' í WOW & EVE.  En þetta zkildu þeir.

Mar er því jafn ztúmm & áður.

Z.

Steingrímur Helgason, 28.3.2007 kl. 00:11

24 identicon

aahhh... þetta var skemmtileg lesning.. Kannast einmitt við þessar kraftgallatípur sem maður sér trítlandi í kringum hvíta stóra samsteypubílinn með sígarettuna í kjaftinum og kaffiplastbolla í hendinni... bíðandi eftir að tökum dagsins fari nú að ljúka svo hægt sé að pakka draslið saman og fá sér bjór..

Björg F (IP-tala skráð) 28.3.2007 kl. 01:08

25 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Takk fyrir Zteingrímur. Ég bjóst við að ég ætti sálufélaga í þessu.

Þú hittir naglann á höfuðið þarna Björg mín. Þetta er náttúrlega alger Steypa.

Jón Steinar Ragnarsson, 28.3.2007 kl. 03:06

26 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Híhí!! Eins gott að þú startir ekki blog í húlúvúdd með svona syndsamlegum ásökunum! Selebritís sjálfhverfar! Ertu óður! Veistu ekki að allt þetta fólk er að fórna sér okkur til skemmtunnar

Heiða B. Heiðars, 30.3.2007 kl. 01:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband