Vort Afmarkaða Almætti.
2.5.2007 | 00:24
Yfir þorpinu mínu var himnesk hvelfing, sem var með þeim undrum gerð að skipta litum. Stundum var hún glitrandi tær eins og lindardjúp eða skyggð og mött með mikilfenglegum sólstöfum, sem flöktu við sjóndeild eins og silfraðar orgelpípur. Í málmkenndu frostlofti vetrarnátta sindraði þar stjörnufjöld, sem drap tittliga í sífellu mót dreymandi barnsaugum og jaðegrænar slæður norðurljósanna hlykkjuðust í þokkafullum dansi frá eilífð til eilífðar. Stundum ríkti kyrrðin ein og stundum geysuðu fjörbrot árstíðanna og undirstrikuðu smæð okkar og magnleysi. Stundum sveif þar fuglafjöld og söng sköpunarverkinu dýrð. Þetta var okkar kirkjuhvolf. Í þessu hvolfi áttu hjörtu okkar samhljóm, þegar við drengirnir stigum út í morgunloftið viðbúnir óvæntum undrum óskipulagðrar framtíðar. Leið oss mikla líf. Hvað áttu óvænt og undravert að færa okkur á þessum degi?
Við Einar vinur minn hittumst ávallt á morgnana og spásseruðum um bæinn eins og við ættum hann. Sjálfgefnir heimspekingar í gúmmískóm með lymskublik óráðinna uppátækja í augum. Við stungum snöggklipptum kollum inn um gluggann á félagsbakaríinu og fengum heitar hveitibollur hjá Steina bakara, áður en hann breytti þeim í tvíbökur. Stundum fengum við að bursta hveitipoka fyrir vasapeninga hjá honum. Þá urðum við hvítir frá hvirfli til ilja eins og vofur eða fallnir englar og skutum grunlausum skelk í bringu. Milli okkar Steina ríkti óhandsalað samkomulag virðingar og hjálpsemi.
Við áttum okkur sjálfir þótt við svöruðum öðru til þegar við vorum spurðir um hver ætti okkur. Spurningar um eignarhald og hlutverk voru meiningarlausar í okkar heimi. Við áttum þó alltaf stöðluð svör við spurningum fullorðna fólksins. Stundum spurðu menn til dæmis hvað við ætluðum að verða þegar við yrðum stórir og við sögðumst ætla að verða það sama og feður okkar, þótt við vissum fullkomlega að við værum eitthvað mikið merkilegra þar og þá. Við þurftum ekki merkimiða til að gefa okkur tilgang. Hvorki þekking, staða, eignir, upphefð né skoðanir glöptu þessa sjálfsmynd eins og hjá hinum fullorðnu. Þeir töldu sig alltaf vera eitthvað, hafa einhverjar skoðanir og trú og áttu eitthvað, sem þeir skilgreindu persónu sína eftir. Ég er bankastjóri eða smiður, framsóknarmaður eða verkamaður, auðugur eða fátækur, þjáður eða sæll.
Við vorum ekkert sérstakt og þar af leiðandi allt mögulegt í senn. Hið æðra sjálf var fyrirferðarmeira í verund okkar en jarðbundin sjálfsmyndin; breiddi úr sér að baki hugans eins og litauðugt páffuglsstél; vakandi yfir öllum hugsunum og gjörðum. Ekkert annað jarðneskt kvikindi en maðurinn naut þeirra forréttinda að geta staðið utan sjálfs síns og ígrundað eigin hugsanir. Það var hinn sameiginlegi andi; hið alvitra og alsjándi ofar hinum huglæga meltingarvegi heilans. Heilinn melti upplýsingar en maginn mat. Þetta vissum við og skynjuðum og þess vegna var þetta glaða og óræða glott undir niðri. Leyndardómur bernskunnar. Hið takmarkalausa frelsi sálarinnar; fullvissan um æðri handleiðslu, sem maður gat heiðrað og hundsað að vild. Ástand sem fullorðnar manneskjur gátu ekki öðlast nema að glata öllu. Verða ekkert og neyðast til að treysta á náungann eins og oft hendir mjög gamalt fólk. Það var enginn þykistuleikur þótt við virtumst eiga heiminn. Það var jafn augljós staðreynd og að heimurinn átti okkur. Heimurinn var í okkur og við í heiminum.
Eitt sinn á okkar stefnulausa flandri streymdi til okkar angurvær söngur. Hann barst frá litlu vinalegu trékirjunni okkar. “Hærra minn Guð til þín; hærra til þín...” söng fólkið í angistarblandinni bæn um nálægð við eitthvað, sem þegar umlukti það hvar sem það var eða fór. Raddir sem í sjálfmeðvitaðri helgi, kepptust um uppljómun fyrir tilstilli lagvísi og tónaflúrs. Við fórum inn í spíraðann helgidóminn og læddumst upp á kórsvalirnar, örlítið spenntir og forvitnir, en samt hæfilega lotningarfullir. Þarna höfðum við ekki komið síðan okkur var dýft í fontinn í árdaga. Við vorum einir þarna uppi og gátum horft yfir hnýpinn söfnuðinn. Söngurinn var fallegur og það var sársauki, iðrun og von í angurværum samhljómnum. Sumar raddir voru meiri eða örvæntari en aðrar og risu yfir meðallagið í skræku yfirboði og titrandi þindarblæstri. Það þótti okkur fyndið. Skrítnar kerlingar með ámálaðan hreinleika og sýndargöfgi í svip, kepptust um hylli prestsins. “Heilög skal heimvon mín hærra minn Guð til þín.”
Í stöðugri útöndun héldu þær sig finna nálægð heilags anda, þegar raunin var sú að þær voru að missa meðvitund af súrefnisskorti. Séra Sigurður sneri baki við hjörðinni sinni og baukaði eitthvað með flúrstunginn kross á herðum. Hann var tröllvaxinn maður í okkar augum og þegar söngnum lauk, sneri hann sér við með upprétta arma og höfgi í svip. Svo byrjaði hann að tóna sinni nefmæltu röddu, sem var í miklu ósamræmi við burði hans. “Gvöspjallið skrefaðe gvöðspjallamaðurenn Jóhanneeeees...” Þvílíkir tilburðir við að kynna höfund bókar! Hláturinn blossaði upp í kviðarholinu á okkur og þótt við reyndum að bera hendur fyrir vitin, þá frussaðist hann stjórnlaust út um nef og munn. Séra Sigurður snarþagnaði í miðju tóni og söfnuðurinn reygði sig í átt að svölunum. Við urðum algerlega magnvana og lákum niður í gólfið grenjandi úr hlátri, svo tárin trilluðu og víst var að einhverjir dropar sluppu í brók. Meðhjálparinn hraðaði sér áleiðis til okkar og við reyndum að skríða niður emjandi og ískarnadi, höfðum enga stjórn á þessu. Við vorum gripnir niðri við dyr þar sem tekið var í hnakkadrambið á okkur og okkur hent á dyr. Þar kútveltumst um tröppurnar og slöguðum svo eins og drukknir menn út úr garðinum.
Lengi á eftir fannst okkur við vera litnir þóttafullum vandlætingaraugum af broddborgurum bæjarins. Uppalningar, skrattakollar og púkar. Þarna á þessum afmarkaða stað undir máluðu stjörnuhvolfi höfðum við framið helgispjöll. Bara þarna gátum við ekki hlegið og glaðst. Þarna var leikrænt yfirbragð sorgar og alvöru skilyrði. Þarna virtist vera meira af Guði en annarstaðar og í návist hans var nauðsynlegt að vera langleitur og horfa með hundsaugum á siðameistara hans og umboðsmann. Þetta gátum við ekki skilið og enn er það svo um fjörutíu árum síðar.
Það var ekki að undra að við fengum grillur um að Guð væri persóna. Persóna sem jafnvel var bundin við ákveðið póstfang. Duttlungafullur karl með eilífar umvandanir. Karl sem lét einatt eins og maður gæti ekki gert neitt rétt. Uppalandi, sem stöððugt klifaði á takmörkunum okkar. Þú mátt ekki, þú getur ekki, þú skilur ekki.
Á þeim tíma, sem við vorum að fikta við andaglas, datt okkur í hug að athuga hvort það væri hægt að ná í þennan afmarkaða Guð í síma. Bara svona til að sjá hvort þetta væri virkilega tilfellið. Fjölfróðir andarnir voru ekki lengi að fletta númerinu upp þegar við spurðum. Ekki man ég númerið í dag, en við hringdum við fyrsta tækifæri. Eftir nokkrar hringingar, svaraði gamall og góðlegur karl. “Er þetta hjá Guð?” spurði ég. “Það er hann.” Svaraði hæglát röddin. Það kom fát á mig; varð eiginlega kjaftstopp. Ég tók um tólið og sagði Einari að almættið væri á línunni. “Spurðu hann hvar hann á heima.” Hvíslaði Einar. Ég spurði og góðlátlegur hlátur hljómaði. “Allstaðar og hvergi. Inni í þér og allt í kring.” svaraði röddin. Mér fannst þetta útúrsnúningur og spurði. “Áttu ekki heima í himnaríki?” - “Jú.” Svaraði röddin og hljómaði brosandi. Var hann að gera at í okkur? “Himnaríki er allstaðar og hvergi. Inni í þér og allt um kring.” Ekki man ég nákvæmlega allt samtalið en fljótlega sagði Guð okkur að hann væri nú bara trillukarl á Patreksfirði. Þetta samtal kom þó róti hugi okkar og eftir miklar vangaveltur komumst við að því að þetta hafi í raun verið Guð. Látleysi hans og viska var svo djúp og brosmild röddin svo kærleiksrík að ég er ekki frá því að svo hafi verið. Guð er jú í öllu og allstaðar og alls ekki ólíklegt að hann hafi talað í þessum trillukarli frá Patró.
Eftir hláturskastið mikla, fór ekki í kirkju aftur fyrr en ég byrjaði að ganga til prestsins í aðdraganda fermingarinnar. Þá hafði skilningur minn á geistlegum efnum ekki aukist, síður en svo. Mér var ómögulegt að skilja tilgang þessara trúarbragða að því undanskildu að þau gæfu yfirvarp, svo husla mætti hræin utan af burtflognum sálum. Hulstur, sem í raun voru ekkert merkilegri en hver önnur slitin flík.
Kristinfræðikennslan hafði verið innantómt stagl um liðna sögu, þrætur, valdboð, ofbeldi og þokukennd hugtök. Fátt var skýrt um inntak trúarinnar. Það var mér þó ljóst af orðum Krists, að þar talaði maður af skynsemi og kærleik, en um leið og brugðið var frá hans beinu kennisetningum ólgaði allt í óeiningu, fordæmingu, sjálfsréttlætingu, refsingum og manndýrkun. Þetta virtist allt í hrópandi þversögn við kjarnann.
Hvað var að? Hvað voru menn að bulla? Var hægt að mistúlka svo afdráttarlausa boðun sem að elska óvin sinn og náunga? Dæma ekki aðra? Gefa í stað þess að taka? Iðka ekki réttlæti sitt sjálfum sér til dýrðar og upphefðar? Fyrirgefa? Hvar var auðmýktin í öllu prjálinu og orðskrúðinu? Hvert var markmið þessa alls? Hvers vegna var trúariðkunin bundin við ákveðna staði og allt þetta ritúal haft um hönd? Sagði Kristur ekki að andi hans væri mitt á meðal þeirra tveggja eða þriggja, sem kæmu saman í nafni hans? Sagði hann okkur ekki að fara inn í herbergi okkar, loka að okkur og biðja? Sagði hann okkur ekki að við yrðum ekki frekar bænheyrð fyrir orðskrúð og mælgi; að Guð heyrði í raun bænir okkar áður en við bæðum? Hvers vegna voru allir að hamast við að akta þvert ofan í þessi orð?
Þessar spurningar þutu um hormónaþrútinn uglingshugann og engin svör voru gefin. Ég fékk aðeins ákúrur frá prestinum fyrir að geta ekki farið með trúarjátningartugguna utanað. Tuggu, sem ku hafa átt að skilja milli feigs og ófeigs í framtíð minni sem barni Guðs. “Jón minn, ætlar þú ekki að fermast?” spurði sálnahirðirinn Sigurður, þegar ég gat ekki jarmað í kór við auðmjúk lömbin. Ég var ekki viss. Ég gat ekki séð að einhver vindhögg og þulur frá Sigurði gætu tryggt mér eilíft líf eða gefið mér lífsins kórónu?? Hvað sem það nú þýddi.
Einn daginn, þegar ég var að ganga til prests, eins og það var kallað, þá sá ég hvar hrafn skoppaði á milli legsteina með eitthvað nefinu. Ég var eilítið hjátrúaður og fannst hrafnar og kirkjur ekki boða gott saman. Ég baðaði því út höndum og hussaði kvikindið á brott. Hann missti úr nefinu, það sem hann hafði verið að kroppa í og ég slæmdist til að athuga hvað það var. Það fór um mig ískaldur hrollur. Þarna var fingurkjúka af manni með nögl og skinntutlum, skorpnuð og moldug. Krummi hafði verið róta í uppmokstri nálægrar grafar. Grafarinn Svenni Skotti hafði líklega slæðst yfir í eldri gröf í mokstrinum. Ég tók fingurinn með hryllingi, stakk honum í vasann og hélt til kirkju. Ónotin hrísluðust um herðar mér og eitthvað sagði mér að þetta væri ekki rétt. Þessi hvíslandi rödd, sem ég síðar vandi mig á að óhlýðnast. Þarna var hún skýr. Í andyri kirkjunnar tók ég fingurinn því upp og hugðist losa mig við hann. Þá sá ég stórbrotnar skóhlífar séra Sigurðar á ganginum og án neinnar rökrænnar ástæðu, henti ég fingrinum ofan í aðra þeirra. Svo gekk ég til lexíunnar og gleymdi þessu.
Í næsta tíma var mikið uppistand út af þessu og gamli maðurinn virtist augsýnilega skekinn af þessum djöfulskap. Fáir aðrir komu til greina en ég, þegar slíkt gerðist, svo ég játaði þetta. Þegar heim kom hafði ég ákveðið að fermast ekki. Því fylgdi mikil togstreita og tilfinniningahiti í fjölskyldunni. Fyrst voru það bölbænir, hávaði og skammir. Ég var ættarskömm sem aldrei myndi rísa til neins, vanþakklátur, illyrmi og liðleskja. Svo breyttist þetta í mýkri eftirgangssemi og loforð um fé og frið. Verst þótti mér að undirbúningur móður minnar var unnin fyrir gýg og hve það særði hana djúpt. Fyrir hana lét ég undan.
Fermingardagurinn var alger kvöl og á fermingarmyndunum má sjá þetta þvingaða bros og miklu ónot. Fjólublá aðsniðin jakkafötin og víðu buxurnar. Flauelsslaufan, bleika blúnduskyrtan, þykkbotna blöðruskórnir og kláðinn undan gerfiefnunum. Allt jók þetta á hryllinginn. Veislan og kurteysishjalið var þvingandi og mér fannst ég hálfpartinn þjófur að taka við peningunum og gjöfunum undir þessum fölsku forsendum. Ég lék þó hlutverkið til enda og laug með öllu mínu atgerfi og orðum. Orðin klingdu í eyrum mér og minntu mig á þann hálfveruleika, sem ég var hér með að ganga inn í. “Velkominn í fullorðinna manna tölu.”
Í dag á ég trú, sem ég fann við að fara mínar eigin leiðir inn í blindgötur lífsins. Hundsa í öllu mína betri vitund og þykjast geta ráðið vegi mínum sjálfur. Það gerði ég og glataði öllu. Allt, sem ég þóttist vera, eiga og skilja varð hjóm eitt. Allt, sem ég hengdi mína sjálfsvirðingu í var frá mér tekið og þá fyrst var sem vitund mín opnaðist upp á gátt. Röddin að baki huganum fór að heyrast og kjaftavaðallinn í höfði mínu þagnaði. Ég hafði verið fjarverandi eigið líf í iðrun gærdagsins og áhyggjum morgundagsin. Fjarverandi lífið sem á sér stað hér og nú á meðan ég dreg andann. Ég var svartur hnútur uppi í höfðinu mínu, fullur ásökunnar og biturðar, dómhörku og fordæmingar, öfundar og sjálfsvorkunnar. Í dag er ég heill. Í dag ljómar sál mín útyfir líkamleg mörk eins og í árdaga. Í dag þarf ég ekki að verja neitt né þrátta um neitt, óttast neitt né kvíða neinu. Í dag finn ég bara ótakmarkaða elsku.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:14 | Facebook
Athugasemdir
Gaman að sjá þig aftur, ljós til þín og kærleiksknús
Ester Sveinbjarnardóttir, 2.5.2007 kl. 01:14
Til hamíngju til þín með þetta langþráða frelsi fermíngarbarnsins, en látum hin sem að eru líka að feta sömu stigu í ró & frið finna sitt með tímanum.
Gaman að skjá þig á ný.
S.
Steingrímur Helgason, 2.5.2007 kl. 01:18
Takk kæru vinir. Frelsið kemur innanfrá Steingrímur minn, það er satt að ekki hefur það reynst vel að troða því ofan í kokið á fólki með valdi. Ég vona að þetta virki ekki sem prédíkun. Ég er einvörðungu að lýsa leit minni og vegi í þessum efnum. Hver hefur að sjálfsögðu sína leið að því. Vonandi ekki svo torfarna sem þverhausinn ég.
Jón Steinar Ragnarsson, 2.5.2007 kl. 01:30
En hvað það er gott, gott að sjá þig hér aftur og sjá og skynja eina ferðina enn að samvistir eru ekki eingöngu bundnar við blogg. Morgunstundin mín innifól akkúrat þessa innri tilfinningu um óendanlega elsku og takmarakleysi sálarinnar. Að allt er gott! Að maður tali nú ekki um svona lesningu til að hefja daginn á. Nú verður hátíð í bloggheimum...
Týndi sonurinn kominn heim heill á húfi. 
Knús
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 2.5.2007 kl. 07:26
Minn kæri Takk og svo aftur Takk.
Úngur labbaði ég með Árna Sigtryggs niður í ,,Neðsta". Þetta var að vori og karlarnir að setja línu í Karbólín, líkt og þeir gerðu hér í verbúðunum í Örfirsey.
Ylmurinn var séstakur, blanda af fiskilykt, Karbólínlykt og örlaði á lykt af gróanda, einnig þaralykt.
Vorið kemur til okkar með misjöfnum hætti, ofangreind blanda dugir me´r vel.
Svo er vorið komið þegar lykt af Björnsbakaríinu, blandast við sólvermt malbikið.
Sumarið er komið, þegar lykt af grjóti, mosa, skófum og gróðri blandast í vitin. Þessa lykt er hægt að finna víða á Vestfjörðum og á Þingvöllum. Auðvitað víðar en æskan krefst þess, að bendla þetta við ákveðna staði.
Guðsþökk
Miðbæjaríhaldið
Bjarni Kjartansson, 2.5.2007 kl. 11:17
Prédikun, ef þetta er prédikun, þá er það einmitt þannig sem prédikarar eiga að tala. Ég bæði hló og grét yfir lestrinum. Þú kannst svo sannarlega að kalla fram viðbrögð Jón Steinar minn. Takk fyrir þetta.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 2.5.2007 kl. 12:52
Enn og aftur slærðu sjálfum þér við
Takk
Hrönn Sigurðardóttir, 2.5.2007 kl. 23:20
Ljós til þín !
Steina
Steinunn Helga Sigurðardóttir, 5.5.2007 kl. 12:45
Frábært! Þvílíkt örlæti að birta þetta á bloggi.
Örvar mig til að gera eitthvað "stórt" á blogginu: Ég er að ljúka við þýðingu á smásögu eftir Tolkien sem aldrei hefur birtst á íslensku. Kannski ég bara birti hana á blogginu? Þ.e. ef einhver hefur áhuga?
Takk: ásgeir
Ásgeir Rúnar Helgason, 5.5.2007 kl. 21:09
Amen Amen Amen
Pálmi Gunnarsson, 5.5.2007 kl. 22:02
Sá finnur sem leitar og þannig er það! Guð blessi þig og fylli af anda sínum.
G.Helga Ingadóttir, 5.5.2007 kl. 23:24
"Sá á fund sem finnur" og "sælla er að gefa en þiggja" ... gerðir þú nokkuð annað þarna með gröfina, fingurinn og prestinn
... Yndisleg frásögn og gaman að sjá að þú þekkir barnið í þér, frelsið .... hið stóra samhengi kærleikans.
Hólmgeir Karlsson, 6.5.2007 kl. 01:18
Takið endilega þátt í æsispennandi kosningagetraun:
http://www.sigfus.blog.is/blog/sigfus/entry/207012/
Glæsilegir vinningar í boði.....
Sigfús Þ. Sigmundsson, 11.5.2007 kl. 16:08
Heyrðu prakkari minn..ertu í MJÖG löngu bloggfríi??? Við erum farin að sakna þín og þinna frábæru skrifa.
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 11.5.2007 kl. 16:45
Sæl Katrín. Brátt mun rætast úr. Ég viðurkenni að ég hef verið lengur frá en ég ætlaði en netsambandsleysi, tölvuvírus og annir, hafa tafið mig. Er að reyna að finna mér viðunandi vinnu og íbúð eftir komuna frá Noregi. Blankheit hafa oft örvandi áhrif á sköpunina en stundum verða þau til trafala. Hafið mig í huga í bænum ykkar í þeirri von að úr rætist sem fyrst.
Jón Steinar Ragnarsson, 12.5.2007 kl. 17:50
komdu sem fyrst aftur!
Hrönn Sigurðardóttir, 12.5.2007 kl. 17:54
Í bæn og brjósti færðu að fljóta með í heim tækifæra! Guð í þér sjálfum!
www.zordis.com, 14.5.2007 kl. 06:02
Eftir að hafa lesið nokkura pistla hjá þér er ég alveg föst. Vissi reyndar að þú skrifaðir góð ljóð en hef skemmt mér vel yfir sögunum frá Ísafirði. Það ryfjast ýmislegt upp, t.d. þau skipti sem eg fór í andaglas með Beggu. Hlakka til að lesa meira.
Lóa, Eingjavegspúki (IP-tala skráð) 15.5.2007 kl. 14:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.