Dagar Mínir í Undralandi,
1.8.2007 | 04:27
Það er skrýtið, þegar maður fer að hugsa til bernskudaganna, hvað rifjast upp svona óforvarandis. Maður seilist niður brunn minninganna eftir einhverju tilteknu og með botnfallinu þyrlast upp ýmis atvik, sem maður taldi sig hafa gleymt. Þetta eru stutt brot, ímyndir, ilmur, orð. Ég man óljós brot frumbernskunnar. Litlir fingur að kroppa í bastvögguna, köfnunartilfinning við sængina yfir andlitinu, langir skuggar og raddir í kring. Ég man dúfurnar á bitanum fyrir framan kvistgluggann á bakaríinu, þar sem við bjuggum, kúið og kurrið og vinskap minn við þær. Ilmur af nýbökuðu brauði, sem fyllti loftið.
Ég var frekar búttaður og rólegur sem barn og nægjusamur með afbrigðum. Faðir minn var oftast á sjó og móðir mín vann úti. Það var oft hægt að skilja mig eftir svo tímunum skipti með rúsínur á undirskál og ég undi mér við þær í rólegheitunum á milli þess sem ég talaði við dúfurnar. Já, ég talaði dúfumál. Það var fyrsta málið, sem ég lærði, segir móðir mín. Ég stóð á stól við gluggann og dúfurnar komu til að halda mér félagsskap. Kúúú, kúúú, krúúurú.
Þegar ég fékk að vera úti, þá var ég bundinn við snúrustaur og hafði um mig leðurbeisli með bláum og rauðum glerperlum. Við hvern hring, sem ég gekk um þennan takmarkaða heim, þá minnkaði umfang hans. Það nægði þó litlum stubb að kanna skrítna steina og skeljabrot, slíta upp fífla, moka holur og fylgjast með flugum í önnum dagsins, sem spannaði allt þeirra æviskeið. Heimurinn þeirra var siginn fiskur á staur og strá á stangli.
Það var því ekki að undra þótt ég fengi einskonar víðáttubrjálæði, þegar mér var sleppt lausum. Ég var landkönnuður nýkominn á framandi slóð. Það var rannsóknarefni að stappa í pollum á forugum götunum. Götum sem önguðu af slorvatni, sem rann af fiskflutningabílunum á leið af bryggjunni og upp í frystihús með dána fiska, sem voru alltaf svo furðu lostnir í framan. Stundum fann maður bíla með svo glitrandi fína hjólkoppa að maður tók andköf. Það vakti líka kátínu að sjá heiminn í spéspegli þeirra.
Þetta var tímalaus heimur. Fjöllin stóðu á haus í spegilsléttum firðinum; mávarnir hnituðu gargandi yfir og allar manneskjur sýndu fölskvalausa blíðu og klöppuðu manni á kollinn. Hver á þig vinur?
Svo breyttist allt einn daginn. Ég stóð og fylgdist með glaðlegum mönnum slægja þorska, sem voru á stærð við mig og gogga þeim til og frá í stíum inni í fiskverkunarhúsinu. Stóra rennihurðin var opin út á götu og fyrir mér varð slorugur spotti með hnút á endanum. Hann hékk þarna niður úr loftinu og bauð upp á það eitt að í hann yrði togað. Ég gerði það líka. Miklir skruðningar fylgdu. Mennirnir litu upp frá vinnu sinni og um stund var sem allur heimurinn stæði kyrr. Risastór stálrennihurðin kom öskrandi niður af himnum, svo hratt að lítill hugur nam það ekki. Hún skall á lærið á mér og kubbaði í sundur fótinn. Eitt skref til eða frá í aðdraganda þessa, skildi milli feigs og ófeigs.
Ég man óljóst eins og í draumi handaganginn og suðið fyrir eyrunum, spurningar, klapp á vanga, fiskilykt. Svo var ég borinn inn í bíl, sem var einn töffasti bíllinn í bænum, Simcan hans Bóa, hvít með rauðum toppi og glitrandi krómlistum. Rauð leðursæti, glitrandi handföng og snerlar. Ég sagði ekki orð. Æmti ekki einu sinni. Fann ekki til. Það var ekki fyrr en inni á spítala, þar sem buxurnar mínar voru klipptar í sundur og ég settur inn í ógnvekjandi rjómagula vél, sem kurraði og burraði, að ég kom til sjálfs míns. Fyrst þessi óforskammaða eyðileggingarnáttúra að skemma buxurnar mínar og svo mamma. Hún kom grátandi og skekin í dyrnar á röntgenherberginu og þá komu tárin mín líka.
Ég var í tvo mánuði á spítalanum. Mest af tímanum með fótinn í strekk og beint upp í loftið eins og í skrípamyndunum. Ég greri vitlaust saman og Úlfur Gunnarsson læknir, sonur Gunnars Gunnarsonar skálds, skar mig upp og setti nagla og plötur í fótinn til að laga hann. Ég man eftir svæfingunni. Málmgrind með grisju, risastórt ljós, lykt af klórformi, sem minnti málm eða blóð eða bragð af brenni. Skurðurinn var langur og ljótur með mörgum litlum þverröndum og við kölluðum hann rennilásinn í daglegu tali.
Ég get ekki kvartað yfir spítalavistinni því ég var allra yndi. Stína gamla, sem spjallaði við mig alla daga og leiddi mig svo, þegar ég lærði að ganga upp a nýtt. Gamla fólkið, sem fékk útrás fyrir ást sína, sem var orðin staðin eftir einveru margra ára. Það er nefnilega þannig að ef ástin fær ekki að flæða í gegn, þá staðnar hún og breytist í söknuð, sorg og biturð. Þess vegna þarf maður alltaf að leyfa henni að renna til annarra og endurnýja sig. Hún er lífsvatnið, sem þarf sína hringrás til að haldast ferskt. Ég man eftir messu á ganginum með ósamhæfðum söng; heimsóknum mömmu með malt í flösku og brottfarardeginum. Ég var ekkert á því að fara þó svo að mér væri færð ný ullarúlpa með stórum tölum. Ég sagði mömmu að koma seinna. Ég kæmi kannski bráðum heim.
Ég var mjög rýr eftir leguna og þurfti að læra að ganga upp á nýtt. Ég studdist við veggi, ofna og borð og tinaði eins og gamalmenni.
Einn daginn var bankað á eldhúsdyrnar og þar var kominn hann Konni gamli í Konnavita. Konnaviti var lítil krambúð eða skúr, þar sem pabbi og kallarnir hittust í brælum og spjölluðu, reyktu, sjússuðu sig og keyptu nauðsynjar eins og tóbak og vettlinga. Þarna voru glerkrukkur með marglitum brjóstsykri, bismark, haltu kjafti, kónga og pralín. Ég starði á þetta draumstolnum augum og mín hljóða bæn var alltaf heyrð af Konna, sem seildist með silfurtöng ofan í þessar krukkur og gaf mér nokkra mola í kramarhúsi. Ég var einn af mönnunum og spáði og spekúleraði í lífinu með brjóstsykursgúl á kinn.
Nú var Konni enn kominn til að veita vini sínum af gæsku sinni . Hann hafði sagað neðan af gamla göngustafnum sínum og færði mér hann, svo ég gæti sleppt veggjum og gengið um eins og maður með fulla sjálfsvirðingu. Ég var svona eins og lítið gamalmenni með staf, sem ég staulaðist með, þar til ég hafði náð styrk á ný.
Konni gamli brann inni skömmu síðar. Hann var einbúi og hafði verið að drekka. Ég hafði farið til hans með pabba og séð hann liggja veikan í rúminu með haug af bókum í kring og glóandi rafmagnsofn. Þessi ofn varð honum víst að aldurtila.
Þetta voru breytingatímar. Fallvaltleiki lífsins síaðist smátt og smátt inn og hin örugga, góðlega og tímalausa veröld hvarf sjónum í tímans rás.
Þetta haust breyttist heimurinn líka. Fólkið, sem hafði tekið á ný gleði sína eftir hörmungar stríðáranna og notið veraldlegs vaxtar í kjölfar friðarins, var líka minnt á fallvaltleikann. Einn daginn, þegar ég var um það bil að sleppa stafnum, kom vinur pabba í eldhúsgættina og var í framan eins og sært barn. Hann sagði hræðilegar fréttir: Þeir voru að drepa hann Kennedy.
Hver þessi Kennedy var vissi ég ekki en það var augljóst af öllu að hér var maður sem stóð fólki nær. Það ríkti andrúmsloft vantrúar, vonbrigða og sorgar og augljóst að heimurinn yrði ekki samur á ný. Ill og óútreiknanleg öfl voru á kreiki og hér eftir skyldi engin ganga út frá friði sem gefnum hlut. Sú hefur líka orðið raunin á. Dagar mínir í undralandi, heyrðu sögunni til.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Heyrðu, það er annar bloggari með nákvæmlega eins höfundarmynd og þú sem kallast Hrokinn ..... eruð þið nokkuð eineggja tvíburar ;)
Eva Þorsteinsdóttir, 1.8.2007 kl. 05:33
Mikið er alltaf gaman að lesa sögurnar þínar. Maður fer aftur til æskuárann, hver pollur og angan kemur í ljós og rifjast upp. Takk enn og aftur Jón Steinar.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.8.2007 kl. 07:21
Jón minn,
Það renna tár við að lesa sögurnar þínar. Gleðitár, tár söknuðar, hamingjutár. En umfram allt, haltu áfram að skrifa.
Þinn vinur
Thorberg
Bergur Thorberg, 1.8.2007 kl. 08:01
Eva: Ég er búinn að skamma hrokann fyrir að nota myndina mína en hann lætur ekki segjast. þetta er náttla aðför að minni persónu. Annars er hann ekki sá fyrsti, sem gerir þessa vitleysu. Það er búið að pósta passamyndinni minnu um allt netið eins og maður sé eitthvað intressant í framan.
Takk Bergur og Ía. Það er ákveðin andleg hreinsun í að fara svona til baka. Tárin eru bara grugg sálarinnar að skolast út. Kannski er þetta bara þerapía fyrir alla.
Jón Steinar Ragnarsson, 1.8.2007 kl. 08:59
Ég vildi óska að ég hefði verið tvíburasystir þín og upplifað þetta allt með þér. Ég er afbrýðisöm, í minni æsku fékk ég bara ís og fór til ömmu... Djók. En þetta eru svo fallegar frásagnir.
Garún, 1.8.2007 kl. 11:29
Vá.
Anna Einarsdóttir, 1.8.2007 kl. 22:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.