Hannibal og Höfuðlausnin

heimsendirÁ gelgjuskeiðinu var ég afar undarlegt barn.  Ég hafði þungar áhyggjur af heiminum og fannst flest í mannanna amstri heldur lítilvægt og ómerkilegt.  Ég samdi tregafull ljóð um tilgangsleysi  jarðlífsins, sem ég lét svo aldrei fyrir augu manna.

Harmræna mín var djúpstæð og það þurfti ekki annað til að halda fyrir mér vöku en grein í blaði um stjörnufræði, þar sem því var haldið fram að jörðin hægði á sér og myndi innan nokkurra milljarða ára steypast í sólina, þar sem hún myndi brenna upp.  Mér kveið óskaplega fyrir þessu og sá lítinn tilgang í lífinu fyrst svona átti að fara.

Ég gekk um í rauðleitriÁlafossúlpu og reimaði skinnkragann í stút, svo aðeins grillti í bólugrafinn nefbroddinn fyrir innan.  Hármakkinn var þykkur og náði niður á axlir en toppurinn niður á höku. Það var mín uppreisn.  Maður fyrirleit heiminn,  gekk um með hendur í vösum og leit aldrei af trömpurunum sínum; hlykkjaðist um eins og álkulegur ormur álengdar að sjá.

ungskáldiðMér var ekki gefið um skólagöngu. Leiddist námið, sem mér fannst tilgangslaust og afstætt stagl. Þoldi ekki kennarana. Þeir voru hlandvitlaust lið á barmi taugaáfalls.

Það var kannski ekki að undra að þeir væru taugatrekktir.  Ég gerði allt til að gera þeim lífið leitt. Hleypti upp tímum með meinfýsnum athugasemdum og útúrsnúningum og endaði oftast frammi á gangi eða hjá skólastjóranum.

Einn kennarinn frussaði mikið, svo bækurnar blotnuðu og blekið rann til er hann kom að borðinu til að leiðbeina.  Einn daginn mætti ég með regnhlíf og sló henni upp þegar hann nálgaðist.  Þetta vakti kátínu allra nema hans.  Teiknibólur í sætum voru klassískir hrekkir, þrátt fyrir að ég væri kominn upp í landspróf.  Að bleyta krítina var mjög skilvirkt. Fylla svampinn af sápulegi, þannig að krítin makaðist út um allt í stað þess að hverfa. Setja salernisilmsápur á bak við ofna til að forpesta skólastofuna og fá frí meðan ræst var út. 

Öllum snjallræðum var beitt mér til skemmtunar og kennurum til armæðu.  Einn hljóp grenjandi út og ætlaði að hætta kennslu.  Það þótti rosalega fyndið.  Ég var miskunnleysið og mannvonskan uppmáluð.  Frændi minn kenndi mér og ég lagði hann í einelti.  Hann hafði sérstakan talanda og ég hermdi eftir rödd hans í hvert skipti, sem hann beindi spurningum til mín.  Það var illa gert af mér og ég er viss um að hann tók það nærri sér og vænti meiri samstöðu úr frændgarði sínum. Ó, nei. Illyrmið ég fórsko ekki í manngreinarálit og lét alla njóta sömu lystisemda, nema einn kennara.  Hann var gamall og drykkfelldur, kom stundum í tíma angandi af kaupstaðarlykt, hafði lappir upp á borðum, tók í nefið og klæmdist við stelpur jafnt sem stráka.  Hann var æði.  Hann kenndi Íslensku, málfræði, bragfræði og fleira skylt og ég dúxaði í öllu, sem hann kenndi.

Óliver TwistÉg var á tæpasta vaði með að verða vísað úr skólanum og hafði í raun fengið nokkra sénsa. Mætingin var með afbrigðum slæm.  Oft þegar mér var hent út að heiman á morgnana, þá skildi ég skólatöskuna eftir í kjallaraholu við húsið, fór niður í dokku og klifraði upp í veiðafærageymslu í gömlum hjalli. Þar kláraði ég að sofa út í haug af gömlum snærum. Foreldrar mínir voru að brenna upp af áhyggjum og engar skammir og hirtingar dugðu.  Heimur minn var að liðast í sundur og ég var ástæðan.

Hræðilegur atburður varð svo þegar liðið var á landsprófsveturinn.  Skólastjórinn okkar hann Jón Ben fórst í skelfilegu bílslysi í Eyjafirði. Hann keyrði út í á og drukknaði.  Allir voru harmi slegnir, því hann var sanngjarn og blíðlyndur stjórnandi.  Án hans hefði ég sennilega ekki fengið að klára skólagönguna.  Siggi sonur hans var í bekk með mér og ágætur vinur. Ég man alltaf morguninn, sem hann var kallaður út úr skólastofunni til að fá þessi ógnvekjandi tíðindi. Svo var gefið frí. 

hannibalÉg er ekki frá því að ég hafi breyst við þetta.  Fallvaltleiki lífsins varð mér ljósari en nokkru sinni fyrr og það hugnaðist mér ekki að að verða minnst sem skaðvalds og skelfis, ef ég hyrfi héðan fyrir slysni.  Ég tók mig á og mætti í tíma. Lærði heima og var að mér fannst alveg til þokkalegrar fyrirmyndar. Mér leið líka betur.

Í stað Jóns kom nýr skólastjóri, sem var gamall og þjóðþekktur maður.  Hann hafði meira að segja á árum áður verið skólastjóri föður míns.  Þetta var stjórnmálaskörungurinn Hannibal Valdimarsson, faðir Jóns Baldvins.  Hann var að hætta í stjórnmálum og tók að sér að sitja sem stjórnandi skólans út misserið.

Hann var strangur að sjá, horfði á okkur út undan gróskulegum augabrúnum með kænskulegt glott í augum eins og að hann læsi hugsanir okkar.  Svo hafði hann andrúm virðingar og staðfestu um sig eins og landsleiðtoga sæmdi.  Það var góður agi í stjórnartíð hans, þótt stjórnmálaferillinn hafi verið stormasamari. 

Ég fór þó að færa mig upp á skaftið, þegar á leið vetrar og prófaði þolrifin í karli. Það kom því eðlilega að því að kennararnir sáu í hvað stefndi og gáfust upp á mér. Ég truflaði kennsluna og vakti þeim gremju hvern dag.  Loks var ég sendur til Hannibals.  Nú var komið toppnóg af  vitleysunni.

sadHannibal bauð mér setjast en stóð upp sjálfur. Hann var enn með þetta kímna augnaráð þess sem allt veit en var þó spakur og lagði hægan áhersluþunga á orð sín.  “Hvað er að plaga þig karlinn minn?  Af hverju getur þú ekki verið eins og maður?  Ég er hissa á þér. Að drengur sem kemur af svona góðu og gáfuðu fólki, skuli láta svona.” Ég yppti öxlum og horfði í gaupnir mér.  Hann var í raun að segja að ég væri léleg afurð af annars góðu kyni. Hann bauð enga kosti heldur sagði:  “Ég verð að láta þig fara...sem mér finnst synd og skömm, svona seint á vetri og ekki síst fyrir að þú ert sagður ágætlega greindur.  Það er ekki ég sem set þessa kröfu, heldur kennararnir.  Þeir bera þér alls ekki vel söguna.  Þú getur farið núna, ég hef svo samband við föður þinn, þegar hann kemur í land.”

schoolroomHjartað í mér herptist saman. Mér þótti skelfilegt að valda föður mínum vonbrigðum. Ég virti hann mikils auk þess sem að ég vissi að hann myndi sennilega refsa mér duglega fyrir. Senda mig á vandræðaheimili, eins og hann hafði einatt í hótunum með ef ég varð vís að afglöpum. Ég fann tárin brjótast fram bak augnanna og reyndi að hemja þau.  Ég breyttist þarna í lítið og hrætt barn og heimurinn hrundi yfir mig með braki.

“Þú ert sagður skrifa ljóð.” sagði Hannibal.  Ég var eilítið undrandi og horfði upp til hans og gaf lítið út á það með að velta til höfðinu álkulega. Ég kom ekki upp orði.

“Geturðu leyft mér að heyra eins og eitt?” sagði hann og ég varð mjög ringlaður. Hvað átti þetta að þýða?  Var hann að hæða mig? Ég reyndi að rifja upp eitthvað en það var allt svo dapurt og bölsýnt að ég gat með engu móti séð þetta sem tilefni fyrir slíkt.  Það var eins og ég skammaðist mín fyrir þær hugsanir, þegar á hólminn var komið.  Ég hristi höfuðið.

“Ekkert?” spurði Hannibal. “Þú hefur sent eitthvað í skólablaðið er það ekki?  Geturðu ekki  sýnt mér það?”

Ég leit í kring um mig.  Í hillu var mappa merkt nafni skólablaðsins. Jú það var eitt, sem ég hafði sent inn, sem ekki var óviðeigandi.  Ég sagði honum frá því og benti honum á möppuna.  Hann sagðist ætla að kíkja á það.  Hann hefði gaman að ljóðum.  Svo sagði hann mér að ég mætti fara.  Áður en ég lokaði á eftir mér sagði hann: “Þú klárar daginn og kemur til mín í fyrramálið. Ég vil tala betur við þig.”

frelsiMorguninn eftir mætti ég til hans. Ég hafði sofið illa um nóttina og séð fyrir mér hryllilega útlegð á upptökuheimili með Oliver Twist og vinum hans. Kvíðahnúturinn var stór og þykkur eins og netasteinn í kviðnum.  Hannibal glotti. Ekki bara með augunum. “Ég talaði við kennarana og við urðum ásáttir á að leyfa þér að vera til reynslu, en þú verður að fara við minnstu vandræði. Skilurðu það?” Ég var ringlaður eins og fangi myndi verða, sem slyppi við aftöku.  “Ég lofa því..” sagði ég og langaði að spyrja hvers vegna þessi umskipti hefðu orðið á viðhorfi hans.  Hann veifaði mér til dyra og sagði að við skyldum ekki hugsa um þetta meir.  Hann hefði trú á að ég myndi standa mig.  Ég ætlaði líka að rísa undir því trausti. Fann eldinn í brjóstinu.  Mér var þó svo létt að mig langaði að leggjast á ganginn og sofna.  “Ljóðið þitt var gott.” Sagði Hannibal kíminn og lokaði.

Var það?  Var það út af ljóðinu, sem hann sýndi mér miskun? Var þetta hnoð þá mín Höfuðlausn eins og hjá Agli forðum?  Ég botnaði ekki neitt í neinu. 

Ég stóð mig það sem eftir lifði vetrar og náði landsprófi þrátt fyrir að 70% fall yrði í árganginum. Líklegast var það truflandi áhrifum mínum á skólasystkinin að kenna.  Þau þurftu flest að taka upp prófið en ég, tossinn og uppalningurinn slapp! Líklegast fyrir ómerkilegt ljóð, sem ég gæti helst lýst, sem formóður rappsins.  Engin formleg bragfæði, bara einhverskonar bunugangur.  Ljóð sem hljómaði einhvernvegin svona:

ÖRVÆNTING.

Ég gleymdi að gera mitt verkefni heima.

Það er alls ekkert gaman að tapa og gleyma.

Ég roðna í framan og hvað skal nú gera?

Mig þrýtur öll ráð.

Því að alls ekki vil ég það krossmarkið bera

Að þola hlátur og háð.

Svo gýt ég til augum á alla og þegi

og hugsa og hugsa....

“Það má aldrei kalla mig nautheimskan uxa!”

Mig nagandi og nístandi örvænting tekur

og hræðsla svo ægileg, hristir og skekur.

“Hún er kannski hlægileg...?”

En í sál minni molaðri er ekki friður

og taugarnar hvorki úr stáli né eir.

Ég hníg bara niður...

og man ekki meir.

Þessa Höfuðlausn má vafalaust finna enn í safni gangfræðaskólans á Ísafirði þótt önnur ummerki um mig séu þar ekki sjáanleg.  Ég mætti til dæmis ekki í útskriftarmyndatökuna og prýði því ekki veggi skólans.  Kveðskapurinn var kannski ekki heldur ástæðan fyrir því að ég slefaði landsprófið. Núll komma einum lægri einkunn og ég hefði þurft að dúsa á skólabekk enn einn veturinn.  Ekki var það heldur gáfum mínum og andlegu atgervi að þakka, það tel ég ljóst.  Líklegri skýring er sú að kennararnir hafi ekki fyrir nokkurn mun getað hugsað  sér að eyða öðrum vetri í samvistum við mig og því séð í gegnum fingur sér við ýmsum villum til að koma mér hratt og örugglega úr augsýn sinni til frambúðar.

Svona var það nú fyrir daga Rítalínsins..... 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessi saga var alveg stórkostleg eins og flestar sögurnar þínar :) Hvernig er það eiginlega Jón Steinar; verður maður einhvern tímann ónæmur fyrir hrósi, eða er alltaf jafn notalegt að fá klapp á bakið? Ég hef farið í gegnum stærsta hlutann af því sem er á þessari bloggsíðu þinni og ég gæti auðveldlega hrósað þér í hástert fyrir allt sem ég hef lesið því ég hef verið svo hrifinn.   Það hefur komið fyrir að ég hafi heyrt fólk ræða um góða rithöfunda og hver sé í uppáhaldi hjá þeim, en þær umræður hef ég reynt að forðast. Mér hefur nefnilega fundist ég minnka svo mikið við að viðurkenna að ég sé það ólesinn að ég eigi ekki einusinni uppáhalds rithöfund. Hér eftir þarf ég ekki að forðast svona umræður, því nú er ég tilbúinn að ræða um minn mann; rithöfund sem lýsir atburðum og fólki svo vel, að þegar frá líður man maður ekki betur en að maður hafi séð bíómyndina :-)  

Gunnsteinn Hlíðarveegspúki (IP-tala skráð) 2.8.2007 kl. 17:50

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Takk Gunnsteinn minn það er yndislegt að fá að heyra svona einlæg orð og ég tek hólið ekki nærri mér þannig. Fyrir okkur sm þekkjum er þetta svona tímaferðalag, sem kallar fram jákvæðar myndir. Fátt er betra en skemmtileg ferðalög.

Bið að heilsa ykkur í Kanada eða á ég að segja í Afríku?  Þú ert jú meira og minna að veiða þar að mér skilst.

Jón Steinar Ragnarsson, 2.8.2007 kl. 18:39

3 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Frábær saga. Þér fer einlægnin vel. Man eftir svipuðum tilburðum í skóla og bar þá þegar allar heimsins byrðar á bakinu. Skrifaði þunglyndisleg ljóð um hjómið allt í kring og hygg að mitt fyrsta ljóð hafi einmitt verið um þá verandi heimsógnina: kjarnorkustríð. En sem betur fer þá fær maður tækifæri á að sjá sig í allt öðru ljósi og kannski var maður haldinn afvegaleiddri og misskilinni samkennd. Hygg að manni sé í blóð borið þessi eiginleika að sjá heildina og kannski frekar þungur kross að bera sem barn og gelgja. En afar ánægulegt að sjá að þú hafir þroskað þennan eiginleika með þér því hann er dýrmætur mjög:)

Hvenær kemur svo bók... með þínum myndrænu og fagurlega skrifuðum sögum?

Birgitta Jónsdóttir, 2.8.2007 kl. 22:00

4 Smámynd: Ívar Pálsson

Það er alltaf spennandi að komast í nýja sögu frá þér, Jón Steinar. Þetta er einstakur stíll og frásagnargáfa. Gáfnapróf sem taka ekki tillit til ríkra sköpunareiginleika þinna eru ekki marktæk. En aumingja kennararnir þínir!

Ívar Pálsson, 3.8.2007 kl. 00:46

5 Smámynd: Steingrímur Helgason

Félagi minn góður, þú hefur bara einn augljósann & stórann galla. Þannig er mál með vexti að þú bloggar okkur alla hina út með þessum snilldarskrifun þínum aftur & aftur.

Eiginlega finnst manni eins & mér ekki ég vera þess verður að blogga á sama bloggeríi & þú bloggar á.  Í besta falli líður mér sem óþekktum minni bróður Saleri á stundum þegar þú töfraflautast svona.

En ég átti þá lukku að sjá Hannibal í persónu, nokkrum sinnum, á þeim tíma sem að hann felldi afa minn & nafna út af þingi.  Ég man enn þá kyngimögnuðu nærveru sem að þú lýstir svo myndrænt.

Ljóðið þitt hefði alveg nægt til landsprófs, eitt & sér.

S.

Steingrímur Helgason, 3.8.2007 kl. 01:28

6 Smámynd: Árni Gunnarsson

Mér sýnist þú bera kennurum þínum og þér góða sögu, jöfnu báðum.

Fáa hef ég séð fara betur með íslenskt mál hér á þessum vettvangi.

Árni Gunnarsson, 3.8.2007 kl. 21:23

7 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Þessar 7 athugasemdir fyrir ofan segja allt það sem ég vildi úr mér láta

Gunnar Helgi Eysteinsson, 4.8.2007 kl. 12:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband