O, sei sei. Það var nú í þá daga.
23.5.2009 | 04:08
Á mínum yngri árum var ekki jafn miklu úr að moða og nú á tímum. Flestir ólust upp í torfbæjum en fjölskylda mín var svo fátæk að hún bjó lengi vel undir feyskinni flórgrind yfir mógröf frammi á klettasnös og nærðist mest á sandi og tilfallandi flugum á sumrum. Sumir töldu mat í skarfakáli en eldri menn fúlsuðu við þesskonar gaspri svo lausar tennur frussuðust fram úr blóðugum gómum. Börn heyrðu aldrei orðið "já" í uppvextinum enda engu að jánka við sífri þeirra um, sult, kveisu og kröm.
Seinna vænkaðist hagur eftir að Vernharður á Skítseyði drapst og búfólk hans allt þegar trog með ofstropuðum eggjum datt úr búrhillu á bæ þeirra í landskjálftanum mikla.
Við þennan landskjálfta færðist torfbær þeirra um fimm hundruð hektara til norðurs og endaði beint undir snösinni þar sem við norpuðum. Við fluttum því í bæinn, enda vildi það engin annar vegna fnyksins sem var svo megn að fuglar sem flögruðu grunlausir yfir, duttu niður dauðir í miðjum vængslætti og urðu okkur mikil búbót. Enn er ekki stingandi strá að finna við tóftirnar, en þær má sjá rétt ofan við mektarbýlið Matsölustaði í Hljómsveit skammt frá Legvatni austan við Bókfell í Umsýslu. Munu iður manna enn úthverfast ef þeir rápa óvart hjá.
Hann afi minn var rammur maður afli og hafði drepið fjórtán af börnum sínum með kjassi einu og kærleiksvotti. Tveir lifðu þær gælur af, en það var faðir minn og Jarl hálviti, sem notaður var til að loka bæjarhurðinni eftir að lóð sem þvi þjónaði slitnaði frá vegna myglu. Föður mínum var aldrei klappað vegna þess að afi hafði svo milkla ímugust á honum að hann seldi upp í hvert sinn er hann heyrði hann nefndan. Óvíst er hvenær Jarl andaðist en menn urðu þess fyrst varir er kjálkinn datt af honum er gengið var í hús eftir gegningar. Héldu menn að hann hafi einungis hætt að loka vegna leti því bærinn hafði verið upp á gátt í nokkrar vikur áður.
Svo stórhentur var hann afi að hann bar allt vatn heim á bæ í lófunum. Fótstór var hann svo að faðir minn réri stundum til fiskjar á skónum hans á meðan hann svaf. Fiskinn notaði hann svo til að kaupa sér líf hjá móður sinni sem hafði líka mikla viðurstyggð á honum. Það var þó meiri athygli en margur ómaginn fékk.
Afi var svo fríður sýnum að menn sem hann litu fengu samstundis rafsuðublindu. Þetta var löngu fyrir daga rafsuðunnar svo menn geta rétt gert sér í hugarlund hversu föngulegur hann var. Með flosloðið og fákstinnt brjóstið, niðurvaxnari en fógetafoli með rennilegar og þrýstnar huppir svo hvorki konur né menn gátu sig hamið í skritti. Armarnir sem stórviðir af ströndum tældu marga snót og svein í draumlotum.
Svo var hann vel tenntur að hann fékk aldrei mælt meðan hann lifði. Þetta var arfgengt og man ég að bróðir minn ungur þurfti að rífa sjálfur úr sér tennurnar með naglbít til að biðja um vatn. Ekki fékk hann vatnið, en eftir þetta þótti hann kjörinn í að þæfa ull milli skolta sem hann og gerði allan sinn uppvöxt. Hann gekkst lengst af við nafninu Þeljapli. Hann gerðist þó síðar Japani og missti ég sjónar af honum, enda svipar því fólki mjög til hvers annars.
Amma var aumingi og talaði afturábak frá morgni til kvölds. Sagt er að aðeins franskir duggarar hafi skilið hana. Hún var því nytjuð til að launa fyrir Biskví og pompólabrauð frá þeim, enda enginn kvenpeningur í löngum útilegum þessara manna. Ef grannt var hlustað mátti heyra að hún klifaði ávallt á sömu tuggunni í síbylju. Eitthvað var það á þessa leið: "Kabárutfa gé alat ujrevh fa?" Hef ég enn ekki ráðið botn í hvað það þýðir.
Hún var frammynnt mjög og leitaði fólk því oft skjóls undir henni í slagviðrum. Var það eitt af því fáa sem hún gerði að gagni fyrir utan að vera þrep við kirkjudyrnar á sunnudögum.
Mikið fásinni var í þessari sveit og þoldu menn það illa. Hentu sér margir fyrir björg í örvæntri von um undankomu. Það var hinsvegar svo vindasamt á þessum slóðum að menn fuku jafn harðan upp á bjargbrúnina aftur og lagðist þessi siður því fljótt af. Leiðindi urðu þó flestum að aldurtila mjög snemma. Engan elexír var hægt að fá við því. Menn reyndu þó að veita líkn með rímnasöng og skemmtilegheitum, sem flýtti þó bara fyrir burtför. Kvæðamannafjelagið tók meira að segja upp á því einn vetur að kveða úr kirkjuturni guðshússins á Horrim en það varð til þess að mannfellir varð aldrei meiri í sveitinni allt fram að stórubólu.
Börnin hlökkuð mikið til jólanna í þá daga sem nú, en þá voru þau ekki barin í svefn heldur svelt alla jólaföstuna svo meðvitundarleysi varð sjálfgefið. Þar áttu þau náðuga daga blessuð skinnin. Þau fengu líka að liggja við dyrhellu fjárhússins í stað þess að vera hengd upp í reykkofanum yfir nóttina. Það var skemmtileg tilvísun í guspjöllin og guðslambið Jesú. Svo dýr tilvísun brá hátíðarljóma yfir helgihaldið.
Jólamáltíðin var safaríkt, saurreykt hangilæri, sem móðir mín svaf með í 3 nætur til þýðingar. Of kalt var á bænum til að það hlánaði í því. Það var alltaf mikil eftirvænting sem hríslaðist um börnin þegar mamma lagðist með lærið, því þá vissu menn að hátíð færi að höndum ein og liði að helgum tíðum.
Faðir minn át svo lærið á aðfangadag fyrir framan heimilisfólkið og þá sindraði gleði úr hverju bliki í baðstofumyrkrinu, að tlaið sé. Við börnin fengum að heyra hann tyggja í gegnum þilið þar sem við lágum í skafli undir norðurveggnum. Aðrir máttu svo gæða sér á mörmyglu, eitlum og sinum. Eftir þann skrínukost fékk það svo leyfi til að eta úr nefi og kroppa sér í munngát af fótsiggi.
Jarl rýtti jólasálm út við dyr og kórónaði það helgiljóma augnabliksins, en jólin stóðu í einar fimmtán mínútur í þá tíð. Kvöldinu lauk svo á húslestri úr postillu á sálsvalandi latínu sem enginn skildi né átti að skilja, enda Guðs orð. Malleus maleficarum hét hún víst og var gædd slíkum drottinsbjarma að menn lásu hana stautlaust í hnausþykku myrkri baðstofunnar. Aldrei lýsti kola né týra þar, því engin ráð voru á ljósmeti. Fólk var orðið svo samdauna myrkrinu að það þurfti að kynna sig á ný á hverju vori sem fyrir framandi fólki væri. Stundum höfðu bæst við börn sem enginn kannaðist við.
Jólagjafir og annar hégómi tíðakaðist ekki þá, en vinnufólki var gefið frjálst að stela því litla sem hægt var að ná af börnunum til hátíðarbrigða. Oft var það þó ekki meira en snjóbolti eða lús, sem nóg var af fyrir alla.
Ekki komst ég í betri viðgjörning fyrr en ég fór með kútter á saltfisk við Grænland. Þar börðum við ís af klökuðum stögum sem voru, að sagt var, 12 faðmar í ummál. Þetta var gert á 600 tíma vöktum og þótti munaður þá. Allt slóg var frjálst til átu nema lifrin svo ágætlega mátti við una.
Menn voru oft svo örmagna eftir úthaldið að skrifað var upp á dánarvottorð við komuna til hafnar og þeir grafnir fyrir misskilning. Margir gleymdu því alveg hvað svefn var og eru enn vakandi nú tæpri öld síðar. Saltfiskurinn þessi var svo étinn með hömsum ofarlega á Hvanneyrarbrautinni vorið 29. Þekki ég ekki hverjir það voru.
Ég gerðist kaupmaður seinni árin og flutti út í Seisey og opnaði þar söluturninn Söluturninn og er upphafsmaður lakrísævintýrisins. Lakrísinn samanstóð af langsoðnum hrísgrjónum í lakbleðli og hefði orðið mín gullgæs ef ég hefði ekki haft söluturninn Söluturninn turn. Því miður var svo hátt upp í lúguna að enginn náði upp í hana til að eiga viðskipti. Ég flosnaði því fljótlega upp þaðan og flutti allan minn rekstur út í Aldrey, en það hefur sýnt sig síðar að þangað kemur aldrei nokkur maður. Ég hef hugleitt að einangra mig frá umheiminum á sólsetri ævinnar og flytja norður á Siglufjörð þar sem ekkert gerist til langframa. Þar æla ég að föndra við minnisvarðasmíði um Séra Bjarna og er þegar með átta hugmyndir í kollinum. Eitt tildur um þann merka mann með 100 metra millibili er markmiðið, enda einskis annars að minnast þarna norður í sitjanda.
Lífið sjálft er manns eigin minnisvarðasmíð. Sumir láta grafa hann með sér. Ég marka hér mín spor á Lenovo kjöltutölvu sem bautastein til þess að lífið var svo líflegt að fólk dó úr því á fjölbreytta vegu á sjálfbæran hátt. Verði það til þess að ungviðið í hraða og firringu nútímans fái séð að allt sem glepur hugi þess í dag er hjóm eitt í ljósi þess sem liðið er. Legg vonir við að væntanlegar aðgerðir gegn hamfarahlýnun færi okkur þangað innan tíðar. Þá byggi ég mér naust í Hvanneyrarkróknum og geri út á soðna ýsu á G-streng. Þá verða börnin væntanlega hætt að þekkja orðið "já" að nýju.
Flokkur: Menning og listir | Breytt 24.10.2019 kl. 10:33 | Facebook
Athugasemdir
Draumaland Andra Snæs Magnússonar?
Sólveig Þóra Jónsdóttir, 23.5.2009 kl. 05:30
Sæll Jón Steinar minn.
Mögnuð frásögn, þó ekki sé nú meira sagt ! Frábær sögu og orðanotkun !
Kær kveðja.
Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 23.5.2009 kl. 10:46
Alltaf ertu sami snillingurinn
Gylfi Gylfason (IP-tala skráð) 23.5.2009 kl. 12:17
Óboy, óboy ...
Krúnkur kominn í haminn & orðafiðrið frábæra fýkur ...
Takk fyrir undurævintýri.
Steingrímur Helgason, 23.5.2009 kl. 18:09
Meiriháttar snilld.
Sólveig Hannesdóttir (IP-tala skráð) 23.5.2009 kl. 20:27
Úff púff.
, 23.5.2009 kl. 22:31
Vel ritað og vekur upp ákveðnar minningar. Svona á vissan hátt.
Heimir Tómasson, 24.5.2009 kl. 04:15
Vellygni... Prakkari :-)
skemmtilegur pistill :)
Einar Indriðason, 24.5.2009 kl. 20:34
Þú ert greinilega góðu vanur. Nú er að sjá hvernig bankahrunið leikur þig.
Magnús Sigurðsson, 25.5.2009 kl. 08:04
Hahahaha Jón Steinar þetta var hrikalegur skemmtilestur
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 25.5.2009 kl. 11:28
Takk fyrir undirtektirnar. Svona "O,sei sei" sögur eru íþróttagrein, sem égóg bróðir minn stunduðum einu sinni okkar á milli. Margir hafa stundað hana með góðum árangri í gegnum tíðina Skemmst er að minnast lítilla leikþátta Árna gamla Tryggva og fleiri, en mín inspírasjón var ávallt Heljarslóðarorrusta Benedikts Gröndal, sem ég las mér til mikillar skemmtunnar á unglingsárum.
Hvort þetta er Draumaland Andra, skal ég ekki segja, en kannski gæti þetta verið endurynning einhvers af komandi kynslóð, eftir að Steinki og Hanna hafa farið um okkur höndum og selt okkur undir lénsherrana á meginlandinu fyrir austan. Sýnist mér allt stefna í það.
Það væri ekki úr vegi að efna til svona íþróttamóts eða keppni í O, sei sei sögum hér. Það ætti að létta mönnum lundina og slípa hornin af sjálfsvorkuninni, sem fer eins og svínaflensa um landið.
Jón Steinar Ragnarsson, 26.5.2009 kl. 01:07
Er þetta ekki um sama leiti og Ókleifur Hamar nokkur flytur frá Skarði í Vör að Ytri Barmi í Kammersveit? Eða var það Díley sem hann flutti út í??
Ragnar Áki Ragnarsson (IP-tala skráð) 29.5.2009 kl. 09:48
Rétt mun það vera bróðr, nema að hann staldraði skammt við í Díley og flutti allt sitt hafurtask út í Aldrey.
Jón Steinar Ragnarsson, 29.5.2009 kl. 18:13
Sonur hans Helgi helgi nam svo land á Seisey og koðnaði þar niður. Hann var einna helst þekktur af því að opna fyrsta söluturn hér á landi. Það var söluturninn Söluturninn, sem var svo hár að það náði enginn upp í lúguna og var því sjálfhætt eftir skamma hríð. Hann seldi fyrstur manna Lakrís, en það var hrísgrjónaklípa í laki, sem þótti heldur bragðlaus.
Jón Steinar Ragnarsson, 29.5.2009 kl. 18:22
Madur fær seint leid a ter Nonni minn, ert ad redda vinnudeginum fyrir mer herna. Glæsileg saga. Vantar hatalara her i resepsjonen til ad skoda videoin i færslunum a undan samt.
Viktor Alex Ragnarsson (IP-tala skráð) 31.5.2009 kl. 07:13
Takk fyrir það Vikki og Hörður. Mér líður betur með þig þarna í Frans Hörður minn. Ég hef komist í kynni við menn sem hafa farið svo ofsögum að þeir greina ekki á milli hugarburðar og staðreynda og aldrei eru sögurnar eins í hvert skipti sem maður heyrir þær aftur.
Viktor: Þú ættir kannski að fá hjálp frá Tedda og Maju og þýða þetta yfir á bokmál og senda Aftenposten, svona til að vekja meðaumkun með frændum okkar og kannski liðka fyrir láni betri vöxtum en IMF lánið, sem étur sig upp í rólegheitum og skilar engu nema sívaxandi skuld.
Jón Steinar Ragnarsson, 31.5.2009 kl. 23:27
Tad er spurning um ad eg fari i tetta nuna bara, hjalpa gamla goda Islandi i kreppunni ;)
Viktor Alex (IP-tala skráð) 3.6.2009 kl. 10:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.