Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008
John Frum mun koma aftur.
26.1.2008 | 17:47
Þann 15. Febrúar hvert ár er John Frum dagur á eldfjallaeynni Tanna í nágrenni Vanuatu á suður Kyrrahafi. Þá fara eyjaskeggar saman upp á hæstu tinda eyjarinnar, þar sem þeir hafa reist turna og bíða endurkomu John Frum, endurlausnara þeirra.
Fólkið býr til langa flugbraut á hæðum og byggt sér eftirlíkingu af flugvél úr pálmalaufum og bambus til að lokka frelsarann til sín. "Við erum hér. Hvenær kemur þú?" Svo bíða þau hógvær og lítillát fram yfir sólarlag eftir að Jonh Frum birtist af himnum og uppfylli fyrirheit sín. Ekki hefur hann komið enn. Fólkið missir þó ekki vonina og hefur gert þetta af dyggð á hverju ári frá árinu 1942, eða þar um bil.
Hver er þessi John Frum og hver voru fyrirheit hans? Hvaðan kom þessi furðulegi átrúnaður, sem á í dag sína sértæku söngva, tilbeiðslu og ritningu? Ritningu sem m.a. segir á einhverskonar heimalagaðri ensku frá vitrunum sem bárust spámanni þeirra eftir að hann hafði drukkið töfradrykkinn þeirra, Kava:
"At evening kava comes John Frum. -Take up kastom and cargo I will bring. Leave missions and join the hills. Burn all money and make feast for I am come. Come with war. Come USA. Come with Cargo, where comes night. I am John Frum America. And when comes day and America is gone. When comes John Frum? Come home, Come home."
Í kyrrahafstríðinu höfðu þessar eyjar þegar verið numdar trúboðum kristinna frá því á 19 öld. Trúboðarn höfðu bannað fólkinu að stunda siði sína og einfalda náttúrutrú og refsað fyrir brot á slíku skikki. Fólkið var óánægt og sorgmætt. Þeim var uppálagt að temja sér nýja síði, nýjar bænir, nýtt tungumál,vinna fyrir peningum og lúta nýju valdi. Þeim var bannað að dansa og drekka Kava og áttu að klæðast og blygðast fyrir nekt sína.
Það var sorg og tóm í brjósti margra og gömlu góðu jarðnæru tímarnir að baki. Það bað og færði fórnir og bænirnar voru heyrðar. Það kom stríð.
Drunur heyrðust í fjarska sem fyrirboði nýrra tíma. Silfraðir risaguðir birtust á himnum með miklum gný og úr þeim féllu svífandi gjafir. Matur, verkfæri, myndabækur, fánar, málhlutir og hvað eina sem fólkið hafði í draumum sínum aldrei getað ímyndað sér. Gjafir af himnum. Það höfðu verið erfiðir tímar. Eldfjallið á Tanna hafði gosið lengi og spillt lífsskilyrðum. Fellibyljir höfðu farið um eyðandi afli. Tímasetningin hefði ekki getað verið betri. Fólkið var fullt vonar um betri tíð. Og þá birtist John Frum.
Honum er lýst sem hvítum manni í klæðum með glitrandi stjörnum. Lítill vexti, góður gefandi og glaðlegur. Hann deildi sorgum fólksins og hvatti það til að snúa baki við trúboðinu, snúa til hæðanna og til hinna gömlu siða. Hann sagði þeim að hafna vestrænni menningu og ánauð trúboðanna; sagði þeim að brenna peninga og snúa heim í friðsæld fyrra lífs. Hann hét því að koma aftur með vörur og gjafir. 15. febrúar myndi það verða. En hann gleymdi að minnast á hvaða ár það yrði.
Fólkið fór að boðum hans og virtist finna hamingjuna að nýju í tímalausu og frumstæðu líferni í hæðunum. Á hverju ári síðan, hefur það mætt á sömu staði vítt og breitt um eynna og beðið. Enn í dag hafa þau ekki gefið upp vonina. "Hann mun koma." segir það með fullvissu í augum. "John Frum America will come." Einmitt: John from America. Jón frá Ameríku.
Á þessum árum mynduðust raunar fjöldi slíkra trúhópa, sem almennt eru kallaðir Cargo Cult. Einn hópurinn trúði á Prins Philip, sem kom þarna með ungri konu sinni síðar; Elísabetu drottningu. Það var þó löngu eftir birtingu John Frum og sá hópur henti frá sér þeirri trú fyrir skömmu, eftir að trúboðarnir sýndu þeim áróðursmynd um Jesú.
Trúin á John Frum hefur þó enn staðið allt af sér og fulltrúar hans hafa farið til Ameríku í leit að honum og meira að segja átt fund í hvíta húsinu með ritara Bills Clinton. When comes John Frum?
Enginn veit hver hann var og líklegast er að hann hafi dáið í stríðinu ef hann þá nokkru sinni var til. Kannski gleymdi hann þeim. Loforð hans lifa samt enn og enn bíður fólkið og lætur ágang annarra trúboða sem vind um eyru þjóta. Hvítasunnumenn og 7. dags Aðventistar, fólk sem boðar heimsendi, refsingu og höft. Nei, þá er betra að bíða gjafa John Frum og treysta á endurkomu hans. John Frum America.
Flugvélar eru nánast daglegt brauð í dag, en þær lenda í Port Morrisby en ekki á brautum Roso og Makeo ættflokkanna. Porrt Morrisby er gildra hvíta mansins, sem fangar guðina og gjafir þeirra. En Jon Frum skildi eftir loforð og hann mun koma aftur. Það er hin andlega afstaða til vonar um veraldleg gæði. Hér í þessu lífi en ekki í öðru.
Mér vöknar hálfpartin um augun að sjá þetta og lesa um það. Ekki af sorg yfir fáfræði eða yfirgangi trúarbragða, eins og margir myndu ætla, sem þekkja mig, heldur af gleði yfir fegurð þessa einfalda og einlæga átrúnaðar og endalausu vonar á hið góða. Vonar, sem virðist raunar svo vonlaus. En þetta fólk er heilt og fallegt og syngur frelsara sínum lof. Dansar og syngur. Vakir við eldinn og segir sögur af John Frum. Það er einhvern djúpan lærdóm af þessu að draga. Engin lögmál, siðfræðipostillur, leiðtogar, stofnanir, bitlingar, kröfur um skilyrðislausa undirgefni né neitt af því sem trúarbrögð okkar bera með sér. Bara glaðleg hæglát og ódrepandi von á hið góða. Það er ekki hægt annað en hrífast.
Vestræn menning og túrismi er að sjálfsögððu á góðri leið með að spilla þessu í dag og hafa íbúar Tanna helstu tekjur sínar af því að selja túristum minjagripi og halda dans og söngskemmtanir fyrir yfirlætisfulla vestræna fitukeppi, sem líta á trú þeirra með góðlátlegri vanþóknun. Trúboðar berjast einnig við að eyða þessari "villutrú" og linna ekki áróðri sínum og óttaprangi. Nýverið hafa blóðug átök orðið, eftir að kristinn trúflokkur reyndi að vinna John Frum flokkinn yfir með hnífum og sveðjum undir stjórn spámanns þeirra Fred Nasse, sem trúir því að hann sé að vinna verk drottins. Rök Nasse fyrir Kristnun Frum-verja er sú að Jesú og John Frum, séu í raun sami maður. Þar hafiði það.
Hér mánálgast frekari upplýsingar um efnið almennt.
Hér eru nokkur myndbönd um efnið:
Tónlistin þeirra er falleg og sérstök og einhverskonar blanda að Polynesískum söng og vestrænni trúartónlist auk þess sem Regge og Hip hop hefur haft einhver áhrif í séinni tíð. Hér er smá krúttleg samkoma.
Hér eru fleiri tenglar. Tengill 1. Tengill 2. Tengill 3.
Hér er svo sagan í stuttu máli.
Trúmál og siðferði | Breytt 28.1.2008 kl. 12:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)