Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

John Frum mun koma aftur.

1Þann 15. Febrúar hvert ár er John Frum dagur á eldfjallaeynni Tanna í nágrenni Vanuatu á suður Kyrrahafi.   Þá fara eyjaskeggar saman upp á hæstu tinda eyjarinnar, þar sem þeir hafa reist turna og bíða endurkomu John Frum, endurlausnara þeirra. 

Fólkið býr til langa flugbraut á hæðum og byggt sér eftirlíkingu af flugvél úr pálmalaufum og bambus til að lokka frelsarann til sín.  "Við erum hér. Hvenær kemur þú?" Svo bíða þau hógvær og lítillát fram yfir sólarlag eftir að Jonh Frum birtist af himnum og uppfylli fyrirheit sín.  Ekki hefur hann komið enn.  Fólkið missir þó ekki vonina og hefur gert þetta af dyggð á hverju ári frá árinu 1942, eða þar um bil.

2Hver er þessi John Frum og hver voru fyrirheit hans?  Hvaðan kom þessi furðulegi átrúnaður, sem á í dag sína sértæku söngva, tilbeiðslu og ritningu?  Ritningu sem m.a. segir á einhverskonar heimalagaðri ensku frá vitrunum sem bárust spámanni þeirra eftir að hann hafði drukkið töfradrykkinn þeirra, Kava:

"At evening kava comes John Frum. -Take up kastom and cargo I will bring. Leave missions and join the hills.  Burn all money and make feast for I am come.  Come with war.  Come USA.  Come with Cargo, where comes night.  I am John Frum America. And when comes day and America is gone.  When comes John Frum? Come home, Come home."

3Í kyrrahafstríðinu höfðu þessar eyjar þegar verið numdar trúboðum kristinna frá því á 19 öld.  Trúboðarn höfðu bannað fólkinu að stunda siði sína og einfalda náttúrutrú og refsað fyrir brot á slíku skikki.  Fólkið var óánægt og sorgmætt.  Þeim var uppálagt að temja sér nýja síði, nýjar bænir, nýtt tungumál,vinna fyrir peningum og lúta nýju valdi.  Þeim var bannað að dansa og drekka Kava og áttu að klæðast og blygðast fyrir nekt sína. 

 Það var sorg og tóm í brjósti margra og gömlu góðu jarðnæru tímarnir að baki.  Það bað og færði fórnir og bænirnar voru heyrðar. Það kom stríð.

Drunur heyrðust í fjarska sem fyrirboði nýrra tíma. Silfraðir risaguðir birtust á himnum með miklum gný og úr þeim féllu svífandi gjafir.  Matur, verkfæri, myndabækur, fánar, málhlutir og hvað eina sem fólkið hafði í draumum sínum aldrei getað ímyndað sér.  Gjafir af himnum.  Það höfðu verið erfiðir tímar.  Eldfjallið á Tanna hafði gosið lengi og spillt lífsskilyrðum.  Fellibyljir höfðu farið um eyðandi afli.  Tímasetningin hefði ekki getað verið betri.  Fólkið var fullt vonar um betri tíð. Og þá birtist John Frum.

4Honum er lýst sem hvítum manni í klæðum með glitrandi stjörnum. Lítill vexti, góður gefandi og glaðlegur.  Hann deildi sorgum fólksins og hvatti það til að snúa baki við trúboðinu, snúa til hæðanna og til hinna gömlu siða.  Hann sagði þeim að hafna vestrænni menningu og ánauð trúboðanna; sagði þeim að brenna peninga og snúa heim í friðsæld fyrra lífs.  Hann hét því að koma aftur með vörur og gjafir.  15. febrúar myndi það verða.  En hann gleymdi að minnast á hvaða ár það yrði.

Fólkið fór að boðum hans og virtist finna hamingjuna að nýju í tímalausu og frumstæðu líferni í hæðunum.  Á hverju ári síðan, hefur það mætt á sömu staði vítt og breitt um eynna og beðið.  Enn í dag hafa þau ekki gefið upp vonina.  "Hann mun koma." segir það með fullvissu í augum.  "John Frum America will come."  Einmitt: John from America.  Jón frá Ameríku.

5Á þessum árum mynduðust raunar fjöldi slíkra trúhópa, sem almennt eru kallaðir Cargo Cult.  Einn hópurinn trúði á Prins Philip, sem kom þarna með ungri konu sinni síðar; Elísabetu drottningu. Það var þó löngu eftir birtingu John Frum og sá hópur henti frá sér þeirri trú fyrir skömmu, eftir að trúboðarnir sýndu þeim áróðursmynd um Jesú. 

 Trúin á John Frum hefur þó enn staðið allt af sér og fulltrúar hans hafa farið til Ameríku í leit að honum og meira að segja átt fund í hvíta húsinu með ritara Bills Clinton.  When comes John Frum?

Enginn veit hver hann var og líklegast er að hann hafi dáið í stríðinu ef hann þá nokkru sinni var til.  Kannski gleymdi hann þeim.  Loforð hans lifa samt enn og enn bíður fólkið og lætur ágang annarra trúboða sem vind um eyru þjóta. Hvítasunnumenn og 7. dags Aðventistar, fólk sem boðar heimsendi, refsingu og höft.  Nei, þá er betra að bíða gjafa John Frum og treysta á endurkomu hans.  John Frum America. 

Flugvélar eru nánast daglegt brauð í dag, en þær lenda í Port Morrisby en ekki á brautum Roso og Makeo ættflokkanna.  Porrt Morrisby er gildra hvíta mansins, sem fangar guðina og gjafir þeirra.  En Jon Frum skildi eftir loforð og hann mun koma aftur.  Það er hin andlega afstaða til vonar um veraldleg gæði.  Hér í þessu lífi en ekki í öðru.

tanna sjómaðurMér vöknar hálfpartin um augun að sjá þetta og lesa um það.  Ekki af sorg yfir fáfræði eða yfirgangi trúarbragða, eins og margir myndu ætla, sem þekkja mig, heldur af gleði yfir fegurð þessa einfalda og einlæga átrúnaðar og endalausu vonar á hið góða.  Vonar, sem virðist raunar svo vonlaus. En þetta fólk er heilt og fallegt og syngur frelsara sínum lof.  Dansar og syngur. Vakir við eldinn og segir sögur af John Frum.  Það er einhvern djúpan lærdóm af þessu að draga.  Engin lögmál, siðfræðipostillur, leiðtogar, stofnanir, bitlingar, kröfur um skilyrðislausa undirgefni né neitt af því sem trúarbrögð okkar bera með sér.  Bara glaðleg hæglát og ódrepandi von á hið góða.  Það er ekki hægt annað en hrífast.

Vestræn menning og túrismi er að sjálfsögððu á góðri leið með að spilla þessu í dag og hafa íbúar Tanna helstu tekjur sínar af því að selja túristum minjagripi og halda dans og söngskemmtanir fyrir yfirlætisfulla vestræna fitukeppi, sem líta á trú þeirra með góðlátlegri vanþóknun.  Trúboðar berjast einnig við að eyða þessari "villutrú" og linna ekki áróðri sínum og óttaprangi. Nýverið hafa blóðug átök orðið, eftir að kristinn trúflokkur reyndi að vinna John Frum flokkinn yfir með hnífum og sveðjum undir stjórn spámanns þeirra Fred Nasse, sem trúir því að hann sé að vinna verk drottins.  Rök Nasse fyrir Kristnun Frum-verja er sú að Jesú og John Frum, séu í raun sami maður.  Þar hafiði það.

  Hér mánálgast frekari upplýsingar um efnið almennt.

Hér eru nokkur myndbönd um efnið:

Tónlistin þeirra er falleg og sérstök og einhverskonar blanda að Polynesískum söng og vestrænni trúartónlist auk þess sem Regge og Hip hop hefur haft einhver áhrif í séinni tíð.  Hér er smá krúttleg samkoma.

Hér eru fleiri tenglar.  Tengill 1.  Tengill 2. Tengill 3.

Hér er svo sagan í stuttu máli.


Sáðmaðurinn Blindi.

verkamenn

  Ég fór að velta upp gömlum síðgelgjuþönkum við Gunnar, vin vorn, Svíafara, sem fólu í sér vangaveltur um það að allar gjörðir okkar,  orð og athafnir hafi áhrif á lífið umhverfis okkur í lengra eða skemmra samhengi.  Við vitum það oftast ekki eða hugsum ekki út í það en allar hræringar hins síbreytilega heims hafa sín áhrif í stóru og smáu. Stundum strax...stundum eftir aldir. 

  Hugsanir okkar og gjörðir móta líf okkar. Viðhorf okkar til lífsins og samferðarmanna stjórna líðan okkar og viðkomu, en ekkert geistlegt afl, sem heldur registur um hræringar okkar og kemur svo með launaumslagið á efsta degi, fullt eða tómt.  Allt á sér eitt allsherjar orsakasamhengi.  Til þess að verða ekki of djúpur og tyrfinn hérna, langar mig að segja ykkur sanna sögu þessu til útskýringar.

  Þessa sögu heyrði ég gamlan mann segja, en hann er nú löngu dáinn sá öðlingur.  Sagan er að sjálfsögðu ekki orðrétt endursögn en er eitthvað á þessa leið:

   "Þegar ég var um tvítugt, þá var ég að vinna sem verkstjóri við eina af fyrstu stóru virkjununum hér.  Það voru mikil uppgrip fyrir mig svona ungan mann og mikil ábyrgð, sem á mér hvíldi.  Þetta var á árum hafta og miðstýringar og atvinnuástand bágborið víðast hvar, svo ég var einn hinna heppnu má segja.  Af þessum sökum var mikil ásókn í störf þarna en sjaldan, sem losnaði pláss nema fyrir einhverja ógæfu, slys eða veikindi.  Var því eins dauði oft annars brauð í því samhengi. 

Ég var stöðugt að vísa mönnum frá og leið illa yfir að þurfa að sýna slíka festu og virðast svo harðlyndur, því margir voru þeir sem voru á barmi örvæntingar og höfðu fyrir öðrum að sjá.  En þetta var engin góðgerðarstofnun því miður. Það var líka eitt viðkvæða minna.

sáðmaðurinnEinu sinni kom til mín ungur og prúður piltur og bað mig um vinnu.  Hann hafði fyrir veikri móður að sjá og systkinum,  en hafði verið atvinnulaus í marga mánuði og sást það á holdafari hans og klæðaburði.  Augun voru með votri slikju beiningarmannsins og hendur og haka skulfu.  Ég þekkti til hans í heimabæ mínum og vissi að hann var heiðvirður og góður og sinnti sínum framar sér, svo ég leið sálarkvöl fyrir að vísa honum á braut.  En svona var veruleikinn og lítið gat ég gert,  þótt hann væri svo aumur að ég þyrfti að lána honum fyrir rútunni heim.

  Síðla þessa dags var ég við störf og  pilturinn vék ekki úr huga mér.  Þá kom til mín einn af verkamönnunum og minnti mig á að hann væri að flytja erlendis og var að árétta að launin kæmu á réttum tíma, svo hann kæmist burt, viku seinna.  Ég hafði gleymt þessu og skyndilega fékk ég eina af mínum vitleysisflugum í höfuðið, sem oft hafa komið mér um koll á lífsleiðinni.  Ég hljóp niður á veg til að gá að horaða piltinum, því ég vildi að bjóða honum starfið.  Það var þó vika í að ég mætti það en ég vildi ráða hann strax í eitthvað smálegt og hugsaði mér að ég myndi greiða honum sjálfur þessa fyrstu viku ef ég lenti í vandræðum fyrir frumhlaupið. 

Afi og strákur  Þetta var vanhugsað og hefði getað kostað mig sjálfan vinnuna, en ég lét þó slag standa. Ég fann drenginn þar sem hann sat á steini og beið rútunnar, og réði hann.  Hann fór að gráta, svo hrærður var hann.  Að vísu þurfti ég að leita logandi ljósi að einhverju smálegu að gera fyrir hann, þar til staðan losnaði, en það blessaðist.  Ég sá eftir þessu í fyrstu og bölvaði mér fyrir veiklyndið, en það kom í ljós að þessi drengur var afbragðs verkamaður, útsjónasamur og duglegur og lynti vel við alla menn.

  Til að gera langa sögu stutta, þá felldu hann og ein af ungu matseljunum okkar saman hugi og var það dýpra en matarástin ein, því þau giftu sig þá um veturinn.   Hann vann svo hjá okkur næstu tvö ár eða svo og síðan missti ég sjónar af honum og gleymdi honum svo í tímans rás.

  Ég giftist fór að búa og eignaðist börn eins og gengur og gerist. Mörgum árum síðar kom dóttir mín til mín og var svolítið hikandi og taugaóstyrk.  Hún sagðist vera orðin ástfangin og komin með kærasta, sem hún vildi kynna fyrir mér.  Þetta var mér eilítið áfall því slíkt þýðir að barnið mitt hyrfi á braut innan tíðar.  Hún sem hafði fyrir leiftri einu kúrt við barm minn lítið barn. Nú var hún fullvaxta og sjálfstæð kona, stolt mitt og gleði.  Mér var því ekki sama hver þessi kauði var.

afi og strákur við sjóDrengurinn reyndist þó bæði prúður og gjörvilegur og kunni ég strax við hann því það var eins og ég þekkti eitthvað í honum.  Það voru augun og hollningin öll og ákveðnir taktar, sem ég þóttist þekkja en kom ekki fyrir mig.  Skýringin kom þó strax við fyrstu eftirgrennslan.  Þetta var sonur verkamannsins, sem ég hafði aumkað mig yfir og matseljunnar ungu í virkjuninni forðum.

Þau giftu sig síðar og eignuðust yndisleg börn, dóttir mín og hann og nú þegar ég sit úti í garði í ellinni og horfi á þau leika sér, eða þegar þau kúra við brjóst mér og ég fæ að segja þeim sögu,  þá fyllist ég þessari undarlegu gleði og þakklæti yfir undrum lífsins.  Þakklæti yfir þessari gjöf sem fyllir gráa daga mína ljósi og fölskvalausri elsku.

Við erum okkar eigin gæfu smiðir í stóru og smáu án þess að ætla það né vita.  Í lífinu uppskerum við eins og við sáum. Það eru gömul sannindi og ný.   Við erum þó líkari blindum sáðmanni og er það oft tilviljunum háð hvort uppskeran er góð eða ill.  Það er því vert að leiða hugann að hugsunum sínum og gjörðum hverja stund, því uppskeran kemur óhjákvæmilega.  Mín reyndist verðmætari en gull og gersemar."


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband