Sáðmaðurinn Blindi.

verkamenn

  Ég fór að velta upp gömlum síðgelgjuþönkum við Gunnar, vin vorn, Svíafara, sem fólu í sér vangaveltur um það að allar gjörðir okkar,  orð og athafnir hafi áhrif á lífið umhverfis okkur í lengra eða skemmra samhengi.  Við vitum það oftast ekki eða hugsum ekki út í það en allar hræringar hins síbreytilega heims hafa sín áhrif í stóru og smáu. Stundum strax...stundum eftir aldir. 

  Hugsanir okkar og gjörðir móta líf okkar. Viðhorf okkar til lífsins og samferðarmanna stjórna líðan okkar og viðkomu, en ekkert geistlegt afl, sem heldur registur um hræringar okkar og kemur svo með launaumslagið á efsta degi, fullt eða tómt.  Allt á sér eitt allsherjar orsakasamhengi.  Til þess að verða ekki of djúpur og tyrfinn hérna, langar mig að segja ykkur sanna sögu þessu til útskýringar.

  Þessa sögu heyrði ég gamlan mann segja, en hann er nú löngu dáinn sá öðlingur.  Sagan er að sjálfsögðu ekki orðrétt endursögn en er eitthvað á þessa leið:

   "Þegar ég var um tvítugt, þá var ég að vinna sem verkstjóri við eina af fyrstu stóru virkjununum hér.  Það voru mikil uppgrip fyrir mig svona ungan mann og mikil ábyrgð, sem á mér hvíldi.  Þetta var á árum hafta og miðstýringar og atvinnuástand bágborið víðast hvar, svo ég var einn hinna heppnu má segja.  Af þessum sökum var mikil ásókn í störf þarna en sjaldan, sem losnaði pláss nema fyrir einhverja ógæfu, slys eða veikindi.  Var því eins dauði oft annars brauð í því samhengi. 

Ég var stöðugt að vísa mönnum frá og leið illa yfir að þurfa að sýna slíka festu og virðast svo harðlyndur, því margir voru þeir sem voru á barmi örvæntingar og höfðu fyrir öðrum að sjá.  En þetta var engin góðgerðarstofnun því miður. Það var líka eitt viðkvæða minna.

sáðmaðurinnEinu sinni kom til mín ungur og prúður piltur og bað mig um vinnu.  Hann hafði fyrir veikri móður að sjá og systkinum,  en hafði verið atvinnulaus í marga mánuði og sást það á holdafari hans og klæðaburði.  Augun voru með votri slikju beiningarmannsins og hendur og haka skulfu.  Ég þekkti til hans í heimabæ mínum og vissi að hann var heiðvirður og góður og sinnti sínum framar sér, svo ég leið sálarkvöl fyrir að vísa honum á braut.  En svona var veruleikinn og lítið gat ég gert,  þótt hann væri svo aumur að ég þyrfti að lána honum fyrir rútunni heim.

  Síðla þessa dags var ég við störf og  pilturinn vék ekki úr huga mér.  Þá kom til mín einn af verkamönnunum og minnti mig á að hann væri að flytja erlendis og var að árétta að launin kæmu á réttum tíma, svo hann kæmist burt, viku seinna.  Ég hafði gleymt þessu og skyndilega fékk ég eina af mínum vitleysisflugum í höfuðið, sem oft hafa komið mér um koll á lífsleiðinni.  Ég hljóp niður á veg til að gá að horaða piltinum, því ég vildi að bjóða honum starfið.  Það var þó vika í að ég mætti það en ég vildi ráða hann strax í eitthvað smálegt og hugsaði mér að ég myndi greiða honum sjálfur þessa fyrstu viku ef ég lenti í vandræðum fyrir frumhlaupið. 

Afi og strákur  Þetta var vanhugsað og hefði getað kostað mig sjálfan vinnuna, en ég lét þó slag standa. Ég fann drenginn þar sem hann sat á steini og beið rútunnar, og réði hann.  Hann fór að gráta, svo hrærður var hann.  Að vísu þurfti ég að leita logandi ljósi að einhverju smálegu að gera fyrir hann, þar til staðan losnaði, en það blessaðist.  Ég sá eftir þessu í fyrstu og bölvaði mér fyrir veiklyndið, en það kom í ljós að þessi drengur var afbragðs verkamaður, útsjónasamur og duglegur og lynti vel við alla menn.

  Til að gera langa sögu stutta, þá felldu hann og ein af ungu matseljunum okkar saman hugi og var það dýpra en matarástin ein, því þau giftu sig þá um veturinn.   Hann vann svo hjá okkur næstu tvö ár eða svo og síðan missti ég sjónar af honum og gleymdi honum svo í tímans rás.

  Ég giftist fór að búa og eignaðist börn eins og gengur og gerist. Mörgum árum síðar kom dóttir mín til mín og var svolítið hikandi og taugaóstyrk.  Hún sagðist vera orðin ástfangin og komin með kærasta, sem hún vildi kynna fyrir mér.  Þetta var mér eilítið áfall því slíkt þýðir að barnið mitt hyrfi á braut innan tíðar.  Hún sem hafði fyrir leiftri einu kúrt við barm minn lítið barn. Nú var hún fullvaxta og sjálfstæð kona, stolt mitt og gleði.  Mér var því ekki sama hver þessi kauði var.

afi og strákur við sjóDrengurinn reyndist þó bæði prúður og gjörvilegur og kunni ég strax við hann því það var eins og ég þekkti eitthvað í honum.  Það voru augun og hollningin öll og ákveðnir taktar, sem ég þóttist þekkja en kom ekki fyrir mig.  Skýringin kom þó strax við fyrstu eftirgrennslan.  Þetta var sonur verkamannsins, sem ég hafði aumkað mig yfir og matseljunnar ungu í virkjuninni forðum.

Þau giftu sig síðar og eignuðust yndisleg börn, dóttir mín og hann og nú þegar ég sit úti í garði í ellinni og horfi á þau leika sér, eða þegar þau kúra við brjóst mér og ég fæ að segja þeim sögu,  þá fyllist ég þessari undarlegu gleði og þakklæti yfir undrum lífsins.  Þakklæti yfir þessari gjöf sem fyllir gráa daga mína ljósi og fölskvalausri elsku.

Við erum okkar eigin gæfu smiðir í stóru og smáu án þess að ætla það né vita.  Í lífinu uppskerum við eins og við sáum. Það eru gömul sannindi og ný.   Við erum þó líkari blindum sáðmanni og er það oft tilviljunum háð hvort uppskeran er góð eða ill.  Það er því vert að leiða hugann að hugsunum sínum og gjörðum hverja stund, því uppskeran kemur óhjákvæmilega.  Mín reyndist verðmætari en gull og gersemar."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sendu mér tölvupóst á lysandi@internet.is því ég á svolítið erindi við þig.

Páll Ásgeir Ásgeirsson

Páll Ásgeir (IP-tala skráð) 13.9.2007 kl. 08:51

2 Smámynd: Sóldís Fjóla Karlsdóttir

Við þessa frásögn sannfærðist ég endanlega um að tilviljanir eru ekki til. Svona er tilveran, eitt stórt samhengi.

Sóldís Fjóla Karlsdóttir, 13.9.2007 kl. 09:27

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Svo sannarlega falleg saga, og eins og talað út úr mínu hjarta.  Víst erum við blind, en samt misjafnlega mikið, og það er alltaf til fólk, sem þreyfar sig áfram í myrkrinu og fylgir samvisku sinni og innri sýn.  Sem er alltaf sú rétta.  Takk fyrir að deila þessu með okkur, gott nesti út í daginn.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 13.9.2007 kl. 09:47

4 Smámynd: Ívar Pálsson

Þakka þér, Jón Steinar snillingur. Alltaf nærðu beint í hjartað. Eins og Sóldís Fjóla segi ég að tilviljanir séu ekki til og að allt er tengt, eins og þú hefur lagt áherslu á. Takk lóka fyrir Tolle pakkann, ég ligg yfir þessu.

Ívar Pálsson, 13.9.2007 kl. 10:48

5 Smámynd: Ívar Pálsson

Þetta átti að vera líka, ekki neina lóka!

Ívar Pálsson, 13.9.2007 kl. 10:49

6 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Þetta er færsla  og svo sönn.

Gunnar Helgi Eysteinsson, 13.9.2007 kl. 17:22

7 Smámynd: Hólmgeir Karlsson

Yndisleg saga Jón og segir okkur hversu mikilvægt er að fylgja innsæginu sem aldrei skrökvar. Viskunni sem við eigum alltaf aðgang að og er partur af "stóra samhenginu" spurningin er bara hversu vel við finnum fyrir því eða heyrum í því í amstri dagsins og innan um allt það sem fyrir okkur er lagt :)

Hólmgeir Karlsson, 13.9.2007 kl. 22:08

8 Smámynd: Steingrímur Helgason

Alltaf nærð þú alveg inn að hinu nýranu í mér með þessum 'gullmannakornum' þínum.  Hef sagt það áður & skrifað, & hef alveg nennu til að segja það aftur & skrifa aftur. Það er ein góð ástæða til nenna að vera á bloggerí þegar þú skrifar, & alltaf bætir þú frekar í en að slá af.

Atarna var nú ein góð saga snilldarlega framreidd af þinni hálfu, fyrir okkur auðmjúka þakkláta lesendur.

S.

Steingrímur Helgason, 13.9.2007 kl. 23:28

9 Smámynd: Fríða Eyland

Náðir mér alveg

Fríða Eyland, 13.9.2007 kl. 23:42

10 Smámynd: Heiða  Þórðar

Snillingur!

Heiða Þórðar, 14.9.2007 kl. 01:58

11 Smámynd: halkatla

þetta er mjög falleg saga, sem ég vil þakka fyrir og mig langar að gefa þér eitthvað í staðinn, eftilvill hefðiru áhuga á að sjá þetta hér

þetta er ekki trúaráróður heldur bara svo mikið í stíl við lokaorð færslunnar

p.s Gunnar svíafari er náttúrulega yndi #1 

halkatla, 14.9.2007 kl. 02:01

12 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Takk kæru vinir.  Verst að mér láðist að halda í boðskapinn um tíma og hefði betur gert.  Anna Karen þessi tengill er góður og skilmerkilegur og nánast allt, sem þar er ritað er að benda á einn og sama algilda sannleikann frá öllum hliðum svo sem flestir tengi við.  Það er að þú ert þinnar gæfu smiður og að athafnir þínar eiga sér rót í hugskotinui, því ber að halda því hreinu.

Þetta með að elska náungann eða elska Guð hefur vafist fyrir mörgum enda hefur dogmatíkin svínað það út frá öllum hliðum. Fyrir mér er það að elska að hafa í huga. Svo einfalt er það. 

Jón Steinar Ragnarsson, 14.9.2007 kl. 02:32

13 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ergó: Það sem á hug þinn allann hverju sinni, hvort sem það er illt eða gott, það elskar þú.  Sé það hatur, velvild, áfengi, hóf, gnægtir, fátækt....  þá er það ást þín hverju sinni og það sem þú elskar...Það færðu í tímans rás.  Það er því viturt að velja vel það sem í hugskotið er tekið eins og það sem í magann er sett.

Jón Steinar Ragnarsson, 14.9.2007 kl. 02:38

14 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

þetta er alveg dásamleg frásögn. öll erum við jú hluti hvert að au, og að rétta bróður hjálparhönd er að rétta sér hjálparhönd!

Góða helgi til þín kæri jón steina

AlheimsLjós til þín

Steina 

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 14.9.2007 kl. 10:31

15 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Jú nafna mín. Orðtækið er svo lýsandi og í raun alveg nákvæmlega það sem gerist.  Það eru engin ný sannindi til og gengnar kynslóðir voru máske nær þessum andlega skilningi á lífinu en við erum í dag í öllu okkar hlutlæga mati.

 Gaman að fá þig í heimsókn.

Jón Steinar Ragnarsson, 14.9.2007 kl. 14:23

16 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Já er ekki skrítið að sumir hugsa mjög vel að því hvað þeir láta í sinn maga en hleypa svo öllu óritskoðuðu í hugann..eru bara eins og ryksuga og hleypa öllu þar inn? Mér finnst í raun meira mál að velja hvað fær aðgang að huga mínum en maga..en þannig er ég bara.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 14.9.2007 kl. 22:35

17 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Gæsahúðarfærsla....... í alvörunni. 

Anna Einarsdóttir, 15.9.2007 kl. 09:51

18 Smámynd: Bjarndís Helena Mitchell

Takk fyrir mig, þetta er hugljúf saga með holl skilaboð.

Bjarndís Helena Mitchell, 15.9.2007 kl. 19:41

19 Smámynd: Hugarfluga

Hvað getur maður sagt? Ég er orðlaus en langar að þakka fyrir mig.

Hugarfluga, 15.9.2007 kl. 21:27

20 Smámynd: www.zordis.com

Yndislega frásögn og samlíking með blinda sáðmanninn.  Við megum aldrei gleyma kærleikanum, gefa hann með og njóta þess sem við gerum.  Hversu gleðileg eða sár uppskeran verður þá er hún hluti af okkur hluti af heildinni.  Gott að koma og lesa þig!

www.zordis.com, 16.9.2007 kl. 08:55

21 Smámynd: Bara Steini

Alltaf finnst mér jafn indælt að lesa blogg eftir þig. Þú nærð sífellt að fá mann til að sjá og skilja hvað íslenskt skrifmál er stórfagurt og finnst mér þú standa þar sem hornsteinn :=)

Bara Steini, 16.9.2007 kl. 16:57

22 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Takk kæri vin.  Met það mikils að heyra slíkt frá þér.  Það má teikna með orðum líka.

Jón Steinar Ragnarsson, 16.9.2007 kl. 21:32

23 Smámynd: Karl Tómasson

Sæll kæri Jón Steinar.

Takk fyrir fallega. góða og gefandi lesningu.

Það er nefnilega þannig að á endanum er það aðferðarfræðin sem við notum í  lífinu og öllum samskiptum sem vegur þyngst þegar upp er staðið.

Karl Tómasson, 16.9.2007 kl. 23:55

24 Smámynd: Sigríður Hafsteinsdóttir

Mjög falleg saga og svo sönn.. Var einmitt að ræða sama hlut við manninn síðast í gær, hvað við erum öll mikið kraftaverk! Af því að tvær manneskjur hittast, fella hugi saman og eignast börn. Og ef þessar tvær manneskjur hefðu ekki hist, hefðum við ekki verið til og svo framvegis..

Elskum lífið!

Sigríður Hafsteinsdóttir, 17.9.2007 kl. 11:46

25 identicon

Þú kemur út á manni tárunum.

Einar Árnason (IP-tala skráð) 18.9.2007 kl. 15:22

26 identicon

Þakka góðar greinar.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 18.9.2007 kl. 22:59

27 Smámynd: Ólöf Anna

Takk fyrir falleg skrif. Þú ert einkarlagin við að styrkja fólk í kringum þig. Ég les færsluna í gestabókinni minni regluleg.

Þú ert greinilega gull af manni.

Ólöf Anna , 19.9.2007 kl. 19:18

28 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Yndisleg saga.  Ég ætla ekki að gleyma henni.  Takk fyrir mig.

Jenný Anna Baldursdóttir, 20.9.2007 kl. 13:51

29 Smámynd: Ívar Pálsson

Jón Steinar, ábendingar þínar eru alltaf góðar, nú síðast þessi Zeitgeistmovie, sem þú bentir á annars staðar, sem er heilmikil upplifun! Ég sá mest af henni í gær. Áfram til nýrra vídda!

Ívar Pálsson, 21.9.2007 kl. 08:56

30 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Allt í anda hins stóra samhengis Ívar. Varðandi valdasukkið í USA, get ég bent á margar athyglisverðar myndir, sem ekki falla undir neikvæða túlkun á Conspiracy theories.  Vel grundaðar og trúverðugar heimildir.  Eins og flest í Zeitgæst. Það sem skortir á einföldun trúarelementsins er boðskapur Krists, eða þær mannbætandi kennisetningar, sem liggja að grunni.  Það stendur vel ef Dogmað er skilið frá.  Það er kannski líka tilgangur kvikmyndagerðarmannanna.  Að slíta okkur niður á jörðina og fá okkur til þess að líta út fyrir ramma sjónvarpsins.

Gagnrýnin hugsun semsagt.  Mikið væri gott ef menn tækju að leiðbeina um slíkt í skólum í stað vafasamrar mötunnar á stöðluðum en æfstæðum "sannleik."  Ekkert væri mikilvægara fyrir skólakefið og fyrir framfarir á tæknilegum og húmanískum nótum.

Jón Steinar Ragnarsson, 21.9.2007 kl. 10:25

31 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Já það held ég nú minn kæri ..

Pálmi Gunnarsson, 21.9.2007 kl. 21:40

32 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Einmitt, já, skil, rétt, gott, takk.  En, hvað er tilviljun? (e: co-incidence, d: tilfælde..)

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 21.9.2007 kl. 22:47

33 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

P.S.: Var að lesa eldri færslur sem ég hef misst af í annríki daganna og langar að segja þetta: Húsið er yndislegt og músíkkin inspírerandi. En ég skynja depurð, ráðaleysi og einmanaleik samt í þessu húsi. Hvernig má það vera? Hól í óhófi verður háð, var sagt á Eskifirði í gamla daga, en ég verð að segja það einu sinni enn: alveg ertu magnaður.

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 21.9.2007 kl. 23:21

34 Smámynd: Kona

Ég er nýr lesandi og mig langar bara að segja þér þetta: Þú bloggar svo fallega :)

Kær kveðja

Kona

Kona, 24.9.2007 kl. 14:32

35 Smámynd: Aðalheiður Haraldsdóttir

Yndisleg saga og fallega sögð.  Þessu mun ég örugglega aldrei gleyma.

Aðalheiður Haraldsdóttir, 26.9.2007 kl. 07:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband