Bambusstangir og bræðravíg.
21.6.2007 | 02:56
Haustmorgun einn árið 1208 kraup Kolbeinn Tumason goði og skáld á kné í döggvott grasið á Víðinesi. Mistur var í lofti og kjá fugla í fjarska. Vitund hans galopin og skýr. Ilmur gróandans fyllti vitin og fjarlægur kliður vaknandi heims hvíslaði í eyrum. Ofar öllum veraldarnið og hugarvíli ríkti þó mikilfengleg kyrrðin, sem umlukið hafði jarðlífið frá upphafi vega. Kyrrð hins eilífa og almáttuga. Þennan dag skyldi skáldið deyja í orrustu, sem ekki varð umflúin. Innst inni hafði hann dýpri vitneskju um þau örlög. Hann bað því Guð um mildi og forsjá...”minnst mildingur mín”. Auðmýkt hans var djúp og sátt í hjarta yfir hverju sem koma vildi. Hann myndi lúta vilja alvaldsins hvernig sem færi. “ Ég er þrællinn þinn. Þú ert drottinn minn.”
Máske sá hann villu sína á þessari stundu. Að deilur um jarðnesk og hverful málefni höfðu komið honum á þennan stað. Þvermóðska, græðgi, öfund og vantraust á forsjá og mildi alvaldsins hafi skapað honum þessi örlög. Kannski uppskar hann þarna það sem hann hafði sáð til. Kannski sótti iðrun að hjartanu. Kannski var enn rökrænn möguleiki á að hverfa frá hildinni ef ekki væri fyrir duttlungafullar kennisetningar um heiður og skyldur sem mannleg gunnhyggni hafði bitið óskrifað í sig. Dauði hans var því óumflýjanleg niðurstaða af hugsunum hans og gjörðum en ekki ákvörðun einhvers mildings ofar öllu mannlegu. Hver er sinnar gæfu smiður. Enginn himnasmiður.
Mér finnst sem ég gæti sett mig í spor Kolbeins þegar ég hugsa til púkastríðanna svokölluðu á gullnum dögum æskuáranna. Þannig upplifði ég orrustudag í aftureldingu. Við ákváðum yfirleitt með dags fyrirvara að heyja stríð við krakka í nærliggjandi götum eða í öðrum bæjarhlutum. Fjarðarstrætispúkar gegn Bakkapúkum; Efribæjarpúkar gegn Neðribæjarpúkum. Ekkert sérstakt tilefni var gefið að þessum stríðum annað en landfræðilegur aðskilnaður og eining um óeiningu.
Strax og stríð var handsalað og staður og stund ákveðin, byrjaði undirbúningur. Sverð voru smíðuð, sem oft voru líkari lurkum en nokkru öðru. Bambusstöngum var stolið, snærispottar útbúnir með hnút á enda og jafnvel ógnvekjandi keðjustubbar voru teknir til handargagns. Allt voru þetta stórhættuleg tól og fallin til að meiða og limlesta. Það var þó aldrei hinn æðsti tilgangur að meiða, heldur var markmiðið að vera eins ógnvekjandi og hægt var; að stökkva óvininum á flótta sem fyrst. Hafa hátt, ögra og hræða. Upplifun stríðsins var meginatriðið, tilfinningin fyrir og eftir. Eftirvæntingin, sigurvíman. Þessi ótruflaða athygli og árvekni, sem skapaðist. Allt varð einhvern veginn ljósara og skarpara stundirnar áður en skarst í brýnu. Hljóðin urðu skýrari, andrúmsloftið ferskara, heimurinn litauðugri, bragðskynið ríkara og kyrrðin yfir svo magnþrungin að hún fyllti brjóstið og yfirskyggði óttann. Hugurinn var tendraður til hins ýtrasta en samt yfirvegaður. Tíminn blekking ein.
Líklega var mér svipað innanbrjósts og skáldinu að morgni skaparadægurs síns . Ég fann allavega samsömun í orðum hans. “Heyr himnasmiður, hve skáldið biður. Komi mjúk til mín, miskunnin þín.”
Við söfnuðum grjóti í vasa, munduðum barefli og vógum skildina á armi. Málmbragð í munni, þandir nasavængir, snörp orðskipti, suð í eyrum. Við stóðum reiðubúnir í eilífu andartaki eins og riddarar í álögum. Stundin var að renna upp. Við enda götunnar birtist óvinaherinn með gunnfána og lensur á lofti. Úff...hvað þeir voru margir. Við settum í herðarnar, bitum saman jöxlum og reyndum að breiða sem mest úr hópnum; börðum sverðum í skildi og yggldum brún. Óttinn læddist inn. Veruleikinn. Saklaus hugmynd var orðin dauðans alvara.
Ég vildi ekki vera þarna. Ég óttaðist þó síður að meiðast en að þurfa að meiða aðra. Þetta voru jú allt vinir og skólafélagar. Engum vildi ég illt og engan hataðist ég við. Hugurinn hvarflaði til hentugra flóttaleiða. Það gat þó enginn verið þekktur fyrir að láta hugfallast í miðri hólmgöngu. Innbyggð skylda sagði manni að yfirgefa ekki vini sína á örlagastundu. Þessi hugsun var líklegast sammerk með okkur öllum. Við vildum ekki, en skyldum. Stríðið varð sjálfstætt afl sem laut eigin lögmálum án tillits til langana soldátans um sátt og frið. Til að öðlast frið þarf blóð.
Árááás! Öskraði einhver og báðar fylkingar þustu mót hver annarri með samfelldu stríðsöskri. Hópunum laust saman og höggin dundu á skjöldum, bambusstangir kvistuðust í sundur og flísar flugu úr vopnum og verjum. Sumir hopuðu, aðrir ekki og hópurinn leystist upp í einangraða bardaga þar til óskráð sátt varð um að aðskilja fylkingar og safna liði að nýju. Nú fóru menn að leggja á ráðin af meiri ákafa. Óttinn efldi móð. Margir voru hruflaðir á höndum og höfði og enn aðrir með blóðnasir. Sjáöldur voru þanin til hins ýtrasta og horinn frussaðist úr nefi. “Fyrst þykjumst við ætla að ráðast beint á þá en svo dreifir helmingurinn sér og kemst á bak við þá. Svo umkringjum við þá.” sagði sjálfskipaður hershöfðingi hópsins, sem oftast var sá hugaðasti og ófyrirleitnasti – eða sá hræddasti.
Aftur var gert áhlaup á sama máta, en í þetta skipti birtist risastór strákur í hópi andstæðinganna. Hann var illilegur og ógnarlega stórvaxinn eins og risaeðla í hópi maura. Hann veifaði lurki á stærð við símastaur að manni fannst og virtist geta mulið okkur alla undir sér. Röddin var djúp og mikil svo stríðsöskur okkar urðu eins og hjáróma mjálm í samanburði. Óvinurinn margefldist við tilkomu þursans og æddi óttalaus gegn okkur. Ég fann reiðina svella í brjósti við þetta óréttlæti og skálmaði fram gargandi eins og lungun þoldu.
Þegar ég leit sem snöggvast um öxl til samhæfingar við vopnabræður mína, sá ég aðeins undir hvítar iljarnar á gúmmískónum þeirra. Þeir voru lagðir á flótta! Ég var einn á móti öllum þessum ógnarher! Ég þeytti skildinum og sverðinu í átt að væringjunum og tók til fótanna líka. Það var því miður of seint. Sá fljótasti í hópnum náði mér á tröppunum heima og barði mig bylmingshöggi í höfuðið með lurki. Ég fann skringilega kitlandi tilfinningu í nefinu og hávær sónn fyllti höfuð mitt eins og stillimynd sjónvarpsins væri komin þar inn. Ljósflekkir blossuðu fyrir augum og dimmrauður skuggi lagðist eins og þrumuský yfir vitundina. Ég rotaðist um stund, en rankaði aftur við mér þegar bölsót móður minnar þrengdi sér inn í vitundina. Hún hélt mér að sér og steytti hnefana mót innrásarhernum sem tvístraðist eins og sáð fyrir vindi. Blóðið rann niður ennið en ég fann ekki til. Ég var feginn því að stríðið var búið. Mig skipti minnstu að við höfðum tapað.
Slíkt er þó eðli stríða að niðurlag er ekki ásættanlegur endir. Hefndum skyldi ná. Tap kallaði á betri undirbúning, meira miskunnleysi, betri vopn og betra skipulag. Annað stríð var óumflýjanlegt og það yrði stærra og blóðugra en þetta. Það stríð unnum við líka og höfðum þá einnig leynivopn í stórabróður einhvers, sem þó reyndist ekki nauðsynlegt. Minningin um niðurlæginguna var innblástur okkar. Endurheimt óræðs heiðurs réð för. Við eltum óvininn uppi og tróðum þeim ofan í öskutunnur sem við börðum utan með sverðum. Einn tókum við fanga sem við drösluðum upp í fiskhjall og bundum við staur og niðurlægðum með orðum og pústrum. Svo héldum við niður í fjöru og kveiktum eld, skiptumst á hetjusögum rákum upp stríðsöskur. Fanganum gleymdum við í sigurvímunni þar til síðla um daginn að áhyggjufullir foreldrar fóru að leita hans. Þá var honum sleppt með sparki í rassgatið og ýmsum munnlegum ónotum.
Svona gengu stríðin á víxl eins og blóðhefndin fyrr á öldum og hættu ekki fyrr en skólinn og skyldurnar drógu hugann frá þeim. Enginn erfði þó neitt og allir urðu vinir að nýju eða svo til. Fanginn okkar hann Flosi var svolítið lengi að taka okkur sátt, en þau sár greru um síðir.
Stríð samtímans snúast enn um víxlverkandi lönguvitleysu blóðhefndarinnar. Þó er helsti drifkrafturinn ótti þess sem hefur við að glata því sem hann hefur. Ótti um skort og kapp um viðhald lífsgæða sem eru þó langt umfram þörf. Þeir sem skortinn líða megna ekki stríð. Þeir hafa heldur ekkert að verja nema skortinn sjálfan. Það eru forréttindi hinna efnameiri að heyja stríð. Okkar stríð snerist ekki um skort, græðgi, völd né hégóma. Okkar stríð kom okkur í nánd við alvaldið og fyllti okkur lífi. Okkar stríð urðu okkur vakning um hverfulleikann, kærleikann og auðmýktina eins og skáldinu forðum. Okkar stríð kenndu okkur að meta frið og vináttu að verðleikum ef einhvern lærdóm var af þeim að draga.
Ég efa þó að þessi reynsla hafi komið okkur til góða þegar fram í sótti, nema ef vera skildi að fanginn Flosi hafi getað nýtt sér hana síðar á ævinni. Hann var handtekinn í Dubai áratug síðar, fyrir að reyna að koma riffli með sér í farangri sínum. Vist hans þar var þó lengri og erfiðari þar en hjá okkur. Það krafðist milliríkjasamninga og mikils fjölmiðlafárs að losa hann úr þeirri prísund. Dubaifanginn Flosi var látinn laus fyrir sárbænir yfirvalda og ættingja. Því sjálfur Emírinn gat nú ekki verið minni maður en hugumstórir Bakkapúkar forðum.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál | Breytt 21.5.2019 kl. 02:51 | Facebook
Athugasemdir
Það er ljóst að menn vita aldrei hvenær reynsla fortíðar kemur sér vel
Ester Sveinbjarnardóttir, 21.6.2007 kl. 07:27
Mikið er nú alltaf gaman að lesa frásagnir þeirra sem kunna að segja frá. Takk fyrir þessa Jón Steinar. Ég man eftir stríðunum í den, átti sverð og skjöld, boga og örvar og ... og ... Makalaust a Flosi skyldi svo lenda í því að verða aftur fangi!
Ingibjörg G. Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 21.6.2007 kl. 11:11
Man eftir broti af þessari
, þú ert snillingur að koma hugsunum í orð gamli, farðu vel með þig.
Viðar Zophoníasson, 21.6.2007 kl. 16:41
Þetta minnir á gömlu dagana. Hitt er svo, að í dag er ég mjög ósáttur með hernaðar hyggju manna yfir leitt í heiminum í dag, Við leysum ekkert með stríði eins og raunin sýnir. Kveðja til þín Jón Steinar. P.s. Þú ert snilldarpenni.
Þorkell Sigurjónsson, 21.6.2007 kl. 18:16
Þú ert skáld prakkarinn þinn!
Sigurður Þór Guðjónsson, 21.6.2007 kl. 18:22
Frábær frásögn eins og við var að búast frá þér. Ég lenti sjálf í svona orrustum með heimatilbúnum sverðum þegar ég var krakki og bjó á Seyðisfirði. Man ekki eftir því að neinn meiddist að ráði. Kannski af því við stelpurnar höfðum meiri áhuga á að sippa og svoleiðis á meðan strákarnir voru í stríðsleikjum og við tókum sjaldan þátt í orrustunum
Margrét St Hafsteinsdóttir, 21.6.2007 kl. 19:07
Nammilestur, ég fór alveg á flug í endurminníngarheimunum sjálfur, þegar lífið var svona yndislega einfalt að tvær spýtur mislangar gerðu sverð ef að brúkaður var einn nagli & hentugur steinn, á meðan ég las. Upprisan var biðarinnar virði. Takk fyrir mig.
S.
Steingrímur Helgason, 21.6.2007 kl. 21:09
Þetta er skemmtilega skrifað. Maður sér þetta ljóslifandi fyrir sér. Það virðist vera órjúfanlegur hluti af mannkyninu að heyja stríð. Skil ekki afhverju við leifum valdagræðginni að ná okkur svona. Líklega er mannshugurinn svo flókinn og krefst svo mikilla ytri áhrifa þátta til jákvæðs uppeldis, að mörgum verður það um megn að innprennta frið og kærleika í börnin sín, þannig að þau vaxi upp úr svona látum.
Bryndís Böðvarsdóttir, 21.6.2007 kl. 22:02
Ljúfar og ljúfsárar endurminningar næra hugann. Myndirnar sem fylgja, gera þessar velskrifuðu sögur þínar enn betri. Takk.
Rögnvaldur Þór (IP-tala skráð) 21.6.2007 kl. 22:13
Make Pizza, Not War!
Merkilegt að í umfjölluninni um ofbeldisfulla tölvuleiki gleymist að börn hafa alltaf verið ofbeldisseggir. Spurning hvort er betra...að gefa vini sínum blóðnasir eða drepa fólk með hjólsög í tölvunni?
Róbert Björnsson, 22.6.2007 kl. 02:10
Tilhneygingin til að færa út úr sér hina innri baráttu, stríðið sem hver verður að heyja með sjálfum sér. Þar til við sigrum þá baráttu verða alltaf til stríð fyrir utan okkur og allt um kring.
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 22.6.2007 kl. 11:44
Þú ert snilldar stílisti og listapenni. Ég las líka minningar þínar um fæðinguna og það var frábær lestur. Takk fyrir mig.
Svava frá Strandbergi , 22.6.2007 kl. 20:38
Mikið er gott að vita að þú ert komin aftur, maður var farin að sakna snilldarfrásagnanna þinna minn kæri.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.6.2007 kl. 09:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.