Frægð Mín og Frami í Míkrókosmos.

leiklist.Það er fyrirhafnarlítið að verða stjarna í litlu sjávarplássi.  Maður þarf bara að ganga í leikfélagið og krækja sér í bitastætt hlutverk og þá getur maður gengið hnarreistur um götur undir aðdáunarbliki hins sauðsvarta almúga.  Þetta gerði ég á yngri árum.  Gekk um með kanslarahúfu, reykti pípu og safnaði skegglýjum, svo ég minnti einna helst á spíraða kartöflu í framan.  Intelektúal, sem gat leyft sér að drekka í miðri viku og ræða leikbókmenntir og túlkanir í varfærnum og upphöfnum tón.

Maður las aftan á kápur helstu bókmenntaverka og lét sem maður hefði lesið þau öll í trausti þess að andaktugir viðmælendur hefðu ekki gert það. Ég dró meira að segja seiminn eins og Nóbelsskáldið og flaug um óræðar lendur... öhm...hærri tilvistarplana

Í litla Leikklúbbnum tróð ég á svið sem Toggi frá Traðarkoti í leikritinu Leynimelur 13 og þurfti varla að skipta um föt áður en ég steig á svið. Fyllibyttan, skáldið og rómantíkerinn var algerlega í takt við sjálfan mig og það sem ég gekkst upp í að vera.  Þetta voru lærdómsríkir tímar, þar sem ekkert var manni óviðkomandi. Leikmynd og brellur voru á minni könnu og ég bætti jafnvel textann og endursamdi kafla í leikritunum í óþökk dauðra skálda.

to beMargar sýningar voru metnaðarfullar og yfirmáta listrænar. Við fórum á námskeið, hjá Kára Halldóri leiklistarkennara, sem var óumdeilanlegur snillingur.  Hann dró með sér strauma frá Finnlandi og Svíþjóð, spunann og krabbastellingarnar og æfingar sem fólust í því að ráfa stefnulaust um gólf með stunum og óhljóðum eins og andleg grænmeti.  Ég held að ég hafi nú bara haft gott af því.  Við lögðum land undir fót  með leikritið, sem var eftir Böðvar Guðmundsson og sýndum í Gamla Bíó á listahátíð og fórum svo á samnorræna kúltúrhátíð í Danmörku. Ég lék aumingja, sem varð leiksoppur og fórnarlamb misviturra og hrokafullra yfirvalda. Það var ekki erfitt. Undir niðri held ég að ég hafi talið mig falla undir það hlutskipti. 

leikfélagÉg skrifaði leikritið Hjálparsveitina, sem var paródía á þegnskyldugóðmennsku, gaf það út á bók og seldi hús úr húsi fyrir vestan, til að eiga fyrir bóheminu. Uppsetningin var barn síns tíma og ég get ekki rætt það frekar kinnroðalaust. Ég var meira að segja svo frægur, að ég var pantaður sem gestaleikari til Flateyrar og lék þar Mr. Clayton, morðingja og dusilmenni í leikritinu “Húsið á Klettinum”, sem varla telst til undirstöðubókmennta.  Ég lét líka í þá skoðun skína.  Ég var stjarna og bjó frítt og borðaði frítt í mötuneyti Einars Odds, slæptist um götur á daginn ofar öllum frystihússpöbul í þorpinu.

Einu sinni neitaði ég að leika fleiri sýningar ef ekki yrði skipt um byssuna, sem ég var skotinn með í restina.  Þetta var venjuleg hvelldettubyssa, sem virkaði ekki nema í fjórða hverju skoti. Það hvissaði og neistaði af henni og bleikur hvelldettuborðinn hringaðist upp í reykjarkófi án þess að nokkur hvellur kæmi.  Þetta var mér alls ekki samboðið, þar sem ég átti að vera á flótta.  Þess í stað þurfti ég að neyðast til að staldra við og bíða eftir almennilegu skoti, svo ég gæti fallið með pathos í duftið.

leikiðNý byssa var fengin án þess að láta mig vita og á þeirri sýningu dó ég eitt augnablik í alvöru. Pöntuð hafði verið startbyssa sem sendi frá sér blindandi, meters langan,  bláan loga og gaf frá sér ólýsanlega háan hvell.  Dauði minn var afar sannfærandi í þetta sinn. Það þurfti nánast að hnoða mig í gang fyrir uppklappið.  Ég varð svo til heyrnarlaus og sá tilveruna í syndandi, marglitum blettum á eftir. 

Tæknin var líka stundum að stríða okkur í þessari sýningu. Síminn átti að hringja á ákveðnu augnabliki en gerði það ekki, svo leikararnir stóðu þarna eins og prjónar, orðlausir í óendanlega rafmagnaðri kúnstpásu, fyrir gapandi áhorfendum.  Ég tók nokkrum sinnum af skarið og sagði: “Ég held svei mér að síminn hafi verið að hringja.”  Og þá hrökk sýningin í gang aftur.

Við brutumst með þetta listaverk um há-vetur til nágrannabyggðanna, með leikmyndina blauta á vörubílspalli og komum oft svo seint, vegna snjóþunga, að áhorfendur sátu í salnum og horfðu á okkur setja leikmyndina upp.  Allir voru þó sammála um að það hafi gefið sýningunni meira gildi og að það hafi verið fræðandi að sjá inn í leyndarheima leiklistartöfranna.  Svona einskonar "making of".   Á einum stað stóðum við í hné í vatni í kjallara samkomuhúss og sminkuðum okkur og klæddum.  Okkur varð svo kalt að við nötruðum á sviðinu. Það þótti sérstaklega áhrifaríkur performans.

núpurEftir þetta var ég ráðinn sem leiklistarkennari að héraðsskólanum á Núpi í Dýrafirði.  Þangað voru eftirhreytur pönkmenningarinnar sendar í skóla og voru þarna eins og skrattinn úr sauðaleggnum í nepjulegu vetrarlandslaginu, leðurklæddir með nælur og hanakamba.  Síðasti leiklistarkennari hafði verið brotinn niður andlega og send grátandi heim og ég því kallaður í skarðið.  Ég náði góðu sambandi við krakkana, leyfði þeim að reykja í óþökk skólastjórans og kenndi þeim listræna tjáningu. Leikritið var Grænjaxlar eftir Pétur Gunnarsson og fannst mér árangurinn frábær. Hæfileikar krakkanna voru stórkostlegir og sýningin áhrifarík í sinni einföldu umgjörð.

 Við brutumst með þessa sýningu til nágrannaþorpanna á Rússajeppanum hans Helga í Alviðru.  Veður voru válynd og oft tvísýnt um hvort við yrðum úti í glórulausum vetrarbyljum.  Krakkarnir voru hin bestu skinn en þó þurfti að veita þeim ofanígjöf annað slagið. Til dæmis, þegar þau rændu öllu sælgæti úr sjoppu eins félagsheimilisins fyrir sýningu, sem varð til þess að það átti að senda okkur heim aftur. Eftir stífar samningaviðræður og skil á nammi, gat þó sýningin fengið inni.

GnarrÞessi tími var ógleymanlegur og marga af nemendunum hef ég eignað mér og stært mig af, sem væru þau mín eigin sköpun.  Meðal aðalhlutverkanna voru til dæmis ekki ómerkara fólk en Birgitta Bergþórudóttir, skáldkona, Friðrik Weisshappel og Jón Gunnar nokkur, sem við þekkjum betur í dag, sem Jón Gnarr.  Ég er hreykinn að hafa leiðbeint þeim fyrstu skrefin á listabrautinni.  Ég les bækurnar hennar Birgittu, drakk mig til óbóta á Kaffibar Friðriks og vann svo með Jóni að fóstbræðraþáttunum.  Allar þær yndislegu manneskjur, sem ég hitti á þessari listabraut, búa í hjarta mér enn og væri ég fátækur maður án þeirra kynna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir þetta.

Þessi pistill var með þeim skemmtilegri sem ég hef lesið hér á Mogga blogginu.

Kalli

Kalli (IP-tala skráð) 29.7.2007 kl. 09:34

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hehe Jón Steinar hvort þetta rifjar ekki ýmislegt upp.  Ástin er plástur á sárið til dæmis.  Blek í minn göfuga penna. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.7.2007 kl. 09:55

3 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Ég sökk inn í lesturinn og fann fyrir smá sorg þegar ég sá að pistillinn var á enda. Það er unun að lesa þínar sögur… Bravó!

Gunnar Helgi Eysteinsson, 29.7.2007 kl. 10:13

4 Smámynd: Orri Harðarson

Dásamlegt, minn kæri. Þú þarft nú að fíra þessu stöffi þínu á útgefanda sem allra fyrst!

Orri Harðarson, 29.7.2007 kl. 10:37

5 Smámynd: Jens Guð

  Aldeilis bráðskemmtileg frásögn.  Ég hló dátt að spaugilegum aðstæðum er þú þurftir að hinkra eftir að drepast þegar hvellhettubyssan virkaði ekki. 

Jens Guð, 29.7.2007 kl. 13:38

6 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Takk kæru vinir.  Já Ásthildur það væri nú efni í heila bók að segja frá brallinu okkar í Litla Leikklúbbnum.  Sá tími hverfur mér aldrei úr minni og þaðan af síður þú Ía mín. Fórnfýsin og ástríðan var óendanleg, þrátt fyrir blankheit og galeiðuvinnu á hinum venjulega vinnumarkaði.  Kæðið í Leynimel 13 hét Ást og landafræði og fannst okkur það ekki nógu poppað fyrir nútímasýningu, svo ég var fenginn til að búa til kveðskap Togga (sem hefur verið mitt alter egó æ síðan).  Það kvæði hét "Ástin er Plástur." og tókst mér að rifja það upp.

Ástin er plástur á sárið.

Blek í minn göfurga penna.

Stjarna á enni andans, sem grænsápa fær ekki þvegið.

Ástin var sála skáldsins, sem drukknaði í tjörninni um daginn.

En þótt skáldið sé komið í jörðu, er sálin á vappi við Iðnó.

Svo eilíf, svo glöð.

Því að ástin er harðari en steinninn

og allt sem að tími fær grandað.

En samt er hún sæt eins og Vodka og Kók.

Sljóvgandi eins og Sherry

Hýrgandi eins og Brennivínsstaup,

víðsjárverð sem gambrinn.

En lát huggast örvænti maður, því ekki er úti þín æfi.

Farðu á barinn...

og fáðu þér ást við þitt hæfi.

Jón Steinar Ragnarsson, 29.7.2007 kl. 18:17

7 Smámynd: Gunnar Páll Gunnarsson

Takk fyrir góða sögu. Takk!

Gunnar Páll Gunnarsson, 29.7.2007 kl. 21:22

8 Smámynd: Steingrímur Helgason

Pottþéttur prósi piltur.  Skaði er samt að það er varla hægt að kalla þetta skáldskap á meðan engum heilvita hálvita eins & mér, dettur í hug að þú sért að skálda þetta.

En ef að ferillinn hófst með því að leika, eða ekki, sjálfann sig, miðbikið snerist um að kenna öðrum hið sama, eða ekki, hvernig ætlar þú nú að toppa sjálfann þig í framtíðinni ?

Kannski ertu bara þegar byrjaður á því, væri mér ekki undr.

S.

Steingrímur Helgason, 29.7.2007 kl. 22:09

9 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Takk - þetta var frábær lesning! Rifjaði ýmislegt upp fyrir gömlum Núpverja og fyrrum LL-félaga.

Þú ert góður penni Jón Steinar, það verður ekki af þér skafið.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 29.7.2007 kl. 22:09

10 Smámynd: Ása Hildur Guðjónsdóttir

Það er sem ég segi. Áhugaleikhúsin eru frábær uppspretta sköpunar.

Lifi áhugaleikhúsin og leikfélögin um land allt

Ása Hildur Guðjónsdóttir, 29.7.2007 kl. 23:18

11 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Þú hættir bara ekki að koma manni á óvart. Játningar þínar um þann hátt margra ungra manna og kvenna að upphefja sig á svolítið ódýran hátt og semja sig í ættir sem maður kann lítil skil á - og hefur kannski litla burði til að sameinast - rifjaði einmitt ýmislegt upp í þeim dúr í mínu lífi!  Margt hefur maður brallað til að lappa uppá sjálfsmyndina þegar þroskinn var heftari (maður var með léttan plástur til þroskans eins og Valli Víkingur sagði) -Yndislegt þegar maður getur horft á þetta utanfrá - so to speak. Eina ferðina enn, takk Jón Steinar.

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 29.7.2007 kl. 23:49

12 Smámynd: Garún

Þú ert snillingur! Ég er enn að bíða eftir leyfi til að leikstýra "Gúrkutíð" og hvað það er vel viðeigandi þessa dagana.

Garún, 30.7.2007 kl. 04:03

13 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Já Gúrkutíð virðist hafa verið spádómur Garún mín.  Þú mátt eiga það handrit no string atatched.  Annars hafa ónefndir kvikmyndaleikstjórar nýtt sér þessa hugmynd og gert úr mynd, sem minnir ótrúlega á hana enda voru þeir með handritið til "yfirvegunar" um langt árabil. Þetta er bara eitt af mörgum, sem endað hafa í skúffunni eins og þú veist. Gaman að sjá þig á blogginu. Ég hló mig máttlausann af sögunum þínum, enda er bara ein Garún.

Jón Steinar Ragnarsson, 30.7.2007 kl. 06:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband