Hjálparsveit Leitar Útilegumanna.
4.8.2007 | 09:00
Vestfirðir voru til forna athvarf væringja og glæpalýðs á flótta undan refsandi yfirvaldi. Þessi útkjálki var svo alræmdur að allar almannaleiðir sneyddu þar hjá. Nokkuð sem tekið hefur verið upp aftur í seinni tíð. Jafnvel huguðustu eftirleitarmenn landshöfðingja, létu staðar numið við Hrútafjörð og hættu sér ekki norður eftir. Þetta var fríríki hinna landlausu, löglausu og óhreinu.
Þórður Kakali sótti þangað styrk sinn þegar allt var á undanhaldi hjá honum. Hann vingaðist við rumpulýðinn og dró saman flota úr hverri skeið og horni á Ströndum, sem flotið gat. Þessa koppa og kirnur fylltu þeir síðan af grjóti og mættu glæsiflota Kolbeins unga á Húnaflóa og börðust þar með grjótkasti, svo sem frægt varð í Flóabardaga. Þórður þurfti að vísu að hopa, en bardaginn varð honum í vil þegar fram í sótti. Kolbeinn þóttist svo gæfusamur að sleppa að hann undirgekkst smæð sína og auðmýkt og munstraði sig í klaustur að Þingeyrum. Hann dó ári síðar og lét Þórði eftir lén sitt. Rustarnir að vestan höfðu sigrað og síðan hafa fáir vogað sér það glapræði að setja sig upp í mót þeim. Mörgum öldum síðar, féllu þeir þó á eigin bragði og fóru að stela hver frá öðrum. Skálmöldin gekk í endurnýjun lífdaga.
Í æðum mínum rennur þetta vandalablóð. Ég hef þó náð að hemja það og sýnast siðprúður heimsborgari, en á æskudögum braust þetta fram í sinni hreinustu mynd. Ég og Einar vinur minn vorum skaðræðisgripir eins og kallað var. Við brutumst inn í hjalla og stálum harðfiski, læddumst inn í garða og rændum radísum og rófum. Við rupluðum jafnvel í búðum og vorum einatt hirtir fyrir slíkt og flengdir. Við mættum mæðusvip og ráðleysi hinna fullorðnu. Hvað er hægt að gera við svona óbermi? Réttast væri að senda þá á vandræðaheimili. Þar myndu þeir fá að kenna til tevatnsins og læra hvar Davíð keypti ölið og Jói fékk sér kaffi og Sigga nýja nælonsokka...og hvað maður átti nú ekki að láta sér að kenningu verða. Þetta var þó ekki það versta við okkur. Ó,nei. Við vorum nefnilega rúðubrjótar og það var verra en mannsmorð.
Rúdolf Giuliani borgarstjóri í New York varð frægur fyrir að taka á þessum alvarlega glæp. Ameríkanar uppgötvuðu nefnilega fylgni í rúðubrotum, sem þeir kölluðu The broken window syndrome. Þetta heilkenni lýsti sér í því að þar sem brotin rúða var skilin eftir óáreitt, þar bættust við brotnar rúður með faraldsfræðilegum hraða. Í kjölfar þessa fylgdi svo afleidd hnignun viðkomandi hverfa með rýrnandi sjálfsvirðingu íbúanna, ergelsi og frekari glæpa og skemmdarfýsn. Ráð Giulianis var að vera með her trésmiða í vinnu við að skipta um rúður um leið og þær brotnuðu, svo aldrei sást högg á vatni eftir áhlaup varganna. Þetta varð til þess að illþýðið lagði niður iðju sína og velsæld jókst í hverfunum. Þessu beitti Rúdolf líka á veggjakrotara í neðanjarðarlestum og eyddi þeirri óáran á ótrúlega skömmum tíma.
Ég og Einar urðum einu sinni fórnarlömb þessa heilkennis með þungum afleiðingum. Við vorum inni í Tunguskógi, sem er inni í Seljalandsdal í botni Skutulsfjarðar. (fyrir þá sem ekki vita, þá stendur Ísafjarðarkaupstaður á Eyri við Skutulsfjörð, en hinn eiginlegi Ísafjörður er innsti fjörður í Ísafjarðardjúpi).
Við hjóluðum oft inn í skóg á góðviðrisdögum til að liggja í grasinu og naga strá, tína ber eða busla í ánni. Stundum fengum við smávægilega útrás fyrir strípahneigð, en það hefur enginn vitað fyrr en nú. Þennan dag var heldur ekkert alvarlegra á dagskrá. Á þessum aldri eru strákar eins fífilfræ sem blásið er af biðukollu og fást við það sem vindurinn leiðir þá í hverju sinni.
Brotin rúða á almenningsklósettinu náði augum okkar. Við vorum að pissa utan í vegginn, enda var það ekki samboðið svona prinsum að pissa í skál, þótt hún væri handan við þetta þil. Púkablik í auga, engin orð. Við byrjuðum á að henda steinum í brotin, sem eftir voru. Klirr! Hávaðinn vakti með manni furðulega sælukennd, æsandi tilfinningu í brjósti og hraðari hjartslátt. Meira! Áður en við vissum af þá flaug steinvala í eina af heilu rúðunum og svo brotnaði önnur...og önnur og...
Þetta var ótrúlega örvandi tilfinning. Mér hitnaði í framan og það suðaði fyrir eyrunum. Allt varð einhvernvegin óraunverulegt eins og í draumi. Við hlupum í felur við hverja rúðu og náðum vart andanum; skimuðum yfir svæðið, en enginn var á ferli. Við vorum einir. Áður en langt um leið, voru allar rúðurnar brotnar. Þá hlupum við inn á sumarbústaðalandið til að dyljast í kjarrinu. Bíll kom aðvífandi og við frusum af hræðslu. Hann keyrði svo sömu leið til baka. Úff, þvílík heppni.
Ég var með málmbragð í munni og hver taug var þanin. Við mæltum varla orð og augun stóðu á stilkum. Steinn flaug úr hendi Einars og beint í rúðu á vinarlegum sumarbústað. Ég gerði slíkt hið sama. Svo vatt þetta upp á sig stein af steini.
Við stútuðum rúðum í draumstolnu æði, klifruðum inn í bústaðina og grömsuðum eftir verðmætum; skárum okkur á höndunum, svo blóðið lagaði um allt. Lítið hafðist upp úr þessu annað en exi og áttaviti, en nánast allar rúður voru brotnar í mörgum bústöðum. Við höfðum misst vitið og þegar það rann upp fyrir okkur ljós, urðum við hræddir. Okkur tókst að læðast heim undir kvöld, þvo af okkur blóðið og stinga blóðugum og rifnum fötum í þvott. Mig sveið í hendurnar og greip kvíðans tók um kverkar mér. Hvað vorum við búnir að gera?
Daginn eftir var fréttin um hin hræðilegu afbrot á allra vörum. Við vorum strax grunaðir enda var það sjálfgefið með svona skaðræði eins og okkur. Ef fjöllin hyrfu einn góðan veðurdag, hefði strax verið bent á okkur.
Við vorum flóttalegir eins og særðir úlfar og reyndum að láta lítið á okkur bera. það var eins og að það drægi athyglina enn meira að okkur. Einar trúði öðrum vini fyrir leyndarmálinu og hann kjaftaði. Við vorum króaðir af í skólanum og biðum skólastjórans. Pabbar okkar voru á leiðinni og löggan. Við vorum sannarlega búnir að vera. Augu okkar Einars mættust og við sendum hugsanir okkar á milli á ljóshraða. Við verðum að gera eitthvað! Flýjum!
Við notuðum fyrsta tækifæri, sem bauðst og létum okkur hverfa. Hlupum eins og fætur toguðu og dembdum okkur beint niður í fjöru þar sem við gengum hálf bognir inn í fjörð. Tveir sakamenn á flótta undan réttvísinni. Við komumst inn í fjarðarbotn og tókum stefnu upp á Breiðadalsheiði. Það var kalt og snjórinn varð þyngri eftir því sem ofar dró. Við sammæltumst um að við myndum aldrei láta ná okkur lifandi.
Efst á heiðinni var sæluhús. Við fórum þar inn og bræddum snjó á prímus; löguðum okkur te og mauluðum rakar kexkökur. Tilfinningin var notaleg. Hlýjan í skúrnum veitti okkur öryggiskennd þar sem við sátum rjóðir í framan og heitir á skrokkinn
Við ræddum framtíð okkar í útlegðinni. Ætluðum að byggja okkur skýli í fjöllunum og búa okkur til súpur úr grösum. Brauð úr mosa eða eitthvað. Kjöt myndum við fá með því að drepa lamb með vasahnífnum hans Einars. Við kunnum til verka, enda höfðum við hangið við sláturhúsið í mörg haust. Ef okkur langaði í súkkulaði eða Freyjukaramellur, þá myndum við læðast til byggða í skjóli nætur og brjótast inn. Svo kæmu Jólin og hvað þá...
Víst yrðu systkini manns og foreldrar döpur. En þeim var nær. Ég fann kökkinn byggjast upp í hálsinum og mér volgnaði um augun. Ef þau hefðu bara haft vit á að fyrirgefa okkur þá hefði allt orðið gott. Kvöldmyrkrið seig á og við sátum hljóðir um langa hríð. Gaseldurinn suðaði og vindurinn hvíslaði í rjáfrinu. Sorglegar hugsanir og eftirsjá fylltu huga minn. Við höfðum bölvað þeim, sem við elskuðum þvert ofan í samviskuna og hún nagaði innan kviðarholið að launum. Loks var ekkert varið í að sitja svona lengur svo við ákváðum að fara ofan í bæ og kíkja hvort fólk væri búið að jafna sig. Bara svona njósnaferð. Ef ekki, þá myndum við gera alvöru úr áætlun okkar og gerast útilegumenn.
Við læddumst í myrkrinu yfir snjóskafla grjót og klungur. Þegar við nálguðumst bæinn, heyrðum við nöfnin okkar kölluð góðlega í kvöldkyrrðinni. Ljósagangur var uppi í fjallshlíðinni og niðri í fjöru. Það var verið að leita að okkur með vasaljósum og enginn virtist reiður? Eiiiinaaar! Noooonniii! Þetta voru áhyggjuhljóð. Elskuleg hljóð.
Ekki man ég alveg hvernig það bar til, en við hittum Bergþóru systur Einars niðri í fjöru. Hún var með brauð í bréfpoka, kókómalt í flösku og var hálf kjökrandi: Komiði heim strákar. Það er enginn reiður lengur. Það eru allir hræddir um að þið séuð dánir. Hjálparsveitin er að leita um allt. Komiði heim strákar. Mamma þín er að gráta Nonni.
Þetta bugaði okkur. Við sendum hana til baka með þau skilaboð að við myndum gefa okkur fram ef allir lofuðu að ekkert vesen myndi verða. Annars myndu þau aldrei sjá okkur aftur. Það stóð. Einar gaf sig fram fyrstur. Uppi á hjalla ofan við fjöruna var hópur fólks með ljós og foreldrar Einars, sem lofuðu því að ekkert yrði gert. Við kvöddumst með leynihandtakinu okkar og Einar brölti upp kambinn. Ég þræddi fjöruna heim og bankaði eftir nokkuð hik. Móðir mín faðmaði mig að sér og kallaði mig elsku drenginn sinn og svo var ekki minnst orði á þetta meir.
Þetta varð þó meiriháttar mál og það endaði með að við vorum dregnir fyrir rétt, þar sem við reyndum að ljúga okkur út úr sumu af þessu, en það dugði ekki til. Pabbi stóð með mér fastur eins og klettur og áréttaði fyrir mér að segja bara satt, þá yrði þetta búið fyrr. Hann þurfti svo að borga rúðurnar til helminga á móti pabba Einars. Það var svo aldrei minnst einu orði á þetta mál meir. Ég og Einar brutum heldur aldrei rúðu eftir þetta, þótt ýmsan skandal gerðum við annan. Við vorum jú strákar og strákar eru alltaf strákar, segja víst menn.
Þetta rifjaðist upp fyrir mér fyrir nokkrum árum þegar svipað atvik átti sér stað við Rauðavatn. Þá var fjölmiðlunin orðin nánast fullþroska fyrirbæri og reyndi fyrir sér mátt sinn í samfélaginu. Mikið fár myndaðist yfir því hvað hægt væri að gera við einhverja vandræðapésa, sem brotið höfðu rúður og eyðilagt dauða hluti í sumarbústöðum fyrir tugi þúsunda. Það stóð ekki á lausninni. Hún var í formi steinsteypu eins og endra nær. Málið var blásið svo út yfir allan þjófabálk að landsöfnun var hrint af stað á vegum Stöðvar tvö. Safnað var fyrir vandræðaheimili, sem koma myndi þessari óáran úr umferð í eitt skipti fyrir öll. Samfélagið krafðist þess að eitthvað yrði gert.
Tugir milljóna söfnuðust og byrjað var að byggja heimili, sem síðar reyndist mikið og dýrt vandræðabákn, sem enginn vildi kannast við þegar á hólminn kom. Smíðin tókst þó í áföngum og hið opinbera hljóp undir bagga. Tilgangurinn var þá löngu gleymdur. Að vísu er búið að finna þessu húsi not í dag, en ekki til að hýsa rúðubrjóta heldur unga vímuefnaneytendur. Hvað varð um rúðubrjótana við Rauðavatn veit enginn. Kannski byggðu þeir sér skýli á fjöllum og drepa lömb með vasahnífum sér til viðurværis.
Flokkur: Menning og listir | Breytt 5.8.2007 kl. 03:29 | Facebook
Athugasemdir
Saga Ísafjarðar, undirheimarnir, ætli Jón Páll verði fáanlegur til að hafa þetta í næstu útgáfu af sögu Ísafjarðar, verður kannski bara sér bók. Nokkuð viss um að fleiri geti bætt vel við.
Guðm. Fylkis (IP-tala skráð) 4.8.2007 kl. 16:24
Gunnar Helgi Eysteinsson, 4.8.2007 kl. 17:32
Tumi og Stikilsberja-Finnur!
Árni Gunnarsson, 4.8.2007 kl. 19:48
Hrífandi saga full af lærdóm og fyrirgefningu :)
Hólmgeir Karlsson, 4.8.2007 kl. 21:59
Ef ég ætti mynd af klappandi höndum og fljúgandi rósum myndi ég setja það hér inn þér til heiðurs.
Ólöf Anna , 5.8.2007 kl. 00:34
Góð saga. Við eigum að segja svona sögur, öll búum við yfir einhverjum reynslum sem auðga mannlífið við að segja frá þeim.
Ólafur Þórðarson, 5.8.2007 kl. 16:56
Þetta er góð leið til syndaaflausnar, Jón Steinar! Þú notar rithæfileikana til þess að létta af þér byrðinni og það er vel. Prakkarastrikin fara að vísu stækkandi með aldrinum! Mér óar við því að sjá sögur af ungmenninu...
Aflausnin er eins konar prakkara- strik. Strikað yfir prakkarann, þá birtist sannur Jón Steinar.
Ívar Pálsson, 5.8.2007 kl. 23:15
Takk fyrir bloggvinir. Jóna: Jú ég hef verið að endurbirta eða endurraða og endurskoða gamlar bíógrafískar færslur. Það er sennilega rétt að ég hef ekki verið frábrugðinn öðrum kraftmiklum strákum en enga greiningu fékk ég eins og líklegast hefði verið gert í dag. Mig undrar oft þessar sjúkdómsgreiningar og lyfjagjafir viðá fjörbrotum venjulegs uppvaxtar. Kærleikur og hæfilegar ofanígjafir dugðu mér. Langar að sjá lýsingu á því normi, sem nútímasamfélagið setur á "eðlileg" börn. Dettur helst í hug postulínsbrúður í matrósafötum.
Ívar: Það er rétt að þetta eru á einhvern máta skriftir í tvennum skilningi og það léttir lundina að opna á þessi atvik og líta á þau sem eðlilegann hlut. Ekki ósvipað og gerist í AA. Maður heldur sig vera einan um bresti sína og gengur um með þá sannfæringu að maður sé meingölluð persóna en svo heyir maður í hinum og maður er allt í einu frekar normal miðað við margann harminn. Þessi strik fundu sér meira uppbyggjandi farveg á unglingsárum og beindust að myndlist og annari sköpun. Prakkarastrik eru ekkert annað en misleidd sköpunargáfa.
Jón Steinar Ragnarsson, 6.8.2007 kl. 07:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.