Það er Frost í Helvíti.
3.11.2008 | 01:25
Ég hef sennilega þótt afar undarlegur unglingur. Ég notaði hluta fermingarpeninganna minna til að kaupa Lingaphone-námskeið í Rússnensku og lá svo yfir því löngum stundum; æfði mig í að spyrja hvar salernið væri og hvar sporvagninn stoppaði. Maður varð að láta sem maður væri frostbitinn og dofinn í vöngum, láta orðin myndast í hóstakirtlunum eða efst í brjóstinu, til að framburðurinn yrði sannfærandi. Jablaka: Epli; Kníga: Bók; Morosnóe: Rjómaís.
Letrið virtist eins og rúnir við fyrstu sýn, en svo sá maður að í flestum tilfellum var aðeins búið að víxla táknum, þá var lítið mál að lesa. P var R, X var H og C var S. Esshljóðin voru þarna fyrirferðamest og áttu þau flest tákn fyrir misjöfn blæbrigði þessa hljóðs. R í spegilskrift var Ja og N í spegilskrift var Í og H var N. Svo var Grískum bókstöfum hrært þarna saman við eins og Lamda, Gamma og Pí. Þetta var einskonar dulmál á að líta. Ég hafði oft gert dulmál fyrir leynifélögin okkar strákanna. Svarta Höndin átti sitt og Silfurkúpan annað, svo þetta var ekki algerlega framandi fyrir mér..
Þetta var skemmtileg stúdía, en ég hef ekki hugmynd um hvers vegna þetta fangaði áhuga minn. Líklegast var þó að Nágranni minn Helgi, hafi haft áhrif þar á. Hann var mikill kommi og prófessor í fornslavneskum sögnum, giftur Rússneskri konu, Dínu og kenndi við menntaskólann. Ég hafði fengið ævintýraplötuna Brémenskí Músikantí lánaða hjá honum og reyndi að ráða í hvað sagt var í söngvunum. Gítarogí, Ibbítúk-voru greinilega gítar og hani. Helgi og pabbi rifust stundum um kommúnismann yfir glasi og var oft fjör í því karpi, hnefar í borðum og hoppandi glös, þó sérstaklega ef Jón Baldvin var með. Hann bjó jú í sama húsi og Helgi auk Guðjóns Friðrikssonar Reykjavíkursagnfræðings. Gáfur þessara manna heilluðu mig. Heimsborgarabragurinn og leðurbættu flauelsjakkarnir, pípurnar og eiginleikar þeirra til að glíma við lífið í stærra samhengi en laut að veðri og fiskveiðum, fyllti mig löngun til að kanna andans víðfeðmu lendur.
Ekki hafði ég nokkurn grun um að þessi lærdómur myndi nýtast mér, hvað þá aðeins ári síðar. Þetta var eins og einhverskonar forvitrun. Bárður frændi minn og Einar æskufélagi minn, sem voru árinu eldri, fóru í siglingu með Hofsjökli og sögðu mikil ævintýri af sér þegar heim kom. Ég vildi reyna þetta líka og munstraði mig á Lagarfoss gamla, sem var miðbyggður kláfur með stórum strompi eins og skipin í Tinnabókunum. Hann var orðinn gamall og úreltur; hnoðaður saman en ekki rafsoðinn. Skip af sömu kynslóð og gamli Gullfoss.
Það vakti undarlegan fiðring í maganum að sjá Ísland sökkva í kjölsogið. Eftirvænting, söknuður, óvissa. Ég hafði aldrei út fyrir landsteinana komið. Ekki lengra en að stikla út á steina í flæðarmálinu heima. Fjölskyldan hafði jú farið til Mallorca, en ég kaus að vera heima og fann enga freistingu í því að upplifa það sama og allir aðrir höfðu upplifað. Grísaveisla, sangría, matareitrun og hellaferðir. Ó, nei, ekki hugsuðurinn ég. Ég fyrirleit alla slíka hjarðhegðun og kúldraðist í forinni heima, hlúði að fyrstu spírum alkóhólismans og samdi ljóð um tilgangsleysi allra hluta.
Ég var smyrjari í vél ásamt Dodda nokkrum. Við urðum bestu kunningjar og skottuðumst með koppafeiti um vélarúmið og smurðum á koppa eða bensínþrifum vélarhluti. Það var mikilfenglegt þarna niðri. Risastórir strokkar og sveifar sem bulluðu og sprautuðu olíu um allt. Ég trúði varla stærðinni á þessu. Við skautuðum fram og aftur um stálgólfin eins og skautahlauparar þegar veltingurinn var sem mestur og vorum alsælir með starfið. Lagarfoss var stéttskipt skip með afbrigðum. Við Doddi vorum með sér messagutta, sem þjónaði okkur tveim til borðs. Svo var vélamessi fyrir vélstjóra, yfirmannamessi, hásetamessi, restrasjón og sér “Pláss” fyrir skipstjóra og fyrsta vélstjóra. Það var ríkmannlegur salur, sem hefði getað rúmað alla áhöfnina. Þar höfðu þeir þjónustustúlku og svo höfðu þeir þernu að auki, til að þrífa undan sér. Lagginn var líka farþegaskip því þar voru nokkrir farþegaklefar, en aldrei man ég þó eftir farþega um borð. Það var víst liðin tíð að spjátrungar, menntamenn og skáld sigldu með fragtskipum á milli landa.
Þeir sem lægst voru settir, sváfu aftur í “hundakofa”, sem var smályfting aftast á skipinu, með eins manns klefum, sem fullir voru af kakkalökkum, svo það snarkaði undan fótum manns ef maður gleymdi að kveikja ljósið áður en farið var úr koju.
Fyrsti áfangastaðurinn var Múrmansk. Nyrsta nárassgat, sem siglt var til. Það var hálfgert sjokk að koma þangað. Maður sá reykjarmökkinn yfir borginni löngu áður en hún kom í ljós. Meðfram innsiglingunni voru sokkin skip og afvelta kafbátar frá heimstyrjöldinni eins og þarna hafi orðið stórorrusta. Þetta var eins og að sigla inn í fordyri helvítis. Gamlir kafbátar voru enn að dugga um höfnina og allar manneskjur voru dúðaðar í sömu langsaumuðu gráu vattflíkurnar, hnípnar og gleðisnauðar að sjá. Ég minnist þess ekki að hafa séð nokkurn mann brosa í þessari borg. Þarna var enga sögu að sjá, aðeins grængráar blokkir meðfram breiðstrætum, sem skáru borgina í einangruð hverfi, ekki ólíkt austurborg Reykjavíkur. Enga aðra borg hef ég séð minna meira á Múrmansk, hvað skipulag varðar.
Það voru þó fáir bílar þarna. Aðalega risastórir trukkar með seglyfirbreiðslum og dapurlegir strætisvagnar með gormhlykk í miðju. Einn og einn Rússajeppi skottaðist hjá eða Moskowitch með dularfullum mönnum í leðurhöttum. Yfirleitt voru þeir fullsetnir eins og að glæpafjölskylda í gamanmynd væri í sunnudagsbíltúr. Í allri þessari stóru borg sást nánast enginn fótgangandi. Flestir voru hermenn með kaskeiti, sem voru fáránlega stór og ýkjuleg eins og í farsa eftir Daríó Fó. Frostið smeygði sínum köldu krumlum inn að beini og vonleysið fyllti lungu manns í hverjum andardrætti. Þetta var hið sannkallaða helvíti. Og það var frost í helvíti, það get ég borið.
Vænisýki kaldastríðsins var alsráðandi þarna og fólk fór undan í flæmingi ef maður yrti á það á ensku. Þetta var höfuðborg óttans og niðurlægingarinnar. Við skipuðum upp freðnum fiskblokkum . Ef kassi datt í sundur, þá hvarf hann á augabragði inn á kvið verkamannanna. Við máttum ekki fara með myndavélar í land og hermenn tóku passann af okkur í skiptum fyrir sérstakan landgöngupassa. Ekkert var hægt að fara nema á sjómannaheimilið og þar gátum við drukkið vestrænar veigar án þess að vera spurðir um aldur. Þarna ægði saman rumpulýð af öllum þjóðernum. “Jú from Æland? Me from Æland too, Christmas Æland. Captain Cook. Yes?”
Þarna var ég tekinn afsíðis af alvörugefnum manni, sem vildi fræða mig um Lenín og hina stórkostlegu byltingu. Hann gaf mér fullt af bókum um hamingjulandið, en eitthvað tómahljóð var í sannfæringu hans. Orð hans voru líka í hrópandi mótsögn við það sem fyrir augu bar. Ég skildi ekki kommúnisma frekar en Krúsjoff, en í ævisögu sonar hans er sagt að Krússjoff hafi aldrei getað útskýrt þessa hugmyndafræði fyrir syni sínum og farið undan á flæmingi er hann var spurður. Allt var vont í Rússlandi nema heitt brauðið, sem við fengum um borð. Af því var sterkt gerbragð en það var gott svona heitt og ferskt. Súkkulaðið var eins og kakó steypt í tólg, límonaðið smakkaðist eins og safi af niðursoðnum perum og sígaretturnar höfðu sæta angan sem minnti á blöndu af súrheyi, brunnu gúmmíi og táfýlu. Allt Rússland bar þennan sætsúra, velgjukennda fnyk.
Utan við sjómannaheimilið voru “Bísarnir”. Það voru svartamarkaðsbraskarar, sem vildu kaupa Ameríkanskí sígarettskí, Tjúíng gömm og munað eins og gamlar gallabuxur, skó, varaliti. Sumir voru svo djarfir að spyrja um vestræna tónlist með mikilli leynd. “Jú xeve Júría Xeep? Easy living, yes?” Þetta voru miklir töffarar á sína landsvísu en Guð minn góður hvað okkur fannst þeir sorglega hallærislegir í allt of stuttum gallabuxum, slitnum bítlaskóm og leðurjökkum, sem stóðu þeim á beini. Lögreglan sveimaði þarna í kring á gulum og bláum Rússajeppum en lét þessa verslun að mestu óáreitta. Óttinn leyndi sér þó ekki hjá bísunum og stundum hurfu þeir sí svona eins og jörðin hafi gleypt þá. Lögreglan reyndi stundum að leggja fyrir okkur snörur. Eitt sinn stoppuðu þeir okkur og spurðu: “Pornógrafía?” Við könnuðumst ekkert við slíkt. Þá drógu þeir upp snjáða mynd af konu í sundbol með höndina eggjandi aftur fyrir hnakka. Þetta var ekki ólíkt ilmspjöldunum, sem svo lengi voru hvimleið í leigubílum hér. Við gátum ekki annað en brosað. “No pornografía, sorry.” Þetta spjald var sennilega opinber tálbeita, sem þeim var úthlutað frá flokkstjórninni til að stemma stigu við vestrænni úrkynjun í þessari háborg menningarinnar í norðri.
Ég var feginn þegar Múrmansk hvarf aftur í mengunarmistrið og íshafið blasti við stafni. Mér var ljóst í mínum unga huga að hér hafði verið framinn stórfenglegur glæpur. Byltingin, sem raupsamir sparikommar uppi á Íslandi rómuðu í söngvum sínum, gaf engin fyrirheit um slíkar hörmungar. “Sjá roðann í austri!” Sungu þeir í blindri fáfræði. Það var augljóst á öllu að þeir höfðu annað hvort ekki komið til Sovétríkjanna, eða þá að þeir höfðu verið teknir í sightseeing að hætti flokkselítunnar og setið veislur Nómenkladíunnar, sem var viðurkennd forréttindastétt.
Það að taka eignarétt af fólki varð til þess að drepa lífsvilja þess og áhuga til vaxtar. Marx og Engels höfðu gert regin feil í hugmyndafræði sinni þar. Það er með öllu óskiljanlegt hvernig þessi menntuðu gáfumenni gátu ímyndað sér að hægt væri að afnema einstaklingseðlið, persónufrelsið og steypa fólk í eitt allsherjarmót vélrænna þegna, með hugmyndafræðilegu pennastriki. Það sást í dauðum augnaráðum fólksins í Múrmansk. Þessir Gyðinglegu dekurdrengir frá þýskalandi, sem sáu fyrir sér nýja herleiðingu heimsins til hins fyrirheitna lands samneyslunnar, höfðu vogað sér í menntahroka sínum og sjálfhverfu að það væri vert að láta á slíkar hugmyndir reyna án tillits til fórnarkostnaðar samborgara sinna. Þeir eiga alla mína fyrirlitningu skilið.
Að vísu var kommúnisminn skrumskældur í Sovétríkjunum eins og allstaðar annarstaðar. Það þýðir ekki, eins og margir segja, að þetta sé góð hugsjón í raun, væri henni fylgt í hörgul. Það er aumkunarverð fáfræði. Skrumskælingin átti sér stað vegna þess að það var ekki hægt að fylgja henni í hörgul. Hugsjónin fól í sér grundvallar yfirsjón, sem er hið óútreiknanlega mannlega eðli. Fyrir það létu 50 milljónir manna lífið í Sovétríkjunum einum og eru enn að deyja í dag.
Framhald þessarar sögu birti ég svo síðar.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Dægurmál | Breytt 22.2.2019 kl. 22:10 | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir pistilinn Jón Steinar, massagóður að vanda.
mbk,
Kristinn Theódórsson, 3.11.2008 kl. 09:16
Takk fyrir pistilinn. Gott að fá smá innsýn í kommúnismann. Helda að flestir og líka VG séu meira inn á línu hins norræna velferðarsamfélgs. Enda gæti Íslendingurinn aldrei sætt sig við að vera eignalaus (nema sem afleiðing af gjaldþroti)
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 3.11.2008 kl. 09:38
Takk fyrir frábæra reynslusögu, hlakka til seinni hluta.
Varðandi stjórnmálin - þá er það mín skoðun að þau séu til að stjórna... okkur, sama hvort það er kommúnismi, nasismi, nýþetta og hitt, eða framsókn, allt hefur það sama markmið, safna valdi, miðstýringu. Þó það líti út fyrir að valdi sé dreift með "einkavæðingu" - þegar auðhringirnir allir tengjast innbyrðis, þá er endirinn eins - vald hinna fáu yfir mörgum.
Gullvagninn (IP-tala skráð) 3.11.2008 kl. 10:38
Þú ert frábær Jón Steinar, var að vísu búin að lesa þetta áður, en það er gott að rifja það upp. Maður finnur nýja fleti, og mikið er ég sammála hverju orði þarna. Takk fyrir mig.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 3.11.2008 kl. 11:54
Takk fyrir frábæra frásögn hlakka til seinni hlutans. Kommúnismi
Nei ætli það sé nokkuð fyrir okkur núna
jafnvel þó að það frjósi af og til í okkar helvíti.
Magnús Sigurðsson, 3.11.2008 kl. 20:56
Takk, Jón Steinar. Eftir nokkur ár af Ríkisbankanum, Jöfnunarsjóði tekjutrygginga, Atvinnutryggingarmiðlun Ríkisins og álíka hugsanlegum framtíðarbatteríum sem fólk kýs yfir sig í sjokki verðbréfafallsins, þá er velgjufnykurinn og gráminn kannski ekki svo langt undan. Pendúll sveiflast nefninlega jafn langt til hægri og vinstri, en ef hann er kyrr á miðjunni, þá gengur klukkan ekki.
Ívar Pálsson, 3.11.2008 kl. 21:50
Takk fyrir kæru vinir. Hörður: Mér finnst það orðinn góður vitnisburður um að ég sé að pára einhverja glóru, þegar þú sýnir þig. Maður fer nú að halda að þú búir í kofforti á hjólum eða í landinu Smsonite, því þu ert sjaldnast að skrifa frá sama stað og síðast. Gott samt að vita að Páfagarður hefur ekki slegið eign sinni á þig.
Kannski er það leti í manninum að vilja alltaf finna einhverjar patentlausnir á samfélagsmynd sinni í stað þess að móta líf og stefnu frá degi til dags eins og siglari hagar seglum eftir vindi. Það er jafn vitlaust í raun og að reyna að segja vindinum hvert hann á að blása.
Jakobína: Sættir nokkru sig við eignaleysi? Allavega ekki hvað varðar grunnþætti lífsins. Það er kannski ástæða græðginnar að óttast eignaleysið, að verða útundan. Ég held að einhver óræður ótti ráði flestum glöpum mannsins. fátt ber þó að óttast meira en óttann sjálfann eins og spakur maður sagði.
Gullvagn: Já þú setur fingurinn á meinið. Það sem hefur átt sér stað í heiminum í dag og við allar kreppur er að auður og völd færas á æ færri hendur. Óbeit mín á IMF byggir einmitt á því að öll meðöl þeirra virðast taka mið af því að gera hrægömmunum hægara að setjast að borðum. Nú að fleyta krónunni, svo að hjálpin þeirra verði kroppuð út á nokkrum dögum og aðkoma þeirra gert margfalt meiri skaða en gagn. Svo getum við sett Exxon merki í miðju þjóðfánans eða álíka og haldið áfram að troða hamsturshjólið fyrir nýja herra.
Takk Ía mín: Gleður mig að sjá þig hér aftur. Alltaf þakklátt að skrifa fyrir þig, sem endra nær.
Ívar: Eigum við ekki að vona að menn haldi ekki í haftasamfélaið legnur en neyðin kennir. Menn eru orðnir svo góðu vanir eftir veisluhöldin að þeir munu reyna að koma þessu í frjálsræðisátt eins fljótt og auðið er. Það er þó augljóst af reynslunni að eitthvað aðhald verður að veita og eftirlit. Þegar maður skoðar skuldakúrvurisið eftir einkavæðingu bankanna 98 (minnti á Holmenkollen hehe) , þá skilur maður að þetta er ekki annað hvort eða, frelsi eða höft. Nú er bara að finna hina gullnu hnífsegg að feta sig eftir.
Jón Steinar Ragnarsson, 3.11.2008 kl. 22:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.