Kroppað í Rembrandt.
3.11.2008 | 22:25
M.S. Lagarfoss var stéttskiptur heimur fólks sem mér fannst hafa sagt sig úr tengslum við mannlífið í landi. Þar giltu sérstakar umgengnisvenjur og verkaskipting og skipstjórinn hafði þar allt vald. Hann hafði meira að segja skammbyssu í skúffu sinni, sem honum var frjálst að nota í neyð. Hér öfluðum við tekna okkar og hér eyddum við þeim. Við hefðum þess vegna getað verið í geimskipi á braut um jörðu.
Reglubundin hægð ríkti í þessum veltandi og vaggandi heimi og ofviðri var nánast kærkomin tilbreyting frá lognmollu hversdagsins. Þessi regla losnaði þó í reipum þegar nær dró landi. Kokkurinn grét þegar við sigldum Eyrarsundið af því að þá minntist hann barnanna sinna og fyrrverandi konu, sem hann hafði ekki séð í fjölda ára. Svo fór hann að drekka. Það drukku raunar allir. Aðgerðarleysið við að liggja á ytri höfninni við Leníngrad kallaði á það. Enginn viss hvort eða hvenær við kæmumst að landi. Duttlungar hafnaryfirvalda réðu því.
Oft gekk þetta fyllerí alveg úr böndum og menn urðu ruglaðir af langvarandi drykkju. Doddi félagi minn í vélinni, var kallaður var deyjari. Það var stytting á titlinum dagmaður í vél. Hann var einn af þessum óutreiknanlegu drykkjumönnum, sem missti alla stjórn, þótt hann væri bara um 17 ára. Deyjaranafnið átti ekki síst við í því samhengi að einatt drakk hann sig dauðann, en áður en að því kom, fékk hann æðisköst. Hann braut allt og bramlaði og það varð nánast að kefla hann, svo hann yrði ekki sér og öðrum að fjörtjóni. Stundum sló hann til mín eða tók mig kverkataki. Inni í honum kraumaði óskapleg reiði, sem ég kunni aldrei nein skil á. Annars var hann hinn besti drengur, gamansamur og hjálpsamur þegar hann var edrú.
Leníngrad var borg mikilla andstæðna. Ríkmannlegar byggingar og breiðstræti vitnuðu um forna frægð. Fallegar kirkjur með gylltum næputurnum blöstu hvarvetna við, en búið var að negla fyrir alla glugga á þeim. Guði hafði verið úthýst í þessu landi og aðeins einn átrúnaður leyfður. Hinn óskiljanlegi kommúnismi. Mitt í þessum glitrandi heimi göfugrar byggingarlistar og auðlegðar, var fólkið jafn hnípið, óttaslegið og kuldalegt og það var í Múrmansk. Hér ríkti alræði öreiganna. Eignarrétturinn hafði verið afnuminn og enginn átti né mátti eiga neitt.
Áin Neva rann seigfljótandi og illa þefjandi milli flúraðra brúarstólpa og gulleitir froðuflákar flutu um hana eins og mygluskán. Hér hafði einhveratíma verið líf og reisn, en ekki lengur. Fámennt var á götum úti. Mest voru það offiserar með þessi hjákátlega og stóru kaskeiti á höfði og líktust persónum í fáránleikhúsi Fo. Ég undraðist oft hver tilgangur þessara manna í síðu borðalögðu ullarfrökkunum væri. Allir voru þeir með skjalatösku, sem lýsti ábúðarmiklu valdi. Leyniþjónustan? Herinn? Lögreglan? Sennilega voru þeir eitthvað af þessu öllu, því hér var þeirri frumskyldu að eignast aldrei neitt, framfylgt með lögreglu og hervaldi. Á freistingum gæt þín annars...
Eitt sinn sat ég í sporvagni, sem var úr timbri og líklega síðan um aldamót. Þá settist einn slíkur offiser í sætið hinum megin við mig og opnaði skjalatöskuna sína. Í henni var mjólkurflaska og brauðbiti. Ekkert annað. Hann maulaði bitann sinn og saup á mjólkinni með þetta brostna augnaráð tilgangsleysis og vonleysis, sem var svo sammerkt með því fólki, sem varð á vegi manns.
Vetrarhöllin eða Hermitage var ein glæsilegasta höll í heimi. Hún stóð þarna við Nevubakka og menn bentu stoltir á kúlnagöt við innganginn, sem báru byltingunni vitni. Verið var að reisa margra mannhæða hátt skilti af Lenín við gafl hennar. Aðrir voru að skreyta allt með blóðrauðum fánum við torgið, þar sem Pétur mikli trónaði ofar öllu á súlu. Það var byltingarafmæli í vændum, Októberbyltingin, "frelsunin." Mér sýndist þó eftirvæntingin fyrir þessum tímamótum vera fjarri í ásýnd verkamanna, sem unnu þetta verk. Hér var fólk skuggar. Einstaklingseðlið hafði verið afnumið með valdi. Enginn stóð út úr. Allir voru eins og forðuðust að draga að sér athygli.
Vetrarhöllin var opin til háðungar auðvaldinu. Þangað komu Rússar til að fussa og sveia yfir lystisemdum mannlegs hugvits og handverks. Hér komum við til að sýna þessum sömu gildum lotningu. Þarna gat að líta útskorna marmarastiga, tignarlegar styttur, gyllt laufskrúð og lamineruð gólf með ótrúlegu mynstri. Risastór málverk voru á veggjum af fyrrum valdboðum þessa víðfeðma lands í gullslegnum römmum, sem nánast blinduðu augu orðlausra drengja frá bárujárnsmekkunni á norðurhjara.
Allt, sem ég hafði áður séð féll í skuggann fyrir hinum minnsta grip, sem fyrir augu bar. Herbergi eftir herbergi, salur við sal af gulli og gersemum. Eitt herbergi hýsti bara klukkur, sem ekki er hægt að lýsa í orðum. Annað hafði bara taflborð og taflmenn, sem gerðir voru af slíkum hagleik að ég hef aldrei síðar séð nokkurn samjöfnuð. Svo voru meistararnir sjálfir þarna.
Michaelangelo, Rafael, Rembrant og nánast allir af hinum stóru meisturum viðreisnarinnar og hágnæfunnar prýddu þessa sali. Manni entist ekki tími til að skoða nema brotabrot af þessari dýrð; rétt skyggnast inn fyrir anddyrið. Gamlar Babúskur sátu dottandi eða sofandi á stólum og gættu auðæfanna. Ég gat gengið upp að mynd af gömlum manni eftir Rembrandt og látið fingurna líða eftir pensildráttum meistarans... sem áður var stjórnað af lifandi taugum, eins og Jón Helgason orti í Árnasafni. Ég var eins og utan líkamans í þessum töfraheimi. Kroppaði í myndir eftir aldna meistara eins og mig væri að dreyma. Meitilför Michaelangelos voru sýnileg í ókláraðri styttu af krjúpandi dreng og ég tengdist þessum eldhuga og snillingi í gegnum snertingu við þessi hrjúfu för.
Þarna opnaðist fyrir mér nýr heimur. Mér fannst ég skilja tilgang og eðli listarinnar. Hann lá í handverkinu. Hvort sem um ljóð, sögu, málverk, tónverk eða höggmynd var að ræða, þá var það handverkið, sem réð því hvernig til tókst að hlutgera stórkostlegar vitranir hugans. Hugsýnir sem á hinn bóginn virtust eiga sér bústað ofan og utan við manneskjuna. Leiftur frá alvitundinni. Þessi tengsl hugar og handar voru nauðsynleg til að koma þessum auð til skila, svo aðrir gætu notið. Fingur Chopin, slettur Pollocks, hárfínt ljósið hans Rembrands og geistlegur mikilfengleiki mannslíkamans í meitilförum Michaelangelos. Þetta snerist allt um samband anda og efnis. Virðingarleysi við þá staðreynd eða hálfkæringur, dæmdi sig sjálft undir meðalmennsku eða sjálfhverfa sýndarmennsku. List verður ekki til fyrir hjárænulegt káf og blaður, sem snýst fyrst og fremst um persónu sjálfskipaðra listamanna. List er ögun huga og handar til að þjóna einhverju æðra í fullri auðmýkt. Það er skoðun sem ég mótaði mér þarna við hvíslandi kyrrðina í sölum Vetrarhallarinnar.
Mikilfengleiki mannsandans var fjarri þegnum Leníngrad. Þvert á móti var þessi dýrð tengd kúgun auðvaldsins í hugum þeirra og syndsamleg samkvæmt rétttrúnaði kommúnismans. Þeir sáu háð en ég mætti alvitundinni sjálfri undir fjögur augu, ef svo má segja. Lygin var hlutskipti þessarar þjóðar. Ánauð frelsi, fátækt auður, dauði líf . Í litlu ólíkt öðru trúarbragðadogma.
Byltingin var ekki bylting verkamanna. Hún var uppþot valdgráðugra menntamanna. Verkamenn voru ekki nema örfá prósent af íbúum þessa lands. Hitt voru bændur, sem leystir voru frá eignum sínum og látnir þræla fyrir korngeymslur hinna nýju herra, sem síðan dreifðu uppskerunni að geðþótta um hið víðfeðma land - eða ekki - eftir því hvernig dagsformið var. Sex milljónir bænda urðu hungursneyð að bráð fyrstu ár byltingarinnar. Byltingarelítan steypt ekki einu sinni keisaranum. Keisarinn hafði sagt af sér vegna uppreisnar í hernum, löngu áður en hinir bitru menntamenn tóku við. Landið var í sárum og stjórnlaust og þessir tækifærissinnar nýttu sér umkomuleysi bræðra sinna.
Bolséviki þýðir einfaldlega meirihluti í Dúmunni, Mensévíkar þýddi minnihluti. Bolsévismi er því ekki stefna eða hugsjón heldur einræði eftir geðþótta þessa meirihluta er stýrði hverju sinni. Þeir sem settu sig upp á móti þessum meirihluta, voru einfaldlega drepnir eða sendir í fangabúðir og milljónir hugsandi manna voru þurrkaðar þannig út. Ekki að undra þótt atkvæðagreiðslur væru samhljóða á þeim bæ.
Málfrelsi og skoðanafrelsi var afnumið. Eignarréttur var afnuminn. Trúarbrögð voru afnumin og allar eignir kirkjunnar þjóðnýttar. Mótmæli voru bönnuð. Ferðalög og búferlaflutningar voru bönnuð nema með leyfi yfirvalda. Yfirvöld gátu líka heimtað að fólk flytti án fyrirvara á milli héraða og skildi allar sínar nytjar við sig. Þetta var alræði öreiganna sem lagði samkvæmt orðanna hljóðan, þá skyldu á þegna sína að vera öreigar. Mannlegt frumkvæði var drepið niður. Ef verksmiðjur uppfylltu kvóta sinn voru menn verðlaunaðir með hærri kröfu um framlegð. Það varð til þess að menn hættu að leggja sig fram. Mikill þrældómur þýddi meiri þrældóm.
Rússland hrundi innanfrá og menn viðurkenndu loks að kommúnisminn var glapsýn. Í landinu var fyrir forréttindastétt, sem kallaðist Nómenkladían. Fólk, sem fékk allt frá ríkinu, sem hugurinn girntist. Þetta fólk fékk ríkisfyrirtækin á silfurfati í hendur eftir hrunið og landinu var steypt í andstæðar öfgar auðhyggjunnar á einni nóttu. Það er ekki síðri hörmung og þjáningar þessa góða fólks eru langt frá því á enda runnar.
Að tengja þetta verkalýðsbaráttu upp á Íslandi, eins og margir gerðu og gera enn, eru mér óskiljanleg öfugmæli. Hér var barátta um jafnari kjör og rétt til að eignast þak yfir höfuðið. Rétt til að geta borið höfuðið hátt. Rétt til mennta og heilsu. Íslendingar voru í sömu sporum og Rússar nú eftir aldalanga kúgun. Auðurinn, sem fylgdi því að öðlast sjálfstæði og njóta afrakstur fiskveiða okkar, varð til þess að í byrjun sótti auðlegðin á fáar hendur og forréttindastétt myndaðist. Þetta voru eldhugar, sem í hagnaðarvon og bjartsýni leystu okkur úr fjötrum fátæktar. Þeir kunnu sér þó ekki magamál eins og manninum er tamt og þurftu aðhald. Vinstrimenn veittu þetta aðhald hér; tókst að leiðrétta ójöfnuð og krefjast launa í samræmi við framlegð; sýna fram á að með betri viðkomu alþýðunnar, yrði vöxturinn meiri og að allir gætu hagnast. Menn sáu loks tilgang með streðinu og var umbunað fyrir. Í Rússlandi voru verkföll bönnuð og engum leyfðist að heimta meira en hann fékk. Geðklofinn í þeirri túlkun að um skyldar hugsjónir væri að ræða er augljós.
Vinstribaráttan er barátta um sanngirni frekar en algeran jöfnuð. Barátta um að við fáum að njóta ávaxtanna í hlutfalli við uppgang efnahagsins. Barátta um að geta gengið með reisn og séð sér og sínum farborða. Að geta tekið sér hvíld og notið lífsins utan brauðstritsins. Barátta um að geta hlúð að afkvæmum sínum og notið þess og gefið það sem andinn þarfnast. Barátta um tjáningarfrelsi, sem var grundvöllur þessa alls.
Ekkert af þessu var raunin í veldi kommúnista. Þeir sem viðurkenna að eitthvað hafi hlutirnir skolast til í Rússlandi, en halda því samt fram að hugsjónaofstæki kommúnískrar hugmyndafræði eigi rétt á sér, geta skoðað Kambódíu, sem reyndi að framkvæma þessa þjóðfélagsuppskrift samkvæmt bókinni. Morðæðið þar gerir Pol Pot samt að kátlegum wannabe við hliðina á Lenín og Stalín.
Vinstri jafnaðarstefnu er þörf í dag, stefnu sem byggir á jöfnum rétti manna til afkomu. Slík stefna getur aldrei stjórnað því hvort menn eru duglegir eða latir eða jafn afkastamiklir eða greindir, jafn hógværir eða gráðugir. Þar á jöfnuðurinn sér takmörk og er utan seilingar valdboðsins. Hringamyndun og auðsöfnun fárra einstaklinga í dag, er aðkallandi aðhaldsefni okkar. Viðvörunarbjöllurnar hringja allstaðar. Ójöfnuðurinn eykst í réttu hlutfalli við vaxandi hagtölur. Frumskógarlögmál frjálshyggjunnar ríkir þar sem lögin eru sveigð og beygð í gegndarlausu gróðaæði hinna fáu á kostnað hinna mörgu. Lögin okkar ná ekki yfir samráðsglæpi og viðskiptasiðleysi. Fyrirtæki eru einstaklingar með kennitölu og eiga að lúta sömu lögmálum og þegnarnir. Fyrirtæki taka þó aldrei ábyrgð né verða þau sett í fangelsi. Hér valsa fulltrúar auðhyggjunnar út og inn um þingið og breyta lögum, afnema verðlagseftirlit, lækka á sig skatta, rýmka viðskiptalög, selja sjálfum sér sameign þjóðarinnar og liða ríkisvaldið kerfisbundið í sundur. Valdið, sem er okkar eina haldreipi um samtryggingu. Enginn flokkur hefur lofað að sporna við þessu. Vinstrimennska í dag er hjákátlegt framapot rómantískra náttúrudýrkenda.
Jafnaðarmennskan hefur verið skrumskæld í pólitískan réttrúnaðarfasisma, sem segir umburðarlyndi og virðingu fyrir öllu vera algilt. Gagnrýni er móðgandi og frelsi til hennar takmarkað. Ritskoðunarandi sovétríkjanna svifur þar yfir vötnum. Samfélagsumræðan er í gíslingu móðgana og heilagrar hneykslunnar. Ef krafan er að hommum, sé sýnd virðing, skal einnig sýna trúarbrögðum, þrýstihópum, skoðunum, stefnum og markmiðum virðingu og umburðarlyndi, sama hversu andfélagsleg umgjörðin er. Þrýstihópar ráða för. Markmið jafnaðar marg klofin í persónulegum kýtingum og tribalisma.
Umburðarlyndi á sér takmörk og er ekki algilt og ekki er hægt að neyða neinn til þess frekar en að neyða einhvern til að vera glaðann við hvað sem er. Móðganir á að blása á því tjáningafrelsi er ofar slíku. Móðgunin liggur alltaf í túlkun hins móðgaða og nú er slíkt notað að vopni til að drepa niður orðræðuna eftir hentugleikum. Raunar er móðgun vísasta merkið um að sá sem móðgar, hafi snert við sannleikanum. Kalli maður horaðann mann feitann, þá hlær hann en kalli maður feitan mann feitann, þá móðgast hann. Þannig virkar það.
Það er þrennt ólíkt, hugmyndafræðin, sem samfélag byggir á, mennirnir sem túlka hana og framkvæma og svo fólkið, sem þarf að lúta henni. Við sem lútum erum 90% þjóðarinnar. Það er því ekki spurning um rétt okkar til að sporna gegn kúgun og spillingu, heldur vald okkar til að halda slíku í skefjum. Það vald ætti að birtast í því, sem upp úr kjörkössunum kemur því hér ríkir lýðræði að nafninu til að minnsta kosti.
Ég hef ætíð reynt að mynda mér skoðanir út frá reynslunni. Reynsla mín á unglingsárum af siglingum til Sovét sannfærði mig um að jöfnuður er mögulegur upp að vissu marki, sem takmarkast af misjöfnu upplagi og getu einstaklinga. Jöfnuður þarfnast stöðugs og ákveðins aðhalds, annars eru sumir einstaklingar vísir með að ganga of langt, eins og reynslan sýnir. Forsjá og ríkisafskipti eru ekki hnjóðsyrði, eins og skilja má af hægrimönnum. Þau eru grunnur okkar samfélags. Við erum ríkið. Forsjáin og afskiptin eiga sér þó einnig takmörk. Það felst í orðinu jöfnuður. Agi á sín takmörk og frelsi á sín takmörk, jafnt í uppeldi barna sem í uppeldi þjóðar. Engin pilla leysir það af hólmi.
Ég missti strax sjónar af félögum mínum á Lagarfossi; fór í Þorskastríð eins og ég segi frá í fyrri færslum hér. Ég heyrði þó af Dodda vini mínum "Deyjara". Hann drap mann í ölæði á nýársnótt, nokkrum árum síðar, og var kallaður Doddi "Drepari" í okkar kaldhæðnu kreðsum eftir það. Hann sat 10 ár í fangelsi en var ekki búinn að njóta frelsis nema í einn eða tvo daga úti þegar hann drap annan mann á fylleríi. Nú er hann kallaður Doddi "Double" og býr enn á Litlahrauni.
Við erum misjöfn mennirnir og eigum ekki alltaf samleið. Við erum gráðug af því við óttumst skort. Við óttumst skort af því að við erum gráðug og höfum tamið okkur að hrifsa til okkar gæðin án tillits við samborgara okkar. Þess vegna þurfum við að verða ásátt um kerfi, sem veitir okkur aðhald.
Það kerfi þarf að byggja á jafnvægi mannlífsöfganna. Hinum gullna meðalvegi. Það útheimtir líka stöðuga vinnu. Endanlegar patentlausnir eru ekki til. Andstæður eru einu sinni þannig gerðar að þær geta ekki án hvorrar annarrar verið. Ekki er hægt að útrýma annarri án þess að útrýma hinni. Slíkt er einfaldlega ekki hægt. Það sáu Karl Marx, Engels, Lenín, Stalín og Pol Pot ekki fyrir. Þar skilur á milli raunverulegrar menntunnar og hugmyndafræðilegrar innrætingar. Eitthvað sem lærist í lífsins skóla, en tæplega í rykfallinni akademíu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 4.11.2008 kl. 00:41 | Facebook
Athugasemdir
þakka þér kærlega fyrir þennan langa, fræðandi og góða pistil :)
Óskar Þorkelsson, 3.11.2008 kl. 22:37
Jón Ragnar, það eru svona færslur sem ég elska að lesa eftir þig. Þetta eru raunar bókakaflar en ekki venjulegt blogg. Láttu mig vita þegar þú ákveður að gefa út. Takk og takk.
Guðný Anna Arnþórsdóttir, 3.11.2008 kl. 22:37
Fyrirgefðu, þetta átti auðvitað að vera Jón Steinar!!
Guðný Anna Arnþórsdóttir, 3.11.2008 kl. 22:38
Þessi langhundur var vel þess virði, takk fyrir mig.
Magnús Sigurðsson, 3.11.2008 kl. 22:57
Frábær pistill. Skrifaðu endilega fleiri. Er reyndar orðin of andlega þreytt til að kommenta frekar. SovítBandaríkið er að fara með mig. Svolítið eins og að vera stuck between the devil and the deep blue sea. En allavega takk.
Dagga (IP-tala skráð) 3.11.2008 kl. 23:34
Þetta eru jafn skemmtilegar pælingar og þær voru í fyrra...standast tímans tönn!
Róbert Björnsson, 4.11.2008 kl. 00:03
Magnað. Við lesturinn mundi ég eftir hvernig Frank Zappa afgreiddi kommúnismann í einni setningu: "Communism doesn't work because poeple want to own stuff." Þetta er ekki flókið! Frábærir pistlar hjá þér, báðir tveir.
Haraldur (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 00:27
Kallinn í all svakalegu formi núna. Góður,eins og altíð.
Viðar Þórarins (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 03:31
Fjúkk, þetta var langt EN laggott :)
DoctorE (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 13:27
Mikið svakalega er þetta flott hjá þér. Það eru allt of fáir sem sjá ekki þessi smáatriði í lífinu, sem skipta svo miklu máli.
Ég þakka kærlega fyrir mig.
nicejerk, 4.11.2008 kl. 20:09
Góður, Jón Steinar. Þegar þú skrifar svona þá langar flesta til þess að vera sammála síðasta ræðumanni, þ.e. þér. Obama hefur þessa hæfileika í ræðu og það var gaman að sjá þegar sjónvarpið úti bað hann að sannfæra fólk um eitthvað sem var niðurskrifað. Hann fór létt með það!
En við uppátektarsömu Íslendingarnir deyjum nú ekki úr hrifningu ef það er alltaf einhver með riffilinn sem gætir manns eins og vörðurinn með speglagleraugun gætti Cool Hand Luke (Paul Newman) í keðjugenginu forðum. Við viljum frelsi til athafna, áhættutöku sem gæti skilað arði (með sömu fáránlegu Lottó- líkunum) og frelsi til þess að gera vitleysur. Annars förum við bara í víking eða tökum geðpillur á bömmer. En einmitt núna lofa allir að vera þægir, segja já pabbi og læra heima. Annars verða þeir aldrei stúdentar lífsins.
Ívar Pálsson, 4.11.2008 kl. 22:07
Þetta gleymdist: Lýsingar þínar á þessum stað og tíma ásamt mannlífinu eru einstakar. Það er fengur að þessu, Jón Steinar. Farðu nú að taka saman einhvers konar sjálfsævisögu- sögu- hugarævintýra- blöndu í bók eins og þér er einum lagið.
Ívar Pálsson, 5.11.2008 kl. 08:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.