Mayday Frá Borgarísjaka

ikingutÞegar ég var að skrifa kvikmyndina Ikíngut, hafði ég aldrei komið til Grænlands. Hugmyndin hafði mótast fyrst og fremst út frá minningu um ísbjarnardráp norður á ströndum.  Menn höfðu ætt blóðþyrstir af stað til að jakta kvikindið, þegar fréttist af því og ég skildi aldrei hvers vegna þetta æði rann á þá.  Ekki var bangsi að ógna neinu þarna á þessum eyðislóðum.  Það rann svo mikið morðæði á mennina við eftirförina að þegar þeir loksins náðu að skjóta björninn, þá höfðu þeir glatað veruleikatengslum svo kyrfilega að þeir rifu úr honum hjartað og átu það hrátt.  Allavega barst sagan þannig yfir djúpið.  Það voru blóðklepraðir og niðurlútir menn, sem komu til hafnar með feng sinn, skömmustulegir fyrir að hafa glatað tengslum við mannlega dyggð um stund.

Það hafði líka alltaf heillað mig að heyra sögur af því að frá Horbjargi gæti sést til Grænlands á góðviðrisdegi, við rétt skilyrði.  Það var forvitnileg tilhugsun að vita af þessum skringilega og ólíka menningarheimi svona nánast innan seilingar frá okkur.  Fyrst ísbirni gat rekið þaðan til okkar, hvers vegna þá ekki menn?

spliff donk og gengja.Tækifærið til að kynnast þessum undraheimi nánar kom þegar Kristján Friðriksson, ljósmyndari og myndlistamaður og kona hans Vilborg, báðu mig um að vinna með sér að spænskri J&B viskíauglýsingu við Kulusuk á austur Grænlandi.  Nóttina áður en lagt var í hann, hafði ég verið í slúttpartýi út í Viðey fyrir mynd Ragnars Bragasonar, Fíaskó.  Ég var vel hífaður, þegar ég fór heim til að pakka niður fyrir ferðina.  Það var aðeins um klukkustund í brottför og ég hafði ekki hugmynd um hvað ég ætti að hafa með mér í slíka ferð. Þetta var algerlega út í óvissuna farið.  Ég henti því nokkrum naríum og sokkum í tösku og skellti svo Spliff, Donk og Gengju þar ofan á.  Þetta merkilega apparat hafði ég hannað og smíðað fyrir Fóstbræðraþættina og var þetta tæki, sem duga átti við öllum vanda.

Ég mætti svo á Reykjavíkurflugvöll í jakkafötum með lausgirt bindi,  flaksandi skóreimar, rauðvínsflösku í annari hendi og Spliff, Donk og Gengju í hinni. Framleiðandinn hann Pétur fékk næstum taugaáfall þegar hann sá mig og náði að forða mér frá augum Spánverjanna, sem voru að kaupa sérfræðikunnáttu mína.  Hann reyndi hvað hann gat að flikka upp á mig en það dugði ekki til.  Spánverjarnir urðu algerlega forviða yfir þessum drukkna jólasveini og vildu ekkert með hann hafa. Allir voru kappklæddir upp í hvirfil í Goretex og því ekki traustvekjandi að art directorinn sjálfur mætti á glænapalegum jakkafötum og draugfullur í ofanálag.  Þessu var þó bjargað með því að segja við þá: “Do’nt worry. He may look and act strangely, but on the other hand he is a total genius. You know how they are.”  Spánverjarnir samþykktu þetta með tungu í kinn og af stað var flogið áleiðis til ísheima.

kukusukÁ flugvellinum í Kulusuk var mér snarað í kuldagalla og svo upp í þyrlu á blankskónum. Áætlunin var að finna hæfilegan borgarísjaka til að setja upp blakvöll á.  Þar átti blaklandslið Spánverja að spila blak til að auglýsa viskí.  Ekki spyrja mig.....þetta var þó langt frá því það fjarstæðukenndasta, sem ég hafði séð í þessum bransa.  Við flugum jaka af jaka, spásseruðum um þá og völdum svo einn gríðarstóran, sem var flatur að ofan og virtist nokkuð stabíll. Hann var um 80 metra hár og svo stór að við vorum eins og krækiber í helvíti ofan á honum. (sjá mynd) Ég var að þynnast upp í fluginu og angaði eins og spritttunna, en heimskautaloftið bjargaði því að ég gæfi upp öndina.  Menn kepptust við að gefa mér piparmyntubrjóstsykur í þröngri þyrlunni af einhverjum dularfullum ástæðum.

Jakinn mikliEftir þetta var tafarlaust farið í hundasleðaferð um ísilagt hafið út af Kulusuk til að leita að tökustöðum fyrir nærmyndir.  Ég hélt að það yrði mitt síðasta.  Í fyrsta lagi leystu hundarnir vind í hverju skrefi af  áreynslunni og ég horfði upp í “stjörnuna” á þeim á meðan þeir sendu óþynnta eimyrjuna beint að vitum mínum.  Ég ætla ekki að lýsa þeirri angan.  Mig sundlaði svo að ég var við það að missa meðvitund. 

Í öðru lagi var ég svo óheppinn að lenda á sleða leiðsögumannsins.  Hann fór ótroðnar slóðir og upplýsti um hætturnar.  Meðal annars var það mjög hættulegt að fara að hólmum og skerjum, þar sem straumsvelgir þynntu ísinn.  Þetta þurfti hann jú endilega að demonstrera með því að álpast með okkur í slíkt feigðarflan.  Ísinn brotnaði undan sleðanum og hann súnkaði hálfur á kaf ofan í jökulkalt íshafið.  Maðurinn barði hundana áfarm með miklum fyrirgangi og öskraði: Thjú, Thjú! Kha, Khaa!”, sem voru víst skipanir til hundanna um að fara til vinstri eða hægri. Ísinn brotnaði jafn harðan undan sleðanum og hann náði að brjótast upp úr og ég ætlaði að stökkva af til að bjarga lífinu. Þá barði Grænlendingurinn mig með svipuskaftinu í arminn til að gera mér skiljanlegt að vera kyrr. Það varð mér líklega til lífs. Honum tókst loks með herkjum að ná sér á þurrt og félagar hans hlógu í gegnum geiflurnar að skelfingarsvipnum á mér.  Ég var feginn að komast heim á hótel það kvöld, rassblautur og með marinn handlegg.  Barinn freistaði ekki enda hafði ég þó það prinsipp að drekka ekki í svona verkefnum.

hundsleði.Daginn eftir fór ég við annan mann út á jakann (sjá mynd) með rafstöð, höggbor og keðjusög ásamt efni og öðrum búnaði. Jakinn var í um 20 mínútna fluglínu frá landi mitt í súrrealískri ísveröld, sem var svo mikilúðleg að ég hef aldrei fundið mig eins lítinn í sköpunarverkinu.  Félagi minn var Bárður Óli Kristjánsson frá Steinum undir Eyjafjöllum, rauðbirkinn víkingur og erkitýpískur Íslendingur.  Við brutum og boruðum og sléttum undir völlinn en á öðrum degi, þótti vissara að senda okkur aðstoð til að tryggja að verkið kláraðist.  Við þurftum líka að búa til skýli fyrir tökuliðið, sem var dulbúið eins og snjóskafl, svo það rynni saman við jakann.  Þar átti að geyma nauðsynlegan búnað og fela aðstoðarfólk, þegar stóra skotið yrði tekið.

Aðstoðarmennirnir voru þrír Grænlendingar, sem nýttust okkur ekkert, þegar til kom.  Þegar við Bárður fórum að bora og höggva í ísinn á milli þess sem við migum á hann eins og mönnum sæmir, þá trylltust Grænlendingarnir úr hræðslu reyndu að stöðva okkur.  Þeir voru algerlega lamaðir, enda vissu þeir meira um ísinn en við þessir villimenn,  eins og  skýrt var fyrir okkur síðar.  Það þarf nefnilega ekki nema að reka broddstaf í svona harðpressaðan ísklump til að sprengja hann í þúsund mola, sem nota mátti í vínglös.  Einnig þurfti að sama skapi ekki nema smá skvettu af heitu varni til að framkalla sömu áhrif.  Þetta vissum við náttúrlega ekki og var því ótti Grænlendinganna óskiljanlegur.  Svona jakar taka fyrirvaralaust upp á því að klofna og velta sér með miklum gusugangi, hvað þá ef menn reyna að hjálpa til við það eins og við gerðum.

Grænlensk þyrlaVið notuðum gervihnattasímann og létum sækja þá, og eru þessir idíótar frá Íslandi örugglega enn ræddir á sögustundum þeirra.  Í stað þeirra kom Spænskur framleiðandi, sem var mjög brattur og borginmannlegur.  Hann tók til hendinni með okkur í svona tíu mínútur áður en nýjabrumið og ævintýraljóminn dofnaði þarna í þessum fimbulkulda sem var.  Hann fór að stika fram og aftur um jakann og notaði gervihnattasímann svo ótæpilega að við héldum að hann myndi eyða batteríinu. 

Hann varð órólegri með hverri stund sem leið og var orðinn angistarfullur, þegar klukkan fór að nálgast hálf níu um kvöldið. Brak og brestir heyrðust úr ísnum í kring og einstaka skruðningar og gusugangur bergmáluðu þarna í auðninni, þegar straumar breyttust og það kólnaði.  Hann náði ekki sambandi heim á hótel, enda voru allir búnir að borða og sátu nú á barnum í mestu makindum.  Það leit út fyrir að við hefðum gleymst því þyrlurnar höfðu aðeins leyfi til að fljúga til klukkan níu.  Klukkan kortér í tók snillingurinn upp á að hrópa í símann:”Mayday, mayday, mayday!” svo ég stökk til og tók hann af honum og spurði hvort hann væri algerlega orðinn stjörnugal.  Skömmu síðar heyrðum við svo kunnuglegt hljóð  þyrlunnar nálgast.  Við höfðum víst næstum gleymst fyrir misskilning en það uppgötvaðist á síðustu stundu.  Það varð einhver eftirmáli af þessu neyðarkalli og vinur vor var hundskammaður svo hann bar sig eins og Labradorhundur, það sem eftir lifði ferðar.

Þremur mánuðum eftir þetta hitti ég Tómas þyrluflugmann á Kaffibarnum og urðu það miklir fagnaðarfundir.  Tómas er eina alvöru hetjan, sem ég hef hitt af Sænsku kyni, hokinn af reynslu og með tvö þyrlukröss í malnum.  Hann sagði mér þá að nýlega hefði jakinn okkar sprungið í þrennt og bylt sér í hafið með miklum boðaföllum.  Það var gott að hann tók ekki upp á því á meðan við gistum hann þessa eftirminnilegu þrjá daga. Spliff, Donk og Gengja hefðu varla dugað okkur þá.

Ég var á Grænlandi í tæpan mánuð eftir þetta við önnur verkefni, sem ekki voru síður eftirminnileg auk kynna minna af landi og þjóð.  Segi ég þá sögu síðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ívar Pálsson

Takk fyrir enn eina bráðskemmtilega sögu. Lýsingin af hundasleðaferðinni er óborganleg, stjörnur og allt hitt.

Ívar Pálsson, 8.8.2007 kl. 10:38

2 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Dásamlegar lýsingar á misjafnri upplifun....

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 8.8.2007 kl. 12:41

3 Smámynd: Jónína Sólborg Þórisdóttir

Það eru ekki margir sem eru skemmtilegir á fylleríum en ég held að þú hafir verið einn af þeim
Svo er þetta ótrúlega lítill heimur; Bárður Óli er nefnilega einn af mínum gömlu djammfélögum - skemmtilega kærulaus týpa ef ég man rétt 
Góð færsla.

Jónína Sólborg Þórisdóttir, 8.8.2007 kl. 17:31

4 Smámynd: Hólmgeir Karlsson

G A S S A L E G I R ... og ekta íslíngar .... he he ... en skemmtileg saga :)

Hólmgeir Karlsson, 8.8.2007 kl. 21:58

5 Smámynd: Ása Hildur Guðjónsdóttir

Takk fyrir skemmtilega og fróðlega sögu. Maður fær gæsahúð.

Ása Hildur Guðjónsdóttir, 8.8.2007 kl. 23:19

6 Smámynd: Elín Arnar

Skemmtileg lesning. Ó já það er fátt rómantískt við hundasleðaferðir svona þegar komið er á sleðann. Mun flottara í mynd.

Elín Arnar, 9.8.2007 kl. 00:39

7 Smámynd: Ólöf Anna

Eða bara flottara á hlið Elín

Alltaf gaman að lesa frásagnirnar þínar Jón Steinar

Ólöf Anna , 9.8.2007 kl. 00:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband