John Frum mun koma aftur.
26.1.2008 | 17:47
Þann 15. Febrúar hvert ár er John Frum dagur á eldfjallaeynni Tanna í nágrenni Vanuatu á suður Kyrrahafi. Þá fara eyjaskeggar saman upp á hæstu tinda eyjarinnar, þar sem þeir hafa reist turna og bíða endurkomu John Frum, endurlausnara þeirra.
Fólkið býr til langa flugbraut á hæðum og byggt sér eftirlíkingu af flugvél úr pálmalaufum og bambus til að lokka frelsarann til sín. "Við erum hér. Hvenær kemur þú?" Svo bíða þau hógvær og lítillát fram yfir sólarlag eftir að Jonh Frum birtist af himnum og uppfylli fyrirheit sín. Ekki hefur hann komið enn. Fólkið missir þó ekki vonina og hefur gert þetta af dyggð á hverju ári frá árinu 1942, eða þar um bil.
Hver er þessi John Frum og hver voru fyrirheit hans? Hvaðan kom þessi furðulegi átrúnaður, sem á í dag sína sértæku söngva, tilbeiðslu og ritningu? Ritningu sem m.a. segir á einhverskonar heimalagaðri ensku frá vitrunum sem bárust spámanni þeirra eftir að hann hafði drukkið töfradrykkinn þeirra, Kava:
"At evening kava comes John Frum. -Take up kastom and cargo I will bring. Leave missions and join the hills. Burn all money and make feast for I am come. Come with war. Come USA. Come with Cargo, where comes night. I am John Frum America. And when comes day and America is gone. When comes John Frum? Come home, Come home."
Í kyrrahafstríðinu höfðu þessar eyjar þegar verið numdar trúboðum kristinna frá því á 19 öld. Trúboðarn höfðu bannað fólkinu að stunda siði sína og einfalda náttúrutrú og refsað fyrir brot á slíku skikki. Fólkið var óánægt og sorgmætt. Þeim var uppálagt að temja sér nýja síði, nýjar bænir, nýtt tungumál,vinna fyrir peningum og lúta nýju valdi. Þeim var bannað að dansa og drekka Kava og áttu að klæðast og blygðast fyrir nekt sína.
Það var sorg og tóm í brjósti margra og gömlu góðu jarðnæru tímarnir að baki. Það bað og færði fórnir og bænirnar voru heyrðar. Það kom stríð.
Drunur heyrðust í fjarska sem fyrirboði nýrra tíma. Silfraðir risaguðir birtust á himnum með miklum gný og úr þeim féllu svífandi gjafir. Matur, verkfæri, myndabækur, fánar, málhlutir og hvað eina sem fólkið hafði í draumum sínum aldrei getað ímyndað sér. Gjafir af himnum. Það höfðu verið erfiðir tímar. Eldfjallið á Tanna hafði gosið lengi og spillt lífsskilyrðum. Fellibyljir höfðu farið um eyðandi afli. Tímasetningin hefði ekki getað verið betri. Fólkið var fullt vonar um betri tíð. Og þá birtist John Frum.
Honum er lýst sem hvítum manni í klæðum með glitrandi stjörnum. Lítill vexti, góður gefandi og glaðlegur. Hann deildi sorgum fólksins og hvatti það til að snúa baki við trúboðinu, snúa til hæðanna og til hinna gömlu siða. Hann sagði þeim að hafna vestrænni menningu og ánauð trúboðanna; sagði þeim að brenna peninga og snúa heim í friðsæld fyrra lífs. Hann hét því að koma aftur með vörur og gjafir. 15. febrúar myndi það verða. En hann gleymdi að minnast á hvaða ár það yrði.
Fólkið fór að boðum hans og virtist finna hamingjuna að nýju í tímalausu og frumstæðu líferni í hæðunum. Á hverju ári síðan, hefur það mætt á sömu staði vítt og breitt um eynna og beðið. Enn í dag hafa þau ekki gefið upp vonina. "Hann mun koma." segir það með fullvissu í augum. "John Frum America will come." Einmitt: John from America. Jón frá Ameríku.
Á þessum árum mynduðust raunar fjöldi slíkra trúhópa, sem almennt eru kallaðir Cargo Cult. Einn hópurinn trúði á Prins Philip, sem kom þarna með ungri konu sinni síðar; Elísabetu drottningu. Það var þó löngu eftir birtingu John Frum og sá hópur henti frá sér þeirri trú fyrir skömmu, eftir að trúboðarnir sýndu þeim áróðursmynd um Jesú.
Trúin á John Frum hefur þó enn staðið allt af sér og fulltrúar hans hafa farið til Ameríku í leit að honum og meira að segja átt fund í hvíta húsinu með ritara Bills Clinton. When comes John Frum?
Enginn veit hver hann var og líklegast er að hann hafi dáið í stríðinu ef hann þá nokkru sinni var til. Kannski gleymdi hann þeim. Loforð hans lifa samt enn og enn bíður fólkið og lætur ágang annarra trúboða sem vind um eyru þjóta. Hvítasunnumenn og 7. dags Aðventistar, fólk sem boðar heimsendi, refsingu og höft. Nei, þá er betra að bíða gjafa John Frum og treysta á endurkomu hans. John Frum America.
Flugvélar eru nánast daglegt brauð í dag, en þær lenda í Port Morrisby en ekki á brautum Roso og Makeo ættflokkanna. Porrt Morrisby er gildra hvíta mansins, sem fangar guðina og gjafir þeirra. En Jon Frum skildi eftir loforð og hann mun koma aftur. Það er hin andlega afstaða til vonar um veraldleg gæði. Hér í þessu lífi en ekki í öðru.
Mér vöknar hálfpartin um augun að sjá þetta og lesa um það. Ekki af sorg yfir fáfræði eða yfirgangi trúarbragða, eins og margir myndu ætla, sem þekkja mig, heldur af gleði yfir fegurð þessa einfalda og einlæga átrúnaðar og endalausu vonar á hið góða. Vonar, sem virðist raunar svo vonlaus. En þetta fólk er heilt og fallegt og syngur frelsara sínum lof. Dansar og syngur. Vakir við eldinn og segir sögur af John Frum. Það er einhvern djúpan lærdóm af þessu að draga. Engin lögmál, siðfræðipostillur, leiðtogar, stofnanir, bitlingar, kröfur um skilyrðislausa undirgefni né neitt af því sem trúarbrögð okkar bera með sér. Bara glaðleg hæglát og ódrepandi von á hið góða. Það er ekki hægt annað en hrífast.
Vestræn menning og túrismi er að sjálfsögððu á góðri leið með að spilla þessu í dag og hafa íbúar Tanna helstu tekjur sínar af því að selja túristum minjagripi og halda dans og söngskemmtanir fyrir yfirlætisfulla vestræna fitukeppi, sem líta á trú þeirra með góðlátlegri vanþóknun. Trúboðar berjast einnig við að eyða þessari "villutrú" og linna ekki áróðri sínum og óttaprangi. Nýverið hafa blóðug átök orðið, eftir að kristinn trúflokkur reyndi að vinna John Frum flokkinn yfir með hnífum og sveðjum undir stjórn spámanns þeirra Fred Nasse, sem trúir því að hann sé að vinna verk drottins. Rök Nasse fyrir Kristnun Frum-verja er sú að Jesú og John Frum, séu í raun sami maður. Þar hafiði það.
Hér mánálgast frekari upplýsingar um efnið almennt.
Hér eru nokkur myndbönd um efnið:
Tónlistin þeirra er falleg og sérstök og einhverskonar blanda að Polynesískum söng og vestrænni trúartónlist auk þess sem Regge og Hip hop hefur haft einhver áhrif í séinni tíð. Hér er smá krúttleg samkoma.
Hér eru fleiri tenglar. Tengill 1. Tengill 2. Tengill 3.
Hér er svo sagan í stuttu máli.
Flokkur: Trúmál og siðferði | Breytt 28.1.2008 kl. 12:51 | Facebook
Athugasemdir
Flottur pistill eins og vant er.
Æðislegt að sjá taktinn í þessum börnum.
Gunnar Helgi Eysteinsson, 26.1.2008 kl. 18:47
Falleg frásögn Jón minn, og mikið er gaman að heyra um að það er ennþá til fólk hér á jörðinni sem hafnar vestrænum ítroðnaði, þó það bylji sífellt og endalaust á. Mikið skammast ég mín stundum fyrir þetta fólk, sem þykist vera meira og ærða en aðrir og telja sér trú um að það geti frelsað heimin af villutrú, þegar það sjálft er á kafi í villu og svíma, og helv.... hroka.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 26.1.2008 kl. 19:18
Skemmtilegur og fræðandi pistill hjá þér. Fágætt dæmi um litla þjóð sem sigrast á sjálfsrefsandi og tepruhætti kristninnar. Hver sem John var, þá gerði hann þessari þjóð líklega stóran greiða. Sorglegt þó að hann skyldi vera tekinn sem einhvers konar guð og að fólkið geti ekki haldið áfram með líf sitt án þess að halda í þessa óskhyggju um endurkomu hans.
Svanur Sigurbjörnsson, 26.1.2008 kl. 20:30
Glæsilegur mannvinur minn mesti.
Skemmtilegt innlegg & vel skrifað.
Alltaf fræðist ég & læri eitthvað nýtt af þínu bloggeríi.
Takk.
Steingrímur Helgason, 26.1.2008 kl. 20:44
Takk fyrir fallegar athugasemdir. Kannski er það vonin sem þetta snýst um Svanur. Í voninni felst bæn, sem máske beinir gæfunni til manna. Kannski er það vonin á hið góða sem breytir innviðum mannsins og geri hann betri og þolinmóðari. Kannski þýðir bænin bara bið. Bið eftir einhverju betra.
Það er víst að einhver grundvallar þörf er fyrir menn að beina huganum út fyrir sjálfið og frá sjálfum sér. Er það ekki það sem er að fara með okkur nú á tímum. Egóið, sjálfhverfan og sjálfgæskan. Ég um mig frá mér til mín.
Við erum líf sem sprettur af engu og verður að engu. Kannski mætti skipta orðinu Guð út fyrir orðið ekkert. Í því felst allt um leið.
Aldrei sagði guð til nafns í Biblíunni, þótt spurður væri. Jakobi svaraði hann ekki eftir glímuna við hann. Móses spurði líka og þá sagði hann Jahve, sem þýðir: Ég er sá sem ég er. Ætli það sé ekki málið. Skikkið, ritúalið og myndirnar sem við gerum okkur til að höndla þessa hugsun, skipta raunar engu máli. Ekki hvernig við trúum eða hvaða mynd við gefum okkur á átrúnaðinum. Enginn er yfir annara skilning hafinn í þessu. Enginn hefur höndlað sannleikann. Enginn veit hvort nokkur fótur er fyrir þessum myndum heldur. Menn bara trúa og finna tilganginn í því að eitthvað betra hljóti að vera til handa okkur í streði lífsins og hörmum. Það er skiljanlegt en fullkomlega órökrænt. Samt vonum við öll.
Jón Steinar Ragnarsson, 26.1.2008 kl. 21:38
snilld
halkatla, 26.1.2008 kl. 23:10
Jæja, ég er búin að afrita pistilinn yfir á word-skjal, sverta letrið og stækka. Les svo færsluna á morgun. Ég get ekki lesið ljóst letur á dökkum bakgrunni og þarf alltaf að hafa mikð fyrir þér og pistlunum þínum.
En þeir hafa alltaf verið þess virði.
Lára Hanna Einarsdóttir, 27.1.2008 kl. 03:01
Þetta er sá sem næst kemst John From.
Megi mynning Sveinbjörns lifa um ókomna framtíð!!!
Hlynur Jón Michelsen, 27.1.2008 kl. 04:12
Skemmtileg saga, sérstaklega hrifinn af boðorðinu um að brenna peningana. Það gerir þá að target fyrir Búsh og hina löggumenn alþjóðlegu bankamannanna, en kanski eru þeir of lítill biti til að eltast við.
Gullvagninn (IP-tala skráð) 27.1.2008 kl. 10:04
Sæll Jón Steinar. Takk fyrir þennan fróðleik. Kannski lumar þú á fleiri atburðum sem væri gott að lesa.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 27.1.2008 kl. 10:44
Varúð kristni er að koma upp í hæðirnar
DoctorE (IP-tala skráð) 27.1.2008 kl. 11:01
Hrífandi frásögn :)
Hólmgeir Karlsson, 27.1.2008 kl. 12:04
Mér fannst gott að fara í annan heim í dag og skoða frumbyggja, já, gott af því að þetta er allt spurning um frelsi og vonin er svona sterk. Góð myndbönd, fræðandi og tilkomumikil einsog alltaf. Mögnuð saga sem ég þekkti ekki. Takk fyrir mig Jón Steinar. kv. eva
Eva Benjamínsdóttir, 28.1.2008 kl. 01:31
Merkilegur pistill og fróðlegur. Skilur mann eftir með ótal vangaveltur í huganum.
Jens Guð, 30.1.2008 kl. 22:57
++++++++ Sorrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrrry nennti ekki að lesa pistilinn nema rétt í byrjun ................... fanst hann ekkert áhugaverður en auðvitað bara mín skoðun sem að þarf enganvegin að skapa skoðunar annara .......en vildi kvitta fyrir mig fyrir innilitið :)
Erna Friðriksdóttir, 31.1.2008 kl. 19:40
Eva Benjamínsdóttir, 31.1.2008 kl. 23:39
Jón Steinar!
Fer ekki að koma tími á að þú vinnir úr öllum þessum frábæru pistlum þínum um "furður trúarbragða" (tillaga að titli) og gefir þetta út á bók. Ég gerist hér með áskrifandi að einu eintaki.
Ásgeir Rúnar Helgason, 2.2.2008 kl. 11:50
Ég tek undir með Ásgeir. Minn kæri skólabróðir þú ert búinn að skrá hér svo margar umhugsunarverðar og áhugaverðar færslur að mann langar til að eiga þær í samantekt í bókarformi. Ég vil líka bæta við hvað áhugavert hefur verið að fylgjast með þér. Þegar við vorum skólabræður á áttunda áratugnum var ég vinstri róttæklingur en þú sá hægri sinnaðisti í hópnum. Nú er ég orðinn virkur í Frjálslynda flokknum og örlítið til hægri. En ekki mikið vel að merkja. Á tímabili hélt ég að þú værir að sveiflast til kristni en svo ertu orðinn skemmtilega gagnrýininn á öfgatrú. Það er bara frábært að fylgjast með þínum málflutningi. Þú ert rökfastur og stendur algjörlega fyrir þínu. Þar fyrir utan eru færslur þínar bara gullmolar.
Jens Guð, 3.2.2008 kl. 05:26
Takk fyrir þetta Ásgeir og Jens. Þetta er nú efni, unnið upp úr hinum og þessum heimildum, svo varla get ég gert það að mínu. Það er hinsvegar verðugt að pæla í þessum hlutum tila ða skilja tilveruna betur.
Já Jóna, þetta er nú ekki fjarri Nýju Guineu. Mig hefur stundum langað til þessara eyja, svona til að finna kjarnan í sjálfum mér og spyrja nauðsynlegra grundvallarspurninga.
Jón Steinar Ragnarsson, 4.2.2008 kl. 07:42
Jú, Jón Steinar! Víst geturðu gefið út bók sem er samantekt á heimildum svo fremi sem þú vitar í þær. Ég man í augnablikinu ekki eftir neinni bók sem hefur þennan "furður trúarbragðanna" vinkil sem þú hefur. Verulega þörf á að taka saman svona efni í heilstæða mynd og skrifa svo eigin pælingar og ramma utanum. Nú, eða þá að gera sjónvarpsþætti, nema hvort tveggja sé.
Í Guðs friði!
Ásgeir Rúnar Helgason, 4.2.2008 kl. 20:13
Ég hef sagt það áður og segi það aftur; þú ert auðvitað bara og eingöngu snillingur.
Heiða Þórðar, 4.2.2008 kl. 22:49
Það eru slæmar þverstæður í kristindómnum. Sú merkilegasta er þó að það voru kristnir menn sem fundu upp Djöfulinn. Þeir þurftu líka mest á honum að halda.
Árni Gunnarsson, 8.2.2008 kl. 14:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.