Klámhvolpar, Sundbolir og Sverðshjöltu.

reykingastrákurÞegar ég var um 8-9 ára hvolpur, fóru hin flóknari rök tilverunnar að síast inn.  Skólakerfið var búið að kenna manni að kvíða morgundeginum og vera ósáttur við árekstra gærdagsins.  Núið var á undanhaldi og þar með andi barnssálarinnar.  Fram að þessu höfðum við vinir mínir lifað í fullkomnum anarkisma og notið þess sem lífið bauð um leið og það birtist.  Líf sem var án stórra væntinga og vonbrigða. 

dullupjakkurÉg átti þrennskonar vini.  Einn flokkurinn  var svona eins og hann Skari, sem hugsaði ekki stórt og gladdist við litlu.  Hann gat til dæmis fengið lag á heilann, sem mér fannst heimskulegt og verið uppveðraður yfir því svo dögum skipti. “Úh íh úh ah ah, ding dong,valla, valla bing bang.” gat hann gaulað út í eitt svo aulahrollurinn hríslaðist niður bakið á manni.  Við umbárum þetta þó, því hann átti heima í sama húsi og Oddur lögga og það hafði ýmsa kosti í för með sér fyrir uppátækjasama púka.  Svo átti hann bróður, sem var eins og tröll, stór og þykkur, opinmynntur trukkur, sem gott var að eiga á hliðarlínunni ef  til undanhalds horfði í púkastríðum okkar. Þá birtist hann í miðjum hópi eins og risaeðla með lurk í hendi, og stökkti óvininum á flótta eins og kakkalökkum undan ljósi.  “’Úh íh úh ah ah, ding dong valla, bing bang!” söng Skari og ég horfði á hann í blendingi undrunar og vorkunar. “Þarftu endilega að vera að syngja þetta?”  En Skari horfði bara á mann og var eins og glaður hundur í framan. “Þetta er svo flott.  Finnst þér þetta ekki flott? Þetta er frábært. Úh í úh ah ah...”  Honum var ekki við bjargandi, en maður þurfti stundum að sætta sig við meira en gott þótti til að njóta kostanna.

chocolate_cigarettesSvo var það vinur eins og Einar.  Hugir okkar störfuðu nákvæmlega eins og stundum gátum við skilið hvorn annan algerlega án þess að segja nokkurt orð. Búddískt augnaráð og hálfgildings bros eins og á Monu Lísu var nóg.  Við urðum líka ævivinir og enn tölum við saman í þögnum og augnaráðum þegar við hittumst á förnum vegi.  Réttlætiskenndin sauð í brjóstum okkar og við storkuðum öllu, sem okkur þótti bera í sér misrétti. Mætti segja að það hafi orðið okkur fjötur um fót í lífinu framar öðru.  Við reyktum eða þóttumst reykja súkkulaðisígarettur, sem ekki þótti óeðlilegt að selja börnum þá.  Allir strákar, með sjálfstæða hugsun voru með eina slíka í kjaftinum og töluðu út um annað munnvikið eins og hetjur hvíta tjaldsins. Við vorum ærlegir menn og formlegir fóstbræður, ég og Einar og hefðum gengið í dauðann hvenær sem var fyrir hvorn annan.  Eitt sinn bjargaði hann lífi mínu þegar ég datt í gegnum ís og fór undir hann.  Einar hætti ekki fyrr en hann hafði náð mér upp og þá var ég orðinn svo dofin að ég streittist á móti og vildi sofna. Hann er óreglumaður í dag og umgengst annan þjóðfélagshóp, en það veikir ekki þráðinn á milli okkar. Þvert á móti. Virðingin er gagnkvæm og órjúfanleg enn í dag. Hann er drengur með hjarta úr gulli.

tígulgosi 2Þriðji flokkurinn voru svo strákar eins og Jakob.  Maður vissi aldrei hvað hann hugsaði og kynntist aldrei hans innstu rökum.  Hann var óútreiknanlegur og aldrei hægt að vita hvort hann var með manni eða á móti.  Hann var dularfullur.  Okkur fannst gaman að stríða eldri bróður hans, sem var langur, mjór og slánalegur og minnti á gamlan ljósastaur. “Mummi Kalli langi með tittlinginn í gangi!” hrópuðum við úr tryggri fjarlægð og þá elti hann okkur þindarlaust um allan bæ.  Það virkaði alltaf.  Í hvert einasta skipti í mörg ár og veitti okkur ómælda skemmtun og holla hreyfingu.

Jakob átti leyndardóm heima hjá sér, sem við fengum að kíkja á.  Það var fullur kistill af Tígulgosanum.  Þetta var svona dónablað með svarthvítum myndum af konum í sundbolum, sem horfðu tælandi í augun á okkur.  Við lásum upp úr þessu valda kafla, þar sem talað var um að menn settu “seðlavöndulinn í budduna hennar” eða “ráku sverð sín upp að hjöltum í helgidóm hennar.” Ekkert var sagt berum orðum en við skildum algerlega hvað við var átt og urðum þurrir í munninum. Undarlega kitlandi tilfinning myndaðist í kviðarholinu, ósýnilegu kverkataki var brugðið um háls okkar og sprænillinn varð eins og trjákvistur.  Jakob útskýrði hlutina með undirfurðulegu glotti og við vissum að hér voru forboðnir hlutir á ferð.  Hættulegir hlutir.  Þó tengdum við þetta ekki beint við tilveruna.  Aðrar stelpur voru enn kjánalegar og leiðinlegar en konurnar á sundbolunum voru hlutir, farlæg og ópersónubundin brjóst og rassar og við hefðum sennilega hlaupið af hólmi ef þær hefðu birst þarna.  Allt sem maður hafði svo upp úr þessu var sársaukafullur hlandsprengur. 

Jakob sagði að þetta væri kallað að ríða og sýndi það með að stinga vísifingri annarrar handar í holu á milli vísifingurs og þumals á hinni.  Hann gekk þó of langt í eitt sinn, þegar hann sagði að mamma mín og pabbi hefðu gert það þrisvar. (Ég átti jú tvö systkini). Ég varð svartillur og gaf honum á kjaftinn. Þvílíkt ógeð!  Náttúran er nefnilega þeim undrum gædd að engin leið er að gera sér slíkt í hugarlund, hvorki hvað varðar foreldra né systkini.  Það voru bara einhverjir töffarar og píur, sem gerðu slíkt.  Eins er það með foreldra gagnvart börnum. Það setur að þeim hroll að hugsa um þau í þessu samhengi og það tabú varir nánast alla æfi.  Merkileg staðreynd, en svona setur náttúran okkur varnagla til að spilla ekki stofninum.

xrayad1Forvitnin óx með hverri heimsókn til Kobba. Í Popular Mechanics voru auglýst röntgen gleraugu, sem áttu að gera manni kleyft að sjá í gegnum föt.  Þetta undur vísindanna átti hug okkar allan á tímabili. Við sendum pöntun og pening til Ameríku til að eignast ein slík.  Við  vélrituðum meira að segja mjög fullorðinslegt bréf með, sem hófst á orðunum: “Dear sirs.”  En íslenska krónan hefur sennilega ekki verið tekin gild, svo okkur varð ekki af  óskum okkar.

Áhugi okkar á stelpum vaknaði svo upp úr þessu og við gátum legið heilu vetrarkvöldin undir vegg sundhallarinnar og gónt upp undir opna glugga, sem endurspegluðu himnaríki holdlegrar fegurðarúr kvennaklefanum.  Stundum var það Stína “Vá!” en stundum bara mamma hennar. “Ojbarasta!” En brjóst vöktu alltaf djúpstæða löngun, sem máski var saknaðartilfinning.  Söknuður hlýjunnar og kærleikans við móðurbarm, sem aldrei kæmi aftur.

Við góndum þarna, þar til við fengum hálsríg.  Útlimir og andlit dofnuðu af kulda svo við gátum varla mælt, en innst var þessi hlýja unaðsglóð.  Þegar á hólminn kom og maður var augliti il auglitis við dísir drauma sinna, þá lamdi maður þær með skólatöskunni, flissaði og lét eins og fáviti. Stelpurnar voru nákvæmlega eins. Enn einn öryggisventill náttúrunnar kom í veg fyrir ótímabæra viðbót við mannkynið.


Frægð Mín og Frami í Míkrókosmos.

leiklist.Það er fyrirhafnarlítið að verða stjarna í litlu sjávarplássi.  Maður þarf bara að ganga í leikfélagið og krækja sér í bitastætt hlutverk og þá getur maður gengið hnarreistur um götur undir aðdáunarbliki hins sauðsvarta almúga.  Þetta gerði ég á yngri árum.  Gekk um með kanslarahúfu, reykti pípu og safnaði skegglýjum, svo ég minnti einna helst á spíraða kartöflu í framan.  Intelektúal, sem gat leyft sér að drekka í miðri viku og ræða leikbókmenntir og túlkanir í varfærnum og upphöfnum tón.

Maður las aftan á kápur helstu bókmenntaverka og lét sem maður hefði lesið þau öll í trausti þess að andaktugir viðmælendur hefðu ekki gert það. Ég dró meira að segja seiminn eins og Nóbelsskáldið og flaug um óræðar lendur... öhm...hærri tilvistarplana

Í litla Leikklúbbnum tróð ég á svið sem Toggi frá Traðarkoti í leikritinu Leynimelur 13 og þurfti varla að skipta um föt áður en ég steig á svið. Fyllibyttan, skáldið og rómantíkerinn var algerlega í takt við sjálfan mig og það sem ég gekkst upp í að vera.  Þetta voru lærdómsríkir tímar, þar sem ekkert var manni óviðkomandi. Leikmynd og brellur voru á minni könnu og ég bætti jafnvel textann og endursamdi kafla í leikritunum í óþökk dauðra skálda.

to beMargar sýningar voru metnaðarfullar og yfirmáta listrænar. Við fórum á námskeið, hjá Kára Halldóri leiklistarkennara, sem var óumdeilanlegur snillingur.  Hann dró með sér strauma frá Finnlandi og Svíþjóð, spunann og krabbastellingarnar og æfingar sem fólust í því að ráfa stefnulaust um gólf með stunum og óhljóðum eins og andleg grænmeti.  Ég held að ég hafi nú bara haft gott af því.  Við lögðum land undir fót  með leikritið, sem var eftir Böðvar Guðmundsson og sýndum í Gamla Bíó á listahátíð og fórum svo á samnorræna kúltúrhátíð í Danmörku. Ég lék aumingja, sem varð leiksoppur og fórnarlamb misviturra og hrokafullra yfirvalda. Það var ekki erfitt. Undir niðri held ég að ég hafi talið mig falla undir það hlutskipti. 

leikfélagÉg skrifaði leikritið Hjálparsveitina, sem var paródía á þegnskyldugóðmennsku, gaf það út á bók og seldi hús úr húsi fyrir vestan, til að eiga fyrir bóheminu. Uppsetningin var barn síns tíma og ég get ekki rætt það frekar kinnroðalaust. Ég var meira að segja svo frægur, að ég var pantaður sem gestaleikari til Flateyrar og lék þar Mr. Clayton, morðingja og dusilmenni í leikritinu “Húsið á Klettinum”, sem varla telst til undirstöðubókmennta.  Ég lét líka í þá skoðun skína.  Ég var stjarna og bjó frítt og borðaði frítt í mötuneyti Einars Odds, slæptist um götur á daginn ofar öllum frystihússpöbul í þorpinu.

Einu sinni neitaði ég að leika fleiri sýningar ef ekki yrði skipt um byssuna, sem ég var skotinn með í restina.  Þetta var venjuleg hvelldettubyssa, sem virkaði ekki nema í fjórða hverju skoti. Það hvissaði og neistaði af henni og bleikur hvelldettuborðinn hringaðist upp í reykjarkófi án þess að nokkur hvellur kæmi.  Þetta var mér alls ekki samboðið, þar sem ég átti að vera á flótta.  Þess í stað þurfti ég að neyðast til að staldra við og bíða eftir almennilegu skoti, svo ég gæti fallið með pathos í duftið.

leikiðNý byssa var fengin án þess að láta mig vita og á þeirri sýningu dó ég eitt augnablik í alvöru. Pöntuð hafði verið startbyssa sem sendi frá sér blindandi, meters langan,  bláan loga og gaf frá sér ólýsanlega háan hvell.  Dauði minn var afar sannfærandi í þetta sinn. Það þurfti nánast að hnoða mig í gang fyrir uppklappið.  Ég varð svo til heyrnarlaus og sá tilveruna í syndandi, marglitum blettum á eftir. 

Tæknin var líka stundum að stríða okkur í þessari sýningu. Síminn átti að hringja á ákveðnu augnabliki en gerði það ekki, svo leikararnir stóðu þarna eins og prjónar, orðlausir í óendanlega rafmagnaðri kúnstpásu, fyrir gapandi áhorfendum.  Ég tók nokkrum sinnum af skarið og sagði: “Ég held svei mér að síminn hafi verið að hringja.”  Og þá hrökk sýningin í gang aftur.

Við brutumst með þetta listaverk um há-vetur til nágrannabyggðanna, með leikmyndina blauta á vörubílspalli og komum oft svo seint, vegna snjóþunga, að áhorfendur sátu í salnum og horfðu á okkur setja leikmyndina upp.  Allir voru þó sammála um að það hafi gefið sýningunni meira gildi og að það hafi verið fræðandi að sjá inn í leyndarheima leiklistartöfranna.  Svona einskonar "making of".   Á einum stað stóðum við í hné í vatni í kjallara samkomuhúss og sminkuðum okkur og klæddum.  Okkur varð svo kalt að við nötruðum á sviðinu. Það þótti sérstaklega áhrifaríkur performans.

núpurEftir þetta var ég ráðinn sem leiklistarkennari að héraðsskólanum á Núpi í Dýrafirði.  Þangað voru eftirhreytur pönkmenningarinnar sendar í skóla og voru þarna eins og skrattinn úr sauðaleggnum í nepjulegu vetrarlandslaginu, leðurklæddir með nælur og hanakamba.  Síðasti leiklistarkennari hafði verið brotinn niður andlega og send grátandi heim og ég því kallaður í skarðið.  Ég náði góðu sambandi við krakkana, leyfði þeim að reykja í óþökk skólastjórans og kenndi þeim listræna tjáningu. Leikritið var Grænjaxlar eftir Pétur Gunnarsson og fannst mér árangurinn frábær. Hæfileikar krakkanna voru stórkostlegir og sýningin áhrifarík í sinni einföldu umgjörð.

 Við brutumst með þessa sýningu til nágrannaþorpanna á Rússajeppanum hans Helga í Alviðru.  Veður voru válynd og oft tvísýnt um hvort við yrðum úti í glórulausum vetrarbyljum.  Krakkarnir voru hin bestu skinn en þó þurfti að veita þeim ofanígjöf annað slagið. Til dæmis, þegar þau rændu öllu sælgæti úr sjoppu eins félagsheimilisins fyrir sýningu, sem varð til þess að það átti að senda okkur heim aftur. Eftir stífar samningaviðræður og skil á nammi, gat þó sýningin fengið inni.

GnarrÞessi tími var ógleymanlegur og marga af nemendunum hef ég eignað mér og stært mig af, sem væru þau mín eigin sköpun.  Meðal aðalhlutverkanna voru til dæmis ekki ómerkara fólk en Birgitta Bergþórudóttir, skáldkona, Friðrik Weisshappel og Jón Gunnar nokkur, sem við þekkjum betur í dag, sem Jón Gnarr.  Ég er hreykinn að hafa leiðbeint þeim fyrstu skrefin á listabrautinni.  Ég les bækurnar hennar Birgittu, drakk mig til óbóta á Kaffibar Friðriks og vann svo með Jóni að fóstbræðraþáttunum.  Allar þær yndislegu manneskjur, sem ég hitti á þessari listabraut, búa í hjarta mér enn og væri ég fátækur maður án þeirra kynna.


Vetrarhljóð.

 

fiskibátur Fyrir fimm ára snáða, sem ekki vissi betur, hafði hver árstíð sinn ilm og sín hljóð.  Það var ekki laust við að fullorðna fólkið kímdi svolítið þegar hann talaði um vetrarhljóð eða morgunilm.  Kannski var það vegna þess að það hafði aldrei heyrt eða fundið neitt slíkt.  Kannski vegna þess að það hafði aldrei legið undir sænginni sinni á vetrarmorgni og hlustað og fundið.
En svona var þetta nú einu sinni.  Það vissi hann.

  Marr í mjöll undan syfjuðum stígvélum á leið í vinnuna.  Hóstakjöltrin í pabba og lykt af blautum lopavettlingum.  Það var veturinn.
  Vindurinn gnauðaði ámátlegar en á sumrin, næstum brjóstumkennanlega.  Jafnvel hljóðin frá bílunum voru dapurlegri.  Allt gekk hægar.  Fá bros.  Lítið talað.
  Já, veturinn var raunamæddur. Sumrið glatt og lifandi.  Þá hló allt og þaut hjá í gáska og gleði. 

  Það brakaði í gólfinu.  Nú var pabbi á leið á sjóinn.  Pissað.  Kveikt í sígarettu og aftur brakaði í gólfinu.  Stiginn kveinkaði sér undan þungum fótum.  Aumingja pabbi.  Nú var kalt að fara á sjóinn.
  Það glamraði í leirtauinu í eldhúsinu.  Nú var hann að reyna að veiða bolla upp úr hrúgunni í eldhúsvaskinum.  Hann hóstaði svona eins og til að reyna að kæfa hljóðið.  Smellur,  brothljóð, bölvað lágt og hóstað.  Það heyrðist aldrei meira í honum en þegar hann reyndi að fara hljóðlega.

  Mjúkir fætur læddu sér undan sænginni og tipluðu hljóðlaust eftir köldu gólfinu.  Stubbur ætlaði að kyssa hann bless.  Fyrst settist hann á stigaskörina og hlustaði.  Þefaði.

  Stiginn gein óendanlega langur við, þar sem hann rann í eitt saman við myrkrið niðri á ganginum.  Ilmur af nýju kaffi og sígarettureyk mætti honum.  Hann fikraði sig niður, þrep fyrir þrep.  Stiginn kvartaði eilítið yfir ónæðinu svona snemma dags en lét sér lynda að á honum væri troðið.  Eldhúshurðin var ekki eins þýðlynd. Æiii!, sagði hún, er snáðinn ýtti við henni.  Allt var svo tregt og sérhlífið á veturna.

faðir og sonur 2  “Nú ert það þú?” -sagði pabbi eins og hann byggist við draug.  “Já ég heyrði í þér.” Sagði snáðinn og lét sem hann væri nývaknaður.  “Ég ætlaði bara að kyssa þig bless.”
 Tvær hlemmstórar, sigggrónar hendur lyftu honum upp eins og hann væri þyngdarlaus og skeggbroddar stungu hann í vangann.  Hann lagði armana um háls pabba og neri vanga við vanga.  “Þú stingur.” -sagði hann lágt.

“Ég?” -sagði pabbi eins og ekkert væri fjær.  “Það hlýtur að vera þú, sem hefur gleymt að raka þig.”  Snáðinn strauk sér um vangann  og brosti. “Ég er að safna.” –sagði hann svo.  Pabbi hnussaði eilítið eins og hann hafi fengið kusk í nefið.  Þannig var hann vanur að hlæja.  Svo faðmaði hann litla drenginn sinn að sér, svo fast að hann kenndi til.  En það geði ekkert til, því snáðinn vissi hvað það þýddi.

  Pabbi setti hann niður á stól og sótti handa honum mjólk og brauðsneið.  Svo sátu þeir feðgar í heimspekilegri þögn, hvor á sínum stól og mauluðu bitann sinn.
  Pabbi sötraði kaffið sitt í löngum sogum og blés í bollann.  Eldhúsklukkan tifaði og hugir þeirra svifu út um gluggann, hátt yfir snarbröttum, vomandi fjöllum í glerkenndu morgunlofti vetrarins.

  Skyndilega tók pabbi kipp, stökk á fætur og kveikti á útvarpinu.  Veðurfréttir! Þá var nú eins gott að þegja eins og steinn.  “Suss!” –sagði hann án þess að nokkur segði nokkuð. Síðan hvolfdi hann sér yfir tækið eins og köttur sem bíður eftir að hremma bráð sína.  Það sem eftir fylgdi var eins og helgistund, nema hvað í kirkju heyrist þó alltaf einstaka hósti og stuna.
   Afar syfjuð rödd þuldi seiga og hljómbrigðalausa þulu:

faðir og sonur“Gert er ráð fyrir stormi á vestfjarðamiðum, norðurmiðum...” og happdrættismiðum og hvað þau nú hétu nú öll þessi mið.
  Fyrir snáðanum var þetta aðeins óhemju leiðinleg tugga, sem jafnvel þulurinn skildi ekki sjálfur.  En fyrir pabba var þetta eins og höfuðlausn.  Spurning um líf og dauða.  Og sennilega var það svo.  Pabbalausir vinir í götunni báru því vitni.
   Að lokum kom romsa um Færeyjar og Færeyjadjúp en þá slökkti pabbi á tækinu og sórst við andskotann.  Það gerði hann á hverjum morgni.
  Þessu næst snaraði hann sér í gömlu, skotheldu lopapeysuna, sem stóð honum öll á beini og angaði af slori og olíu.  Það virtist sama hverju spáði.  Alltaf var farið á sjó.

  Snáðinn rétti honum bitaboxið, svo hann gleymdi því ekki, eins og svo oft áður.  Skeggbroddar stungu hann í vangann og pabbi var horfinn.

  Snáðinn stóð einn á miðju gólfi og sígarettureykurinn hékk í loftinu eins og þunn slæða, blaktandi í trekknum, sem boðaði svo oft storma og stórsjói.

  Eldhúsklukkan tifaði eins og berfætt barn inn í eilífðina og vindurinn grét hið óorðna úti fyrir.

  Það voru vetrarhljóð og morgunilmur.


Klifurkötturinn og álög landnámsmannsins.

Súgandafjörður Fjallið Spillir fjær.Í febrúar 59 mætti ég berskjaldaður til lífsins hildar. Afkomandi víkinga og varmenna með krókóttann ættlegg til Haraldar konungs Hárfagra. Ég óx í ódælan dreng eins og af bláleitu víkingablóði má vænta.  Bakkapúki kallaður sem barðist við ræflana í efribæ með trésverði, tók menn til fanga og smáði, féll í orrustu á tröppunum heima en reis upp frá dauðum með blæðandi haus. Ég var ósigrandi landkönnuður sem leitaði ókunnra landa af óstöðvandi útþrá og áfergju.

Tanngisinn og smámæltur prakkari á fimmta ári var ég með foreldrum mínum á Suðureyri við Súgandafjörð.  Þar hafði tilvist mín sprottið af einum kærleiksneista þegar móðir mín, undirleit og feimin sextán ára yngismær, féll fyrir löngum og kímnum slána. Það gerðist þegar hún færði honum pottflösku af kaffi í ullarsokk niður á bryggju. Pabbi var sjómaður. Hann átti happafleyið Kveldúlf og lagði aflann upp á Suðureyri. Lífið var látlaust þá. Við áttum lítið en enginn kvartaði. Þannig var lífið og engin viðmið um betra hlutskipti voru til að glepja fólk. Ekkert sjónvarp né alnet og enginn glamúr sem lokkaði.

Mamma var varla meira en barn sjálf. Hún knúsaði mig og baðaði í þvottabala og naut þess að klæða mig upp og greiða hárstrýið mitt upp í kjöl til að hafa mig fínann eins og Elvis. Ég var litla lifandi brúðan hennar sem hún elskaði meira en nokkuð annað. Hún söng eins og engill og dansaði með mig um gólf í litla steinhúsinu okkar sem var með þykkum kastalaveggjum og öruggt skjól. Það var þó ekki stærra en svo að síðar meir var gaflinn sleginn úr því og því breytt í bílskúr sem naumlega rúmaði einn smábíl.

Suðureyri.Suðureyri var staður mikilla töfra fyrir stuttfættan heimspeking og spekúlant. Þarna var Steini Steins þessi stóri og þögli maður. Hann átti hrútinn Móra, illúðlegan og stórhyrndann, sem hann leiddi um í bandi eins og hund. Hreppstjórinn spókaði sig um fyrir framan Kaupfélagið með voldugan hatt og silfurbúinn staf eins og hann ætti plássið, enda trúði ég því og varaði mig á að styggja hann ekki.  Þar var líka Halli klapp, sem stóð allan daginn og klappaði saman höndum og sló sér á lær á víxl. Sævi ók um þorpið með miklum drunum og frussi. Hann átti þó ekki bíl heldur hélt hann á gömlu bílstýri sem hann hljóp með sleitulaust frá morgni til kvölds. Hann bakkaði og spólaði upp brekkur, snéri og bremsaði með öllum þeim hljóðum sem því fylgdu.  Einu sinni ók hann út af og niður í fjöru. Hann sat þar fastur og var naumlega hægt að bjarga honum áður en hann flæddi uppi.  Það þurfti að kalla til olíubílinn á staðnum til að draga hann upp. Engu tauti var komið við hann fyrr. Hann varð síðar dyravörður í Háskólabíói hjá Berta bróður sínum en er nú dáinn.

klifurkettirJói Gunnubetu var þarna líka með herðakistil og undarlegt glott á vör. Hann sagði fátt og okkur stóð stuggur af þessum dökkleita manni sem starði sínum svörtu augum og hæddist að heiminum.  Hann var þó hinn mesti öðlingur og vakti athygli síðar sem Jóhann Grínari.  Hann fór með eftirhermur í útvarpi sem allar hljómuðu eins. Einnig bjó til árlegt handgert dagatal sem slegið var upp dagblöðum hér eins og um stórfrétt væri að ræða.  Svo var hann líka leikari í Bíódögum Friðriks Þórs ásamt fleiri afrekum á því sviði. Hann dó einn og afskiptur og var miklu yngri en ég hafði haldið hann vera. Blessuð sé minning hans.

Hrefna og Ranka voru systur sem bjuggu í hálfgerðum torfæ í miðju þorpi sem var svo feyskinn að búast mætti við að hann hryndi ef einhver reskti sig of nærri. Þær voru eins og klipptar út úr 18. öld alltaf í peysufötum með skotthúfur. Það var eins og tíminn hefði gleymt þeim. Þær höfðu gát á mér sem kornabarni og tuggðu saman soðna ýsu og myglaðan mör með tannlausum gómum og mötuðu mig með fingrunum. Barnamatur fortíðar. 

Svo var það Guðmundur gamli Pálma sem kom á hverjum morgni frá Staðardal með mjólk í brúsum á fúinni hestakerru, dreginni af lúnum og horuðum klár. Hann var með pottlok á höfði, prýddur þykku gráu yfirskeggi eins og rostungur. Hann jós mjólkinni í brúsa þeirra sem kaupa vildu og hélt svo aftur heim eins vofa liðinna alda.  Það var heldur ekki fjarri sanni. Allt við hann var forneskjulegt. Hann var meira að segja í svart-hvítu eins og á gamalli ljósmynd. Ekki vottur af lit á kerru, hesti né klæðum.  

Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er sagt frá konu sem lagði hvítvoðung sinn um stund við réttarvegg á meðan hún gekk til verka. Þegar hún ætlaði að vitja barnsins þá var það horfið og fannst ekki hvað sem leitað var. Yfirkomin af sorg dreymdi hana síðar álfkonu sem kom til hennar og sagði barnið vera hjá sér við gott atlæti.  Daginn eftir fannst barnið á sama stað við réttarvegginn og amaði ekkert að því. Þetta barn var systir Guðmundar Pálmasonar mjólkurpósts og ku hafa dáið í skriðufalli þegar hún varð gjafvaxta.  Álfum var að sjálfsögðu kennt um það. Nær fornsögunum varð ekki komist.

víkingurPabbi hennar mömmu, hann Alli fiskimann, var líka mikið furðuverk í mínum augum. Fyrirmyndarafi fyrir æfintýraþyrstan púka. Hann var alltaf kátur og glaður í minningunni.  Hann ló dillandi hlátri, hjak, hjak, hjak og var svo glysgjarn að það stirndi á hann. Medalíur og silkiklútar prýddu hann í öllum regnbogans litum og spilaði hann á harmonikku og munnhörpu þegar hann fékk sér neðan í því. Hann var sköllóttur en bar alltaf kaskeiti að skipstjórasið.  Einn veturinn fékk hann sér það sem hann kallaði “hárhúfu” sem hann dásamaði fyrir hlýindi og praktík. Húfa og hár; tveir fyrir einn.  Mamma harðbannaði honum að bera hana og blygðaðist sín fyrir hann því það var algerlega tilviljunum háð hvort þessi hárkolla snéri rétt eða ekki.

Ég átti annan afa; Dóra, sem var seinni maður ömmu. Hann var stór og mikill svo engir skór pössuðu á hann nema gúmmískóhlífar sem okkur strákunum fannst nógu stórir til að geta róið á út á fjörðinn. Hann var ljúfur og þögull kall sem sötraði kaffið sitt í eldhúsinu með löngum sogum við tif eldhússklukkunnar.  Hann réri stöðugt í gráðið,  hummaði ókennilegan lagstúf í sífellu og borðaði allan sinn mat með sama vasahnífnum nema að sjálfsögðu súpuna.  Hann var af fátæku vinnufólki og hafði liðið mikið harðræði í bernsku. Sonur vinnuhjúa í vistarböndum sem var barinn eins og hundur og svaf í fjárhúsi við harðan kost.  


Innan um alla þessa kynlegu kvisti voru svo vinir manns.  Sívert var einn af þeim. Freknóttur grallari með óútreiknanlegan huga undir rauðum lubbanum. Það var yfirleitt ekki vel liðið að við legðum lag okkar saman því það endaði oftast með ósköpum. Skaðræðisgripir vorum við kallaðir.  Við lékum okkur til fjöru og fjalls í endalausum rannsóknarleiðöngrum. Klifruðum og veltum okkur niður hjallana ofan við þorpið þar til okkur var bannað það og sagt að við myndum fá garnaflækju af því og deyja. Þarna fékk ég uppnefnið Nonni prakkari og þarf enn að búa við að vera kallaður því þegar ég á leið vestur um firði.

Okkur Sívert lék hugur að vita hvað bjó að baki fjallanna sem umluktu þennan smáa heim. Sumir sögðu að þar væru útlönd og það vildum við kanna.  Þegar við vorum að ræða þetta okkar á milli vorum við varaðir við að klifra í fjöllunum því nóg hafði fólk séð af pústrum og skeinum í okkar daglega brölti. Okkur var sagt að í fjöllunum byggju álfar sem ekki væru kátir með að brölt væri á húsþökum þeirra. Því fylgdu álög og ógæfa.  Efst á fjallinu var okkur sagt að væri gröf Hallvarðar Súganda landnámsmanns sem barist hafði við forföður minn Harald Hárfagra.  Í haug hans var víst falinn mikill fjársjóður. Margir höfðu freistað þess að finna hann en það  endaði víst ávallt með miklum skakkaföllum eða dauða fyrir viðkomandi.  Ef hróflað væri við haugnum myndi kirkjan í Staðardal líka sjást standa í ljósum logum. Það var þó aðeins undanfari mikið fleiri hörmunga að sögn manna.

Ekki sló þetta á áhuga okkar þótt ætlun fólks með þessum hrollvekjum væri önnur. Við bjuggum okkur því nesti og héldum út með firði í fjársjóðleit.  Uppgöngustaðurinn var fjallið Spillir, sem er eitt óhugnanlegasta og brattasta fjall þar um slóðir. Við vorum ósigrandi og ódauðlegir. Litum á kirkjubruna sem hreinan bónus við auðæfin sem við ætluðum að færa heim. Eldur var eitthvað töfrandi og heillandi í brallarakollum okkar. Álög óttuðumst við ekki.

kumlVið klifum snarbratta og grýtta urðina og vorum heitir á skrokkinn. Ævintýraeldurinn logaði snarkandi innra með okkur þegar við ræddum hvað við myndum gera við auðæfin.  Kaupa leikföng, bát, hest, bíl og kannski kjól á mömmu. Kannski svona kveikjara eins og Frissi Rokk átti. Frissi var eini töffarinn í bænum og vitnisburður erlendrar ómenningar. Hann var með Brilljantín í hárinu meðuppbrettar gallabuxur og í támjóum bítlaskóm.  Maður sem var í guðatölu hjá okkur krökkunum.  Hann gat meðal annars búið til myndaramma úr tómum Camelpökkum og dregið túkalla út úr útstæðum eyrum okkar.

Fjallið var svo bratt að það var engu líkara en það ætlaði að hvolfast yfir okkur. Mávarnir hnituðu fyrir ofan okkur í von um blóð og þeim varð brátt að ósk sinni. Skyndilega losnaði steinn sem ég hafði gripið í til að vega mig upp og áður en ég vissi var ég í frjálsu falli. Ég endastakkst niður urðina eins og tuskubrúða. Hvassar nibbur stungust í skrokkinn á mér og ég nam ekki staðar fyrr en við bjargbrún ofan við veginn út að Stað.  Ég hafði rotast og man ekkert fyrr en ég rankaði við mér aftan á bögglabera á hjóli móður minnar, alblóðugur og rifinn. Ég var reyrður með tusku við mömmu sem hágrét og ákallaði Guð um hjálp. Hún hjólaði eins og hún ætti lífið að leysa heim í þorp. Sívert hafði hlaupið inn eftir og sagt henni óðamála að ég væri dauður. Það mátti líka engu muna. Ég fékk heilahristing og sjö göt á hausinn sem enn prýða hnúðótt höfuð mitt.  Hallvarður hafði lagt mig í valinn þótt ég risi upp til nýrrar orrustu eins og vargi sæmdi. Ég hafi aðeins lotið í duft í einum bardaga en stríðið langt frá því tapað.

Mér finnst gott að rifja upp farinn veg og minna mig á hvaðan ég kem. Minnast með þakklæti þess góða og fyrirgefa hið slæma. Þá er líklegra að maður rati rétta leið inn í framtíðina og nái að halda sátt við Guð og menn. Lífið er oft háskaför og stundum ljúfur leikur.  Það hefur sinn tíma að elska og það hefur sinn tíma að stríða.

Í dag er ég hættur að stríða að mestu þótt einstaka sinnum þurfi maður að bera fyrir sig hendur.  Margir eru fallnir sem börðust mér við hlið og landvættir, álfar og upprisnir landnámsmenn hrella mig ekki meir. Vopnabræðurna hitti ég síðar.  Álögin eltu þó Sívert alla tíð og nú er hann farinn til Valhallar. Ég hitti hann fyrr en síðar eins og Hjálmar á Bólu kvað svo listilega um.

Mínir vinir fara fjöld,
feigðin þessa heimtar köld,
ég kem eftir, kannski í kvöld,
með klofinn hjálm og rifinn skjöld,
brynju slitna, sundrað sverð og syndagjöld.

.


Kynngimögnuð Smásaga í Litum og Panavision.

par“Æ, ég er alveg að gefast upp á þessu.” Sagði Guðríður og lagði frá sér nýstrandað farþegaskipið.

Mjölnir leit upp og kláraði kartöfluuppskeruna um leið og hann réri yfir Kyrrahafið á sefbát. :”Hvað er að angra þig elskan? Spurði hann og framleiddi sjónvarpsþátt um hlaupfiska.

 Æ, ég veit það ekki.” Svaraði Guðrún og  jarðaði sendimenn byggingaeftirlitsins í kotru. “Það er bara eitthvað svo tilbreytingarlaust hér.”

Mjölnir umturnaði fjármálaheiminum hugsi.  “Hefur það eitthvað með mig að gera?  Ég játa að ég gæti vafalaust verið margbrotnari í samskiptum mínum við yður, elskan.”  Hann hlammaði sér vonsvikinn niður og gerði upp þotuhreyfilinn sem hann hafði unnið í glímu eftir að  hann hafði lokið við að flytja Andesfjöllin.

 

kona“Nei, nei,  ekki þú elskan. Þetta er bara einhver efnaskiptasjúkdómur í mér eða breytingaskeið.” Sagði Guðrún skellihlæjandi og virkjaði Víðidalsá.  “Þetta dettur svona yfir mig stundum.  Fyrirgefðu.”

 Mjölnir sýtti tannleysið og lagði fram breytingatillögu um skipan öryggisráðsins, svona til að dreifa athyglinni frá brennandi trésmíðaverkstæðinu.  “Ekkert að fyrirgefa elskan.  Ég verð sjálfur svona um hver tunglkvartil.” 

öðruvísiÞau brostu og eyddu miðunum umhverfis landið með eitruðum þörungum, ánægð með hve olíuboranir þeirra á heimskautaísnum virtust takast vel. Það gat stundum borgað sig að leggja fram byltingakenndar kenningar í kjarneðlisfræði.


Bambusstangir og bræðravíg.

PrayKnightHaustmorgun einn árið 1208 kraup Kolbeinn Tumason goði og skáld á kné í döggvott grasið á Víðinesi.  Mistur var í lofti og kjá fugla í fjarska.  Vitund hans galopin og skýr.  Ilmur gróandans fyllti vitin og fjarlægur kliður vaknandi heims hvíslaði í eyrum.  Ofar öllum veraldarnið og hugarvíli  ríkti þó mikilfengleg kyrrðin, sem umlukið hafði jarðlífið frá upphafi vega. Kyrrð hins eilífa og almáttuga. Þennan dag skyldi  skáldið deyja í orrustu, sem ekki varð umflúin.  Innst inni hafði hann dýpri vitneskju um þau örlög.  Hann bað því Guð um  mildi og forsjá...”minnst mildingur mín”. Auðmýkt hans var djúp og sátt í hjarta yfir hverju sem koma vildi.  Hann myndi lúta vilja alvaldsins hvernig sem færi.  “ Ég er þrællinn þinn. Þú ert drottinn minn.”  

Trumbull%20Battle%20of%20Bunker's%20HillMáske sá hann villu sína á þessari stundu.  Að deilur um jarðnesk og hverful málefni höfðu komið honum á þennan stað.  Þvermóðska, græðgi, öfund og vantraust á forsjá og mildi alvaldsins hafi skapað honum þessi örlög. Kannski uppskar hann þarna það sem hann hafði sáð til. Kannski sótti  iðrun að hjartanu. Kannski var enn rökrænn möguleiki á að hverfa frá hildinni ef ekki væri fyrir duttlungafullar kennisetningar um heiður og skyldur sem mannleg gunnhyggni hafði bitið óskrifað í sig. Dauði hans var því óumflýjanleg niðurstaða af hugsunum hans og gjörðum en ekki ákvörðun einhvers mildings ofar öllu mannlegu. Hver er sinnar gæfu smiður.  Enginn himnasmiður. 

warboyMér finnst sem ég gæti sett mig í spor Kolbeins þegar ég hugsa til púkastríðanna svokölluðu á gullnum dögum æskuáranna.  Þannig upplifði ég orrustudag í aftureldingu.  Við ákváðum yfirleitt með dags fyrirvara að heyja stríð við krakka í nærliggjandi götum eða í öðrum bæjarhlutum.  Fjarðarstrætispúkar gegn Bakkapúkum; Efribæjarpúkar gegn Neðribæjarpúkum.  Ekkert sérstakt tilefni var gefið að þessum stríðum annað en landfræðilegur aðskilnaður og eining um óeiningu. 

battle_b_wStrax og stríð var handsalað og staður og stund ákveðin, byrjaði undirbúningur.  Sverð voru smíðuð, sem oft voru líkari lurkum en nokkru öðru.   Bambusstöngum var stolið, snærispottar útbúnir með hnút á enda og jafnvel ógnvekjandi keðjustubbar voru teknir til handargagns.  Allt voru þetta stórhættuleg tól og fallin til að meiða og limlesta.  Það var þó aldrei hinn æðsti tilgangur að meiða, heldur var markmiðið að vera eins ógnvekjandi og hægt var; að stökkva óvininum á flótta sem fyrst.  Hafa hátt, ögra og hræða. Upplifun stríðsins var meginatriðið, tilfinningin fyrir og eftir.  Eftirvæntingin, sigurvíman. Þessi ótruflaða athygli og árvekni, sem skapaðist.  Allt varð einhvern veginn ljósara og skarpara stundirnar áður en skarst í brýnu.  Hljóðin urðu skýrari, andrúmsloftið ferskara, heimurinn litauðugri, bragðskynið ríkara og kyrrðin yfir svo magnþrungin að hún fyllti brjóstið og yfirskyggði óttann.  Hugurinn var tendraður til hins ýtrasta en samt yfirvegaður.  Tíminn blekking ein. 

 

LordoftheflieslgLíklega var mér svipað innanbrjósts og skáldinu að morgni skaparadægurs síns .  Ég fann allavega samsömun í orðum hans. “Heyr himnasmiður, hve skáldið biður. Komi mjúk til mín, miskunnin þín.” 

Við söfnuðum grjóti í vasa, munduðum barefli og  vógum skildina á armi. Málmbragð í munni, þandir nasavængir, snörp orðskipti, suð í eyrum. Við stóðum reiðubúnir í eilífu andartaki eins og riddarar í álögum. Stundin var að renna upp.  Við enda götunnar birtist óvinaherinn með gunnfána og lensur á lofti. Úff...hvað þeir voru margir. Við settum í herðarnar,  bitum saman jöxlum og reyndum að breiða sem mest úr hópnum; börðum sverðum í skildi og yggldum brún.  Óttinn læddist inn. Veruleikinn.  Saklaus hugmynd var orðin dauðans alvara. 

Ég vildi ekki vera þarna.  Ég óttaðist þó síður að meiðast en að þurfa að meiða aðra.  Þetta voru jú allt vinir og skólafélagar.  Engum vildi ég illt og engan hataðist ég við.  Hugurinn hvarflaði til hentugra flóttaleiða.  Það gat þó enginn verið þekktur fyrir að láta hugfallast í miðri hólmgöngu.  Innbyggð skylda sagði manni að yfirgefa ekki vini sína á örlagastundu.  Þessi hugsun var líklegast sammerk með okkur öllum.  Við vildum ekki, en skyldum.  Stríðið varð sjálfstætt afl sem laut eigin lögmálum án tillits til  langana soldátans um sátt og frið.  Til að öðlast frið þarf blóð.

moviedaysÁrááás! Öskraði einhver og báðar fylkingar þustu mót hver annarri með samfelldu stríðsöskri. Hópunum laust saman og höggin dundu á skjöldum, bambusstangir kvistuðust í sundur og flísar flugu úr vopnum og verjum. Sumir hopuðu, aðrir ekki og hópurinn leystist upp í einangraða bardaga þar til óskráð sátt varð um að aðskilja fylkingar og safna liði að nýju.  Nú fóru menn að leggja á ráðin af meiri ákafa.  Óttinn efldi móð.  Margir voru hruflaðir á höndum og höfði og enn aðrir með blóðnasir.  Sjáöldur voru þanin til hins ýtrasta og horinn frussaðist úr nefi.  “Fyrst þykjumst við ætla að ráðast beint á þá en svo dreifir helmingurinn sér og kemst á bak við þá. Svo umkringjum við þá.”  sagði sjálfskipaður hershöfðingi hópsins, sem oftast var sá hugaðasti og ófyrirleitnasti – eða sá hræddasti.  

facecrushAftur var gert áhlaup á sama máta, en í þetta skipti birtist risastór strákur í hópi andstæðinganna.  Hann var illilegur og ógnarlega stórvaxinn eins og risaeðla í hópi maura. Hann veifaði lurki á stærð við símastaur að manni fannst og virtist geta mulið okkur alla undir sér.  Röddin var djúp og mikil svo stríðsöskur okkar urðu eins og hjáróma mjálm í samanburði. Óvinurinn margefldist við tilkomu þursans og æddi óttalaus gegn okkur.  Ég fann reiðina svella í brjósti við þetta óréttlæti og skálmaði fram gargandi eins og lungun þoldu.   

benÞegar ég leit sem snöggvast um öxl til samhæfingar við vopnabræður mína, sá ég aðeins undir hvítar iljarnar á gúmmískónum þeirra.  Þeir voru lagðir á flótta!  Ég var einn á móti öllum þessum ógnarher!  Ég þeytti skildinum og sverðinu í átt að væringjunum og tók til fótanna líka.  Það var því miður of seint.  Sá fljótasti í hópnum náði mér á tröppunum heima og barði mig bylmingshöggi í höfuðið með lurki. Ég fann skringilega kitlandi tilfinningu í nefinu og hávær sónn fyllti höfuð mitt eins og stillimynd sjónvarpsins væri komin þar inn. Ljósflekkir blossuðu fyrir augum og dimmrauður skuggi lagðist eins og þrumuský yfir vitundina. Ég rotaðist um stund, en rankaði aftur við mér þegar bölsót móður minnar þrengdi sér inn í vitundina.  Hún hélt mér að sér og steytti hnefana mót innrásarhernum sem tvístraðist eins og sáð fyrir vindi.  Blóðið rann niður ennið en ég fann ekki til.  Ég var feginn því að stríðið var búið.  Mig skipti minnstu að við höfðum tapað.

 00010266-LPP--69453Slíkt er þó eðli stríða að niðurlag er ekki ásættanlegur endir. Hefndum skyldi ná. Tap kallaði á betri undirbúning, meira miskunnleysi, betri vopn og betra skipulag.  Annað stríð var óumflýjanlegt og það yrði stærra og blóðugra en þetta.  Það stríð unnum við líka og höfðum þá einnig leynivopn í stórabróður einhvers, sem þó reyndist ekki nauðsynlegt.  Minningin um niðurlæginguna var innblástur okkar.  Endurheimt óræðs heiðurs réð för.  Við eltum óvininn uppi og tróðum þeim ofan í öskutunnur sem við börðum utan með sverðum. Einn tókum við fanga sem við drösluðum upp í fiskhjall og bundum við staur og niðurlægðum með orðum og pústrum. Svo héldum við niður í fjöru og kveiktum eld, skiptumst á hetjusögum rákum upp stríðsöskur.   Fanganum gleymdum við í sigurvímunni þar til síðla um daginn að áhyggjufullir foreldrar fóru að leita hans. Þá var honum sleppt með sparki í rassgatið og ýmsum munnlegum ónotum.   

standardSvona gengu stríðin á víxl eins og blóðhefndin fyrr á öldum og hættu ekki fyrr en skólinn og skyldurnar drógu hugann frá þeim.  Enginn erfði þó neitt og allir urðu vinir að nýju eða svo til. Fanginn okkar hann Flosi var svolítið lengi að taka okkur sátt, en þau sár greru um síðir.  

Stríð samtímans snúast enn um víxlverkandi lönguvitleysu blóðhefndarinnar.  Þó er helsti drifkrafturinn ótti þess sem hefur við að glata því sem hann hefur.  Ótti um skort og kapp um viðhald lífsgæða sem eru þó langt umfram þörf.  Þeir sem skortinn líða megna ekki stríð.  Þeir hafa heldur ekkert að verja nema skortinn sjálfan.  Það eru forréttindi hinna efnameiri að heyja stríð. Okkar stríð snerist ekki um skort, græðgi, völd né hégóma.  Okkar stríð kom okkur í nánd við alvaldið og fyllti okkur lífi.  Okkar stríð urðu okkur vakning um hverfulleikann,  kærleikann og auðmýktina eins og skáldinu forðum.  Okkar stríð kenndu okkur að meta frið og vináttu að verðleikum ef einhvern lærdóm var af þeim að draga.

 

Prisoner_Boy_Haunted_House_Costume_R12108Ég efa þó að þessi reynsla hafi komið okkur til góða þegar fram í sótti, nema ef vera skildi að fanginn Flosi hafi getað nýtt sér hana síðar á ævinni. Hann var handtekinn í Dubai áratug síðar, fyrir að reyna að koma riffli með sér í farangri sínum.  Vist hans þar var þó lengri og erfiðari þar en hjá okkur. Það krafðist milliríkjasamninga og mikils fjölmiðlafárs að losa hann úr þeirri prísund. Dubaifanginn Flosi var látinn laus fyrir sárbænir yfirvalda og ættingja. Því sjálfur Emírinn gat nú ekki verið minni maður en hugumstórir Bakkapúkar forðum.


Vort Afmarkaða Almætti.

trúin og mennirnirYfir þorpinu mínu var himnesk hvelfing, sem var með þeim undrum gerð að skipta litum.  Stundum var hún glitrandi tær eins og lindardjúp eða skyggð og mött með mikilfenglegum sólstöfum, sem flöktu við sjóndeild eins og silfraðar orgelpípur.  Í málmkenndu frostlofti vetrarnátta sindraði þar stjörnufjöld, sem drap tittliga í sífellu mót dreymandi barnsaugum og jaðegrænar slæður norðurljósanna hlykkjuðust í þokkafullum dansi frá eilífð til eilífðar.  Stundum ríkti kyrrðin ein og stundum geysuðu fjörbrot árstíðanna og undirstrikuðu smæð okkar og magnleysi.  Stundum sveif þar fuglafjöld og söng sköpunarverkinu dýrð.  Þetta var okkar kirkjuhvolf.  Í þessu hvolfi áttu hjörtu okkar samhljóm, þegar við drengirnir stigum út í morgunloftið viðbúnir óvæntum undrum óskipulagðrar framtíðar.  Leið oss mikla líf.  Hvað áttu óvænt og undravert að færa okkur á þessum degi?

Við Einar vinur minn hittumst ávallt á morgnana og spásseruðum um bæinn eins og við ættum hann.  Sjálfgefnir heimspekingar í gúmmískóm með lymskublik óráðinna uppátækja í augum.  Við stungum snöggklipptum kollum inn um gluggann á félagsbakaríinu og fengum heitar hveitibollur hjá Steina bakara, áður en hann breytti þeim í tvíbökur.  Stundum fengum við að bursta hveitipoka fyrir vasapeninga hjá honum. Þá urðum við hvítir frá hvirfli til ilja eins og vofur eða fallnir englar og skutum grunlausum skelk í bringu.  Milli okkar Steina ríkti óhandsalað samkomulag virðingar og hjálpsemi. 

brosandi barnVið áttum okkur sjálfir þótt við svöruðum öðru til þegar við vorum spurðir um hver ætti okkur.  Spurningar um eignarhald og hlutverk voru meiningarlausar í okkar heimi.  Við áttum þó alltaf stöðluð svör við spurningum fullorðna fólksins.  Stundum spurðu menn til dæmis hvað við ætluðum að verða þegar við yrðum stórir og við sögðumst ætla að verða það sama og feður okkar, þótt við vissum fullkomlega að við værum eitthvað mikið merkilegra þar og þá.  Við þurftum ekki merkimiða til að gefa okkur tilgang.  Hvorki þekking, staða, eignir, upphefð né skoðanir glöptu þessa sjálfsmynd eins og hjá hinum fullorðnu. Þeir töldu sig alltaf vera eitthvað, hafa einhverjar skoðanir og trú og áttu eitthvað, sem þeir skilgreindu persónu sína eftir.  Ég er bankastjóri eða smiður, framsóknarmaður eða verkamaður, auðugur eða fátækur, þjáður eða sæll.

Við vorum ekkert sérstakt og þar af leiðandi allt mögulegt í senn.  Hið æðra sjálf var fyrirferðarmeira í verund okkar en jarðbundin sjálfsmyndin;  breiddi úr sér að baki hugans eins og litauðugt páffuglsstél; vakandi yfir öllum hugsunum og gjörðum.  Ekkert annað jarðneskt kvikindi en maðurinn naut þeirra forréttinda að geta staðið utan sjálfs síns og ígrundað eigin hugsanir.  Það var hinn sameiginlegi andi; hið alvitra og alsjándi ofar hinum huglæga meltingarvegi heilans.  Heilinn melti upplýsingar en maginn mat.  Þetta vissum við og skynjuðum og þess vegna var þetta glaða og óræða glott undir niðri.  Leyndardómur bernskunnar.  Hið takmarkalausa frelsi sálarinnar;  fullvissan um æðri handleiðslu, sem maður gat heiðrað og hundsað að vild.  Ástand sem fullorðnar manneskjur gátu ekki öðlast nema að glata öllu. Verða ekkert og neyðast til að treysta á náungann eins og oft hendir mjög gamalt fólk. Það var enginn þykistuleikur þótt við virtumst eiga heiminn.  Það var jafn augljós staðreynd og að heimurinn átti okkur.  Heimurinn var í okkur og við í heiminum.

isafjgamlaEitt sinn á okkar stefnulausa flandri streymdi til okkar angurvær söngur.    Hann barst frá litlu vinalegu trékirjunni okkar.  “Hærra minn Guð til þín; hærra til þín...”  söng fólkið í angistarblandinni bæn um nálægð við eitthvað, sem þegar umlukti það hvar sem það var eða fór. Raddir sem í sjálfmeðvitaðri helgi, kepptust um uppljómun fyrir tilstilli lagvísi og tónaflúrs.  Við fórum inn í spíraðann helgidóminn og læddumst upp á kórsvalirnar, örlítið spenntir og forvitnir, en samt hæfilega lotningarfullir.  Þarna höfðum við ekki komið síðan okkur var dýft í fontinn í árdaga.  Við vorum einir þarna uppi og gátum horft yfir hnýpinn söfnuðinn.  Söngurinn var fallegur og það var sársauki, iðrun og von í angurværum samhljómnum.  Sumar raddir voru meiri eða örvæntari en aðrar og risu yfir meðallagið í skræku yfirboði og titrandi þindarblæstri.  Það þótti okkur fyndið.  Skrítnar kerlingar með ámálaðan hreinleika og sýndargöfgi í svip, kepptust um hylli prestsins.  “Heilög skal heimvon mín hærra minn Guð til þín.”

fermingarbarn.Í stöðugri útöndun héldu þær sig finna nálægð heilags anda, þegar raunin var sú að þær voru að missa meðvitund af súrefnisskorti.  Séra Sigurður sneri baki við hjörðinni sinni og baukaði eitthvað með flúrstunginn kross á herðum.  Hann var tröllvaxinn maður í okkar augum og þegar söngnum lauk, sneri hann sér við með upprétta arma og höfgi í svip.  Svo byrjaði hann að tóna sinni nefmæltu röddu, sem var í miklu ósamræmi við burði hans.  “Gvöspjallið skrefaðe gvöðspjallamaðurenn Jóhanneeeees...”  Þvílíkir tilburðir við að kynna höfund bókar!  Hláturinn blossaði upp í kviðarholinu á okkur og þótt við reyndum að bera hendur fyrir vitin, þá frussaðist hann stjórnlaust út um nef og munn.  Séra Sigurður snarþagnaði í miðju tóni og söfnuðurinn reygði sig í átt að svölunum.  Við urðum algerlega magnvana og lákum niður í gólfið grenjandi úr hlátri, svo tárin trilluðu og víst var að einhverjir dropar sluppu í brók.  Meðhjálparinn hraðaði sér áleiðis til okkar og við reyndum að skríða niður emjandi og ískarnadi, höfðum enga stjórn á þessu.  Við vorum gripnir niðri við dyr þar sem tekið var í hnakkadrambið á okkur og okkur hent á dyr.  Þar kútveltumst um tröppurnar og slöguðum svo eins og drukknir menn út úr garðinum. 

Lengi á eftir fannst okkur við vera litnir þóttafullum vandlætingaraugum af broddborgurum bæjarins.  Uppalningar, skrattakollar og púkar.  Þarna á þessum afmarkaða stað undir máluðu stjörnuhvolfi höfðum við framið helgispjöll. Bara þarna gátum við ekki hlegið og glaðst.  Þarna var leikrænt yfirbragð sorgar og alvöru skilyrði.  Þarna virtist vera meira af Guði en annarstaðar og í návist hans var nauðsynlegt að vera langleitur og horfa með hundsaugum á siðameistara hans og umboðsmann.  Þetta gátum við ekki skilið og enn er það svo um  fjörutíu árum síðar. 

prakkariÞað var ekki að undra að við fengum grillur um að Guð væri persóna. Persóna sem jafnvel var bundin við ákveðið póstfang.  Duttlungafullur karl með eilífar umvandanir. Karl sem lét einatt eins og maður gæti ekki gert neitt rétt.  Uppalandi, sem stöððugt klifaði á takmörkunum okkar.  Þú mátt ekki, þú getur ekki, þú skilur ekki.

Á þeim tíma, sem við vorum að fikta við andaglas, datt okkur í hug að athuga hvort það væri hægt að ná í þennan afmarkaða Guð í síma.  Bara svona til að sjá hvort þetta væri virkilega tilfellið.  Fjölfróðir andarnir voru ekki lengi að fletta númerinu upp þegar við spurðum.  Ekki man ég númerið í dag, en við hringdum við fyrsta tækifæri.  Eftir nokkrar hringingar, svaraði gamall og góðlegur karl.  “Er þetta hjá Guð?”  spurði ég.  “Það er hann.” Svaraði hæglát röddin.  Það kom fát á mig; varð eiginlega kjaftstopp.  Ég tók um tólið og sagði Einari að almættið væri á línunni.  “Spurðu hann hvar hann á heima.” Hvíslaði Einar.  Ég spurði og góðlátlegur hlátur hljómaði. “Allstaðar og hvergi.  Inni í þér og allt í kring.” svaraði röddin.  Mér fannst þetta útúrsnúningur og spurði.  “Áttu ekki heima í himnaríki?”  - “Jú.” Svaraði röddin og hljómaði brosandi.  Var hann að gera at í okkur?  “Himnaríki er allstaðar og hvergi.  Inni í þér og allt um kring.”  Ekki man ég nákvæmlega allt samtalið en fljótlega sagði Guð okkur að hann væri nú bara trillukarl á Patreksfirði.  Þetta samtal kom þó róti hugi okkar og eftir miklar vangaveltur komumst við að því að þetta hafi í raun verið Guð.  Látleysi hans og viska var svo djúp og brosmild röddin svo kærleiksrík að ég er ekki frá því að svo hafi verið.  Guð er jú í öllu og allstaðar og alls ekki ólíklegt að hann hafi talað í þessum trillukarli frá Patró.

ferming forðumEftir hláturskastið mikla, fór ekki í kirkju aftur fyrr en ég byrjaði að ganga til prestsins í aðdraganda fermingarinnar.  Þá hafði skilningur minn á geistlegum efnum ekki aukist, síður en svo.  Mér var ómögulegt að skilja tilgang þessara trúarbragða að því undanskildu að þau gæfu yfirvarp, svo husla mætti hræin utan af burtflognum sálum.  Hulstur, sem í raun voru ekkert merkilegri en hver önnur slitin flík. 

Kristinfræðikennslan hafði verið innantómt stagl um liðna sögu, þrætur, valdboð, ofbeldi og þokukennd hugtök.  Fátt var skýrt um inntak trúarinnar.  Það var mér þó ljóst af orðum Krists, að þar talaði maður af skynsemi og kærleik, en um leið og brugðið var frá hans beinu kennisetningum ólgaði allt í óeiningu, fordæmingu, sjálfsréttlætingu, refsingum og manndýrkun.  Þetta virtist allt í hrópandi þversögn við kjarnann. 

Hvað var að? Hvað voru menn að bulla?  Var hægt að mistúlka svo afdráttarlausa boðun sem að elska óvin sinn og náunga? Dæma ekki aðra?  Gefa í stað þess að taka?  Iðka ekki réttlæti sitt sjálfum sér til dýrðar og upphefðar?  Fyrirgefa?  Hvar var auðmýktin í öllu prjálinu og orðskrúðinu?  Hvert var markmið þessa alls?  Hvers vegna var trúariðkunin bundin við ákveðna staði og allt þetta ritúal haft um hönd?  Sagði Kristur ekki að andi hans væri mitt á meðal þeirra tveggja eða þriggja, sem kæmu saman í nafni hans?   Sagði hann okkur ekki að fara inn í herbergi okkar, loka að okkur og biðja?  Sagði hann okkur ekki að við yrðum ekki frekar bænheyrð fyrir orðskrúð og mælgi; að Guð heyrði í raun bænir okkar áður en við bæðum?  Hvers vegna voru allir að hamast við að akta þvert ofan í þessi orð?

æðra sjálfÞessar spurningar þutu um hormónaþrútinn uglingshugann og engin svör voru gefin.  Ég fékk aðeins ákúrur frá prestinum fyrir að geta ekki farið með trúarjátningartugguna utanað.  Tuggu, sem ku hafa átt að skilja milli feigs og ófeigs í framtíð minni sem barni Guðs.  “Jón minn, ætlar þú ekki að fermast?”  spurði sálnahirðirinn Sigurður, þegar ég gat ekki jarmað í kór við auðmjúk lömbin.  Ég var ekki viss.  Ég gat ekki séð að einhver vindhögg og þulur frá Sigurði gætu tryggt mér eilíft líf eða gefið mér lífsins kórónu??  Hvað sem það nú þýddi.

Einn daginn, þegar ég var að ganga til prests, eins og það var kallað,  þá sá ég hvar hrafn skoppaði á milli legsteina með eitthvað nefinu.   Ég var eilítið hjátrúaður og fannst hrafnar og kirkjur ekki boða gott saman.  Ég baðaði því út höndum og hussaði kvikindið á brott.  Hann missti úr nefinu, það sem hann hafði verið að kroppa í og ég slæmdist til að athuga hvað það var.  Það fór um mig ískaldur hrollur.  Þarna var fingurkjúka af manni með nögl og skinntutlum, skorpnuð og moldug.  Krummi hafði verið róta í uppmokstri nálægrar grafar.  Grafarinn Svenni Skotti hafði líklega slæðst yfir í eldri gröf í mokstrinum.  Ég tók fingurinn með hryllingi, stakk honum í vasann og hélt til kirkju.  Ónotin hrísluðust um herðar mér og eitthvað sagði mér að þetta væri ekki rétt.  Þessi hvíslandi rödd, sem ég síðar vandi mig á að óhlýðnast. Þarna var hún skýr.  Í andyri kirkjunnar tók ég fingurinn því upp og hugðist losa mig við hann.  Þá sá ég stórbrotnar skóhlífar séra Sigurðar á ganginum og án neinnar rökrænnar ástæðu, henti ég fingrinum ofan í aðra þeirra.  Svo gekk ég til lexíunnar og gleymdi þessu.

símiÍ næsta tíma var mikið uppistand út af þessu og gamli maðurinn virtist augsýnilega skekinn af þessum djöfulskap.  Fáir aðrir komu til greina en ég, þegar slíkt gerðist, svo ég játaði þetta.  Þegar heim kom hafði ég ákveðið að fermast ekki. Því fylgdi mikil togstreita og tilfinniningahiti í fjölskyldunni.  Fyrst voru það bölbænir, hávaði og skammir.  Ég var ættarskömm sem aldrei myndi rísa til neins, vanþakklátur, illyrmi og liðleskja.  Svo breyttist þetta í mýkri eftirgangssemi og loforð um  fé og frið.  Verst þótti mér að undirbúningur móður minnar var unnin fyrir gýg og hve það særði hana djúpt.  Fyrir hana lét ég undan. 

Fermingardagurinn var alger kvöl og á fermingarmyndunum má sjá þetta þvingaða bros og miklu ónot.  Fjólublá aðsniðin jakkafötin og víðu buxurnar.  Flauelsslaufan, bleika blúnduskyrtan, þykkbotna blöðruskórnir og kláðinn undan gerfiefnunum.  Allt jók þetta á hryllinginn.  Veislan og kurteysishjalið var þvingandi og mér fannst ég hálfpartinn þjófur að taka við peningunum og gjöfunum undir þessum fölsku forsendum.  Ég lék þó hlutverkið til enda og laug með öllu mínu atgerfi og orðum.  Orðin klingdu í eyrum mér og minntu mig á þann hálfveruleika, sem ég var hér með að ganga inn í.  “Velkominn í fullorðinna manna tölu.”

gleðiÍ dag á ég trú, sem ég fann við að fara mínar eigin leiðir inn í blindgötur lífsins.  Hundsa í öllu mína betri vitund og þykjast geta ráðið vegi mínum sjálfur.  Það gerði ég og glataði öllu.  Allt, sem ég þóttist vera, eiga og skilja varð hjóm eitt.  Allt, sem ég hengdi mína sjálfsvirðingu í var frá mér tekið og þá fyrst var sem vitund mín opnaðist upp á gátt.   Röddin að baki huganum fór að heyrast og kjaftavaðallinn í höfði mínu þagnaði.  Ég hafði verið fjarverandi eigið líf í iðrun gærdagsins og áhyggjum morgundagsin.  Fjarverandi lífið sem á sér stað hér og nú á meðan ég dreg andann.  Ég var svartur hnútur uppi í höfðinu mínu, fullur ásökunnar og biturðar, dómhörku og fordæmingar, öfundar og sjálfsvorkunnar.    Í dag er ég heill.  Í dag ljómar sál mín útyfir líkamleg mörk eins og í árdaga.  Í dag þarf ég ekki að verja neitt né þrátta um neitt, óttast neitt né kvíða neinu.  Í dag finn ég bara ótakmarkaða elsku.


Geimfarinn Ég.

fæðingÉg fæddist andvana.  Skaust í heiminn slímugur og blár.  Líktst einna helst ofvöxnum mjólkurgerli með mjúkum og fitugum fellingum.  Fjólublár væri nær lagi.  Augun voru undrandi og opin og forviða sálin skygndist út.  “Hjálp! Stjórnstöð! Það er eitthvað mikið að!”

Ljósin blinduðu, fjarlægar slitróttar raddir, skrölt og skellir, ærandi heimur. Klippt á lífæðina. “Eruð þið brjáluð! Sjáið þið ekki að ég er í vanda!” Þessi geimbúningur var ekki að virka. Öndunarvegurinn var stíflaður og næringardælan titraði og hökti og náði ekki upp takti.  Ekkert  súrefni, enginn bruni.

Ég varð að losa mig úr þessari prísund, nota neyðarútganginn; mjúka blettinn á kollinum.   Svífa mót alvitundinni að nýju og gera mig klárann fyrir aðra lendingu á öðrum stað í öðru heimshorni eða í öðrum heimi.   Verða kannski Arabastrákur eða Kínversk bóndadóttir, Klingon. Eitthvað allt annað en þetta!  

Ég var tekinn upp á fótunum og sleginn duglega í bakið hvað eftir annað.  Svo var mér dýft í fullan bala af köldu vatni; flengdur og hristur og slanga rekinn ofan í loftrásina.  Þá losnaði um stífluna.  Ég kúgaðist og kokaði, slímið gekk upp og ég dró með áfergju að mér ertandi loftið fullt af sótthreinsiefnum og mannaþef.  Brjóstið og kviðurinn þandist út og dælan hrökk í gang.  Súrefnið þaut út í æðarnar, fingurna og tærnar.  Ég hóstaði upp slímidreggjum og dró svo að mér loftið að nýju eins og fýsibelgur.  Gargaði af allri þeirri orku, sem ég gat dregið til. Herptist saman eins og ánamaðkur og gaf allt sem ég átti í öskrin.  Nötraði og skalf. 

fósturRisastórir hrammar héldu mér á lofti, skelfilegar stórar grímur glenntu sig og geifluðu, stórir sálargluggar, blóðsprungnir, óþefur, stingandi ljósnálar, ærandi kliður, nístandi kuldi.  Ég klemmdi aftur augun,  svo þessi skelfilega martröð hyrfi; þandi mig enn meir.  “Ég er hættur við! Sæki um afturköllun leiðangurs, núna!”

Ég flaug í gegnum loftið, var klappaður í bak og fyrir með grófri dulu.  Gargaði.  Hakan skalf. Loks sveif ég inn í vermandi áru sem umlék mig eins og ósýnilegur líknarbelgur.  Ég drakk í mig ylinn eins og svampur.  Sefandi straumur fór um mig allann; sláttur stórrar dælu, titrandi bringa. Aaaaææ.  Blíðleg rödd, gleði, hamingja.  Ó, hvað þetta var notalegt.  Þvílíkur léttir. Ég sefaðist og dró í mig ástina, reyndi að rýna út um bólgin augun.  Var líklegast eins og drykkfelldur boxari í framan.

Hmmm?  Sjá þessi fallegu hvolf.  Hvað var þetta svona glansandi og mjúkt?  Og þarna efst var safaríkt snuð sem ilmaði sætlega.  Matarbúr,  stútfullt af næringu og topurinn passaði akkúrat í munninn.  “Þú þangað.”- kallar stjórnstöð. Aaaaaaaah.  Glúgg, glúgg, glúgg. Mmmmm... ég var banhungraður eftir ferðina, ætlaði að drekka eins og ég gat.  Nóg til.  Varatankur klár ef þessi dygði ekki.  Heit mjólkin rann ljúflega niður með öllum þeim nauðsynlegu gerlum og næringarefnum, sem ég þurfti á þessu augnabliki.  Allt til að koma meltingarflórunni af stað í búningnum.  Sérhannað orkuskot fyrir mig.

geimbarnÉg var á áfangastað. “Örninn er sestur.” Kunnugleg sál á sömu tíðni og ég, rann saman við mína.  Sama sál og kallaði mig til sín fyrir níu mánuðum þegar ég var allt og ekkert í sömu mund, bara orka, tifandi orka.  Tíðnin hafði skyndilega farið að aukast og ég varð að litlum orkuhnút, tifaði hraðar og hraðar og var aðgreindur frá annari orku í hinu endalausa krafthafi.  Öðlaðist form, ósýnilegt en aðskilið öðru. Svo svisssj...

Ég þaut mót silfruðum og ljómandi hnetti.  Tíðni mín átti samsvörun þar.  Einhverstaðar þarna uppi við snæhvíta kollhúfu.  Helftin af mér dró mig til sín á margföldum ljóshraða.  Sama tíðni sækir að sömu tíðni.  Plús, mínus og sameindin ég.   Þannig virkar það.  Svo kom kyrrð, sæla, sátt, jafnvægi og friður.  Ég varð vitund, vaknaði og samlagaðist til að fullkomna þrenninguna sem myndar líf.  Hýsil.  Geimbúning fyrir mig.  Fruma, sem varð tvær frumur, fjórar, átta, sextán, þrjátíu og tvær, sextíu og fjórar...

Nú var ég orðinn heilt flykki, sem lá eins og kökkur á öðru ennþá stærra flykki; dró í mig næringu og líforku.  Bíddu nú við? Þarna var eitthvað.  Hrukkuð pylsa með litlum pylsum út úr endanum? Var þetta tengt mér? Já!  Þarna hreyfðist einn dindillinn á endanum og annar!  Var það ég sem gerði þetta?  Prófum aftur.  Einbeita sér. Upp með þennan minnsta.  Já!  Hann hreyfðist!  Og svo öll pulsan. Ja, sko til.  Þetta má nota.  Þrýsta á forðabúrið, aaaaah.  Meiri mjólk.  Ég gat stýrt búningnum!

spacewalkÚff, hvað maður var örmagna. Höfgin sveif yfir og ég leið inn í lítinn straumhnút í höfðinu og skynjaði ekkert fyrir utan; lét sjálvirkan búninginn sjá um rest.  Varla annað hægt en að kúpla sér frá eftir svona streð.  Fljúga um gömlu heimkynnin um stund. Hitta aðra orkubolta.  Fá góð ráð. Vinna úr reynslunni.

Ég gerði síðan lítið annað en að sofa í marga mánuði eftir þetta, svo örmagna var ég.  Vaknaði bara til að drekka í mjólkurbúinu og fá hleðslu frá móðursálinni.  Ef hún var ekki innan seilingar, þá var bara að beita sama bragði og leiddi mig að henni fyrst.  Öskra.  Það klikkaði ekki.  Segið svo að maður læri ekki neitt.

Þetta var betra meðan búningurinn var í frumhönnun. Þá var ég tengdur beint við móðurskipið og sveif um í vökva, sem hjálpaði til við mótunina.  Það þurfti mikla orku í þetta, svo það var ekki um annað að ræða að hafa hægt um sig; í mesta lagi að liðka einn og einn skanka.  Annars hafði ég það náðugt og hlustaði á hjartslátt aðaldælunnar og stillti litlu dæluna mína við hana.  Hlustaði á fjölbreyttann titring og blæbrigði hljóða, sem bárust gegnum vatnið. Heyrði ekkert, fann það bara og skemmti mér oft konunglega. 

geimgangaSvona búningur er vandasmíð og það eru skrilljónir frumna, sem koma til verks, hver með sitt sérstaka hlutverk.  Einstaklingar sem ræða sín á milli.  Samhæfing.  Frumur, gerlar, bakteríur, örverur.  Heilu herfylkin.  Búningurinn er í raun ekki ein heild, heldur risastórt samfélag, sem vinnur saman í fullkominni verkaskiptingu og það er brjálað að gera.  Melta þetta, losna við hitt, byggja, bæta, breyta, uppfæra.  Stöðugt samband við verkstjórn. Verkstjórn tekur leiðbeiningar frá stjórnstöð, kemur þeim til skila,  hagræðir, flytur, rekur áfram, gefur frí, heldur þrýstihópum í skefjum, hendir vitleysingum út, kallar á nauðsynleg byggingarefni frá móðurskipi.  Ótrúlegustu pantanir: Rjómaís, eldspýtnabrennisteinar, súkkulaði, sígarettuaska, sítrónur...

Ég hélt mig til hlés og lét meistarana um verkið.  Saug mest þumalinn og velti mér til að beiðni stjórnstöðvar.  Svo kom kallið.  Vökvinn tæmdist skyndilega út og ég klemmdist, nuddaðist og kúldraðist.  Þvílík glíma.  Svo kom þessi hryllingur, sem ég lýsti.  Ekki að furða þótt það tæki tímann sinn að jafna sig af áfallinu.  Ég hafði varla orku í annað en að melta mjólkina. Varð að hægja á allri annari starfsemi á meðan og sofa, sooofaaa....

stjörnuþokaKroppurinn var óttalegt slytti til að byrja með.  Ein hreyfing tók alla einbeitningu og orku.  Maður hélt ekki haus.  Hann lagðist bara til hliðana, aftur eða fram eins og hnoðdeig.  Útsýnið var þokukennt og takmarkað.  Í fjarska voru aðrar verur eins og reykjarslæður.  Raddirnar klingjandi eins og langt í fjarska. Nær sá ég jú hendurnar, athugaði hvernig þær brögðuðust ef ég var svo heppinn að hitta upp í munninn á mér.  Það var ekki auðvelt.  Ég remdist við að halda þeim inni í þröngu sjónsviðinu en þær hentust út úr því með skrikkjum, þar til maður náði að einbeita sér nægilega til að hafa þær í fókus.  Lyfta brúnum, setja stút á munninn, sprikla smá ooog...upp í túllann! 

undrunHendurnar voru til margs nýtilegar og mátti með lagni grípa í sængina og allskyns dót og færa þetta allt í munninn, slefa og smakka.  Flest var algerlega óætt.  Samt var sumt þægilega kalt og svalandi undir góm.  Sérstaklega það sem mömmusálin færði mér.  Það hringlaði og var níðþungt og oft sló maður sig duglega í hausinn með því þegar maður reyndi að koma því ginið óseðjandi.  Annað var utan seilingar og það gerði mann alveg rangeygðan af einbeitingu við að reyna að grípa.  Hvílan mín var til dæmis með fullt af fallega litum myndum, sem ég reyndi að ná í til að smakka; reygði mig og sveigði þar til einn daginn að Ég var allt í einu oltinn á kviðinn.  Þá var ég búinn að ná því.  Teygði út skankana og ruggaði á kviðnum. Spriklaði. Myndirnar náðust samt ekki úr tauinu sama hvað ég kroppaði.  Það var vonlaust að reyna að kjamsa á þeim.

Neðar á mér var annað par af höndum, virtist vera.  Þær voru svolítið klunnalegri og óþjálli.  Maður gat gripið í hitt og þetta og þeytt til,  en haldið var slæmt.  Ég boxaði því bara og hjólaði með þessu út í loftið.  Það var oft bara heljarinnar stuð.  Þarna niðri var ég líka settur í grófa og óþægilega dulu, sem ég skildi ekki meininguna með.  Svipað þægilegt og nærbuxur úr hessianstriga ef þið eruð að pæla í því. Fáránlegt átfitt.

skoðaMaður lak soldið hér og þar.  Ef ég var látinn fljúga upp að barmi móður minnar, rann stöðugur slefutaumur út um allt. Maður var jú oft svo stútfullur eftir matinn og ekki var sérstaklega varlega með mann farið.  Maður gleypti stundum loft í áfergjunni sem bólgnaði eins og bolti í bumbunni.  Þá var klappað létt á bakið og boltinn losnaði út um stútinn með ansi fyndnum hljóðum.  Stundum kom slatti af mjólkinni með og  þeir gátu sjálfum sér um kennt, sem ekki höfðu breitt á sig tusku áður.  Það var óskaplegur léttir að losna við þennan þrýsting.  Þá gat maður eiginlega fyrst látið líða almennilega úr sér eftir matinn. 

Verra var það sem kom út að neðan.  Stundum stóð glær bunan út í loftið og ef það var ekki þrifið fljótlega þá sveið manni í húðina, sem var jú afar viðkvæm og pen.  Verst var þó hitt.  Hnúturinn í mallanum, sem spennti mann allan svo upp og pirraði.  Eina ráðið til að losna við hann var að rembast þar til maður var orðinn eins og eldhnöttur í framan; draga armana að sér og hnykla brúnir, setja stút og munninn. Nötra smá. Þá skutlaðist þetta út, heitt og klístrað.  Og brælan maður!  Það var ólýsanlegur fnykur fyrir svona fínt fölende nebba og var bara um eitt að ræða til að losna undan honum.  Öskra.

Öskur var óbrigðult.  Maður vildi samt geta verið nákvæmari, þegar manni vantaði eitthvað. Það dugði oft að skæla smá eða æmta svona: íh,íh.  Þá fékk maður athygli, en var oftast miskilinn.  Maður var kannski að kafna úr hita og æmti og þá kom einhver og pakkaði manni bara fastar inn í sængina, svo maður gat sig hvergi hrært.  Þá var þó alltaf lausn að garga.  Það dugði til þess að maður væri tekinn upp úr svækjunni; hossað og klappað.  Hressandi tilbreyting líka.

barn og stjörnumerkiÞað var blendin tilfinning að fá heimsóknir.  Geiflaðir munnar, fettur og brettur með allskyns óhljóðum kúi og frussi.  Óþægilega nærgöngult á köflum.  Oft mjög óvænt og illa þegið en flestir voru samt óborganlega fyndnir þegar á reyndi og það ískraði inni í manni við að sjá þessar kúnstir.  Það var hægt að grípa nebba og þreifa á krumpuðu og hrjúfu skinni.  Klípa smá. Stinga sig á skeggi. Oft var lyktin ansi römm frá þessum sálum og úr sumum kom reykur, sem kitlaði mann í nefið.  Fyrsti smókurinn.  Aaaatsjú!  Ég varð ég algerlega forviða við fyrsta hnerrann.  Hentist til og herptist saman og sá sveimandi ljósflekki fyrir augum.  Svo var þetta BARA fyndið. 

Félagskapur var annars oftast vel þeginn.  Maður var mikið einn að pæla í puttunum, dinglumdaglinu fyrir ofan sig eða myndunum á sænginni.  Það var jú oftast nóg, en hitt var skemmtileg viðbót og það streymdi oftast hlýja frá þessum sálum.  Það var helst að manni brygði við þessar sem komu með tildur á nefinu og glerhlunka, sem gerðu augun allt, allt of stór.  Þá var lítið annað að gera en hrifsa eldsnöggt í þetta drasl og þeyta því í burtu.  Oftast var vel í slíkt tekið.

Ég lærði fljótt að apa hljóðin upp, sem sálirnar gáfu frá sér.  Aaaaaa.  Mmmmm. Úúúú.   Það var þægilegt að finna titringinn í brjóstinu og æfa sig.  Þetta fékk líka góðar undirtektir.  Móðursálin var með sérstaklega blíð hljóð.  Það var auðvelt að framkalla þau.  Fyrst hummaði maður með lokaðann munninn. “Mmmmm.”; svo opnaði maður. “Aaaaaa.” Það virkaði vel saman.   “Mmmmaaaaammmaaa....”  Sló raunar algerlega í gegn.  Maður lifði lengi á því númeri og fékk allt upp í hendurnar fyrir tilstilli þeirra töfrahljóða.  Mammaaa.

 


Meiking Off.

FilmCrew_5886Eitt kjánalegasta fyrirbærið  í annars smákjánalegum kvikmyndaiðnaðinum, eru myndirnar, sem gerðar eru um myndina og kallast “Á bak við tjöldin.” eða “Making of.”

Í þessum myndum er sjálfhverfa draumasmiðjunnar holdgerð svo um munar.  Í fyrsta lagi þá er sjónum neytenda beint að því hversu ofboðslega mikið mál það er að búa til bíómynd.  Hvað margir fagmenn koma að verki og hve mikil sérkunnátta er á ferð.  Hvað menn eru ógizzlega pró. 

Með þessu er áhorfandinn þó rændur því sem í raun er eða var upphaflegur tilgangur kvikmyndarinnar, það er að segja sögu. Hann fer að pæla í smáatriðunum eins og leikmyndum, lýsingu og brellum í stað þess að lifa sig inn í hremmingar sögupersónanna. Var regnið í senunni svolítið yfir strikið eins og oft vill brenna við?  Blakti veggurinn, þegar hurðinni var skellt?  Var þetta hljóðnemi sem læddist þarna inn í hægra horninu efst?   Skrímslið var svolítið stirðbusalegt að sjá og við ímyndum okkur víra, slöngur og menn með fjarstýringar.  "Djöfull var þetta nú “krömmý” digitaleffect."  Draumurinn og innlifunin í frásögnina er trufluð eða alveg eyðilögð með þessum inngripum rökhugsunarinnar.  Svo eru það viðtölin við snillingana. Þau eru alger kapítuli út af fyrir sig.

Fólk, sem vinnur við það að þykjast vera eitthvað annað en það er og segja það, sem þeim er sagt að segja,  er ekki mjög sannfærandi þar sem það situr afslappað og sjálfumglatt,  mærandi alla starfsmenn og samleikara í hástert.  Þeir vita líka að þeir eiga von á hinu sama frá þeim.   Lofið er yfirgengilegt og orðin snillingur og virtúós er notað oftar en almenn tengiorð.  Leikstjórinn hefur yfirnáttúrlegt innsæi og fangar sannleikann og augnablikin af meistaralegri næmni.  Leikararnir eru allir að gera eitt af sínum bestu verkum og sýna að sama skapi mikla snilld, innsæi og persónutöfra, svo ekki sé talað um fagmennsku. 

MOVIESTAR 2Þessi hópur virðist algerlega hnökralaus sem manneskjur og fagmenn.   Téð mynd er undantekningalítið saga, sem mun breyta sýn fólks á lífið og jafnvel heiminum, hvorki meira né minna.  Aldrei er sagt styggðaryrði um einn né neinn og engir mannlegir brestir virðast komast upp á yfirborðið á meðan á tökum stendur.  Það er eins og fólk nái að halda slíku í sér.  Þetta er hljómar hreinlega eins og á alsæluökrum himnaríkis.  Algerlega ójarðneskur vinnustaður.  Þvílík öfundsverð gæfa, sem þetta fólk nýtur.

Mín reynsla segir þó að þetta sé alls ekki algilt, svo varlega sé orðað.  Margir leikstjórar eru dintóttir og sjálfhverfir í meira lagi.  Þeir borða oft ekki sama mat og aðrir, missa þolinmæðina fljótar en flestir og hafa nánast ekkert samneyti við þá, sem eru neðar í goggunarröðinni.  Þeir fara í fýlur eins og börn og láta aðra um að gagnrýna starfsmennina fyrir sig.  Sumir eru svo viðkvæmir artistar að sólin þarf að setja sig á sporbaug um þá svo þeim líki.

Leikarar eru oft hinar verstu flækjur og eru alltaf að mæla sig við aðra leikara og tala illa um frammistöðu þeirra.  Þeir eru misskildir og þola illa kulda og átök.  Það þarf að stjana stöðugt í kring um þá, vefja þá teppum, gefa þeim heitt að drekka, sækja hitt eða þetta.  Þeir vilja ekki svona mat og hinsegin kaffi eða te, eru misskildir og þjáðir listamenn í sálarkreppu yfir því hvernig þeir eiga að túlka göngu sína inn um dyr í næstu senu.

film-crew_2Margir skipa fyrir til að skipa fyrir. Færa þetta hingað, lyfta þessu, sækja þetta, henda hinu.  Þetta er gert til að láta alla vita að menn eru á tánum og kallast busy doing nothing.Litlu mennirnir þeytast til og frá og eru oftast að gera það sem litlu máli skiptir, bara svo að stjörnunum líði betur. Þessir litlu menn eru þó rosalega pró, sem sjá má á því að þeir eru með alskyns dót hangandi utan á sér. Vasaljós, fjölnotahnífa, skrúfvélar, talstöðvar, síma og skrúflyklasett.  Flestir eru í North Face göllum upp á tugi þúsunda, þótt nokkrir séu í North Fish frá rúmfatalagernum á 999.  Merkin skipta máli og sumir þekkja sinn vitjunartíma og mæta ekki í flottari átfitti en brassið.

Leikmyndasmiðir færa, bera, skrúfa og líta á sig sem kvikmyndagerðarmenn.  Þó á þessi  vinna fátt skylt við það.  Eins er með ljósamenn og tæknilið.  Það eru burðarjálkar, sem bera rafmagnsspenna, sandpoka, níðþunga ljósastanda og kastara eftir skipunum kvikmyndatökumannsins.  Þeir titla sig líka kvikmyndagerðarmenn.  Það er sjaldnast mikla snilld að sjá í neinu.  Allavega ekki eins og lýst er í myndinni um myndina.  Þrældómur og tilgangslaust hangs á víxl og undirliggjandi ergelsi og þreyta.  Hlutfall stórreykingamanna í þessum hópi er svipað og meðal sjúklinga á Kleppi enda er slíkt sammerkt með hugsandi fólki.

Framleiðendur eru kenjóttir og frekir og láta sér fátt um allan þrældóm finnast.  Allt sem skiptir máli er að spara peninga og ef einhver kvartar, þá segja þeir þeim að finna sér eitthvað annað að gera.  Þeir reka fólk og ráða og reka áfram inn í lengri vinnudaga á forsendum listarinnar, en hafa þó ekki hundsvit á því hvað list er, frekar en ég.  Þeir bjóða kunnáttulausu fólki að vinna frítt til að byggja upp ferilskrá, sem enga þýðingu hefur í raun.  Þetta á ekkert skylt við myndina um myndina heldur. Svona hefur þetta allavega horft við mér svona innanfrá séð.  Kannski hef ég bara verið svona óheppinn með prójekt?

Hvers vegna skyldu aðrar greinar ekki taka þessa nálgun upp líka?  Rithöfundur getur vaðið á súðum um tákn og vísanir í bókinni, sem hann er að skrifa og rómað útgefandann. Útgefandinn getur rómað rithöfundinn og prentararnir geta tjáð sig um hve gefandi það er að prenta bækur fyrir viðkomandi og rómað þá líka.

fron_mjolkurkexKexverksmiðjan Frón gæti til dæmis gert svona mynd um kexbakstur, þar sem Jói á hrærivélinni getur rómað Bjössa á ofninum, Sigga á hnoðaranum og Sollu í pökkuninni.  Framkvæmdastjórinn getur svo rómað alla hina og fengið lof fyrir innsæi listfengi og persónutöfra frá þeim.  Jafnvel Lúlli á lyftaranum fengi sitt skjall.  Án hans hefði þetta ekki verið mögulegt.  Við fylgjum bökunarferlinu frá því að hveitipokanum er hellt í síló og þangað til kexpakkanum er pakkað.  Inn á milli er klippt í vitnisburði starfsfólksins um handtökin og færni viðkomandi í þeim.   Í búðum væru svo stór plaköt með þessu fólki í aksjón undir yfirskriftinni “Frón kynnir!  Úr smiðju þeirra sem færðu okkur Kremkexið!  Einhvert frábærasta Mjólkurkex allra tíma!  Nýjasta sköpun Júlla famkvæmdastjóra.  Hræra: Jói.  Hnoðun: Siggi.  Bökun: Bjössi Bakari og teymið frá Fróni!”

Ekki veit ég hvort það myndi eyðileggja nautnina af kexátinu í sama mæli og myndin um myndina skemmir fyrir okkur kvikmyndaupplifunina.  Það gæti þó jafnvel haft vafasöm áhrif, ef við fengjum að fylgjast pylsugerðarmönnum eða pizzubökurum vinna sín ódauðlegu listaverk. 

Hvað sem öðru líður, þá værum við sennilega jafn nær um gæði vörunnar og við erum nær um gæði myndanna eftir að hafa horft á Meikíng Off. 

Kannski er þetta ástæðan fyrir minnkandi aðsókn á bíó.  Minnugur þess hvað henti Narcissus greyið þegar hann dáleiddist af spegilmynd sinni og féll í vatnið og drukknaði, þá held ég að það sé ekki fjarri lagi.

 


Þegar Ég fór Í Stríð Fyrir Ísland II. - Forlögin bregða á leik.

Við DjúpavogHér kemur framhald fyrri færslu minnar um reynslu mína í 200 mílna þorskastríðinu.

Ég var vakinn snemma morguninn eftir og mér færð brauðsneið og kaffisopi. Mér leið undarlega og fannst eins og að mig hafi dreymt allan þennan hildarleik.  Týr var kyrr og ljósavélarnar möluðu vinarlega. Mér fannst ég þurfa að fara á fætur, það væri ekki sanngjarnt gagnvart öðrum að ég lægi þarna í makindum og væri þjónað til sængur. En bakið var stíft og bólgið og ég gat mig hvergi hrært.

Kærnested kom inn spurði vinalega um líðan mína og sagði mér að ég yrði settur í land til að koma mér undir læknishendur. Þetta var í síðasta skipti, sem ég átti orðastað við hann og finnst mér það miður í dag að ég skyldi aldrei komast til þess að þakka honum fyrir. Skömmu síðar var ég aðstoðaður við að klæða mig og var studdur út. Ég náði ekki að tylla niður fótum, því þá blossaði logandi sársauki upp í mjóbakinu. Ég var því borinn í einskonar gullstól út á dekk. Það var eilítið mistur og morgunloft, sem jók á draumkennt ástand mitt. Menn voru þöglir og tíminn virtist hafa vikið sér frá um stund þarna í mynni Berufjarðar. Spegilsléttur sjór og fjarlægt kýf í mávum jók á þessa yfirveraldlegu tilfinningu.

Mín beið örlítil trilla með tveimur litlum drengjum, varla meira eða 10 eða 12 ára. Ég varð svolítið undrandi.  Vað var brugðið undir handakrikana á mér og ég var látinn síga niður í trilluna. Sársaukinn í skrokknum var yfirþyrmandi en ég sagði ekki orð.  Svo var duggað með mig í kyrrð inn á Djúpavog. Strákarnir mæltu ekki orð og voru ábúðafullir og niðurlútir eins og ferjumaðurinn á Styx.  Mín beið Landroverjeppi á bryggjunni og ekki var hræðu að sjá utan bílstjórans. Ég var hífður upp á bryggju og lagður aftur í skott á jeppanum. Mér fannst þetta allt svo óraunverulegt en fann til feginleika við að kúldrast þarna við söng gírkassans. Þetta var allt hálf skoplegt í raun.  Mér var dröslað inn á læknisbústað eða heilsugæslu, þar sem ég var lagður á bekk í eða við andyrið.  Þar fékk ég að vita að enginn læknir væri á staðnum en það væri þó bót í máli að augnlæknir var einmitt vísiterandi í þorpinu og hann veitti mér aðhlynningu og greiningu. Í ljós kom í samtali okkar að hann var frá sama bæ og ég og að hann var skólabróðir og uppeldisfélagi föður míns. Niðurstaða hans af greiningunni reyndist síðan alveg rétt síðar meir, þótt það tæki her lækna að staðfesta það á Borgarspítalanum síðar. Ég var ekki lamaður, bara bólginn og tognaður.

Ekki man ég hvað ég var þarna lengi en ég hlýt að hafa blundað þarna á bekknum, því ég var vakinn og mér sagt að sjúkraflugvél biði mín. Svo var hossast með mig á Landrovernum út á einhvern flugvöll, þar sem lítil rella beið mín.  Þetta var þriggja farþega smávél á vegum Morgunblaðsins, sem hafði komið þarna með blaðamann blaðsins og Ragnar Axelsson ljómyndara, sem var kornungur og efnilegur ljósmyndari. Ég fékk sem sagt að húkka far með þeim.

rellaMér var troðið í aftasta sæti vélarinnar og svo var flogið af stað. Blaðamaðurinn tók við mig stutt viðtal og Raxi tók mynd af mér, sem birtist í blaðinu daginn eftir, undir fyrirsögninni: “Hélt að Tý myndi hvolfa.” Þegar ég skoða þessa mynd, þá sé ég að ég var í rauninni bara saklaust og bláeygt barn, þrátt fyrir allar manndómsraunir mínar.

Á leiðinni fengu blaðamennirnir skilaboð um að keyrt hafi verið á Óðinn og brúarvængurnn tekinn af honum.  Stefnunni var breytt út á miðin og þar var farið í einskonar steypiflug yfir Óðinn og nálægar freygátur til að skrásetja atburðina. Ég gleymdist greinilega í þessum atgangi, því ég kuðlaðist niður á gólf og þurfti að vega mig upp í sætið með erfiðismunum eftir hverja dýfu. Þetta má segja að hafi verið einhverskonar óumbeðin sjúkraþjálfun, því þegar til borgarinnar kom, þá afþakkaði ég sjúkrabörur, sem biðu mín, og haltraði til sætis í sjúkrabílnum.

Á borgarspítalanum var ég í tæpa tvo daga og man ég hvað margir læknar og kandídatar voru í kringum mig.  Það var látið mikið með mig og ég vakti greinilega forvitni og athygli sem hetja hafsins og stríðsmaður í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.  Seinni daginn var ég orðinn nokkuð styrkur og fékk strætisvagnamiða í hendur, var bent á stoppistöðina úti, og sagt að ég ætti herbergi á Hjálpræðishernum. “Courtesy of the Icelandic Coast Guard.” Ég var allslaus fyrir utan eitthvað klink í vösum. Fermingarúrinu mínu hafði ég tapað og myndavélinni fyrir málstaðinn. Flestöll stráin stungu mig, stór og smá á jörðu.

Herbergið á Hjálpræðishernum var einskonar yfirstærð af fataskáp, sem náði faðmi að breidd og rúmri rúmlengd á hinn veginn. Þar var myglulykt og sængurfötin voru snjáð og blettótt. Ég var þó undarlega feginn þessu athvarfi og örmögnun helltist yfir mig, svo ég lagðist strax og sofnaði.

Það var komið fram yfir miðnætti, þegar ég vaknaði aftur. Mér var þungt fyrir brjósti og náði vart andanum. Skelfingarangist heltók mig og ég heyrði boðaföll sjávarins fyrir eyrum og raddir félaga minna á Tý. Herbergið tók að halla meira og meira og í örvæntingu minni skreið ég fram úr og út á gang. Þetta var svo raunverulegt. Allt hringsnerist fyrir höfði mér og ég skreið og skakklappaðist niður stigana og út úr hinu sökkvandi hóteli. Óljós rödd næturvarðarinns hljómaði á eftir mér: “Er ikke alt í orden? Er du full?

Úti hágét ég með ekkasogum og náði þó loks að draga andann í svölu næturloftinu. Enginn var á ferli. Ég var sem einn í heiminum og ég gat ekki og þorði ekki að standa kyrr.  Ég gekk því alla nóttina um borgina, upp að breiðholti og til baka aftur, fram og aftur, fram og aftur, eins og hrætt dýr. Ég róaðist undir morgun og veruleiki hversdagslífsins vaknaði í mér með borginni.  Ég fór inn á gamla Hlemm, sem þá leit út eins og potthlemmur í lausu lofti og hringdi vestur í föður minn úr tíkallasíma.  Ég hafði ekki heyrt í fólkinu mínu fyrr og sá gamli hafði bara fengið fréttir úr mogganum.  Hann var skekinn og áhyggjufullur og sagði mér að fara strax til bróður síns í Stangarholti og koma svo vestur eins fljótt og mér væri auðið.

Týr í denÉg fór svo niður í Gæslu til að ná mér í aur og mér er minnistætt hve ópersónulegt viðmótið var þar.  Mér var þó sagt að ég gæti mætt til vinnu um borð í Tý, sem yrði í slippnum, þegar ég treysti mér til.  Svo yrði athugað hvort annað pláss losnaði.  Ég var feginn að fá tækifæri til að dreifa huganum og vinna eitthvað og þáði þetta. Ég dvaldi svo einhverja daga hjá frænda mínum, sem veitti mér styrk og vináttu í nauð minni.

Týr tók ekki þátt í fleiri þorskastríðsbardögum. Hann trónaði þarna í slippnum með sundurtættan skrokk og úr honum runnu vatnstaumar líkt og honum blæddi. Ég mætti til vinnu og vaskaði upp, ryksugaði og þurrkaði af eins og mér bar.  Ég hafði þó ekki verið þarna lengi, þegar brytinn kom til mín fúllyndur og óvinveittur, reif af mér hnífapör, sem ég var að þurrka og sagði að ég hefði hvorki erindi né leyfi til að vera þarna. Hann víasaði mér frá borði og ég hef enn ekki skilið hvað honum gekk til.  Ég var aumur og meir eftir það sem á undan var gengið og andmælti engu, fann bara óskiljanlegt óréttlætið brenna mig í hjartastað. Þarna voru síðustu viðskipti mín við Landhelgisgæslu Íslands. Ég hef aldrei verið spurður um þessa atburði né verið dreginn til vitnis um neit,t sem að þeim laut. Jafnvel í bók Óttars Sveinssonar er nánast einvörðungu stuðst við gamlar blaðagreinar og talað við menn, sem sumir hverjir segja rangt frá eða eru uppfullir af einhverju óskiljanlegu kallagrobbi og hetjudýrkun.

Þegar ég hringdi í Óttar og innti hann eftir því af hverju hann hafi ekki talað við mig, þar sem minnst var á mig í bókinni, þá sagðist hann ekki hafa fundið mig. Það finnst mér hálfkæringsleg rannsóknarblaðamennska. Ein af rangfærslunum er sú að þyrluskýlið hafi verið lokað í seinni árekstrinum.  Ég var þarna á þyrludekkinu og fékk freygátuna nánast í fangið.  Þeir sem eftir lifa af þeim sem voru í skýlinu ættu að geta vitnað um það. Sjórinn í skýlinu var heldur ekki ímyndun ein. Kannski var það tryggingarmál að halda öðru fram, en nú finnst mér allt í lagi að leiðrétta það.

Ég var nokkra daga hjá bróður pabba til að ná styrk og stuðningur hans og hlýja voru mér ómetanleg á þessum erfiða tíma. Einn daginn þegar ég var á rölti þarna um Skipholtið, sá ég skilti úti á götu, sem sagði að þar færi fram inntökupróf í Myndlista og Handíðaskóla Íslands. Ég hafði alltaf verið listhneigður, svo ég fór þarna inn og spurði hvort ég mætti ekki taka þátt. Mér var sagt að ég gæti svosem skráð mig, þó seint væri, en ég skyldi ekki gera mér neinar grillur um að komast að. Yfir hundrað manns þreyttu þetta próf og aðeins um 15 til 20 kæmust í gegn. Ég sagði það aukaatriði, því ég hugsaði þetta aðeins sem tækifæri til að taka hugann af atburðum síðustu daga og sagði frá þorskastríðsþáttöku minni. Þetta var eingöngu hugsað sem sáluhjálparatriði.  Einskonar heimatilbúin áfallahjálp.

ÍsafjörðurÉg tók svo þetta próf og hlýt að hafa haft eitthvað til að bera, því ég komst inn í skólann og þar með urðu þessir atburðir allir til að kúvenda stefnunni í lífi mínu. Fyrir mér hafði ekkert annað legið en að verða sjómaður.  Pabbi gerði út rækjubát og ég hafði farið túra með honum frá 8-9 ára aldri. Ég hafði stundað sjóinn á smákoppum áður en ég fór í siglingar og líkaði aldrei vistin né það andrúmsloft hörku og karlmennskudýrkunnar, sem sjómennskunni fylgdi.

Að vísu fór ég túra eftir þetta á sumrin, en það var bara til að bjarga fjárhagnum og framfleyta sjálfum mér.

Ég hugsa stundum um hversu undaarlega forlögin höguðu ferð minni og hvaða áhrif þetta hafði á persónu mína og þroska síðar meir.  Skömmu fyrir þetta hafði ég verið lítill og áhyggjulaus drengur á gúmmískóm, sem naut hinna björtu sumardaga með vinum mínum á malargötum Ísafjarðar. Við sátum á björtum sumarkvöldum við spegilsléttann fjörðinn og fleyttum kerlingar við undirleik öldugjálfurs og kúandi æðarfugls. Það var friður í hjörtum okkar og lífið var himnaríki á jörðu.  Umskiptin frá æsku til ábyrgðar voru snögg og skyndilega var maður kominn mitt í iðu hinnar miskunnarlausu lífsbaráttu.

Fyrir vikið hef ég alltaf leitað aftur til þessarar kyrrðar og reynt að einfalda rök lífsins fyrir mér til samræmis því, sem ég upplifði í skjóli hinna bröttu fjalla. Afraksturinn er flókinn hugur og friðsæll maður, sem leitatst ávallt við að hreinsa hismið frá kjarnanum og upplifa augnablikið þar sem lífið á sér stað. Hér og nú. Framtíðin er ekki komin og á því ekki að vera áhyggjuefni. Fortíðin er farin og kemur ekki aftur nema í rósrauðum draumum æskuáranna.  Þetta ár var vendipunkturinn. Þetta var árið, sem ég breyttist úr barni í mann.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband