Kráarslagsmál og Kúkabílar.

Greenland_tasilaqHljóð berst langa vegu í kulda. Krystalkennt loftið ber fjarlægar fréttir af fjörbrotum íssins, sem umlykur eyjuna Ammasalik.  Með reglubundnu millibili byrja allir sleðahundar á svæðinu samtímis að spangóla ámátlega, svo undirtekur í ísauðninni og endurómar síðan angurvært í hjarta manns.  Þessi óvægjanldi einangrun á enda veraldar heltekur mann og maður undrast hvað það er sem nærir lífið og veldur því yfirleitt að nokkuð dragi andann í þessu tímalausa Ginnungagapi íss og ördeyðu.

Söngurinn frá kirkjunni berst um loftið á sunnudögum, hjáróma og skrækur en þrunginn djúpri tregablandinni tilfinningu einlægrar trúar og djúprar sorgar.  Minnti þetta töluvert á söng Pólinesíufólks og máski voru einhver óræð tengsl þar á milli. Ég ákvað að skreppa í kirkju.  Í messunni var ekki þurr hvarmur.  Jafnt börn sem gamalmenni grétu af innlifun þegar sunginn var “Hærra minn Guð til þín” á Grænlensku.  Andrúmsloftið var svo einlægt og persónulegt að mér fannst ég vera ómerkilegur aðskotahlutur og boðflenna, svo ég hafði mig burt.

Hotel AmmasalikTasilaq er höfuðstaður austur Grænlands en þó aðeins um 1.700 manna byggð, sem dreifð er holt og bolt um gróðurlaus klungur og kletta Ammasalikeyjar.  Aðeins má finna rennandi vatn á helstu opinberum stöðum.  Brunnar sjá flestum íbúum fyrir vatni.  Börnin bera vatnið upp snarbrattar og ísilagðar brekkurnar í plastbrúsum, brosandi út að eyrum.  Þau þekkja ekki annan veruleika.  Ég tók eftir því hvað þau voru oft illa klædd í þessum kulda, í hólkvíðum stígvélum, gammasíum og nærskyrtum einum fata.  Flest voru þau með hryglukenndan andardrátt, hósta og með horklepruð andlit.  Samt var eins og þau væru lýst upp að innan, píreyg opin og brosmild.  Kvefvírusinn er bara einn af menningaraukunum frá okkur bleikandlitum.  Mörgu fleira úr okkar arfi gæti þetta fólk gjarnan verið án.

Ég var þarna í rúmar tvær vikur á Hótel Ammasalik og hugðist koma í kring leikaraprufum fyrir Ikíngut með aðstoð Kristjáns Friðrikssonar.  Hann er einn af þeim sem þekkir þetta svæði best af okkur og hefur dvalið þarna oft og lengi. Ljósmyndir hans af mannlífinu þarna eru alger listaverk, sem hann hefur m.a. gefið út á bók. Hann var einnig frumkvöðull í því að flytja skólabörn til Íslands í sundkennslu þegar hann sá hve mikið var um að börn drukknuðu þarna. Þarna er ekki nægilegt vatn til að bjóða upp á sundlaug.  Allt rafmagn er fengið úr rafstöðvum og það, sem okkur þykir sjálfsögð lífsgæði er fengið með ærnum tilkostnaði og fyrirhöfn. 

yfirlitHótel Ammasalik er lágreistur skáli efst í þorpinu og minnir eina helst á vinnubúðir vegagerðarmanna en þegar inn er komið, þá er þarna nokkuð notalegt og hlýlegt hótelumhverfi.  Maturinn er þó ekki nema í meðallagi og jafnvel síðri en það.  Kjötið gamalt og þránað og önnur matvara að sjálfsögðu löngu kominn yfir fyrningartíma eins og ég hef áður sagt frá. Kokkurinn var drukkinn frá morgni til kvölds og var orðin uppáþrengjandi við gesti, þegar kvölda tók.  Hann veltist svo ofurölvi heim um tíuleytið en var kominn á vaktina klukkan hálf sjö á morgnana. Rétt er að taka fram að hann var danskur.

Barinn á hótelinu var lítill og þröngur og hafður í einskonar afhýsi af ástæðum, sem mér urðu skiljanlegar síðar.  Þar var aðeins seldur grænn Tuborg í litlum flöskum og svo að sjálfsögðu Ákavíti og örfáar aðrar brenndar tegundir.   Barþjónninn var gamall danskur skaphundur og leiðindaskarfur, sem hafði allt á hornum sér og fannst mjög gaman að því að sýna okkur hvernig ætti að tala við Grænlendinga.  Hann kallaði þá sleðahunda, svín og öðru þaðan af  verra og var oftast fyllstur allra.  Gargið í honum og hávaðinn var óþolandi.  Grænlendingarnir létu þetta yfir sig ganga með sinni einkennandi hægð, svo þeir fengju að drekka bjórinn sinn, því ekki leið barsvínið að honum yrði svarað.

Þarna mátti sjá sorglega birtingarmynd alkóhólismans í þessum reykfyllta endaþarmi alheimsins af bar að vera.  Grænlendingar drekka oftast sleitulaust þar til þeir standa ekki lengur eða tapa glórunni algerlega með áflogum og meiðingum.  Þeir eru ekkert sérstaklega mælskir á meðan á drykkju stendur og einbeita sér að “Bayernum” þess meira.  Eitt sinn reyndi ofurölvi kona að gera hosur sínar grænar fyrir mér og spurði hvort hún mætti elska mig.  Þegar ég reyndi að ljúga að henni að ég væri giftur þá hló hún með bakföllum, svo hún datt af barstólnum sínum. Hún var rassblaut að sjá, svo mér datt í hug að hún hafi pissað á sig.  Henni var hent út greyinu og þegar ég tók servíettu til að þurrka af stólnum, þá sá ég hvers kyns bleytan var.  Það var túrblóð.

sermiliqaqStundum rauk allt upp í áflogum fyrirvaralaust og þá náði karlsvínið á barnum í byssu og skaut púðurskotum upp í loftið.  Svo rak hann ófriðarseggina út með öskrum og svifyrðingum. Þá var farið útfyrir og haldið áfram að slást, svo blóðið lagaði úr mönnum.  Framan við barinn var brött og ísilögð brekka, sem lá alveg ofan í bæ.  Ef menn duttu í slagnum, þá súrruðu þeir niður brekkuna og sáust ekki meir.  Ég reyndi stundum að ganga á milli og tókst það, því merkilegt nokk, þá báru menn virðingu fyrir Íslendingum og héldu deilunum innan hópsins. Þetta minnti á stemmninguna á tímum gullgrafaranna í Klondike. 

Alkohólismi er alvarlegt mein meðal Grænlendinga.  Það er ábyrgðarhluti Danskra yfirvalda að leyfa þetta og efast ég stórlega um að slíkt sé réttlætanlegt á forsendum frjáls vals og mannréttinda eins og við gjarnan gerum.  Þetta fólk er líkamlega ekki í stakk búið fyrir þetta eitur og má nefna að rúmlega 80% Grænlendinga eru alkóhólistar að upplagi á meðan hlutfallið hjá okkur er um 15%.  Ég efast um að við myndum leyfa sölu á neinu efni, sem svo stórt hlutfall þjóðarinnar væri ofnæmt fyrir og legði menn jafn örugglaga í valinn og áfengið gerir þarna.

Þegar barnabætur eru greiddar út er engu líkara en allt þorpið fari á fyllerí.  Menn liggja afvelta um hóla og hæðir og uppi á húsþökum eða slangra um við kaupfélagið, sumir með skotvopn um öxl.  Það hvarflaði að mér að ein ástæðan fyrir barnamergðinni væri sú að hafa sem mest fé út úr danskinum. En hvað veit ég svosem?  Ég veit ekki nein úrræði í boði fyrir fólk á þessum glapstigum, þótt sjúkraþjónusta og skólar þarna séu annars til fyrirmyndar.  Þetta hlýtur að vera skelfilegt fyrir blessuð börnin líka að þurfa að lifa við þetta og bara í því tilliti er mér algerlega óskiljanlegt hvað Danskurinn er að hugsa í þessu augljósa grundvallarmáli velferðar á svæðinu.

sermiliqaq 2Á staðnum er skemmtistaður sem kallast Klubbimi eða Klúbburinn.  Hann er í gamalli skemmu, sem leikur öll á reiðiskjálfi við Grænlenskt teknó og kjagandi danslist.  Gólfið dúar upp og niður, svo grænu bayerflöskurnar hoppa ofan af borðum, jafn óðum og þær tæmast og skoppa um fyrir fótum manns.  Þarna sá ég þó aldrei nein illindi og voru þeir, sem ekki voru dauðir brennivínsdauða, glaðlyndir og hlýlegir að vanda.  Til að fara á Klúbbinn tekur maður stundum leigubíl.  Þeir eru einn eða tveir í Tasilaq,  pallbílar, sem fara hringinn og pikka upp fólk.  Svo er keyrt með skrensi og skoppi og sungið í heimskautanóttinni.  Þetta var vissulega gaman.  Bílar eru fáir þarna og nánast eingöngu gamlir Landcrucier pallbílar, sem voru beyglaðir allan hringinn. Þeir eru lítið á ferðinni enda bara notaðir til nauðsynlegustu atvinnuerinda.  Merkilegasti bíllin er kúkabíllinn.  Það er tankbíll með lúgum á tankinum, kúkabrúnn á lit og er hann notaður til að tæma kamrana við húsin.  Þarna keyra þeir á milli húsa og rölta svo með föturnar skvampandi á herðum sér og tæma í bílinn.  Þeim er varla klígjugjarnt þessum jöxlum, sem telja kæst og hleypt selsblóð vera sælgæti.

sermiliqaq 3Annað merkilegt við austur Grænland er að mállýska þeirra er alveg sér á parti.  Ekkert formlegt skrifmál er til fyrir þessa tungu en einskonar hljóðskrift notuð til að skrá hluti. Danskan er kennd í skólum en mér virtist þetta fólk ekki bregða henni fyrir sig nema í neyð. Þó mátti alltaf heyra dönsku tölurnar í Grænlenskunni því aðferð þeirra til að túlka tölur voru með handar og fingramerkjum að mér virtist en ekki samofin málinu.  Sjálfstæði þeirra liggur því enn í tungunni eins og hjá okkur.  Annað merkilegt upplifði ég varðandi þennan frjálsa anda.  Ég fór á smíðaverkstæði til að fá gerða kassa, sem ég þurfti daginn eftir.  Verkstæðisformaðurinn, sem var Dani, sagði mér að það yrði ekkert mál ef ekki yrði þess betra veður daginn eftir.  Ég hváði og þá sagði hann mér að ef skilyrði til veiða væru góð, þá gengu menn bara út án þess að spyrja kóng né prest og færu á veiðar.  Þeir eru svo samtaka í þessu að ekki þýðir að reka neinn.  Ég spurði mig oft þeirrar spurningar hvers vegna Danir væru yfirleitt að reyna að halda uppi sósíaldemókrataísku fyrirkomulagi í þessu samfélagi, sem byggði fyrst og fremst á náttúrulögmálunum.  Máski var það bara ógreiði við þetta góða fólk.

Ég fór nokkrum sinnum í flugtúra með Tómasi þyrluflugmanni, sem einskonar hleðslumaður og flugum við með vörur á nærliggjandi þorp eins og Isortoq, Kummiut, Ikkarteq og Sermiliqaq, sem er eina landfasta þorpið að því að mér skilst. Öll hin eru eyjar.  Þar eltu börnin mann um allt, klipu í andlit manns þegar maður settist og grettu sig framan í mig og hlógu. Tómas sagði mér að gömul trú manna þarna væri sú að bláeygt fólk hlyti að vera blint og þess vegna væru krakkarnir að gretta sig svona til að athuga málið.  Þau voru yndisleg og vinaleg og önguðu eins og grútarstampar þegar þau kúrðu sig að manni með vinarlegum hljóðum.  Mér leið eins og Kólumbusi hlýtur að hafa liðið, þegar hann steig fyrst á land í Ameríku.  Þetta var einhverskonar lítill og óraunverulegur ímyndunarheimur. Skólinn og kirkjan voru í sama húsi, sem var skemma með litlum klukkuturni. Hann var bæði notaður til þess að hringja til messu og inn í skólatíma.  Hin þorpin skoðaði ég minna en Kummiut er eini staðurinn, sem mér virtist vera einhverskonar markviss iðnaður.  Þarna var burðug fiskvinnsla og eru víst gjöful lúðumið þarna í sjó, sem ekki leggur vegna jarðhita.

Vörurnar sem við fluttum voru hégóminn einn og sannur. Sælgæti, kók, útvarpstæki, kartöfluflögur og video.  Allt útrunnið, sem útrunnið gat að sjálfsögðu.  Á heimleið í eitt skiptið flaug Tómas yfir gamla ameríska herstöð, þar sem allt hafði verið skilið eftir. Þúsundir af ryðguðum olíutunnum og ryðguðum skemmum.  Reynt hafði verið að fá Bandaríkjamenn til að greiða fyrir hreinsun á þessu, auk annarra náttúruspjalla þarna á svæðinu en því var mætt með daufum eyrum.  Þarna sá ég menn pjakka sér rás í gegnum ísinn fyrir bátinn sinn, sem hlýtur að hafa verið ægilegur þrældómur miðað við þá vegalengd, sem þeir höfðu farið.  Samt gáfu þeir sér tíma til að veifa glaðlega til okkar.  Lífið gekk sinn vana gang og streðið var bara eðlilegur hluti þess.  Þarna grétu menn ekki fjarveru betra hlutskiptis. Ég heyrð Grænlending aldrei kvarta né biðja um neitt, meðan ég dvaldi þarna og vann.

Þessi dvöl mín að vetrarlagi á Grænlandi mun aldrei renna mér úr minni og hafði hún svo djúpstæð áhrif á mig að ég verð aldrei samur maður eftir.  Ég lærði betur að meta það sem lífið gefur og treysta forsjóninni.  Lærði að ég er ekki drottnari náttúrunnar, né náttúran drottnari minn, heldur erum við eitt og hið sama. “Asjavatsí”, segi ég við vini mína á heimsenda. Ég elska ykkur.
 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elín Arnar

Alltaf notalegt að kíkja hingað í heimsókn og lesa aðeins fyrir háttinn

Elín Arnar, 10.8.2007 kl. 00:42

2 Smámynd: Fríða Eyland

Takk fyrir, fróðleikinn.

Fríða Eyland, 10.8.2007 kl. 11:16

3 identicon

Mikið svakalega lýsir þú þessu vel Jón Steinar. Fyrir utan augljósa rithæfileika og næmni fyrir öllu þessu mannlega þá virðist þú hafa frábært minni. Ég var á rækjuskipi við veiðar út af Nuuk árið 1985, og eins og þú veist vel, þá lá ég ekki á liði mínu þegar brennivínið var annarsvegar á þessum árum. Ég þekki þetta því allt mjög vel af eigin raun sem gerir það að verkum að ég gat lesið svolítið á milli línanna líka. Við lesturinn skutust fram minningar sem ég var sennilega búinn að moka yfir, en ég get vitnað um að þetta var allt eins og þú lýsir. Því miður á ég ekki mikið af góðum minningum frá Grændansdvölinni minni. Ég hef heyrt að þetta hafi lagast mikið síðan 1985 og vonandi er það rétt. Ég mundi gjarnan vilja fara þangað aftur í dag með myndavélina mína á öxlinni. Ég er sannfærður um að ég sæi Grænland í öðru ljósi eftir þá ferð. Þó ég kvitti ekki alltaf fyrir mig þá les ég allt sem þú lætur frá þér hérna, og flest les ég oftar en einu sinni. Takk fyrir mig kæri vinur.    

Gunnsteinn Hlíðarvegspúki (IP-tala skráð) 10.8.2007 kl. 17:57

4 identicon

Eftir að hafa lesið þetta er ekki laust við að mig dauðlangi til Grænlands. 

Frásögnin af þynnkunni tók þó sjerstaklega á og vakti samúð í hverri einustu frumu. Það er nefnilega ekki langt síðan ég fór á vodkafyllerí með Buryötum á eyju í  hinu síbirska Baikalvatni. Óminnishegrinn hjelt okkur selskap frá sólarlagi til sólarupprásar, en skv myndum var mikið skrafað og hlegið. Ekkert tungumál áttum við þó sameiginlegt.

Þetta ævintýri dró þriggja daga dilk á eftir sjer.

Ljenzherrann (IP-tala skráð) 10.8.2007 kl. 18:30

5 Smámynd: Árni Gunnarsson

Af hverju eigum við ekki fleiri menn eins og þig?

Hjón sem dvöldust þrjú ár á Grænlandi sögðu mér að samfélagsleg upplausn og ógæfa innfæddra Innúíta hefði byrjað með nauðungarflutningum frá afskekktu veiðimannabyggðunum. Þetta var gert að tilhlutan danskra stjórnvalda sem vildu færa þetta fólk nær vestrænni menningu.

Ámóta og að færa Írökum bandarískt lýðræði "á silfurfati."

Árni Gunnarsson, 10.8.2007 kl. 19:01

6 Smámynd: Ása Hildur Guðjónsdóttir

Takk fyrir frábæra söguskoðun.

Ása Hildur Guðjónsdóttir, 10.8.2007 kl. 23:21

7 Smámynd: Halla Rut

Frábær lestning. Takk fyrir.

Halla Rut , 11.8.2007 kl. 00:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband