Færsluflokkur: Bloggar
Það er Frost í Helvíti.
3.11.2008 | 01:25
Ég hef sennilega þótt afar undarlegur unglingur. Ég notaði hluta fermingarpeninganna minna til að kaupa Lingaphone-námskeið í Rússnensku og lá svo yfir því löngum stundum; æfði mig í að spyrja hvar salernið væri og hvar sporvagninn stoppaði. Maður varð að láta sem maður væri frostbitinn og dofinn í vöngum, láta orðin myndast í hóstakirtlunum eða efst í brjóstinu, til að framburðurinn yrði sannfærandi. Jablaka: Epli; Kníga: Bók; Morosnóe: Rjómaís.
Letrið virtist eins og rúnir við fyrstu sýn, en svo sá maður að í flestum tilfellum var aðeins búið að víxla táknum, þá var lítið mál að lesa. P var R, X var H og C var S. Esshljóðin voru þarna fyrirferðamest og áttu þau flest tákn fyrir misjöfn blæbrigði þessa hljóðs. R í spegilskrift var Ja og N í spegilskrift var Í og H var N. Svo var Grískum bókstöfum hrært þarna saman við eins og Lamda, Gamma og Pí. Þetta var einskonar dulmál á að líta. Ég hafði oft gert dulmál fyrir leynifélögin okkar strákanna. Svarta Höndin átti sitt og Silfurkúpan annað, svo þetta var ekki algerlega framandi fyrir mér..
Þetta var skemmtileg stúdía, en ég hef ekki hugmynd um hvers vegna þetta fangaði áhuga minn. Líklegast var þó að Nágranni minn Helgi, hafi haft áhrif þar á. Hann var mikill kommi og prófessor í fornslavneskum sögnum, giftur Rússneskri konu, Dínu og kenndi við menntaskólann. Ég hafði fengið ævintýraplötuna Brémenskí Músikantí lánaða hjá honum og reyndi að ráða í hvað sagt var í söngvunum. Gítarogí, Ibbítúk-voru greinilega gítar og hani. Helgi og pabbi rifust stundum um kommúnismann yfir glasi og var oft fjör í því karpi, hnefar í borðum og hoppandi glös, þó sérstaklega ef Jón Baldvin var með. Hann bjó jú í sama húsi og Helgi auk Guðjóns Friðrikssonar Reykjavíkursagnfræðings. Gáfur þessara manna heilluðu mig. Heimsborgarabragurinn og leðurbættu flauelsjakkarnir, pípurnar og eiginleikar þeirra til að glíma við lífið í stærra samhengi en laut að veðri og fiskveiðum, fyllti mig löngun til að kanna andans víðfeðmu lendur.
Ekki hafði ég nokkurn grun um að þessi lærdómur myndi nýtast mér, hvað þá aðeins ári síðar. Þetta var eins og einhverskonar forvitrun. Bárður frændi minn og Einar æskufélagi minn, sem voru árinu eldri, fóru í siglingu með Hofsjökli og sögðu mikil ævintýri af sér þegar heim kom. Ég vildi reyna þetta líka og munstraði mig á Lagarfoss gamla, sem var miðbyggður kláfur með stórum strompi eins og skipin í Tinnabókunum. Hann var orðinn gamall og úreltur; hnoðaður saman en ekki rafsoðinn. Skip af sömu kynslóð og gamli Gullfoss.
Það vakti undarlegan fiðring í maganum að sjá Ísland sökkva í kjölsogið. Eftirvænting, söknuður, óvissa. Ég hafði aldrei út fyrir landsteinana komið. Ekki lengra en að stikla út á steina í flæðarmálinu heima. Fjölskyldan hafði jú farið til Mallorca, en ég kaus að vera heima og fann enga freistingu í því að upplifa það sama og allir aðrir höfðu upplifað. Grísaveisla, sangría, matareitrun og hellaferðir. Ó, nei, ekki hugsuðurinn ég. Ég fyrirleit alla slíka hjarðhegðun og kúldraðist í forinni heima, hlúði að fyrstu spírum alkóhólismans og samdi ljóð um tilgangsleysi allra hluta.
Ég var smyrjari í vél ásamt Dodda nokkrum. Við urðum bestu kunningjar og skottuðumst með koppafeiti um vélarúmið og smurðum á koppa eða bensínþrifum vélarhluti. Það var mikilfenglegt þarna niðri. Risastórir strokkar og sveifar sem bulluðu og sprautuðu olíu um allt. Ég trúði varla stærðinni á þessu. Við skautuðum fram og aftur um stálgólfin eins og skautahlauparar þegar veltingurinn var sem mestur og vorum alsælir með starfið. Lagarfoss var stéttskipt skip með afbrigðum. Við Doddi vorum með sér messagutta, sem þjónaði okkur tveim til borðs. Svo var vélamessi fyrir vélstjóra, yfirmannamessi, hásetamessi, restrasjón og sér Pláss fyrir skipstjóra og fyrsta vélstjóra. Það var ríkmannlegur salur, sem hefði getað rúmað alla áhöfnina. Þar höfðu þeir þjónustustúlku og svo höfðu þeir þernu að auki, til að þrífa undan sér. Lagginn var líka farþegaskip því þar voru nokkrir farþegaklefar, en aldrei man ég þó eftir farþega um borð. Það var víst liðin tíð að spjátrungar, menntamenn og skáld sigldu með fragtskipum á milli landa.
Þeir sem lægst voru settir, sváfu aftur í hundakofa, sem var smályfting aftast á skipinu, með eins manns klefum, sem fullir voru af kakkalökkum, svo það snarkaði undan fótum manns ef maður gleymdi að kveikja ljósið áður en farið var úr koju.
Fyrsti áfangastaðurinn var Múrmansk. Nyrsta nárassgat, sem siglt var til. Það var hálfgert sjokk að koma þangað. Maður sá reykjarmökkinn yfir borginni löngu áður en hún kom í ljós. Meðfram innsiglingunni voru sokkin skip og afvelta kafbátar frá heimstyrjöldinni eins og þarna hafi orðið stórorrusta. Þetta var eins og að sigla inn í fordyri helvítis. Gamlir kafbátar voru enn að dugga um höfnina og allar manneskjur voru dúðaðar í sömu langsaumuðu gráu vattflíkurnar, hnípnar og gleðisnauðar að sjá. Ég minnist þess ekki að hafa séð nokkurn mann brosa í þessari borg. Þarna var enga sögu að sjá, aðeins grængráar blokkir meðfram breiðstrætum, sem skáru borgina í einangruð hverfi, ekki ólíkt austurborg Reykjavíkur. Enga aðra borg hef ég séð minna meira á Múrmansk, hvað skipulag varðar.
Það voru þó fáir bílar þarna. Aðalega risastórir trukkar með seglyfirbreiðslum og dapurlegir strætisvagnar með gormhlykk í miðju. Einn og einn Rússajeppi skottaðist hjá eða Moskowitch með dularfullum mönnum í leðurhöttum. Yfirleitt voru þeir fullsetnir eins og að glæpafjölskylda í gamanmynd væri í sunnudagsbíltúr. Í allri þessari stóru borg sást nánast enginn fótgangandi. Flestir voru hermenn með kaskeiti, sem voru fáránlega stór og ýkjuleg eins og í farsa eftir Daríó Fó. Frostið smeygði sínum köldu krumlum inn að beini og vonleysið fyllti lungu manns í hverjum andardrætti. Þetta var hið sannkallaða helvíti. Og það var frost í helvíti, það get ég borið.
Vænisýki kaldastríðsins var alsráðandi þarna og fólk fór undan í flæmingi ef maður yrti á það á ensku. Þetta var höfuðborg óttans og niðurlægingarinnar. Við skipuðum upp freðnum fiskblokkum . Ef kassi datt í sundur, þá hvarf hann á augabragði inn á kvið verkamannanna. Við máttum ekki fara með myndavélar í land og hermenn tóku passann af okkur í skiptum fyrir sérstakan landgöngupassa. Ekkert var hægt að fara nema á sjómannaheimilið og þar gátum við drukkið vestrænar veigar án þess að vera spurðir um aldur. Þarna ægði saman rumpulýð af öllum þjóðernum. Jú from Æland? Me from Æland too, Christmas Æland. Captain Cook. Yes?
Þarna var ég tekinn afsíðis af alvörugefnum manni, sem vildi fræða mig um Lenín og hina stórkostlegu byltingu. Hann gaf mér fullt af bókum um hamingjulandið, en eitthvað tómahljóð var í sannfæringu hans. Orð hans voru líka í hrópandi mótsögn við það sem fyrir augu bar. Ég skildi ekki kommúnisma frekar en Krúsjoff, en í ævisögu sonar hans er sagt að Krússjoff hafi aldrei getað útskýrt þessa hugmyndafræði fyrir syni sínum og farið undan á flæmingi er hann var spurður. Allt var vont í Rússlandi nema heitt brauðið, sem við fengum um borð. Af því var sterkt gerbragð en það var gott svona heitt og ferskt. Súkkulaðið var eins og kakó steypt í tólg, límonaðið smakkaðist eins og safi af niðursoðnum perum og sígaretturnar höfðu sæta angan sem minnti á blöndu af súrheyi, brunnu gúmmíi og táfýlu. Allt Rússland bar þennan sætsúra, velgjukennda fnyk.
Utan við sjómannaheimilið voru Bísarnir. Það voru svartamarkaðsbraskarar, sem vildu kaupa Ameríkanskí sígarettskí, Tjúíng gömm og munað eins og gamlar gallabuxur, skó, varaliti. Sumir voru svo djarfir að spyrja um vestræna tónlist með mikilli leynd. Jú xeve Júría Xeep? Easy living, yes? Þetta voru miklir töffarar á sína landsvísu en Guð minn góður hvað okkur fannst þeir sorglega hallærislegir í allt of stuttum gallabuxum, slitnum bítlaskóm og leðurjökkum, sem stóðu þeim á beini. Lögreglan sveimaði þarna í kring á gulum og bláum Rússajeppum en lét þessa verslun að mestu óáreitta. Óttinn leyndi sér þó ekki hjá bísunum og stundum hurfu þeir sí svona eins og jörðin hafi gleypt þá. Lögreglan reyndi stundum að leggja fyrir okkur snörur. Eitt sinn stoppuðu þeir okkur og spurðu: Pornógrafía? Við könnuðumst ekkert við slíkt. Þá drógu þeir upp snjáða mynd af konu í sundbol með höndina eggjandi aftur fyrir hnakka. Þetta var ekki ólíkt ilmspjöldunum, sem svo lengi voru hvimleið í leigubílum hér. Við gátum ekki annað en brosað. No pornografía, sorry. Þetta spjald var sennilega opinber tálbeita, sem þeim var úthlutað frá flokkstjórninni til að stemma stigu við vestrænni úrkynjun í þessari háborg menningarinnar í norðri.
Ég var feginn þegar Múrmansk hvarf aftur í mengunarmistrið og íshafið blasti við stafni. Mér var ljóst í mínum unga huga að hér hafði verið framinn stórfenglegur glæpur. Byltingin, sem raupsamir sparikommar uppi á Íslandi rómuðu í söngvum sínum, gaf engin fyrirheit um slíkar hörmungar. Sjá roðann í austri! Sungu þeir í blindri fáfræði. Það var augljóst á öllu að þeir höfðu annað hvort ekki komið til Sovétríkjanna, eða þá að þeir höfðu verið teknir í sightseeing að hætti flokkselítunnar og setið veislur Nómenkladíunnar, sem var viðurkennd forréttindastétt.
Það að taka eignarétt af fólki varð til þess að drepa lífsvilja þess og áhuga til vaxtar. Marx og Engels höfðu gert regin feil í hugmyndafræði sinni þar. Það er með öllu óskiljanlegt hvernig þessi menntuðu gáfumenni gátu ímyndað sér að hægt væri að afnema einstaklingseðlið, persónufrelsið og steypa fólk í eitt allsherjarmót vélrænna þegna, með hugmyndafræðilegu pennastriki. Það sást í dauðum augnaráðum fólksins í Múrmansk. Þessir Gyðinglegu dekurdrengir frá þýskalandi, sem sáu fyrir sér nýja herleiðingu heimsins til hins fyrirheitna lands samneyslunnar, höfðu vogað sér í menntahroka sínum og sjálfhverfu að það væri vert að láta á slíkar hugmyndir reyna án tillits til fórnarkostnaðar samborgara sinna. Þeir eiga alla mína fyrirlitningu skilið.
Að vísu var kommúnisminn skrumskældur í Sovétríkjunum eins og allstaðar annarstaðar. Það þýðir ekki, eins og margir segja, að þetta sé góð hugsjón í raun, væri henni fylgt í hörgul. Það er aumkunarverð fáfræði. Skrumskælingin átti sér stað vegna þess að það var ekki hægt að fylgja henni í hörgul. Hugsjónin fól í sér grundvallar yfirsjón, sem er hið óútreiknanlega mannlega eðli. Fyrir það létu 50 milljónir manna lífið í Sovétríkjunum einum og eru enn að deyja í dag.
Framhald þessarar sögu birti ég svo síðar.
Bloggar | Breytt 22.2.2019 kl. 22:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Sáðmaðurinn Blindi.
13.9.2007 | 05:16
Ég fór að velta upp gömlum síðgelgjuþönkum við Gunnar, vin vorn, Svíafara, sem fólu í sér vangaveltur um það að allar gjörðir okkar, orð og athafnir hafi áhrif á lífið umhverfis okkur í lengra eða skemmra samhengi. Við vitum það oftast ekki eða hugsum ekki út í það en allar hræringar hins síbreytilega heims hafa sín áhrif í stóru og smáu. Stundum strax...stundum eftir aldir.
Hugsanir okkar og gjörðir móta líf okkar. Viðhorf okkar til lífsins og samferðarmanna stjórna líðan okkar og viðkomu, en ekkert geistlegt afl, sem heldur registur um hræringar okkar og kemur svo með launaumslagið á efsta degi, fullt eða tómt. Allt á sér eitt allsherjar orsakasamhengi. Til þess að verða ekki of djúpur og tyrfinn hérna, langar mig að segja ykkur sanna sögu þessu til útskýringar.
Þessa sögu heyrði ég gamlan mann segja, en hann er nú löngu dáinn sá öðlingur. Sagan er að sjálfsögðu ekki orðrétt endursögn en er eitthvað á þessa leið:
"Þegar ég var um tvítugt, þá var ég að vinna sem verkstjóri við eina af fyrstu stóru virkjununum hér. Það voru mikil uppgrip fyrir mig svona ungan mann og mikil ábyrgð, sem á mér hvíldi. Þetta var á árum hafta og miðstýringar og atvinnuástand bágborið víðast hvar, svo ég var einn hinna heppnu má segja. Af þessum sökum var mikil ásókn í störf þarna en sjaldan, sem losnaði pláss nema fyrir einhverja ógæfu, slys eða veikindi. Var því eins dauði oft annars brauð í því samhengi.
Ég var stöðugt að vísa mönnum frá og leið illa yfir að þurfa að sýna slíka festu og virðast svo harðlyndur, því margir voru þeir sem voru á barmi örvæntingar og höfðu fyrir öðrum að sjá. En þetta var engin góðgerðarstofnun því miður. Það var líka eitt viðkvæða minna.
Einu sinni kom til mín ungur og prúður piltur og bað mig um vinnu. Hann hafði fyrir veikri móður að sjá og systkinum, en hafði verið atvinnulaus í marga mánuði og sást það á holdafari hans og klæðaburði. Augun voru með votri slikju beiningarmannsins og hendur og haka skulfu. Ég þekkti til hans í heimabæ mínum og vissi að hann var heiðvirður og góður og sinnti sínum framar sér, svo ég leið sálarkvöl fyrir að vísa honum á braut. En svona var veruleikinn og lítið gat ég gert, þótt hann væri svo aumur að ég þyrfti að lána honum fyrir rútunni heim.
Síðla þessa dags var ég við störf og pilturinn vék ekki úr huga mér. Þá kom til mín einn af verkamönnunum og minnti mig á að hann væri að flytja erlendis og var að árétta að launin kæmu á réttum tíma, svo hann kæmist burt, viku seinna. Ég hafði gleymt þessu og skyndilega fékk ég eina af mínum vitleysisflugum í höfuðið, sem oft hafa komið mér um koll á lífsleiðinni. Ég hljóp niður á veg til að gá að horaða piltinum, því ég vildi að bjóða honum starfið. Það var þó vika í að ég mætti það en ég vildi ráða hann strax í eitthvað smálegt og hugsaði mér að ég myndi greiða honum sjálfur þessa fyrstu viku ef ég lenti í vandræðum fyrir frumhlaupið.
Þetta var vanhugsað og hefði getað kostað mig sjálfan vinnuna, en ég lét þó slag standa. Ég fann drenginn þar sem hann sat á steini og beið rútunnar, og réði hann. Hann fór að gráta, svo hrærður var hann. Að vísu þurfti ég að leita logandi ljósi að einhverju smálegu að gera fyrir hann, þar til staðan losnaði, en það blessaðist. Ég sá eftir þessu í fyrstu og bölvaði mér fyrir veiklyndið, en það kom í ljós að þessi drengur var afbragðs verkamaður, útsjónasamur og duglegur og lynti vel við alla menn.
Til að gera langa sögu stutta, þá felldu hann og ein af ungu matseljunum okkar saman hugi og var það dýpra en matarástin ein, því þau giftu sig þá um veturinn. Hann vann svo hjá okkur næstu tvö ár eða svo og síðan missti ég sjónar af honum og gleymdi honum svo í tímans rás.
Ég giftist fór að búa og eignaðist börn eins og gengur og gerist. Mörgum árum síðar kom dóttir mín til mín og var svolítið hikandi og taugaóstyrk. Hún sagðist vera orðin ástfangin og komin með kærasta, sem hún vildi kynna fyrir mér. Þetta var mér eilítið áfall því slíkt þýðir að barnið mitt hyrfi á braut innan tíðar. Hún sem hafði fyrir leiftri einu kúrt við barm minn lítið barn. Nú var hún fullvaxta og sjálfstæð kona, stolt mitt og gleði. Mér var því ekki sama hver þessi kauði var.
Drengurinn reyndist þó bæði prúður og gjörvilegur og kunni ég strax við hann því það var eins og ég þekkti eitthvað í honum. Það voru augun og hollningin öll og ákveðnir taktar, sem ég þóttist þekkja en kom ekki fyrir mig. Skýringin kom þó strax við fyrstu eftirgrennslan. Þetta var sonur verkamannsins, sem ég hafði aumkað mig yfir og matseljunnar ungu í virkjuninni forðum.
Þau giftu sig síðar og eignuðust yndisleg börn, dóttir mín og hann og nú þegar ég sit úti í garði í ellinni og horfi á þau leika sér, eða þegar þau kúra við brjóst mér og ég fæ að segja þeim sögu, þá fyllist ég þessari undarlegu gleði og þakklæti yfir undrum lífsins. Þakklæti yfir þessari gjöf sem fyllir gráa daga mína ljósi og fölskvalausri elsku.
Við erum okkar eigin gæfu smiðir í stóru og smáu án þess að ætla það né vita. Í lífinu uppskerum við eins og við sáum. Það eru gömul sannindi og ný. Við erum þó líkari blindum sáðmanni og er það oft tilviljunum háð hvort uppskeran er góð eða ill. Það er því vert að leiða hugann að hugsunum sínum og gjörðum hverja stund, því uppskeran kemur óhjákvæmilega. Mín reyndist verðmætari en gull og gersemar."
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (38)
Mayday Frá Borgarísjaka
8.8.2007 | 07:07
Þegar ég var að skrifa kvikmyndina Ikíngut, hafði ég aldrei komið til Grænlands. Hugmyndin hafði mótast fyrst og fremst út frá minningu um ísbjarnardráp norður á ströndum. Menn höfðu ætt blóðþyrstir af stað til að jakta kvikindið, þegar fréttist af því og ég skildi aldrei hvers vegna þetta æði rann á þá. Ekki var bangsi að ógna neinu þarna á þessum eyðislóðum. Það rann svo mikið morðæði á mennina við eftirförina að þegar þeir loksins náðu að skjóta björninn, þá höfðu þeir glatað veruleikatengslum svo kyrfilega að þeir rifu úr honum hjartað og átu það hrátt. Allavega barst sagan þannig yfir djúpið. Það voru blóðklepraðir og niðurlútir menn, sem komu til hafnar með feng sinn, skömmustulegir fyrir að hafa glatað tengslum við mannlega dyggð um stund.
Það hafði líka alltaf heillað mig að heyra sögur af því að frá Horbjargi gæti sést til Grænlands á góðviðrisdegi, við rétt skilyrði. Það var forvitnileg tilhugsun að vita af þessum skringilega og ólíka menningarheimi svona nánast innan seilingar frá okkur. Fyrst ísbirni gat rekið þaðan til okkar, hvers vegna þá ekki menn?
Tækifærið til að kynnast þessum undraheimi nánar kom þegar Kristján Friðriksson, ljósmyndari og myndlistamaður og kona hans Vilborg, báðu mig um að vinna með sér að spænskri J&B viskíauglýsingu við Kulusuk á austur Grænlandi. Nóttina áður en lagt var í hann, hafði ég verið í slúttpartýi út í Viðey fyrir mynd Ragnars Bragasonar, Fíaskó. Ég var vel hífaður, þegar ég fór heim til að pakka niður fyrir ferðina. Það var aðeins um klukkustund í brottför og ég hafði ekki hugmynd um hvað ég ætti að hafa með mér í slíka ferð. Þetta var algerlega út í óvissuna farið. Ég henti því nokkrum naríum og sokkum í tösku og skellti svo Spliff, Donk og Gengju þar ofan á. Þetta merkilega apparat hafði ég hannað og smíðað fyrir Fóstbræðraþættina og var þetta tæki, sem duga átti við öllum vanda.
Ég mætti svo á Reykjavíkurflugvöll í jakkafötum með lausgirt bindi, flaksandi skóreimar, rauðvínsflösku í annari hendi og Spliff, Donk og Gengju í hinni. Framleiðandinn hann Pétur fékk næstum taugaáfall þegar hann sá mig og náði að forða mér frá augum Spánverjanna, sem voru að kaupa sérfræðikunnáttu mína. Hann reyndi hvað hann gat að flikka upp á mig en það dugði ekki til. Spánverjarnir urðu algerlega forviða yfir þessum drukkna jólasveini og vildu ekkert með hann hafa. Allir voru kappklæddir upp í hvirfil í Goretex og því ekki traustvekjandi að art directorinn sjálfur mætti á glænapalegum jakkafötum og draugfullur í ofanálag. Þessu var þó bjargað með því að segja við þá: Dont worry. He may look and act strangely, but on the other hand he is a total genius. You know how they are. Spánverjarnir samþykktu þetta með tungu í kinn og af stað var flogið áleiðis til ísheima.
Á flugvellinum í Kulusuk var mér snarað í kuldagalla og svo upp í þyrlu á blankskónum. Áætlunin var að finna hæfilegan borgarísjaka til að setja upp blakvöll á. Þar átti blaklandslið Spánverja að spila blak til að auglýsa viskí. Ekki spyrja mig.....þetta var þó langt frá því það fjarstæðukenndasta, sem ég hafði séð í þessum bransa. Við flugum jaka af jaka, spásseruðum um þá og völdum svo einn gríðarstóran, sem var flatur að ofan og virtist nokkuð stabíll. Hann var um 80 metra hár og svo stór að við vorum eins og krækiber í helvíti ofan á honum. (sjá mynd) Ég var að þynnast upp í fluginu og angaði eins og spritttunna, en heimskautaloftið bjargaði því að ég gæfi upp öndina. Menn kepptust við að gefa mér piparmyntubrjóstsykur í þröngri þyrlunni af einhverjum dularfullum ástæðum.
Eftir þetta var tafarlaust farið í hundasleðaferð um ísilagt hafið út af Kulusuk til að leita að tökustöðum fyrir nærmyndir. Ég hélt að það yrði mitt síðasta. Í fyrsta lagi leystu hundarnir vind í hverju skrefi af áreynslunni og ég horfði upp í stjörnuna á þeim á meðan þeir sendu óþynnta eimyrjuna beint að vitum mínum. Ég ætla ekki að lýsa þeirri angan. Mig sundlaði svo að ég var við það að missa meðvitund.
Í öðru lagi var ég svo óheppinn að lenda á sleða leiðsögumannsins. Hann fór ótroðnar slóðir og upplýsti um hætturnar. Meðal annars var það mjög hættulegt að fara að hólmum og skerjum, þar sem straumsvelgir þynntu ísinn. Þetta þurfti hann jú endilega að demonstrera með því að álpast með okkur í slíkt feigðarflan. Ísinn brotnaði undan sleðanum og hann súnkaði hálfur á kaf ofan í jökulkalt íshafið. Maðurinn barði hundana áfarm með miklum fyrirgangi og öskraði: Thjú, Thjú! Kha, Khaa!, sem voru víst skipanir til hundanna um að fara til vinstri eða hægri. Ísinn brotnaði jafn harðan undan sleðanum og hann náði að brjótast upp úr og ég ætlaði að stökkva af til að bjarga lífinu. Þá barði Grænlendingurinn mig með svipuskaftinu í arminn til að gera mér skiljanlegt að vera kyrr. Það varð mér líklega til lífs. Honum tókst loks með herkjum að ná sér á þurrt og félagar hans hlógu í gegnum geiflurnar að skelfingarsvipnum á mér. Ég var feginn að komast heim á hótel það kvöld, rassblautur og með marinn handlegg. Barinn freistaði ekki enda hafði ég þó það prinsipp að drekka ekki í svona verkefnum.
Daginn eftir fór ég við annan mann út á jakann (sjá mynd) með rafstöð, höggbor og keðjusög ásamt efni og öðrum búnaði. Jakinn var í um 20 mínútna fluglínu frá landi mitt í súrrealískri ísveröld, sem var svo mikilúðleg að ég hef aldrei fundið mig eins lítinn í sköpunarverkinu. Félagi minn var Bárður Óli Kristjánsson frá Steinum undir Eyjafjöllum, rauðbirkinn víkingur og erkitýpískur Íslendingur. Við brutum og boruðum og sléttum undir völlinn en á öðrum degi, þótti vissara að senda okkur aðstoð til að tryggja að verkið kláraðist. Við þurftum líka að búa til skýli fyrir tökuliðið, sem var dulbúið eins og snjóskafl, svo það rynni saman við jakann. Þar átti að geyma nauðsynlegan búnað og fela aðstoðarfólk, þegar stóra skotið yrði tekið.
Aðstoðarmennirnir voru þrír Grænlendingar, sem nýttust okkur ekkert, þegar til kom. Þegar við Bárður fórum að bora og höggva í ísinn á milli þess sem við migum á hann eins og mönnum sæmir, þá trylltust Grænlendingarnir úr hræðslu reyndu að stöðva okkur. Þeir voru algerlega lamaðir, enda vissu þeir meira um ísinn en við þessir villimenn, eins og skýrt var fyrir okkur síðar. Það þarf nefnilega ekki nema að reka broddstaf í svona harðpressaðan ísklump til að sprengja hann í þúsund mola, sem nota mátti í vínglös. Einnig þurfti að sama skapi ekki nema smá skvettu af heitu varni til að framkalla sömu áhrif. Þetta vissum við náttúrlega ekki og var því ótti Grænlendinganna óskiljanlegur. Svona jakar taka fyrirvaralaust upp á því að klofna og velta sér með miklum gusugangi, hvað þá ef menn reyna að hjálpa til við það eins og við gerðum.
Við notuðum gervihnattasímann og létum sækja þá, og eru þessir idíótar frá Íslandi örugglega enn ræddir á sögustundum þeirra. Í stað þeirra kom Spænskur framleiðandi, sem var mjög brattur og borginmannlegur. Hann tók til hendinni með okkur í svona tíu mínútur áður en nýjabrumið og ævintýraljóminn dofnaði þarna í þessum fimbulkulda sem var. Hann fór að stika fram og aftur um jakann og notaði gervihnattasímann svo ótæpilega að við héldum að hann myndi eyða batteríinu.
Hann varð órólegri með hverri stund sem leið og var orðinn angistarfullur, þegar klukkan fór að nálgast hálf níu um kvöldið. Brak og brestir heyrðust úr ísnum í kring og einstaka skruðningar og gusugangur bergmáluðu þarna í auðninni, þegar straumar breyttust og það kólnaði. Hann náði ekki sambandi heim á hótel, enda voru allir búnir að borða og sátu nú á barnum í mestu makindum. Það leit út fyrir að við hefðum gleymst því þyrlurnar höfðu aðeins leyfi til að fljúga til klukkan níu. Klukkan kortér í tók snillingurinn upp á að hrópa í símann:Mayday, mayday, mayday! svo ég stökk til og tók hann af honum og spurði hvort hann væri algerlega orðinn stjörnugal. Skömmu síðar heyrðum við svo kunnuglegt hljóð þyrlunnar nálgast. Við höfðum víst næstum gleymst fyrir misskilning en það uppgötvaðist á síðustu stundu. Það varð einhver eftirmáli af þessu neyðarkalli og vinur vor var hundskammaður svo hann bar sig eins og Labradorhundur, það sem eftir lifði ferðar.
Þremur mánuðum eftir þetta hitti ég Tómas þyrluflugmann á Kaffibarnum og urðu það miklir fagnaðarfundir. Tómas er eina alvöru hetjan, sem ég hef hitt af Sænsku kyni, hokinn af reynslu og með tvö þyrlukröss í malnum. Hann sagði mér þá að nýlega hefði jakinn okkar sprungið í þrennt og bylt sér í hafið með miklum boðaföllum. Það var gott að hann tók ekki upp á því á meðan við gistum hann þessa eftirminnilegu þrjá daga. Spliff, Donk og Gengja hefðu varla dugað okkur þá.
Ég var á Grænlandi í tæpan mánuð eftir þetta við önnur verkefni, sem ekki voru síður eftirminnileg auk kynna minna af landi og þjóð. Segi ég þá sögu síðar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Berrassaður Strákur á Fjalli.
6.8.2007 | 18:25
Sjö ára strákar vakna yfirleitt á undan sólinni norður undir heimskautsbaug. Hún er sein á fætur í þröngum firði og maður var kominn út á forugt sundstrætið áður en hún gyllti eggjar Eyrarfjallsins. Lágstemmdur kliður fugla og fjörubúa fyllti loftið og örlítið kul lagði inn fjörðinn þegar kalda loftið byrjaði hitna, leita upp og draga kulið inn úr djúpinu. Það hét innlögn.
Á svona hæglátum júnímorgni gaf ég mér góðan tíma til að vakna; sveigði fram ristarnar og glennti í sundur tærnar. (Nokkuð, sem ég get ekki í dag án þess að fá heiftarlegan sinadrátt.) Ég teygði úlnliðina til lofts og rumdi sætlega. Líktist meira kúinu í æðarfuglinum en í alvöru ljóni eins og nú. Svo lá ég eilítið lengur og hlustaði á vélarhljóð bátanna sem sigldu til fiskjar. Ég þekkti þá alla af hljóðunum. Þarna fór Ásdísin og söng eins og bliki; Kveldúlfur hans pabba tónaði eins og munkur; Guðnýin svolítið stærri og dimmraddaðri; heldur ókvenleg.
Ég var farinn að fella tennur. Stórar og vígalegar framtennur boðuðu komu sína þar sem litlu tönnsurnar höfðu áður setið. Undir tungu kenndi maður þeirra eins og lítilla sagarblaða. Barnatennurnar voru undir kodda. Mér hafði verið ráðlagt að leggja þær þar og óska mér einhvers. Þá óskaði maður oftast einhvers fyrir okkur öll, systkini mín, pabba og mömmu. Að pabbi þyrfti ekki alltaf að vera á sjó. Að við eignuðumst bíl; gætum farið í ferðalag saman. Það rættist jú einhverjum árum seinna en ekki beint í þeirri röð.
Ég hafði ekki minnstu blygðun yfir tannleysinu og brosti eftir sem áður eins og sólargeisli; hló eins vellandi spói. Þá kom hláturinn innanað svo ekkert hélt aftur af honum. Hann var bak við augun, undir þindinni, í handakrikunum, hálsakotinu og spékoppunum. Þá hló maður allur þegar maður hló. Það eina, sem var meinlegt við þetta var að segja ess. Það bögglaðist út með flauti og blístrum og einhvervegin þvældist þornið alltaf með. Þegar ég leit út eftir götunni, sá ég að Össi og Sævar voru komnir út; Öþþi og Þævað. Ekki nógu gott. Ég taldi betra að finna mér eitthvað annað til dundurs en að blístra nöfnin þeirra daginn út og inn.
Það hitnaði fljótt á milli fjallanna þegar innlögnin lét sig og sólin gægðist yfir brúnir Ernis. Eimurinn steig upp af malargötunum og fiskilykt fyllti loftið. Slíkt lofaði góðum degi. Allt kallaði á útilegu í slíku veðri. Hefja sig til flugs og kúra ekki á sama steini. Frjálsir barnsandar kröfðust þess. Mamma smurði fyrir mig nesti. Brauð með osti og eplasneið, sem hún setti í brúnan bréfpoka. Skærgulur Assis brúsi með rauðu loki, sem nota mátti sem mál. Assis var appelsínusafi frá Ísrael. Í þá daga hét djúsinn Assis. Ekki gott að bera það fram og ég þurfti þess ekki heldur. Mamma las hugsanir og útbjó alltaf það sem mig langaði mest í. Ég ætlaði í skógarferð inn í Tunguskóg á litla hjólinu mínu. Tunguskógur var inni í fjarðarbotni. Hann stóð varla undir nafni á heimsvísu; gisið kjarrlendi og lyngbrekkur með einstaka útlensku grenitré og birkihríslu á stangli.
Mamma bleytti höndina undir vatni og reyndi að klappa niður úfinn kollinn á mér. Ég var svolítið rafmagnaður á morgnanna, með óstrýláta brúska úr tveimur hvirflum á hnakkanum. Dralonpeysan mín magnaði þetta fram. Þegar ég fór í hana þá gnast hún og gneistaði af stöðurafmagni. Hún var fallega mynstruð og litfögur úr nýmóðins gerviefni, sem var svo rafmagnað að pappírsarkir loddu við mann; kisa varð eins og flöskubursti ef ég mundaðist við að klappa henni og eldglæringar hrukku af öllum snerlum, sem ég snerti. Svo jafnaði þetta sig. Ég fékk koss á ennið hjá mömmu, svo hjólaði ég af stað með nestið á bögglaberanum.
Inni í skógi ríkti kappræða skógarþrastanna. Gróðurilmurinn fyllti loftið, flugurnar suðuðu og lognið var algert. Ég var heitur og þvalur á skrokkinn eftir hjólreiðatúrinn. Loftið gældi hlýtt við vangana. Ég lagði hjólið í kjarrið, batt peysuna mína um mittið og gekk að Tungudalsá, sem niðaði í fjarska. Peysan dró náttúrlega til sín allt lauslegt úr umhverfinu og breyttist í hálfgert strápils á augabragði. Hárið stóð aftur á endum. Ég klofaði yfir gaddavírsgirðingar og kúldraðist í þurru grasinu. Áin var kristaltær svo sjá mátti hvern stein og slýutaum á botninum. Ég kraup niður og fékk mér svalandi sopa, bleytti hausinn til að hemja hárið; gekk svo um bakkann og trampaði niður fæti til að fæla bleikjurnar fram. Allt iðaði af lífi. Ég var bergnuminn yfir þessari stórkostlegu skrautsýningu, sem átti sér svo fullkominn samhljóm í gleðisöng hjartans. Allt fyrir mig.
Ég hafði í fyrstu hugsað mér að finna mér fallega laut til að borða nestið mitt í, en var of uppnuminn til að setjast niður. Handan árinnar reis Hnífafjall. Það var stórt og stöllótt fjall í augum stráks sem hafði loðna rassa, og þaðan af verra, í augnhæð þegar hann skrapp í sund. Hvað skildi vera á toppnum? Skyldi maður sjá til útlanda? Ég fór úr skóm og sokkum og bretti upp skálmarnar. Vatnið var kalt. Nýfrelsaður snjór ofan af heiðum sem gusaðist upp mjónulega leggina. Steinarnir í árbotninum voru sleipir og slímugir en volgir viðkomu. Á hinum bakkanum límdust strá og mosi við tásurnar, svo ég sleppti því að fara í sokkana aftur. Hvíta og svarta strigaskóna hafði mamma nýverið gefið mér, svo ég tiplaði úr blautum mosanum á bakkanum áður en ég fór í þá aftur. Ekki vildi ég særa hana með því að drulla þá út.
Hlíðin blasti við eins og hún vildi hvolfast yfir mig. Ég hélt fullhuga og glaður á brattann. Tjaldurinn tísti, spóinn vall graut og lóan og hrossagaukurinn sungu samsöng. Flugur suðuðu, og mosinn fjaðraði eins og þykkt teppi undir fæti. Ég söng með mér lag, sem ég hafði lært í skólasöng. Það átti bara svo vel við þarna og kom áreynslulaust eins og andadrátturinn.
Vorvindar glaðir,
glettnir og hraðir,
geysast um lundinn rétt eins og börn.
Lækirnir skoppa,
hjala og hoppa,
hvíld er þeim nóg í sæ eða tjörn.
Hjartað mitt litla, hlustaðu á;
hóar nú smalinn brúninni frá.
Fossbúinn kveður,
kætir og gleður,
frjálst er í fjallasal.
Ég þreyttist þó smátt og smátt á göngunni. Í hvert sinn sem ég taldi mig vera að ná toppnum, þá tók nýr hjalli við. Rétt eins og í lífinu sjálfu. Hvassgrýtt urð tók við af mosanum og gróðurinn varð gisnari. Ég var svolítið fatlaður eftir slys í bernsku, með snúinn og mislangan fót, fatt og hlykkjótt bak. Þegar sársaukinn í lærum og mjóbaki varð slæmur þá stoppaði ég og kastaði mæðinni; leyfði honum að læðast upp hrygginn og í hnakkagrópina uns hann leið eins og reykur upp úr hvirflinum. Það var þægileg tilfinning. Ég einsetti mér að líta ekki til baka fyrr en ég næði tindinum og hafði augun varla af brúninni. Mér fannst ég léttari og sælli, eftir því sem ofar dró. Þetta var mín raun; minn sigur.
Loks var tindinum náð. Svalur andvari kældi svitann við hársvörðinn. Líkaminn var eins og miðstöðvarketill; heitur og rakur. Roði í kinnum og hvörmum kitlaði eins og milljón litlar nálar og hjartað dansaði taktfast í brjóstinu. Móðurinn svall í hverri æð. Ég fann fyrir mér öllum frá hvirfli niður í tær og fannst ég geta flogið; sigrað allt. Þarna blasti fjörðurinn minn við. Eyrarfjall og Ernir stóðu á haus í spegilsléttum sjónum og breiddu faðm sinn mót bláleitri Snæfjallaströnd. Fegurðin var ólýsanleg. Ég sá yfir allan heiminn og handan hans. Heiðblár himinninn skartaði laufléttum skýjaslæðum; léttar pensilstrokur, sem dregnar voru frá norðurskautinu og yfir höfuð mér. Allt fyrir mig.
Ég var alsæll og lagðist á bakið. Hitinn streymdi frá brjóstinu og ég lygndi aftur augunum með bros á vör. Það var eins og rafmagnaður hjúpur umlykti mig. Mér fannst sem ég sytraði út í lyngbreiðuna eins og vökvi þar til ég samlagaðist sverðinum. Eins og tíbrá leið verund mín saman við loftið og ég fann ekki lengur fyrir líkamanum; varð að agnarsmáum ljóspunkti milli augnanna og leystist svo algerlega upp; hætti að vera til um leið og ég varð að öllu sem var, eins og súldardropi sem samlagast hafinu; missir form og lögun en verður hafið sjálft á sömu stundu. Allt en samt ekki neitt.
Þetta virtist vara í eilífð en samt eitt augnablik. Vitundin smeygði sér inn á eldingarhraða. Ég hrökk upp og var brugðið í fyrstu. Jú ég var þarna enn. Hendurnar, puttarnir, fæturnir. Var ég lengi í burtu? Þetta var eins og draumur og ég fann mikla sælu blossa upp innan í mér. Ég hafði uppgötvað einhvern leyndardóm, sem engin leið er að endursegja; vissi allt sem þurfti að vita. Ég reis á fætur og fór úr bolnum. Það var svo heitt. Svo flugu buxurnar og skórnir og loks nærurnar. Þarna stóð ég kviknakinn og baðaði út örmunum; lét goluna leika um mig allan, bakið, magann, hálsinn, rassaling og tippaling. Svo hljóp ég í hringi og steypti stömpum eins og kálfur að vori. Júhúúúú!
Ég brosti mínu tanngisna brosi, svo mig verkjaði í spékoppana. Brosti með öllu sem ég var. Og ég var allt. Allt var ég. Ef Kaífas æðstiprestur hefði staðið þarna í öllum sínum skrúðklæðum, hefði hann bliknað í samanburði við meistaraverkið mig og ef hann hefði spurt með vanþóknun hvort ég væri sonur Guðs, þá hefði ég hiklaust svarað já og horft í augu hans með höfugt bros þess sem höndlað hefur viskuna.
Ég breiddi undir mig peysuna og settist við að borða nestið mitt. Móðurást í hverjum bita. Það kímdi í mér. Ef að mamma sæi mig núna. Ég lagðist á magann og leyfði sólinni að kyssa mig á bakið og rassinn. Tíminn hafði brugðið sér frá eitthvert sem hans var frekar þörf. Hér hafði hann ekkert erindi. Flugurnar suðuðu og ilmurinn af blóðbergi, lyngi, blágresi og rjúpnalaufi fyllti vit mín. Puntstráin kitluðu nebbann.
Hér var eilífðin. Hér var ég, berrassaður strákur á fjalli, sextíuogsex gráðum norður og tuttuguogtveim vestur, við fegursta fjörð í heimi á vogskorinni eyju langt í norðurhafi. Eyju með glitrandi jöklum, djúpgrænum mosabreiðum og svörtum söndum. Eyju á tærbláum hnetti með snjóhvítum skýhvirflum. Blárri stjörnu sem sindraði á kvöldhimni hinum meginn í himingeimnum og speglaðist í augum dreymandi strákpjakks, sem kannski var líka berrassaður og sæll eins og ég.
Bloggar | Breytt 5.11.2009 kl. 18:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Hannibal og Höfuðlausnin
2.8.2007 | 03:26
Á gelgjuskeiðinu var ég afar undarlegt barn. Ég hafði þungar áhyggjur af heiminum og fannst flest í mannanna amstri heldur lítilvægt og ómerkilegt. Ég samdi tregafull ljóð um tilgangsleysi jarðlífsins, sem ég lét svo aldrei fyrir augu manna.
Harmræna mín var djúpstæð og það þurfti ekki annað til að halda fyrir mér vöku en grein í blaði um stjörnufræði, þar sem því var haldið fram að jörðin hægði á sér og myndi innan nokkurra milljarða ára steypast í sólina, þar sem hún myndi brenna upp. Mér kveið óskaplega fyrir þessu og sá lítinn tilgang í lífinu fyrst svona átti að fara.
Ég gekk um í rauðleitriÁlafossúlpu og reimaði skinnkragann í stút, svo aðeins grillti í bólugrafinn nefbroddinn fyrir innan. Hármakkinn var þykkur og náði niður á axlir en toppurinn niður á höku. Það var mín uppreisn. Maður fyrirleit heiminn, gekk um með hendur í vösum og leit aldrei af trömpurunum sínum; hlykkjaðist um eins og álkulegur ormur álengdar að sjá.
Mér var ekki gefið um skólagöngu. Leiddist námið, sem mér fannst tilgangslaust og afstætt stagl. Þoldi ekki kennarana. Þeir voru hlandvitlaust lið á barmi taugaáfalls.
Það var kannski ekki að undra að þeir væru taugatrekktir. Ég gerði allt til að gera þeim lífið leitt. Hleypti upp tímum með meinfýsnum athugasemdum og útúrsnúningum og endaði oftast frammi á gangi eða hjá skólastjóranum.
Einn kennarinn frussaði mikið, svo bækurnar blotnuðu og blekið rann til er hann kom að borðinu til að leiðbeina. Einn daginn mætti ég með regnhlíf og sló henni upp þegar hann nálgaðist. Þetta vakti kátínu allra nema hans. Teiknibólur í sætum voru klassískir hrekkir, þrátt fyrir að ég væri kominn upp í landspróf. Að bleyta krítina var mjög skilvirkt. Fylla svampinn af sápulegi, þannig að krítin makaðist út um allt í stað þess að hverfa. Setja salernisilmsápur á bak við ofna til að forpesta skólastofuna og fá frí meðan ræst var út.
Öllum snjallræðum var beitt mér til skemmtunar og kennurum til armæðu. Einn hljóp grenjandi út og ætlaði að hætta kennslu. Það þótti rosalega fyndið. Ég var miskunnleysið og mannvonskan uppmáluð. Frændi minn kenndi mér og ég lagði hann í einelti. Hann hafði sérstakan talanda og ég hermdi eftir rödd hans í hvert skipti, sem hann beindi spurningum til mín. Það var illa gert af mér og ég er viss um að hann tók það nærri sér og vænti meiri samstöðu úr frændgarði sínum. Ó, nei. Illyrmið ég fórsko ekki í manngreinarálit og lét alla njóta sömu lystisemda, nema einn kennara. Hann var gamall og drykkfelldur, kom stundum í tíma angandi af kaupstaðarlykt, hafði lappir upp á borðum, tók í nefið og klæmdist við stelpur jafnt sem stráka. Hann var æði. Hann kenndi Íslensku, málfræði, bragfræði og fleira skylt og ég dúxaði í öllu, sem hann kenndi.
Ég var á tæpasta vaði með að verða vísað úr skólanum og hafði í raun fengið nokkra sénsa. Mætingin var með afbrigðum slæm. Oft þegar mér var hent út að heiman á morgnana, þá skildi ég skólatöskuna eftir í kjallaraholu við húsið, fór niður í dokku og klifraði upp í veiðafærageymslu í gömlum hjalli. Þar kláraði ég að sofa út í haug af gömlum snærum. Foreldrar mínir voru að brenna upp af áhyggjum og engar skammir og hirtingar dugðu. Heimur minn var að liðast í sundur og ég var ástæðan.
Hræðilegur atburður varð svo þegar liðið var á landsprófsveturinn. Skólastjórinn okkar hann Jón Ben fórst í skelfilegu bílslysi í Eyjafirði. Hann keyrði út í á og drukknaði. Allir voru harmi slegnir, því hann var sanngjarn og blíðlyndur stjórnandi. Án hans hefði ég sennilega ekki fengið að klára skólagönguna. Siggi sonur hans var í bekk með mér og ágætur vinur. Ég man alltaf morguninn, sem hann var kallaður út úr skólastofunni til að fá þessi ógnvekjandi tíðindi. Svo var gefið frí.
Ég er ekki frá því að ég hafi breyst við þetta. Fallvaltleiki lífsins varð mér ljósari en nokkru sinni fyrr og það hugnaðist mér ekki að að verða minnst sem skaðvalds og skelfis, ef ég hyrfi héðan fyrir slysni. Ég tók mig á og mætti í tíma. Lærði heima og var að mér fannst alveg til þokkalegrar fyrirmyndar. Mér leið líka betur.
Í stað Jóns kom nýr skólastjóri, sem var gamall og þjóðþekktur maður. Hann hafði meira að segja á árum áður verið skólastjóri föður míns. Þetta var stjórnmálaskörungurinn Hannibal Valdimarsson, faðir Jóns Baldvins. Hann var að hætta í stjórnmálum og tók að sér að sitja sem stjórnandi skólans út misserið.
Hann var strangur að sjá, horfði á okkur út undan gróskulegum augabrúnum með kænskulegt glott í augum eins og að hann læsi hugsanir okkar. Svo hafði hann andrúm virðingar og staðfestu um sig eins og landsleiðtoga sæmdi. Það var góður agi í stjórnartíð hans, þótt stjórnmálaferillinn hafi verið stormasamari.
Ég fór þó að færa mig upp á skaftið, þegar á leið vetrar og prófaði þolrifin í karli. Það kom því eðlilega að því að kennararnir sáu í hvað stefndi og gáfust upp á mér. Ég truflaði kennsluna og vakti þeim gremju hvern dag. Loks var ég sendur til Hannibals. Nú var komið toppnóg af vitleysunni.
Hannibal bauð mér setjast en stóð upp sjálfur. Hann var enn með þetta kímna augnaráð þess sem allt veit en var þó spakur og lagði hægan áhersluþunga á orð sín. Hvað er að plaga þig karlinn minn? Af hverju getur þú ekki verið eins og maður? Ég er hissa á þér. Að drengur sem kemur af svona góðu og gáfuðu fólki, skuli láta svona. Ég yppti öxlum og horfði í gaupnir mér. Hann var í raun að segja að ég væri léleg afurð af annars góðu kyni. Hann bauð enga kosti heldur sagði: Ég verð að láta þig fara...sem mér finnst synd og skömm, svona seint á vetri og ekki síst fyrir að þú ert sagður ágætlega greindur. Það er ekki ég sem set þessa kröfu, heldur kennararnir. Þeir bera þér alls ekki vel söguna. Þú getur farið núna, ég hef svo samband við föður þinn, þegar hann kemur í land.
Hjartað í mér herptist saman. Mér þótti skelfilegt að valda föður mínum vonbrigðum. Ég virti hann mikils auk þess sem að ég vissi að hann myndi sennilega refsa mér duglega fyrir. Senda mig á vandræðaheimili, eins og hann hafði einatt í hótunum með ef ég varð vís að afglöpum. Ég fann tárin brjótast fram bak augnanna og reyndi að hemja þau. Ég breyttist þarna í lítið og hrætt barn og heimurinn hrundi yfir mig með braki.
Þú ert sagður skrifa ljóð. sagði Hannibal. Ég var eilítið undrandi og horfði upp til hans og gaf lítið út á það með að velta til höfðinu álkulega. Ég kom ekki upp orði.
Geturðu leyft mér að heyra eins og eitt? sagði hann og ég varð mjög ringlaður. Hvað átti þetta að þýða? Var hann að hæða mig? Ég reyndi að rifja upp eitthvað en það var allt svo dapurt og bölsýnt að ég gat með engu móti séð þetta sem tilefni fyrir slíkt. Það var eins og ég skammaðist mín fyrir þær hugsanir, þegar á hólminn var komið. Ég hristi höfuðið.
Ekkert? spurði Hannibal. Þú hefur sent eitthvað í skólablaðið er það ekki? Geturðu ekki sýnt mér það?
Ég leit í kring um mig. Í hillu var mappa merkt nafni skólablaðsins. Jú það var eitt, sem ég hafði sent inn, sem ekki var óviðeigandi. Ég sagði honum frá því og benti honum á möppuna. Hann sagðist ætla að kíkja á það. Hann hefði gaman að ljóðum. Svo sagði hann mér að ég mætti fara. Áður en ég lokaði á eftir mér sagði hann: Þú klárar daginn og kemur til mín í fyrramálið. Ég vil tala betur við þig.
Morguninn eftir mætti ég til hans. Ég hafði sofið illa um nóttina og séð fyrir mér hryllilega útlegð á upptökuheimili með Oliver Twist og vinum hans. Kvíðahnúturinn var stór og þykkur eins og netasteinn í kviðnum. Hannibal glotti. Ekki bara með augunum. Ég talaði við kennarana og við urðum ásáttir á að leyfa þér að vera til reynslu, en þú verður að fara við minnstu vandræði. Skilurðu það? Ég var ringlaður eins og fangi myndi verða, sem slyppi við aftöku. Ég lofa því.. sagði ég og langaði að spyrja hvers vegna þessi umskipti hefðu orðið á viðhorfi hans. Hann veifaði mér til dyra og sagði að við skyldum ekki hugsa um þetta meir. Hann hefði trú á að ég myndi standa mig. Ég ætlaði líka að rísa undir því trausti. Fann eldinn í brjóstinu. Mér var þó svo létt að mig langaði að leggjast á ganginn og sofna. Ljóðið þitt var gott. Sagði Hannibal kíminn og lokaði.
Var það? Var það út af ljóðinu, sem hann sýndi mér miskun? Var þetta hnoð þá mín Höfuðlausn eins og hjá Agli forðum? Ég botnaði ekki neitt í neinu.
Ég stóð mig það sem eftir lifði vetrar og náði landsprófi þrátt fyrir að 70% fall yrði í árganginum. Líklegast var það truflandi áhrifum mínum á skólasystkinin að kenna. Þau þurftu flest að taka upp prófið en ég, tossinn og uppalningurinn slapp! Líklegast fyrir ómerkilegt ljóð, sem ég gæti helst lýst, sem formóður rappsins. Engin formleg bragfæði, bara einhverskonar bunugangur. Ljóð sem hljómaði einhvernvegin svona:
ÖRVÆNTING.
Ég gleymdi að gera mitt verkefni heima.
Það er alls ekkert gaman að tapa og gleyma.
Ég roðna í framan og hvað skal nú gera?
Mig þrýtur öll ráð.
Því að alls ekki vil ég það krossmarkið bera
Að þola hlátur og háð.
Svo gýt ég til augum á alla og þegi
og hugsa og hugsa....
Það má aldrei kalla mig nautheimskan uxa!
Mig nagandi og nístandi örvænting tekur
og hræðsla svo ægileg, hristir og skekur.
Hún er kannski hlægileg...?
En í sál minni molaðri er ekki friður
og taugarnar hvorki úr stáli né eir.
Ég hníg bara niður...
og man ekki meir.
Þessa Höfuðlausn má vafalaust finna enn í safni gangfræðaskólans á Ísafirði þótt önnur ummerki um mig séu þar ekki sjáanleg. Ég mætti til dæmis ekki í útskriftarmyndatökuna og prýði því ekki veggi skólans. Kveðskapurinn var kannski ekki heldur ástæðan fyrir því að ég slefaði landsprófið. Núll komma einum lægri einkunn og ég hefði þurft að dúsa á skólabekk enn einn veturinn. Ekki var það heldur gáfum mínum og andlegu atgervi að þakka, það tel ég ljóst. Líklegri skýring er sú að kennararnir hafi ekki fyrir nokkurn mun getað hugsað sér að eyða öðrum vetri í samvistum við mig og því séð í gegnum fingur sér við ýmsum villum til að koma mér hratt og örugglega úr augsýn sinni til frambúðar.
Svona var það nú fyrir daga Rítalínsins.....
Bloggar | Breytt 17.2.2019 kl. 18:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Vetrarhljóð.
28.7.2007 | 17:21
Fyrir fimm ára snáða, sem ekki vissi betur, hafði hver árstíð sinn ilm og sín hljóð. Það var ekki laust við að fullorðna fólkið kímdi svolítið þegar hann talaði um vetrarhljóð eða morgunilm. Kannski var það vegna þess að það hafði aldrei heyrt eða fundið neitt slíkt. Kannski vegna þess að það hafði aldrei legið undir sænginni sinni á vetrarmorgni og hlustað og fundið.
En svona var þetta nú einu sinni. Það vissi hann.
Marr í mjöll undan syfjuðum stígvélum á leið í vinnuna. Hóstakjöltrin í pabba og lykt af blautum lopavettlingum. Það var veturinn.
Vindurinn gnauðaði ámátlegar en á sumrin, næstum brjóstumkennanlega. Jafnvel hljóðin frá bílunum voru dapurlegri. Allt gekk hægar. Fá bros. Lítið talað.
Já, veturinn var raunamæddur. Sumrið glatt og lifandi. Þá hló allt og þaut hjá í gáska og gleði.
Það brakaði í gólfinu. Nú var pabbi á leið á sjóinn. Pissað. Kveikt í sígarettu og aftur brakaði í gólfinu. Stiginn kveinkaði sér undan þungum fótum. Aumingja pabbi. Nú var kalt að fara á sjóinn.
Það glamraði í leirtauinu í eldhúsinu. Nú var hann að reyna að veiða bolla upp úr hrúgunni í eldhúsvaskinum. Hann hóstaði svona eins og til að reyna að kæfa hljóðið. Smellur, brothljóð, bölvað lágt og hóstað. Það heyrðist aldrei meira í honum en þegar hann reyndi að fara hljóðlega.
Mjúkir fætur læddu sér undan sænginni og tipluðu hljóðlaust eftir köldu gólfinu. Stubbur ætlaði að kyssa hann bless. Fyrst settist hann á stigaskörina og hlustaði. Þefaði.
Stiginn gein óendanlega langur við, þar sem hann rann í eitt saman við myrkrið niðri á ganginum. Ilmur af nýju kaffi og sígarettureyk mætti honum. Hann fikraði sig niður, þrep fyrir þrep. Stiginn kvartaði eilítið yfir ónæðinu svona snemma dags en lét sér lynda að á honum væri troðið. Eldhúshurðin var ekki eins þýðlynd. Æiii!, sagði hún, er snáðinn ýtti við henni. Allt var svo tregt og sérhlífið á veturna.
Nú ert það þú? -sagði pabbi eins og hann byggist við draug. Já ég heyrði í þér. Sagði snáðinn og lét sem hann væri nývaknaður. Ég ætlaði bara að kyssa þig bless.
Tvær hlemmstórar, sigggrónar hendur lyftu honum upp eins og hann væri þyngdarlaus og skeggbroddar stungu hann í vangann. Hann lagði armana um háls pabba og neri vanga við vanga. Þú stingur. -sagði hann lágt.
Ég? -sagði pabbi eins og ekkert væri fjær. Það hlýtur að vera þú, sem hefur gleymt að raka þig. Snáðinn strauk sér um vangann og brosti. Ég er að safna. sagði hann svo. Pabbi hnussaði eilítið eins og hann hafi fengið kusk í nefið. Þannig var hann vanur að hlæja. Svo faðmaði hann litla drenginn sinn að sér, svo fast að hann kenndi til. En það geði ekkert til, því snáðinn vissi hvað það þýddi.
Pabbi setti hann niður á stól og sótti handa honum mjólk og brauðsneið. Svo sátu þeir feðgar í heimspekilegri þögn, hvor á sínum stól og mauluðu bitann sinn.
Pabbi sötraði kaffið sitt í löngum sogum og blés í bollann. Eldhúsklukkan tifaði og hugir þeirra svifu út um gluggann, hátt yfir snarbröttum, vomandi fjöllum í glerkenndu morgunlofti vetrarins.
Skyndilega tók pabbi kipp, stökk á fætur og kveikti á útvarpinu. Veðurfréttir! Þá var nú eins gott að þegja eins og steinn. Suss! sagði hann án þess að nokkur segði nokkuð. Síðan hvolfdi hann sér yfir tækið eins og köttur sem bíður eftir að hremma bráð sína. Það sem eftir fylgdi var eins og helgistund, nema hvað í kirkju heyrist þó alltaf einstaka hósti og stuna.
Afar syfjuð rödd þuldi seiga og hljómbrigðalausa þulu:
Gert er ráð fyrir stormi á vestfjarðamiðum, norðurmiðum... og happdrættismiðum og hvað þau nú hétu nú öll þessi mið.
Fyrir snáðanum var þetta aðeins óhemju leiðinleg tugga, sem jafnvel þulurinn skildi ekki sjálfur. En fyrir pabba var þetta eins og höfuðlausn. Spurning um líf og dauða. Og sennilega var það svo. Pabbalausir vinir í götunni báru því vitni.
Að lokum kom romsa um Færeyjar og Færeyjadjúp en þá slökkti pabbi á tækinu og sórst við andskotann. Það gerði hann á hverjum morgni.
Þessu næst snaraði hann sér í gömlu, skotheldu lopapeysuna, sem stóð honum öll á beini og angaði af slori og olíu. Það virtist sama hverju spáði. Alltaf var farið á sjó.
Snáðinn rétti honum bitaboxið, svo hann gleymdi því ekki, eins og svo oft áður. Skeggbroddar stungu hann í vangann og pabbi var horfinn.
Snáðinn stóð einn á miðju gólfi og sígarettureykurinn hékk í loftinu eins og þunn slæða, blaktandi í trekknum, sem boðaði svo oft storma og stórsjói.
Eldhúsklukkan tifaði eins og berfætt barn inn í eilífðina og vindurinn grét hið óorðna úti fyrir.
Það voru vetrarhljóð og morgunilmur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Klifurkötturinn og álög landnámsmannsins.
27.7.2007 | 16:01
Í febrúar 59 mætti ég berskjaldaður til lífsins hildar. Afkomandi víkinga og varmenna með krókóttann ættlegg til Haraldar konungs Hárfagra. Ég óx í ódælan dreng eins og af bláleitu víkingablóði má vænta. Bakkapúki kallaður sem barðist við ræflana í efribæ með trésverði, tók menn til fanga og smáði, féll í orrustu á tröppunum heima en reis upp frá dauðum með blæðandi haus. Ég var ósigrandi landkönnuður sem leitaði ókunnra landa af óstöðvandi útþrá og áfergju.
Tanngisinn og smámæltur prakkari á fimmta ári var ég með foreldrum mínum á Suðureyri við Súgandafjörð. Þar hafði tilvist mín sprottið af einum kærleiksneista þegar móðir mín, undirleit og feimin sextán ára yngismær, féll fyrir löngum og kímnum slána. Það gerðist þegar hún færði honum pottflösku af kaffi í ullarsokk niður á bryggju. Pabbi var sjómaður. Hann átti happafleyið Kveldúlf og lagði aflann upp á Suðureyri. Lífið var látlaust þá. Við áttum lítið en enginn kvartaði. Þannig var lífið og engin viðmið um betra hlutskipti voru til að glepja fólk. Ekkert sjónvarp né alnet og enginn glamúr sem lokkaði.
Mamma var varla meira en barn sjálf. Hún knúsaði mig og baðaði í þvottabala og naut þess að klæða mig upp og greiða hárstrýið mitt upp í kjöl til að hafa mig fínann eins og Elvis. Ég var litla lifandi brúðan hennar sem hún elskaði meira en nokkuð annað. Hún söng eins og engill og dansaði með mig um gólf í litla steinhúsinu okkar sem var með þykkum kastalaveggjum og öruggt skjól. Það var þó ekki stærra en svo að síðar meir var gaflinn sleginn úr því og því breytt í bílskúr sem naumlega rúmaði einn smábíl.
Suðureyri var staður mikilla töfra fyrir stuttfættan heimspeking og spekúlant. Þarna var Steini Steins þessi stóri og þögli maður. Hann átti hrútinn Móra, illúðlegan og stórhyrndann, sem hann leiddi um í bandi eins og hund. Hreppstjórinn spókaði sig um fyrir framan Kaupfélagið með voldugan hatt og silfurbúinn staf eins og hann ætti plássið, enda trúði ég því og varaði mig á að styggja hann ekki. Þar var líka Halli klapp, sem stóð allan daginn og klappaði saman höndum og sló sér á lær á víxl. Sævi ók um þorpið með miklum drunum og frussi. Hann átti þó ekki bíl heldur hélt hann á gömlu bílstýri sem hann hljóp með sleitulaust frá morgni til kvölds. Hann bakkaði og spólaði upp brekkur, snéri og bremsaði með öllum þeim hljóðum sem því fylgdu. Einu sinni ók hann út af og niður í fjöru. Hann sat þar fastur og var naumlega hægt að bjarga honum áður en hann flæddi uppi. Það þurfti að kalla til olíubílinn á staðnum til að draga hann upp. Engu tauti var komið við hann fyrr. Hann varð síðar dyravörður í Háskólabíói hjá Berta bróður sínum en er nú dáinn.
Jói Gunnubetu var þarna líka með herðakistil og undarlegt glott á vör. Hann sagði fátt og okkur stóð stuggur af þessum dökkleita manni sem starði sínum svörtu augum og hæddist að heiminum. Hann var þó hinn mesti öðlingur og vakti athygli síðar sem Jóhann Grínari. Hann fór með eftirhermur í útvarpi sem allar hljómuðu eins. Einnig bjó til árlegt handgert dagatal sem slegið var upp dagblöðum hér eins og um stórfrétt væri að ræða. Svo var hann líka leikari í Bíódögum Friðriks Þórs ásamt fleiri afrekum á því sviði. Hann dó einn og afskiptur og var miklu yngri en ég hafði haldið hann vera. Blessuð sé minning hans.
Hrefna og Ranka voru systur sem bjuggu í hálfgerðum torfæ í miðju þorpi sem var svo feyskinn að búast mætti við að hann hryndi ef einhver reskti sig of nærri. Þær voru eins og klipptar út úr 18. öld alltaf í peysufötum með skotthúfur. Það var eins og tíminn hefði gleymt þeim. Þær höfðu gát á mér sem kornabarni og tuggðu saman soðna ýsu og myglaðan mör með tannlausum gómum og mötuðu mig með fingrunum. Barnamatur fortíðar.
Svo var það Guðmundur gamli Pálma sem kom á hverjum morgni frá Staðardal með mjólk í brúsum á fúinni hestakerru, dreginni af lúnum og horuðum klár. Hann var með pottlok á höfði, prýddur þykku gráu yfirskeggi eins og rostungur. Hann jós mjólkinni í brúsa þeirra sem kaupa vildu og hélt svo aftur heim eins vofa liðinna alda. Það var heldur ekki fjarri sanni. Allt við hann var forneskjulegt. Hann var meira að segja í svart-hvítu eins og á gamalli ljósmynd. Ekki vottur af lit á kerru, hesti né klæðum.
Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er sagt frá konu sem lagði hvítvoðung sinn um stund við réttarvegg á meðan hún gekk til verka. Þegar hún ætlaði að vitja barnsins þá var það horfið og fannst ekki hvað sem leitað var. Yfirkomin af sorg dreymdi hana síðar álfkonu sem kom til hennar og sagði barnið vera hjá sér við gott atlæti. Daginn eftir fannst barnið á sama stað við réttarvegginn og amaði ekkert að því. Þetta barn var systir Guðmundar Pálmasonar mjólkurpósts og ku hafa dáið í skriðufalli þegar hún varð gjafvaxta. Álfum var að sjálfsögðu kennt um það. Nær fornsögunum varð ekki komist.
Pabbi hennar mömmu, hann Alli fiskimann, var líka mikið furðuverk í mínum augum. Fyrirmyndarafi fyrir æfintýraþyrstan púka. Hann var alltaf kátur og glaður í minningunni. Hann ló dillandi hlátri, hjak, hjak, hjak og var svo glysgjarn að það stirndi á hann. Medalíur og silkiklútar prýddu hann í öllum regnbogans litum og spilaði hann á harmonikku og munnhörpu þegar hann fékk sér neðan í því. Hann var sköllóttur en bar alltaf kaskeiti að skipstjórasið. Einn veturinn fékk hann sér það sem hann kallaði hárhúfu sem hann dásamaði fyrir hlýindi og praktík. Húfa og hár; tveir fyrir einn. Mamma harðbannaði honum að bera hana og blygðaðist sín fyrir hann því það var algerlega tilviljunum háð hvort þessi hárkolla snéri rétt eða ekki.
Ég átti annan afa; Dóra, sem var seinni maður ömmu. Hann var stór og mikill svo engir skór pössuðu á hann nema gúmmískóhlífar sem okkur strákunum fannst nógu stórir til að geta róið á út á fjörðinn. Hann var ljúfur og þögull kall sem sötraði kaffið sitt í eldhúsinu með löngum sogum við tif eldhússklukkunnar. Hann réri stöðugt í gráðið, hummaði ókennilegan lagstúf í sífellu og borðaði allan sinn mat með sama vasahnífnum nema að sjálfsögðu súpuna. Hann var af fátæku vinnufólki og hafði liðið mikið harðræði í bernsku. Sonur vinnuhjúa í vistarböndum sem var barinn eins og hundur og svaf í fjárhúsi við harðan kost.
Innan um alla þessa kynlegu kvisti voru svo vinir manns. Sívert var einn af þeim. Freknóttur grallari með óútreiknanlegan huga undir rauðum lubbanum. Það var yfirleitt ekki vel liðið að við legðum lag okkar saman því það endaði oftast með ósköpum. Skaðræðisgripir vorum við kallaðir. Við lékum okkur til fjöru og fjalls í endalausum rannsóknarleiðöngrum. Klifruðum og veltum okkur niður hjallana ofan við þorpið þar til okkur var bannað það og sagt að við myndum fá garnaflækju af því og deyja. Þarna fékk ég uppnefnið Nonni prakkari og þarf enn að búa við að vera kallaður því þegar ég á leið vestur um firði.
Okkur Sívert lék hugur að vita hvað bjó að baki fjallanna sem umluktu þennan smáa heim. Sumir sögðu að þar væru útlönd og það vildum við kanna. Þegar við vorum að ræða þetta okkar á milli vorum við varaðir við að klifra í fjöllunum því nóg hafði fólk séð af pústrum og skeinum í okkar daglega brölti. Okkur var sagt að í fjöllunum byggju álfar sem ekki væru kátir með að brölt væri á húsþökum þeirra. Því fylgdu álög og ógæfa. Efst á fjallinu var okkur sagt að væri gröf Hallvarðar Súganda landnámsmanns sem barist hafði við forföður minn Harald Hárfagra. Í haug hans var víst falinn mikill fjársjóður. Margir höfðu freistað þess að finna hann en það endaði víst ávallt með miklum skakkaföllum eða dauða fyrir viðkomandi. Ef hróflað væri við haugnum myndi kirkjan í Staðardal líka sjást standa í ljósum logum. Það var þó aðeins undanfari mikið fleiri hörmunga að sögn manna.
Ekki sló þetta á áhuga okkar þótt ætlun fólks með þessum hrollvekjum væri önnur. Við bjuggum okkur því nesti og héldum út með firði í fjársjóðleit. Uppgöngustaðurinn var fjallið Spillir, sem er eitt óhugnanlegasta og brattasta fjall þar um slóðir. Við vorum ósigrandi og ódauðlegir. Litum á kirkjubruna sem hreinan bónus við auðæfin sem við ætluðum að færa heim. Eldur var eitthvað töfrandi og heillandi í brallarakollum okkar. Álög óttuðumst við ekki.
Við klifum snarbratta og grýtta urðina og vorum heitir á skrokkinn. Ævintýraeldurinn logaði snarkandi innra með okkur þegar við ræddum hvað við myndum gera við auðæfin. Kaupa leikföng, bát, hest, bíl og kannski kjól á mömmu. Kannski svona kveikjara eins og Frissi Rokk átti. Frissi var eini töffarinn í bænum og vitnisburður erlendrar ómenningar. Hann var með Brilljantín í hárinu meðuppbrettar gallabuxur og í támjóum bítlaskóm. Maður sem var í guðatölu hjá okkur krökkunum. Hann gat meðal annars búið til myndaramma úr tómum Camelpökkum og dregið túkalla út úr útstæðum eyrum okkar.
Fjallið var svo bratt að það var engu líkara en það ætlaði að hvolfast yfir okkur. Mávarnir hnituðu fyrir ofan okkur í von um blóð og þeim varð brátt að ósk sinni. Skyndilega losnaði steinn sem ég hafði gripið í til að vega mig upp og áður en ég vissi var ég í frjálsu falli. Ég endastakkst niður urðina eins og tuskubrúða. Hvassar nibbur stungust í skrokkinn á mér og ég nam ekki staðar fyrr en við bjargbrún ofan við veginn út að Stað. Ég hafði rotast og man ekkert fyrr en ég rankaði við mér aftan á bögglabera á hjóli móður minnar, alblóðugur og rifinn. Ég var reyrður með tusku við mömmu sem hágrét og ákallaði Guð um hjálp. Hún hjólaði eins og hún ætti lífið að leysa heim í þorp. Sívert hafði hlaupið inn eftir og sagt henni óðamála að ég væri dauður. Það mátti líka engu muna. Ég fékk heilahristing og sjö göt á hausinn sem enn prýða hnúðótt höfuð mitt. Hallvarður hafði lagt mig í valinn þótt ég risi upp til nýrrar orrustu eins og vargi sæmdi. Ég hafi aðeins lotið í duft í einum bardaga en stríðið langt frá því tapað.
Mér finnst gott að rifja upp farinn veg og minna mig á hvaðan ég kem. Minnast með þakklæti þess góða og fyrirgefa hið slæma. Þá er líklegra að maður rati rétta leið inn í framtíðina og nái að halda sátt við Guð og menn. Lífið er oft háskaför og stundum ljúfur leikur. Það hefur sinn tíma að elska og það hefur sinn tíma að stríða.
Í dag er ég hættur að stríða að mestu þótt einstaka sinnum þurfi maður að bera fyrir sig hendur. Margir eru fallnir sem börðust mér við hlið og landvættir, álfar og upprisnir landnámsmenn hrella mig ekki meir. Vopnabræðurna hitti ég síðar. Álögin eltu þó Sívert alla tíð og nú er hann farinn til Valhallar. Ég hitti hann fyrr en síðar eins og Hjálmar á Bólu kvað svo listilega um.
Mínir vinir fara fjöld,
feigðin þessa heimtar köld,
ég kem eftir, kannski í kvöld,
með klofinn hjálm og rifinn skjöld,
brynju slitna, sundrað sverð og syndagjöld.
.
Bloggar | Breytt 21.5.2019 kl. 20:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Kynngimögnuð Smásaga í Litum og Panavision.
24.7.2007 | 02:07
Mjölnir leit upp og kláraði kartöfluuppskeruna um leið og hann réri yfir Kyrrahafið á sefbát. :Hvað er að angra þig elskan? Spurði hann og framleiddi sjónvarpsþátt um hlaupfiska.
Æ, ég veit það ekki. Svaraði Guðrún og jarðaði sendimenn byggingaeftirlitsins í kotru. Það er bara eitthvað svo tilbreytingarlaust hér.
Mjölnir umturnaði fjármálaheiminum hugsi. Hefur það eitthvað með mig að gera? Ég játa að ég gæti vafalaust verið margbrotnari í samskiptum mínum við yður, elskan. Hann hlammaði sér vonsvikinn niður og gerði upp þotuhreyfilinn sem hann hafði unnið í glímu eftir að hann hafði lokið við að flytja Andesfjöllin.
Nei, nei, ekki þú elskan. Þetta er bara einhver efnaskiptasjúkdómur í mér eða breytingaskeið. Sagði Guðrún skellihlæjandi og virkjaði Víðidalsá. Þetta dettur svona yfir mig stundum. Fyrirgefðu.
Mjölnir sýtti tannleysið og lagði fram breytingatillögu um skipan öryggisráðsins, svona til að dreifa athyglinni frá brennandi trésmíðaverkstæðinu. Ekkert að fyrirgefa elskan. Ég verð sjálfur svona um hver tunglkvartil.
Þau brostu og eyddu miðunum umhverfis landið með eitruðum þörungum, ánægð með hve olíuboranir þeirra á heimskautaísnum virtust takast vel. Það gat stundum borgað sig að leggja fram byltingakenndar kenningar í kjarneðlisfræði.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (32)
Bambusstangir og bræðravíg.
21.6.2007 | 02:56
Haustmorgun einn árið 1208 kraup Kolbeinn Tumason goði og skáld á kné í döggvott grasið á Víðinesi. Mistur var í lofti og kjá fugla í fjarska. Vitund hans galopin og skýr. Ilmur gróandans fyllti vitin og fjarlægur kliður vaknandi heims hvíslaði í eyrum. Ofar öllum veraldarnið og hugarvíli ríkti þó mikilfengleg kyrrðin, sem umlukið hafði jarðlífið frá upphafi vega. Kyrrð hins eilífa og almáttuga. Þennan dag skyldi skáldið deyja í orrustu, sem ekki varð umflúin. Innst inni hafði hann dýpri vitneskju um þau örlög. Hann bað því Guð um mildi og forsjá...minnst mildingur mín. Auðmýkt hans var djúp og sátt í hjarta yfir hverju sem koma vildi. Hann myndi lúta vilja alvaldsins hvernig sem færi. Ég er þrællinn þinn. Þú ert drottinn minn.
Máske sá hann villu sína á þessari stundu. Að deilur um jarðnesk og hverful málefni höfðu komið honum á þennan stað. Þvermóðska, græðgi, öfund og vantraust á forsjá og mildi alvaldsins hafi skapað honum þessi örlög. Kannski uppskar hann þarna það sem hann hafði sáð til. Kannski sótti iðrun að hjartanu. Kannski var enn rökrænn möguleiki á að hverfa frá hildinni ef ekki væri fyrir duttlungafullar kennisetningar um heiður og skyldur sem mannleg gunnhyggni hafði bitið óskrifað í sig. Dauði hans var því óumflýjanleg niðurstaða af hugsunum hans og gjörðum en ekki ákvörðun einhvers mildings ofar öllu mannlegu. Hver er sinnar gæfu smiður. Enginn himnasmiður.
Mér finnst sem ég gæti sett mig í spor Kolbeins þegar ég hugsa til púkastríðanna svokölluðu á gullnum dögum æskuáranna. Þannig upplifði ég orrustudag í aftureldingu. Við ákváðum yfirleitt með dags fyrirvara að heyja stríð við krakka í nærliggjandi götum eða í öðrum bæjarhlutum. Fjarðarstrætispúkar gegn Bakkapúkum; Efribæjarpúkar gegn Neðribæjarpúkum. Ekkert sérstakt tilefni var gefið að þessum stríðum annað en landfræðilegur aðskilnaður og eining um óeiningu.
Strax og stríð var handsalað og staður og stund ákveðin, byrjaði undirbúningur. Sverð voru smíðuð, sem oft voru líkari lurkum en nokkru öðru. Bambusstöngum var stolið, snærispottar útbúnir með hnút á enda og jafnvel ógnvekjandi keðjustubbar voru teknir til handargagns. Allt voru þetta stórhættuleg tól og fallin til að meiða og limlesta. Það var þó aldrei hinn æðsti tilgangur að meiða, heldur var markmiðið að vera eins ógnvekjandi og hægt var; að stökkva óvininum á flótta sem fyrst. Hafa hátt, ögra og hræða. Upplifun stríðsins var meginatriðið, tilfinningin fyrir og eftir. Eftirvæntingin, sigurvíman. Þessi ótruflaða athygli og árvekni, sem skapaðist. Allt varð einhvern veginn ljósara og skarpara stundirnar áður en skarst í brýnu. Hljóðin urðu skýrari, andrúmsloftið ferskara, heimurinn litauðugri, bragðskynið ríkara og kyrrðin yfir svo magnþrungin að hún fyllti brjóstið og yfirskyggði óttann. Hugurinn var tendraður til hins ýtrasta en samt yfirvegaður. Tíminn blekking ein.
Líklega var mér svipað innanbrjósts og skáldinu að morgni skaparadægurs síns . Ég fann allavega samsömun í orðum hans. Heyr himnasmiður, hve skáldið biður. Komi mjúk til mín, miskunnin þín.
Við söfnuðum grjóti í vasa, munduðum barefli og vógum skildina á armi. Málmbragð í munni, þandir nasavængir, snörp orðskipti, suð í eyrum. Við stóðum reiðubúnir í eilífu andartaki eins og riddarar í álögum. Stundin var að renna upp. Við enda götunnar birtist óvinaherinn með gunnfána og lensur á lofti. Úff...hvað þeir voru margir. Við settum í herðarnar, bitum saman jöxlum og reyndum að breiða sem mest úr hópnum; börðum sverðum í skildi og yggldum brún. Óttinn læddist inn. Veruleikinn. Saklaus hugmynd var orðin dauðans alvara.
Ég vildi ekki vera þarna. Ég óttaðist þó síður að meiðast en að þurfa að meiða aðra. Þetta voru jú allt vinir og skólafélagar. Engum vildi ég illt og engan hataðist ég við. Hugurinn hvarflaði til hentugra flóttaleiða. Það gat þó enginn verið þekktur fyrir að láta hugfallast í miðri hólmgöngu. Innbyggð skylda sagði manni að yfirgefa ekki vini sína á örlagastundu. Þessi hugsun var líklegast sammerk með okkur öllum. Við vildum ekki, en skyldum. Stríðið varð sjálfstætt afl sem laut eigin lögmálum án tillits til langana soldátans um sátt og frið. Til að öðlast frið þarf blóð.
Árááás! Öskraði einhver og báðar fylkingar þustu mót hver annarri með samfelldu stríðsöskri. Hópunum laust saman og höggin dundu á skjöldum, bambusstangir kvistuðust í sundur og flísar flugu úr vopnum og verjum. Sumir hopuðu, aðrir ekki og hópurinn leystist upp í einangraða bardaga þar til óskráð sátt varð um að aðskilja fylkingar og safna liði að nýju. Nú fóru menn að leggja á ráðin af meiri ákafa. Óttinn efldi móð. Margir voru hruflaðir á höndum og höfði og enn aðrir með blóðnasir. Sjáöldur voru þanin til hins ýtrasta og horinn frussaðist úr nefi. Fyrst þykjumst við ætla að ráðast beint á þá en svo dreifir helmingurinn sér og kemst á bak við þá. Svo umkringjum við þá. sagði sjálfskipaður hershöfðingi hópsins, sem oftast var sá hugaðasti og ófyrirleitnasti eða sá hræddasti.
Aftur var gert áhlaup á sama máta, en í þetta skipti birtist risastór strákur í hópi andstæðinganna. Hann var illilegur og ógnarlega stórvaxinn eins og risaeðla í hópi maura. Hann veifaði lurki á stærð við símastaur að manni fannst og virtist geta mulið okkur alla undir sér. Röddin var djúp og mikil svo stríðsöskur okkar urðu eins og hjáróma mjálm í samanburði. Óvinurinn margefldist við tilkomu þursans og æddi óttalaus gegn okkur. Ég fann reiðina svella í brjósti við þetta óréttlæti og skálmaði fram gargandi eins og lungun þoldu.
Þegar ég leit sem snöggvast um öxl til samhæfingar við vopnabræður mína, sá ég aðeins undir hvítar iljarnar á gúmmískónum þeirra. Þeir voru lagðir á flótta! Ég var einn á móti öllum þessum ógnarher! Ég þeytti skildinum og sverðinu í átt að væringjunum og tók til fótanna líka. Það var því miður of seint. Sá fljótasti í hópnum náði mér á tröppunum heima og barði mig bylmingshöggi í höfuðið með lurki. Ég fann skringilega kitlandi tilfinningu í nefinu og hávær sónn fyllti höfuð mitt eins og stillimynd sjónvarpsins væri komin þar inn. Ljósflekkir blossuðu fyrir augum og dimmrauður skuggi lagðist eins og þrumuský yfir vitundina. Ég rotaðist um stund, en rankaði aftur við mér þegar bölsót móður minnar þrengdi sér inn í vitundina. Hún hélt mér að sér og steytti hnefana mót innrásarhernum sem tvístraðist eins og sáð fyrir vindi. Blóðið rann niður ennið en ég fann ekki til. Ég var feginn því að stríðið var búið. Mig skipti minnstu að við höfðum tapað.
Slíkt er þó eðli stríða að niðurlag er ekki ásættanlegur endir. Hefndum skyldi ná. Tap kallaði á betri undirbúning, meira miskunnleysi, betri vopn og betra skipulag. Annað stríð var óumflýjanlegt og það yrði stærra og blóðugra en þetta. Það stríð unnum við líka og höfðum þá einnig leynivopn í stórabróður einhvers, sem þó reyndist ekki nauðsynlegt. Minningin um niðurlæginguna var innblástur okkar. Endurheimt óræðs heiðurs réð för. Við eltum óvininn uppi og tróðum þeim ofan í öskutunnur sem við börðum utan með sverðum. Einn tókum við fanga sem við drösluðum upp í fiskhjall og bundum við staur og niðurlægðum með orðum og pústrum. Svo héldum við niður í fjöru og kveiktum eld, skiptumst á hetjusögum rákum upp stríðsöskur. Fanganum gleymdum við í sigurvímunni þar til síðla um daginn að áhyggjufullir foreldrar fóru að leita hans. Þá var honum sleppt með sparki í rassgatið og ýmsum munnlegum ónotum.
Svona gengu stríðin á víxl eins og blóðhefndin fyrr á öldum og hættu ekki fyrr en skólinn og skyldurnar drógu hugann frá þeim. Enginn erfði þó neitt og allir urðu vinir að nýju eða svo til. Fanginn okkar hann Flosi var svolítið lengi að taka okkur sátt, en þau sár greru um síðir.
Stríð samtímans snúast enn um víxlverkandi lönguvitleysu blóðhefndarinnar. Þó er helsti drifkrafturinn ótti þess sem hefur við að glata því sem hann hefur. Ótti um skort og kapp um viðhald lífsgæða sem eru þó langt umfram þörf. Þeir sem skortinn líða megna ekki stríð. Þeir hafa heldur ekkert að verja nema skortinn sjálfan. Það eru forréttindi hinna efnameiri að heyja stríð. Okkar stríð snerist ekki um skort, græðgi, völd né hégóma. Okkar stríð kom okkur í nánd við alvaldið og fyllti okkur lífi. Okkar stríð urðu okkur vakning um hverfulleikann, kærleikann og auðmýktina eins og skáldinu forðum. Okkar stríð kenndu okkur að meta frið og vináttu að verðleikum ef einhvern lærdóm var af þeim að draga.
Ég efa þó að þessi reynsla hafi komið okkur til góða þegar fram í sótti, nema ef vera skildi að fanginn Flosi hafi getað nýtt sér hana síðar á ævinni. Hann var handtekinn í Dubai áratug síðar, fyrir að reyna að koma riffli með sér í farangri sínum. Vist hans þar var þó lengri og erfiðari þar en hjá okkur. Það krafðist milliríkjasamninga og mikils fjölmiðlafárs að losa hann úr þeirri prísund. Dubaifanginn Flosi var látinn laus fyrir sárbænir yfirvalda og ættingja. Því sjálfur Emírinn gat nú ekki verið minni maður en hugumstórir Bakkapúkar forðum.
Bloggar | Breytt 21.5.2019 kl. 02:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Vort Afmarkaða Almætti.
2.5.2007 | 00:24
Yfir þorpinu mínu var himnesk hvelfing, sem var með þeim undrum gerð að skipta litum. Stundum var hún glitrandi tær eins og lindardjúp eða skyggð og mött með mikilfenglegum sólstöfum, sem flöktu við sjóndeild eins og silfraðar orgelpípur. Í málmkenndu frostlofti vetrarnátta sindraði þar stjörnufjöld, sem drap tittliga í sífellu mót dreymandi barnsaugum og jaðegrænar slæður norðurljósanna hlykkjuðust í þokkafullum dansi frá eilífð til eilífðar. Stundum ríkti kyrrðin ein og stundum geysuðu fjörbrot árstíðanna og undirstrikuðu smæð okkar og magnleysi. Stundum sveif þar fuglafjöld og söng sköpunarverkinu dýrð. Þetta var okkar kirkjuhvolf. Í þessu hvolfi áttu hjörtu okkar samhljóm, þegar við drengirnir stigum út í morgunloftið viðbúnir óvæntum undrum óskipulagðrar framtíðar. Leið oss mikla líf. Hvað áttu óvænt og undravert að færa okkur á þessum degi?
Við Einar vinur minn hittumst ávallt á morgnana og spásseruðum um bæinn eins og við ættum hann. Sjálfgefnir heimspekingar í gúmmískóm með lymskublik óráðinna uppátækja í augum. Við stungum snöggklipptum kollum inn um gluggann á félagsbakaríinu og fengum heitar hveitibollur hjá Steina bakara, áður en hann breytti þeim í tvíbökur. Stundum fengum við að bursta hveitipoka fyrir vasapeninga hjá honum. Þá urðum við hvítir frá hvirfli til ilja eins og vofur eða fallnir englar og skutum grunlausum skelk í bringu. Milli okkar Steina ríkti óhandsalað samkomulag virðingar og hjálpsemi.
Við áttum okkur sjálfir þótt við svöruðum öðru til þegar við vorum spurðir um hver ætti okkur. Spurningar um eignarhald og hlutverk voru meiningarlausar í okkar heimi. Við áttum þó alltaf stöðluð svör við spurningum fullorðna fólksins. Stundum spurðu menn til dæmis hvað við ætluðum að verða þegar við yrðum stórir og við sögðumst ætla að verða það sama og feður okkar, þótt við vissum fullkomlega að við værum eitthvað mikið merkilegra þar og þá. Við þurftum ekki merkimiða til að gefa okkur tilgang. Hvorki þekking, staða, eignir, upphefð né skoðanir glöptu þessa sjálfsmynd eins og hjá hinum fullorðnu. Þeir töldu sig alltaf vera eitthvað, hafa einhverjar skoðanir og trú og áttu eitthvað, sem þeir skilgreindu persónu sína eftir. Ég er bankastjóri eða smiður, framsóknarmaður eða verkamaður, auðugur eða fátækur, þjáður eða sæll.
Við vorum ekkert sérstakt og þar af leiðandi allt mögulegt í senn. Hið æðra sjálf var fyrirferðarmeira í verund okkar en jarðbundin sjálfsmyndin; breiddi úr sér að baki hugans eins og litauðugt páffuglsstél; vakandi yfir öllum hugsunum og gjörðum. Ekkert annað jarðneskt kvikindi en maðurinn naut þeirra forréttinda að geta staðið utan sjálfs síns og ígrundað eigin hugsanir. Það var hinn sameiginlegi andi; hið alvitra og alsjándi ofar hinum huglæga meltingarvegi heilans. Heilinn melti upplýsingar en maginn mat. Þetta vissum við og skynjuðum og þess vegna var þetta glaða og óræða glott undir niðri. Leyndardómur bernskunnar. Hið takmarkalausa frelsi sálarinnar; fullvissan um æðri handleiðslu, sem maður gat heiðrað og hundsað að vild. Ástand sem fullorðnar manneskjur gátu ekki öðlast nema að glata öllu. Verða ekkert og neyðast til að treysta á náungann eins og oft hendir mjög gamalt fólk. Það var enginn þykistuleikur þótt við virtumst eiga heiminn. Það var jafn augljós staðreynd og að heimurinn átti okkur. Heimurinn var í okkur og við í heiminum.
Eitt sinn á okkar stefnulausa flandri streymdi til okkar angurvær söngur. Hann barst frá litlu vinalegu trékirjunni okkar. Hærra minn Guð til þín; hærra til þín... söng fólkið í angistarblandinni bæn um nálægð við eitthvað, sem þegar umlukti það hvar sem það var eða fór. Raddir sem í sjálfmeðvitaðri helgi, kepptust um uppljómun fyrir tilstilli lagvísi og tónaflúrs. Við fórum inn í spíraðann helgidóminn og læddumst upp á kórsvalirnar, örlítið spenntir og forvitnir, en samt hæfilega lotningarfullir. Þarna höfðum við ekki komið síðan okkur var dýft í fontinn í árdaga. Við vorum einir þarna uppi og gátum horft yfir hnýpinn söfnuðinn. Söngurinn var fallegur og það var sársauki, iðrun og von í angurværum samhljómnum. Sumar raddir voru meiri eða örvæntari en aðrar og risu yfir meðallagið í skræku yfirboði og titrandi þindarblæstri. Það þótti okkur fyndið. Skrítnar kerlingar með ámálaðan hreinleika og sýndargöfgi í svip, kepptust um hylli prestsins. Heilög skal heimvon mín hærra minn Guð til þín.
Í stöðugri útöndun héldu þær sig finna nálægð heilags anda, þegar raunin var sú að þær voru að missa meðvitund af súrefnisskorti. Séra Sigurður sneri baki við hjörðinni sinni og baukaði eitthvað með flúrstunginn kross á herðum. Hann var tröllvaxinn maður í okkar augum og þegar söngnum lauk, sneri hann sér við með upprétta arma og höfgi í svip. Svo byrjaði hann að tóna sinni nefmæltu röddu, sem var í miklu ósamræmi við burði hans. Gvöspjallið skrefaðe gvöðspjallamaðurenn Jóhanneeeees... Þvílíkir tilburðir við að kynna höfund bókar! Hláturinn blossaði upp í kviðarholinu á okkur og þótt við reyndum að bera hendur fyrir vitin, þá frussaðist hann stjórnlaust út um nef og munn. Séra Sigurður snarþagnaði í miðju tóni og söfnuðurinn reygði sig í átt að svölunum. Við urðum algerlega magnvana og lákum niður í gólfið grenjandi úr hlátri, svo tárin trilluðu og víst var að einhverjir dropar sluppu í brók. Meðhjálparinn hraðaði sér áleiðis til okkar og við reyndum að skríða niður emjandi og ískarnadi, höfðum enga stjórn á þessu. Við vorum gripnir niðri við dyr þar sem tekið var í hnakkadrambið á okkur og okkur hent á dyr. Þar kútveltumst um tröppurnar og slöguðum svo eins og drukknir menn út úr garðinum.
Lengi á eftir fannst okkur við vera litnir þóttafullum vandlætingaraugum af broddborgurum bæjarins. Uppalningar, skrattakollar og púkar. Þarna á þessum afmarkaða stað undir máluðu stjörnuhvolfi höfðum við framið helgispjöll. Bara þarna gátum við ekki hlegið og glaðst. Þarna var leikrænt yfirbragð sorgar og alvöru skilyrði. Þarna virtist vera meira af Guði en annarstaðar og í návist hans var nauðsynlegt að vera langleitur og horfa með hundsaugum á siðameistara hans og umboðsmann. Þetta gátum við ekki skilið og enn er það svo um fjörutíu árum síðar.
Það var ekki að undra að við fengum grillur um að Guð væri persóna. Persóna sem jafnvel var bundin við ákveðið póstfang. Duttlungafullur karl með eilífar umvandanir. Karl sem lét einatt eins og maður gæti ekki gert neitt rétt. Uppalandi, sem stöððugt klifaði á takmörkunum okkar. Þú mátt ekki, þú getur ekki, þú skilur ekki.
Á þeim tíma, sem við vorum að fikta við andaglas, datt okkur í hug að athuga hvort það væri hægt að ná í þennan afmarkaða Guð í síma. Bara svona til að sjá hvort þetta væri virkilega tilfellið. Fjölfróðir andarnir voru ekki lengi að fletta númerinu upp þegar við spurðum. Ekki man ég númerið í dag, en við hringdum við fyrsta tækifæri. Eftir nokkrar hringingar, svaraði gamall og góðlegur karl. Er þetta hjá Guð? spurði ég. Það er hann. Svaraði hæglát röddin. Það kom fát á mig; varð eiginlega kjaftstopp. Ég tók um tólið og sagði Einari að almættið væri á línunni. Spurðu hann hvar hann á heima. Hvíslaði Einar. Ég spurði og góðlátlegur hlátur hljómaði. Allstaðar og hvergi. Inni í þér og allt í kring. svaraði röddin. Mér fannst þetta útúrsnúningur og spurði. Áttu ekki heima í himnaríki? - Jú. Svaraði röddin og hljómaði brosandi. Var hann að gera at í okkur? Himnaríki er allstaðar og hvergi. Inni í þér og allt um kring. Ekki man ég nákvæmlega allt samtalið en fljótlega sagði Guð okkur að hann væri nú bara trillukarl á Patreksfirði. Þetta samtal kom þó róti hugi okkar og eftir miklar vangaveltur komumst við að því að þetta hafi í raun verið Guð. Látleysi hans og viska var svo djúp og brosmild röddin svo kærleiksrík að ég er ekki frá því að svo hafi verið. Guð er jú í öllu og allstaðar og alls ekki ólíklegt að hann hafi talað í þessum trillukarli frá Patró.
Eftir hláturskastið mikla, fór ekki í kirkju aftur fyrr en ég byrjaði að ganga til prestsins í aðdraganda fermingarinnar. Þá hafði skilningur minn á geistlegum efnum ekki aukist, síður en svo. Mér var ómögulegt að skilja tilgang þessara trúarbragða að því undanskildu að þau gæfu yfirvarp, svo husla mætti hræin utan af burtflognum sálum. Hulstur, sem í raun voru ekkert merkilegri en hver önnur slitin flík.
Kristinfræðikennslan hafði verið innantómt stagl um liðna sögu, þrætur, valdboð, ofbeldi og þokukennd hugtök. Fátt var skýrt um inntak trúarinnar. Það var mér þó ljóst af orðum Krists, að þar talaði maður af skynsemi og kærleik, en um leið og brugðið var frá hans beinu kennisetningum ólgaði allt í óeiningu, fordæmingu, sjálfsréttlætingu, refsingum og manndýrkun. Þetta virtist allt í hrópandi þversögn við kjarnann.
Hvað var að? Hvað voru menn að bulla? Var hægt að mistúlka svo afdráttarlausa boðun sem að elska óvin sinn og náunga? Dæma ekki aðra? Gefa í stað þess að taka? Iðka ekki réttlæti sitt sjálfum sér til dýrðar og upphefðar? Fyrirgefa? Hvar var auðmýktin í öllu prjálinu og orðskrúðinu? Hvert var markmið þessa alls? Hvers vegna var trúariðkunin bundin við ákveðna staði og allt þetta ritúal haft um hönd? Sagði Kristur ekki að andi hans væri mitt á meðal þeirra tveggja eða þriggja, sem kæmu saman í nafni hans? Sagði hann okkur ekki að fara inn í herbergi okkar, loka að okkur og biðja? Sagði hann okkur ekki að við yrðum ekki frekar bænheyrð fyrir orðskrúð og mælgi; að Guð heyrði í raun bænir okkar áður en við bæðum? Hvers vegna voru allir að hamast við að akta þvert ofan í þessi orð?
Þessar spurningar þutu um hormónaþrútinn uglingshugann og engin svör voru gefin. Ég fékk aðeins ákúrur frá prestinum fyrir að geta ekki farið með trúarjátningartugguna utanað. Tuggu, sem ku hafa átt að skilja milli feigs og ófeigs í framtíð minni sem barni Guðs. Jón minn, ætlar þú ekki að fermast? spurði sálnahirðirinn Sigurður, þegar ég gat ekki jarmað í kór við auðmjúk lömbin. Ég var ekki viss. Ég gat ekki séð að einhver vindhögg og þulur frá Sigurði gætu tryggt mér eilíft líf eða gefið mér lífsins kórónu?? Hvað sem það nú þýddi.
Einn daginn, þegar ég var að ganga til prests, eins og það var kallað, þá sá ég hvar hrafn skoppaði á milli legsteina með eitthvað nefinu. Ég var eilítið hjátrúaður og fannst hrafnar og kirkjur ekki boða gott saman. Ég baðaði því út höndum og hussaði kvikindið á brott. Hann missti úr nefinu, það sem hann hafði verið að kroppa í og ég slæmdist til að athuga hvað það var. Það fór um mig ískaldur hrollur. Þarna var fingurkjúka af manni með nögl og skinntutlum, skorpnuð og moldug. Krummi hafði verið róta í uppmokstri nálægrar grafar. Grafarinn Svenni Skotti hafði líklega slæðst yfir í eldri gröf í mokstrinum. Ég tók fingurinn með hryllingi, stakk honum í vasann og hélt til kirkju. Ónotin hrísluðust um herðar mér og eitthvað sagði mér að þetta væri ekki rétt. Þessi hvíslandi rödd, sem ég síðar vandi mig á að óhlýðnast. Þarna var hún skýr. Í andyri kirkjunnar tók ég fingurinn því upp og hugðist losa mig við hann. Þá sá ég stórbrotnar skóhlífar séra Sigurðar á ganginum og án neinnar rökrænnar ástæðu, henti ég fingrinum ofan í aðra þeirra. Svo gekk ég til lexíunnar og gleymdi þessu.
Í næsta tíma var mikið uppistand út af þessu og gamli maðurinn virtist augsýnilega skekinn af þessum djöfulskap. Fáir aðrir komu til greina en ég, þegar slíkt gerðist, svo ég játaði þetta. Þegar heim kom hafði ég ákveðið að fermast ekki. Því fylgdi mikil togstreita og tilfinniningahiti í fjölskyldunni. Fyrst voru það bölbænir, hávaði og skammir. Ég var ættarskömm sem aldrei myndi rísa til neins, vanþakklátur, illyrmi og liðleskja. Svo breyttist þetta í mýkri eftirgangssemi og loforð um fé og frið. Verst þótti mér að undirbúningur móður minnar var unnin fyrir gýg og hve það særði hana djúpt. Fyrir hana lét ég undan.
Fermingardagurinn var alger kvöl og á fermingarmyndunum má sjá þetta þvingaða bros og miklu ónot. Fjólublá aðsniðin jakkafötin og víðu buxurnar. Flauelsslaufan, bleika blúnduskyrtan, þykkbotna blöðruskórnir og kláðinn undan gerfiefnunum. Allt jók þetta á hryllinginn. Veislan og kurteysishjalið var þvingandi og mér fannst ég hálfpartinn þjófur að taka við peningunum og gjöfunum undir þessum fölsku forsendum. Ég lék þó hlutverkið til enda og laug með öllu mínu atgerfi og orðum. Orðin klingdu í eyrum mér og minntu mig á þann hálfveruleika, sem ég var hér með að ganga inn í. Velkominn í fullorðinna manna tölu.
Í dag á ég trú, sem ég fann við að fara mínar eigin leiðir inn í blindgötur lífsins. Hundsa í öllu mína betri vitund og þykjast geta ráðið vegi mínum sjálfur. Það gerði ég og glataði öllu. Allt, sem ég þóttist vera, eiga og skilja varð hjóm eitt. Allt, sem ég hengdi mína sjálfsvirðingu í var frá mér tekið og þá fyrst var sem vitund mín opnaðist upp á gátt. Röddin að baki huganum fór að heyrast og kjaftavaðallinn í höfði mínu þagnaði. Ég hafði verið fjarverandi eigið líf í iðrun gærdagsins og áhyggjum morgundagsin. Fjarverandi lífið sem á sér stað hér og nú á meðan ég dreg andann. Ég var svartur hnútur uppi í höfðinu mínu, fullur ásökunnar og biturðar, dómhörku og fordæmingar, öfundar og sjálfsvorkunnar. Í dag er ég heill. Í dag ljómar sál mín útyfir líkamleg mörk eins og í árdaga. Í dag þarf ég ekki að verja neitt né þrátta um neitt, óttast neitt né kvíða neinu. Í dag finn ég bara ótakmarkaða elsku.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)