Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007
Mann-virkið.
11.8.2007 | 20:10
Ég hef verið að hugleiða streitu og áhrif hennar á okkur. Ég hef enga læknismenntun en apparatið maður er eitt af mínum mörgu áhugasviðum. Til að draga saman skilning minn á streitu langar mig að segja litla dæmisögu.
Hugsum okkur miðaldarvirki með vígalegum virkisgarði, sem ætlað er að verja íbúana fyrir utanaðkomandi árásum. Þetta virki er undir eðlilegum kringumstæðum vaktað af nokkrum vörðum, sem spígspora fram og aftur um vegginn og standa vörð við hliðið. Þeir athuga gaumgæfilega þá, sem koma utan að og vilja inn, skjóta jafnvel á aðra, sem ekki sýnast friðsamlegir. Á góðum degi eru verðirnir tiltölulega fáir og afslappaðir. Sumir dotta jafnvel á verðinum.
Í miðju kastalans býr leiðtoginn við tiltölulega gott atlæti. Aðbúnaður hans er betri og þurftafrekari en hjá öllum öðrum enda mikilvægt að hann sé í jafnvægi og líði vel. Hann á sér nokkra dygga þjóna og ráðgjafa sem hann treystir. Hann metur og vegur allt, sem honum berst og tekur ákvarðanir um hvernig bregðast skuli við. Leiðtoginn vakir yfir öllu og reynir að stýra hjá misklíðum á skynsaman máta og stjórna samfélagi sínu af réttlæti. Hann er vel liðinn og vitur og fólkið treystir honum þótt hann taki stundum afar hart á því, sem raskar jafnvægi samfélagsins. Hann þjónar fólkinu og fólkið þjónar honum.
Samfélag fólksins er á milli virkisveggjar og kastala. Það virðist margþætt og flókið en er það í raun ekki. Hver hefur sitt svið til lífsviðurværis og sinnir því af dyggð. Menn rækta og halda dýr, vefa, smíða og hreinsa göturnar, svo eitthvað sé nefnt. Hvert starf er einhverskonar gildi, þar sem börnum eru kennd störf foreldranna og taka við af þeim, eins og var á miðöldum. Allir hafa nóg að bíta og brenna. Vatn er sótt í á , sem rennur skammt frá og eldiviður fenginn í skógi rétt utan við virkið. Án þessa og akurræktar, væri lífið allsendis ómögulegt.
Einn daginn, fóru leiðtoganum að berast fréttir um allskonar aðsteðjandi ógnir með sögumönnum utan úr heimi. Óljósir höfðingjar sátu um að ráðast á virkið. Hamfaravetri var spáð og stormum. Menn sátu um að brenna skógana og akrana, menga eða stífla ánna og taka frá þeim lífsviðurværið.
Ekkert var þó að sjá utan virkisveggjanna, sem benti til þessarar utanaðkomandi árásar, en ef menn sáu reyk eða jóreyk í fjarska, var því ávallt tekið sem hugsanlegu merki um að óvinurinn væri að draga sig að. Leiðtoginn var undir þrýstingi ráðgjafanna um að gera eitthvað í málunum, svo hann setti alla vinnufæra menn í að styrkja virkisveggina og raðaði þeim öxl í öxl á virkismúrinn til að vakta óvininn. Allir sem þurftu út fyrir múrinn til að afla nauðsynja höfðu með sér hóp varða til að gæta þeirra.
Það varð stigvaxandi uppnám og innan múrsins, enda varð mikið rask á samfélaginu. Varðsveitirnar voru þurftafrekar og skiluðu engu til baka í samfélagið öðru en að gæta öryggis. Vinnuálag jókst á konur og börn og þeir fáu, sem sáu um nauðþurftir voru störfum hlaðnir. Fólk varð örmagna undan þessu álagi og sumir risu gegn ástandinu, en voru bældir niður af hörku. Virkið varð að verja hvað sem tautaði og raulaði og þjóðin þurfti að færa fórnir til þess.
Börnin komust illa á legg og sultur svarf að alþýðunni, því varðsveitirnar heimtuðu allt og liðu engar umkvartanir. Leiðtoginn fór meira að segja að finna fyrir skorti. Hirðusemi sat á hakanum og sorpið safnaðist upp til betri tíma. Öflun nauðþurfta varð hægari og óskilvísari, enda var aðeins brot þjóðarinnar að sinna því og nánast að örmagnast. Fólk veiktist og dó og margar iðnir sem sáu um innri uppbyggingu, lögðust nánast niður. Mikið efni og mannafl fór í að styrkja múrinn og það var frá fólkinu tekið án endurgjalds.
Skortur varð á eldivið og mat og fór fólkið að brenna húsmuni sér til hita og borða húsdýr sín, sem gáfu nauðsynlegar afurðir af sér áður. Loks urðu uppreisnir og sundrung innan múrsins og varðliðarnir snerust gegn eigin samborgurum í því að reyna að stilla til friðar. Fólkið hataðist við leiðtogann og stjórn hans liðaðist sundur í óeiningu. Hann einangraði sig af ótta við tilræði og lifði á vatni og brauði, sem honum var fært af þeim fáu, sem hann treysti. Ekki leið á löngu, þar til ríki þetta leið undir lok. Ógnirnar utanaðkomandi reyndust þó munnmæli ein í ljósi sögunnar.
Vörnum mannslíkamans er svipað háttað. Við höfum tvískipt taugakerfi, (sjálfrátt og ósjálfrátt), sem stjórnast af heilanum eftir skynjun hans. Ósjálfráða kerfið skiptist Sympathetic og Para-sympathetic kerfi. Para-Sympatíska kerfið ("Rest and Digest"), sér m.a. um að bera næringu til innri líffæra og verja líkamann sýkingum. Ónæmiskerfið er falið í þessu kerfi. Blóðrásinni er stýrt á áherslustaði og ber næringu til líffæranna og heilans þar sem unnið er á bakteríum og góðkynja meinum, auk þess að vinna næringu úr fæðunni. Sympatíska kerfið ("Fight or Flight") sér um varnirnar, stoðkerfið og vöðvana fight or flight eða bardaga, basl og flótta. Við aðsteðjandi ógnir þá fer áhersla blóðrásarinnar út í þetta kerfi og tekur frá hinu kerfinu næringu og aðra virkni, svo við verðum varnarlausari fyrir sýkingum, vinnum verr úr næringunni og þroskumst hægar að innanverðu. Í staðinn verðum við sterkari og sneggri.
Það er okkur eðlilegt að grípa til þessarar skiptingar til að bregðast við aðsteðjandi vanda og afla okkur viðurværis en vari þetta ástand lengi, þá hrynja innviðirnir eins og lýst er í dæmisögunni. Að auki þá á sér stað svipuð breyting á áherslum í heilanum okkar. Ennisblaðið, sem sér um hugsun og rökhyggju hættir að fá næringu en bakhluti heilans, sem sér um viðbrögðin er þess meir virkur. Við venjulegar aðstæður, þá skynjum við með miðhluta heilans, metum og yfirvegum með framhluta hans og bregðumst við frá bakhlutanum. Athafnir okkar eru því yfirvegaðar og réttar. Við ógn, þá skynjum við aðeins og bregðumst svo strax við án yfirvegunnar. Þess vegna sjáum við oft hve órökrænt fólk verður, þegar það reiðist eða verður stressað. Það gengur bara á tveimur. Einnig virðist tíminn líða hægar í slíku ástandi, því skynjunina vantar. Það veldur oftar en ekki meiri streitu. Við missum hugann á undan okkur í viðbragði við ókomnum ógnum og erum föst í framtíðaráhyggjum. Heilsunni hrakar og við reynum að bæta hana á hlaupabrettum en gerum hlutina aðeins verri þegar til langs tíma er litið. En eru ógnirnar raunhæfar?
Hvað nauðþurftir varðar, þá þurfum við æði lítið. Skjól og yl, einhver grömm af fæðu og 1-2 lítra af vökva á dag, auk súrefnis. Ógnir samtímans ættu því ekki að vera af skorti. Þær eru þó bundnar við áhyggjur af hugsanlegum skorti.
Sjónvarp og aðrir fjölmiðlar eru véfréttir okkar tíma. Það heyrir til undantekninga að sjá og heyra eitthvað jákvætt þar. Terroristar sitja um líf okkar og illar þjóðir hatast við okkur. Jörðin er á vonarvöl og okkur bíða skelfileg gróðurhúsaáhrif, flóð og stormar, þurrkar og orkuþurrð. Sjúkdómsfaraldrar spretta upp og eru efni í heimsfaraldra, sem geta lagt mannkynið að velli. SARS, Fuglaflensa, Eyðni og hvað það nú heitir allt saman. Hagkerfið er þanið og hrun er alltaf á næsta leyti. Nú er uppgangur og því best að leggja allt til hliðar og vinna eins og hægt er á meðan góðærið varir. Kreppan er handan við hornið. Við skuldbindum okkur til framtíðar til að ná sem stærstum bita af kökunni og megum ekki missa úr dag í vinnu án þess að verða eftir með greiðslur og verðum því að leggja enn harðar að okkur ef við missum úr. Annars hrynur spilaborgin og lánveitendur hirða allt, sem við höfum þrælað fyrir. Við erum viti okkar fjær af ótta, í orðsins fyllstu merkingu. Þessar aðsteðjandi ógnir eiga hug okkar allan svo við náum ekki að gefa okkur tíma til að hugleiða gang okkar og stöðu.
Ekkert af þessum ógnum eru þó í nánasta sjónmáli. Þær eru allar hugsanlegar ógnir. Við höfum hugann í framtíðinni og ógnum hennar og berjumst við skuldbindingar fortíðarinnar. Við erum því ekki hér og nú, þar sem lífið á sér stað. Ekki lengur viðstödd eigið líf.
Lífið á sér þó stað núna, með hverjum andardrætti sem við drögum. Annað er ýmist farið eða ókomið. Komi ógnir og óáran, þá koma þær og við bregðumst við við þeim þegar og þá. Það er engin leið að gera það hér og nú.
Eða eins og maður á sandölum sagði eitt sinn: Þú bætir ekki spönn við æfi þína með áhyggjum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Kráarslagsmál og Kúkabílar.
10.8.2007 | 00:32
Hljóð berst langa vegu í kulda. Krystalkennt loftið ber fjarlægar fréttir af fjörbrotum íssins, sem umlykur eyjuna Ammasalik. Með reglubundnu millibili byrja allir sleðahundar á svæðinu samtímis að spangóla ámátlega, svo undirtekur í ísauðninni og endurómar síðan angurvært í hjarta manns. Þessi óvægjanldi einangrun á enda veraldar heltekur mann og maður undrast hvað það er sem nærir lífið og veldur því yfirleitt að nokkuð dragi andann í þessu tímalausa Ginnungagapi íss og ördeyðu.
Söngurinn frá kirkjunni berst um loftið á sunnudögum, hjáróma og skrækur en þrunginn djúpri tregablandinni tilfinningu einlægrar trúar og djúprar sorgar. Minnti þetta töluvert á söng Pólinesíufólks og máski voru einhver óræð tengsl þar á milli. Ég ákvað að skreppa í kirkju. Í messunni var ekki þurr hvarmur. Jafnt börn sem gamalmenni grétu af innlifun þegar sunginn var Hærra minn Guð til þín á Grænlensku. Andrúmsloftið var svo einlægt og persónulegt að mér fannst ég vera ómerkilegur aðskotahlutur og boðflenna, svo ég hafði mig burt.
Tasilaq er höfuðstaður austur Grænlands en þó aðeins um 1.700 manna byggð, sem dreifð er holt og bolt um gróðurlaus klungur og kletta Ammasalikeyjar. Aðeins má finna rennandi vatn á helstu opinberum stöðum. Brunnar sjá flestum íbúum fyrir vatni. Börnin bera vatnið upp snarbrattar og ísilagðar brekkurnar í plastbrúsum, brosandi út að eyrum. Þau þekkja ekki annan veruleika. Ég tók eftir því hvað þau voru oft illa klædd í þessum kulda, í hólkvíðum stígvélum, gammasíum og nærskyrtum einum fata. Flest voru þau með hryglukenndan andardrátt, hósta og með horklepruð andlit. Samt var eins og þau væru lýst upp að innan, píreyg opin og brosmild. Kvefvírusinn er bara einn af menningaraukunum frá okkur bleikandlitum. Mörgu fleira úr okkar arfi gæti þetta fólk gjarnan verið án.
Ég var þarna í rúmar tvær vikur á Hótel Ammasalik og hugðist koma í kring leikaraprufum fyrir Ikíngut með aðstoð Kristjáns Friðrikssonar. Hann er einn af þeim sem þekkir þetta svæði best af okkur og hefur dvalið þarna oft og lengi. Ljósmyndir hans af mannlífinu þarna eru alger listaverk, sem hann hefur m.a. gefið út á bók. Hann var einnig frumkvöðull í því að flytja skólabörn til Íslands í sundkennslu þegar hann sá hve mikið var um að börn drukknuðu þarna. Þarna er ekki nægilegt vatn til að bjóða upp á sundlaug. Allt rafmagn er fengið úr rafstöðvum og það, sem okkur þykir sjálfsögð lífsgæði er fengið með ærnum tilkostnaði og fyrirhöfn.
Hótel Ammasalik er lágreistur skáli efst í þorpinu og minnir eina helst á vinnubúðir vegagerðarmanna en þegar inn er komið, þá er þarna nokkuð notalegt og hlýlegt hótelumhverfi. Maturinn er þó ekki nema í meðallagi og jafnvel síðri en það. Kjötið gamalt og þránað og önnur matvara að sjálfsögðu löngu kominn yfir fyrningartíma eins og ég hef áður sagt frá. Kokkurinn var drukkinn frá morgni til kvölds og var orðin uppáþrengjandi við gesti, þegar kvölda tók. Hann veltist svo ofurölvi heim um tíuleytið en var kominn á vaktina klukkan hálf sjö á morgnana. Rétt er að taka fram að hann var danskur.
Barinn á hótelinu var lítill og þröngur og hafður í einskonar afhýsi af ástæðum, sem mér urðu skiljanlegar síðar. Þar var aðeins seldur grænn Tuborg í litlum flöskum og svo að sjálfsögðu Ákavíti og örfáar aðrar brenndar tegundir. Barþjónninn var gamall danskur skaphundur og leiðindaskarfur, sem hafði allt á hornum sér og fannst mjög gaman að því að sýna okkur hvernig ætti að tala við Grænlendinga. Hann kallaði þá sleðahunda, svín og öðru þaðan af verra og var oftast fyllstur allra. Gargið í honum og hávaðinn var óþolandi. Grænlendingarnir létu þetta yfir sig ganga með sinni einkennandi hægð, svo þeir fengju að drekka bjórinn sinn, því ekki leið barsvínið að honum yrði svarað.
Þarna mátti sjá sorglega birtingarmynd alkóhólismans í þessum reykfyllta endaþarmi alheimsins af bar að vera. Grænlendingar drekka oftast sleitulaust þar til þeir standa ekki lengur eða tapa glórunni algerlega með áflogum og meiðingum. Þeir eru ekkert sérstaklega mælskir á meðan á drykkju stendur og einbeita sér að Bayernum þess meira. Eitt sinn reyndi ofurölvi kona að gera hosur sínar grænar fyrir mér og spurði hvort hún mætti elska mig. Þegar ég reyndi að ljúga að henni að ég væri giftur þá hló hún með bakföllum, svo hún datt af barstólnum sínum. Hún var rassblaut að sjá, svo mér datt í hug að hún hafi pissað á sig. Henni var hent út greyinu og þegar ég tók servíettu til að þurrka af stólnum, þá sá ég hvers kyns bleytan var. Það var túrblóð.
Stundum rauk allt upp í áflogum fyrirvaralaust og þá náði karlsvínið á barnum í byssu og skaut púðurskotum upp í loftið. Svo rak hann ófriðarseggina út með öskrum og svifyrðingum. Þá var farið útfyrir og haldið áfram að slást, svo blóðið lagaði úr mönnum. Framan við barinn var brött og ísilögð brekka, sem lá alveg ofan í bæ. Ef menn duttu í slagnum, þá súrruðu þeir niður brekkuna og sáust ekki meir. Ég reyndi stundum að ganga á milli og tókst það, því merkilegt nokk, þá báru menn virðingu fyrir Íslendingum og héldu deilunum innan hópsins. Þetta minnti á stemmninguna á tímum gullgrafaranna í Klondike.
Alkohólismi er alvarlegt mein meðal Grænlendinga. Það er ábyrgðarhluti Danskra yfirvalda að leyfa þetta og efast ég stórlega um að slíkt sé réttlætanlegt á forsendum frjáls vals og mannréttinda eins og við gjarnan gerum. Þetta fólk er líkamlega ekki í stakk búið fyrir þetta eitur og má nefna að rúmlega 80% Grænlendinga eru alkóhólistar að upplagi á meðan hlutfallið hjá okkur er um 15%. Ég efast um að við myndum leyfa sölu á neinu efni, sem svo stórt hlutfall þjóðarinnar væri ofnæmt fyrir og legði menn jafn örugglaga í valinn og áfengið gerir þarna.
Þegar barnabætur eru greiddar út er engu líkara en allt þorpið fari á fyllerí. Menn liggja afvelta um hóla og hæðir og uppi á húsþökum eða slangra um við kaupfélagið, sumir með skotvopn um öxl. Það hvarflaði að mér að ein ástæðan fyrir barnamergðinni væri sú að hafa sem mest fé út úr danskinum. En hvað veit ég svosem? Ég veit ekki nein úrræði í boði fyrir fólk á þessum glapstigum, þótt sjúkraþjónusta og skólar þarna séu annars til fyrirmyndar. Þetta hlýtur að vera skelfilegt fyrir blessuð börnin líka að þurfa að lifa við þetta og bara í því tilliti er mér algerlega óskiljanlegt hvað Danskurinn er að hugsa í þessu augljósa grundvallarmáli velferðar á svæðinu.
Á staðnum er skemmtistaður sem kallast Klubbimi eða Klúbburinn. Hann er í gamalli skemmu, sem leikur öll á reiðiskjálfi við Grænlenskt teknó og kjagandi danslist. Gólfið dúar upp og niður, svo grænu bayerflöskurnar hoppa ofan af borðum, jafn óðum og þær tæmast og skoppa um fyrir fótum manns. Þarna sá ég þó aldrei nein illindi og voru þeir, sem ekki voru dauðir brennivínsdauða, glaðlyndir og hlýlegir að vanda. Til að fara á Klúbbinn tekur maður stundum leigubíl. Þeir eru einn eða tveir í Tasilaq, pallbílar, sem fara hringinn og pikka upp fólk. Svo er keyrt með skrensi og skoppi og sungið í heimskautanóttinni. Þetta var vissulega gaman. Bílar eru fáir þarna og nánast eingöngu gamlir Landcrucier pallbílar, sem voru beyglaðir allan hringinn. Þeir eru lítið á ferðinni enda bara notaðir til nauðsynlegustu atvinnuerinda. Merkilegasti bíllin er kúkabíllinn. Það er tankbíll með lúgum á tankinum, kúkabrúnn á lit og er hann notaður til að tæma kamrana við húsin. Þarna keyra þeir á milli húsa og rölta svo með föturnar skvampandi á herðum sér og tæma í bílinn. Þeim er varla klígjugjarnt þessum jöxlum, sem telja kæst og hleypt selsblóð vera sælgæti.
Annað merkilegt við austur Grænland er að mállýska þeirra er alveg sér á parti. Ekkert formlegt skrifmál er til fyrir þessa tungu en einskonar hljóðskrift notuð til að skrá hluti. Danskan er kennd í skólum en mér virtist þetta fólk ekki bregða henni fyrir sig nema í neyð. Þó mátti alltaf heyra dönsku tölurnar í Grænlenskunni því aðferð þeirra til að túlka tölur voru með handar og fingramerkjum að mér virtist en ekki samofin málinu. Sjálfstæði þeirra liggur því enn í tungunni eins og hjá okkur. Annað merkilegt upplifði ég varðandi þennan frjálsa anda. Ég fór á smíðaverkstæði til að fá gerða kassa, sem ég þurfti daginn eftir. Verkstæðisformaðurinn, sem var Dani, sagði mér að það yrði ekkert mál ef ekki yrði þess betra veður daginn eftir. Ég hváði og þá sagði hann mér að ef skilyrði til veiða væru góð, þá gengu menn bara út án þess að spyrja kóng né prest og færu á veiðar. Þeir eru svo samtaka í þessu að ekki þýðir að reka neinn. Ég spurði mig oft þeirrar spurningar hvers vegna Danir væru yfirleitt að reyna að halda uppi sósíaldemókrataísku fyrirkomulagi í þessu samfélagi, sem byggði fyrst og fremst á náttúrulögmálunum. Máski var það bara ógreiði við þetta góða fólk.
Ég fór nokkrum sinnum í flugtúra með Tómasi þyrluflugmanni, sem einskonar hleðslumaður og flugum við með vörur á nærliggjandi þorp eins og Isortoq, Kummiut, Ikkarteq og Sermiliqaq, sem er eina landfasta þorpið að því að mér skilst. Öll hin eru eyjar. Þar eltu börnin mann um allt, klipu í andlit manns þegar maður settist og grettu sig framan í mig og hlógu. Tómas sagði mér að gömul trú manna þarna væri sú að bláeygt fólk hlyti að vera blint og þess vegna væru krakkarnir að gretta sig svona til að athuga málið. Þau voru yndisleg og vinaleg og önguðu eins og grútarstampar þegar þau kúrðu sig að manni með vinarlegum hljóðum. Mér leið eins og Kólumbusi hlýtur að hafa liðið, þegar hann steig fyrst á land í Ameríku. Þetta var einhverskonar lítill og óraunverulegur ímyndunarheimur. Skólinn og kirkjan voru í sama húsi, sem var skemma með litlum klukkuturni. Hann var bæði notaður til þess að hringja til messu og inn í skólatíma. Hin þorpin skoðaði ég minna en Kummiut er eini staðurinn, sem mér virtist vera einhverskonar markviss iðnaður. Þarna var burðug fiskvinnsla og eru víst gjöful lúðumið þarna í sjó, sem ekki leggur vegna jarðhita.
Vörurnar sem við fluttum voru hégóminn einn og sannur. Sælgæti, kók, útvarpstæki, kartöfluflögur og video. Allt útrunnið, sem útrunnið gat að sjálfsögðu. Á heimleið í eitt skiptið flaug Tómas yfir gamla ameríska herstöð, þar sem allt hafði verið skilið eftir. Þúsundir af ryðguðum olíutunnum og ryðguðum skemmum. Reynt hafði verið að fá Bandaríkjamenn til að greiða fyrir hreinsun á þessu, auk annarra náttúruspjalla þarna á svæðinu en því var mætt með daufum eyrum. Þarna sá ég menn pjakka sér rás í gegnum ísinn fyrir bátinn sinn, sem hlýtur að hafa verið ægilegur þrældómur miðað við þá vegalengd, sem þeir höfðu farið. Samt gáfu þeir sér tíma til að veifa glaðlega til okkar. Lífið gekk sinn vana gang og streðið var bara eðlilegur hluti þess. Þarna grétu menn ekki fjarveru betra hlutskiptis. Ég heyrð Grænlending aldrei kvarta né biðja um neitt, meðan ég dvaldi þarna og vann.
Þessi dvöl mín að vetrarlagi á Grænlandi mun aldrei renna mér úr minni og hafði hún svo djúpstæð áhrif á mig að ég verð aldrei samur maður eftir. Ég lærði betur að meta það sem lífið gefur og treysta forsjóninni. Lærði að ég er ekki drottnari náttúrunnar, né náttúran drottnari minn, heldur erum við eitt og hið sama. Asjavatsí, segi ég við vini mína á heimsenda. Ég elska ykkur.
Skrúfumaðurinn og Súpermódelin.
9.8.2007 | 10:44
Eftir viskíauglýsinguna, sem ég talaði um í fyrri færslu, vorum við nokkra daga í að ferja dót yfir til Ammasalik frá Kulusuk og undirbúa næsta verkefni, sem var... ja...sérstakt. Frægur tískuljósmyndari, Peter Lindbergh kom ásamt súpermódelum og föruneyti til að taka tískuljósmyndir á öðrum borgarísjaka. Þessi jaki var nokkru minni og landslagið hæðótt og abstrakt eins og hæfði. Sennilega var þetta jaki, sem ekki löngu áður hafði snúið sér.
Ég braggaðist fljótt þarna á heilsusamlegri hreyfingu og fersku lofti og naut óendanlegrar fegurðar þessa lands í botn. Ekki var fólkið síðra. Kulusuk er eyja og þorpið afar lítið og vinarlegt. Húsin eru smá og dreifð um kletta, og klungur. Þarna er ekki stingandi strá að finna og jarðvegur svo lítill að innfæddir grafa sína nánustu undir grjóthrúgum um holt og hæðir. Eina gröf, sá ég meira að segja við tröppurnar á einu húsinu. Það glitti í kistufjalir milli steinanna. Mannabein er víða að sjá og gekk Kristján einu sinni fram á börn, sem hann taldi vera í boltaleik. Þegar betur var að gáð þá var boltinn hauskúpa af manni.
Þessi nálægð við dauðann er einkennandi þarna. Þetta er þjóð mikilla harma og örlaga. Veiðimenn farast oft á ísnum og lenti ég einu sinni í leitarflugi með Tómasi flugmanni til að reyna að finna ungan pilt, sem ætlaði að fara gangandi til Ammasalikeyju. Hann hafði verið drukkinn, þegar hann fór af stað. Hann fannst ekki. Áfengið setur því líka sín skörð í raðir þessa góða og jarðnæra fólks og leið varla sá dagur að maður læsi ekki um harmleiki og morð því tengdu. Í Kulusuk var þetta þó ekki eins áberandi og víða annars staðar. Þetta er veiðimannaþjóð, sem enn er ekki blönduð dönsku blóði og menningaráhrifum að ráði, þótt á undanhaldi sé í þeim efnum. Fólkið er hæglátt og brosmilt og á mikið af börnum, sem þau ala upp af alúð við þröngan kost í litlum húsum. Ekki er óalgengt að hjón eigi 6-10 börn, sem rúmast mega í kofa sem er aðeins um 25-30 fermetrar að gólffleti. Það sló mig strax þessi nægjusemi og rólega fas. Engin yfirborðsmennska var til. Ef við gáfum þeim eitthvað þá tóku þau við því án þess að þakka fjálglega og fjargviðrast að vestrænum sið. Bros var látið nægja og stundum lyfti það brúnum og sagði :Íh., sem er afar krúttlegt já, sem bræðir öll hjörtu. Morgundagurinn virtist mér algerlega óþekkt hugtak þarna. Ef maður reyndi að ræða hann eða spá í veðrið þá horfðu menn í tómlegri undrun og ypptu svo öxlum. Maske. Sögðu sumir. Morgundaginn varðar engan um, enda hefur enginn vald yfir honum á þessum mörkum byggilegs heims. Þetta er menning, sem uppgötvaðist ekki fyrr en fyrir um 100 árum og náttúrutaugin því ekki slitin enn.
Eitt kvöldið kom veiðimaður með stóran ísbjörn af veiðum. Fólkið beið við verslunina og það hafði frést af komu hans, töluvert á undan. Þegar hann kom með flikkið í hlað á sleðanum sínum varð mikill fögnuður og konurnar hentu smámyntum upp í loftið og jóðluðu og kyrjuðu ókennilegan söng. Svo var birninum dröslað að húsi veiðimannsins og var þessu hálfa tonni hnoðað og velt inn á eldhúsgólf þar sem eldri konur tóku að flá með bogamynduðum hnífum, sem líktust litlum tóbaksjárnum. Þetta var gert af þvílíkri natni að hver einasta kjúka var beruð með nákvæmni nútíma skurðlækninga. Börnin fengu sinn bita og brostu eins og þeim var einum lagið með blóðkleprana út á kinnar. Við fengum með okkur bita af kjöti upp á hótel, sem var mauksoðinn fyrir okkur, því ísbjarnarkjöt ku innihalda hættulega orma. Þetta bragðaðist einna helst eins og lopavettlingur í kjötkrafti.
Næmni þessa fólks og tengsl við náttúruna var svo ótrúleg að mig skortir orð. Eitt sinn, þegar ég var í hundasleðaferð þá pikkaði Inúítinn í mig og benti og pataði. Ég sá ekkert í þessu víðerni og skerandi birtu. Það var ekki fyrr en hann stoppaði og benti að ég sá örlítinn svartan díl, langt í burtu. Það var selur. Það er engin leið að menn sjái svona á fullu við að stjórna hundum og á fleygi ferð. Hann fann þetta bara á sér maðurinn. Einhverskonar innbyggður selaradar.
Ef maður fer til austur Grænlands, þá er eins gott að hafa allt með sér, sem maður getur ímyndað sér að maður hafi not fyrir. Verslunin er afar frumstæð og miðast fyrst og fremst við grunnþarfir. Náttúran sér fyrir mestu. Þarna svífur líka nýlenduandi hins maðkaða mjöls yfir vötnum. Ég man ekki eftir að hafa séð neitt þarna, sem ekki var komið langt fram yfir dagsetningu. Sumt var jafnvel orðið 3ja eða 4ra ára gamalt í krambúðinni eins og mjölvara ofl. Ég undraði mig á þessu. Jafnvel kaffirjóminn á hótelinu var kominn vel yfrir árið og flaut í einum samhangandi kekk ofan í bollanum. Sumir sögðu þetta vera vegna þess að aðeins er flutt inn vara á sumrin, en mér fannst það ekki skýra þetta. Heyrði ég að til væru lög, sem leyfðu innflutning á útrunninni vöru og fékk ég það staðfest sjálfur þegar ég sá kartöfluflögur frá Maarud, nýkomnar úr flugi. Þær voru þá þegar komnar 2 mánuði fram yfir fyrningardag. Ég hugsaði með mér að illt væri að kenna gömlum dönskum hundi að sitja í þessum málum. Gamla einokunin virðist enn í fullu fjöri þarna. Í verslununum ægði öllu saman: Pottum, baunadósum, haglabyssum, bjór, nöglum, sykri, skotfærum og snæri. Í Ammasalik eru meira að segja til haglaskot og riffilskot í bakaríinu og er þeim stillt út við hliðina á heitu vínarbrauði, sem mér fannst skemmtilega glæfralegt.
Eitt sinn vorum ég og Þorkell Harðarson að smíða samanbrjótanleg borð úti á Kulusukflugvelli, sem áttu að flytjast með þyrlunni út á jaka. Skrúfurnar, sem við vorum með, voru of langar svo ég rölti niður í þorp til að athuga hvort krambúðin ætti betri skrúfur. Eftir að hafa rótað í skiplagslausri vöruhrúgunni fann ég aðeins gamlan pappasaum á milli Barbiebaðkars, veiðihnífa og brjóstsykurs. Ég reyndi því að bera mig undir innanbúðarfólk, sem benti mér á að það væri aðeins einn maður, sem hugsanlega gæti bjargað mér. Þetta var slökkviliðsstjórinn. Slökkvistöðin var í litlum kofa niður við sjó. Ég skrölti þangað og fann skrúfumanninn, þar sem hann var að dytta að slökkvi-hundasleða. Slökkvibíll staðarins var hundasleði með fornfálegri dælu ofan á. Maðurinn tók mér vel og dreif mig út á snjósleða, sem í raun eru sjaldgæfir þarna. Ástæðan segja þeir að sé sú að þegar menn lenda í vondum veðrum, þá rati vélsleðarnir ekki heim eins og hundarnir.
Slökkvistjórinn þeysti með mig á sleðanum upp um hæðirnar og að húsinu sínu, sem trónaði á stultum ofan við þorpið. Við gengum inn í býslagið eða anddyrið, þar sem hann dró fram majonesfötu, fulla af alskyns nöglum, skrúfum, gormum og splittum. Þessu hellti hann á gólfið og bauð mér að finna það sem ég leitaði að. Og viti menn, ég fann nægilega margar og akkúrat passandi skrúfur í hrúgunni. Þetta bjargaði alveg deginum fyrir okkur, svo ég vildi borga honum en þar var engu tauti við hann komið. Bara ánægjan ein. Ég rölti svo þennan rúma kílómeter aftur til baka og okkur Kela tókst að klára ætlunarverkið áður en hin furðulega myndataka átti að byrja.
Ég hafði aldrei heyrt um þennan heimsfræga ljósmyndara né þessi heimsfrægu módel. Fólk virtist hissa á því að ég kom ekki Kirsten Owen, Annie Morton og Erin OConnor fyrir mig eins og þær hefðu verið húsgangar alheimsins frá upphafi. Þær voru ekki mikið fyrir manneskjur að sjá, grindhoraðar og tinandi á pinnahælunum, brostið augnaráð og sviplaus andlit. Þær voru meira í ætt við geimverur í þessu stórbrotna umhverfi, með kinnfiskasogna rassa og brjóstalausar eins og unglingspiltar með átröskun. Ekki var fylgdarliðið árennilegra. Förðunarmeistarinn var "screeming gay" með máluð augu og tiplaði um jakann með rassaköstum og sló allan stúlknahópinn út í kvenlegheitum. Við hinir, þessar heimskautahetjur með sprungnar varir, skeggjaðir og sólbrenndir vorum heldur langleitir yfir þessu öllu. Undarlegast fannst mér úthald þessara melstráa af manneskjum að vera. Þær stóðu þarna í nælonslæðum einum fata, grafkyrrar og með dreymandi svip svo klukkustundum skipti án þess að kvarta. Kuldinn var mikill og við svo dúðaðir að aðeins sást í augun. Það er þó merkilegt við kuldann þarna að hann er þægilegri en hér. Enginn vindur og núll raki í loftinu. Engu að síður þurftum við að smyrja spænsku blakmeistarana með ullarfeiti í fyrra verkefninu til að einangra frá þeim kuldann. Samt mjálmuðu þeir og kvörtuðu út í eitt.
Þarna réð hégóminn og yfirborðslistarembingurinn ríkjum. Það var gaman að sjá leiðsögumanninn hans Kristjáns hann Ulrik Sanimuniaaq fylgjast með þessu. Hann þessi samanknýtti reynslubolti og veiðimaður, sem var eins og leðurtaska í framan, sat þarna með hundinum sínum með spaklegt glott á vör og pípu í munni. Það mátti næstum lesa hugsanir hans um hve gildismat hvíta mannsins var nú komið langt frá því sem máli skiptir í henni veröld. Í þessari ísvíðáttu var auðvelt að játa vanmátt sinn fyrir náttúruöflunum, lúta í auðmýkt valdi þeirra og reyna að lifa með þeim í sátt. Það kunnu Grænlendingar.
Ég sá síðar þessar ljósmyndir í tildurtímaritinu Vouge. Þetta var myndþáttur fyrir tískuveldi Donnu Karan og ég er nokkuð viss um að engum datt í hug að þetta var tekið á staðnum, hvað þá á borgarísjaka úti á ballarhafi. Svo óraunverulegar voru þær og absúrd að það hefði alveg eins verið hægt að mynda þetta með ljósmynd af landslaginu í bakgrunni.
Eftir þetta var ég um tíma í Tasilaq, sem er bærinn á Ammasalikeyju eða Loðnueyju eins og það þýðir víst. Þar hafði menningin náð traustari fótfestu. Því segi ég frá síðar og kem meira inn á skuggahliðar þessa framandi samfélags, sem er ekki lengra í burtu en sem svarar flugi á Egilstaði.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mayday Frá Borgarísjaka
8.8.2007 | 07:07
Þegar ég var að skrifa kvikmyndina Ikíngut, hafði ég aldrei komið til Grænlands. Hugmyndin hafði mótast fyrst og fremst út frá minningu um ísbjarnardráp norður á ströndum. Menn höfðu ætt blóðþyrstir af stað til að jakta kvikindið, þegar fréttist af því og ég skildi aldrei hvers vegna þetta æði rann á þá. Ekki var bangsi að ógna neinu þarna á þessum eyðislóðum. Það rann svo mikið morðæði á mennina við eftirförina að þegar þeir loksins náðu að skjóta björninn, þá höfðu þeir glatað veruleikatengslum svo kyrfilega að þeir rifu úr honum hjartað og átu það hrátt. Allavega barst sagan þannig yfir djúpið. Það voru blóðklepraðir og niðurlútir menn, sem komu til hafnar með feng sinn, skömmustulegir fyrir að hafa glatað tengslum við mannlega dyggð um stund.
Það hafði líka alltaf heillað mig að heyra sögur af því að frá Horbjargi gæti sést til Grænlands á góðviðrisdegi, við rétt skilyrði. Það var forvitnileg tilhugsun að vita af þessum skringilega og ólíka menningarheimi svona nánast innan seilingar frá okkur. Fyrst ísbirni gat rekið þaðan til okkar, hvers vegna þá ekki menn?
Tækifærið til að kynnast þessum undraheimi nánar kom þegar Kristján Friðriksson, ljósmyndari og myndlistamaður og kona hans Vilborg, báðu mig um að vinna með sér að spænskri J&B viskíauglýsingu við Kulusuk á austur Grænlandi. Nóttina áður en lagt var í hann, hafði ég verið í slúttpartýi út í Viðey fyrir mynd Ragnars Bragasonar, Fíaskó. Ég var vel hífaður, þegar ég fór heim til að pakka niður fyrir ferðina. Það var aðeins um klukkustund í brottför og ég hafði ekki hugmynd um hvað ég ætti að hafa með mér í slíka ferð. Þetta var algerlega út í óvissuna farið. Ég henti því nokkrum naríum og sokkum í tösku og skellti svo Spliff, Donk og Gengju þar ofan á. Þetta merkilega apparat hafði ég hannað og smíðað fyrir Fóstbræðraþættina og var þetta tæki, sem duga átti við öllum vanda.
Ég mætti svo á Reykjavíkurflugvöll í jakkafötum með lausgirt bindi, flaksandi skóreimar, rauðvínsflösku í annari hendi og Spliff, Donk og Gengju í hinni. Framleiðandinn hann Pétur fékk næstum taugaáfall þegar hann sá mig og náði að forða mér frá augum Spánverjanna, sem voru að kaupa sérfræðikunnáttu mína. Hann reyndi hvað hann gat að flikka upp á mig en það dugði ekki til. Spánverjarnir urðu algerlega forviða yfir þessum drukkna jólasveini og vildu ekkert með hann hafa. Allir voru kappklæddir upp í hvirfil í Goretex og því ekki traustvekjandi að art directorinn sjálfur mætti á glænapalegum jakkafötum og draugfullur í ofanálag. Þessu var þó bjargað með því að segja við þá: Dont worry. He may look and act strangely, but on the other hand he is a total genius. You know how they are. Spánverjarnir samþykktu þetta með tungu í kinn og af stað var flogið áleiðis til ísheima.
Á flugvellinum í Kulusuk var mér snarað í kuldagalla og svo upp í þyrlu á blankskónum. Áætlunin var að finna hæfilegan borgarísjaka til að setja upp blakvöll á. Þar átti blaklandslið Spánverja að spila blak til að auglýsa viskí. Ekki spyrja mig.....þetta var þó langt frá því það fjarstæðukenndasta, sem ég hafði séð í þessum bransa. Við flugum jaka af jaka, spásseruðum um þá og völdum svo einn gríðarstóran, sem var flatur að ofan og virtist nokkuð stabíll. Hann var um 80 metra hár og svo stór að við vorum eins og krækiber í helvíti ofan á honum. (sjá mynd) Ég var að þynnast upp í fluginu og angaði eins og spritttunna, en heimskautaloftið bjargaði því að ég gæfi upp öndina. Menn kepptust við að gefa mér piparmyntubrjóstsykur í þröngri þyrlunni af einhverjum dularfullum ástæðum.
Eftir þetta var tafarlaust farið í hundasleðaferð um ísilagt hafið út af Kulusuk til að leita að tökustöðum fyrir nærmyndir. Ég hélt að það yrði mitt síðasta. Í fyrsta lagi leystu hundarnir vind í hverju skrefi af áreynslunni og ég horfði upp í stjörnuna á þeim á meðan þeir sendu óþynnta eimyrjuna beint að vitum mínum. Ég ætla ekki að lýsa þeirri angan. Mig sundlaði svo að ég var við það að missa meðvitund.
Í öðru lagi var ég svo óheppinn að lenda á sleða leiðsögumannsins. Hann fór ótroðnar slóðir og upplýsti um hætturnar. Meðal annars var það mjög hættulegt að fara að hólmum og skerjum, þar sem straumsvelgir þynntu ísinn. Þetta þurfti hann jú endilega að demonstrera með því að álpast með okkur í slíkt feigðarflan. Ísinn brotnaði undan sleðanum og hann súnkaði hálfur á kaf ofan í jökulkalt íshafið. Maðurinn barði hundana áfarm með miklum fyrirgangi og öskraði: Thjú, Thjú! Kha, Khaa!, sem voru víst skipanir til hundanna um að fara til vinstri eða hægri. Ísinn brotnaði jafn harðan undan sleðanum og hann náði að brjótast upp úr og ég ætlaði að stökkva af til að bjarga lífinu. Þá barði Grænlendingurinn mig með svipuskaftinu í arminn til að gera mér skiljanlegt að vera kyrr. Það varð mér líklega til lífs. Honum tókst loks með herkjum að ná sér á þurrt og félagar hans hlógu í gegnum geiflurnar að skelfingarsvipnum á mér. Ég var feginn að komast heim á hótel það kvöld, rassblautur og með marinn handlegg. Barinn freistaði ekki enda hafði ég þó það prinsipp að drekka ekki í svona verkefnum.
Daginn eftir fór ég við annan mann út á jakann (sjá mynd) með rafstöð, höggbor og keðjusög ásamt efni og öðrum búnaði. Jakinn var í um 20 mínútna fluglínu frá landi mitt í súrrealískri ísveröld, sem var svo mikilúðleg að ég hef aldrei fundið mig eins lítinn í sköpunarverkinu. Félagi minn var Bárður Óli Kristjánsson frá Steinum undir Eyjafjöllum, rauðbirkinn víkingur og erkitýpískur Íslendingur. Við brutum og boruðum og sléttum undir völlinn en á öðrum degi, þótti vissara að senda okkur aðstoð til að tryggja að verkið kláraðist. Við þurftum líka að búa til skýli fyrir tökuliðið, sem var dulbúið eins og snjóskafl, svo það rynni saman við jakann. Þar átti að geyma nauðsynlegan búnað og fela aðstoðarfólk, þegar stóra skotið yrði tekið.
Aðstoðarmennirnir voru þrír Grænlendingar, sem nýttust okkur ekkert, þegar til kom. Þegar við Bárður fórum að bora og höggva í ísinn á milli þess sem við migum á hann eins og mönnum sæmir, þá trylltust Grænlendingarnir úr hræðslu reyndu að stöðva okkur. Þeir voru algerlega lamaðir, enda vissu þeir meira um ísinn en við þessir villimenn, eins og skýrt var fyrir okkur síðar. Það þarf nefnilega ekki nema að reka broddstaf í svona harðpressaðan ísklump til að sprengja hann í þúsund mola, sem nota mátti í vínglös. Einnig þurfti að sama skapi ekki nema smá skvettu af heitu varni til að framkalla sömu áhrif. Þetta vissum við náttúrlega ekki og var því ótti Grænlendinganna óskiljanlegur. Svona jakar taka fyrirvaralaust upp á því að klofna og velta sér með miklum gusugangi, hvað þá ef menn reyna að hjálpa til við það eins og við gerðum.
Við notuðum gervihnattasímann og létum sækja þá, og eru þessir idíótar frá Íslandi örugglega enn ræddir á sögustundum þeirra. Í stað þeirra kom Spænskur framleiðandi, sem var mjög brattur og borginmannlegur. Hann tók til hendinni með okkur í svona tíu mínútur áður en nýjabrumið og ævintýraljóminn dofnaði þarna í þessum fimbulkulda sem var. Hann fór að stika fram og aftur um jakann og notaði gervihnattasímann svo ótæpilega að við héldum að hann myndi eyða batteríinu.
Hann varð órólegri með hverri stund sem leið og var orðinn angistarfullur, þegar klukkan fór að nálgast hálf níu um kvöldið. Brak og brestir heyrðust úr ísnum í kring og einstaka skruðningar og gusugangur bergmáluðu þarna í auðninni, þegar straumar breyttust og það kólnaði. Hann náði ekki sambandi heim á hótel, enda voru allir búnir að borða og sátu nú á barnum í mestu makindum. Það leit út fyrir að við hefðum gleymst því þyrlurnar höfðu aðeins leyfi til að fljúga til klukkan níu. Klukkan kortér í tók snillingurinn upp á að hrópa í símann:Mayday, mayday, mayday! svo ég stökk til og tók hann af honum og spurði hvort hann væri algerlega orðinn stjörnugal. Skömmu síðar heyrðum við svo kunnuglegt hljóð þyrlunnar nálgast. Við höfðum víst næstum gleymst fyrir misskilning en það uppgötvaðist á síðustu stundu. Það varð einhver eftirmáli af þessu neyðarkalli og vinur vor var hundskammaður svo hann bar sig eins og Labradorhundur, það sem eftir lifði ferðar.
Þremur mánuðum eftir þetta hitti ég Tómas þyrluflugmann á Kaffibarnum og urðu það miklir fagnaðarfundir. Tómas er eina alvöru hetjan, sem ég hef hitt af Sænsku kyni, hokinn af reynslu og með tvö þyrlukröss í malnum. Hann sagði mér þá að nýlega hefði jakinn okkar sprungið í þrennt og bylt sér í hafið með miklum boðaföllum. Það var gott að hann tók ekki upp á því á meðan við gistum hann þessa eftirminnilegu þrjá daga. Spliff, Donk og Gengja hefðu varla dugað okkur þá.
Ég var á Grænlandi í tæpan mánuð eftir þetta við önnur verkefni, sem ekki voru síður eftirminnileg auk kynna minna af landi og þjóð. Segi ég þá sögu síðar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Berrassaður Strákur á Fjalli.
6.8.2007 | 18:25
Sjö ára strákar vakna yfirleitt á undan sólinni norður undir heimskautsbaug. Hún er sein á fætur í þröngum firði og maður var kominn út á forugt sundstrætið áður en hún gyllti eggjar Eyrarfjallsins. Lágstemmdur kliður fugla og fjörubúa fyllti loftið og örlítið kul lagði inn fjörðinn þegar kalda loftið byrjaði hitna, leita upp og draga kulið inn úr djúpinu. Það hét innlögn.
Á svona hæglátum júnímorgni gaf ég mér góðan tíma til að vakna; sveigði fram ristarnar og glennti í sundur tærnar. (Nokkuð, sem ég get ekki í dag án þess að fá heiftarlegan sinadrátt.) Ég teygði úlnliðina til lofts og rumdi sætlega. Líktist meira kúinu í æðarfuglinum en í alvöru ljóni eins og nú. Svo lá ég eilítið lengur og hlustaði á vélarhljóð bátanna sem sigldu til fiskjar. Ég þekkti þá alla af hljóðunum. Þarna fór Ásdísin og söng eins og bliki; Kveldúlfur hans pabba tónaði eins og munkur; Guðnýin svolítið stærri og dimmraddaðri; heldur ókvenleg.
Ég var farinn að fella tennur. Stórar og vígalegar framtennur boðuðu komu sína þar sem litlu tönnsurnar höfðu áður setið. Undir tungu kenndi maður þeirra eins og lítilla sagarblaða. Barnatennurnar voru undir kodda. Mér hafði verið ráðlagt að leggja þær þar og óska mér einhvers. Þá óskaði maður oftast einhvers fyrir okkur öll, systkini mín, pabba og mömmu. Að pabbi þyrfti ekki alltaf að vera á sjó. Að við eignuðumst bíl; gætum farið í ferðalag saman. Það rættist jú einhverjum árum seinna en ekki beint í þeirri röð.
Ég hafði ekki minnstu blygðun yfir tannleysinu og brosti eftir sem áður eins og sólargeisli; hló eins vellandi spói. Þá kom hláturinn innanað svo ekkert hélt aftur af honum. Hann var bak við augun, undir þindinni, í handakrikunum, hálsakotinu og spékoppunum. Þá hló maður allur þegar maður hló. Það eina, sem var meinlegt við þetta var að segja ess. Það bögglaðist út með flauti og blístrum og einhvervegin þvældist þornið alltaf með. Þegar ég leit út eftir götunni, sá ég að Össi og Sævar voru komnir út; Öþþi og Þævað. Ekki nógu gott. Ég taldi betra að finna mér eitthvað annað til dundurs en að blístra nöfnin þeirra daginn út og inn.
Það hitnaði fljótt á milli fjallanna þegar innlögnin lét sig og sólin gægðist yfir brúnir Ernis. Eimurinn steig upp af malargötunum og fiskilykt fyllti loftið. Slíkt lofaði góðum degi. Allt kallaði á útilegu í slíku veðri. Hefja sig til flugs og kúra ekki á sama steini. Frjálsir barnsandar kröfðust þess. Mamma smurði fyrir mig nesti. Brauð með osti og eplasneið, sem hún setti í brúnan bréfpoka. Skærgulur Assis brúsi með rauðu loki, sem nota mátti sem mál. Assis var appelsínusafi frá Ísrael. Í þá daga hét djúsinn Assis. Ekki gott að bera það fram og ég þurfti þess ekki heldur. Mamma las hugsanir og útbjó alltaf það sem mig langaði mest í. Ég ætlaði í skógarferð inn í Tunguskóg á litla hjólinu mínu. Tunguskógur var inni í fjarðarbotni. Hann stóð varla undir nafni á heimsvísu; gisið kjarrlendi og lyngbrekkur með einstaka útlensku grenitré og birkihríslu á stangli.
Mamma bleytti höndina undir vatni og reyndi að klappa niður úfinn kollinn á mér. Ég var svolítið rafmagnaður á morgnanna, með óstrýláta brúska úr tveimur hvirflum á hnakkanum. Dralonpeysan mín magnaði þetta fram. Þegar ég fór í hana þá gnast hún og gneistaði af stöðurafmagni. Hún var fallega mynstruð og litfögur úr nýmóðins gerviefni, sem var svo rafmagnað að pappírsarkir loddu við mann; kisa varð eins og flöskubursti ef ég mundaðist við að klappa henni og eldglæringar hrukku af öllum snerlum, sem ég snerti. Svo jafnaði þetta sig. Ég fékk koss á ennið hjá mömmu, svo hjólaði ég af stað með nestið á bögglaberanum.
Inni í skógi ríkti kappræða skógarþrastanna. Gróðurilmurinn fyllti loftið, flugurnar suðuðu og lognið var algert. Ég var heitur og þvalur á skrokkinn eftir hjólreiðatúrinn. Loftið gældi hlýtt við vangana. Ég lagði hjólið í kjarrið, batt peysuna mína um mittið og gekk að Tungudalsá, sem niðaði í fjarska. Peysan dró náttúrlega til sín allt lauslegt úr umhverfinu og breyttist í hálfgert strápils á augabragði. Hárið stóð aftur á endum. Ég klofaði yfir gaddavírsgirðingar og kúldraðist í þurru grasinu. Áin var kristaltær svo sjá mátti hvern stein og slýutaum á botninum. Ég kraup niður og fékk mér svalandi sopa, bleytti hausinn til að hemja hárið; gekk svo um bakkann og trampaði niður fæti til að fæla bleikjurnar fram. Allt iðaði af lífi. Ég var bergnuminn yfir þessari stórkostlegu skrautsýningu, sem átti sér svo fullkominn samhljóm í gleðisöng hjartans. Allt fyrir mig.
Ég hafði í fyrstu hugsað mér að finna mér fallega laut til að borða nestið mitt í, en var of uppnuminn til að setjast niður. Handan árinnar reis Hnífafjall. Það var stórt og stöllótt fjall í augum stráks sem hafði loðna rassa, og þaðan af verra, í augnhæð þegar hann skrapp í sund. Hvað skildi vera á toppnum? Skyldi maður sjá til útlanda? Ég fór úr skóm og sokkum og bretti upp skálmarnar. Vatnið var kalt. Nýfrelsaður snjór ofan af heiðum sem gusaðist upp mjónulega leggina. Steinarnir í árbotninum voru sleipir og slímugir en volgir viðkomu. Á hinum bakkanum límdust strá og mosi við tásurnar, svo ég sleppti því að fara í sokkana aftur. Hvíta og svarta strigaskóna hafði mamma nýverið gefið mér, svo ég tiplaði úr blautum mosanum á bakkanum áður en ég fór í þá aftur. Ekki vildi ég særa hana með því að drulla þá út.
Hlíðin blasti við eins og hún vildi hvolfast yfir mig. Ég hélt fullhuga og glaður á brattann. Tjaldurinn tísti, spóinn vall graut og lóan og hrossagaukurinn sungu samsöng. Flugur suðuðu, og mosinn fjaðraði eins og þykkt teppi undir fæti. Ég söng með mér lag, sem ég hafði lært í skólasöng. Það átti bara svo vel við þarna og kom áreynslulaust eins og andadrátturinn.
Vorvindar glaðir,
glettnir og hraðir,
geysast um lundinn rétt eins og börn.
Lækirnir skoppa,
hjala og hoppa,
hvíld er þeim nóg í sæ eða tjörn.
Hjartað mitt litla, hlustaðu á;
hóar nú smalinn brúninni frá.
Fossbúinn kveður,
kætir og gleður,
frjálst er í fjallasal.
Ég þreyttist þó smátt og smátt á göngunni. Í hvert sinn sem ég taldi mig vera að ná toppnum, þá tók nýr hjalli við. Rétt eins og í lífinu sjálfu. Hvassgrýtt urð tók við af mosanum og gróðurinn varð gisnari. Ég var svolítið fatlaður eftir slys í bernsku, með snúinn og mislangan fót, fatt og hlykkjótt bak. Þegar sársaukinn í lærum og mjóbaki varð slæmur þá stoppaði ég og kastaði mæðinni; leyfði honum að læðast upp hrygginn og í hnakkagrópina uns hann leið eins og reykur upp úr hvirflinum. Það var þægileg tilfinning. Ég einsetti mér að líta ekki til baka fyrr en ég næði tindinum og hafði augun varla af brúninni. Mér fannst ég léttari og sælli, eftir því sem ofar dró. Þetta var mín raun; minn sigur.
Loks var tindinum náð. Svalur andvari kældi svitann við hársvörðinn. Líkaminn var eins og miðstöðvarketill; heitur og rakur. Roði í kinnum og hvörmum kitlaði eins og milljón litlar nálar og hjartað dansaði taktfast í brjóstinu. Móðurinn svall í hverri æð. Ég fann fyrir mér öllum frá hvirfli niður í tær og fannst ég geta flogið; sigrað allt. Þarna blasti fjörðurinn minn við. Eyrarfjall og Ernir stóðu á haus í spegilsléttum sjónum og breiddu faðm sinn mót bláleitri Snæfjallaströnd. Fegurðin var ólýsanleg. Ég sá yfir allan heiminn og handan hans. Heiðblár himinninn skartaði laufléttum skýjaslæðum; léttar pensilstrokur, sem dregnar voru frá norðurskautinu og yfir höfuð mér. Allt fyrir mig.
Ég var alsæll og lagðist á bakið. Hitinn streymdi frá brjóstinu og ég lygndi aftur augunum með bros á vör. Það var eins og rafmagnaður hjúpur umlykti mig. Mér fannst sem ég sytraði út í lyngbreiðuna eins og vökvi þar til ég samlagaðist sverðinum. Eins og tíbrá leið verund mín saman við loftið og ég fann ekki lengur fyrir líkamanum; varð að agnarsmáum ljóspunkti milli augnanna og leystist svo algerlega upp; hætti að vera til um leið og ég varð að öllu sem var, eins og súldardropi sem samlagast hafinu; missir form og lögun en verður hafið sjálft á sömu stundu. Allt en samt ekki neitt.
Þetta virtist vara í eilífð en samt eitt augnablik. Vitundin smeygði sér inn á eldingarhraða. Ég hrökk upp og var brugðið í fyrstu. Jú ég var þarna enn. Hendurnar, puttarnir, fæturnir. Var ég lengi í burtu? Þetta var eins og draumur og ég fann mikla sælu blossa upp innan í mér. Ég hafði uppgötvað einhvern leyndardóm, sem engin leið er að endursegja; vissi allt sem þurfti að vita. Ég reis á fætur og fór úr bolnum. Það var svo heitt. Svo flugu buxurnar og skórnir og loks nærurnar. Þarna stóð ég kviknakinn og baðaði út örmunum; lét goluna leika um mig allan, bakið, magann, hálsinn, rassaling og tippaling. Svo hljóp ég í hringi og steypti stömpum eins og kálfur að vori. Júhúúúú!
Ég brosti mínu tanngisna brosi, svo mig verkjaði í spékoppana. Brosti með öllu sem ég var. Og ég var allt. Allt var ég. Ef Kaífas æðstiprestur hefði staðið þarna í öllum sínum skrúðklæðum, hefði hann bliknað í samanburði við meistaraverkið mig og ef hann hefði spurt með vanþóknun hvort ég væri sonur Guðs, þá hefði ég hiklaust svarað já og horft í augu hans með höfugt bros þess sem höndlað hefur viskuna.
Ég breiddi undir mig peysuna og settist við að borða nestið mitt. Móðurást í hverjum bita. Það kímdi í mér. Ef að mamma sæi mig núna. Ég lagðist á magann og leyfði sólinni að kyssa mig á bakið og rassinn. Tíminn hafði brugðið sér frá eitthvert sem hans var frekar þörf. Hér hafði hann ekkert erindi. Flugurnar suðuðu og ilmurinn af blóðbergi, lyngi, blágresi og rjúpnalaufi fyllti vit mín. Puntstráin kitluðu nebbann.
Hér var eilífðin. Hér var ég, berrassaður strákur á fjalli, sextíuogsex gráðum norður og tuttuguogtveim vestur, við fegursta fjörð í heimi á vogskorinni eyju langt í norðurhafi. Eyju með glitrandi jöklum, djúpgrænum mosabreiðum og svörtum söndum. Eyju á tærbláum hnetti með snjóhvítum skýhvirflum. Blárri stjörnu sem sindraði á kvöldhimni hinum meginn í himingeimnum og speglaðist í augum dreymandi strákpjakks, sem kannski var líka berrassaður og sæll eins og ég.
Vinir og fjölskylda | Breytt 5.11.2009 kl. 18:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Kassinn Hennar Pandóru
6.8.2007 | 07:17
Árið 1968 fékk máninn keppinaut á norðurhjara. Við krakkarnir veltum okkur í dúnmjúkum snjónum á vetrarkvöldum með rauðar kinnar og hor í nefi; sugum snjóinn úr treflum og köggluðum vettlingum; störðum draumstolnum augum mót sindrandi stjörnuhvelfingunni heilluð af dansi stjarnanna í andgufunni frá vitum okkar. Við settum kertaljós í snjóhúsin okkar í einskonar hyllingu til þessa mikilfenglega líknarbelgs, sem verndaði okkur og sló í takt við barnshjörtun.
Máninn hallaði kankvís undir flatt með auga í pung og brosti hughreystandi til okkar eins og hann vildi segja: Ykkur er óhætt elskurnar. Ég er hér og vaki yfir ykkur. Hann hellti eilífum bláma sínum yfir landið, svo ljósið endurkastaðist af bröttum og snædrifnum fjöllunum, sem stóðu vörð um fjörðinn. Þetta var heimurinn okkar og við vorum börn þessa heims.
Fátt raskaði venjunni í þessu litla samfélagi, sem var svo langt frá heimsins vígaslóð. Eitt kvöldið gerðist þó eitthvað óvenjulegt. Við sáum rotinpúrulegan hóp norpa framan við búðarglugga, stappandi niður fótum og berjandi sér til hita. Þessi hópur tuldraði reglubundið fyrir munni sér eins og munkar á bæn og starði fjarrænt mót flöktandi, bláköldu ljósi, sem gerði hann eins og sorgmæddar vofur með glitrandi sultardropa á nefbroddum.
Þegar nær var komið sáum við hvað dró þetta fólk saman í svo nöprum aðstæðum. Sjónvarp! Aldrei höfðum við séð nokkuð slíkt í návígi áður. Þessi kassi var eins og kristalteningur í tekkumgjörð með tærri og djúpri sýn inn í fjarlægan heim. Heim sem togaði undarlega í hugi okkar eins og hann vildi tæla okkur inn í sig. Þarna voru kúrekar á háleggjuðum hestum á harðahlaupum. Þarna voru varnarlausar konur í vanda og dimmbrýndir skúrkar og svo þessir hugprúðu Bonanza feðgar, sem öllu björguðu. Framvinduna mátti ráða af tinandi texta, sem fólkið las upphátt jafn harðan og hann birtist. Upp með hendur!
Það var útskýrt fyrir okkur að þessar myndir kæmu til okkar hinum megin af landinu án þess að fara í gegnum snúrur eða slöngur. Þær komu bara í loftinu og við gátum jafnvel verið að anda þeim að okkur án þess að taka eftir því.
Þessi svarthvíti draumur var dáleiðandi og tók fram þöglu myndunum, sem Torfi Einars hafði sýnt okkur af átta millimetra filmum á laki heima í stofu. Abott og Costello, Gög og Gokke og Chaplin bjuggu í litlu kössunum hans. Líka Múmían, Frankenstein og brúður hans en það var allt hægt að loka niðri í tösku. Sjónvarpið var lifandi og nálægt og allt um kring. Litlir fætur kólnuðu fljótt þarna við gluggann á Pólnum, sem var raftækjaverslun bæjarins, svo við héldum áfram að kúldrast í snjónum eins og áður og gleymdum þessu brátt. Ekki grunaði okkur að þetta apparat, ætti eftir að bylta tilverunni á borð við það sem síðar reyndist.
Í byrjun áttu fáir sjónvarp og stundum var okkur krökkunum boðið að koma í heimsókn til vina, sem nutu þessara forréttinda. Það var samt ekki oft.
Gamla gufan var það sem við höfðum þessa daga. Þá sat fjölskyldan saman og hlustaði á útvarpsöguna eða útvarpsleikritið. Dickie Dick Dickens var flutt og Góði Dátinn Sveik í lestri Gísla Halldórssonar naut svo mikilla vinsælda að göturnar tæmdust og hlátrasköllin hljómuðu úr hverju húsi í kvöldkyrrðinni.
Amma og afi voru ein þeirra fyrstu, sem eignuðust tæki en það var sparlega notað og ekki var mikið rennirí liðið á því settlega heimili, sem var af danska skólanum. Ég man bara eftir að hafa horft á sjónvarpið þar einu sinni og þá var mér boðið sérstaklega af ömmu. Það var meira að segja í sjónvarpsfrí þegar þetta kom upp, en sjónvarpið lokaði einn sumarmánuð á ári svo fólk kæmi sér út í sólina. Þessi undantekning var söguleg að því leyti að þetta var fyrsta beina alheimsútsendingin, auk þess sem þarna stigu menn fyrst fæti sínum á tunglið að sögn.
Skrítin upplifun man ég. Það var bjartur sumardagur og nóg að gera í að ögra heiminum og rannsaka. Ég steig inn í myrka stássstofuna og var vísað til sætis í sófann með útskornu örmunum, sem yfirleitt var bannsvæði fyrir kámuga fingur, sem hneigðust til að klína hor í allt sem fyrir varð. Mér var færð mjólk og sandkökubiti. Sjónvarpskápurinn var opnaður eins og helgiskrín. Amma kveikti, gekk út og virtist engan áhuga hafa á þessu. Þarna sat ég einn og horfði á tunglið í nærmynd. Þetta var eins og helgistund. Óskýrar myndir af hoppandi geimförum birtust og vélrænar raddir heyrðust, slitróttar og brakandi eins og þær bærust í gegnum flugeldaregn. One small step for man. One gigant leap for mankind. Sagði Armstrong og hoppaði síðasta spölinn úr stiganum og ofan á á kallinn í tunglinu.
Þetta var allt svo flöktandi, óskýrt og óraunverulegt. Llitli kollurinn á mér meðtók ekki fyllilega samhengið.
Fjölskyldan mín fékk sjónvarp fyrir jólin 1969. Það var Cuba sjónvarp sem hlaut strax heiðursess í stofunni. Fyrsta manneskjan, sem birtist þar út úr snjómuggunni var Markús Örn Antonsson. Nánast allar jólamyndirnar frá þessum jólum eru af fjölskyldunni við undratækið, saman eða hvert í sínu lagi. (Eina myndin, sem ekki er þannig, er hér fyrir ofan.)
Fyrsta þulan var Ása Finnsdóttir bróðurdóttir pabba. Það þótti mikill virðingarauki að eiga frænku á skjánum. Síðar sá séra Grímur Grímsson afabróðir minn stundum um Jólamessuna og það gerði okkur nánast að mektarbokkum í mannforinni.
Sjónvarpsdagskráin vakti takmarkaðan áhuga okkar krakkanna til að byrja með. Litlausar fréttir voru fluttar með stofnanalegu tilbreytingarleysi. Umræðuþættir voru eitt það allra leiðinlegasta, þar sem menn sátu í djúpum stólum og raupuðu og rifust. Í þá daga voru bara óbreyttir símvirkjar, sem sáu um myndatökuna og sást það oft á pínlegri innrömmun, þar sem manni varð oft starsýnt á það í hvorri skálminni slátrið lá hjá þessum forkólfum í hægindunum. Landsfeðurnir urðu eitthvað svo óviðeigandi mannlegir og ótrúverðugir í þessum stellingum.
Mikið af innlenda efninu átti freka heima í útvarpi en þó var reynt að efna til skemmtiþátta á laugardögum. Þar var Ómar Ragnarson þegar mættur og enn er að gera út af við mann, hart nær fjörutíu árum síðar. Sumt hefur ekkert breyst. Raggi Bjarna tók lagið ásamt fleirum í geimaldar eða torfbæjarleikmyndum, eftir efninu. Leikritum var hróflað upp, þar sem stórleikarar þjóðarinnar léku stórt með stóra förðun í andlitinu og töluðu í stórum pathos eins og væru þeir að fara með ættjarðarljóð í stað hversdagslegra samtala. Það var róið í gráðið, stunið, jammað og jæjað í þjóðlegri kakófóníu af lopa, torfi og trosáti. Vigdís Finnbogadóttir kenndi frönsku og bar ekki betur fram en svo að frakkneskir menn töldu hana segja: Takk rassgat. Þegar hún þakkaði Gerard vini sínum fyrir. Fyrsta alvarlega aulahrollinn fékk ég yfir þýskri skíðakennslu, þar sem yfirborðskenndir Týrólar sungu, dönsuðu og dilluðu rassinum á skíðum. Svo var gefið frí á fimmtudögum og brátt fluttist allt félagslíf þjóðarinnar á þann dag. Sinnuleysi sjónvarpsglápsins réði brátt ríkjum aðra daga. Fyrsta útsæðinu var plantað af sófakartöflum framtíðarinnar. Fátt var um annað rætt en sjónvarpsefnið manna á milli en við krakkarnir ánetjuðumst þessu þó ekki í líku mæli og börn nútímans. Náttúran sjálf hafði, enn sem komið var, sterkari togkraft en þessi platheimur.
Dýrlingurinn Simon Templar var það sem okkur krökkunum hugnaðist best að sjá og auðvitað Bonanza og Belphégor. Belphégor var samt algerlega bannaður börnum. Við vorum rekin í háttinn með hörku og þrasi þegar hann var á dagskrá. Þetta voru franskir hryllingsþættir um vofu, sem ráfaði um Louvre safnið og drap fólk í algeru tilgangsleysi. Við systkinin reyndum að liggja á gæjum, en vorum alltaf staðin að verki, nema einn laugardaginn, þegar mamma og pabbi fóru á ball. Þá horfðum við öll þrjú á einn þátt og hefðum betur látið það ógert. Við urðum svo hrædd að við hnipruðum okkur saman um nóttina og kjökruðum af hræðslu við hvern traustabrest í húsinu. Þessu fylgdu svo reglubundnar martraðir í margar vikur. Ég svaf alltaf með tásurnar undir sænginni eftir þetta, svo Belphégor næði ekki í þær. Sjónvarpið hafði sáð ótta í saklaus hjörtun.
Merkileg hliðarmenning spratt upp í kringum sjónvarpið. Mamma, sem las Vikuna af mikilli áfergju, saumaði dragtir upp úr henni og greiddi hárið upp í gljáhvítan túrban eins og forsíðustelpurnar. Þar sá hún líka uppskriftir af sérstökum sjónvarpsmat, sem oftast samanstóð af laukídýfu, Ritzkexi og gulrótarræmum. Soldið spez en ekki gott, fannst okkur. Hún prjónaði líka sérstaka sjónvarpssokka, sem voru svona lopamokkasínur, sem öll fjölskyldan hafði á fótum þegar horft var á sjónvarp. Afar hentugt við fótkulda, sem sótti að í kyrrsetunni. Svo voru líka sérstakir sjónvarpsbollar og meira að segja sjónvarpsteppi. Ekkert heimili gat án þessa verið. Tilveran mótaðist smátt og smátt utan um þennan kristaltening með svarthvítum skuggunum, svo jafna mátti því við átrúnað. Bláminn flökti í hverju húsi og sló bjarmanum út á mannlausar göturnar. Máninn undraðist um afdrif barnanna sinna. Jafnvel stórfenglegur slæðudans norðurljósanna dugði ekki lengur til að vekja undrun og andakt. Það varð varanlegt messufall á himnum.
Í dag er sjónvarpið jafn sjálfsagt og andrúmsloftið. Það hefur fastann sess í tilveru okkar og ræður meiru um líf okkar og skynjun en við þorum að kannast við. Það hefur slævt okkur frá raunverulegri lífsnautn eins og ópíum. Við sitjum þögul og þreytt framan við töfrakristalinn eða jafnvel hvort í sínu herbergi og horfum á kjördópið okkar. Við höfum vanist því að taka stöðugt við mötun án þess að geta beitt gagnrýnni hugsun né miðlað á móti. Nauðsynleg mannleg tengsl hafa dofnað eða slitnað frá því sem áður var. Börnin eru sett í gæslu kristalsins mikla frá því að þau geta setið. Foreldrarnir eru of uppteknir við að eignast tálmyndir auglýsinganna til að hafa tíma fyrir það sem sálin þarfnast og andleg hungursneyð hefur lagst að.
Athygli okkar beinist að uppdiktuðum persónum og fyrirmyndum, sem sameina öll lákúrlegustu gildi mannskepnunnar. Ofbeldi, miskunnleysi, illmælgi, öfund, græðgi, flærð, losti og hvað það eina, sem Lúter kallinn vildi kalla dauðasyndir, er okkar daglega brauð. Andstæður mannlegra dyggða. Stríðum og óhugnaði heimsins er hellt eins og gorugum blóðgraut inn á stofugólf á hverju kvöldi. Við erum orðin dofin fyrir grimmdinni; stillum bara yfir á eitthvað fyndið og áreynslulaust. Okkur er stöðugt uppálagt að treysta engu og óttast allt. Glæpamenn, perrar, gróðurhúsaáhrif, fuglaflensa, hryðjuverkamenn og efnahagsójafnvægi. Okkur er sagt að illir múslimir sitji um að gera okkur að Íslömskum þrælum ellegar meiða okkur af því að við erum svo frjáls og hamingjusöm. Við gefum eftir persónurétt og lýðréttindi til að leggja þessari ógnvænlegu baráttu lið. Óvinurinn er þó jafn raunverulegur og feiti og vitlausi kallinn í gamanþáttunum, sem á að fá húsmæður í Ameríku til að vera sáttari við bælingu sína í stofufangelsinu.
Óttavæðingin er markviss, enda er óttinn sterkasta vopn valdsjúkra lénsherra til að gera okkur að viljalausu leiguþýi sínu. Án óvina er byltingin tilgangslaus og því þarf að búa þá til, vildi stjórnvitringurinn Stalín meina. Sjónvarpið gegnir lykilhlutverki í þessari þróun. Við hlaupum óttaslegin áfram í hamsturshjóli efnishyggjunnar og höfum ekki tíma til að hvá. Jafnvel þeir, sem tala í nafni trúar eru ötulir í þessari markaðssetningu skelfingarinnar, en lofa þó að taka málin í sínar hendur ef við sendum þeim pening. Jafnvel óhrjálegust kjánar og siðblindir hræsnarar fá völd og áheyrn. Fordómar, flokkadrættir og bláköld lygi er trúboð þeirra . Ég trúi persónulega engu, sem út úr þessum kassa kemur og tel heiminn betur hafa komist af án hans.
Ég líki þessum kassa við kassann hennar Pandóru, sem var fyrsta konan samkvæmt Grískri goðafræði. Seifur lét skapa hana sem lið í refsingu mannkyns fyrir þjófnað Prómþeusar á leyndarmáli eldsins. Pandóra átti öskju, sem hún mátti alls ekki opna, en gerði það þó sökum sinnar kvenlegu forvitni og hleypti út græðginni, hégómanum, rógnum, öfundinni og fleiru af brestum mannlegs eðlis, en lokaði vonina niðri er hún skellti boxinu aftur.
Ég held þó enn í vonina um að við vöknum til lífsins að nýju og lærum að njóta þess eins og það kemur fyrir vit okkar í sinni náttúrlegustu mynd. Von um að við getum litið á ný til stjörnuhvelfingarinnar og veitt karlinum í tunglinu selskap. Til þess þurfum við bara að slökkva á kassanum og draga gluggatjöldin frá.
Menning og listir | Breytt 21.8.2010 kl. 14:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Hjálparsveit Leitar Útilegumanna.
4.8.2007 | 09:00
Vestfirðir voru til forna athvarf væringja og glæpalýðs á flótta undan refsandi yfirvaldi. Þessi útkjálki var svo alræmdur að allar almannaleiðir sneyddu þar hjá. Nokkuð sem tekið hefur verið upp aftur í seinni tíð. Jafnvel huguðustu eftirleitarmenn landshöfðingja, létu staðar numið við Hrútafjörð og hættu sér ekki norður eftir. Þetta var fríríki hinna landlausu, löglausu og óhreinu.
Þórður Kakali sótti þangað styrk sinn þegar allt var á undanhaldi hjá honum. Hann vingaðist við rumpulýðinn og dró saman flota úr hverri skeið og horni á Ströndum, sem flotið gat. Þessa koppa og kirnur fylltu þeir síðan af grjóti og mættu glæsiflota Kolbeins unga á Húnaflóa og börðust þar með grjótkasti, svo sem frægt varð í Flóabardaga. Þórður þurfti að vísu að hopa, en bardaginn varð honum í vil þegar fram í sótti. Kolbeinn þóttist svo gæfusamur að sleppa að hann undirgekkst smæð sína og auðmýkt og munstraði sig í klaustur að Þingeyrum. Hann dó ári síðar og lét Þórði eftir lén sitt. Rustarnir að vestan höfðu sigrað og síðan hafa fáir vogað sér það glapræði að setja sig upp í mót þeim. Mörgum öldum síðar, féllu þeir þó á eigin bragði og fóru að stela hver frá öðrum. Skálmöldin gekk í endurnýjun lífdaga.
Í æðum mínum rennur þetta vandalablóð. Ég hef þó náð að hemja það og sýnast siðprúður heimsborgari, en á æskudögum braust þetta fram í sinni hreinustu mynd. Ég og Einar vinur minn vorum skaðræðisgripir eins og kallað var. Við brutumst inn í hjalla og stálum harðfiski, læddumst inn í garða og rændum radísum og rófum. Við rupluðum jafnvel í búðum og vorum einatt hirtir fyrir slíkt og flengdir. Við mættum mæðusvip og ráðleysi hinna fullorðnu. Hvað er hægt að gera við svona óbermi? Réttast væri að senda þá á vandræðaheimili. Þar myndu þeir fá að kenna til tevatnsins og læra hvar Davíð keypti ölið og Jói fékk sér kaffi og Sigga nýja nælonsokka...og hvað maður átti nú ekki að láta sér að kenningu verða. Þetta var þó ekki það versta við okkur. Ó,nei. Við vorum nefnilega rúðubrjótar og það var verra en mannsmorð.
Rúdolf Giuliani borgarstjóri í New York varð frægur fyrir að taka á þessum alvarlega glæp. Ameríkanar uppgötvuðu nefnilega fylgni í rúðubrotum, sem þeir kölluðu The broken window syndrome. Þetta heilkenni lýsti sér í því að þar sem brotin rúða var skilin eftir óáreitt, þar bættust við brotnar rúður með faraldsfræðilegum hraða. Í kjölfar þessa fylgdi svo afleidd hnignun viðkomandi hverfa með rýrnandi sjálfsvirðingu íbúanna, ergelsi og frekari glæpa og skemmdarfýsn. Ráð Giulianis var að vera með her trésmiða í vinnu við að skipta um rúður um leið og þær brotnuðu, svo aldrei sást högg á vatni eftir áhlaup varganna. Þetta varð til þess að illþýðið lagði niður iðju sína og velsæld jókst í hverfunum. Þessu beitti Rúdolf líka á veggjakrotara í neðanjarðarlestum og eyddi þeirri óáran á ótrúlega skömmum tíma.
Ég og Einar urðum einu sinni fórnarlömb þessa heilkennis með þungum afleiðingum. Við vorum inni í Tunguskógi, sem er inni í Seljalandsdal í botni Skutulsfjarðar. (fyrir þá sem ekki vita, þá stendur Ísafjarðarkaupstaður á Eyri við Skutulsfjörð, en hinn eiginlegi Ísafjörður er innsti fjörður í Ísafjarðardjúpi).
Við hjóluðum oft inn í skóg á góðviðrisdögum til að liggja í grasinu og naga strá, tína ber eða busla í ánni. Stundum fengum við smávægilega útrás fyrir strípahneigð, en það hefur enginn vitað fyrr en nú. Þennan dag var heldur ekkert alvarlegra á dagskrá. Á þessum aldri eru strákar eins fífilfræ sem blásið er af biðukollu og fást við það sem vindurinn leiðir þá í hverju sinni.
Brotin rúða á almenningsklósettinu náði augum okkar. Við vorum að pissa utan í vegginn, enda var það ekki samboðið svona prinsum að pissa í skál, þótt hún væri handan við þetta þil. Púkablik í auga, engin orð. Við byrjuðum á að henda steinum í brotin, sem eftir voru. Klirr! Hávaðinn vakti með manni furðulega sælukennd, æsandi tilfinningu í brjósti og hraðari hjartslátt. Meira! Áður en við vissum af þá flaug steinvala í eina af heilu rúðunum og svo brotnaði önnur...og önnur og...
Þetta var ótrúlega örvandi tilfinning. Mér hitnaði í framan og það suðaði fyrir eyrunum. Allt varð einhvernvegin óraunverulegt eins og í draumi. Við hlupum í felur við hverja rúðu og náðum vart andanum; skimuðum yfir svæðið, en enginn var á ferli. Við vorum einir. Áður en langt um leið, voru allar rúðurnar brotnar. Þá hlupum við inn á sumarbústaðalandið til að dyljast í kjarrinu. Bíll kom aðvífandi og við frusum af hræðslu. Hann keyrði svo sömu leið til baka. Úff, þvílík heppni.
Ég var með málmbragð í munni og hver taug var þanin. Við mæltum varla orð og augun stóðu á stilkum. Steinn flaug úr hendi Einars og beint í rúðu á vinarlegum sumarbústað. Ég gerði slíkt hið sama. Svo vatt þetta upp á sig stein af steini.
Við stútuðum rúðum í draumstolnu æði, klifruðum inn í bústaðina og grömsuðum eftir verðmætum; skárum okkur á höndunum, svo blóðið lagaði um allt. Lítið hafðist upp úr þessu annað en exi og áttaviti, en nánast allar rúður voru brotnar í mörgum bústöðum. Við höfðum misst vitið og þegar það rann upp fyrir okkur ljós, urðum við hræddir. Okkur tókst að læðast heim undir kvöld, þvo af okkur blóðið og stinga blóðugum og rifnum fötum í þvott. Mig sveið í hendurnar og greip kvíðans tók um kverkar mér. Hvað vorum við búnir að gera?
Daginn eftir var fréttin um hin hræðilegu afbrot á allra vörum. Við vorum strax grunaðir enda var það sjálfgefið með svona skaðræði eins og okkur. Ef fjöllin hyrfu einn góðan veðurdag, hefði strax verið bent á okkur.
Við vorum flóttalegir eins og særðir úlfar og reyndum að láta lítið á okkur bera. það var eins og að það drægi athyglina enn meira að okkur. Einar trúði öðrum vini fyrir leyndarmálinu og hann kjaftaði. Við vorum króaðir af í skólanum og biðum skólastjórans. Pabbar okkar voru á leiðinni og löggan. Við vorum sannarlega búnir að vera. Augu okkar Einars mættust og við sendum hugsanir okkar á milli á ljóshraða. Við verðum að gera eitthvað! Flýjum!
Við notuðum fyrsta tækifæri, sem bauðst og létum okkur hverfa. Hlupum eins og fætur toguðu og dembdum okkur beint niður í fjöru þar sem við gengum hálf bognir inn í fjörð. Tveir sakamenn á flótta undan réttvísinni. Við komumst inn í fjarðarbotn og tókum stefnu upp á Breiðadalsheiði. Það var kalt og snjórinn varð þyngri eftir því sem ofar dró. Við sammæltumst um að við myndum aldrei láta ná okkur lifandi.
Efst á heiðinni var sæluhús. Við fórum þar inn og bræddum snjó á prímus; löguðum okkur te og mauluðum rakar kexkökur. Tilfinningin var notaleg. Hlýjan í skúrnum veitti okkur öryggiskennd þar sem við sátum rjóðir í framan og heitir á skrokkinn
Við ræddum framtíð okkar í útlegðinni. Ætluðum að byggja okkur skýli í fjöllunum og búa okkur til súpur úr grösum. Brauð úr mosa eða eitthvað. Kjöt myndum við fá með því að drepa lamb með vasahnífnum hans Einars. Við kunnum til verka, enda höfðum við hangið við sláturhúsið í mörg haust. Ef okkur langaði í súkkulaði eða Freyjukaramellur, þá myndum við læðast til byggða í skjóli nætur og brjótast inn. Svo kæmu Jólin og hvað þá...
Víst yrðu systkini manns og foreldrar döpur. En þeim var nær. Ég fann kökkinn byggjast upp í hálsinum og mér volgnaði um augun. Ef þau hefðu bara haft vit á að fyrirgefa okkur þá hefði allt orðið gott. Kvöldmyrkrið seig á og við sátum hljóðir um langa hríð. Gaseldurinn suðaði og vindurinn hvíslaði í rjáfrinu. Sorglegar hugsanir og eftirsjá fylltu huga minn. Við höfðum bölvað þeim, sem við elskuðum þvert ofan í samviskuna og hún nagaði innan kviðarholið að launum. Loks var ekkert varið í að sitja svona lengur svo við ákváðum að fara ofan í bæ og kíkja hvort fólk væri búið að jafna sig. Bara svona njósnaferð. Ef ekki, þá myndum við gera alvöru úr áætlun okkar og gerast útilegumenn.
Við læddumst í myrkrinu yfir snjóskafla grjót og klungur. Þegar við nálguðumst bæinn, heyrðum við nöfnin okkar kölluð góðlega í kvöldkyrrðinni. Ljósagangur var uppi í fjallshlíðinni og niðri í fjöru. Það var verið að leita að okkur með vasaljósum og enginn virtist reiður? Eiiiinaaar! Noooonniii! Þetta voru áhyggjuhljóð. Elskuleg hljóð.
Ekki man ég alveg hvernig það bar til, en við hittum Bergþóru systur Einars niðri í fjöru. Hún var með brauð í bréfpoka, kókómalt í flösku og var hálf kjökrandi: Komiði heim strákar. Það er enginn reiður lengur. Það eru allir hræddir um að þið séuð dánir. Hjálparsveitin er að leita um allt. Komiði heim strákar. Mamma þín er að gráta Nonni.
Þetta bugaði okkur. Við sendum hana til baka með þau skilaboð að við myndum gefa okkur fram ef allir lofuðu að ekkert vesen myndi verða. Annars myndu þau aldrei sjá okkur aftur. Það stóð. Einar gaf sig fram fyrstur. Uppi á hjalla ofan við fjöruna var hópur fólks með ljós og foreldrar Einars, sem lofuðu því að ekkert yrði gert. Við kvöddumst með leynihandtakinu okkar og Einar brölti upp kambinn. Ég þræddi fjöruna heim og bankaði eftir nokkuð hik. Móðir mín faðmaði mig að sér og kallaði mig elsku drenginn sinn og svo var ekki minnst orði á þetta meir.
Þetta varð þó meiriháttar mál og það endaði með að við vorum dregnir fyrir rétt, þar sem við reyndum að ljúga okkur út úr sumu af þessu, en það dugði ekki til. Pabbi stóð með mér fastur eins og klettur og áréttaði fyrir mér að segja bara satt, þá yrði þetta búið fyrr. Hann þurfti svo að borga rúðurnar til helminga á móti pabba Einars. Það var svo aldrei minnst einu orði á þetta mál meir. Ég og Einar brutum heldur aldrei rúðu eftir þetta, þótt ýmsan skandal gerðum við annan. Við vorum jú strákar og strákar eru alltaf strákar, segja víst menn.
Þetta rifjaðist upp fyrir mér fyrir nokkrum árum þegar svipað atvik átti sér stað við Rauðavatn. Þá var fjölmiðlunin orðin nánast fullþroska fyrirbæri og reyndi fyrir sér mátt sinn í samfélaginu. Mikið fár myndaðist yfir því hvað hægt væri að gera við einhverja vandræðapésa, sem brotið höfðu rúður og eyðilagt dauða hluti í sumarbústöðum fyrir tugi þúsunda. Það stóð ekki á lausninni. Hún var í formi steinsteypu eins og endra nær. Málið var blásið svo út yfir allan þjófabálk að landsöfnun var hrint af stað á vegum Stöðvar tvö. Safnað var fyrir vandræðaheimili, sem koma myndi þessari óáran úr umferð í eitt skipti fyrir öll. Samfélagið krafðist þess að eitthvað yrði gert.
Tugir milljóna söfnuðust og byrjað var að byggja heimili, sem síðar reyndist mikið og dýrt vandræðabákn, sem enginn vildi kannast við þegar á hólminn kom. Smíðin tókst þó í áföngum og hið opinbera hljóp undir bagga. Tilgangurinn var þá löngu gleymdur. Að vísu er búið að finna þessu húsi not í dag, en ekki til að hýsa rúðubrjóta heldur unga vímuefnaneytendur. Hvað varð um rúðubrjótana við Rauðavatn veit enginn. Kannski byggðu þeir sér skýli á fjöllum og drepa lömb með vasahnífum sér til viðurværis.
Menning og listir | Breytt 5.8.2007 kl. 03:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Fangavörðurinn
3.8.2007 | 08:26
Dauðinn er fjarri huga barnsins. Ég man að ég náði bara ekki utan um þá hugsun að eitthvað væri endanlegt; að fólk hyrfi bara og kæmi ekki aftur; væri bara ekki meir. Þó var dauðinn allt um kring í litla bænum okkar. Við drógum fram lífið á honum. Ég fann aldrei til djúprar sorgar við fráfall fólks. Þótti það jú leitt vegna þeirra, sem eftir lifðu, en aldrei syrgði ég djúpt eins og hinir fullorðnu. Leið ekki þessa angist og kvöl. Þó var ég frekar tilfinningaríkt barn að ég held.
Ég hafði heyrt að fólk færi á betri stað; að baslið og veikindin væru að baki og brosmildar sálir þeirra svifu eins og koddafiður um himingeiminn. Ég jafnvel öfundaðist smá yfir þessu flugi og því að geta verið svona laus undan helsi líkamans. Upplifði þetta stundum í draumum mínum. Ég þurfti aðeins að tylla niður tánum og þá losnuðu gúmmískórnir frá forugri götunni og ég flaug, hvert á land sem vildi með ljúfa golu í hárinu.
Dauðinn fyrir mér var meira eins og fangavörður, sem hélt okkur í ákveðinn refsitíma á jörðinni, en sleppti okkur síðan lausum að afplánun lokinni. Ég óttaðist hann ekki og tengdi hann aldrei við mig. Ég var eilífur.
Pabbi var sjómaður á litlum bát og fór út í allskonar veðrum. Ég fann þó aldrei fyrir kvíða og ótta um afdrif hans. Jafnvel þó ekki spyrðist til hans í vondum veðrum. Ég vonaði bara að hann yrði ekki blautur og kaldur og að hann hafi haft með sér nóg af brauði með osti og eplasneið, en hafði algert traust á því að hann kæmi heill heim. Annað komst einfaldlega ekki að í mínum úfna kolli.
Það voru þó drengir í götunni, sem misstu pabba sinn í hafið og það lagði undarlegan skugga yfir húsið þeirra um stund. Þeir urðu fjarlægir og gleðisnauðir en innan skamms þá rjátlaði það af. Það hefði pabbi þeirra líka viljað. Ekki vildi ég að fólk þjáðist vegna burtfarar minnar. Flestir geta líklega tekið undir það.
Það komu líka skelfilegar fréttir af breskum togurum, sem sagðir voru hafa farist með manni og mús og allt sem ég sá fyrir mér var lítil mús að reyna að synda í land í köldum sjónum.
Stundum kom varðskip eða aðrir bátar í höfn með aflanga kassa sveipaða fánanum. Menn voru niðurlútir og tíminn brá sér frá; allt var hégómi um stund og ekkert var meira viðeigandi en að segja alls ekki neitt. Það var heldur ekkert hægt að segja neitt andspænist þessu ógnarafli, sem dauðinn var. Tár léttu fólki þungann í höfði og brjósti, en breyttu annars engu. Í minningunni var oftast þoka eða rigning á þessum dögum. Svo varð allt hreint og nýtt. Fólk hugleiddi gang sinn og sá að flani sínu og flumbri í daglegu amstri. Það varð umburðarlyndara, hægara og betra í alla staði við hvort annað. Fegið því að hafa ekki glatað sínum. Haldist var í hendur og börnin fengu fleiri faðmlög en í meðalári. Látleysið einkenndi þessar stundir og auðmýktin var djúp fyrir hinu óumflýjanlega.
Einu sinni varð ég þó vitni að serimóníum, sem ég skildi ekki. Það kallaðist húskveðja. Athöfnin var haldin í húsi hins látna. Það var rifinn gluggi úr húsinu með póstum og öllu krami svo stórsá á. Kistunni var í lokin troðið þar út, þó svo að hún hafi verið sett inn um hurðina í upphafi. Hún var svört eins og á myndum, sem maður sá frá Svarta Dauða í skólabókunum. Ég skildi ekki að við gætum haft áhrif á handanvistina með slíku brölti, en ef fólki leið betur með þetta, þá var tilganginum sennilega náð.
Líkiktusmiðurinn hann Kristinn, bjó í húsinu við hliðina á mér. Hann var hæglátur maður, sem átti góða og hlýlega konu og strák, sem var aðeins yngri en ég. Þau áttu Trabant, sem vakti mann á hverjum morgni með miklum gauragangi, fretum og reykmekki svo miklum að það dró fyrir sólu um hríð. Maður var þakklátur snjóþungum vetrum, því þá fennti yfir þennan hrossabrest og við höfðum hann undir fótum okkar, þar sem við lékum okkur. Almættið sá fyrir sínum.
Það tók þó ekki betra við, því Mummi sonur þeirra fór að læra á Valdhorn og prumpaði daginn út og inn, svo undir tók í húsinu. Þetta voru skelfileg harmkvæli og við systkinin sátum eins og opinmynntar brúður á meðan þetta gekk yfir, því það var vart hægt að tala saman fyrir þessum ósköpum.
Þetta var samt gott og hrekklaust fólk, sem lifði hófsömu og tilbreytingarlitlu lífi, nema hvað eitt sinn þá skruppu þau hjónin suður og fengu sér nýjar "tönnur." Þau voru skælbrosandi upp frá því og fengu varla mælt framar, með allt þetta postulín upp í sér. Þetta var eins og að sjá upp í bollaskáp með tólf manna mávastelli. Þau sögðu annars ekki margt yfirleitt, svo það breytti litlu. Þau lifðu af dauðanum og það þurfti ekki mikið að fjasa yfir því.
Ég man að ég reyndi að gera mér upp grát af skyldurækni þegar amma dó. Ég gat bara ekki grátið. Það var ekki af kaldlyndi heldur af ást til þessarar konu, sem var svo blíð við mig og góð. Hún kenndi mér faðirvorið; kallaði mig Jón minn Steinar, gaf mér kökubita og mjólk og ræddi heimspekileg málefni við spurulan pjakk. Hún var engill alla tíð fyrir mér. Ég vildi ekki einu sinni fara í jarðarförina hennar, því ég vildi hafa hana hjá mér eins og hún var. Ég held að börn skilji ekki jarðarfarir og allt það umstang og skikk, sem þeim fylgir. Hvað þá kistulagningar, sem mér finnst bölvaður ósiður að neyða börn í. Þau gera ekki mikinn greinarmun á jarðneskum og andlegum líkama. Amma er til dæmis hjá mér enn.
Einu skiptin, sem ég fann til sorgar, var þegar kisurnar mínar dóu. Kannski var það vegna þess að þær voru eins og börnin mín og ég bar einhverskonar ábyrgð á þeim. Þær elskuðu mann, kúrðu hjá manni og eltu mann jafnvel í skólann. Einu sinni var ég sendur heim með kisuna mína af því hún stökk mjálmandi upp á skólastofugluggann og truflaði tímann. Okkur tengdi einhver ósýnilegur strengur. Það var djúpur söknuður og sár sviði við bringubeinið, þegar þessi kærleikstengur rofnaði.
Við jörðuðum kisurnar okkar í bakgarðinum. Settum þær í skókassa með einhverju mjúku innan í og sungum Jesúbróðirbesti. Svo var mokað yfir og settur lítill kross úr spýtnabreki við höfðagaflinn. Við signdum okkur, kross Gullfoss og svo ekki söguna meir.
Eitt sinn fór slík jarðarför algerlega úr böndunum. Eldri bróðir vinar míns, var dramatísk og væmin manneskja, sem lifði í einhverjum ótrúlega leikrænum heimi. Hann tók að sér að undirbúa jarðarförina, óumbeðinn. Hann stal forláta silkifóðruðum saumakassa frá móður sinni, skipulagði söngdagskrá og pósessíu umhverfis hverfið með sálmasöng og krossburði. Sjálfur var hann í skikkju í fararbroddi, en ég og vinur minn bárum kistuna á öxlunum. Þetta dró að mikinn krakkaskara og man ég ekki eftir annarri eins líkfylgd þarna í bænum. Þetta var allt hið hégómlegasta og seimóníurnar settu að manni aulahroll, þótt maður gengist undir þetta af ótta við pyntingar prelátans, sem var gjarn á að snúa upp á útstæð eyrun á okkur.
Þessi drengur er mesta ljúfmenni í dag. Kom að vísu út úr skápnum seinna á lífsleiðinni, en ekki skal ég segja hvort þessi skrautsýning var fyrirboði um það. Það varð allt vitlaust út af saumakassanum og við fengum ákúrur fyrir hræsnina, en svo gleymdist þetta.
Mummi sonur líkkistusmiðsins tók þetta ritúal hinsvegar á iðnaðarstigið. Hann hóf að vera hjá föður sínum í vinnunni og fjöldaframleiddi litlar líkkistur, sem hann notaði til að jarða allt sem andanum hafði glatað. Undrandi fiskar úr fjörunni, skógarþresti, mýs og hvað eina, sem varð á vegi hans. Á stuttum tíma breyttist bakgarðurinn í einskonar fjöldagrafreit, sem átti sér varla hliðstæðu nema við orrustuvelli Somme. Hundruð krossa þöktu margra fermetra svæði og óþefurinn af rotnandi líkamsleifum lá inn um allar gáttir á húsinu okkar. Flugnaplága herjaði á hverfið og ófremdarástand myndaðist. Þá risu loks hinir fullorðnu upp og sögðu stopp nú stýrimann! Hingað og ekki lengra! Garðurinn var grafinn upp og plágunni eytt áður en hún eyddi okkur. Mummi var tuktaður til fyrir þennan einlæga og fordómalausa kærleiksvott, sem hann sýndi samsálum sínum á jörðu og upp frá þessu lögðust jarðarfarirnar af.
Í dag græt ég hins vegar í jarðarförum, svo hor og tár flæða. Veit ekki hvenær það breyttist. Finn til þessarar sömu saknaðarkenndar og sviða, sem ég fann til kisanna minna forðum; kærleika og þakklætis fyrir samfylgd góðra manneskja og kannski líka til eilítils kvíða fyrir því að brátt komi að mér. Innst inni er ég þó alveg rólegur fyrir þeirri staðreynd og þykist vita að utan múra lífsins muni kærleiksólin blinda mig um stund og frelsið faðma mig, þegar fangavörðurinn opnar fyrir mér og hleypir mér út.
Lífstíll | Breytt 10.3.2019 kl. 08:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Hannibal og Höfuðlausnin
2.8.2007 | 03:26
Á gelgjuskeiðinu var ég afar undarlegt barn. Ég hafði þungar áhyggjur af heiminum og fannst flest í mannanna amstri heldur lítilvægt og ómerkilegt. Ég samdi tregafull ljóð um tilgangsleysi jarðlífsins, sem ég lét svo aldrei fyrir augu manna.
Harmræna mín var djúpstæð og það þurfti ekki annað til að halda fyrir mér vöku en grein í blaði um stjörnufræði, þar sem því var haldið fram að jörðin hægði á sér og myndi innan nokkurra milljarða ára steypast í sólina, þar sem hún myndi brenna upp. Mér kveið óskaplega fyrir þessu og sá lítinn tilgang í lífinu fyrst svona átti að fara.
Ég gekk um í rauðleitriÁlafossúlpu og reimaði skinnkragann í stút, svo aðeins grillti í bólugrafinn nefbroddinn fyrir innan. Hármakkinn var þykkur og náði niður á axlir en toppurinn niður á höku. Það var mín uppreisn. Maður fyrirleit heiminn, gekk um með hendur í vösum og leit aldrei af trömpurunum sínum; hlykkjaðist um eins og álkulegur ormur álengdar að sjá.
Mér var ekki gefið um skólagöngu. Leiddist námið, sem mér fannst tilgangslaust og afstætt stagl. Þoldi ekki kennarana. Þeir voru hlandvitlaust lið á barmi taugaáfalls.
Það var kannski ekki að undra að þeir væru taugatrekktir. Ég gerði allt til að gera þeim lífið leitt. Hleypti upp tímum með meinfýsnum athugasemdum og útúrsnúningum og endaði oftast frammi á gangi eða hjá skólastjóranum.
Einn kennarinn frussaði mikið, svo bækurnar blotnuðu og blekið rann til er hann kom að borðinu til að leiðbeina. Einn daginn mætti ég með regnhlíf og sló henni upp þegar hann nálgaðist. Þetta vakti kátínu allra nema hans. Teiknibólur í sætum voru klassískir hrekkir, þrátt fyrir að ég væri kominn upp í landspróf. Að bleyta krítina var mjög skilvirkt. Fylla svampinn af sápulegi, þannig að krítin makaðist út um allt í stað þess að hverfa. Setja salernisilmsápur á bak við ofna til að forpesta skólastofuna og fá frí meðan ræst var út.
Öllum snjallræðum var beitt mér til skemmtunar og kennurum til armæðu. Einn hljóp grenjandi út og ætlaði að hætta kennslu. Það þótti rosalega fyndið. Ég var miskunnleysið og mannvonskan uppmáluð. Frændi minn kenndi mér og ég lagði hann í einelti. Hann hafði sérstakan talanda og ég hermdi eftir rödd hans í hvert skipti, sem hann beindi spurningum til mín. Það var illa gert af mér og ég er viss um að hann tók það nærri sér og vænti meiri samstöðu úr frændgarði sínum. Ó, nei. Illyrmið ég fórsko ekki í manngreinarálit og lét alla njóta sömu lystisemda, nema einn kennara. Hann var gamall og drykkfelldur, kom stundum í tíma angandi af kaupstaðarlykt, hafði lappir upp á borðum, tók í nefið og klæmdist við stelpur jafnt sem stráka. Hann var æði. Hann kenndi Íslensku, málfræði, bragfræði og fleira skylt og ég dúxaði í öllu, sem hann kenndi.
Ég var á tæpasta vaði með að verða vísað úr skólanum og hafði í raun fengið nokkra sénsa. Mætingin var með afbrigðum slæm. Oft þegar mér var hent út að heiman á morgnana, þá skildi ég skólatöskuna eftir í kjallaraholu við húsið, fór niður í dokku og klifraði upp í veiðafærageymslu í gömlum hjalli. Þar kláraði ég að sofa út í haug af gömlum snærum. Foreldrar mínir voru að brenna upp af áhyggjum og engar skammir og hirtingar dugðu. Heimur minn var að liðast í sundur og ég var ástæðan.
Hræðilegur atburður varð svo þegar liðið var á landsprófsveturinn. Skólastjórinn okkar hann Jón Ben fórst í skelfilegu bílslysi í Eyjafirði. Hann keyrði út í á og drukknaði. Allir voru harmi slegnir, því hann var sanngjarn og blíðlyndur stjórnandi. Án hans hefði ég sennilega ekki fengið að klára skólagönguna. Siggi sonur hans var í bekk með mér og ágætur vinur. Ég man alltaf morguninn, sem hann var kallaður út úr skólastofunni til að fá þessi ógnvekjandi tíðindi. Svo var gefið frí.
Ég er ekki frá því að ég hafi breyst við þetta. Fallvaltleiki lífsins varð mér ljósari en nokkru sinni fyrr og það hugnaðist mér ekki að að verða minnst sem skaðvalds og skelfis, ef ég hyrfi héðan fyrir slysni. Ég tók mig á og mætti í tíma. Lærði heima og var að mér fannst alveg til þokkalegrar fyrirmyndar. Mér leið líka betur.
Í stað Jóns kom nýr skólastjóri, sem var gamall og þjóðþekktur maður. Hann hafði meira að segja á árum áður verið skólastjóri föður míns. Þetta var stjórnmálaskörungurinn Hannibal Valdimarsson, faðir Jóns Baldvins. Hann var að hætta í stjórnmálum og tók að sér að sitja sem stjórnandi skólans út misserið.
Hann var strangur að sjá, horfði á okkur út undan gróskulegum augabrúnum með kænskulegt glott í augum eins og að hann læsi hugsanir okkar. Svo hafði hann andrúm virðingar og staðfestu um sig eins og landsleiðtoga sæmdi. Það var góður agi í stjórnartíð hans, þótt stjórnmálaferillinn hafi verið stormasamari.
Ég fór þó að færa mig upp á skaftið, þegar á leið vetrar og prófaði þolrifin í karli. Það kom því eðlilega að því að kennararnir sáu í hvað stefndi og gáfust upp á mér. Ég truflaði kennsluna og vakti þeim gremju hvern dag. Loks var ég sendur til Hannibals. Nú var komið toppnóg af vitleysunni.
Hannibal bauð mér setjast en stóð upp sjálfur. Hann var enn með þetta kímna augnaráð þess sem allt veit en var þó spakur og lagði hægan áhersluþunga á orð sín. Hvað er að plaga þig karlinn minn? Af hverju getur þú ekki verið eins og maður? Ég er hissa á þér. Að drengur sem kemur af svona góðu og gáfuðu fólki, skuli láta svona. Ég yppti öxlum og horfði í gaupnir mér. Hann var í raun að segja að ég væri léleg afurð af annars góðu kyni. Hann bauð enga kosti heldur sagði: Ég verð að láta þig fara...sem mér finnst synd og skömm, svona seint á vetri og ekki síst fyrir að þú ert sagður ágætlega greindur. Það er ekki ég sem set þessa kröfu, heldur kennararnir. Þeir bera þér alls ekki vel söguna. Þú getur farið núna, ég hef svo samband við föður þinn, þegar hann kemur í land.
Hjartað í mér herptist saman. Mér þótti skelfilegt að valda föður mínum vonbrigðum. Ég virti hann mikils auk þess sem að ég vissi að hann myndi sennilega refsa mér duglega fyrir. Senda mig á vandræðaheimili, eins og hann hafði einatt í hótunum með ef ég varð vís að afglöpum. Ég fann tárin brjótast fram bak augnanna og reyndi að hemja þau. Ég breyttist þarna í lítið og hrætt barn og heimurinn hrundi yfir mig með braki.
Þú ert sagður skrifa ljóð. sagði Hannibal. Ég var eilítið undrandi og horfði upp til hans og gaf lítið út á það með að velta til höfðinu álkulega. Ég kom ekki upp orði.
Geturðu leyft mér að heyra eins og eitt? sagði hann og ég varð mjög ringlaður. Hvað átti þetta að þýða? Var hann að hæða mig? Ég reyndi að rifja upp eitthvað en það var allt svo dapurt og bölsýnt að ég gat með engu móti séð þetta sem tilefni fyrir slíkt. Það var eins og ég skammaðist mín fyrir þær hugsanir, þegar á hólminn var komið. Ég hristi höfuðið.
Ekkert? spurði Hannibal. Þú hefur sent eitthvað í skólablaðið er það ekki? Geturðu ekki sýnt mér það?
Ég leit í kring um mig. Í hillu var mappa merkt nafni skólablaðsins. Jú það var eitt, sem ég hafði sent inn, sem ekki var óviðeigandi. Ég sagði honum frá því og benti honum á möppuna. Hann sagðist ætla að kíkja á það. Hann hefði gaman að ljóðum. Svo sagði hann mér að ég mætti fara. Áður en ég lokaði á eftir mér sagði hann: Þú klárar daginn og kemur til mín í fyrramálið. Ég vil tala betur við þig.
Morguninn eftir mætti ég til hans. Ég hafði sofið illa um nóttina og séð fyrir mér hryllilega útlegð á upptökuheimili með Oliver Twist og vinum hans. Kvíðahnúturinn var stór og þykkur eins og netasteinn í kviðnum. Hannibal glotti. Ekki bara með augunum. Ég talaði við kennarana og við urðum ásáttir á að leyfa þér að vera til reynslu, en þú verður að fara við minnstu vandræði. Skilurðu það? Ég var ringlaður eins og fangi myndi verða, sem slyppi við aftöku. Ég lofa því.. sagði ég og langaði að spyrja hvers vegna þessi umskipti hefðu orðið á viðhorfi hans. Hann veifaði mér til dyra og sagði að við skyldum ekki hugsa um þetta meir. Hann hefði trú á að ég myndi standa mig. Ég ætlaði líka að rísa undir því trausti. Fann eldinn í brjóstinu. Mér var þó svo létt að mig langaði að leggjast á ganginn og sofna. Ljóðið þitt var gott. Sagði Hannibal kíminn og lokaði.
Var það? Var það út af ljóðinu, sem hann sýndi mér miskun? Var þetta hnoð þá mín Höfuðlausn eins og hjá Agli forðum? Ég botnaði ekki neitt í neinu.
Ég stóð mig það sem eftir lifði vetrar og náði landsprófi þrátt fyrir að 70% fall yrði í árganginum. Líklegast var það truflandi áhrifum mínum á skólasystkinin að kenna. Þau þurftu flest að taka upp prófið en ég, tossinn og uppalningurinn slapp! Líklegast fyrir ómerkilegt ljóð, sem ég gæti helst lýst, sem formóður rappsins. Engin formleg bragfæði, bara einhverskonar bunugangur. Ljóð sem hljómaði einhvernvegin svona:
ÖRVÆNTING.
Ég gleymdi að gera mitt verkefni heima.
Það er alls ekkert gaman að tapa og gleyma.
Ég roðna í framan og hvað skal nú gera?
Mig þrýtur öll ráð.
Því að alls ekki vil ég það krossmarkið bera
Að þola hlátur og háð.
Svo gýt ég til augum á alla og þegi
og hugsa og hugsa....
Það má aldrei kalla mig nautheimskan uxa!
Mig nagandi og nístandi örvænting tekur
og hræðsla svo ægileg, hristir og skekur.
Hún er kannski hlægileg...?
En í sál minni molaðri er ekki friður
og taugarnar hvorki úr stáli né eir.
Ég hníg bara niður...
og man ekki meir.
Þessa Höfuðlausn má vafalaust finna enn í safni gangfræðaskólans á Ísafirði þótt önnur ummerki um mig séu þar ekki sjáanleg. Ég mætti til dæmis ekki í útskriftarmyndatökuna og prýði því ekki veggi skólans. Kveðskapurinn var kannski ekki heldur ástæðan fyrir því að ég slefaði landsprófið. Núll komma einum lægri einkunn og ég hefði þurft að dúsa á skólabekk enn einn veturinn. Ekki var það heldur gáfum mínum og andlegu atgervi að þakka, það tel ég ljóst. Líklegri skýring er sú að kennararnir hafi ekki fyrir nokkurn mun getað hugsað sér að eyða öðrum vetri í samvistum við mig og því séð í gegnum fingur sér við ýmsum villum til að koma mér hratt og örugglega úr augsýn sinni til frambúðar.
Svona var það nú fyrir daga Rítalínsins.....
Bloggar | Breytt 17.2.2019 kl. 18:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Dagar Mínir í Undralandi,
1.8.2007 | 04:27
Það er skrýtið, þegar maður fer að hugsa til bernskudaganna, hvað rifjast upp svona óforvarandis. Maður seilist niður brunn minninganna eftir einhverju tilteknu og með botnfallinu þyrlast upp ýmis atvik, sem maður taldi sig hafa gleymt. Þetta eru stutt brot, ímyndir, ilmur, orð. Ég man óljós brot frumbernskunnar. Litlir fingur að kroppa í bastvögguna, köfnunartilfinning við sængina yfir andlitinu, langir skuggar og raddir í kring. Ég man dúfurnar á bitanum fyrir framan kvistgluggann á bakaríinu, þar sem við bjuggum, kúið og kurrið og vinskap minn við þær. Ilmur af nýbökuðu brauði, sem fyllti loftið.
Ég var frekar búttaður og rólegur sem barn og nægjusamur með afbrigðum. Faðir minn var oftast á sjó og móðir mín vann úti. Það var oft hægt að skilja mig eftir svo tímunum skipti með rúsínur á undirskál og ég undi mér við þær í rólegheitunum á milli þess sem ég talaði við dúfurnar. Já, ég talaði dúfumál. Það var fyrsta málið, sem ég lærði, segir móðir mín. Ég stóð á stól við gluggann og dúfurnar komu til að halda mér félagsskap. Kúúú, kúúú, krúúurú.
Þegar ég fékk að vera úti, þá var ég bundinn við snúrustaur og hafði um mig leðurbeisli með bláum og rauðum glerperlum. Við hvern hring, sem ég gekk um þennan takmarkaða heim, þá minnkaði umfang hans. Það nægði þó litlum stubb að kanna skrítna steina og skeljabrot, slíta upp fífla, moka holur og fylgjast með flugum í önnum dagsins, sem spannaði allt þeirra æviskeið. Heimurinn þeirra var siginn fiskur á staur og strá á stangli.
Það var því ekki að undra þótt ég fengi einskonar víðáttubrjálæði, þegar mér var sleppt lausum. Ég var landkönnuður nýkominn á framandi slóð. Það var rannsóknarefni að stappa í pollum á forugum götunum. Götum sem önguðu af slorvatni, sem rann af fiskflutningabílunum á leið af bryggjunni og upp í frystihús með dána fiska, sem voru alltaf svo furðu lostnir í framan. Stundum fann maður bíla með svo glitrandi fína hjólkoppa að maður tók andköf. Það vakti líka kátínu að sjá heiminn í spéspegli þeirra.
Þetta var tímalaus heimur. Fjöllin stóðu á haus í spegilsléttum firðinum; mávarnir hnituðu gargandi yfir og allar manneskjur sýndu fölskvalausa blíðu og klöppuðu manni á kollinn. Hver á þig vinur?
Svo breyttist allt einn daginn. Ég stóð og fylgdist með glaðlegum mönnum slægja þorska, sem voru á stærð við mig og gogga þeim til og frá í stíum inni í fiskverkunarhúsinu. Stóra rennihurðin var opin út á götu og fyrir mér varð slorugur spotti með hnút á endanum. Hann hékk þarna niður úr loftinu og bauð upp á það eitt að í hann yrði togað. Ég gerði það líka. Miklir skruðningar fylgdu. Mennirnir litu upp frá vinnu sinni og um stund var sem allur heimurinn stæði kyrr. Risastór stálrennihurðin kom öskrandi niður af himnum, svo hratt að lítill hugur nam það ekki. Hún skall á lærið á mér og kubbaði í sundur fótinn. Eitt skref til eða frá í aðdraganda þessa, skildi milli feigs og ófeigs.
Ég man óljóst eins og í draumi handaganginn og suðið fyrir eyrunum, spurningar, klapp á vanga, fiskilykt. Svo var ég borinn inn í bíl, sem var einn töffasti bíllinn í bænum, Simcan hans Bóa, hvít með rauðum toppi og glitrandi krómlistum. Rauð leðursæti, glitrandi handföng og snerlar. Ég sagði ekki orð. Æmti ekki einu sinni. Fann ekki til. Það var ekki fyrr en inni á spítala, þar sem buxurnar mínar voru klipptar í sundur og ég settur inn í ógnvekjandi rjómagula vél, sem kurraði og burraði, að ég kom til sjálfs míns. Fyrst þessi óforskammaða eyðileggingarnáttúra að skemma buxurnar mínar og svo mamma. Hún kom grátandi og skekin í dyrnar á röntgenherberginu og þá komu tárin mín líka.
Ég var í tvo mánuði á spítalanum. Mest af tímanum með fótinn í strekk og beint upp í loftið eins og í skrípamyndunum. Ég greri vitlaust saman og Úlfur Gunnarsson læknir, sonur Gunnars Gunnarsonar skálds, skar mig upp og setti nagla og plötur í fótinn til að laga hann. Ég man eftir svæfingunni. Málmgrind með grisju, risastórt ljós, lykt af klórformi, sem minnti málm eða blóð eða bragð af brenni. Skurðurinn var langur og ljótur með mörgum litlum þverröndum og við kölluðum hann rennilásinn í daglegu tali.
Ég get ekki kvartað yfir spítalavistinni því ég var allra yndi. Stína gamla, sem spjallaði við mig alla daga og leiddi mig svo, þegar ég lærði að ganga upp a nýtt. Gamla fólkið, sem fékk útrás fyrir ást sína, sem var orðin staðin eftir einveru margra ára. Það er nefnilega þannig að ef ástin fær ekki að flæða í gegn, þá staðnar hún og breytist í söknuð, sorg og biturð. Þess vegna þarf maður alltaf að leyfa henni að renna til annarra og endurnýja sig. Hún er lífsvatnið, sem þarf sína hringrás til að haldast ferskt. Ég man eftir messu á ganginum með ósamhæfðum söng; heimsóknum mömmu með malt í flösku og brottfarardeginum. Ég var ekkert á því að fara þó svo að mér væri færð ný ullarúlpa með stórum tölum. Ég sagði mömmu að koma seinna. Ég kæmi kannski bráðum heim.
Ég var mjög rýr eftir leguna og þurfti að læra að ganga upp á nýtt. Ég studdist við veggi, ofna og borð og tinaði eins og gamalmenni.
Einn daginn var bankað á eldhúsdyrnar og þar var kominn hann Konni gamli í Konnavita. Konnaviti var lítil krambúð eða skúr, þar sem pabbi og kallarnir hittust í brælum og spjölluðu, reyktu, sjússuðu sig og keyptu nauðsynjar eins og tóbak og vettlinga. Þarna voru glerkrukkur með marglitum brjóstsykri, bismark, haltu kjafti, kónga og pralín. Ég starði á þetta draumstolnum augum og mín hljóða bæn var alltaf heyrð af Konna, sem seildist með silfurtöng ofan í þessar krukkur og gaf mér nokkra mola í kramarhúsi. Ég var einn af mönnunum og spáði og spekúleraði í lífinu með brjóstsykursgúl á kinn.
Nú var Konni enn kominn til að veita vini sínum af gæsku sinni . Hann hafði sagað neðan af gamla göngustafnum sínum og færði mér hann, svo ég gæti sleppt veggjum og gengið um eins og maður með fulla sjálfsvirðingu. Ég var svona eins og lítið gamalmenni með staf, sem ég staulaðist með, þar til ég hafði náð styrk á ný.
Konni gamli brann inni skömmu síðar. Hann var einbúi og hafði verið að drekka. Ég hafði farið til hans með pabba og séð hann liggja veikan í rúminu með haug af bókum í kring og glóandi rafmagnsofn. Þessi ofn varð honum víst að aldurtila.
Þetta voru breytingatímar. Fallvaltleiki lífsins síaðist smátt og smátt inn og hin örugga, góðlega og tímalausa veröld hvarf sjónum í tímans rás.
Þetta haust breyttist heimurinn líka. Fólkið, sem hafði tekið á ný gleði sína eftir hörmungar stríðáranna og notið veraldlegs vaxtar í kjölfar friðarins, var líka minnt á fallvaltleikann. Einn daginn, þegar ég var um það bil að sleppa stafnum, kom vinur pabba í eldhúsgættina og var í framan eins og sært barn. Hann sagði hræðilegar fréttir: Þeir voru að drepa hann Kennedy.
Hver þessi Kennedy var vissi ég ekki en það var augljóst af öllu að hér var maður sem stóð fólki nær. Það ríkti andrúmsloft vantrúar, vonbrigða og sorgar og augljóst að heimurinn yrði ekki samur á ný. Ill og óútreiknanleg öfl voru á kreiki og hér eftir skyldi engin ganga út frá friði sem gefnum hlut. Sú hefur líka orðið raunin á. Dagar mínir í undralandi, heyrðu sögunni til.